Hæstiréttur íslands

Mál nr. 221/2011


Lykilorð

  • Lánssamningur


                                     

Fimmtudaginn 8. desember 2011.

Nr. 221/2011.

Dánarbú Gísla Þórs Reynissonar

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Önnu Margréti Kristinsdóttur

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Lánssamningur.

Dánarbú G krafði A um greiðslu skuldar vegna láns sem það hélt fram að G hefði veitt henni á árinu 2007 vegna kaupa hennar á sumarbústað og vegna greiðslu á láni A hjá L hf. Í málinu lágu ekki fyrir skriflegir lánssamningar. Hæstiréttur taldi fram komið að G hefði lánað A umrædda fjárhæð. Hæstiréttur taldi A hvorki hafa fært rök fyrir sjónarmiðum um að líta bæri svo á að fjárhæðin hefði verið ígildi framlags G til sameiginlegrar eignamyndunar þeirra eða einhvers konar ráðskonulaun til handa A né að sýkna bæri hana af kröfum dánarbúsins vegna ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Var því fallist á kröfu dánarbús G og A dæmd til að endurgreiða lán það er um ræddi í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2011. Hann krefst þess að stefnda greiði sér 35.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Gísli Þór Reynisson lést 12. apríl 2009. Hann og stefnda áttu saman tvö börn, en þau voru ekki í skráðri sambúð. Í máli þessu krefur áfrýjandi stefndu um greiðslu skuldar að fjárhæð 35.000.000 krónur vegna láns sem það kveður Gísla Þór hafa veitt henni á árinu 2007, annars vegar 30.000.000 krónur vegna kaupa hennar á sumarbústað að Efristíg 7 í Bláskógabyggð og hins vegar 5.000.000 krónur vegna greiðslu á láni stefndu og Gísla Þórs hjá Landsbanka Íslands hf. Í málinu liggja ekki fyrir skriflegir lánssamningar, en til stuðnings kröfunni vísar áfrýjandi einkum til þess að stefnda hafi viðurkennt skuldina með því að færa hana á skattframtöl sín fyrir tekjuárin 2007 til 2009 og það hafi Gísli Þór einnig gert á  framtölum sínum vegna tekjuáranna 2007 og 2008.

Til stuðnings sýknukröfu vísar stefnda einkum til þess að hún og Gísli Þór hafi verið í óskráðri sambúð frá lokum níunda áratugar síðustu aldar. Þau hafi átt saman tvö börn og hafi fjárhagur þeirra verið sameiginlegur um margt. Gísli Þór og endurskoðandi hans hafi annast gerð skattframtala þeirra beggja. Hafi lánveitandinn að líkindum verið svokallað aflandsfélag, Arctic Partners, en ekki Gísli Þór, enda beri skattframtöl hans með sér að peningalegar eignir Gísla Þórs hafi ekki verið slíkar á árinu 2007 að hann hafi haft fjárhagslega burði til að lána stefndu svo mikið fé sem hér um ræðir. Beri því að sýkna stefndu af kröfu áfrýjanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kveðst stefnda hvorki í orði né verki hafa samþykkt skuld þessa þótt hún hafi tekið við fé frá sambýlismanni sínum til tveggja áratuga. Verði á hinn bóginn talið að um bindandi lánssamning hafi verið að ræða beri að víkja honum til hliðar vegna efnis hans, aðstæðna við gerð hans og atvika eftir samningsgerð, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Fyrir dómi kom fram hjá Matthíasi Þór Óskarssyni endurskoðanda að hann hafi aðstoðað Gísla Þór og stefndu við gerð skattframtala þeirra á þeim tíma sem hér skiptir máli. Hann kvaðst hafa unnið að gerð framtalanna í samráði við Gísla Þór, en ekki fundað með stefndu vegna skattamála fyrr en eftir fráfall Gísla Þórs.

II

Áðurnefndur sumarbústaður var skráður á nafn stefndu á árinu 2007. Hefur hún ekki andmælt þeirri staðhæfingu áfrýjanda að hafa fengið 30.000.000 krónur frá Gísla Þór vegna kaupa hennar á bústaðnum í september 2007. Skýringar stefndu á tilgreiningu í skattframtali fyrir árið 2007 á 5.000.000 króna skuld við Gísla Þór eru á hinn bóginn óljósari. Af gögnum málsins verður þó ráðið að stefnda og Gísli Þór voru í skuld við Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og ekki verður séð að hún hafi andmælt því að síðargreind fjárhæð hafi runnið til greiðslu skuldar hennar við bankann. Samkvæmt þessu er nægilega í ljós leitt að stefnda fékk umræddar 35.000.000 krónur frá Gísla Þór persónulega á árinu 2007. Verður stefnda því ekki sýknuð af kröfu áfrýjanda vegna aðildarskorts.

Stefnda og Gísli Þór voru hvorki skráð með sama lögheimili né töldu þau sameiginlega fram til skatts. Á skattframtölum þeirra beggja vegna tekjuársins 2007 voru 35.000.000 krónur tilgreindar sem lán Gísla Þórs til stefndu. Ber framtal stefndu með sér að hún hafi verið nánast tekjulaus á því ári, en af gögnum málsins er á hinn bóginn ljóst að Gísli Þór hafði þá töluvert fé umleikis. Var fjárhæð þessi einnig ítrekað tilgreind á sambærilegan hátt á síðari skattframtölum þeirra, en ekki sem gjöf svo sem bar að gera ef um óendurkræft framlag til stefndu var að ræða. Stefnda hefur sönnunarbyrði fyrir því að atvik hafi verið með öðrum hætti en áfrýjandi fullyrðir og greinir í skattframtölum þeirra. Hefur henni ekki tekist sú sönnun. Að auki fær skuldin og ráðstöfun hennar stuðning í öðrum gögnum málsins. Ber því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að um lán Gísla Þórs til stefndu hafi verið að ræða.

Stefnda hefur á engan hátt fært rök fyrir sjónarmiðum um að líta beri svo á að umrædd fjárhæð hafi verið ígildi framlags Gísla Þórs til sameiginlegrar eignamyndunar þeirra eða einhvers konar ráðskonulaun til handa stefndu. Þá hafa heldur ekki verið færð rök fyrir því af hálfu stefndu að sýkna beri hana af kröfu áfrýjanda vegna ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936. Er þessum málsástæðum stefndu því hafnað. Samkvæmt framansögðu verður stefnda dæmd til að endurgreiða lán það sem um ræðir í málinu, svo sem krafist er, með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda dæmd til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefnda, Anna Margrét Kristinsdóttir, greiði áfrýjanda, dánarbúi Gísla Þórs Reynissonar, 35.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. febrúar 2010 til greiðsludags.

Stefnda greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar sl., var höfðað með birtingu stefnu, ódagsettri, fyrir lögmanni stefnda þar sem fallið var frá stefnufresti, og var málið þingfest þann 1. september  2010.

Stefnandi er dánarbú Gísla Þórs Reynissonar, kt. 210665-4559, Aðalstræti 6, 101 Reykjavík, en stefndi er Anna Margrét Kristinsdóttir, kt. 170566-4409, Haukanesi 14, 210 Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 35.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi sótti þing við þingfestingu málsins og fékk frest til framlagningar greinargerðar til 12. október 2010. Aðalmeðferð fór fram þann 10. janúar sl., og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik.

Samkvæmt skattframtali stefnanda fyrir tekjuárið 2007 kemur fram í lið 3.3, kaflanum um innlend og erlend verðbréf og kröfur: „Anna Margrét Kristinsdóttir, eign í árslok 35.000.000“. Sömu upplýsingar koma fram í skattframtali fyrir tekjuárið 2008. Er lögheimili stefnanda tilgreint í báðum skattframtölunum, Þinghólsbraut 52, Kópavogi. Í skattframtali stefndu fyrir tekjuárið 2007, kafla 5.5, er tilgreind skuld við Gísla Þór Reynisson, Lettlandi, 35.000.000,- og skuld við Arctic Capital ehf., 9.000.000,-. Í skattframtali stefndu fyrir tekjuárið 2009 er tilgreind ósundurliðuð skuld í kafla 5.5 við Gísla Þór Reynisson (dánarbú), Arctic Capital og Landsbankann, samtals 72.000.000 króna. Í stefnu kemur fram að skuld stefndu við dánarbúið sé til komin vegna láns Gísla Þórs til stefndu í gegnum félagið Arctic Partners, kt. 581006-0390,  sem sé alfarið í eigu Gísla Þórs. Hafi umrætt lán verið að fjárhæð 30.000.000 króna og hafi verið ætlað til kaupa á sumarbústað við Efristíg 7, fastanr. 220-9034. Að auki hafi 5.000.000 króna farið frá Gísla til stefndu, m.a. vegna greiðslu á hennar hlut af láni í Landsbanka Íslands en allar þessar upplýsingar hafi verið staðfestar í tölvupósti Matthíasar Þórs Óskarssonar þann 11. júlí 2010 en hann hafi verið endurskoðandi Gísla og stefndu. Þann 12. apríl 2009 hafi Gísli Þór látist. Þann 16. febrúar 2010 hafi skiptastjóri sent stefndu bréf þar sem þess var krafist að framangreind skuld yrði greidd til dánarbúsins. Í greinargerð stefndu kemur fram að hún sé barnsmóðir tveggja barna Gísla Þórs. Þau hafi kynnst og hafið samvistir og síðar sambúð í lok níunda áratugarins en stefnda hafi þá átt fyrir einn son sem stefnandi hafi viljað ættleiða. Þá hafi hann ávallt haft í hyggju að ganga að eiga stefndu. Stefnda hafi fylgt stefnanda vegna náms hans og starfa bæði til Finnlands og Danmerkur og haldið heimili fyrir hann og börn þeirra þar. Þegar þau bjuggu í Finnlandi hafi stefnandi farið að huga að tækifærum til fjárfestinga í Austur-Evrópu, einkum Eystrasaltsríkjunum. Þegar skriður hafi komist á eigin atvinnustarfsemi stefnanda í Lettlandi hafi fjölskyldan flutt til Danmerkur og sest að í Kaupmannahöfn. Stefnandi hafi dvalið meira og meira í Lettlandi eftir því sem umsvif viðskipta hans jukust þar í landi en stefnda verið meira og meira ein með börn þeirra í Kaupmannahöfn. Aðilar hafi þá ákveðið að stefnda flytti heim til Íslands með börn þeirra. Þau hafi keypt fasteign að Haukanesi 14, Garðabæ, og hafi húsið verið skráð eign beggja. Þar hafi stefnda sest að með fjölskylduna og séð um hana og ýmis mál tengd stefnanda og rekstri hans. Allt hafi þetta verið gert án þess að þiggja launagreiðslur fyrir, enda hafi stefnda ávallt litið á sig og stefnanda sem eitt og markmiðin hin sömu, að byggja upp heimili, eignir og traustan atvinnurekstur. Stefnandi hafi aldrei verið skráður til heimilis að Haukanesi og aðilar aldrei verið skráðir í sambúð. Stefnandi hafi sannanlega látið fé af hendi rakna til stefndu en stefnda aldrei litið á það sem lán, enda aldrei gengið frá lánasamningum þar að lútandi. Stefndu hafi verið með öllu ókunnugt um hvaðan það fé kom sem stefnandi hafi látið hana hafa. Þá kveður stefnda umrætt félag sem vísað sé til í stefnu, Artic Partners ehf., aldrei hafa verið í eigu stefnanda. Fyrir dóminum kom fram hjá stefnanda að tilgreint félag í stefnu sé aflandsfélag, líklega skráð í Lúxemburg eða Panama. Því sé röng sú kennitala sem tilgreind sé í stefnunni.

Í gögnum málsins liggja fyrir nokkur tölvupóstssamskipti stefnanda og Matthíasar Óskarssonar varðandi frágang skattframtala stefnanda og stefndu. Í tölvupósti frá 5. mars 2008 kemur m.a. fram að stefnandi kvaðst hafa haft tekjur frá Nordic Partners ehf. fyrir árið 2007. Þá bað stefnandi Matthías endilega að láta sig vita ef eitthvað annað vantaði fyrir hann og stefndu varðandi skattframtölin. Í tölvupósti frá 25. mars 2008 milli stefnanda og Matthíasar kemur fram hjá stefnanda að stefnda sé skráð fyrir E7- með láni frá Arctic Partners og kaupverðið sé 30.000.000,-. Í tölvupósti frá Matthíasi til lögmanns stefnanda þann 11. júlí 2010 segist Matthías hafa aðstoðað stefnanda við gerð skattframtala fyrir stefnanda og stefndu árið 2008, tekjuárið 2007. Þá segir í tölvupóstinum að samkvæmt tölvupósti frá stefnanda í mars 2008 hafi Arctic Partners, félag í eigu stefnanda, lánað stefndu 30.000.000 króna vegna kaupa hennar á sumarbústað við Efristíg 7. Að auki hafi stefnandi talið að um 5.000.000 króna hafi farið frá honum eða félögum tengdum honum til stefndu, m.a. vegna greiðslu á hennar hlut af láni í Landsbanka Íslands. Í heildina hafi verið um 35.000.000 króna að ræða sem færðar hafi verið sem lán frá stefnanda í árslok 2007. Þá segir í tölvupóstinum að ástæða þess að stefnandi sé nefndur lánveitandi en ekki Arctic Partners, hafi verið til einföldunar og stefnanda ekki þótt ástæða til að blanda nafni Arctic Partners saman við framtalsgerð stefndu. Kemur fram í tölvupóstinum að þetta sé samkvæmt símtali við stefnanda í mars 2008.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi lánað stefndu 35.000.000 króna til kaupa á sumarbústað. Sé skuld tilgreind sérstaklega í skattframtali beggja aðila og auk þess í skattframtali stefndu árið 2010 en stefnda beri ábyrgð á því hvaða upplýsingar komi fram í skattframtali hennar. Sé þar um opinbert skjal að ræða og upplýsingar sem ekki hafi verið hnekkt. Skilyrði fyrir því að skuld hafi orðið til þurfi ekki að byggja á sérstöku samningsformi. Kveður stefnandi að féð hafi upphaflega komið frá aflandsfélagi stefnanda, Arctic Partners, en stefnandi hafi ekki viljað setja gögn eða upplýsingar um það félag í opinber gögn og því hafi féð farið í gegnum hann persónulega. Stefnda hafi viðurkennt skuldina með því að staðfesta hana í skattframtali sínu og í greinargerð sinni.

Stefnandi mótmælti varakröfu stefndu um að verði aðalkrafan ekki tekin til greina beri henni umrædd fjárhæð sem framfærsla henni til handa, en hún hafi haldið heimili fyrir börn stefnanda sl. tuttugu ár án nokkurs endurgjalds. Stefnandi og stefnda hafi aldrei verið í skráðri sambúð né með sameiginlegt lögheimili og því geti hún ekki krafist framfærslu af hálfu stefnanda. Þá hafi stefnda ekki lýst kröfu í dánarbú stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga  nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfuna um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar hann til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda. Þá krefst hún þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að mati dómsins. Stefnda byggir á því að hún hafi aldrei litið svo á að þeir fjármunir sem stefnandi lét af hendi til hennar væru lán sem endurgreiða ætti á einhverjum tíma. Þá hafi aldrei verið gengið frá lánasamningum þar að lútandi. Stefndu hafi verið með öllu ókunnugt um hvaðan það fé kom sem stefnandi lét hana hafa en þau hafi rekið heimili síðustu árin að Haukanesi 14, Garðabæ. Stefnda byggir á því að ekkert liggi fyrir um það að stefnandi hafi átt það félag sem hann kveður hina umþrættu fjármuni stafa frá og engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að þessir fjármunir hafi farið af reikningum stefnanda til stefndu eða reikninga á hennar vegum. Engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að stefnandi hafi átt nefnt aflandsfélag, Arctic Partners, sem stefnandi vitnar til. Og þó svo væri þá væri skuldin við það félag en ekki stefnanda og því eigi stefnandi ekki aðild að innheimtu þeirrar kröfu, sé hún á annað borð til. Því beri að sýkna stefndu. Þá sé ekkert vitað um þær 5.000.000 króna sem eftir standi. Þá sé tilgreining á skuld stefndu við stefnanda á skattframtölum aðila að beiðni stefnanda þar sem hann hafi ekki viljað blanda félaginu Arctic Partners í málið. Stefnandi hafi, í samráði við endurskoðanda sinn, ákveðið að setja umrædda skuld á framtal stefndu. Slík einhliða ákvörðun stefnanda hafi ekkert gildi gagnvart stefndu, sem vissi ekki annað en að fé það sem gekk á milli þeirra væri til framfærslu og einhverrar eignamyndunar, sem ýmist hafi verið í nafni beggja eða annars hvors þeirra. Stefnda sé því ekki í skuld við stefnanda og því beri að sýkna hana af kröfum hans.

Stefndi byggir varakröfu sína á að verði aðalkrafan um sýknu ekki tekin til greina þá eigi að koma til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda án sjálfstæðs dóms, krafa stefndu að fjárhæð 35.000.000 króna vegna launa á sambúðartímanum. Stefnda byggir þá kröfu sína á því að hún hafi fylgt stefnanda bæði til Finnlands og Danmerkur og gert honum kleift að koma undir sig fótunum fjárhagslega með vinnu sinni á heimilinu, utan þess og loks með ýmiss konar aðstoð við stefnanda. Verði ekki fallist á framangreint og talið að um bindandi lánasamning sé að ræða, geri stefnda þá kröfu að samningnum verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga, þar sem það sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera þennan samning fyrir sig vegna aðstæðna við gerð hans, vegna efnis hans og eins vegna atvika eftir samningsgerðina. Stefnda hafi ekki gert kröfu í dánarbú stefnanda innan kröfulýsingarfrests þar sem hún hafi litið svo á að hún væri ekki í skuld við stefnanda né ætti nokkra kröfu á hendur honum.

Stefnda vísar til 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vegna kröfu um sýknu á grundvelli aðildarskorts. Krafa um skuldajöfnuð án sjálfstæðs dóms er byggð á heimild í 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. og 5. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 20/1991. Krafa um laun á sambúðartíma er byggð á dómafordæmum í íslenskum rétti. Krafan um að samningi verði vikið til hliðar í heild sinni er byggð á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og krafan um málskostnað er byggð á 129., sbr. 130., gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstöður:

Í máli þessu er greint á um hvort stefnda skuldi stefnanda 35.000.000 króna. Stefnandi byggir kröfu sína eingöngu á upplýsingum úr skattframtölum aðila á árinu 2008 og skattframtali stefndu árið 2010. Þá byggir stefnandi á tölvupósti sem fór á milli stefnanda og Matthíasar Þórs Óskarssonar er sá um framtalsgerð aðila. Matthías kom fyrir dóminn og kvað enga samninga hafa verið gerða milli aðila um þessa fjármuni. Þá hafi hann haft fyrirmæli frá stefnanda um að telja fram umræddar fjárhæðir eins og greinir í málsatvikalýsingu en stefnandi hafi ekki af einhverjum ástæðum viljað blanda aflandsfélaginu Arctic Partners sem hann hafi átt hlutdeild í, inn í opinber skjöl á Íslandi. Kom fram að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að telja þessa fjárhæð fram á sitt persónulega skattframtal.

Stefnandi kveður í stefnu að umþrætt lán sé tilkomið vegna láns stefnanda til stefndu í gegnum félagið Arctic Partners ehf., kt. 581006-0390, sem hafi verið alfarið í eigu stefnanda. Fyrir dóminum upplýstist að nefnt félag er í eigu allt annarra aðila og málinu óskylt. Hins vegar hafi stefnandi átt félag með sama nafni sem hafi verið skráð í Lúxemburg eða Panama. Þrátt fyrir mat stefndu um að vísa beri máli þessu frá dómi vegna vanreifunar, þá telur dómurinn þessa tilgreiningu í stefnu ekki svo að varði frávísun málsins frá dómi, enda hafði það ekki áhrif á varnir stefndu. Eins og fram hefur komið liggur fyrir að stefnandi taldi, og upplýsti endurskoðanda sinn sjálfur um, að fé það sem hann lagði stefndu til, til kaupa á sumarbústað að Efristíg 7 (fastanr. 2220-9034), hefði verið lán frá Arctic Partners. Engin gögn hafa þó verið lögð fram í málinu er sýna fram á það og verður stefnda ekki sýknuð á grundvelli aðildarskorts. Hins vegar hefur stefnanda ekki tekist að sýna, svo óyggjandi sé, að þrátt fyrir upplýsingar stefnanda til endurskoðanda síns um tilurð lánsins til stefndu, að umrætt lán hafi stafað frá stefnanda sjálfum. Þá liggur ekkert fyrir um sundurliðun á kröfunni en samkvæmt stefnanda og endurskoðanda hans þá var kaupverð á sumarbústaðnum 30.000.000 króna og um 5.000.000 króna hefðu farið frá stefnanda, eða félögum tengdum honum, til stefndu, m.a. vegna greiðslu á hennar hluta af láni í Landsbanka Íslands. Ekki verður byggt á upplýsingum í skattframtali stefndu á skattframtali ársins 2010 þar sem engin sundurgreining er á skuldum við stefnanda, Arctic Capital og Landsbankann, sem samtals eru sagðar vera 72.000.000 króna.

Að þessu virtu og gegn eindregnum andmælum stefnda verður að telja að stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir kröfu sinni á hendur stefndu. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.

Eins og atvikum er háttað þykir rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefnda, Anna Margrét Kristinsdóttir, er sýknuð af kröfum stefnanda, dánarbúi Gísla Þórs Reynissonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.