Hæstiréttur íslands

Mál nr. 435/2000


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fyrning


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2001.

Nr. 435/2000.

 

Sparisjóður Mýrasýslu

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Snorra Kristleifssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Gjaldþrotaskipti. Fyrning.

SP krafði S um skuld samkvæmt skuldabréfi, sem S hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir ásamt tveimur öðrum mönnum. S hafnaði greiðsluskyldu og bar því við að skuldin væri fyrnd. Deilt var um hvenær krafa SP á hendur S hefði orðið gjaldkræf. Fallist var á að krafa SP á hendur S hefði orðið gjaldkræf á sama tíma og krafa SP á hendur aðalskuldara skuldabréfsins. Krafa SP á hendur aðalskuldaranum hafði orðið gjaldkræf þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Féll krafa samkvæmt skuldabréfinu þar með í heild í gjalddaga. Var krafa SP á hendur S því talin fyrnd og S sýknað.      

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 5.736.193 krónur, en til vara 3.364.264 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. janúar 2000 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta á hendur stefnda 24. janúar 2000 til heimtu kröfu, sem hann reisir á skuldabréfi útgefnu 30. desember 1991 af Fiskeldisstöðinni Húsafelli hf., upphaflega að fjárhæð 14.860.000 krónur. Fyrir skuldinni gekkst stefndi í sjálfskuldarábyrgð ásamt tveimur öðrum mönnum. Stefndi reisir varnir sínar í málinu á því að krafa áfrýjanda sé fyrnd.

Eins og getið er í héraðsdómi leitaði áfrýjandi eftir því við aðalmeðferð málsins í héraði að fá að leggja fram bréf stefnda 26. maí 1999 til sín. Því hafnaði héraðsdómari. Bréf þetta hefur nú verið lagt fram í Hæstarétti. Efni þess fær ekki breytt þeirri niðurstöðu héraðsdómara að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að fyrningu hafi verið slitið á þann hátt, sem greinir í 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Fyrir liggur í málinu að bú fyrrnefnds útgefanda skuldabréfsins var tekið til gjaldþrotaskipta 5. desember 1994. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. féll krafa samkvæmt skuldabréfinu þar með í heild í gjalddaga. Fallist verður á með héraðsdómara að samtímis hafi krafa áfrýjanda á hendur stefnda vegna sjálfskuldarábyrgðar hans orðið gjaldkræf í heild.

Fyrningartími kröfu áfrýjanda á hendur stefnda ræðst af 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Krafan var því fyrnd þegar málið var höfðað. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði stefnda, Snorra Kristleifssyni, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. september 2000.

I.

Mál þetta sem dómtekið var hinn 21 september 2000 hefur Sparisjóður Mýrasýslu, kt. 610269-5409, Borgarbraut 14, 3l0 Borgarnes höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 21 janúar 2000 á hendur Snorra Kristleifssyni, kt. 270357-4909, Kleppjárnsreykjum, Borgarfjarðarsveit.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði gert að greiða honum kr. 5.736.193 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 18. janúar 2000 til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 18. janúar 2001. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu,  auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða 24,5% virðisaukaskatt af þjónustu lögmanna.

II.

Stefnandi kveður skuld þessa er tilkomna vegna skuldabréfs útgefins 30. desember 1991 af Fiskeldis­stöðinni Húsafelli hf., kt. 450986-1798. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta og alls sem af vanskilum kynni að leiða hafi stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni in solidum ásamt tveimur öðrum mönnum, Bergþóri Kristleifssyni, kt. 260159-2839, og Þorsteini Guðmundssyni, kt. 020560-4879.

Hinn 30. desember 1993 hafi verið gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu, þá að eftirstöðvum 15.552.351,50 krónur. Eftirstöðvarnar skyldi greiða með 5 afborgunum á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. desember 1994. Vextir skyldu reiknast frá 30. desember 1991, en að öðru leyti hafi ákvæði skuldabréfsins haldist óbreytt. Undir skilmálabreytinguna hafi allir þrír sjálfskuldarábyrgðarmennirnir ritað  og stefndi fyrir hönd útgefanda bréfsins, Fiskeldisstöðvarinnar Húsafelli hf.

Stefnandi kveður bú aðalskuldara, Fiskeldisstöðvarinnar Húsafelli hf., hafa verið tekið til tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands hinn 5. desember 1994. Búið hafi reynst eignalaust. Síðar hafi tekist samkomulag milli stefnanda annars vegar og Bergþórs og Þorsteins hins vegar um að þeir greiddu hvor um sig 1/3 hluta skuldar­innar. Stefndi hafi á hinn bóginn hafnað því að ganga til samninga við stefnanda um slíka greiðslu. Hinn 18. janúar 2000 hafi uppgreiðsluverðmæti skuldabréfsins verið kr.  17.208.581 samkvæmt greiðslu­stöðuyfirliti stefnanda. Stefnufjárhæðin sé 1/3 hluti þeirrar fjárhæðar.

Stefnandi kveðst reka málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ákvæði þar að lútandi eru í umræddu skuldabréfi.

Kröfu um dráttarvexti þ.m.t. vaxtavexti kveðst stefnandi byggja á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, kröfu um málskostnað á l. mgr. 130. gr. laga m. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutnings­þóknun er á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum. Varðandi varnarþing er vísa að til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991. Loks er vísað til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuld­bindinga.

III.

Stefndi, sem var einn stofnenda Fiskeldisstöðvarinnar Húsafells hf. og framkvæmda­stjóri félagsins, bendir á að stefnandi muni ekki hafa lýst kröfu sinni samkvæmt skuldabréfinu í þrotabúið. Skiptalok hafi verið þann 22. júní 1995 og búið reynst eignalaust. Stefndi kveður gjaldþrot félagsins hafa riðið fjárhag sínum nánast að fullu.

Frá því að bú Fiskeldisstöðvarinnar Húsafell hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 5. desember 1994 hafi  stefnandi ekki gert neinn reka að því að innheimta kröfu þessa á hendur stefnda fyrr en með máli þessu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu, að sjálfskuldarábyrgðarkrafa stefnanda sé fyrnd. Krafa stefnanda sé ábyrgðarskuldbinding, sem fyrnist á 4 árum samkvæmt. 4. tl. 3.gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Upphaf fyrningarfrests teljist frá þeim degi þegar krafan varð gjaldkræf, sbr. 1. mgr. 5.gr. s.l.

Bú greiðanda skuldabréfsins, Fiskeldisstöðvarinnar Húsafell hf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 5. desember 1994. Þann dag hafi fallið í eindaga skuldabréfakrafan samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Stefndi vitnar til 5. tl. samningsskilmála skuldabréfsins þar sem segir: "Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, vaxta, dráttarvaxta eða vísitöluálags skuldarinnar eða verði bú hans eða ábyrgðarmanns að skuldinni tekið til skipta sem þrotabú, þá er skuldin í eindaga fallin án uppsagnar eða tilkynningar. "

Þá bendir stefndi ennfremur á, að samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi “sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti"

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði í 5. tl. samningsskilmála skuldabréfsins og 1. mgr. 99. gr. l. nr. 21/1991 hafi  krafa stefnanda samkvæmt skuldabréfinu gjaldfallið þann 5. desember 1994 við úrskurð um gjaldþrotaskipti á búi Fiskeldistöðvarinnar Húsafell hf. Ábyrgðarkrafa stefnanda á hendur stefnda hafi þá orðið gjaldkræf í raun og veru, sbr. 1. og 2. mgr. 5.gr. fyrningarlaga og þurfti ekki að koma til nein sérstök uppsögn eða tilkynning af hálfu stefnanda. Upphaf fyrningarfrests ábyrgðarkröfunnar sé því 5. desember 1994. Stefnandi hafi ekki gert reka að innheimtu kröfunnar á hendur stefnda fyrr en með birtingu stefnu þann 24. janúar 2000. Þá hafi verið liðin meira en 4 ár frá því að krafa stefnanda á hendur stefnda varð gjaldkræf og sé krafan því niður fallin fyrir fyrningu, sbr. 1. mgr. l. gr. fyrningarlaga.

Stefndi heldur því fram, að skýra eigi eftir orðanna hljóðan ákvæði 5. tl. skuldabréfsins, um að skuldin samkvæmt skuldabréfinu sé fallin í eindaga án tilkynningar eða uppsagnar, ef þar tilgreind atvik séu fyrir hendi. Bendir stefndi sérstaklega á að stefnandi sé opinber lánastofnun sem hafi atvinnu af lánastarfsemi og hafi látið semja einhliða samningsskilmála sem viðskiptamenn hans verði að undirgangast. Texti skuldabréfsins sé skýr um það að skuldin falli í eindaga án þess að stefnandi þurfi að senda tilkynningu eða sérstaka uppsögn. Stefnandi sé, jafnt sem þeir sem undirrita skuldabréfið, bundinn af þeim samningsskilmálum þess. Stefnandi geti ekki valið þá skýringu á samningsskilmálum skuldabréfsins, sem honum þyki best henta hverju sinni.

Til vara er því haldið fram af hálfu stefnda, að krafa stefnanda hafi verið (í raun og veru) gjaldkræf í síðasta lagi við lok skipta á þrotabúi Fiskeldisstöðvarinnar Húsafell hf. er var þann 22. júní 1995.

Stefndi ítrekar sérstaklega að það hafi geti með engu mót haft þýðingu um réttarstöð sína, þótt hinir ábyrgðarmennirnir á skuldabréfinu hafi náð samkomulagi við stefnanda um greiðslu á hluta skuldabréfskröfu stefnanda.

Þá byggir stefndi ennfremur á þeirri málsástæðu, að ólögfestar reglur um áhrif tómlætis eigi að leiða til sýknu. Ljóst sé að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að gæta hagsmuna sinna. Sé tómlæti hans slíkt, að það eigi eitt sér að leiða til þess að kröfum hans verði hafnað. Við mat á tómlæti stefnanda hafi það sérstaka þýðingu að stefnandi hafi lánastarfsemi að atvinnu.

IV.

Við aðalmeðferð hinn 21. september 2000 var m. a. bókað: “Lögmaður stefnanda óskar að leggja fram tvö skjöl: bréf stefnda til stefnanda, dags. 26. maí 1999, og bréf stefnanda til stefnda, dags. 28. desember 1999. Lögmaður stefnda mótmælir framlagningunni og vísar til þess að lögmenn hafi lýst yfir að lokið væri öflun sýnilegra sönnunargagna. Lögmaður stefnanda vísar til 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Lögmaður stefnda vísar til sömu ákvæða og telur að stefnandi hafi haft þessi gögn í höndum og getað lagt þau fram í tæka tíð. [...] Dómari lýsir yfir að hann hafni ósk stefnanda um framlagningu skjalanna. “

Hvorki fóru fram í máli þessu yfirheyrslur vitna né aðila, að öðru leyti en því, að fyrir dóminn kom að ósk stefnanda og með samþykki stefnds Þórir Sigfús Sumarliðason, kt. 241032-4699, en hann lét af starfi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu hinn 1. júní 1999. Ástæðuna fyrir því að ekki var gengið að ábyrgðarmönnum þegar eftir gjaldþrotið sagði hann hafa verið þá að samkomulag hafi verið um að bréfið gengi áfram, þ. e. að þeir héldu því í skilum. Hann kvað stefnda Snorra hafa komið til sín fáum dögum áður en hann hætti og afhent sér bréf dagsett 26. maí 1999, en bréfið var annað skjalanna sem synjað var um framlagningu á. Að fengnu samþykki lögmanns stefnda heimilaði dómarinn lögmanni stefnanda að lesa upp úr bréfinu og bera undir sparisjósstjórann niðurlag þess sem hljóðaði svo í upplestri lögmannsins: “Í ljósi þess leyfi ég mér að fara fram á að Sparisjóður Mýrasýslu slái striki yfir skuldina og taki þannig sinn þátt í áhættu af nýsköpun sem ekki tókst í fyrstu tilraun.” Sparisjóðsstjórinn fyrrverandi kvað í langan tíma hafa staðið yfir viðræður um að ábyrgðarmennirnir greiddu skuldina að hluta en hluti hennar yrði afskrifaður. Sparisjóðurinn hafi tekið til hliðar fé á afskriftareikning útlána til þess að mæta hugsanlegu tapi ef hluta þessa skuldabréfs þyrfti að afskrifa. Tveir ábyrgðarmannanna hafi tekið því boði að greiða hvor sinn þriðjungshluta af skuldinni þannig lækkaðri, en stefndi hafi hafnað því boði.

V.

Úrlausnarefnið í máli þessu er einkum hvenær fjögurra ár fyrningarfrestur ábyrgðarkröfu stefnanda á hendur stefnda byrjaði að líða.

Bú aðalskuldara var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 5. desember 1994. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. gjaldþrotalaga nr 21/1991 falla allar skuldir þrotabús í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar. Samkvæmt skýrum lagafyrirmælum gjaldféll skuldabréfið þannig án nokkurrar fyrirfarandi tilkynningar eða aðvörunar til aðalskuldara. Til þess kemur því ekki í máli þessu að leysa þurfi úr því, hvort sérstakrar tilkynningar til stefnda hefði verið þörf ef málsóknin hefði einvörðungu byggst á ákvæði skuldabréfsins sjálfs um eindögun án uppsagnar eða tilkynningar við vanefnd; á þessi samningsákvæði skuldabréfsins reynir einfaldlega ekki í máli þessu þar sem við ótvíræða lagareglu er að styðjast.

Aðalreglan um sjálfskuldarábyrgð er sú, að hún verður virk þegar aðalkrafa gjaldfellur. Ábyrgðarkrafan á hendur stefnda gjaldféll því við uppkvaðningu úrskurðarins, enda verður þeirri málsástæðu stefnanda ekki fundin lagastoð, hvorki í settum lögum né samrýmanlegri dómiðkun að til þurfi að koma sérstök tilkynning eða aðvörun til sjálfskuldarábyrgðarmanns þegar gjaldfelling er lögbundin.

Fyrningarfrestur ábyrgðarkröfunnar byrjaði samkvæmt þessu að líða hinn 5. desember 1994. Mál þetta var höfðað 21. janúar 2000. Ekki er fram komið að stefnandi hafi á fjögurra ára fyrningartíma frá gjaldþrotaúrskurðinum rofið fyrningarfrest gagnvart stefnda.

Stefnandi hafði við aðalmeðferð uppi þá mótbáru gegn málsástæðu stefnda um fyrningu, að henni hefði stefndi slitið með bréfi sem hann ritað stefnanda á vordögum 2000 en þar hefði hann farið fram á að krafan yrði afskrifuð.

Þetta bréf stefnanda er ekki framlagt í málinu, en telja verður að það sem upplýst er um efni þess komi ekki í veg fyrir að stefndi beri fyrir sig fyrningu í máli þessu.

Samkvæmt þessu var dómkrafan í máli þessu var fyrnd er málið var höfðað. Ber samkvæmt því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu, og tildæma honum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn kr. 500.000 auk 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun lögmanns hans.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Snorri Kristleifsson, á að vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sparisjóðs Mýrasýslu.

Stefnandi, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði stefnda, Snorra Kristleifssyni, krónur 500.000 í málskostnað, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.