Hæstiréttur íslands
Mál nr. 838/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. janúar 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Að þessu frágengnu krefst hann þess að honum verði gert að sæta reglubundnu eftirliti, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fæddur [...], frá [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. janúar 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra með kröfunni segir að skömmu eftir miðnætti fimmtudaginn 2. október sl. hafi tollverðir á Keflavíkurflugvelli haft afskipti af farþega, A, sem hafi komið til landsins með flugi AB3546 frá Berlín. Farangur hennar hafi verið gegnumlýstur auk þess sem hún hafi verið tekin til frekari skoðunar í leitarklefa. Við leit á A hafi fundist pakkningar sem grunur lék á að innihéldu meint ávana- og fíkniefni. Pakkningarnar hafi vera faldar innanklæða á kærðu, nánar tiltekið í nærbuxum hennar. A hafi sagt að hún vissi ekki hvað væri í pakkningunum.
A hafi verið flutt af lögreglu á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ. Í samtali við lögreglu kvaðst hún vera með eina pakkningu til viðbótar falda í leggöngum sínum. A hafi fjarlægt þá pakkningu og afhent lögreglu. Pakkningarnar þrjár hafi verið sendar til tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til frekari rannsóknar. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar hafi pakkningarnar gefið svörun á kókaín og vegið 333,15 g, 149,28 g og 116,10 g. Pakkningarnar þrjár vegi því samtals 598,53 g.
Í farangri A hafi m.a. fundist handskrifaður miði með upplýsingum um það hvernig hún ætti að fara frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur og á hvaða hótel hún ætti að fara, en A kvaðst sjálf hafa skrifað miðann. Á honum hafi komið fram að hún ætti að fara með flugrútunni til Reykjavíkur og fara á hótel að nafni [...] Hótel. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi A átt að dvelja einn dag á Íslandi.
Þá kvaðst A hafa átt að hafa samband við íslenska símanúmerið [...], sem væri símanúmer aðilans sem ætti að taka við fíkniefnunum. Símanúmerið [...] hafi verið skráð undir nafninu „[...]“ í síma A. A hafi sagt nafnið „[...]“ ekki standa fyrir neitt sérstakt og að hún vissi ekki hvert raunverulegt nafn aðilans væri.
Lögregla hafi aflað úrskurðar til hlustunar og hljóðritunar á íslenska símanúmerinu [...], sbr. úrskurður í máli nr. R-[...]/2015. Hlustun og hljóðritun símanúmersins hafi hafist 2. október sl. en símanúmerið hafi fyrst verið notað 10. október sl. Hlustunin hafi leitt í ljós að enskumælandi kona sem hafi kallað sig „B“ hafi notað símann. Við hlustunina hafi einnig komið fram að kærasti konunnar, sem gangi undir nafninu „X“, virðist áður hafa verið notandi símanúmersins. Lögregla telji sterkan grun vera fyrir hendi að um sé að ræða B og X, en lögregla telji að þau hafi átt að taka við fíkniefnunum hér á Íslandi. X og B muni vera par.
Sunnudaginn 25. október 2015 hafi C og D komið til landsins með flugi FI555 frá Brussel. Hafi þeir haft meint fíkniefni falin innvortis, sbr. mál nr. 008-2015-11789.
Við yfirheyrslur hafi C og D greint frá því að þeir hafi átt að fá greiddar 500 evrur hvor, m.a. fyrir að flytja fíkniefni innvortis til Íslands. Þeir hafi greint frá því að þeir hafi átt að fara á fyrirfram ákveðið gistiheimili og hafi verið með heimilisfangið ritað á blað. Á miðanum hafi verið heimilisfangið [...], [...] Reykjavík, en þar sé [...] Hótel [...] til húsa. Þegar lögreglumenn hafi farið þangað hafi komið í ljós að þeir hafi ekki átt pantaða gistingu þar. Við rannsókn á farsíma C hafi fundist mynd af greiðslukvittun frá Hótel [...] í nafni D fyrir gistingu í eina nótt. Við skoðun í eftirlitsmyndavélakerfi hótelsins hafi mátt sjá tvo aðila greiða með reiðufé fyrir gistinguna og sá sem hafi greitt fyrir hana hafi verið X. Með X hafi verið B.
Efnin hafi verið send til tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til frekari rannsóknar. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar hafi samanlagt verið um að ræða 483,71 g af kókaíni.
Þeir C og D hafi greint frá því að hafa átt að fara á framangreint gistiheimili og þar hafi þeir átt að skila efnunum. Einnig hafi þeir greint frá því að þangað hafi átt að koma aðili og flytja þá á annan stað, en þeir hafi ekki greint frá því hver sá aðili sé eða hvert þeir hafi átt að fara. Þessi aðili hafi átt að hafa samband í farsíma C.
Síðdegis 29. nóvember sl. hafi lögregla handtekið E, [...] ríkisborgara, vegna gruns um að hún hefði fíkniefni í falin í fórum sínum við komu til landsins með flugi FI555 frá Brussel. Komið hafi í ljós að hún hafði pakkningu af ætluðu kókaíni falda í leggöngum sínum. Hafi grunuð vaknað um að efnunum yrði veitt viðtaka á Hótel [...], [...], Reykjavík, þar sem E hafi átt pantaða gistingu. Taldi lögregla að kærði, X, hefði aðkomu að málinu. Hafi honum verið veitt eftirför frá [...], Reykjavík, þaðan sem hann hafi farið á gistiheimilið á bifreiðinni [...]. Hafi kærði verið handtekinn þegar hann hafi bankað á herbergisdyr E, grunaður um aðild að málinu.
Í kjölfarið hafi lögregla farið aftur að [...] í þeim tilgangi að framkvæma leit í herbergi sem kærði hafi haft þar til leigu. Við leitina hafi fundist mikið magn af peningaseðlum, bæði evrur og íslenskar krónur, ætluð fíkniefni, farsímar og töluvert magn af pappírum, samtals 770.000 íslenskar krónur, 18.755 evrur og smáræði af fíkniefnum. Við leit í bifreið kærða hafi töluvert magn fjármuna fundist, samtals 551.899 íslenskar krónur og 5 evrur, auk kvittunar fyrir gistingu E á [...], samskonar kvittun og hafi fundist í fórum E. Þá hafi kærði haft samtals 1.000 evrur á sér við handtökuna.
Samtals hafi lögregla haldlagt 1.321.899 kr. og 19.760 evrur, u.þ.b. 2.796.435 kr. Alls sé um að ræða u.þ.b. 4.118.334 kr. Í [...] hafi B einnig verið handtekin.
B hafi verið yfirheyrð vegna málsins 2. desember sl. og aftur 9. desember sl. B kveðst hafa fengið GSM símana og númerin hjá kærða en þegar kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins 2. desember sl. og aftur 10. desember sl. þá hafi hann neitað því að hafa látið B hafa síma og símanúmer og kvaðst ekki muna nein símanúmer sem hann hafi haft til umráða á Íslandi.
B hafi einnig viðurkennt að hafa farið með kærða að Hótel [...] til að bóka gistingu en hún hafi ekki vitað fyrir hvern gistingin var. Þegar kærði hafi verið spurður hvort hann hafi bókað gistingu á Hótel [...] þá hafi hann sagt að hann hefði aldrei bókað gistingu þar. Þegar kærða hafi verið sýndar myndir úr eftirlitskerfi hótelsins, þar sem hann og B hafi komið og keypt gistingu, hafi hann neitað að hafa keypt hótelgistingu á umræddu hóteli. Það sé í verulega ósamræmi við bæði gögn málsins og vitnisburð B.
Kærði hafi dvalið meira og minna á Íslandi síðan í mars á þessu ári. Hann sé [...] ríkisborgari með ítalskt dvalarleyfi. Hann sé hvergi skráður til vinnu hér á landi og sé ekki í hælismeðferð. Að mati lögreglu sé vandséð að þeir fjármunir sem kærði hafði undir höndum séu afrakstur lögmætrar starfsemi kærða. Þá hafi kærði að mati lögreglu gefið ótrúverðugar skýringar á því hvernig hann hafi aflað þessara fjármuna.
Við rannsókn málsins hafi lögregla hlustað nokkur símanúmer sem skráð hafi verið á kærða og notuð af honum eða B. Sé það mat lögreglu að kærði og B standi að baki þessum fíkniefnainnflutningi.
Kærði hafi setið í gæsluvarðahaldi vegna málsins frá 30. nóvember sl.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miði m.a. að því að upplýsa um hlutverk kærða í framangreindum innflutningi ávana- og fíkniefna auk þess sem rannsaka þurfi ætlað peningaþvætti kærða.
Lögregla telji sig þurfa svigrúm til að rannsaka málið nánar, áður en kærði verði látinn laus úr haldi lögreglu. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla verulega hættu á að kærði kunni að koma undan sönnunargögnum og reyna að hafa áhrif á önnur vitni í málinu og hafa þannig áhrif á frásögn þeirra af atvikum málsins. Í ljósi alls framangreinds telji lögregla að skilyrðum a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt í málinu.
Þá byggi lögreglustjóri á því að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki hafa nein tengsl við land og þjóð, en hann stundi hvorki atvinnu hér né eigi fjölskyldu eða vini hér á landi. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans sé til meðferðar hjá lögreglu. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, um gæsluvarðhald, sé fullnægt í málinu. Vísað sé í þessu skyni einnig til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.
Að mati lögreglustjóra séu lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Annars vegar sé verið að rannsaka nokkur mál sem tengist innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafa verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Háttsemi kærða kunni því að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Kærði liggi undir grun um að hafa haft beina aðkomu að því að flytja hin meintu fíkniefni hingað til lands.
Hins vegar sé verið að rannsaka þvættisbrot kærða og eftir atvikum annarra sem honum tengjast. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 264. gr. sömu laga.
Lögreglustjóri telji hættu á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri öll skilyrði uppfyllt til að fallist verði á kröfuna og að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. janúar 2016, kl. 16:00.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað, til vara að kærða verði gert að sæta farbanni, til þrautavara að kærða verði gert að sæta reglubundnu eftirliti en til þrauta þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, svo og rannsóknargagna málsins, er fallist á með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Einnig ber að líta til þess að kærði er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið og má ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Er fullnægt skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. janúar 2016, kl. 16:00.