Hæstiréttur íslands
Mál nr. 276/1999
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fasteign
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 1999. |
|
Nr. 276/1999. |
Sigurlaug Halldórsdóttir (Gylfi Thorlacius hrl.) gegn íslenska ríkinu (Sigrún Guðmundsdóttir hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Fasteign.
S féll í tröppum lögreglustöðvar en snjór var í tröppunum. Stefndi hún íslenska ríkinu til greiðslu bóta fyrir það tjón, sem hún varð fyrir við fallið. Talið var að S hefði borið að sýna sérstaka gát, enda hefði henni mátt vera ljóst hvernig aðstæður voru. Hefði henni ekki tekist að sýna fram á að slysið yrði rakið til yfirsjónar eða vanrækslu manna, sem ríkið bar ábyrgð á. Var því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.271.100 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 9. október 1993 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli þá niður.
I.
Áfrýjandi kom til rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík 8. mars 1993 og kvaðst hafa slasast á tröppum lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu 113 um kl. 15 hinn 13. janúar það ár. Í skýrslu, sem þá var skráð, lýsti áfrýjandi atvikinu svo: „Þegar ég var að ganga niður tröppurnar rann ég í einni af tröppunum. Það var talsverður snjór á tröppunum en tröppubrúnirnar stóðu út úr snjónum. Við það að renna til féll ég en gat gripið í handriðið mér til stuðnings. Ég bar samt fyrir mig hægri hendina þegar ég datt.“
Sama dag ritaði aðstoðaryfirlögregluþjónn frásögn um slysið á skýrslueyðublað. Þar segir svo: „Tröppurnar inn á lögreglustöðina eru fimm og höfðu þær fyllst af snjó. Snjórinn hafði troðist og myndast hálka, sem virkaði eins og rennibraut niður tröppurnar.“ Fyrir dómi kvaðst aðstoðaryfirlögregluþjónninn hafa skráð þessa frásögn sína eftir punktum frá 13. janúar 1993. Hann bar einnig að eftir óhappið hafi verið kallað á sig og hann hitt áfrýjanda í anddyri lögreglustöðvarinnar. Hafi hann síðan farið út og séð að snjór í tröppunum var nýfallinn og troðin slóð hafi verið þar. Í henni hafi verið hált. Hafi þetta myndað „svona rennibraut“. Nánar aðspurður sagði hann að sig minnti að logndrífa hafi verið öðru hvoru megin við hádegið. Því hafi snjórinn verið hreinn. Hafi hann falið húsverði að hreinsa tröppurnar og stéttina fyrir framan.
Fyrir dómi skýrði áfrýjandi svo frá að kalt hafi verið í veðri og snjór yfir öllu. Tröppurnar hafi verið fullar af snjó, þannig að þær hafi nánast verið eins og rennibraut, en brúnir þeirra hafi verið auðar.
Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var snjódýpt í Reykjavík frá 30. desember 1992 til 11. janúar 1993 frá 10 cm til 27 cm, en 17 cm daginn fyrir slysið. Hinn 11. og 12. janúar var jörð alþakin misþykku lagi af þéttum eða votum snjó. Loks kemur fram í vottorði Veðurstofunnar að engin úrkoma hafi verið í Reykjavík kl. 9, 12 og 15 slysdaginn, en kl. 15 hafi verið úrkoma í grennd við veðurathugunarstaðinn. Við mælingar á sama tíma var frost 1,7°, 1,8° og 2,6°. Þessar upplýsingar frá Veðurstofunni styðja framburð áfrýjanda og aðstoðaryfirlögregluþjónsins, sem áður er getið, um að snjór hafi verið í tröppunum, þótt þær bendi ekki til að hann hafi verið nýfallinn, eins og sá síðarnefndi bar fyrir dómi. Verður því lagt til grundvallar að snjór hafi verið á umferðarleiðum fótgangenda í borginni, þar á meðal í tröppunum við lögreglustöðina.
Í umrætt sinn var áfrýjandi á förum til Bandaríkjanna ásamt þáverandi eiginmanni sínum og tveimur börnum, sem biðu í bifreið þeirra hjóna meðan þau sinntu erindum á lögreglustöðinni. Sagðist áfrýjandi hafa verið að flýta sér út í bifreiðina til þeirra. Áfrýjandi kvaðst hafa meitt sig mjög mikið við fallið. Áfrýjandi leitaði þó ekki læknis og sagði ástæðu þess hafa verið þá að klukkan hafi verið að verða þrjú, en flugvélin hafi átt að leggja af stað tveimur tímum síðar. Ekki leitaði áfrýjandi heldur læknis á meðan á tveggja vikna dvöl fjölskyldunnar í Bandaríkjunum stóð.
II.
Þegar slysið bar að höndum var bjart af degi. Svo sem fyrr greinir lýsti áfrýjandi aðstæðum svo að tröppurnar hafi verið fullar af snjó, nánast eins og rennibraut. Ef svo var, bar áfrýjanda að sýna sérstaka aðgæslu, einkum með því að halda sér í handriðið og þræða brúnir, sem voru að hans sögn auðar. Er þess einnig að gæta að áfrýjandi hafði skömmu áður gengið upp tröppurnar og hlaut að vera ljóst hvernig aðstæður voru. Ekki hefur verið leitt í ljós að vanbúnaður á tröppunum hafi átt þátt í slysi áfrýjanda.
Samkvæmt þessu verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á, að slysið verði rakið til yfirsjónar eða vanrækslu manna, sem stefndi ber ábyrgð á. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Aðilarnir skulu hvor bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 26. mars sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 23. júní 1998 og þingfestri 25. sama mánaðar.
Stefnandi er Sigurlaug Halldórsdóttir, kt. 091159-2529, Kaplaskjólsvegi 61, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefndi verði dæmdur til að greiða 2.271.100 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. október 1993 til greiðsludags. Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti þann 9. október 1994. Jafnframt er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts skv. málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda:
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati réttarins.
Til vara er gerð krafa um lækkun á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Málavextir
Að sögn stefnanda var hún þann 13. janúar 1993 um klukkan 15:00 á leið út af lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113 í Reykjavík þegar hún rann til í hálku á tröppunum. Að sögn stefnanda var snjór á tröppunum þegar óhappið varð.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að tröppurnar hafi ekki verið ruddar en á þeim hafi verið snjór sem hafi troðist niður og myndað hálku ofan á flísum þeim sem á tröppunum eru.
Stefnandi kveðst hafa fallið á bak og hægri mjöðm með þeim afleiðingum að hún hafi fundið til sársauka í baki, mjöðm og öxl. Auk þess kveðst stefnandi hafa fengið verk í höfuð og herðar, sérstaklega hægri öxl. Stefnandi kveðst hafa verið á leið til útlanda ásamt manni sínum síðar þennan sama dag og hafi henni þess vegna ekki gefist tími til að leita læknis. Í flugvélinni á leið frá landinu hafi hún fengið verkjalyf. Ferðalagið allt hafi reynst stefnanda erfitt vegna áverka þeirra sem hún varð fyrir og hafi þau hjónin neyðst til þess að stytta ferð sína um viku. Við heimkomuna tveim vikum síðar kveðst stefnandi hafa leitað til heimilislæknis síns þar sem hún hafi verið illa haldin af verkjum í höfði og herðum. Þá hafi verkur frá öxl verið heldur vaxandi. Heimilislæknir stefnanda hafi vísað stefnanda til sjúkranuddara til meðferðar. Sú meðferð hafi borið takmarkaðan árangur. Síðan leitaði stefnandi til Stefáns Carlssonar læknis. Í skoðun sem fram fór þann 13. janúar 1994 kom fram að stefnandi var með greinilega rýrnun ofankambsvöðva og eymsli í öxl. Vegna þessa var stefnandi sprautuð þrisvar sinnum í öxlina. Stefnandi kveðst hafa lagast skamma stund en versnað síðan aftur. Hinn 1. nóvember 1994 var aðgerð framkvæmd á öxl stefnanda þar sem aukið var rými fyrir sinafestu og fjarlægt kalk við sin. Eftir aðgerðina var stefnandi send í sjúkraþjálfun og fékk bólgu- og verkjastillandi lyf. Hinn 25. júlí 1997 mat Atli Þór Ólason læknir örorku stefnanda. Niðurstaða hans var að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu tjóni í slysinu 13. janúar 1993. Læknirinn mat tímabundna örorku stefnanda 100% í einn og hálfan mánuð eftir 1. nóv. 1994 og varanlega örorku 8%.
Hinn 9. september 1993 ritaði lögmaður stefnanda bréf til lögreglunnar í Reykjavík þar sem óskað var eftir afstöðu til bótakröfu stefnanda vegna slyssins. Ekki var gerð krafa um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar með bréfi þessu en tekið fram að ferðalag (líklega ferðalag stefnanda til Bandaríkjanna 13. janúar 1993) muni hafa kostað stefnanda og fjölskyldu hennar 5-600.000 kr. Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 2. nóvember 1993, var bótaskyldu stefnda hafnað.
Bótakrafa stefnanda sundurliðast þannig:
|
Bætur vegna varanlegrar örorku |
1.840.700 kr. |
|
Bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda |
110.400 kr. |
|
Miskabætur |
320.000 kr. |
|
|
2.271.100 kr. |
Í skjölum málsins kemur fram að í ágúst 1997 fékk stefnandi greiddar v/ 8% varanlegrar örorku og vexti 590.590 kr. frá Sjóvá Almennum tryggingum hf. Greiðsla þessi mun, eftir því sem fram kom hjá stefnanda hér fyrir dómi, vera vegna slyss þess sem málið er afrisið og greidd úr ferðatryggingu Visa.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi, sem eigandi húsnæðisins að Hverfisgötu 113 í Reykjavík og sem húsbóndi þeirra sem sjá áttu um að frágangur og umhirða við húsið væri í lagi, beri ábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir þann 13. janúar 1993.
Orsök slyssins telur stefnandi mega rekja til óforsvaranlegs frágangs á tröppunum þegar slysið varð. Tröppurnar séu flísalagðar og verði mjög sleipar í rigningu og þegar snjór liggur yfir þeim eins og umræddan dag. Vanrækt hafi verið að ryðja snjó af tröppunum eða gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar megi telja til að draga úr hættu á að fólk slasist vegna hálkunnar svo sem að dreifa á þær sandi eða salti. Ekki hafi verið gripið til slíkra ráðstafana fyrr en eftir að stefnandi féll í tröppunum en þá hafi húsverði verið falið það verkefni að hreinsa snjóinn burtu og saltbera tröppurnar.
Húsið sem stefnandi slasaðist við sé opinber stofnun og almennt verði að gera miklar kröfur til aðbúnaðar og umhirðu við slík hús vegna þess fjölda fólks sem leita verði þangað eftir þjónustu sem þar er innt af hendi. Ekki hafi verið gerðar neinar ráðstafanir til að vara fólk við þeirri hættu sem í tröppunum hafi falist en telja megi að sérstök ástæða hafi verið til að gera slíkar ráðstafanir eða tryggja að tröppurnar væru vel hirtar og ekki hálar, sérstaklega þar sem ljóst sé að starfsmönnum embættis lögreglustjóra hafi verið ljóst að tröppurnar verði mjög hálar í snjó og frosti eins og fram komi í lögregluskýrslu Harðar Jóhannessonar, dags. 8. mars 1993.
Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri stefndi bótaábyrgð á tjóni því sem rekja megi til vanbúnaðar húsnæðis í hans eigu. Þá beri stefndi einnig ábyrgð á því tjóni sem rekja megi til vanrækslu þeirra sem annast eigi um rekstur og umhirðu hússins.
Af hálfu stefnanda er vísað til almennra ólögfestra reglna skaðabótaréttarins um bótaábyrgð. Sérstaklega er vísað til reglna um ábyrgð húseigenda og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum. Til stuðnings fjárhæðar dómkröfu stefnanda er vísað til dómhelgaðrar venju um uppgjör skaðabótakrafna. Um vexti og dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um almenna meðferð einkamála og um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld.
Málsástæður og rökstuðningur stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að ósannað sé að atburður sá sem stefnandi byggir kröfur sínar á hafi átt sér stað svo og að ætlað tjón stefnanda sé að rekja til þessa atburðar.
Málsástæðu stefnanda um óforsvaranlegan frágang á tröppunum, að tröppurnar séu flísalagðar og verði mjög sleipar í rigningu og þegar snjór liggur yfir þeim eins og umræddan dag er mótmælt sem órökstuddri og vanreifaðri. Engin gögn hafi verið lögð fram í málinu til stuðnings því að tröppurnar hafi verið sleipar vegna þess að þær hafi verið flísalagðar.
Vegna fullyrðinga í stefnu um að vanrækt hafi verið að ryðja snjó af tröppunum eða gera aðrar ráðstafanir, t.d. að dreifa salti eða sandi, er tekið fram af hálfu stefnda að í vottorði Veðurstofu Íslands komi fram að auð jörð hafi verið í Reykjavík 28. des. 1992. Dagana á eftir hafi snjóað ca. 20 cm og síðan hafi verið snjór allan fyrripart janúarmánaðar. Ljóst sé því að ekki hafi verið um nýfallinn snjó að ræða þar sem ekkert hefði snjóað þrjá daga fyrir óhappið. Mikil umferð sé um tröppur þessar og því myndist fljótt slóð. Tröppurnar hafi verið hreinsaðar þegar þörf var á því talin og ekki hafi orðið óhöpp þar þrátt fyrir mikla umferð. Ekki sé meiri hætta við þessar tröppur heldur en við tröppur annars staðar í borginni þegar snjór og hálka er. Slys stefnanda sé ekki hægt að rekja til saknæmrar hegðunar starfsmanna lögreglustjóraembættisins heldur sé hér um óhappatilvik að ræða sem stefnandi beri sjálf ábyrgð á.
Þá er véfengt af hálfu stefnda að ætlað tjón stefnanda sé að rekja til óhappsins 13. janúar 1993. Stefnandi hafi ekki leitað læknis fyrr en 4. febrúar 1993. Mestan hluta þess tíma er leið frá óhappinu og þar til hún leitaði læknis hafi hún verið stödd í Bandaríkjunum. Allt eins hafi óhapp getað átt sér stað þar. Það komi fram í örorkumati að stefnandi hafi dottið í baði árið 1991 og fengið þá hnykk á mjöðmina. Hún hafi verið frá vinnu einn og einn dag vegna óþæginda í mjöðminni. Jafnframt komi fram að stefnandi hafi fengið vöðvabólgu í háls og herðar er hún vann við vélritun 15-16 ára gömul. Hún hafi fundið fyrir vöðvabólgunni öðru hvoru síðan. Af hálfu stefnda er því haldið fram að þessi atriði hafi áhrif á örorku stefnanda.
Í læknisvottorði 6. apríl 1993 komi fram að stefnandi hafi tognað nokkuð illa á hægri öxl. Ekkert sé minnst á mjöðm í því vottorði. Stefnandi hafi fengið tilvísun á sjúkraþjálfara auk bólgueyðandi lyfja. Stefnandi muni hafa komið aftur 12. mars 1993 og þá til þess að athuga með vottorð. Ekki hafi heldur verið minnst á mjöðm í þeirri heimsókn.
Stefnandi hafi farið til Stefáns Carlssonar læknis í byrjun árs 1994. Þá hafi verið teknar röntgenmyndir af öxlum sem hafi sýnt nokkra kölkun en ekki áverkamerki. Hinn 1. nóv. 1994 hafi stefnandi farið í aðgerð hjá Stefáni Carlssyni þar sem gerð hafi verið svokölluð “decompression” á öxlinni til þess að auka bil milli sina og herðablaðs. Af hálfu stefnda er véfengt að slík aðgerð sé nauðsynleg vegna óhappsins. Samkvæmt vottorði Stefáns Carlssonar læknis, dags. 20. júlí 1997, hafi aðgerðin gengið ágætlega. Í vottorði þessu segir: “Hefur síðan ekki komið til mín fyrr en nú í febrúar 1997. Þá kemur fram að í byrjun janúar hefur hún haft veruleg óþægindi í öxlinni af og til en þau hafa horfið á milli. Við skoðun lítur öxlin eðlilega út. Það eru ekki neinar vöðvarýrnanir. Það eru eðlilegar hreyfingar í öxlinni en það tekur í við ystu hreyfimörk. Það er ákveðið að taka röntgenmynd og fór hún í þá myndatöku þann 11/2 1997 og var ekki að sjá neinar bein- eða liðbreytingar. Hafði samband við mig símleiðis 27/2 1997 varðandi myndatökuna og það kom fram að líðan var bærileg í öxlinni.” Í lok vottorðsins segi: “Gerð var aðgerð í nóvember 1994. Skánaði nokkuð eftir aðgerðina. Hefur enn veruleg einkenni frá öxlinni, sem búast má við að verði viðvarandi. Var síðast í skoðun hjá mér 6/2 1997.”
Á bls. 5 í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis segir í kaflanum Skoðun: “Göngulag og limaburður er eðlilegur. Skoðun á hálsi var eðlileg. Skoðun á hægri öxl var eðlileg. Ofanvert á vinstri öxl var 6 cm vel gróið ör. Nokkur eymsli, en væg, fundust framanvert og hliðlægt á vinstri öxl. Axlarhreyfingar voru eðlilegar og sársaukalausar, nema við frásveiflu upphandleggs móti viðnámi, þá komu óþægindi fram í vinstri axlarlið. Taugaskoðun eðlileg. Við vinstri spjaldlið og vöðvafestur við vinstri rassvöðva, rétt við spjaldliðinn, fundust væg eymsli en ekki bankeymsli. Skoðun a.ö.l. eðlileg.” Um mat á varanlegri örorku segir svo: “Við mat á varanlegri örorku er tekið mið af tognunaráverka, frírri hreyfingu axlarliðar, en áreynsluverkir eins og við festumein eða tognunaráverka, einkum á vöðvafestum (supraspinatus sin) og viðbótar tognun í vinstri mjaðmargrindarhluta. Varanleg hefðbundin læknisfræðileg örorka er einnig metin 8%.” Tímabundin örorka var metin 100% í einn og hálfan mánuð frá aðgerðinni 1. nóv. 1994.
Af hálfu stefnda er þessum mötum mótmælt sem óviðkomandi óhappinu 13. janúar 1993. Sérstaklega er bent á að eymslin hafi öll verið í hægri öxlinni samkvæmt framburði stefnanda en samkvæmt örorkumati séu öll eymslin tengd vinstri öxlinni. Þá hafi stefnandi aldrei leitað sér læknis vegna mjaðmahnykksins sem sé hluti af metinni örorku.
Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður. Taka beri tillit til eigin sakar stefnanda. Þá er á því byggt að orsakasamband sé ekki milli óhappsins og örorkunnar. Sé það ekki metið til sýknu beri að lækka bætur vegna þess. Stefnandi hafi ekki orðið fyrir tekjutapi vegna óhappsins. Því er sérstaklega mótmælt að aðgerðina 1. nóv. 1994 sé að rekja til óhappsins. Miskabótakröfu er mótmælt sem of hárri. Vöxtum og upphafstíma vaxta er mótmælt. Upphafsdagur vaxta sé dagsetning kröfubréfs. Það líði tæp fimm ár frá því að kröfubréf var sent og þar til málið var höfðað. Sá dráttur sé ekki á ábyrgð stefnda. Þá sé kröfubréfið frá 9. sept. 1993 tölulega órökstutt.
Varðandi málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. eml.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi svo og Jónas J. Hallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og Atli Þór Ólason læknir.
Fram kom hjá Atla Þór Ólasyni lækni að í matsgjörð hafi orðið ruglingur varðandi hægri og vinstri öxl, þannig að þar sem í matsgjörð er fjallað um vinstri öxl eigi að standa hægri öxl og öfugt.
Niðurstaða
Stefnandi er ein til frásagnar um óhapp það sem hún kveðst hafa orðið fyrir í tröppum lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu hinn 13. janúar 1993.
Í skýrslu stefnanda hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík 8. mars 1993 segir m.a. svo: “Þetta gerðist þannig að ég var að ljúka erindi sem ég átti inn á lögreglustöðina. Við hjónin vorum að fara til Bandaríkjanna þennan sama dag tveim tímum seinna, miðað við tímann sem slysið gerðist, en það hefur verið um klukkan 15.00. Þegar ég var að ganga niður tröppurnar rann ég í einni af tröppunum. Það var talsverður snjór á tröppunum en tröppubrúnirnar stóðu út úr snjónum. Við það að renna til féll ég en gat gripið í handriðið mér til stuðnings. Ég bar samt fyrir mig hægri höndina þegar ég datt .”
Fram kom hjá stefnanda við skýrslugjöf hér fyrir dómi að slysið hafi orðið við tröppurnar á lögreglustöðvarbyggingunni, sem eru nær Snorrabrautinni. Kalt hafi verið í veðri og snjór. Tröppurnar hafi verið fullar af snjó, nánast eins og rennibraut. Stefnandi kvaðst hafa farið á lögreglustöðina með þáverandi eiginmanni sínum. Þá er stefnandi datt hafi eiginmaður hennar enn verið inni en börn þeirra, fjögurra og sex ára, hafi verið út í bíl og kvaðst stefnandi hafa verið að flýta sér út í bíl til þeirra. Klukkan hafi verið að verða 3 og flugvélin sem þau hjónin fóru með til Bandaríkjanna hafi átt að leggja af stað kl. 5. Stefnandi kvaðst ekkert hafa hugsað út í að fara þá til læknis. Stefnandi leitaði ekki læknis fyrr en hún kom aftur til landsins eftir ferðina til Bandaríkjanna.
Í lögregluskýrslu Jónasar J. Hallssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns og þáverandi stöðvarstjóra á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, dags. 8. mars 1993, kemur fram að miðvikudaginn 13. janúar 1993 um kl. 15:00 hafi stefnandi verið að sinna erindi á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113 ásamt eiginmanni sínum. Þau hafi verið að fara út af stöðinni er stefnandi rann til og féll á hægri mjöðm og bak í útitröppum stöðvarinnar með þeim afleiðingum að hún kenndi til sársauka í hægri mjöðm, baki og öxl.
Fram kom hjá Jónasi J. Hallssyni við skýrslugjöf hér fyrir dómi að kallað hafi verið í hann eftir slys stefnanda. Þá hafi stefnandi verið stödd í anddyri. Hún hafi verið að flýta sér, enda á leið úr landi. Ekki hafi séð á stefnanda þannig að Jónas teldi að þörf væri að leita læknis.
Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið þykir fram komið að stefnandi hafi fallið í tröppum lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu hinn 13. janúar 1993.
Eins og málið liggur fyrir eru fullyrðingar af hálfu stefnanda um óforsvaranlegan frágang á tröppunum órökstuddar.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að vanrækt hafi verið að ryðja snjó af tröppunum eða gera aðrar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar megi telja til þess að draga úr slysahættu vegna hálku.
Í framangreindri lögregluskýrslu Jónasar J. Hallssonar, dags. 8. mars 1993, segir m.a.: “Tröppurnar inn á lögreglustöðina eru fimm og höfðu þær fyllst af snjó. Snjórinn hafði troðist og myndast hálka, sem virkaði eins og rennibraut niður tröppurnar.” Síðar í skýrslu þessari segir: “Húsvörðurinn sá um að hreinsa og saltbera tröppurnar og gangstéttina þar fyrir framan.”
Fram kom hjá Jónasi J. Hallssyni við skýrslugjöf hér fyrir dómi að þegar hann kom á vettvang eftir fall stefnanda hafi verið nýfallinn snjór í tröppunum og logndrífa. Troðin slóð hafi verið niður tröppurnar og í slóðinni hafði myndast hálka. Eftir slysið kvaðst Jónas hafa haft samband við húsvörð og sagt honum að hreinsa tröppurnar og stéttina fyrir framan. Almennt eigi húsvörður að moka tröppurnar á hverjum morgni þegar snjór er. Húsvörðurinn hafi sagt Jónasi að hann hefði mokað tröppurnar þennan morgun.
Samkvæmt framlögðu vottorði Veðurstofu Íslands varðandi 13. janúar 1993 var engin úrkoma kl. 9:00, þá var hitastig 1,7°. Kl. 12:00 var engin úrkoma, hitastig 1,8° og kl. 15:00 var úrkoma í grennd og hitastig 2,6°. Veðurhæð þann 13. janúar var 5 vindstig kl. 9:00, 4 vindstig kl. 12:00 og 5 vindstig kl. 15:00. Dagana 11. til 12. janúar 1993 var engin úrkoma, en snjódýpt 11. janúar var 19 cm og 12. janúar 17 cm.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir bera að leggja til grundvallar framburð Jónasar J. Hallssonar yfirlögregluþjóns um að logndrífa hafi verið úti og nýfallinn snjór á tröppunum. Sá skilningur þykir geta samrýmst framangreindu vottorði Veðurstofu Íslands um að úrkoma hafi verið í grennd kl. 15:00 hinn 13. janúar 1993.
Dómarar hafa kynnt sér aðstæður á slysstað. Tröppurnar bera með sér að þær þarfnast viðhalds, en viðhaldsskortur þeirra mun ekki hafa orsakað fall stefnanda. Flísar á tröppunum eru mattar, ekki virðast þær vera sérlega sleipar, en vel getur verið að vegna flísanna séu tröppurnar hálli en tröppur sem ekki eru flísalagðar. Ekkert er fram komið um að slys hafi áður eða almennt orðið á tröppum þessum. Gott handrið er báðum megin við tröppurnar.
Stefnandi varð fyrir slysi sínu þegar hún var á leið út úr húsinu. Hafi verið hálka í tröppunum, þá hefur henni mátt vera það ljóst eftir ferð sína inn í húsið. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir lögreglu þann 8. mars 1993 mun hún ekki hafa stuðst við handrið á leið sinni niður tröppurnar.
Í Reykjavík má í janúar alla jafna búast við misjafnri færð og hálku. Dagana fyrir slysdag, nema tvo síðustu dagana, hafði verið snjókoma. Eins og málið liggur fyrir hefur því ekki verið hnekkt að tröppur lögreglustöðvarinnar séu mokaðar daglega þegar snjór er. Ósennilegt er að tröppurnar hafi ekki verið mokaðar eftir snjókomuna frá 29. des. til 10. janúar, en samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands var engin úrkoma 11. til 12. janúar. Þær kröfur verða trauðla gerðar til umráðamanna húseigna að þeir moki eða láti moka snjó um leið og hann fellur. Álit dómsins er að ekki sé við umjónarmenn lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu að sakast vegna falls stefnanda heldur sé þar um óhappatilvik að ræða og jafnframt vissu aðgæsluleysi stefnanda að kenna.
Með vísan til framanritaðs er sýknukrafa stefnda tekin til greina.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari og meðdómendurnir dr. Ásgeir Ellertsson læknir og Höskuldur Baldursson læknir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurlaugar Halldórsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.