Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 2004.

Nr. 149/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Garðari Sigfússyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Líkamsárás. Sératkvæði.

G var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið X með flösku í andlitið með þeim afleiðingum að hægri framtönn brotnaði. Var refsing G ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga. Þá var G gert að greiða X bætur fyrir miska og fjártjón samtals að fjárhæð 105.964 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að höfuðstóll miskabóta, sem ákærða var með héraðsdómi gert að greiða X, verði hækkaður í 150.000 krónur.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu X verði vísað frá héraðsdómi.

I.

          Í málinu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 19. apríl 2003 á Hverfisbarnum, Hverfisgötu 20 í Reykjavík, slegið X með flösku í andlitið með þeim afleiðingum að hægri framtönn brotnaði.

          Ákærði hefur neitað sök við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrri dómi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að dyraverðir hafi haldið ákærða og X aðskildum þegar lögreglumenn komu á vettvang. Þeir hafi haft tal af ákærða og X á vettvangi og hafi ákærði neitað að hafa verið hér að verki. X hafi hins vegar sagt að þeir hafi verið inni á salerni staðarins og ákærði og hann rekist þar saman. Ákærði hafi tekið upp flösku og lamið hann í andlitið með þeim afleiðingum að framtönn sín hafi brotnað. X hafi verið mjög æstur í viðræðum við lögreglumenn og viljað berja ákærða en róast. Í héraðsdómi er að öðru leyti rakið efni frumskýrslunnar, meðal annars það sem haft er eftir vitninu Y.

X lagði fram kæru á hendur ákærða 6. maí 2003. Í skýrslu sinni hjá lögreglu þann dag kvaðst hann hafa verið að dansa umrætt sinn við vinkonu sína Y. Hann hafi hætt að dansa og snúið sér við til þess að ganga af dansgólfinu og rekist utan í ákærða, sem hann ekki þekkti. Þá hafi komið til orðaskaks milli þeirra og báðir orðið frekar æstir. Hafi Y og fleiri gengið á milli og hún gengið með honum á brott. Ákærði hafi kallað eitthvað á eftir sér og hafi hann svarað ákærða fullum hálsi. Engum togum hafi skipt að ákærði hafi hlaupið að sér með flösku í hendi. Kvaðst X ekki vita hvort hann sló hann eða beindi flöskunni að andliti sér en hún hafi rekist í framtennur hans og hægri framtönn í efra gómi brotnað. Ekki hafi komið til frekari átaka milli þeirra og dyraverðir fært ákærða afsíðis. Lögregla hafi verið kvödd á staðinn og lögreglumenn þar rætt við þá báða. Fyrir dómi bar X í meginatriðum á sama veg og hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið að dansa á dansgólfinu með Y, unnusta hennar og fleira fólki fyrir framan salernið þegar hann og ákærði byrjuðu að rífast. Hafi hann gengið á brott en ákærði þá kallað eitthvað til sín og hann svarað á móti. Ákærði hafi þá komið og slegið hann með flösku. Nánar aðspurður sagði X að ákærði hafi ekki barið sig með flöskunni og sagði í því sambandi „þetta var ekkert högg.“ Hafi ákærði otað flöskunni að sér eða slegið hann létt með henni í tönnina. Ákærði hafi haldið um stútinn á flöskunni og botn hennar lent á framtönninni með áðurnefndum afleiðingum, en flaskan hafi ekki brotnað. Vörin á sér hafi sprungið en lítið sem ekkert blætt úr henni. X kannaðist ekki við að hafa sagt við lögreglu á vettvangi að þessi atburður hafi orðið á salerninu og sagði ítrekað aðspurður að þeir ákærði hafi þá verið á dansgólfinu fyrir framan salernið. Sagðist hann hafa verið búinn að drekka um sex bjóra og verið undir áfengisáhrifum en „ekkert ofurölvi“ og fullyrti að hann myndi bæði hvar þetta gerðist og hvernig það bar að.

Ákærði var yfirheyrður um sakargiftir hjá lögreglu 21. nóvember 2003. Hann kvaðst muna nokkuð vel eftir atburði þessum. Hann hafi verið með vini sínum, Z, á veitingastaðnum. Hann hafi verið að dansa við einhverja stúlku, sem hann þekkti ekki. Einhver strákur, sem hafi verið mjög ölvaður og látið ófriðlega, hafi byrjað að ýta við sér og vinir stráksins dregið hann í burtu. Strákurinn hafi rifið sig lausan, en svo skyndilega gripið um munninn og sagt að ákærði hefði brotið í honum tönn. Dyraverðir hafi komið og farið með sig út. Hann hafi svo rætt við lögreglumenn þegar þeir komu á vettvang. Strákurinn hafi verið mjög æstur og ráðist á vin sinn Z fyrir utan staðinn. Fyrri dómi skýrði ákærði frá á sama veg. Hann kvaðst hafa drukkið um fjóra bjóra þessa nótt og verið lítið drukkinn. Hann skýrði svo frá að X hafi komið aðvífandi þar sem ákærði var að dansa á dansgólfinu á neðri hæðinni við einhverjar stelpur, meðal annars við stúlku sem var með ákærða. Hafi X verið verulega drukkinn. Einhverjar orðahnippingar hafi orðið milli þeirra, sem hann kvaðst ekki muna hvernig hófust. X hafi ýtt á bringuna á sér og ákærði ýtt X á móti inn í hóp kunningja hans, sem hafi gripið um X. Ákærði kveðst þá hafa ætlað að forða sér en X náð að rífa sig lausan, gripið um munninn og sakað hann um að hafa brotið í sér tönn. Ákærði sagði að dyraverðir hafi strax komið og leitt hann út. Ákærði kvaðst ekki hafa haldið flösku á þeim tíma sem samskipti þeirra ákærða stóðu. Lögreglumenn hafi fært hann í lögreglubifreið eftir að hafa rætt við hann á staðnum. Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvers vegna þess var ekki getið í frumskýrslu lögreglu að hann hafi verið með vitninu Z á staðnum, en fullyrti að það hafi hann sagt lögreglu á vettvangi.

Vitnið Y var yfirheyrð hjá lögreglu 17. nóvember 2003. Hún sagðist hafa verið með X í gleðskap fyrr um kvöldið og hitt hann á ný á Hverfisbarnum. Hún hafi verið alsgáð umrætt sinn, en X hins vegar mjög ölvaður. Hún hafi séð til X þar sem hann var að rífast við einhvern strák, en ekki vitað ástæðu þess. Þeim hafi verið heitt í hamsi. Hún hafi því dregið X út úr þvögunni á dansgólfinu og nánast verið komin með hann út af gólfinu, töluvert á brott frá stráknum miðað við rýmið á staðnum. Skyndilega hafi strákurinn verið kominn til þeirra og kallað eitthvað til X, sem þá hafi snúið sér við. Hún hafi einnig snúið sér við og þá hafi strákurinn skyndilega og að tilefnislausu slegið X í andlitið með flösku. Strákurinn hafi haldið um „skaftið“ á flöskunni og hafi botninn á henni komið í munninn á X. Hún hafi séð tannbrotið en flaskan hafi ekki brotnað. Hún kvaðst ekki hafa séð blóð á munni X. Lögreglumenn hafi komið á vettvang og hún séð er þeir ræddu við árásarmanninn. Vitnið bar í öllum meginatriðum á sama veg fyrir dómi. Sagði hún að X hafi verið mjög drukkinn. X og árásarmaðurinn hafi farið að rífast, báðir verið mjög æstir og hún því dregið X á brott, en maðurinn staðið eftir með vini sínum. Þegar þau voru komin nokkra metra frá hafi maðurinn kallað og komið aftan að þeim X og þau litið við. Maðurinn hafi haldið á flösku í hendi og hún séð flöskuna koma beint í „smettið á” X. Hann hafi verið með opinn munninn og flaskan farið beint í tennurnar. Hafi hún strax séð brotnar tennur í honum, en hins vegar enga áverka í andliti.

Vitnið Z var yfirheyrður hjá lögreglu sama dag og ákærði. Hann kvaðst hafa orðið þess var að ákærði hafi verið að rífast við einhvern mann umrætt sinn. Hann sagðist ekki muna hvað þeim fór á milli en maðurinn hafi verið mjög æstur og ölvaður að sjá. Líklega hafi einhverjir vinir mannsins dregið hann á brott, en fljótlega hafi dyraverðir komið. Maðurinn hafi haldið fyrir andlit sitt og „bent á ákærða.“ Z sagðist ekki hafa vitað þá að maðurinn hafi sakað ákærða um að hafa brotið í sér tönn. Kvaðst Z hafa fylgst með orðaskiptum ákærða og mannsins en engin átök orðið milli þeirra. Hafi ákærði ekki slegið manninn í andlitið með flösku. Z bar á svipaðan hátt fyrir dómi. Sagðist hann hafa staðið við hlið ákærða og fylgst með honum og umræddum manni allan tímann „þegar þeir voru að rífast“ á dansgólfinu og ekki séð nein átök milli þeirra. Þetta hafi eingöngu verið „orðaskipti“. Hann hafi ekki orðið þess var að þeir hafi ýtt hvor við öðrum. Z sagði að þeir félagarnir hafi verið að dansa við einhverjar stelpur á dansgólfinu. Hafi hann séð að vinkonur eða vinir mannsins hafi farið með hann á brott. Hann sagðist ekki hafa fylgst sértaklega með því þar sem hann og ákærði hafi snúið sér við og verið áfram á dansgólfinu. Síðar aðspurður um það hvort hann hefði séð manninn dansa á dansgólfinu svaraði hann því neitandi og kvaðst aðeins hafa séð hann og ákærða „í ryskingum”.

Eins og rakið er í héraðsdómi bar vitnið R, sem var dyravörður á Hverfisbarnum umrætt sinn, að hann kannaðist bæði við X og ákærða. Bar hann að X hafi fyrir utan skemmtistaðinn umrætt sinn sakað ákærða um að hafa slegið sig í andlitið með flösku. Hann hafi séð að X var með brotna tönn. Ákærði og X hafi báðir verið sjáanlega undir áfengisáhrifum. Ákærði hafi verið rólegur og „ekki mjög fullur“ en X æstur en „ekkert rosa fullur.“ Einhver stúlka hafi bent á ákærða og sagt hann vera árásarmanninn, en ákærði hafi ekkert við það kannast. Þá bar S lögreglumaður, sem kom á vettvang, fyrir dómi að ákærði hafi verið rólegur og ekki kannast við að hafa veitt X áverkann. X hafi verið mjög æstur en hún sagðist ekki muna hvernig ölvunarástand þeirra var háttað, en bar að þeir hafi ekki verið „dauðadrukknir“. Hún hafi séð að X var með brotna framtönn.

II.

Samkvæmt læknisvottorði T, sem rakið er í héraðsdómi, kom X á slysa- og bráðamóttökudeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss með brotna hægri framtönn, en ekki aðra áverka, að morgni 19. nóvember 2002 um klukkustund eftir að lögregla var kvödd að Hverfisbarnum.

Ljóst er af framburði ákærða og X, sem fær stoð í vitnisburði Y, að til orðahnippinga kom á milli þeirra á dansgólfi skemmtistaðarins. Hafa öll þrjú borið að í framhaldi þessa hafi ákærði og X ýtt hvor við öðrum. Er óumdeilt að báðir voru þá undir áfengisáhrifum. X og vitnið Y hafa bæði staðfastlega borið við rannsókn málsins og fyrir dómi að í framhaldi þessa hafi Y farið með X á brott, en ákærði fylgt þeim eftir og kallað á eftir X. Þegar X sneri sér við hafi ákærði að tilefnislausu slegið hann í opinn munninn með þeim afleiðingum að framtönn hans brotnaði. R, dyravörður á staðnum umrædda nótt, og S lögreglumaður, sem kom á vettvang, báru bæði fyrir dómi að X hafi þá verið með brotna tönn og sakað ákærða um að hafa valdið tannbrotinu. Í frumskýrslu er haft eftir X að þeir ákærði hafi verið á salerni veitingastaðarins þegar atvikið átti sér stað. Er það ekki í samræmi við framburð annarra vitna í málinu. X neitaði fyrir dómi að þessi ummæli væru rétt eftir sér höfð. Eru þau hvorki í samræmi við framburð hans hjá lögreglu né fyrir dómi. Verður því ekki á þeim byggt í málinu. Framburður vitnisins Y og brotaþolans X hefur verið afdráttarlaus, stöðugur og í meginatriðum í innbyrðis samræmi. Vitnið Z, sem var með ákærða á staðnum, kvaðst hins vegar ekki hafa séð ákærða slá X með flösku. Sagðist hann geta fullyrt að ákærði hafi staðið við hlið sér allan tímann „þegar þeir voru að rífast“ og engin átök hafi verið þeirra á milli. Þessi framburður vitnisins, sem er vinur ákærða, útilokar ekki að ákærði hafi án vitundar vitnisins getað veitt X áverkann. Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum, en viðurkennt að hann hafi lent í rifrildi við X og í framhaldi þess hafi þeir ýtt hvor við öðrum. Héraðsdómari hefur lagt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna og verður ekki fyrir Hæstarétti hróflað við því mati, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum. Eru ekki efni til að beita þeim úrræðum sem um getur í 5. mgr. ákvæðisins. Þegar allt framangreint er virt þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæru. Er ljóst að ákærða hlaut að vera ljóst er hann sló X með flösku á munninn að af því gæti hlotist tannbrot. Telst samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á ákvörðun hans um refsingu ákærða og skaðabætur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan kostnað sakarinnar í héraði og áfrýjunarkostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærði, Garðar Sigfússon, greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, samtals 250.000 krónur.

 


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ákærði hefur neitað sök frá upphafi. Sakfelling hans í hinum áfrýjaða dómi er fyrst og fremst byggð á framburði vitnisins Y, sem hefur staðfastlega borið að hún hafi orðið vitni að því að ákærði hafi komið að X inni á veitingastaðnum og veitt honum áverka á framtönn með bjórflösku. Snýst áfrýjun málsins fyrst og fremst um mat á þessari sönnunarfærslu, þ.e.a.s., hvort ákæruvaldið hafi uppfyllt sönnunarskyldu sína með framburði þessa vitnis og eftir atvikum öðrum sönnunargögnum, sem af þess hálfu eru talin styðja þennan framburð. Við mat á þessu koma eftirfarandi atriði, sem öll veikja sönnunarfærslu ákæruvaldsins, til athugunar.

Í frumskýrslu lögreglu af vettvangi 19. apríl 2003 kemur fram að ákærði hafi ekki á staðnum kannast við að hafa veist að X. Hafi hann verið rólegur í framkomu. Lögreglumaður sá sem gerði frumskýrsluna staðfesti þetta fyrir dómi. Þetta fær einnig stoð í skýrslu, sem dyravörður á staðnum gaf fyrir dómi. Ákærði hefur síðan verið staðfastur í þessari afstöðu sinni til ákæruefnanna.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni frumskýrslu lögreglu. Í dóminum er þó sleppt að nefna, sem fram kemur í skýrslunni, að ætlaður brotaþoli, X, hafi á staðnum talið að atburðurinn hafi átt sér stað inni á salerni á veitingastaðnum en ekki á eða við dansgólfið. Lögreglumaðurinn sem skráði þetta kom fyrir dóm og taldi sig hafa haft þetta beint eftir vitninu. Í kæruskýrslu til lögreglu 6. maí 2003 bar X um þetta á svipaðan hátt og vitnið Y á þann veg, að ákærði hafi komið að honum með flöskuna þar sem hann hafi verið á leið út af dansgólfinu. Fyrir dómi var vitnið spurt um það sem eftir því er haft í frumskýrslu lögreglu um þetta og taldi það þá, að þar væri rangt haft eftir. Frumskýrslan hefur ekki að geyma framburðarskýrslu þessa vitnis og hefur því ekki gildi sem slík. Allt að einu er þetta atriði sem er til þess fallið að skipta máli við mat á framburði vitnisins. Er raunar ekki að sjá á forsendum hins áfrýjaða dóms, að áfellisdómurinn yfir ákærða sé að neinu leyti byggður á framburði þessa vitnis, enda hafði vitnið Y, borið fyrir dómi að X hafi verið það drukkinn „að hann gæti aldrei sagt rétt eða satt frá þessum atburði“ og að hún haldi „að hann viti ekkert hvað hafi gerst.“

Z bar fyrir dómi, að hann hefði verið með ákærða á veitingastaðnum umrætt sinn og staðið við hlið hans á dansgólfinu, þegar einhverjar ryskingar hafi byrjað milli ákærða og manns sem vitnið kvaðst ekki hafa þekkt. Þeir hafi eitthvað verið að rífast þarna og hafi það endað með því að vinafólk hafi tekið „þennan strák frá og þannig hætti þetta bara.“ Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá framburði þessa vitnis og sagt að það „hafi ekki veitt atburðum sömu athygli þegar maðurinn hafi verið dreginn á brott af kunningjum sínum.“ Þessi endursögn á framburði vitnisins er ekki alls kostar rétt, því vitnið bar að hann og ákærði hafi bara snúið sér við, þegar maðurinn hafi verið leiddur brott og verið “þarna áfram.“ Í framburði vitnisins felst því, að þeir ákærði hafi haldið sig áfram á sama stað á dansgólfinu eftir að X hafði verið leiddur frá þeim. Þetta vitni kvaðst ekki hafa séð ákærða halda á flösku þegar þessir atburðir urðu. Verður framburður vitnisins ekki skilinn á annan veg en þann, að það telji sig hafa fylgst með ákærða á því augnabliki er X slasaðist og hafi ákærði ekki átt þar hlut að máli.

Í málinu liggur fyrir, að vitnið Y var í kunningsskap við X. Þau þekktust úr starfi hjá íþróttafélagi og höfðu verið saman í samkvæmi fyrr um kvöldið. Jafnframt kvaðst þetta vitni hafa séð ástæðu til að draga X frá, þegar hann og ákærði hafi verið farnir að rífast inni á dansgólfinu og ýta hvor í annan, því vitnið hafi séð hvert leiddi. Sýnast tengsl þessa vitnis við X ekki vera ósvipuð tengslum vitnisins Z við ákærða. Þrátt fyrir þetta er í hinum áfrýjaða dómi framburður Y lagður til grundvallar við úrlausn málsins, en litið með öllu framhjá framburði Z. Í forsendur dómsins skortir fullnægjandi skýringar á þessu.

Í vottorði læknis sem skoðaði X við komu á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans þann 19. apríl 2004, eftir að hann hafði hlotið meiðslin, kemur fram, að engir aðrir áverkar hafi greinst í andliti mannsins en brotin hægri framtönn. Líkur standa til þess, að einhverjir áverkar sjáist við munn ef maður fær utanaðkomandi högg í andlit með flösku sem brýtur tönn uppi í munninum. Þó að ekkert verði um þetta fullyrt gæti slíkt tannbrot án frekari áverka ef til vill fremur hlotist af stút á flösku, sem viðkomandi maður er sjálfur að drekka úr, ef einhver nærstaddur rekur sig í flöskubotninn. Við rannsókn málsins hjá lögreglu og yfirheyrslur fyrir dómi var ekki kannað hvort X kunni sjálfur að hafa verið að drekka bjór úr flösku, þegar atvikið varð. Umræddur læknir var ekki kvaddur til vitnisburðar fyrir dómi.

Í málinu má telja sannað að tönn X hafi brotnað við einhvern utanaðkomandi atburð á þeim stað og tíma sem málið greinir. Á hitt er svo að líta, að X var staddur í fjölmenni meðal dansandi fólks inni á rökkvuðum skemmtistað. Við slíkar aðstæður er nokkur hætta á að viðstöddum geti missýnst um atburði sem verða í skyndingu og án fyrirvara.

Gera verður athugasemdir við rannsókn málsins hjá lögreglu. Atburðurinn sem ákært er fyrir varð 19. apríl 2003. X kom síðan til lögreglu og kærði atburðinn 6. maí 2003. Næst var tekin skýrsla af vitninu Y 17. nóvember 2003 og svo ákærða og vitninu Z 21. nóvember 2003. Voru þá um 7 mánuðir liðnir frá atburðinum. Af öðrum vitnum voru teknar skýrslur í janúar 2004. Ljóst má vera að framburður um atvik sem þetta verður veikari eftir því sem lengri tími líður auk þess sem líkur minnka á að unnt reynist að afla frekari framburðar vitna um atvikið. Er þess hér meðal annars að gæta, að X bar fyrir dómi að fleira fólk hefði verið statt þarna, þegar atvikið varð, unnusti Y og dönsk stúlka, sem verið hafi með henni.

Jafnvel þó að lagt sé til grundvallar við úrlausn málsins, að vitnið Y hafi lýst skynjun sinni á þessum atburði eftir bestu vitund og getu, dugar það ekki að mínu mati til þess að sönnunarskyldu ákæruvalds teljist fullnægt. Til þess að svo megi verða þarf vitnisburður hennar að fá fullnægjandi stoð í öðrum sönnunargögnum. Því er að mínu mati ekki að heilsa. Er það því niðurstaða mín, að ákæruvaldið hafi ekki fært fram í málinu sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða eins og tilskilið er í 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Tel ég því að það beri að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Þess skal að auki getið, að skilyrði fyrir refsingu samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er að ásetningur sakbornings nái ekki bara til sjálfrar þeirrar líkamsárásar, sem ákvæðið greinir, heldur einnig til afleiðinga hennar. Í þessu máli háttar svo til, bæði samkvæmt framburði vitnisins Y og einnig X, sem varð fyrir meiðslunum, að eiginlega hafi ekki verið um högg að ræða. Orðaði X það svo fyrir dómi, að ákærði hafi „otað“ að sér bjórflösku og einnig, að ákærði hafi ekki barið sig með flöskunni, þetta hafi ekki verið neitt högg. Y kemst meðal annars svo að orði um þetta, að þetta hafi ekki verið neitt kröftugt högg. Verði lýsing þessara vitna á atvikinu lögð til grundvallar er allt að einu varhugavert að telja sannað að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að ráðast á X á þann hátt að varðað geti við 217. gr. almennra hegningarlaga. Enn síður verður samkvæmt þessari lýsingu talið að för ákærða að X hafi verið til þess fallin að valda þeim áverka sem hann hlaut. Tel ég því, hvað sem öðru líður, ósannað í málinu, að ásetningur ákærða hafi getað staðið til þess að veita X þennan áverka.

Samkvæmt framansögðu tel ég að sýkna beri ákærða af kröfum ákæruvaldsins í málinu og fella allan sakarkostnað á ríkissjóð.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 25. mars sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af lögreglustjóranum í Reykjavík 20. janúar 2004, á hendur Garðari Sigfússyni, kt. [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2003, á Hverfisbarnum, Hverfisgötu 20, Reykjavík, slegið X, kt. [...], með flösku í andlitið svo að hægri framtönn brotnaði.

             Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst X skaðabóta að fjárhæð kr. 315.689 auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 19. apríl 2003 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.

             Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist, að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

             Aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2003 var lögreglan í Reykjavík kvödd að veitingastaðnum Hverfisbarnum, Hverfisgötu 20, vegna líkamsárásar. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar á vettvang hafi verið komið hafi lögregla séð dyraverði staðarins halda tveimur mönnum aðskildum. Kváðu þeir annan aðilann, ákærða í máli þessu, hafa brotið tönn í X. Greindi X lögreglu frá því, að ákærði hafi tekið upp flösku og lamið hann í andlitið með þeim afleiðingum að framtönn í honum hafi brotnað. Er því lýst í frumskýrslu lögreglu hvernig X hafi verið mjög æstur í viðræðum við lögreglu, en hafi síðar róast og sagst vilja kæra verknaðinn. Í viðræðum við ákærða, kvaðst hann hins vegar ekki hafa slegið X. Kvaðst hann hafa verið á dansgólfinu þegar X hafi komið að honum og ýtti á hann. Hafi hann ýtt tvisvar í X á móti og hafi X í seinna skiptið lenti inni í hóp af fólki sem hafi verið að dansa. Dyraverðir hafi síðan komið, farið með ákærða út og sagt hann hafa brotið tönn í X. Er því lýst hvernig ákærði hafi verið rólegur í viðræðum við lögreglu og lýst yfir sakleysi sínu af verknaðinum. Á veitingastaðnum hitti lögregla fyrir Y, er þekkti til X. Kvaðst hún hafa séð X og ákærða dansa utan í hvorn annan. Hafi hún verið að reyna að draga X í burtu þegar hún hafi séð ákærða koma aðvífandi með flösku á lofti og slá henni í andlit X með þeim afleiðingum að tönn hafi brotnað. Fram kemur í skýrslu lögreglu, að ekki hafi aðrir áverkar verið sjáanlegir á X en brotin framtönn.

             X mætti á lögreglustöðina við Hverfisgötu 6. maí 2003 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar.

             Í málinu liggur frammi vottorð T læknis á slysa- og bráða­móttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar segir að X hafi komið á slysadeild hinn 19. apríl 2003 kl. 5:22 og kvaðst hafa verið barinn með flösku í andlitið. Við skoðun greindust ekki aðrir áverkar en brotin hægri framtönn. Engin teljandi óþægindi hafi verið við að hreyfa kjálka og tennur virtust falla rétt saman burtséð frá tannbrotinu.

             Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna.

             Ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi verið að skemmta sér ásamt vini sínum á Hverfisbarnum. Seint um nóttina hafi hann verið á dansgólfi staðarins þegar strákur sem hann þekkti ekki, og reyndist vera X, hafi byrjað að ýta við honum. Kvaðst ákærði kannast við að hafa lent í stimpingum eða ýtt í bringuna á X, sem hafi verið ölvaður og látið ófriðlega. Vinir X hafi komið og dregið X frá en hann hafi rifið sig lausan frá þeim. Skyndilega hafi X gripið um munninn á sér, beygt sig niður og sagt að ákærði hafi brotið í sér tönn. Dyraverðir veitingastaðarins hafi þá komið að og farið með ákærða út fyrir veitingastaðinn. Ákærði kvaðst ekki hafa veist að X eins og X haldi fram. Þá kvað hann frásögn X um að ákærði hafi veist að sér með flösku í hendinni uppspuna.

             Kærandi, vitnið X, kvaðst hafa verið að dansa við vin­konu vitnisins, Y, á Hverfisbarnum. Hafi það síðan gengið út af dansgólfinu og rekist utan í ákærða. Hafi þá komið til orðaskaks á milli þeirra sem vitnið hafi tekið þátt í. Hafi ákærði og vitnið orðið mjög æstir, en Y og fleira fólk hafi gengið á milli. Y hafi síðan tekið vitnið til hliðar. Ákærði hafi þá kallað eitthvað á eftir vitninu og kvaðst það hafa svarað honum fullum hálsi. Vissi það þá ekki fyrr en að ákærði hafi hlaupið að því með flösku í hendinni og slegið það eða beint flöskunni þannig að andliti þess að hún hafi rekist í framtennur vitnisins. Hafi hægri framtönn í efri gómi brotnað. Kvaðst vitnið ekki hafa hlotið aðra áverka og að til frekari átaka á milli þess og ákærða hafi ekki komið.

Vitnið Y lýsti atburðum svo, að vitnið hafi verið á Hverfis­barnum þá nótt sem um ræði. Kvaðst það hafa verið akandi þetta kvöld og því ekki hafa verið undir áhrifum áfengis. Á sama stað hafi X einnig verið, en vitnið greindi frá því að X væri kunningi vitnisins og hafi þau verið í sama samkvæmi fyrr um kvöldið. Kvað vitnið X hafa verið mjög ölvaðan. Á Hverfisbarnum hafi vitnið séð X rífast við ákærða og hafi vitnið blandað sér í málið því það hafi séð hvert stefndi. Upptök rifrildisins hafi það þó ekki séð. Kvaðst vitnið hafa dregið X nokkuð langt í burtu frá ákærða. Þá hafi ákærði kallað eitthvað á eftir þeim og síðan komið aftan að þeim og rifið í X. Vitnið og X hafi bæði snúið sér við og þá hafi það séð flöskuna koma beint í andlitið á X. Hafi ákærði haldið um flösku­hálsinn og hafi botninn komið beint á tennur X. Kvaðst vitnið strax hafa séð að tönn X hafi brotnað. Frekari átök hafi ekki átt sér stað eftir þetta. Kvaðst vitnið ekki hafa orðið vart við dyraverði á þessari stundu. Vitnið kvaðst hafa átt orðaskipti við ákærða eftir að þetta gerðist. Lýsti það árásarmanninum sem dökkhærðum einstaklingi, stuttklipptum, 24-25 ára, og holdarfar hafi verið ,,venjulegt”. Aðspurt kvaðst vitnið vera þess fullvisst, að maðurinn sem komið hafi á eftir því og X hafi verið sá hinn sami og X hafi rifist við en ekki vinur ákærða.

             Vitnið Z kvaðst hafa verið ásamt ákærða á Hverfisbarnum. Hafi það verið á dansgólfi staðarins seint um nóttina og þá séð mann standa nærri ákærða að rífast við hann. Þessi maður hafi verið mjög æstur og hafi einhverjir vinir hans dregið hann í burtu. Síðan hafi maðurinn haldið fyrir andlit sitt og bent á ákærða. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða slá þennan aðila í andlitið með flösku. Kvaðst það hafa fylgst vel með þegar orðaskipti áttu sér stað á milli ákærða og mannsins á dansgólfinu og geti það ekki hafa átt sér stað á þeim tíma. Vitnið hafi ekki veitt atburðum sömu athygli þegar maðurinn hafi verið dregin á brott af kunningjum sínum.

             Vitnið R kvaðst hafa starfað sem dyravörður á Hverfis­barnum þegar atvik málsins hafi átt sér stað. Kvaðst það kannast við báða aðila málsins, en X hafi komið til vitnisins mjög æstur og hafi tönn X þá verið brotin. Ekki kvaðst vitnið hafa séð þá atburði. Hafi X tjáð vitninu að hann hafi átt í einhverjum stimpingum við ákærða á dansgólfi við barinn. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt það frá stúlku að einhver aðili hafi verið með flösku á lofti sem lent hafi í andliti X. Vitnið kvaðst hafa fylgt ákærða út úr húsinu og hafi X þá bent á ákærða sem árásarmanninn. Hafi ákærði sagt við vitnið að hann hafi átt í einhverjum stimpingum við barinn en kvaðst neita því alfarið að hafa slegið X með flösku í andlitið. Vitnið kvað X og ákærða báða hafa verið sjáanlega undir áhrifum áfengis. Hafi ákærði verið rólegur en X mjög æstur og ósáttur vegna tannbrotsins.

             Vitnið S lögreglumaður kom fyrir dóm. Bar vitnið um atvik með þeim hætti er í frumskýrslu lögreglu getur og lýst var hér í upphafi, en vitnið ritaði skýrsluna.

             Í máli þessu liggur fyrir, að til ryskinga kom á milli ákærða og X á dansgólfi Hverfisbarsins aðfaranótt laugardagsins 19. apríl 2003. Hafa bæði ákærði og X borið um það. Þá báru vitnin Y og Z að þau hafi séð ákærða og X rífast á dansgólfinu. Vitni hafa hins vegar ekki með vissu getað borið um upptök ryskinganna, en fram er komið að X og ákærði voru báðir undir áhrifum áfengis þessa nótt. Ákærði hefur staðfastlega neitað því að hafa slegið X með þeim hætti sem í ákæru greinir. Greinir ákærða og X á í grundvallar­atriðum að þessu leyti. Ekki er öðrum haldgóðum framburðum vitna fyrir að fara en framburði vitnisins Y. Framburður Y, sem að eigin sögn var ekki undir áhrifum áfengis þetta kvöld, hefur frá upphafi verið staðfastur og afdráttarlaus um það að ákærði hafi komið aðvífandi með flösku í hendi og valdið X áverka á tönn. Þykir ekkert raska trúverðugleika framburðar hennar sem vitnis í málinu, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en hún þykir ekki í slíkum tengslum við X, að varpi rýrð á framburð hennar. Með vísan til þess, svo og læknisvottorðs sem lagt hefur verið fram í málinu þykir nægilega sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um líkamsárás og að hann hafi valdið X þeim áverkum sem í ákæru er lýst. Brotið er réttilega fært til refsiákvæða í ákæru. Í ljósi þess að tekist hafði að skilja á milli ákærða og X, og að ákærði hafi í framhaldi af því nánast fyrirvaralaust valdið líkamsáverkanum, verður 3. mgr. 218. gr. a., laga nr. 19/1940 ekki komið við í málinu.

             Ákærði er fæddur í febrúar 1982. Hann hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum. Verður til þess litið við ákvörðun refsingar. Svo sem lýst hefur verið verður engu slegið föstu um upptök ryskinga á milli ákærða og X. Aðferð ákærða, að slá eða reka flösku í andlit X, er háskaleg aðferð og líkleg til að valda talsverðu líkamstjóni. Afleiðingar háttsemi ákærða er brot á hægri framtönn. Um svipaðar afleiðingar líkamsárásar er fjallað í dómi Hæstaréttar frá árinu 1997, sem birtur er á bls. 1441 í dómasafni réttarins fyrir það ár, þó svo annarri aðferð hafi verið beitt í því máli. Með vísan til þessa er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og hún falli niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             X hefur í málinu krafist skaðabóta að fjárhæð 315.689 krónur, auk vaxta. Kröfu sína sundurliðar X með eftirfarandi hætti:

             1. Miska- og þjáningabætur                     150.000      krónur

             2. Útlagður kostnaður skv. gögnum                         119.935    krónur

             3. Kostnaður lögmanns ásamt vsk.        45.754        krónur

             Samtals                                                        315.689      krónur

             X hefur orðið fyrir miska sem afleiðingu af líkamsárás ákærða, en hann hefur þurft að leita sér læknisaðstoðar til að gera við þá framtönn sem brotnaði. Tönnin brotnaði á þann hátt, að hluti hennar er enn til staðar. Bráðabirgðaviðgerð hefur leitt til þess að ytra yfirbragð ber ekki augsýnilega með sér líkamslýti. Í því ljósi verða bætur skv. 1. lið ákveðnar 40.000 krónur.

             Til stuðnings kröfu um útlagðan kostnað hafa verið lagðar fram kvittanir frá Hreyfli, að fjárhæð 2.200 krónur, vegna ferðar á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahúss aðfaranótt laugardagsins 19. apríl. Þá hefur verið lögð fram kvittun fyrir greiðslu á nýkomugjaldi á sjúkrahúsið, að fjárhæð 3.540 krónur. Einnig hefur verið lögð fram kvittun frá U tannlækni, vegna bráðabirgðaviðgerða á tönn X, að fjárhæð 14.470 krónur. Allir ofangreindir liðir byggja þannig á raun­verulegum kostnaði tengdum líkamsárás ákærða. Verða þeir því teknir til greina eins og þeir eru fram settir. Að öðru leyti byggir kröfuliður um útlagðan kostnað á áætlun um væntanlegan kostnað við fullnaðarviðgerð á framtönn. Áætlun þá hefur U lagt fram 23. apríl 2003. Komið hefur fram í meðförum málsins fyrir dómi, að fullnaðarviðgerð þessi hefur ekki enn farið fram. Áætlun um kostnað verður ekki lögð til grundvallar ákvörðun um skaðabætur, sem taka mið af raunverulegu fjártjóni. Þessi kröfuliður verður því ekki tekin til greina. Í samræmi við allt þetta verða X dæmdar bætur fyrir útlagðan kostnað að fjárhæð 20.210 krónur (2.200+3.540+14.470).

             Bótakrefjandi á tilkall til bóta vegna kostnaðar við að halda í frammi bótakröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Nemur kröfuliður þessi 45.754 krónum. Í ljósi vinnu við að setja fram bótakröfu og síðari meðferðar málsins fyrir dómi, þykir kröfuliður þessi réttmætur og verður hann tekin til greina að fullu.

             Í samræmi við ofangreint verður ákærði dæmdur til að greiða X skaðabætur að fjárhæð 105.964 krónur. Í samræmi við framlagða bótakröfu er rétt að fjárhæðin beri vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. apríl 2003. Svo sem sakarefni málsins er háttað er eðlilegt að dráttarvextir skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., verði dæmdir frá því bótakrafa var birt ákærða, eða 21. nóvember 2003, til greiðsludags.

             Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði greinir.

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Daði Kristjánsson fulltrúi lög­reglustjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

             Ákærði, Garðar Sigfússon, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði X skaðabætur að fjárhæð 105.964 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 19. apríl 2003 til 21. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 65.000 krónur.