Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-84
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Ógjaldfærni
- Endurgreiðslukrafa
- Kaupsamningur
- Skipting félags
- Kyrrsetning
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.
Með beiðni 11. mars 2020 leitar þrotabú EK1923 ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. sama mánaðar í máli nr. 35/2019: Sjöstjarnan ehf. gegn þrotabúi EK1923 ehf. og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sjöstjarnan ehf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur í fyrsta lagi að þríþættri kröfu leyfisbeiðanda vegna ráðstöfunar tilgreindrar fasteignar sem var í eigu EK1923 ehf. til gagnaðila með kaupsamningi 29. desember 2013. Krefst leyfisbeiðandi aðallega riftunar samningsins á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara riftunar á þeirri ráðstöfun á eigninni til gagnaðila sem gerð var með skiptingaráætlun sömu aðila 30. mars 2014 og samþykkt á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september sama ár. Til þrautavara krefst leyfisbeiðandi þess að kaupsamningurinn verði efndur samkvæmt efni sínu og gagnaðila gert að greiða sér 222.870.393 krónur.
Í öðru lagi lýtur málið að kröfu leyfisbeiðanda um riftun á greiðslu skuldar til gagnaðila að fjárhæð 21.316.582 krónur 15. mars 2016 og endurgreiðslu hennar, aðallega á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 141. gr. laganna.
Í þriðja lagi krefst leyfisbeiðandi þess að staðfest verði kyrrsetning sem fór fram 19. júlí 2017 í fjórum tilgreindum fasteignum í eigu gagnaðila og fyrirsvarsmanns hans.
Með dómi héraðsdóms var aðal- og varakröfu leyfisbeiðanda hafnað en fallist á fyrrgreinda þrautavarakröfu hans, kröfu um riftun og endurgreiðslu umræddrar greiðslu 15. mars 2016 svo og staðfestingu kyrrsetningar í umræddum fasteignum.
Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um kröfu um riftun greiðslu 15. mars 2016 og endurgreiðslu hennar sem og kyrrsetningu tveggja fasteigna en kröfum leyfisbeiðanda að öðru leyti hafnað. Um aðalkröfuna vísaði Landsréttur til þess að ekki lægi fyrir sönnun um að EK1923 ehf. hefði verið ógjaldfært þegar fasteigninni var ráðstafað til gagnaðila á grundvelli kaupsamningsins eða að félagið hefði orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar. Talið var að skilyrðum fyrir riftun skiptingaráætlunarinnar væri ekki heldur fullnægt þar sem ætluð gjöf hefði verið afhent utan tímamarka ákvæðis síðari málsliðar 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem leggja yrði til grundvallar að félagið hefði þá verið gjaldfært. Þá hefði leyfisbeiðandi ekki fært sönnur á að félagið hefði verið ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 þegar skiptingaráætlunin var samþykkt eða orðið það vegna þeirrar ráðstöfunar sem í henni fólst. Var því ekki fallist á varakröfu leyfisbeiðanda. Að því er þrautavarakröfu varðaði vísaði rétturinn til þess að eins og málið væri lagt upp af hálfu leyfisbeiðanda yrði ekki komist hjá því að leggja til grundvallar að umrædd skipting félagsins hefði farið fram lögum samkvæmt. Þá lægi ekki annað fyrir en að gagnaðili hefði efnt skuldbindingar sínar samkvæmt kaupsamningnum að teknu tilliti til þeirra breytinga sem skiptingaráætlunin hefði falið í sér, meðal annars um hvernig skyldi staðið að framsali fasteignarinnar og greiðslu fyrir hana. Ráða mætti af leigusamningi milli sömu aðila og afsali vegna fasteignarinnar 3. september 2015 að við framsal hennar hefði verið farið eftir skiptingaráætluninni en jafnframt byggt á skuldbindingargildi kaupsamningsins. Loks hafnaði rétturinn staðfestingu kyrrsetningar tveggja tilgreindra fasteigna með vísan til þess að þær hefðu verið í eigu fyrirsvarsmanns gagnaðila og kröfum hefði ekki verið beint að honum sem gerðarþola.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í því reyni á samspil kaupsamnings um fasteign og skiptingaráætlunar um sömu fasteign milli sömu aðila. Telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar feli í sér að endurtekin ráðstöfun fasteignar sé heimil með skiptingaráætlun og unnt sé að breyta kaupverði og skilmálum við yfirfærslu eignarréttar að fasteignum án þess að það komi fram í þinglýsingarbókum og að gætt sé réttar þinglýsts forkaupsréttarhafa. Sé því um að ræða niðurstöðu sem raski réttarstöðu grandlausra kröfuhafa og forkaupsréttarhafa, auk þess sem hún breyti réttarstöðu þeirra aðila sem láni gerðarþolum tryggingu vegna kyrrsetningar, löggeymslu eða fjárnáms. Niðurstaðan sé því jafnframt bersýnilega röng. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem niðurstaða réttarins um að sýkna gagnaðila af þrautavarakröfu leyfisbeiðanda hafi verið byggð á málsástæðu sem ekki hafi verið haldið fram af hálfu gagnaðila og varði það ómerkingu dómsins. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni kröfuhafa leyfisbeiðanda.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í málinu myndi hafa verulegt almennt gildi að því er varðar þær kröfur leyfisbeiðanda sem lúta að ráðstöfun umræddrar fasteignar til gagnaðila og um skilyrði og framkvæmd kyrrsetningar. Er beiðnin því tekin til greina.