Hæstiréttur íslands
Mál nr. 262/2000
Lykilorð
- Skaðabætur
- Lögmaður
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 25. janúar 2001. |
|
Nr. 262/2000. |
Pálína M. Poulsen(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Hafsteini Hafsteinssyni og (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) Hrund Hafsteinsdóttur(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Skaðabætur. Lögmenn. Aðfinnslur.
P krafði lögmennina Ha og Hr um skaðabætur vegna meintrar vanrækslu þeirra í störfum sínum fyrir hana. Málavextir voru þeir að P veitti Ha þann 1. október 1991 umboð til að gæta hagsmuna sinna að því er varðaði bótarétt vegna meiðsla er hún hlaut við slys sem hún varð fyrir við vinnu hjá PO hf. Ha lét af rekstri lögmannsstofu sinnar 1. september 1993 og tók dóttir hans Hr við málinu. Fram að því hafði Ha aflað örorkumats og útreiknings örorkutjóns og krafið Tryggingamiðstöðina hf. og PO um bætur vegna slyssins, en fengið synjun. Hr kvaðst hafa kannað fjárhagsstöðu vinnuveitanda P haustið 1993 og komist að því að hún væri bág. Þann 18. febrúar 1994 fékk hún gjafsóknarleyfi fyrir P, en höfðaði ekki mál. Hún lýsti ekki heldur kröfu P í þrotabú PO, sem tekið var til gjaldþrotaskipta 12. ágúst 1994, fyrr en mánuði frá lokum kröfulýsingarfrests. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að meta bæri störf þeirra beggja fyrir P í heild en ekki sundurgreint. Með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem lögmenn bera gagnvart skjólstæðingum sínum hefði aðgerðarleysi Ha ekki verið nægilega réttlætt í málinu og telja yrði að Hr hefði ekki brugðist eins skjótt við og vænta mætti af starfandi lögmanni. Teldust þau því bera skaðabótaábyrgð gagnvart P, enda stæðu líkur til þess að P hefðu verið dæmdar bætur að einhverju leyti hefði kröfum hennar verið haldið til laga. Þar sem svo hefði ekki verið gert þættu nægar líkur hafa verið leiddar að því að P hefði orðið fyrir tjóni sökum athafnaleysis Ha og Hr og yrðu þau að bera halla af sönnunarskorti um að svo hafi ekki verið. Voru þau in solidum dæmd til að greiða P skaðabætur að álitum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2000 og krefst þess aðallega að stefndu greiði in solidum 4.946.852 krónur með 6% ársvöxtum frá 1. desember 1993 til 1. apríl 1994 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, en til vara 3.782.524 krónur með 6% ársvöxtum frá 27. febrúar 1992 til 3. október sama ár og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eftir ákvæðum 5., sbr. 1. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gat bótakrafa áfrýjanda vegna slyssins í nóvember 1989 ekki orðið forgangskrafa í þrotabú Polarfrosts hf. að liðnum átján mánuðum frá slysdegi. Var sá tími þegar liðinn í maí 1991, áður en stefndi Hafsteinn tók að sér málið. Er því sýnt að krafan hefði hvorki fengist greidd úr þrotabúi Polarfrosts hf., þar sem ekkert fékkst upp í almennar kröfur, né hefði hún átt að greiðast úr ábyrgðarsjóði launa, sbr. e. lið 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Verður því að telja að krafa áfrýjanda á hendur Polarfrosti hf., hafi hún verið til, hafi glatast við gjaldþrot félagsins. Kemur þá til skoðunar hvort stefndu hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi orðið skaðabótaskyld gagnvart áfrýjanda, svo og hvort hún hafi orðið fyrir tjóni af þeirra völdum.
II.
Svo sem lýst er í héraðsdómi veitti áfrýjandi stefnda Hafsteini umboð 1. október 1991 til að gæta hagsmuna hennar að því er varðaði bótarétt vegna meiðsla er hún hlaut við slys sem hún varð fyrir við vinnu sína hjá Polarfrosti hf. Ekki er sýnt að stefndi Hafsteinn hafi þá aflað frekari upplýsinga um tjónsatburðinn eins og eðlilegt var, svo sem með því að óska eftir lögregluskýrslu eða vitnamáli. Ritaði Hafsteinn félaginu bréf fyrst 6. janúar 1992, þar sem meðal annars var tekið fram að ekki hefði verið tilkynnt um slysið og þess óskað að slík tilkynning yrði send sem fyrst. Voru jafnframt gerðar ráðstafanir til þess að örorka áfrýjanda vegna slyssins yrði metin og skilaði Björn Önundarson læknir umbeðnu örorkumati 5. febrúar 1992. Þá reiknaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur örorkutjón hennar 27. sama mánaðar. Af gögnum málsins verður ekki séð að stefndi Hafsteinn hafi, að þessum gögnum fengnum, aðhafst nokkuð frekar í máli áfrýjanda fyrr en 24. ágúst 1992 er hann, fyrir hennar hönd, krafði Tryggingamiðstöðina hf. um bætur vegna slyssins. Með símbréfi 2. september 1992, eftir að í ljós kom að Polarfrost hf. var ekki ábyrgðartryggt hjá Tryggingamiðstöðinni hf., krafði Hafsteinn Polarfrost hf. svara um það hvort félagið hefði á slysdegi verið ábyrgðartryggt annars staðar. Ítrekaði hann þessa ósk sína 26. október sama ár. Með bréfi lögmanns fyrirtækisins til Hafsteins 11. desember 1992 var hafnað bótaábyrgð þess á tjóni áfrýjanda og 18. janúar 1993 sendi sami lögmaður Hafsteini afrit bréfs Vinnueftirlits ríkisins 14. janúar 1993 vegna málsins.
Gögn málsins bera ekki með sér að Hafsteinn hafi að bréfum þessum fengnum gert frekari ráðstafanir í því skyni að halda kröfu áfrýjanda til laga. Lét hann af rekstri lögmannsstofu sinnar 1. september 1993 og tók dóttir hans, stefnda Hrund, þá við máli áfrýjanda úr hans höndum. Hún hafði verið fulltrúi hans og síðar meðeigandi að stofunni. Hafsteinn aflaði ekki skriflegs samþykkis áfrýjanda fyrir þessari tilhögun, en ekki verður annað séð en að áfrýjandi hafi sætt sig við hana. Áfrýjandi heldur því jafnframt fram að hann hafi gefið henni tilefni til að ætla að hann myndi fylgja málinu eftir með einum eða öðrum hætti, þótt hann hyrfi til annarra starfa.
Stefnda Hrund kveðst hafa kannað fjárhagsstöðu Polarfrosts hf. um haustið 1993 og þá komist að raun um bága fjárhagsstöðu félagsins. Í stað þess að höfða mál á hendur félaginu taldi hún rétt að bíða eftir nýju örorkumati og óska síðan eftir enn nýju mati frá öðrum lækni. Þá sótti hún um gjafsóknarleyfi fyrir áfrýjanda 20. janúar 1994 og fékk það 18. febrúar sama ár. Að gjafsóknarleyfinu fengnu lét hún þó ekki verða af því að höfða málið. Hún lýsti ekki kröfu áfrýjanda í þrotabú Polarfrosts hf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 12. ágúst 1994, fyrr en að liðnum mánuði frá lokum kröfulýsingarfrests.
III.
Lögmenn bera ríka ábyrgð gagnvart skjólstæðingum sínum, eins og aðrir sérfróðir menn, sem taka að sér gegn gjaldi ýmis konar sérfræðiþjónustu og stunda þá starfsemi sem sjálfstæðan einkaatvinnurekstur. Í siðareglum lögmanna segir meðal annars að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og að lögmanni beri að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni.
Þegar litið er til þess sem að framan er rakið um samvinnu stefndu á lögmannsstofu stefnda Hafsteins og starfa þeirra beggja að máli áfrýjanda ber við úrlausn máls þessa að meta störf þeirra fyrir áfrýjanda í heild en ekki sundurgreint svo sem bæði stefndu krefjast. Eins og rakið hefur verið lét stefndi Hafsteinn ekki verða af því að höfða mál á hendur Polarfrosti hf., en til þess áttu að vera skilyrði þegar á fyrri hluta árs 1992. Þá var tilefni til þess orðið mjög brýnt snemma árs 1993, eftir að fyrirtækið hafði hafnað allri bótaskyldu. Þetta aðgerðarleysi hefur ekki verið nægilega réttlætt. Verður og að telja stefndu Hrund ekki hafa brugðist eins skjótt við og vænta mátti af starfandi lögmanni, eftir að hún fékk mál áfrýjanda til meðferðar. Með því að stefndu héldu kröfu áfrýjanda á hendur Polarfrosti hf. ekki fram með eðlilegum hraða, telst meðferð þeirra á máli áfrýjanda ekki samræmast þeim ríku kröfum, sem gera verður til lögmanna. Teljast þau því bera skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda hafi hún orðið fyrir tjóni af þeirra völdum.
IV.
Ekkert liggur fyrir um um gjaldfærni og fjárhagsstöðu Polarfrosts hf. á árunum 1992 og 1993. Fyrirtækið hafði ekki sinnt skyldu sinni um að tilkynna slys áfrýjanda í nóvember 1989 til lögreglustjóra og Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í ljósi ungs aldurs áfrýjanda er tjónið varð og lýsingar hennar á aðdraganda slyssins að öðru leyti þykir, með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í málum vegna slysa á börnum og unglingum við sambærileg störf, verða að fallast á það með áfrýjanda að líkur séu fyrir því að hún hefði fengið dæmdar bætur að einhverju leyti úr hendi vinnuveitanda síns, hefði kröfum hennar gagnvart honum verið haldið til laga. Þar sem svo var ekki gert þykja nægar líkur hafa verið leiddar að því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni sökum athafnaleysis stefndu og verða þau að bera halla af sönnunarskorti um að svo hafi ekki verið.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verða stefndu in solidum dæmd til að greiða áfrýjanda skaðabætur, sem að álitum teljast hæfilega metnar 1.500.000 krónur með hliðsjón af gögnum um útreikning á kröfu hennar á hendur Polarfrosti hf. og hugsanlegri sakarskiptingu. Verða vextir dæmdir frá þingfestingu máls þessa í héraði, eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað er staðfest.
Stefndu greiði áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði segir.
Það er aðfinnsluvert að í niðurlagi forsendna sinna vísar héraðsdómari til rökstuðnings stefndu án frekari tilgreiningar, andstætt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Stefndu, Hafsteinn Hafsteinsson og Hrund Hafsteinsdóttir, greiði in solidum áfrýjanda, Pálínu M. Poulsen, 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. október 1999 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Stefndu greiði in solidum 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Pálínu M. Poulsen, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun talsmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Pálínu M. Poulsen, kt. 110574-3129, Einarsnesi 78, Reykjavík, á hendur Hafsteini Hafsteinssyni, kt. 031239-4439, Viðjugerði 7, Reykjavík, og Hrund Hafsteinsdóttur, kt. 300464-5489, Flyðrugranda 8, Reykjavík, með stefnu sem birt var 28. september 1999 og 7. október 1999.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 4.946.852 krónur með 6% ársvöxtum frá 1. desember 1993 til 1. apríl 1994, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 3.782.524 krónur með 6% ársvöxtum frá 27. febrúar 1992 til 3. október 1992, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda, Hafsteins Hafsteinssonar, eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Endanlegar dómkröfur stefndu, Hrundar Hafsteinsdóttur, eru aðallega að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins er taki mið af málskostnaðarreikningi meðstefnda.
Með bréfi dómsmálaráðherra 13. september 1999 fékk stefnandi gjafsókn vegna þessa máls.
I.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að 21. nóvember 1989 varð stefnandi fyrir slysi við vinnu í frystihúsi í Höfnum á Reykjanesi sem þá var rekið af Pólar-Frost hf., kt. 430589-1059, en félag þetta var úrskurðað gjaldþrota 12. ágúst 1994.
Tildrögum slyssins er þannig lýst í umsókn um gjafsókn frá 20. janúar 1994: „[Stefnandi] sem þá var aðeins 15 ára gömul, var að kasta beingörðum upp í færiband, sem var aftan við flattningsvél. Færibandið tók beingarðana og flutti þá í kar. Þegar færibandið hafði ekki við þá myndaðist hrúga sem [stefnandi] tók og setti á færibandið. Engar hlífar voru á færibandinu og þurfti stefnandi að beygja sig undir bandið til að komast að beingörðunum. Stefnandi var í sjóstakk við vinnu sína og þegar hún var að setja beingarðana á færibandið eitt sinn, festist stakkurinn í færibandinu og vinstri hönd hennar dróst inn í færibandið."
Í örorkumati frá 5. febrúar 1992 er rakið læknisvottorð frá slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík, dags. 6. nóvember 1991, svohljóðandi:
„Þann 21.11.1989 kl. 22.20 kom ofanskráð á Slysadeild Borgarspítala. Þann hinn sama eftirmiðdag hafði hún við vinnu sína við fiskverkun suður í Keflavík lent með vinstri hendi í færibandi. Virðist hún hafa klemmst en ekki var um sár að ræða. Rtg. mynd sýndi engan áverka á beinum en kliniskt var ekki hægt að útiloka epiphyseolysu distalt í radius og e.t.v. ulna. Verkir voru mjög diffust og fékk sjúklingur dorsala gipsspelku og síðan var ákveðið endurmat eftir viku.
Þann 28.11 voru verkir miklir um úlnliðinn og átti sjúklingur erfitt með að hreyfa fingur vegna sársauka. Engin skyntruflun var í fingrum og var ákveðið að halda áfram spelkumeðferðinni og enn ákveðin endurkoma eftir u.þ.b. 10 daga.
Næst kom sjúklingur 06.12 og var þá ástandið mun betra. Farin að hreyfa fingur en þó sársaukafullt. Við lokakomu 18.12 var hún orðin miklu betri, hreyfingar bæði í úlnlið og fingrum nánast eðlilegt, eins eymsli við þrýsting yfir distala radius og ulna. Sjúklingur var nú talin vinnufær frá 23.12 og útskrifaðist hún af Slysadeildinni án umbúða. Ekki var henni stefnt til endurkomu og ekki virðist hún hafa sótt heim Slysadeildina síðar vegna þessa."
Stefnandi leitaði til Hafsteins Hafsteinssonar hrl., sem þá rak lögmannsstofu að Síðumúla 1, hér í borg, og veitti honum umboð 1. október 1991 til að gæta hagsmuna hennar „varðandi bótarétt minn vegna meiðsla, sem ég hlaut í slysi við vinnu mína hjá Polarfrosti hf., í desember 1989." Hafsteinn fékk Björn Önundarson lækni til að meta örorku af völdum slyssins. Mat hann varanlega örorku stefnanda 20%. Og með bréfi 24. ágúst 1992 til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. krafðist lögmaðurinn bóta fyrir stefnanda sem byggð var á tjónsútreikningi tryggingafræðings á grundvelli örorkumatsins. Kom þá í ljós að Pólar-Frost hf. hafði ekki ábyrgðartryggingu hjá tryggingafélaginu eins og talið hafði verið. Og með bréfi lögmanns Pólar-Frosts hf. 11. desember 1992 var bótakröfu stefnanda á hendur félaginu hafnað.
Lögmaður Pólar-Frosts hf. leitað álits Vinnueftirlits ríkisins á slysi stefnanda og segir í svarbréfi vinnueftirlitsins til lögmannsins, dags. 14. janúar 1993, m.a.
„Eins og fram kemur í bréfaskriftum milli yðar og lögmanns Pálínu Margrétar var vinnueftirlitinu ekki tilkynnt um slysið þegar það átti sér stað og ekki heldur síðar. Einnig koma fram fullyrðingar um ástand færibandsins sem slysið varð við. Vinnueftirlitið leggur ekki dóm á þessar fullyrðingar en vísar til þess að eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins hafa skoðað vélar, húsnæði og búnað hjá Pólarfrost árlega eins og reglur sem við vinnum eftir kveða á um.
10.02.´90 var skoðað hjá Pólafrost í Höfnum af Gesti Friðjónssyni samkvæmt eftirlitsskýrslu nr. 18688. Þar eru ekki gerðar athugasemdir við hlífabúnað færibandsins.
22.04.´91 var skoðað í Kópavogi af Steinþóri Einarssyni samkv. eftirlitsskýrslu nr. 26959 og engar athugasemdir gerðar. 15.06.´92 var skoðað af Steinþóri Einarssyni þá á Eyrartröð í Hafnarfirði samkv. eftirlitsskýrslu nr. 33210 og engar athugasemdir gerðar. Samkvæmt áætlun skal skoða hjá Pólarfrosti fyrir mitt ár 1993.
Samkvæmt beiðni yðar skoðuðu undirritaðir starfsmenn Vinnueftirlitsins umrætt færiband þann 7. janúar 1993. Við skoðun kom í ljós að færibandið stenst kröfur um hlífabúnað samkvæmt reglum um öryggisbúnað véla nr. 492/1987."
Af hálfu stefnda, Hafsteins Hafsteinssonar, segir, sbr. dskj. nr. 47 og 47, að er hér var komið hafi þótt öruggara, þar eð lögmenn Pólar-Frost hf. hefðu talið, að afleiðingar slyssins væru ekki eins alvarlegar og gögn málsins gæfu til kynna, að óska eftir frekari læknisskoðun og nýju örorkumati. En af ýmsum tilgreindum ástæðum er vörðuðu stefnanda hafi þá á tímabili verið erfitt að vinna að málum fyrir hana og hafi það því tekið drjúgan tíma að afla þessara gagna. Stefndi hefði síðan hætt lögmennsku 1. september 1993 en hið nýja örorkumat er dagsett 11. nóvember 1993.
Af hálfu stefndu, Hrundar Hafsteinsdóttur, er málavöxtum lýst með eftirgreindum hætti:
„Svo sem fram kemur í stefnu á dómskjali nr. 1 tók stefnda, Hrund, við rekstri lögmannsstofu stefnda Hafsteins þann 1. desember 1993, ... . Þá voru tæplega 4 ár frá slysi því er stefnandi lenti í, en Hafsteinn hafði unnið að málinu áður.
...
Hrund stefndi Póla-frost hf. ekki áður en félagið fór í þrot, enda blikur á lofti um gjaldfærni þess frá því hún tók við málinu. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 12. ágúst 1994, en frestdagur við skiptin var 24. júní það ár.
Kröfulýsing Hrundar var ekki tekin inn á kröfuskrá, enda barst hún of seint. Við skiptalok greiddist skiptakostnaður að fullu og kr. 422.754- upp í samþykktar forgangskröfur. Samtals greiddust 7,55% upp í forgangskröfur sem þýðir að kr. 5.599.390- hafa verið samþykktar sem forgangskröfur í búið."
II.
Stefnandi byggir málsókn sína á því að yfirgnæfandi líkur hafi verið fyrir skaða-bótaábyrgð Pólar-Frosts hf. sökum ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað félagsins. Engar hlífar hefðu verið á færibandi því, sem stefnandi vann við, til að varna slysi svo sem hér varð, enda þótt mönnum hefði verið kunnugt að alltaf duttu beingarðar undir færibandið, þegar það hafði ekki undan að flytja þá. Hlífðarföt þau, sem fyrirtækið lagði stefnanda til, hafi verið allt of stór á hana. Þá hafi leiðsögn yfirmanna Pólar-Frosts hf. verið lítil sem engin enda þótt stefnandi hafi þá aðeins verið 15 ára og einungis starfað hjá fyrirtækinu í einn og hálfan mánuð.
Kröfur sínar á hendur stefndu kveðst stefnandi reisa á sakarreglu skaðabótaréttarins með þeirri áherslu [strangara sakarmati] er vanræksla sjálfstæðra sérfræðinga í störfum fyrir umbjóðanda þeirra býður upp á. Þá sé byggt á því að stefndu hafi í störfum sínum fyrir stefnanda ekki fylgt ákvæðum siðareglna Lögmannafélags Íslands. Gagnvart stefnda, Hafsteini, sé einnig stuðst við reglur skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð sökum saknæmra verka stefndu, Hrundar, fulltrúa hans. Bótaskylda þeirra grundvallist einkum á eftirfarandi:
„1.Því aðgerðaleysi stefnda Hafsteins að hefjast ekki handa um málsókn á hendur Pólafrosti hf. um leið og skaðabótakröfur stefnanda var synjað 11. desember 1992 og rjúfa þar með fyrningu kröfunnar.
2.Því aðgerðaleysi beggja stefndu að þingfesta ekki stefnu þá sem stefnda, Hrund Hafsteinsdóttir, ritaði, líklega þann 26. ágúst 1993, en stefndi Hafsteinn starfaði þá enn sem lögmaður. Hefur ekki komið fram gild ástæða fyrir því að málið var ekki þingfest. Ef það hefði verið gert og bótaréttur stefnanda verið viðurkenndur með dómi, svo sem líklegt er, hefði stefnandi getað lýst kröfu sinni í þrotabú Pólarfrosts hf. sem forgangskröfu og því verið örugg um að fá hana bætta úr ábyrgðasjóði launa, sbr. e-lið 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Málsókn fyrir 12. ágúst 1994 hefði væntanlega einnig nægt til að tryggja hagsmuni stefnanda, en af málsókn varð ekki.
Ítrekuð vanræksla stefndu við að stefna málinu er sérlega ámælisverð þegar haft er í huga að fyrsta örorkumat og tjónsútreikningur lá fyrir 27. febrúar 1992, rúmum 29 mánuðum fyrir gjaldþrotaúrskurð Pólarfrosts hf. og gjafsókn frá dómsmála-ráðuneytinu til reksturs málsins var veitt 18. febrúar 1994.
3. Þá voru ekki viðhöfð forsvaranleg vinnubrögð þegar kröfu stefnanda var lýst í þrotabú Pólafrosts hf. Eins og áður segir var Pólafrost hf. tekið til gjaldþrotaskipta í ágúst 1994 og rann frestur til kröfulýsingar út þann 30. nóvember 1994. Stefnda, Hrund Hafsteinsdóttir, lýsti ekki kröfu stefnanda í þrotabúið fyrr en 29. desember s.á. og var kröfunni þegar hafnað. Engar skýringar hafa komið fram á þessari vanrækslu stefndu við að halda fram rétti stefnanda, skjólstæðings síns.
Kröfulýsing í þrotabú telst til vinnu að beinum lögfræðilegum framkvæmdaatriðum.
4. Sá háttur sem hafður var á er stefnda, Hrund Hafsteinsdóttir, tók við máli stefnanda af stefnda, Hafsteini Hafsteinssyni, virðist ekki í samræmi við lög. Hvorki var leitað samþykkis stefnanda fyrir þeirri yfirtöku í samræmi við 2. mgr. 10. gr. siðareglna L.M.F.Í., né var henni tilkynnt um yfirtökuna. Skal það tekið fram, eins og fram kemur í áliti L.M.F.Í. frá 20. janúar 1999, að lögmannsstofa Hafsteins Hafsteinssonar var lögð niður er hann hætti störfum í september 1993 og Hrund Hafsteinsdóttir stofnaði nýja lögmannsstofu á grunni þeirrar gömlu á sama tíma. Tók hún þá við máli stefnanda án þess að hafa til þess umboð eða samþykki stefnanda og brýtur það í bága við núgildandi 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. 4. gr. laga um málflytjendur nr. 61/1942.
5. Tjón stefnanda er bein afleiðing af vanrækslu stefndu, enda er væntanlega óumdeilt að bótaskylda hvíldi á Pólarfrost hf., a.m.k. er sú niðurstaða rökstudd í innheimtubréfum og stefnudrögum sem stefndu útbjuggu."
Stefnandi kveðst hafa falið stefnda, Hafsteini Hafsteinssyni, einum að gæta hagsmuna sinna gagnvart Pólar-Frosti hf. en henni hafi verið kunnugt að Hafsteinn hefði skilið málið eftir í höndum meðstefndu, Hrundar, sem er dóttir stefnda, Hafsteins. Óhjákvæmilegt hefði verið að stefna þeim báðum, Hafsteini og dóttur hans, óskipt til greiðslu skaðabóta sökum þess að þau hefðu kosið að greina í engu frá því, hvers vegna skaðabótamáli var ekki stefnt á sínum tíma, og ekki svarað fyrirspurnum af hálfu stefnanda um hvernig hagsmunagæslu þeirra hvors fyrir sig fyrir stefnanda hefði verið háttað, þannig að greina mætti sök hvors þeirra á tjóni stefnanda. Þá sé til þess að líta að þau hefðu átt þess kost, sem þau ekki nýttu, að leita eftir samþykki kröfuhafa í þrotabúi Pólar-Frosts hf. um að skaðabótakrafa stefnanda á hendur þrotabúinu kæmist að sem forgangskrafa. - Með því móti hefðu þau getað bætt fyrir fyrri mistök sín.
III.
Stefnandi kveðst miða við örorkumat Björns Önundarsonar frá 11. nóvember 1993, þar sem varanleg örorka hennar er metin 30%, og tjónsútreikning Jóns Erlings Þorlákssonar frá 1. desember 1993. Áfallnir vextir á útreikningsdegi séu lagðir við höfuðstól. Aðrir töluliðir og forsendur séu eins og stefndu lögðu til í uppkasti af stefnu frá 26. ágúst 1993. Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína svo þannig:
„1. Bætur fyrir tímabundna örorku kr. 91.600-
2. Bætur fyrir varanlega örorku
2.1. Skv. útreikningi J.E.Þ. kr. 5.545.100,-
2.2. Frádr. frá T.R. kr. 765.400,-
kr.4.779.700,-
Frádráttur 25% kr.1.194.925,-
kr.3.584.775,-
3Töpuð lífeyrisréttindi kr.332.700,-
4.Miskabætur kr.300.000,-
5.Kostnaður vegna læknishjálpar kr.30.000,-
6.Kostnaður við að sannreyna tjón kr. 60.865,-
kr.4.399.940,-
7.Vextir skv. tjónsútr. J.E.Þ. frá slysdegi til
útreikningsdags 01.12.1993, 12.42% kr.546.912,-
Samtals kr.4.946.852,-"
Stefnandi segir varakröfu sína hina sömu og greint sé frá í drögum af stefnu þeirri sem dagsett er 26. ágúst 1993. Þá hafi stefndi, Hafsteinn, enn rekið lögmannsstofu sína „í félagi við stefndu, Hrund." Augsýnilega beri stefndu bæði á þessum tíma ábyrgð á að málið var ekki þingfest og fyrning gagnvart ábyrgðasjóði launa var ekki rofin. Tjón stefnanda af aðgerðarleysi stefndu nemi því dómkröfum í uppkastinu frá 26. ágúst 1993. Stefnandi kveðst til einföldunar bæta áföllnum 10.66% vöxtum á útreikningsdegi 27. febrúar 1992, 364.374 krónum, við höfuðstól, en dráttarvaxta sé krafist frá 3. október 1992 svo sem í áðurnefndu uppkasti. Í máli þessu séu dráttarvextir hluti af skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefndu og því ófyrndir eins og aðrir hlutar skaðabótakröfunnar.
IV.
Stefnda, Hrund Hafsteinsdóttir, krefst, eins og áður sagði, aðallega sýknu. Hún kveðst byggja það á því að grundvallarskilyrði skaðabótaréttarins um sök, orsakatengsl og sennilega afleiðingu af athöfn eða athafnaleysi hennar varðandi málefni stefnanda skorti í málinu.
Stefnda vísar til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að vinnuslys það, sem stefnandi lenti í 21. nóvember 1989, hafi verið með þeim hætti að vinnuveitandinn, Pólar-Frost hf., væri ábyrgur. Raunar bendi gögn málsins frekar til þess að svo hafi ekki verið. Í bréfi Vinnueftirlits ríkisins, dags. 14. janúar 1993, sbr. dskj. nr.15, komi fram að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við búnað færibandsins, sem stefnandi slasaðist við, hvorki fyrir né eftir slysið. Stefnda bendir á að einungis nokkrir mánuðir hefðu liðið frá því að hún hefði tekið við máli stefnanda 1. september 1993 og þar til frestdagur þrotabúsins rann upp. Ljóst væri að jafnvel þótt málinu hefði verið stefnt þá þegar hefði félagið ekki verið fært um að greiða kröfuna. Þá hafi ríkisábyrgð á kröfunni skv. lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota nr. 53/1993 fallið niður 21. maí 1991, þ.e. 18 mánuðum eftir slysdag. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að Pólar-Frost hf. hefði verið gjaldfært á þeim tíma, sem stefndi sá um mál hennar, og hugsanlegar aðgerðir af hálfu stefndu til að tryggja kröfuna hefðu nokkru máli skipt.
Stefnda mótmælir sérstaklega að hún hafi ekki haft heimild til að starfa að málinu eftir að stefndi, Hafsteinn, hætti lögmennsku. Stefnanda hafi verið full-kunnugt um að stefnda, Hrund, tók við málinu og gerði engar athugasemdir við það.
Stefnda heldur fram að hvernig sem á málið sé litið geti hún aldrei borið ábyrgð á greiðslu hærri fjárhæðar en sem nemur þeirri fjárhæð, sem greiðst hefði úr búinu, ef kröfu hefði verið lýst og skiptastjóri samþykkt hana sem forgangskröfu.
V.
Af hálfu stefnda, Hafsteins Hafsteinssonar, er því haldið fram að stefnandi hafi með samskiptum sínum við meðstefndu, Hrund, eftir að hann lét af rekstri lögmannsstofu sinnar 1. september 1993, samþykkt í raun að Hrund tæki að sér skaðabótamál stefnanda á hendur Pólar-Frosti hf. Hann gerir eftirfarandi grein fyrir málsástæðum sínum í greinargerð:
„1. Störf hans í þágu stefnanda voru að öllu leyti eðlileg og venjuleg miðað við efni málsins. ... Þess skal sérstaklega getið, að í svarbréfi lögmanna Pólarfrost hf. 11 desember 1992 á dskj. nr. 14 höfðu komið fram sjónarmið um að afleiðingarnar sem metnar höfðu verið í örorkumatinu á dskj. nr. 8 ætti e.t.v. ekki allar rót að rekja til slyssins. Þetta varð m.a. til þess, að málið varð ekki þingfest með stefnunni á dskj. nr. 16, þar sem talið var rétt að afla nýs örorkumats ...
2. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu, að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni, sem leitt geti til skaðabótaábyrgðar [stefnda] af þeim sökum sem stefnt er útaf. Í fyrsta lagi liggur ekki fyrir í málinu að stefnandi hafi átt skaðabótarétt á hendur fyrrverandi vinnuveitanda sínum vegna slyssins 21. nóvember 1989. En jafnvel þótt svo hefði verið, hefur ekki verið sýnt fram á að málssókn, sem hafist hefði við þau tímamörk, er [stefndi] hætti starfsemi sinni sem lögmaður, hefði leitt til þess að stefnandi hefði fengið kröfuna greidda, hvorki frá vinnuveitandanum né úr ábyrgðarsjóði launa ...
3. Af hálfu stefnanda er málssóknin að hluta á því byggð, að krafa hennar um skaðabætur vegna slyssins 21. nóvember 1989 hafi (endanlega) glatast henni vegna atburða, sem urðu eftir að [stefndi] hafði látið af störfum í hennar þágu. Þetta hlýtur, hvað sem öllu öðru líður, að standa kröfu hennar á hendur honum fyrir þrifum, því að í málatilbúnaðinum felst að tryggja hefði mátt hagsmuni stefnanda af kröfunni með aðgerðum eftir þetta tímamark.
4. Því er sérstaklega mótmælt ...
5. Kröfum stefnanda um eldri vexti en fjögurra ára miðað við þingfestingardag 12. október 1999 er mótmælt með vísan til 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í þessu efni skal tekið fram, að fyrndir vextir fram til útreikningsdags 1. desember 1993 eru felldir inn í höfuðstól stefnukröfunnar. Er þeim hætti við kröfugerðina að auki mótmælt sérstaklega.
6. Mótmælt er upphafstíma á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Elstu dráttarvextirnir samkvæmt kröfunni eru raunar fyrndir ... Fyrsta erindi stefnanda til stefndu um kröfuna er að finna í bréfi 19. apríl 1999 ... Þar er krafan ekki sett fram með ákveðinni fjárhæð. Er á því byggt, að upphafstími dráttarvaxta skv. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 geti ekki verið fyrr en mánuði eftir að krafa með ákveðinni fjárhæð er gerð. Það var ekki fyrr [en] með stefnunni sem slík krafa var gerð á hendur stefndu. Upphafstími dráttarvaxta getur því aldrei orðið fyrr en frá þingfestingardegi. Af hálfu [stefnda] er á því byggt, að eins og hér háttar væri eðlilegast, ef einhver krafa næði fram að ganga, að miða upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu, svo sem heimilt er að gera skv. 15. gr. vaxtalaga.
7. Málskostnaðarkrafa stefnda ...
8. Af gefnu tilefni í stefnu skal tekið fram að stefndi Hafsteinn Hafsteinsson hrl. var ekki með starfsábyrgðartryggingu fyrir rekstur sinn á þeim tíma sem hér um ræðir. Verði meðstefnda Hrund talið bera skaðabótaábyrgð vegna hins umstefnda tjóns stefnanda, er ljóst, að sú krafa fæst ekki greidd úr ábyrgðartryggingu Hrundar ... Valda því atvik sem stefnanda varða og snerta síðbúna kröfugerð hennar. Komi í slíku tilfelli til álita að dæma [stefnda] til ábyrgðar með meðstefndu, er á því byggt, að þetta leiði sjálfstætt til sýknu."
VI.
Stefnandi, Pálína M. Poulsen, kom fyrir dóm. Hún sagði m.a. að hún hefði verið að vinna á bak við flatningsvél í frystihúsi því, sem hér um ræðir, 21. nóvember 1989, við að gæta þess að beinagarðar festust ekki á færibandi sem bera átti þá þaðan í kar. Og er hún í eitt skipti hafi beygt sig niður eftir beinagarði hafi vír farið í stakkinn sem hún var búin og dregið aðra hönd hennar inn í færibandið. Hún kvaðst ekki hafa verið með nein verkfæri til að vinna verkið en lagt hafi verið fyrir hana að nota hendurnar við það. Hún kvað víra hafi staðið út úr færibandinu sökum þess að það var slitið eftir langa notkun. Hún sagði að skipt hafi verið um færiband seinna í sömu viku og hún lenti í slysinu. Þegar slysið varð kvaðst hún hafa verið búin sjóstakki og hönskum af verkstjóranum á staðnum - búnaði, sem var allt of stór á hana. Það hefði verið vinstri ermin á stakknum sem festist í færibandið. Rofi til að slökkva á færibandinu hefði ekki verið nálægt henni. Hún taldi að liðið hefðu u.þ.b. átta til tíu mínútur frá því að hún festist og þar til slökkt var á færibandinu.
Stefnandi kvað aðdraganda þess að stefndi, Hafsteinn, tók að sér að sækja skaðbætur fyrir hana úr höndum Pólar-Frosts hf. hafa verið þann, að hann hefði haft með „faðernismál" að gera fyrir barnsföður hennar. Umrætt slys stefnanda hefði borist í tal þeirra í milli og hann boðist til að taka að sér málið fyrir hana enda þótt hún teldi sig ekki hafa efni á að greiða málskostnað. Hann hefði tjáð henni að hún gæti fengið gjafsókn.
Borið var fyrir stefnanda dskj. nr. 49, sem tjáist vera bréf stefnanda, dags. 27. nóvember 1998 „Svar við greinargerð Hafsteins Hafsteinssonar hrl." Hún staðfesti að þetta væri hennar skrift. Hún sagði að samskipti hennar og Hafsteins hafi í byrjun verið í lagi. Hann hefði m.a. tjáð henni að hún ætti rétt á skaðabótum þar sem hún hefði fimmtán ára verið látin vinna við vél, sem hún hefði að réttu lagi ekki átt að koma nálægt. Þá hefði hann sagt henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af kostnaði við rekstur málsins þar sem hún fengi gjafsókn. Á þeim tíma er Hafsteinn var að hætta rekstri lögmannsstofu og að taka við stjórn Landhelgisgæslunnar, kvað hún Hafstein hafa sagt sér, að hann myndi eftirleiðis láta Hrund, dóttur sína, taka að sér mál hennar. Þetta væri samt hans mál og hann myndi halda áfram að hugsa um málið eins og hann hefði alltaf gert. Hún kvaðst alltaf hafa hringt til Hafsteins eftir þetta þegar hún gat ekki náð sambandi við Hrund. Hann hafi í hvert skipti tjáð henni að hann myndi tala við Hrund og athuga hvernig málið gengi. Hún kvaðst einu sinni hafa hitt þau bæði í fundarherbergi í Síðumúla eftir að Hafsteinn hætti rekstri lögmannsstofu, en hún kvaðst ekki muna alveg hvenær það var. Hún kvaðst ekki muna hvað þeim fór þá í milli en það hefði verið eitthvað í sambandi við málið. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa gefið þeim Hafsteini og Hrund nein sérstök fyrirmæli varðandi rekstur málsins, hún hefði treyst á þekkingu þeirra. Hún sagði að Hrund hefði haldið því fram að málinu yrði lokið fyrir áramót 1994/1995. Hún sagði að Hrund hefði aldrei sagt sér að hún væri að hætta rekstri lögmannsstofu. Hún kvaðst einu sinni hafa hringt í Hafstein eftir að núverandi lögmaður hennar tók við málinu í janúar 1997. Hún kvaðst hafa hringt í hann til að athuga hvort hún gæti fengið gögn málsins í hendur. Hann hefði hins vegar tjáð henni að hún fengi engin gögn fyrr en hún borgaði honum
Aðspurð kvaðst stefnandi sjálf hafa óskað eftir öðru örorkumati frá Birni Önundarsyni lækni, ekki löngu eftir að hið fyrra var gert, þar sem hún hafi talið sig haldna meiri örorku en þar hefði verið álitið. Hún kvaðst aðspurð hafa talið það í lagi að Hrund tæki við hennar máli þegar Hafsteinn hætti lögmennsku.
Stefndi, Hafsteinn Hafsteinsson, tjáði réttinum m.a. að hann hefði ritað og sent Lögmannafélagi Íslands bréf þau sem koma fram á dskj. nr. 46 - 48. Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki skrifað Tryggingamiðstöðinni hf. kröfubréf fyrr en 24. ágúst 1992, enda þótt tjónsútreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings á grundvelli fyrsta örorkumats Björns Önundarsonar læknis hefði verið tilbúinn 27. febrúar það ár, sagði hann, að með bréfi 6. janúar sama ár hefði hann óskað eftir skýrslu frá Pólarfrosti hf. vegna slyss stefnanda en skýrsla hefði ekki borist. Hann kvaðst áður hafa beðið stefnanda um að skýra nánar frá aðdraganda slyssins en illa hefði gengið að ná sambandi við hana og hafi það loks tekist eins og efni bréfsins til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. beri með sér. Um leið og þessi lýsing á aðdraganda slyssins hefði legið fyrir hefði kröfubréfið verið skrifað. Hann sagði að viðbrögð lögmanna Pólarfrosts hf. hafi síðan gefið fullgilda ástæðu til að afla læknisvottorða að nýju, til að kanna hvort örorka stefnanda væri ekki örugglega afleiðing af umræddu slysi, og afla nýs örorkumats. Sökum þess að erfitt hafi verið að ná sambandi við stefnanda hefðu tafir orðið á þessu. Aðspurður kvað hann stefnanda ekkert hafa greitt lögmannsstofunni. Þá kvaðst hann ekki hafa haft hugmynd um að Pólarfrost ætti í rekstrarörðugleikum á því tímabili sem hann fór með mál stefnanda.
Stefndi, Hafsteinn, sagði að stefnandi hafi ritað honum bréf, dags. 24. september 1991, ( dskj. nr. 3) að sinni beiðni til að upplýsa hann um aðdraganda að slysinu og afleiðingum. Hann sagði aðspurður að Hrund, dóttir hans, hafi verið byrjuð að vinna að máli stefnanda áður en hann hætti lögmannsstörfum. Hún hefði sótt um gjafsókn fyrir hönd stefnanda og fengi sent svar ráðuneytisins þar sem gjafsókn var veitt. Stefnanda hefði fyllilega verið ljóst áður en hann hætti lögmannsstörfum að Hrund hafði tekið við málinu, enda hafi stefnandi leitað til hennar ekki síður en til hans. Hann hefði rekið lögmannsstofu með dóttur sinni um nokkurt skeið áður en hann hætti lögmannsstörfum og rekstri stofunnar. Hann benti á að uppkast af stefnu, sem dóttir hans, Hrund, gerði [sbr. dskj. nr. 16], er dags. 26. ágúst 1993. Hann kvaðst ekki hafa skipt sér af neinum undirréttarmálum eftir 1. september 1993. Hann kvaðst ekki reka minni til þess að hafa átt fund með stefnanda og Hrund að Síðumúla 1 eftir 1. september 1993.
Hrund Hafsteinsdóttir gaf aðilaskýrslu fyrir réttinum. Í framburði hennar kom m.a. fram að ósamræmi milli læknisvottorða og því sem kom fram í mati eftir að örorkumatið frá 5. febrúar 1992 hafði verið gert hefði kallað á annað örorkumat. Ákvörðun um að annað örorkumat yrði gert hefði verið tekin áður en hún hefði tekið við málinu. Enda þótt uppkast að stefnu hefði legið fyrir í ágúst 1993 hafi stefnan ekki verið þingfest vegna þess að beðið hafi verið eftir nýju örorkumati. Þegar það hefði legið fyrir síðar um haustið 1993 hefði það svo gerst að Tryggingarstofnun ríkisins hafnaði því. Fyrirsjáanlegt hefði því verið að óska eftir nýju mati. Ekki hefði þótt forsvaranlegt að sækja mál á öðru örorkumati en lagt yrði fyrir Tryggingarstofnun ríkisins. Hún kvaðst, á þeim tíma sem hún hefði verið að bíða eftir örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis, hafa kannað fjárhagsstöðu Pólar-Frosts hf. eftir því sem tök voru á, ef til þess kæmi að félagið yrði úrskurðað gjaldþrota og komist að því að félagið hefði ekki burði til að greiða skaðabætur. Hún kvaðst hafa tjáð stefnanda þetta og gert henni grein fyrir því að yrði félagið úrskurðað gjaldþrota væri ríkisábyrgð á kröfunni fallin niður fyrir mörgum árum. Með þetta í huga hefði þótt raunhæft og skaðlaust að óska eftir nýju mati, ef eitthvað skyldi rofa til með fjárhagsstöðu Pólar-Frosts hf. Þótt gjafsókn hefði verið veitt 18. febrúar 1994 hefði þótt rétt að bíða eftir nýju örorkumati til að byggja málsókn á. Það hefði fyrst legið fyrir 6. september sama ár. Farist hafi fyrir að lýsa kröfunni á kröfulýsingarfresti í þrotabú Pólar-Frosts hf. en ljóst hefði verið að hún hefði aldrei fengið stöðu sem forgangskrafa heldur einungis sem almenn krafa í búið. Samþykki annarra kröfuhafa í þrotabúið um að krafan kæmist að hefði því heldur ekki haft neina þýðingu þar sem einungis brot af forgangskröfum fengust greiddar úr þrotabúinu. Aðspurð kvað hún stefnanda hafa verið ljóst að hún hafði tekið við máli hennar af stefnda, Hafsteini, enda hefði hún leitað til hennar eftir að hann hætti lögmannsstörfum. Hún kvaðst hafa byrjað sem fulltrúi á lögmannsstofu föður síns en síðar orðið meðeigandi stofunnar. Enginn skriflegur samningur hefði verið gerður þeirra í milli um einstök mál stofunnar er faðir hennar hætti rekstri stofunnar af sinni hálfu. Hún kvað föður sinn ekki hafa haft afskipti af málum lögmannsstofunnar eftir að hann hætti rekstri hennar en fylgst með einstaka máli eftir það, m.a. máli stefnanda. Hún kvaðst munnlega hafa gert stefnanda grein fyrir hvernig með mál hennar hafði verið farið.
Stefnandi, Pálína, kom aftur fyrir dóminn. Hún hafnaði því alfarið að stefndi, Hafsteinn, hefði átt í erfiðleikum með að ná sambandi við hana og fullyrti að hann hefði vitað hvar hún átti heima á hverjum tíma. Það væri einnig rangt að hún hefði beðið Hafstein um að ganga ekki hart að fyrirtækinu vegna þess að faðir hennar ynni þar. Þvert á móti hefði hún tjáð honum að henni stæði á sama, maðurinn væri fósturfaðir hennar. Móðir hennar og hann hefðu skilið skömmu eftir slysið og hefði hún ekki haft samskipti við manninn upp frá því. Hún sagði að Hrund hefði ekki gert henni grein fyrir því að kröfu hennar í þrotabúið hefði verið hafnað.
VII.
Niðurstaða:
Af hálfu stefnanda er haldið fram að yfirgnæfandi líkur hafi verið fyrir skaðabótaábyrgð Pólar-Frosts hf. Stefnandi hefði fengið bætur ef stefndu hefðu unnið lögmannsstörf sín með réttum hætti fyrir stefnanda.
Hvað sem hæft er í framangreindu verður skaðabótaábyrgð lögmanna stefnanda - sem byggð er að mestu á því, að lögmennirnir hafi ekki tímanlega fengið Pólar-Frost hf. dæmt til að greiða stefnanda bætur - aldrei alfarið jafnað við skaðabótaábyrgð Pólar-Frosts hf. á tjóni stefnanda. Þá verður einnig að líta til þess að lögmennirnir verða ekki bótaskyldir með ríkari hætti en Pólar-Frost hf. var. Þeim verður með öðrum orðum ekki gert að greiða hærri bætur en tjón stefnanda var við að hún fékk ekki greiddar bætur frá Pólar-Frost hf. eða þrotabúi félagsins eftir atvikum. Verður þá vikið að því hvort stefndu hafi sýnt af sér vanrækslu í störfum sínum fyrir stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefndi, Hafsteinn, hafi ekki hafist handa um málsókn á hendur Pólar-Frosti hf. um leið og skaðabótakröfu stefnanda var synjað 11. desember 1992 og þannig rofið fyrningu kröfunnar. Stefndi, Hafsteinn, hefur svarað þessu til á þann veg, að í svari lögmanna Pólar-Frosts hf. við kröfubréfi hans fyrir stefnanda, hafi komið fram sjónarmið, sem byggð voru á læknisvottorðum, er gáfu fullt tilefni til að kanna málavexti nánar og afla nýs örorkumats.
Fallist er á það með stefnda, Hafsteini, að nauðsynlegt hefði verið að fresta málsókn og kanna athugasemdir, sem fram komu í bréfi lögmanna Pólar-Frosts hf., enda var þar dregið í efa með rökstuddum hætti að örorka stefnanda stafaði að öllu leyti af slysi stefnanda 21. nóvember 1989. Nýtt örorkumat var því hluti af réttum undirbúningi málsóknar.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndu hafi með saknæmum hætti vanrækt að þingfesta stefnu, sem hafi verið tilbúin af þeirra hálfu 26. ágúst 1993. Hefði svo verið gert og bótaréttur stefnanda viðurkenndur með dómi, hefði stefnandi getað lýst kröfu sinni í þrotabú Pólar-Frosts hf. sem forgangskröfu og verið örugg um að fá hana bætta úr ábyrgðasjóði launa. Málsókn fyrir 12. ágúst 1994 hefði væntanlega einnig nægt til að tryggja hagsmuni stefnanda.
Stefnda, Hrund, lýsti því fyrir réttinum, að þrátt fyrir að uppkast af stefnu hefði legið fyrir í ágúst 1993, hefði ekki verið tímabært að birta hana fyrr en unnt hefði verið að byggja á nýrra örorkumati en þá lá fyrir - en óskað hafði verið eftir nýju örorkumati þar sem síðara örorkumati Björns Önundarsonar læknis hafði verið hafnað af Tryggingastofnun ríkisins. Ekki hefði þótt forsvaranlegt að sækja málið á öðru örorkumati en lagt yrði fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Hún kvaðst á þessum tíma hafa kannað fjárhagsstöðu Pólar-Frosts hf. og komist að því, að félagið hefði ekki burði til að greiða skaðabætur, og þar sem ríkisábyrgð á kröfunni hefði fallið niður fyrir mörgum árum, hefði þótt raunhæft og skaðlaust að óska eftir nýju mati, færi svo að eitthvað rofaði til með fjárhagsstöðu Pólar-Frosts hf.
Í lögum nr. 53/1993 er mælt fyrir um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að ábyrgð sjóðsins taki til tilgreindra krafa í bú vinnuveitanda „sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum". Samkvæmt e-lið 1. mgr. 5. gr. falla bætur til launþega, sem vinnuveitanda beri að greiða vegna tjóns af völdum vinnuslyss, undir ábyrgð sjóðsins, enda fylgi bótakröfunni forgangsréttur í bú vinnuveitandans. Í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem mælir fyrir um forgangskröfur, sem hér koma til álita, segir í 5. tölul. 1. mgr., að til þeirra teljist kröfur um bætur vegna örorku manns sem starfaði í þjónustu þrotamanns og varð þar fyrir slysi sem olli örorku og átti sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. En í 1. tölul. segir að um sé að ræða kröfur „sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag." Samkvæmt dskj. nr. 24, skrá yfir lýstar kröfur í þrotabú Pólar-Frosts hf., var frestdagur 24. júní 1994. Stefnandi krefst vaxta frá slysdegi, sem var 21. nóvember 1989, og verður sá dagur að teljast gjalddagi kröfunnar. Stefnandi veitti stefnda, Hafsteini Hafsteinssyni, umboð til að gæta hagsmuna hennar varðandi kröfu um skaðbætur vegna slyssins 21. nóvember 1989 með bréfi, sem dagsett er 1. október 1991, þ.e. tæpum tveimur árum eftir slysið. Ekki gat því komið til að ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota ábyrgðist bætur til stefnanda vegna vinnuslyss hennar hjá Pólar-Frosti hf. fyrir aðgerðir stefnda, Hafsteins. Þaðan af síður gat stefnda, Hrund, orkað einhverju í þeim efnum.
Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með skírskotun til rökstuðnings stefndu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar er greint í dómsorði.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Hafsteinn Hafsteinsson og Hrund Hafsteinsdóttir, skulu sýknuð af kröfum stefnanda, Pálínu M. Poulsen.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, samtals með virðisaukaskatti 400.000 krónur.