Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Gagn
  • Sönnunarfærsla
  • Rannsókn
  • Vitni


Fimmtudaginn 31. mars 2011.

Nr. 451/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Líkamsárás. Gögn. Sönnunarfærsla. Rannsókn. Vitni.

X var ákærður fyrir líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ráðist á A með höggum og spörkum, slegið hann með hnúajárni nokkrum sinnum í andlit og í nokkur skipti sparkað í höfuð hans þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að hann hlaut meðal annars nefbrot, tannbrot, mar, bólgur og skurði á höfði og beinbrot á fingri. X neitaði sök og A neitaði að bera vitni um málsatvik við meðferð málsins í héraði. Í héraði var X sakfelldur á grundvelli skýrslu A hjá lögreglu, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur vísaði til ófullnægjandi rannsóknar og meðferðar málsins í héraði og taldi að ákæruvaldið hefði ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir dómi fyrir sekt ákærða og var hann því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Halldór Björnsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd. 

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi og er fallist á þá niðurstöðu hans að sannað sé að A hafi orðið fyrir líkamsárás á heimili sínu 29. janúar 2009. Hann gaf skýrslu hjá lögreglu og sagði ákærða árásarmann. Um þetta hafa ekki aðrir gefið skýrslu. Rannsókn lögreglu á vettvangi gaf ekki vísbendingar um hver árásarmaðurinn væri. Ákærði hefur frá upphafi neitað sök.

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi neitaði vitnið A að bera um málsatvik. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að vitnið hafi að vísu enga skýringu gefið á þessum umskiptum sínum, en ekkert annað geti komið til greina en vitnið hafi óttast það sem gæti hlotist af því að standa við fyrri skýrslugjöf. Ákærði var sakfelldur með hinum áfrýjaða dómi sem meðal annars var reistur á skýrslu vitnisins hjá lögreglu og var um heimild til þess vísað til 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Rannsókn lögreglu var áfátt í ýmsum atriðum. Ber þar helst að nefna að hún yfirgaf vettvang og kveðst hafa skilið hann eftir óvarinn allt þar til sá lögreglumaður er annast átti vettvangsrannsókn kom þangað nokkrum klukkustundum síðar. Ekki eru upplýsingar um hvort einhver hafi farið inn í læst húsið á þessum tíma. Af myndum sem teknar voru á vettvangi sjást augljóslega nokkur skóför í blóði á gólfi. Engin rannsókn fór fram á þessum skóförum eins og skylt var, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði var handtekinn 3. febrúar 2009 og færður í fangageymslu lögreglunnar. Eins og rakið er í héraðsdómi hafði ákærði farsíma með sér í fangaklefann og hringdi þar nokkrum sinnum úr honum, meðal annars í vitni sem hann taldi geta tryggt fjarvistarsönnun sína. Daginn eftir var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald þar sem hann var talinn vera undir rökstuddum grun um líkamsárás og ætla mætti að hann myndi torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á þann mann sem með honum hafi verið á heimili A umrætt sinn. Þá er ósamræmi í gögnum um rannsókn fingrafara á glösum sem hald var lagt á.

Af gögnum málsins verður ekki séð að vitnið A hafi gefið skýringar á því hvers vegna það neitaði gefa skýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir vitnaskyldu sína, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Við meðferð málsins var þess hvorki freistað að óska eftir að ákærði viki úr þinghaldi meðan vitnið gæfi skýrslu svo sem heimilt er samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laganna, né farið fram á að vitninu yrði gerð sekt vegna brota á vitnaskyldu sinni, sbr. 2. mgr. 121. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar eru síðan gerðar undantekningar frá þessari meginreglu þegar sérstaklega stendur á. Í síðastnefndu ákvæði, sem héraðsdómur vísar til, kemur fram að hafi vitni ekki komið fyrir dóm og þess sé ekki kostur við meðferð máls, en skýrsla hafi verið gefin hjá lögreglu meðan málið var til rannsóknar, meti dómari hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og hvert það skuli vera. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að ákvæðið eigi hér við og er þá haft í huga að verjanda gafst ekki kostur á að spyrja vitnið um þýðingarmikil atriði í vörn ákærða.

Ákæruvaldið verður að bera hallan af ófullnægjandi rannsókn og meðferð málsins í héraði. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki talið að ákæruvaldið hafi fært fram fullnægjandi sönnun fyrir dómi fyrir sekt ákærða og ber því að sýkna hann af kröfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest þannig að kostnaðurinn verður felldur á ríkissjóð. Áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.

Málskostnaður samkvæmt hinum áfrýjaða dómi greiðist úr ríkissjóði.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2010.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. apríl 2010 á hendur ákærða, X, kt. [...], [...], [...], „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 29. janúar 2009, að [...], [...], ráðist á A með höggum og spörkum, slegið hann með hnúajárni nokkrum sinnum í andlit og í nokkur skipti sparkað í höfuð þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á nefbeini, sprungu í augntóft, mar og bólgur í andliti, hvirfli og hnakka, 2 skurði við hægri augabrún sem sauma þurfti með 7 sporum, sár í vinstra eyra sem saumað var með þremur sporum, 3 sm sár neðan við vinstra munnvik sem var saumað með 2 sporum, sogblæðingu undir slímhúð á hægra auga[…], kjúka hægri baugfingurs brotnaði, tvær framtennur í efra gómi brotnuðu og jaxl í neðra gómi brotnaði.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls skarkostnaðar.“

Málavextir

Fimmtudaginn 29. janúar 2009, kl. 13.56, var tilkynnt um það til lögreglu að ráðist hefði verið á mann í [...] í [...], en það er í stóru einbýlishúsi.  Þegar þangað kom hittu lögreglumenn fyrir A, f. [...], sem þar bjó í foreldrahúsum.  Samkvæmt staðfestri skýrslu Guðmundar Helga Sævarssonar lögreglumanns var hann sýnilega meiddur í andliti, með brotnar framtennur, bólginn um andlitið og áverkar víða um höfuðið.  Sagði hann tvo menn hafa knúið dyra og þeir ruðst inn þegar hann hafði opnað fyrir þeim.  Hefði annar þeirra, sem hann þekkti deili á og er ákærði í málinu, barið hann „á fullu“ með hnúajárni og barsmíðarnar borist inn úr anddyrinu, inn í eldhús og þaðan inn í stofu þar sem hann hefði fallið í gólfið.  Þar hefði verið sparkað í hann þar sem hann lá á gólfinu.  Hann sagði ákærða hafa verið ölvaðan og „dópaðan“ og hefði hann komið til þess að innheimta fíkniefnaskuld.  Hinn maðurinn hefði verið um tvítugt, fremur grannvaxinn og með ljósar strípur í hárinu.  Hefði sá ekki haft sig í frammi.  Mennirnir hefðu svo farið á brott í silfurlituðum [...]-jeppa með skráningarmerkinu [...].

Talsvert blóð var að sjá í húsinu, aðallega í stofunni.  Á ljósmyndum sem fylgja málinu sést stórt blóðkám á allstóru svæði á miðju gólfi og í því nokkur greinileg fótspor.  Þá eru blóðdropar víða um gólf og veggi. 

Leitað var fingrafara á glösum sem A sagði ákærða hafa snert en ekki bar sú leit árangur.  Þá er komið fram í málinu að ekki var leitað fingrafara á öðru en glösum þessum og ekki var reynt að athuga nánar skóförin í blóðinu.

A var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.  Í vottorði Einars Hjaltasonar sérfræðilæknis þar segir að A hafi sagt frá því þegar hann kom þangað að kunningi hans hefði ruðst inn til hans ásamt öðrum manni til og barið hann með hnúajárni og reynt svo að sparka í höfuð honum þar sem hann lá.  Við skoðun hafi komið í ljós að tvær framtennur í efri gómi hafi verið brotnar og einnig jaxl í neðri gómi.  Þá hafi verið mar yfir öllu andlitinu og mikil bólga á vinstri kjálka.  Þá hafi verið mikil bólga yfir vinstri kinnbeinsboga, á enni vinstra megin, á hvirfli og á hnakka.  Sár hafi verið við efri vör vinstra megin og neðan við hægri augabrún, á vinstra eyra, fyrir neðan vinstra munnvik og aftan við hægra eyra.  Þá hafi verið mikið mar og bólga á hægri baugfingri.  Komið hafi í ljós á röntgenmyndum fíngerð sprunga í kinnbeinsboga, án hliðrunar, örfín sprunga í augntótt, brot úr nefbeini neðanvert og til hliðar og loks sást þverbrot á nærkjúku baugfingursins. 

Í málinu eru ljósmyndir af áverkum A sem teknar voru á slysadeildinni.

Lögregla lagði hald á bíl ákærða, silfurgráan jeppa af gerðinni „[...]“ með númersplötuna [...].  Var leitað í honum, m.a. að blóði.  Blóð sást ekki í honum með berum augum en ekki fór fram tæknileit að blóðleifum og annað fannst ekki í honum sem máli skiptir hér.

Meðal gagna í málinu eru símagögn sem bera með sér að farsími ákærða var á ferð um [...] þann dag sem atburðurinn er talinn hafa orðið.  Af þessum gögnum sést að frá klukkan 11:00:08 þennan morgun til kl. 12:39:29 var síminn staddur í [...].  Næst er vitað um staðsetningu símans þennan dag í [...] kl. 15:05:31.  Síminn er svo á ferð vítt og breitt um [...] þennan dag og síðast einnig í [...] kl. 22:46:20.

Í málinu er skýrsla, dagsett 2. febrúar 2009, sem Gísli Þorsteinsson lögreglufulltrúi hefur staðfest fyrir dómi að A hafi gefið fyrir honum í sjálfstæðri frásögn á lögreglustöðinni við Hverfisgötu frá kl. 11:41 til kl. 12:36.  Undir þessa skýrslu skrifa vitnið og lögreglufulltrúinn en hún er ekki vottuð.  Hljóðar hún svo:

„A er mættur á skrifstofu rannsóknardeildar LRH til að leggja fram kæru vegna húsbrots og líkamsárásar, sem mun hafa átt sér stað að [...], [...], fimmtudaginn 29. janúar s1. um kl. 13:45.  Lögregla var kölluð á vettvang og liggur lögregluskýrsla fyrir um málsatvik og vettvangsrannsókn.

A er kynnt að honum sé skylt, að viðlagðri refsiábyrgð, að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Þá er kynnt að hann eigi þess kost að óska eftir tilnefningu réttargæslumanns vegna málsins og að sækja um bætur úr ríkissjóði vegna tjóns sem hlotist hefur af refsiverðri háttsemi. A kveðst ætla að óska eftir aðstoð lögmanns, en hefur ekki tekið ákvörðun um hver það verður.

A kveðst starfa hjá fyrirtækinu B, sem er fyrirtæki föður hans, C.  Segist A hafa skroppið heim í hádeginu, fimmtudaginn 29. janúar sl. til að sækja tölvugögn fyrir fyrirtækið og skildi hann bílinn eftir í gangi í innkeyrslunni.  Telur A að það hafi tekið hann u.þ.b. 5 mínútur að sækja gögnin og þar sem hann var staddur í anddyrinu að klæða sig í skóna, þá var bankað á útihurðina.  Um leið og A opnaði þá ruddust tveir menn inn og þekkti A strax annan þeirra sem X, en hinn manninn þekkti A ekki, en sá var um tvítugt með ljósar strípur í hári, um 185 cm á hæð, grannur vexti.

A segir að atburðarásin hafi verið mjög hröð, en X gekk strax að honum og kýldi hann eitt högg í andlitið með hnúajárni, sem hann var með á hnúa hægri handar. Segist A hafa vankast við höggið, en áttaði sig strax á því að X var kominn þeirra erinda að rukka gamla fíkniefnaskuld (rúmlega 100.000,-)  Þessi skuld er mjög gömul, en A segist ekki vera í neyslu í dag. X reyndi að rukka þessa skuld seinast í október, en þá kom hann í heimsókn á vinnustað A og sló hann eitt hnefahögg í andlitið. A segist ekki hafa meiðst mikið, en fór engu að síður á slysadeild til skoðunar. Hann kærði ekki þessa árás til lögreglu.

A segir að X hafi haldið áfram að kýla sig í andlitið, en hann áttar sig ekki á því hvað höggin voru mörg.  Hann segist hafa borið fyrir sig hendurnar, en við það brotnaði baugfingur hægri handar. Síðan féll hann í gólfið og þar sem hann lá þá sparkaði X í höfuð hans nokkrum sinnum, en þegar þarna var komið sögu þá segist A hafa verið orðinn talsvert vankaður og farinn að óttast um líf sitt.  Reyndi hann eftir megni að verjast höggum og spörkum og bað sér griða allan tímann meðan á árásinni stóð, en án árangurs.

A getur þess að hann hafi heyrt manninn, sem var í för með X, kalla á hann og segja að það væri komið nóg og sagt honum að hætta.  A segir að þessi maður hafi ekkert haft sig í frammi.  A áttar sig ekki á því hversu langan tíma árásin tók, en áður en X fór þá hótaði hann því að drepa hann og sagði eitthvað á þá leið að kostaði bara 100.000 að fá Litháa til þess að vinna það verk.  A segist hafa fundið áfengislykt af X og mat það þannig að hann hafi verið bæði dópaður og fullur.

A kvaðst hafa náð að sjá skrásetningarnúmer bifreiðarinnar sem X kom í, um leið og henni var ekið í burtu. Hann sá ekki hvor þeirra það var sem ók. A hringdi eftir lögregluaðstoð strax eftir árásina og kom lögregla fljótt á vettvang.  Var hann síðan fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Við læknisskoðun kom m.a. í ljós að A er nefbrotinn og kinnbeinsbrotinn og þá er sprunga í höfuðkúpu, aftan við hægra auga. Þá er baugfingur hægri handar brotinn eins og fyrr er getið, og ennfremur brotnuðu fjórar tennur, en bráðabirgðaviðgerð hefur farið fram á þeim hjá D tannlækni. A hefur verið frá vinnu frá því að árásin átti sér stað.

A krefst þess að X verði refsað eins og lög segja til um.  Þá áskilur hann sér rétt til þess að leggja fram bótakröfu á síðari stigum málsins. A skrifar undir beiðni um áverkavottorð og fær afhent upplýsingablað lögreglu um gerð bótakröfu.“

Í málinu eru ljósmyndir sem teknar voru í tæknideild lögreglunnar af A á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eftir að hann gaf skýrslu þessa.

Ákærði var handtekinn kl. 9.30 að morgni þriðjudagsins 3. febrúar 2009 og færður í fangageymslu klukkan 10:41, eftir því sem segir í skýrslu um handtökuna. Hann var svo yfirheyrður um sakarefnið, að viðstöddum verjanda, eftir hádegið þennan dag og stóð yfirheyrslan frá kl. 13:36 til kl. 13:54.  Var yfirheyrslan tekin upp og fylgir mynddiskur með henni gögnum málsins.  Neitaði ákærði að vita nokkuð um málið og sagðist hafa örugga fjarvistarsönnun á þeim tíma sem um ræðir.  Kvaðst hann hafa farið með bílamálaranum sínum um tíuleytið þennan morgun m.a. til þess að líta á mótorhjól sem þeir ættu saman.  Hafi hjólið verið í bílskúr í [...] og þeir verið að setja saman hjólið til klukkan um tvö þennan dag að því undanskildu að þeir hefðu skroppið út í sjoppu að fá sér bita í hádeginu.  Þangað hefðu þeir farið á bíl málarans.  Málarinn hefði svo ekið ákærða heim um tvö til hálfþrjúleytið þar sem hann lagði sig, enda verið slappur þennan dag.  Þá sagði hann bíl sinn hafa verið fyrir utan bílaverkstæði uppi á [...].  Hefði bíllykillinn verið í ræsinum og síminn hans í bílnum.  Hefði hann enda haft af þessu miklar áhyggjur.   Maðurinn sem um ræðir heiti E.  Honum var kynnt kæra A og sagðist hann ekkert hafa um hana að segja.  Mætti kærandinn segja það sem honum sýndist.  Kvaðst hann aldrei hafa komið í [...] heim til A og spurði hvort sá maður leigði íbúð í því húsi.  Þá sagði hann að á verkstæði ákærða, [...] í [...], hefði verið gert við bíl fyrir A sem hann hefði ekki greitt fyrir.  Hefði hann þá skrifað þetta á vin A, sem vann á verkstæðinu, sem verk sem hann hefði tekið að sér að vinna.  Kvaðst hann ekki hafa „stressað“ sig neitt yfir þessu.  Hefðu þeir vinirnir verið í einhverju rugli saman og hefði hann tekið eftir að A átti það til að koma með eitthvað í vinnuna til hans.  Vissi hann ekki af hverju þeir væru að reyna að koma á hann höggi með svona bulli sem ætti sér enga stoð.  Þessi starfsmaður, F að nafni, og A hefðu verið í einhvers konar bralli en hann vildi þó ekki selja það dýrara en hann keypti en nokkuð var að A, sem ákærði kallaði „djúníor“, saug nokkuð upp í nefið þegar hann kom þarna á verkstæðið.  Kvaðst ákærði þekkja A í gegnum F.  Ef til vill hefði A verið reiður ákærða vegna þess að hann fann að því að hann skyldi venja komur sína á verkstæðið til F.  Hann sagði skuld A vegna bílsins vera á bilinu 150 – 200.000 krónur.  Hann kvaðst hafa hugsað sér að innheimta þessa skuld hjá föður A.  Hann kvaðst ekki kannast við neinn sem svaraði til lýsingar A á manni þeim sem hefði átt að vera með honum í aðförinni í [...], en tók þó fram að hann væri orðinn bæði gamall og kalkaður.  Ákærði var spurður hvaða sjoppu þeir E hefðu farið í að fá sér að borða.  Eftir stutta umhugsun sagðist hann minnast þess að þeir hefðu ætlað að fara í sjoppuna en þegar til kom hafi E ekki haft lyst á slíku fæði og þeir þá ekið niður í bæ á bíl E og farið á „[...“ og fengið sér pylsu, en þetta hafi verið um tólfleytið.       

Ákærði gaf aðra skýrslu hjá lögreglu 10. febrúar 2009 og þá einnig að viðstöddum verjanda.  Þá sagðist hann hugsanlega hafa komið í [...] með A og verið að skutla honum heim.  Gæti hann jafnvel hafa farið þar inn með honum en þar myndu foreldrar hans einnig eiga heima.

Fram er komið í málinu að ekki var leitað á ákærða áður en hann var settur í fangaklefa og hafði hann farsímann með sér í klefann og notaði hann þar talsvert.  Meðal annars hringdi hann og talaði þrisvar sinnum við E þennan morgun áður en hann var yfirheyrður hjá lögreglunni og þrisvar sinnum eftir að hann hafði gefið skýrslu hjá lögreglunni en áður en E gaf skýrslu sína, sbr. hér á eftir.

Klukkan 14:45 var tekin skýrsla af E eftir að hann hafði verið boðaður á lögreglustöðina til vitnisburðar.  Sagði hann í fyrstu ekki vita neitt um málið.  Ákærði hefði komið að finna sig í vinnuna rétt fyrir hádegið 29. janúar.  Hefðu þeir farið saman í bílskúr sem hann væri með á leigu, að hann minnti í [...] í [...].  Þar væri mótorhjól sem þeir ættu saman.  Milli klukkan 12 og 13 kvaðst hann hafa farið niður í [...] og fengið sér pylsu á „[...]“.  Eftir það hefði hann farið aftur upp í skúr og hefðu þeir ákærði verið saman allan tíman þar til hann ók ákærða heim þegar klukkan var að verða þrjú.  Þaðan hefði hann farið á vinnustað sinn þar sem bíll ákærða hafði verið skilinn eftir.  Kvaðst hann hafa tekið lykilinn úr ræsinum og skotið þeim heim til ákærða.  Sagði hann ákærða hafa verið annað hvort þunnan eða undir áhrifum áfengis þennan dag.

E var þegar hér var komið sögu brýndur aftur á vitnaskyldunni.  Er þá þetta ritað eftir honum:  „Ég kom ekki nálægt þessu.  Ég bakka með fyrri framburð minn og biðst afsökunar á því að hafa greint rangt frá.“  Sagðist hann ekki hafa hitt ákærða 29. febrúar.  Sagði hann ákærða hafa hringt og beðið um að hann gæfi sér fjarvistarsönnun þennan dag, enda mætti hann búast við því að lögreglan myndi hafa samband.  Ákærði hefði sagt hvað hann skyldi segja lögreglunni en hefði ekki sagt hvers vegna hann þyrfti þessa fjarvistarsönnun.  Hafi þetta verið einum eða tveimur dögum áður.  Síðast hefði ákærði þennan morgun og ítrekað að hann skyldi bera svona hjá lögreglunni.  E sagði að honum þætti miður að hafa borið rangt í málinu og baðst afsökunar á því.

Framburður E var borinn undir ákærða í skýrslutöku 10. febrúar.  Hélt hann þá við frásögn sína.  Hann sagðist auk þess vilja leiðrétta skýrslu sína um það atriði hvort hann hefði komið í [...].  Vildi hann taka fram að hann hefði hugsanlega skotið A þangað einhvern tíma og jafnvel komið þar inn, en foreldrar hans muni eiga þar heima.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

Ákærði kveðst þekkja A mjög lítið og þá í gegnum strák sem hann kveður hafa unnið hjá sér um tíma.  Þá hafi hann haft kynni af honum vegna bíla, enda kveðst hann vera með bílaverkstæði og faðir A sé einnig með bílaverkstæði.  Segist hann hafa kannast við A um margra ára skeið.   Kvaðst hann aðspurður ekki vita hvar hann ætti heima og hefði aldrei komið þangað.  Hann segist ekki eiga neitt sökótt við A nema það að hann skuldi sér smáræði fyrir bílaviðgerð.  Hafi þeir F tekið inn bíl sem hann hafði nýlega keypt og lagað hann.  Hann hafi ekki fengið það verk borgað.  Hann segist hafa hringt nokkrum sinnum í hann út af skuldinni og minnt á hana og látið þess getið að hann hefði auk vinnunnar lagt út fyrir varahlutum í bílinn.  Þennan umrædda dag segist ákærði aðspurður ekki hafa komið í [...].  Hann er spurður hvort hann viti hvers vegna A beri þetta á hann og segir að fyrir þennan dag hefði hann náttúrulega verið búinn að hringja eitthvað í A og verið orðinn frekar pirraður út af þessari skuld.  Þannig hafi A „kannski ímyndað sér að þetta væri“ hann.  Hann tekur fram að það myndi aldrei hvarfla að honum að gera þetta sem hann er sakaður um, enda haldi hann að skuldin hafi verið 50 eða 70.000 krónur.  Ákærði kannast við að hafa verið með bílinn [...] á þessum tíma.  Um skýrslu E hjá lögreglu segir ákærði að E hafi í upphafi sagt rétt frá í þeirri skýrslu en tekur þó fram að hann hafi aldrei farið með E á „[...]“.  Um það að E hafi breytt frásögn sinni segir ákærði að E verði að útskýra það sjálfur.  Hann tekur fram í því sambandi að lögreglan hafi „ýmsar leiðir til þess að láta fólk segja eitthvað sem er ekki satt“. 

Ákærði er spurður út í símagögnin í málinu.  Segist hann geta útskýrt það sem komi fram þar með því að hann þvælist mikið vegna bílaverkstæðisins sem hann reki.  Í [...] í [...] sé t.d. partasala sem hann þurfi mjög oft að fara í til þess að kaupa varahluti og þá getur hann þess að [...] reki þarna bílastæði.  Þangað þurfi hann mjög oft að fara að aðstoða hann og þiggja ráð.  Hvort hann fór þangað þennan tiltekna dag muni hann hins vegar ekki.  Hann minnir á það sem hann hafi áður sagt að hann hafi komið með bílinn á vinnustað E í hádeginu og þaðan hafi þeir farið í bílskúrinn að laga mótorhjólið.  Hafi hann þannig verið á bílnum fyrir hádegið.  Honum er bent á það að gögnin beri það með sér að síminn hans hafi verið notaður í [...] klukkan um 11, kl. 12:36, kl. 12:39.  Þá sé hlé á notkun hans.  Hann segir vel geta verið að hann hafi verið í [...] á þessum tíma en segist ekki muna nákvæmlega hvenær í hádeginu hann hafi komið á [...] að finna E.  Hugsanlega hafi það verið 5 til 10  mínútum fyrir kl. 13.  Kannski hafi klukkan þá verið um 13 en hann muni þetta ekki.  Þaðan hafi þeir farið í bílskúrinn uppi í [...] og hann skilið bílinn eftir á [...].  Hann segir þá E oft eiga samskipti og séu þeir ágætis félagar.   

Athygli ákærða er vakin á því að samkvæmt símagögnunum hafi hann verið í símasambandi við E daginn sem hann var handtekinn.  Hann segir það geta verið rétt enda hringi hann í E oft á dag.  Hann segist hafa verið með símann sinn í fangaklefanum enda hafi ekki verið leitað á honum áður.  Hann segist einmitt muna það að hann hafi hringt í E þegar þessar sakir höfðu verið bornar á hann.  Hann hafi þá munað eftir því að hafa verið með E þennan dag og því hringt í E og beðið hann að drífa sig niður á lögreglustöð til þess að segja lögreglumönnunum þetta.  Sé enda ekki þægilegt að vera læstur inni í fangaklefa. 

Ákærði kveðst vera í sambúð með konu og hafa gengið dóttur hennar í föður stað þegar sambúðin hófst fyrir 12 árum.  Hann segist auk þess eiga tvö börn með konunni.  Hann reki [...] í [...] ásamt föður sínum.  Hann segist hafa lent í smávegis óreglu en hafa tekið sig á í því efni og nú verið „edrú“ í 8 mánuði.  Hann sæki reglulega AA-fundi og sé nú komin regla á allt hans líf.  Þegar atburðir málsins urðu segir hann að hann hafi verið í áfengisóreglu.  Hafi hann fengið sér bjór eftir að hann kom heim frá vinnu og drukkið til klukkan 1 – 2 á nóttu.  Aftur á móti hafi hann ekki neytt fíkniefna að neinu ráði á þessum tíma.

Ákærði neitar því að hafa haft samband við brotaþola út af máli þessu. 

A hefur komið fyrir dóm en hann hefur neitað að gefa skýrslu.  Ákæruvaldið hefur lýst því yfir að unað sé við það og að ekki verði krafist þess að vitnið verði knúið til skýrslugjafar, sbr. 2. mgr. 121. gr. laga um meðferð sakamála.

Guðmundur Helgi Sævarsson lögreglumaður hefur staðfest skýrslu sína í málinu.  Hann hefur skýrt frá því að þeir Sverrir Páll Sverrisson lögreglumaður hafi verið staddir í bíl fyrir neðan [...] á leið niður í bæ þegar útkallið kom, þ.e. kl. 13:56.  Hann giskar á að þeir hafi komið á vettvang í [...] um 10 mínútum síðar.  Þar hafi þeir hitt ungan mann, sem hafi verið illa leikinn og sagst vera sonur hjónanna sem þarna áttu heima ásamt honum.  Hafi hann sagt þeim hver hefði leikið hann svo og hann þekkti hann með nafni.  Hafi hann sagt tvo menn hafa komið heim til hans og annar þeirra haft sig meira í frammi en hinn.   Vitnið segir þá í framhaldi af þessu hafa lýst eftir árásarmanninum hjá öllum stöðvum og deildum lögreglunnar.  Hafi þeir hringt á sjúkrabíl sem hafi komið fljótlega og flutt manninn á brott.

Sverrir Páll Sverrisson lögreglumaður hefur skýrt frá því að maður sem þeir hittu í [...] hafi sagt að ráðist hefði verið á hann og hnúajárn komið þar við sögu.  Hann hafi verið með áverka og sagst vera með svima.  Hann hafi sagt menn hafa komið á bíl og einhver orðaskipti orðið milli hans og þess sem á hann réðist.  Hann hafi sagt þeim hver árásarmaðurinn væri, sagt hvað hann héti.  Vitnið kveðst ekki muna nafnið lengur.  Þá hafi hann bent þeim á glös sem þarna voru og maðurinn hefði handleikið.  Hafi þeir tekið þau til handargagns og afhent þau tæknideild.  Þeir hafi svo kallað til sjúkrabíl sem hafi flutt manninn á slysadeild.

Einar Hjaltason læknir hefur komið fyrir dóm.  Hann segir A hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás.  Hann hafi enda verið mjög bólginn um andlitið og sár þar auk þess að vera tann- og beinbrotinn.  Hann kveður áverkana á honum samrýmast því mjög vel að maðurinn hefði verið barinn með hnúajárni og sparkað í hann.  Aðspurður segir hann að tannbrotin geti mögulega hafa hlotist af venjulegum hnefahöggum en hitt sé líklegra að þau séu komin til af einhverju hörðu, eins og hnúajárni.  Þá bendi sárin á manninum einnig til þess sama. 

Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður gerði vettvangs- og tæknirannsókn í málinu.  Hann kveðst hafa verið kallaður til verksins kl. 14:20 hinn 29. janúar.  Hann hafi ekki komist á vettvang fyrr en kl. 15:45.  Þá hafi húsið verið mannlaust en nágranni hafi lokið upp fyrir honum.  Þarna hafi verið merki um átök innan dyra og blóð verið þar víða.  Hann segist hafa fundið tvö fingraför á glösunum tveim, þegar þau komu til hans til rannsóknar nokkru síðar, og hafi annað þeirra reynst vera eftir einhvern annan en ákærða en hitt hafi verið ónothæft til samanburðar.  Hann segir að ekki hafi verið leitað að fingraförum á vettvangi.  Þá hafi ekki verið hugað að skóförum á gólfi en ekki hafi verið talið líklegt að neitt væri á þeim að græða, enda margir búnir að ganga um þarna, bæði lögreglumenn og fórnarlambið og fleiri. 

Snorri Örn Árnason, sérfræðingur lögreglunar í upplýsinga- og áætlanadeild, hefur komið fyrir dóminn og útskýrt það hvernig símagögnin í málinu sýni fram á það hvernig staðsetja mátti farsíma ákærða eftir því hvaða símasendistöðvum hann tengdist á þeim tímum sem skipta máli og gerð var grein fyrir hér að ofan.  Hann segir að yfirleitt tengist farsími þeim sendi sem næstur er en þó geti brugðið út af með það ef síminn er í hvarfi.  Hann er spurður út í það að engin tenging eða notkun á símanum virðist vera frá kl. 12:39 til kl. 15:05 samkvæmt símagögnunum.  Hann segir það ekki segja annað en það að síminn gæti á þeim tíma hafa verið hvar sem var.  Farsíminn hafi ekki verið í notkun á þeim tíma og því ekki unnt að staðsetja hann. 

E hefur skýrt frá því að þeir ákærði þekkist vel úr „bílaheiminum“ og hafi þekkst í nokkur ár.  Hann kveðst hafa fengið boð um það í síma að koma á lögreglustöðina til skýrslugjafar.  Hafi hann farið og greint frá því sem gerst hafði þennan tiltekna dag en skyndilega hafi hann staðið frammi fyrir því að lögreglumennirnir ætluðu að setja hann í gæsluvarðhald þar sem þeir héldu hann vera samsekan árásarmanninum.  Gæti það ekki staðist sem hann segði og ætluðu þeir að setja hann í fangaklefa.  Hafi hann þá orðið mjög hræddur enda hafi kona hans verið „kasólétt“ heima, eins og hann orðar það.  Hafi hann því breytt framburði sínum til þess að sleppa við að vera settur í fangelsi og frásögn hans þá verið röng.  Hið rétta í málinu sé að hann hafi þennan umrædda dag farið í vinnu kl. átta um morguninn og verið þar fram að hádegismat.  Þá hafi hann hitt ákærða um klukkan hálfeitt til eitt.  Hann hafi náð að fá sér aðeins að borða og þeir svo farið saman að huga að mótorhjóli sem þeir áttu saman.  Hann hafi svo skotið ákærða heim til hans um þrjúleytið og tekið til við að gera við bíl hans.  Það sé því rangt sem segi í síðari hluta skýrslunnar að ákærði hafi beðið hann um að segja þá hafa verið saman þennan dag.

E kannast við að hafa verið í símsambandi við ákærða þennan dag sem um ræðir og segir þá vera oft í símsambandi.  Hann segir ákærða hafa hringt í sig og sagst vera í fangelsi.  Hafi ákærði sagt hann mega eiga von á því að lögreglan hringdi til þess að boða hann í skýrslutöku.  Nánar aðspurður segir E ákærða hafa beðið sig um að drífa sig niður á lögreglustöð til þess að hann losnaði sem fyrst úr haldi.  Hafi hann ekki sagt af hverju eða hvað hann væri grunaður um.   Hefði hann ekki komist að því fyrr en „löngu, löngu, löngu síðar“. 

G, fyrrum vinnuveitandi E, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að E hafi verið vanur að mæta til vinnu á réttum tíma og hafi hann unnið sinn vinnutíma, venjulega til kl. 18 – 19.  Hann segir E hafa verið stundvísan og nákvæman starfsmann.  Hádegisverðarhlé sé milli 12 og 13.  Á þessum tíma hafi þeir verið þrír sem unnu á verkstæðinu og það því ekki dulist neinum ef menn voru fjarverandi eitthvað að ráði.  Hafi ekkert slíkt komið til hjá E.  Hafi hann látið vita þegar honum seinkaði á leið í vinnu eða þurfti að skjótast eitthvað frá og einnig í þeim tilvikum sem það dróst að hann kæmi aftur.  Að því er þennan tiltekna dag varðar þá ætti slíkt að koma fram á stimpilkorti E.  Menn stimpli sig ekki í og úr mat á verkstæði hans.  Þá segir hann að athugasemdir séu settar inn á stimpilkort samdægurs, svo sem þegar teygst hefur úr matartíma og slíkt.  Hann hefur afhent stimpilkort E þar sem fram kemur að dag þann sem um ræðir kom E til vinnu kl. 7:47 og lauk störfum kl. 18:00  og er sú stund handfærð á kortið.  Hann kveðst ekki geta útilokað að E hafi skotist frá þennan tiltekna dag án þess að það hafi verið fært á stimpilkortið.  Hann segir það ekki gerast oft að starfsmenn fái að vinna við bíla á eigin vegum á verkstæðinu og það gerist aldrei á reglulegum vinnutíma.  Kveðst hann ekki einu sinni gera við eigin bíla á reglulegum vinnutíma.  Hann kveðst ekki minnast þess að hafa gert við bíl fyrir ákærða en þeir þekkist úr „bílaheiminum“.

Gísli I. Þorsteinsson lögreglufulltrúi hefur komið fyrir dóminn.  Hann kveðst hafa tekið skýrsluna af A 2. febrúar 2009.  Hann muni ekki eftir þessari skýrslu í smáatriðum en muni eftir A og að málið snerist um frekar ruddalega árás á heimili hans.  Hafi hann sagt frá því að tveir menn hefðu komið á heimili A, árásarmaðurinn og annar til, sem hefði reynt að halda aftur af árásarmanninum á tímabili.  Hann kveður skýrsluna hafa gengið eðlilega fyrir sig og maðurinn verið rólegur og yfirvegaður og sagt sjálfstætt frá.  Vitnið sá í réttinum ljósmyndir þær sem teknar voru af A eftir skýrslutökuna og þekkti þar manninn sem hann yfirheyrði.  Þá var skýrslan um þá yfirheyrslu borin undir lögreglufulltrúann og kannaðist hann við hana.  Hann segir að ekki hafi verið tök á því að hafa vott við skýrsluna.

Guðmundur Haukur Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að E hafi verið tekinn til vitnisburðar að gefnu tilefni frá ákærða, að því er hann minnir.  Af einhverri ástæðu hafi honum þótt framburðurinn framan af ekki vera trúlegur og minni hann að  E hafi orðið tvísaga um einhver atriði.  Kveðst hann því hafa gert honum grein fyrir því hversu alvarlegt brot ákærði væri grunaður um og hafa því brýnt hann aftur á vitnaskyldunni.  Hafi hann snúið við blaðinu og gefið breyttan framburð.  Hann segir E ekki hafa verið hótað gæsluvarðhaldi, enda ekkert tilefni verið til þess í málinu.  Hann er spurður hvort það hafi búið að baki þeim orðum E: „Ég kom ekki nálægt þessu“, að farið hafi verið að bendla hann við árásina.  Ítrekar hann að E hafi ekki verið gefið til kynna að grunur beindist að honum. 

Guðmundur Páll Jónsson lögreglumaður, sem var viðstaddur það þegar skýrsla var tekin af E hefur skýrt frá því að ákærði hefði bent á E sem vitni og hann því komið til yfirheyrslu.  Ekki hafi verið neitt óvanalegt við þessa skýrslu en hann hafi svo viljað breyta skýrslunni og draga allt til baka sem hann hafði sagt áður.  Ekki hafi það verið af sérstöku tilefni en fyrir honum hafi verið brýnd vitnaskylda og vitnaábyrgð.  Hafi það verið vegna þess að þeim þótti framburður hans vera ótrúverðugur og þeir sagt honum það og beðið hann að hugsa sitt ráð.  Honum hafi ekki verið hótað gæsluvarðhaldi og segist hann halda að E hafi ekki legið undir grun um að vera samsekur ákærða um árásina.  

Guðrún Friðriksdóttir fangavörður hefur komið fyrir dóm.  Hún segir að reynt sé að leita á föngum þegar þeir eru settir í klefa og sé allt tekið af þeim.  Í tilviki ákærða segir hún það hljóta að hafa láðst að leita á honum eða leitin ekki verið nógu ítarleg.  Hún kveðst hafa verið á eftirlitsgöngu í fangageymslu lögreglustöðvarinnar þegar hún varð þess vör að ákærði var með farsíma hjá sér.  Hafi hún séð bjarma frá farsímanum hjá ákærða og hann þá verið tekinn af honum.

Niðurstaða

Enginn vafi getur talist vera á því að ráðist var á A heima hjá honum í [...] og honum veittir þeir áverkar sem lýst er í málinu.  Byggist það á staðfestri frumskýrslu lögreglunnar og vætti lögreglumannanna tveggja sem komu á vettvang, staðfestu læknisvottorði Einars Hjaltasonar, ljósmyndum sem teknar voru af A á slysadeild svo og ljósmyndum sem teknar voru innandyra í [...]. 

A hefur komið fyrir dóm og hefur málsaðilunum ekki verið mismunað að því leyti.  Aftur á móti hefur hann neitað að tjá sig eða svara spurningum um sakarefnið, en hvorki ákæruvaldið né ákærði hafa reynt að fá hann knúinn til þess, sbr. 2. mgr. 121. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.  Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. þeirra laga skal reisa dóm á þeim sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.  Þó er heimild til þess í 3. mgr. lagagreinarinnar að meta sönnunargildi skýrslu sem vitni hefur gefið fyrir lögreglu ef þess er ekki kostur að fá það fyrir dóm.  Má ætla að löggjafinn hafi ekki haft í huga tilvik sem þetta þegar 111. gr. laga um meðferð sakamála var lögfest.  A hefur enga skýringu gefið á þessum umskiptum en dómurinn álítur að engin önnur skýring geti komið til greina en að hann hafi óttast það sem gæti hlotist af því að hann stæði við fyrri skýrslur sínar í málinu.  Þrátt fyrir meginregluna um milliliðalausa málsmeðferð, sem fram kemur í fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 111. gr.  sakamálalaganna, hefur dómari almennt óbundnar hendur þegar hann metur sönnun, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga.  Gísli I. Þorsteinsson lögreglufulltrúi hefur komið fyrir dóm og kannast við að hafa skráð skýrslu þá sem sögð er hafa verið tekin af A 2. febrúar og rakin var hér að framan.  Þá hefur lögreglufulltrúinn borið kennsl á manninn af ljósmyndum sem þá voru teknar af honum.  Frásögninni í þessari skýrslu ber jafnframt saman við það sem lögreglumennirnir höfðu eftir A strax eftir atburðinn.  Má því slá því föstu að skýrsla þessi geymi frásögn hans af atvikinu og álítur dómurinn að hún hafi sönnunargildi í málinu. 

Ekki verður það sagt um ákærða að hann hafi verið stöðugur í skýrslum sínum í málinu né heldur að þær séu trúverðugar, eins og sjá má af dæmum sem rakin eru hér á eftir.  Þá er rétt að það komi fram að frásögn ákærða og framkoma, einkum í fyrri yfirheyrslunni hjá lögreglu, hefur einkennst nokkuð af kallsi og hálfkæringi.   

-Ákærði sagðist í skýrslu hjá lögreglu hafa farið með E upp í [...] í [...] um tíuleytið þennan morgun og þeir verið þar yfir hjóli þeirra til tvö eða hálfþrjú, nema þegar þeir skruppu frá í hádeginu að fá sér bita í sjoppu.  Þegar honum var bent á það í aðalmeðferð málsins að þetta rækist á símagögnin í málinu, breyttist frásögn hans og sagðist hann hafa komið að finna E í hádeginu eða um eittleytið. 

-Til þess er að taka að frásögn hans um hádegismat þeirra E hefur breyst tvisvar sinnum.  Í fyrsta lagi sagði hann þá ekki hafa farið í sjoppu að fá sér að borða heldur niður í bæ á [...] á fá sér pylsu en breytti því svo aftur í aðalmeðferðinni og sagðist ekki hafa farið þangað með E.

-Þá er þess að geta að ákærði sagðist hjá lögreglu ekki vita hvar A ætti heima og spurði hvort hann leigði sér e.t.v. íbúð í [...].  Viku seinna í annarri skýrslu hjá lögreglu sneri hann við blaðinu um þetta og sagðist hugsanlega hafa komið þangað með A og jafnvel þangað inn og myndu foreldrar hans eiga þar heima.  Loks sagðist hann í aðalmeðferðinni aldrei hafa komið heim til hans og vissi hann ekki hvar A ætti heima.

-Enn fremur má nefna losarabraginn á frásögnum ákærða um skuld A.  Fyrst sagði hann hjá lögreglu að hann hefði ákveðið að skrifa þetta á vin hans sem hefði unnið við bílinn þarna á verkstæðinu og hefði hann ekki „stressað“ sig yfir þessu.  Í sömu skýrslu sagðist hann svo hafa hugsað sér að innheimta skuldina, sem væri 150 – 200.000 krónur, hjá föður A.  Fyrir dómi sagðist hann hafa verið pirraður út í manninn vegna skuldarinnar en hann sagði hana þó vera smáræði, 50 – 70.000 krónur.

-Loks er þess að geta að E á að hafa ekið ákærða heim, þegar þeir höfðu dyttað að vélhjólinu, til þess að hann gæti lagt sig vegna slappleika.  Farsími ákærða á aftur á móti að hafa orðið eftir í bíl hans á vinnustað E, þar sem hann á að hafa farið að gera við bílinn.  Það liggur þó fyrir að farsími ákærða var í notkun þennan eftirmiðdag og fram á kvöld.  Tengdist hann símstöðvum bæði í [...] í [...] en síðast í [...], kl. 22:46:20.  Dóminum þykir nokkur ósennileikablær vera á þessari sögu þeirra ákærða og E.

Um þátt E er það jafnframt að segja að hann breytti framburði sínum í málinu tvisvar sinnum, eins og rakið var.  Skýring hans á því hvers vegna hann sneri við blaðinu hjá lögreglu er ekki í samræmi við framburð lögreglumannanna sem yfirheyrðu hann og ekki er að sjá að neitt hafi heldur komið fram í málinu sem geti stutt hana.  Þá verður ekki litið fram hjá því að ákærði talaði í síma við E úr fangaklefanum, bæði eftir að hann var handtekinn og eftir að hann gaf skýrslu sína hjá lögreglu, en jafnframt áður en E gaf þar sína skýrslu.  Auk þessa verður að hafa í huga að fásögn E af viðgerðinni á bíl ákærða síðdegis 29. janúar á sér enga stoð í því sem fram er komið hjá vinnuveitanda hans og er beinlínis í andstöðu við það.  Dómarinn álítur því að framburður ákærða fái enga stoð af frásögn E og að jafnframt verði að byggja á því, sem E sagði í lögregluskýrslunni, að ákærði hefði fengið hann til þess að bera rangt í málinu.  

Hér í upphafi var sýnt fram á það að vafi gæti ekki verið á því að ráðist var á A heima hjá honum í [...] og honum þá veittir áverkarnir sem lýst var.  Sem fyrr segir telur dómurinn taka verði tillit til skýrslu A hjá lögreglu þegar sönnun er metin í málinu.  Skýrsla þessi er í sjálfu sér trúverðug og fær jafnframt stuðning af öðrum sönnunargögnum, svo sem vætti lögreglumannanna tveggja sem komu á vettvang svo og vettvangs- og læknisrannsókn.  Álítur dómurinn hana vera mikilvægt sönnunargagn.  Þá liggur það fyrir að A neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi af ótta við það sem gæti hent, stæði hann við fyrri frásögn sína í málinu.  Telur dómurinn að öðrum en ákærða geti ekki verið um það að kenna.  Jafnframt var því slegið föstu að hann fékk E til þess að bera rangt  fyrir sig en ákærði þykir með báðum þessum tiltækjum hafa gert sig sérlega grunsamlegan.  Loks var sýnt fram á það hversu framburður ákærða í hefur verið hverfull og ótrúverðugur.  Þykir því verða að hafna algerlega framburði hans og byggja á skýrslu A hjá lögreglu um að það hafi verið ákærði sem réðst á hann heima hjá honum og veitti honum áverkana með höggum og spörkum.  Jafnframt þykir það vera sannað, sem þar segir og hefur eindreginn stuðning af framburði og vottorði Einars læknis Hjaltasonar, að ákærði hafi beitt hnúajárni á manninn. 

Árás ákærða var, vegna vopnsins sem hann beitti, sérstaklega hættuleg og olli umtalsverðum áverkum.  Hefur ákærði með henni gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.  

Refsing og sakarkostnaður

Ákærði hlaut ákærufrestun fyrir skjalafals árið 1999 og árið 2003 var hann sektaður fyrir ölvun við akstur.  Þá var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi 25. mars 2009 fyrir brot gegn valdstjórninni með ofbeldi við lögreglumann.  Árás ákærða á A var sérlega hrottaleg og ófyrirleitin.  Þá hefur það einnig áhrif til refsiþyngingar að ákærði skuli hafa reynt að hafa áhrif á úrslit málsins eins og raun er orðin á.  Refsingin, sem telst hegningarauki við dóminn frá því í mars í fyrra, þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½  ár.  Frá refsingunni ber að draga 6 daga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti.

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum á rannsóknarstigi málsins, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og verjanda sínum fyrir dómi, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun.  Dæmast málsvarnarlaunin með virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað, 46.569 krónur, ber einnig að dæma ákærða til þess að greiða.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ½ ár.  Frá refsingunni dregst 6 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði greiði verjendum sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og Sveini Andra Sveinssyni hrl. 300.000 krónur í málsvarnarlaun. 

                Ákærði greiði 46.569 krónur í annan sakarkostnað.