Hæstiréttur íslands
Mál nr. 429/2009
Lykilorð
- Skuldamál
- Varnarþing
- Aðfinnslur
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 2010. |
|
Nr. 429/2009. |
Opale Seafood SAS (Reynir Karlsson hrl.) gegn Vigni G. Jónssyni hf. (Garðar Briem hrl.) |
Skuldamál. Varnarþing. Aðfinnslur.
O áfrýjaði dómi héraðsdóms þar sem honum var gert að greiða V hf. skuld. Þá krafðist hann endurskoðunar úrskurðar þar sem hafnað var kröfu hans um frávísun málsins. Talið var að þótt O ætti varnarþing í Frakklandi hafi verið heimilt, samkvæmt 1. mgr. 43. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr., laga nr. 91/1991, að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Var kröfu O um frávísun málsins því hafnað. Talið var sannað að O hafi samþykkt greiðsluskilmála V hf. Þá var ekki talið að O ætti bótakröfu á hendur V hf. og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að O yrði gert að greiða V hf. skuldina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 18. maí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 1. júlí 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 28. júlí 2009. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að dómkrafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í greinargerð sinni í héraði, sem lögð var fram á dómþingi 5. mars 2008, gerði áfrýjandi aðalkröfu um að málinu yrði vísað frá dómi. Byggði hann kröfuna á því að ekki hefði verið heimilt að höfða málið gegn honum á Íslandi, þar sem hann ætti varnarþing í Frakklandi. Héraðsdómur tók afstöðu til frávísunarkröfunnar og hafnaði henni með úrskurði 26. júní 2008. Þar var samt fallist á með áfrýjanda að heimildar til málshöfðunar hér á landi yrði ekki leitað í 1. mgr. 42. gr., sbr. 43. gr., laga nr. 91/1991, þó að íslensku félagi, Opal Holding ehf., hefði verið stefnt til greiðslu á kröfu stefnda óskipt með áfrýjanda. Sagði í forsendum úrskurðarins að þessum lagaákvæðum yrði beitt „þegar samaðild skv. 18. gr. eml. og aðildarsamlag skv. 19. gr. eml. er nauðsynlegt varnarmegin en ekki þegar sá aðili (svo), sem tengist varnarþingi hér á landi, er stefnt sem ábyrgðaraðila með skilyrta og einfalda ábyrgð.“ Niðurstaða úrskurðarins var byggð á 4. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefna hefði „verið birt stjórnarformanni stefnda Opale Seafood SAS á heimili hans í Hafnarfirði en hann [væri] reyndar stjórnarformaður beggja stefndu.“ Teldist málið því réttilega höfðað. Í áfrýjunarstefnu er tekið fram að áfrýjunin taki einnig til úrskurðarins 26. júní 2008. Felur aðalkrafa áfrýjanda í sér kröfu á endurskoðun hans.
Stefndi beindi málssókn sinni að áfrýjanda og íslenska félaginu Opal Holding ehf. sem ágreiningslaust er að eigi varnarþing í Héraðsdómi Reykjaness. Honum var því samkvæmt 1. mgr. 43. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr., laga nr. 91/1991 heimilt að höfða málið á því varnarþingi. Aðalkröfu áfrýjanda verður því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um kröfur stefnda á hendur áfrýjanda, þar með talið málskostnað, en ákvæði dómsins um kröfur stefnda á hendur Opal Holding ehf. eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að ekki verður séð af málsgögnum að Opal Holding ehf. hafi skilað greinargerð og haldið uppi vörnum í héraði, þó að hinn áfrýjaði dómur bendi til annars.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn sem taka yfir 96 blaðsíður í málsgögnum. Í greinargerð til Hæstaréttar er, þrátt fyrir d. lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991, ekki minnst á gögn þessi og ekkert var að þeim vikið við munnlegan flutning málsins. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu áfrýjanda, Opale Seafood SAS, við stefnda, Vigni G. Jónsson hf., eru óröskuð.
Áfrýjandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. febrúar 2009.
Mál þetta var þingfest 6. febrúar 2008 og tekið til dóms 5. febrúar 2009. Stefnandi er Vignir G. Jónsson hf., Smiðjuvöllum 4, Akranesi, en stefndu eru Opale Seafood SAS, Frakklandi, og Opal Holding ehf., Grandatröð 8, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 99.988,17 evrur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2007 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi Opale Seafood SAS greiði stefnanda 50.000 evrur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2007 til greiðsludags.
Stefndi Opale Seafood SAS krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður þá látinn falla niður.
Stefndi Opal Holding ehf. krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
I.
Í stefnu lýsir stefnandi málavöxtum svo að stefnandi og stefndi Opale Seafood SAS hafi verið í viðskiptasambandi þar sem sá fyrrnefndi hafi framleitt lagmeti sem sá síðarnefndi hafi keypt og selt í Frakklandi. Þannig hafi stefndi Opale Seafood SAS keypt af stefnanda vöru í 18 skipti á árunum 2006 og 2007, samtals fyrir 720.082,32 evrur. Á móti hafi stefnandi fengið greiðslur í 25 skipti frá stefnda Opale Seafood SAS og í eitt skipti frá stefnda Opal Holding ehf. á grundvelli ábyrgðar þess. Ógreiddur mismunur nemi 149.988,17 evrum. Með yfirlýsingu útgefinni 7. júlí 2006 hafi stjórnarformaður stefnda Opal Holding ehf., Birgir Sævar Jóhannsson, gengist í ábyrgð fyrir hönd félagsins fyrir greiðslum á útgefnum reikningum stefnanda á hendur stefnda Opale Seafood SAS. Um hafi verið að ræða ábyrgð á greiðslum og viðskiptaskuld sem hafi verið umfram 50.000 evrur. Hafi þessi ábyrgð verið sett fram vegna greiðsluvanda stefnda Opale Seafood SAS og til þess að fá stefnanda til að senda stefnda áfram framleiðsluvöru sína.
Stefnandi kveður Opale Seafood SAS hafa komist í veruleg vanskil gagnvart stefnanda og hafi Opal Holding ehf. einu sinni greitt inn á viðskiptareikning stefnanda f.h. Opale Seafood SAS á grundvelli ábyrgðarinnar en það hafi verið 28. september 2006 að fjárhæð 30.000 evrur. Stefnanda hafi ekki tekist að fá eftirstöðvar skuldarinnar greiddar.
Stefnandi byggir á því að báðir stefndu séu sameiginlega ábyrgir fyrir greiðslu á viðskiptaskuld stefnda sem sé umfram 50.000 evrur eða 99.988,17 evrur sem sundurliðist þannig:
|
Samtala úttekta á árunum 2006 og 2007 skv. framansögðu |
EUR 720.082,32 |
|
Frá dragast innborganir frá stefndu og kreditfærsla |
“ 570.094,15 |
|
Ógreiddur mismunur |
“ 149.988,17 |
|
Skuld Opale Seafood án ábyrgðar |
“ 50.000,00 |
|
Skuld stefndu in solidum |
EUR 99.099,17 |
Stefnandi heldur því fram að greiðsluskylda stefnda Opal Holding ehf. byggist á framangreindri ábyrgðaryfirlýsingu sem sé virk um leið og viðskipti hafi farið umfram þá lágmarksfjárhæð sem þar sé tilgreind. Bendir stefnandi á að í eitt skipti hafi stefndi Opal Holding ehf. greitt á grundvelli þessarar ábyrgðar. Um ábyrgðir þessar gildi sambærilegar reglur og um bankaábyrgð. Ábyrgð stefnda Opale Seafood SAS byggist á almennum reglum kaupréttarins á efndum fjárskuldbindinga. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Um dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 og um málskostnað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
II.
Í greinargerð Opale Seafood SAS segir m.a. að um mitt ár 2005 hafi stefndi gert framleiðslusamning við smásölukeðjuna Leader Price í Frakklandi og hafi vörurnar ýmist verið seldar undir merkjum Leader Price eða stefnda. Hluta af vörunum hafi stefndi framleitt sjálfur en aðrar keypt af þriðja manni. Um haustið 2005 hafi Leader Price óskað eftir því við stefnda að hann útvegaði Leader Price grásleppukavíar. Forsvarsmaður stefndu, Birgir Sævar Jóhannsson, hafi þá leitað til forsvarsmanns stefnanda, Eiríks Vigfússonar, sem hann hafi þekkt. Aðilar hafi samið svo um að stefnandi fengi greitt fyrir kavíarinn þegar Leader Price hefði greitt stefnda Opale Seafood SAS. Þegar liðið hafi á sambandið hafi stefnandi ekki talið sig geta selt stefnda lengur á þessum greiðslukjörum þar sem hið umbeðna magn hefði aukist. Stefndi Opal Holding ehf. hafi þá látið stefnanda í té einfalda ábyrgð sem sé skilyrt. Hins vegar hafi það gerst að stefnandi hafi afhent vörur seint og illa sem leitt hafi til þess að stefndi hafi lent í vanefndum gagnvart Leader Price. Hafi stefndi þurft að sættast á breytingu á samningsverði sínu hjá Leader Price og orðið fyrir fjártjóni af þessum sökum. Sýknukröfu sína styður stefndi Opale Seafood SAS þessum rökum, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vanefnda stefnanda.
III.
Í greinargerð stefnda Opal Holding ehf. segir m.a. að félagið hafi látið stefnanda í té einfalda ábyrgð sem hafi verið skilyrt við að stefnandi stæði við alla samninga sína við stefnda. Stefnandi hafi hins vegar afhent vörur sínar seint og illa sem leitt hafi til mikilla vandræða fyrir stefnda Opale Seafood SAS.
Kröfu sína um sýknu styður stefndi Opal Holding ehf. sömu rökum og stefndi Opale Seafood SAS. Auk þess bendir stefndi Opal Holding á í greinargerð sinni að ábyrgð hans sé einföld og háð því að engar kröfur eða deilumál séu á milli stefnanda og meðstefnda Opale Seafood SAS. Ábyrgðin geti ekki orðið virk fyrr en búið sé að staðreyna greiðsluskyldu meðstefnda Opale Seafood SAS gagnvart stefnanda og jafnframt að innheimtuaðgerðir gegn meðstefnda í Frakklandi hafi reynst árangurslausar.
IV.
Eftir þingfestingu málsins og eftir framlagningu greinargerðar af hálfu stefnda hafa verið lögð fram samtals 126 skjöl, aðallega af hálfu stefndu.
Fyrir dóminn kom Eiríkur Vigfússon, framkvæmdastjóri stefnanda, og gaf skýrslu. Af hálfu stefnda komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu Birgir Sævar Jóhannsson, stjórnarformaður stefnda Opale Seafood SAS og framkvæmdastjóri og stjórnarformaður stefnda Opal Holding ehf. Þá gáfu einnig skýrslu Jacques Duflos, framkvæmdastjóri stefnda Opale Seafood SAS, og vitnið Olivier Lauriston, fyrrverandi sölustjóri hjá stefnda Opale Seafood SAS.
Eiríkur Jónsson sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að stefnandi væri fjölskyldufyrirtæki og hafi verið í rekstri frá 1970. Meginstarfsemin væri vinnsla úr hrognum og væri mest unnið undir vörumerkjum annarra. Stærstu viðskiptavinirnir væru í Frakklandi en þar væri stærsti markaður fyrir þessa vöru. Eiríkur kvaðst hafa þekkt Birgi frá því er Birgir vann fyrir annað fyrirtæki í Frakklandi fyrir allnokkrum árum. Hafi þeir þá átt viðskipti með hrogn og þau viðskipti gengið snurðulaust fyrir sig. Þessi viðskipti hafi fallið niður í nokkur ár en svo hafi Birgir haft samband við hann árið 2005 og spurt hvort hann vildi framleiða grásleppukavíar sem Birgir ætlaði að selja til verslunarkeðjunnar Leader Price í Frakklandi. Hann kvaðst hafa fallist á það og viðskiptin byrjað á fyrri hluta árs 2006. Samkomulag hafi verið um að greiðslufrestur væri 30 dagar og að skuld stefnda Opale Seafood SAS við stefnanda mætti ekki verða hærri en 50.000 evrur á hverjum tíma. Eiríkur kvaðst selja kavíar til nokkurra söluaðila í Frakklandi og væru skilmálar almennt þeir að reikningar skyldu greiðast eftir 30 daga og að kaupandi legði fram bankaábyrgð. Hann hafi hins vegar ekki krafið stefnda Opale Seafood SAS um bankaábyrgð til að byrja með vegna kunningsskapar þeirra Birgis. Traust hafi ríkt milli þeirra. Hins vegar hafi hann margítrekað við Birgi í tölvubréfum sínum til hans að skuldin mætti ekki fara upp fyrir 50.000 evrur. Það hafi hins vegar brugðist og skuldin stundum orðið meiri en þessu nam eins og t.d. í júní 2006, en þá hafi hún verið orðinn 120.000 evrur. Þá hafi hann stundum þurft að setja gáma í biðstöðu erlendis til þess að knýja á um greiðslu. Hann hafi tilkynnt Birgi að hann þyrfti bankaábyrgð ef viðskiptin ættu að ganga áfram. Birgir hafi þá sent honum ábyrgð stefnda Opal Holding ehf. Eiríkur kvaðst þá hafa ítrekað að slík ábyrgð gæti ekki komið í stað bankaábyrgðar þar sem hann þekkti ekkert til stefnda Opal Holding ehf. Svo hafi farið að lokum að stefndi Opale Seafood SAS hafi misst samninginn við Leader Price og sagt upp samningi sínum við stefnda vorið 2007.
Í máli Birgis Sævars Jóhannssonar kom m.a. fram að forsvarsmenn Leader Price hafi fært það í tal við hann hvort hann gæti útvegað kavíar og gefið það í skyn að slík viðskipti myndu treysta önnur viðskipti stefnda Opale Seafood SAS við Leader Price. Á þessum tíma hafi stefndi Opale Seafood SAS selt Leader Price ýmsa vörur, m.a. eigin framleiðsluvöru. Þessi viðskipti með kavíar hafi ekki verið hugsuð til þess að hafa hagnað af, heldur fyrst og fremst til þess að þjónusta Leader Price og þannig tryggja önnur viðskipti Opale Seafood SAS við verslunarkeðjuna. Birgir kvaðst í upphafi hafa gert Eiríki grein fyrir greiðsluskilmálum Leader Price, að verslunin greiddi ekki fyrr en eftir 45 daga frá móttöku vöru og síðan bættust allt að 10 dagar við þar til hann fengi greiðslu inn á sinn reikning. Þar við bættist flutningur vöru o.fl. þannig að í heild gæti hann ekki greitt fyrr en eftir 90 daga. Hann hafi gert Eiríki grein fyrir að hann gæti ekki fjármagnað svona dýra vöru í svona langan tíma og því yrði að vera rýmri greiðslufrestur af hálfu stefnanda. Eiríkur hafi fallist munnlega á þetta í upphafi viðskiptanna. Þegar allt var komið í óefni og stefndi Opale Seafood SAS gat ekki uppfyllt samning sinn við Leader Price, hafi Leader Price beitt stefnda refsingu af ýmsu tagi. Hafi það haft áhrif á önnur viðskipti stefnda við Leader Price. Birgir mótmælti því að staðið hafi á greiðslum til stefnanda þar sem hann hafi boðið fram ábyrgð.
Stefndi Opale Seafood SAS lagði fram við aðalmeðferð skjal sem er útreikningur stefnda á tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda stefnanda. Samkvæmt þeim útreikningum telur stefndi tapaða framlegð vegna sölu á grásleppukavíar í 2 ár vera 89.793,66 evrur og tapaða framlegð vegna lækkunar á öðrum afurðum í 1 ár 98.907,93 evrur eða samtals 188.701,59 evrur.
V.
Samningssamband komst á milli stefnanda og stefnda Opale Seafood SAS í lok árs 2005 um að sá síðarnefndi keypti grásleppukavíar af stefnanda. Stefndi Opale Seafood SAS gerði samning við verslunarkeðjuna Leader Price í Frakklandi um sölu á framleiðsluvöru stefnanda en stefnandi var ekki aðili að þeim samningi. Samkvæmt gögnum málsins þróuðust viðskipti stefnanda og stefnda Opale Seafood SAS með þeim hætti að fyrsti gámur af kavíar fór til stefnda í mars 2006. Í samskiptum aðila í tölvupósti kemur fram í apríl 2006 að stefndi Opale Seafood SAS áætlar að greiða stefnanda 10.000 evrur inn á fyrsta reikning, sem var að fjárhæð 38.707,20 evrur, og síðan 5.000 evrur vikulega. Þann 24. apríl 2006 sendi forsvarsmaður stefnanda, Eiríkur Vignisson, forsvarsmanni stefnda Opale Seafood SAS, Birgi S. Jóhannssyni, tölvupóst og sagði að vegna nýrrar pöntunar frá stefnda geti hann ekki án tryggingar haft hærri fjárhæð útistandandi en 50.000 evrur á hverjum tíma. Því dugi ekki vikuleg greiðsla að fjárhæð 5.000 evrur vegna þess að með nýjum gámi verði skuldin komin upp í 100.000 evrur. Þetta ítrekaði Eiríkur þann 27. apríl 2006. Í tölvupósti 28. júní 2006 sagði Birgir að áfram yrði greiddar 10-15.000 evrur og upphæðin hækkuð ef farið yrði yfir 50.000 evra markið. Eiríkur sendi Birgi póst daginn eftir og ítrekaði að hann gæti ekki tekið meiri áhættu en 50.000 evrur. Kæmi stefndi Opale Seafood SAS hins vegar með bankaábyrgð gæti hann gefið 90 daga greiðslufrest. Í lok bréfsins sagði Eiríkur að það væri honum að meinalausu þó að stefndi Opale Seafood SAS kysi að hætta viðskiptunum. Þann 7. júlí 2006 sendi Birgir Eiríki ábyrgðaryfirlýsingu stefnda Opal Holding ehf. þar sem fram kemur m.a. að Opal Holding ábyrgist vegna viðskiptanna þær fjárhæðir sem fari upp fyrir 50.000 evrur. Eiríkur þakkaði fyrir þessa ábyrgð 10. júlí 2006 en sagði jafnframt að banki þyrfti einnig að koma að ábyrgðinni. Þann 22. ágúst 2006 minnti Eiríkur Birgi á að skuldin væri nú 87.398 evrur og komin upp fyrir 50.000 evrur sem væri það hámark sem hann gæti haft útistandandi. Aftur sama dag óskaði Eiríkur eftir bankaábyrgð. Þann 24. ágúst 2006 tilkynnti Eiríkur að sending væri farin til Rotterdam en henni yrði haldið þar til greiðsla hefði borist. Þann 8. september 2006 tilkynnti Eiríkur að sendingin væri í biðstöðu og yrði ekki afhent fyrr en skuldin væri komin niður í 50.000 evrur. Þann 12. september sagði Birgir í bréfi sínu að 20.000 evrur yrðu greiddar í þessari viku og 40.000 evrur í þeirri næstu. Þann 9. nóvember 2006 tilkynnti Eiríkur að gámur væri nú í biðstöðu í Vlissingen og hann væri tilbúinn að hækka heimildina í 60.000 evrur. Þann 15. desember 2006 sendi Birgir Eiríki bréf og sagði m.a. að vegna afhendingardráttar af hálfu stefnanda hafi stefndi Opale Seafood SAS ekki getað efnt samningi sinn við Leader Price. Eiríkur svaraði bréfi Birgis samdægurs og sagði m.a. að aðeins ein ástæða væri fyrir töfum á afhendingu en það væri ófullnægjandi greiðslur af hálfu stefnda og ennfremur tafir á því að staðfesta pantanir. Viðskiptum aðila lauk með þeim hætti að Birgir sendi Eiríki bréf 23. maí 2007 og tilkynnti uppsögn á samningi aðila og að ekki yrði um frekari viðskipti að ræða milli þeirra. Þann 22. júní 2007 óskaði stefnandi eftir uppgjöri á skuld stefndu við stefnanda en með bréfi 10. júlí 2007 hafnaði stefndi Opale Seafood SAS frekari greiðslum vegna tjóns er hann taldi sig hafa orðið fyrir.
Af framangreindum samskiptum aðila má sjá að ekki var ágreiningur um magn vöru eða gæði hennar. Stefnufjárhæð er einnig óumdeild. Ágreiningur aðila snýst eingöngu um afhendingu vörunnar og greiðsluskilmála.
Stefndi Opale Seafood SAS hefur haldið því fram að samið hafi verið um lengri greiðslufrest en 30 daga og að afhenda ætti vöruna samkvæmt sérstakri afhendingaráætlun. Engin skrifleg gögn eru í málinu um þessa staðhæfingu stefnda. Af bréfaskriftum aðila má hins vegar glögglega sjá að alveg frá upphafi veitti stefnandi aðeins 30 daga greiðslufrest og setti það skilyrði að skuldin færi ekki upp fyrir 50.000 evrur á hverjum tíma. Var það margítrekað af hálfu stefnanda og verður ekki annað ráðið af bréfaskriftum aðila en að stefndi Opale Seafood SAS hafi í raun samþykkt þessa greiðsluskilmála. Því telst sannað í málinu að samningur aðila hafi hljóðað á um 30 daga greiðslufrest og að skuldin mætti ekki fara upp fyrir 50.000 evrur á hverjum tíma.
Ósönnuð er sú staðhæfing stefnda Opale Seafood SAS að afhendingardráttur hafi orðið af hálfu stefnanda. Þvert á móti er framkomið í málinu, sbr. framangreindar bréfaskriftir aðila, að afhendingardráttur stafaði eingöngu af greiðsludrætti stefnda. Af þeim sökum þurfti stefnandi nokkrum sinnum að seinka afhendingu og setja gáma í biðstöðu í erlendum höfnum vegna þess að það stóð á greiðslum frá stefnda Opale Seafood SAS. Vegna framangreindra vanefnda af hálfu stefnda Opale Seafood SAS á hann ekki bótakröfu á hendur stefnanda.
Niðurstaðan í þessum þætti málsins er því sú að stefndi Opale Seafood SAS verður dæmdur til að greiða stefnanda 149.988,17 evrur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefndi Opale Seafood SAS dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.
Með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu 7. júlí 2006 gekkst stefndi Opal Holding ehf. í ábyrgð fyrir stefnda Opale Seafood SAS. Segir m.a. í ábyrgðaryfirlýsingunni: „Vignir Jónsson hf. er tilbúið að veita Opale Seafood SAS ákveðinn greiðslufrest með því skilyrði að heildarupphæð útistandandi viðskiptakrafna fari ekki upp fyrir 50.000 á hverjum tíma. Allar upphæðir, vegna viðskipta með „afurðirnar“, sem fara upp fyrir 50.000, mun Opal Holding, fyrir hönd síns dótturfélags, ábyrgjast greiðslur á, til handa Vigni.
Ábyrgð þessi er háð því að engin kröfu- eða deilumál séu uppi er tengjast „afurðinni“, s.s. gæði þeirra, afhendingar eða önnur atriði sem koma í veg fyrir eðlilegar sölu og afhendingar til viðskiptavina Opale Seafood SAS.“
Meginreglan er sú varðandi ábyrgðir að skuldbinding ábyrgðarmanns telst einföld ábyrgð nema ábyrgðarmaður hafi ótvírætt gengist undir sjálfskuldarábyrgð eða þá að leiða megi af lögskiptum aðila eða aðstæðum við samningsgerð, að um sjálfskuldarábyrgð sé að ræða. Í máli þessu er aðstaðan sú að stefndi Opale Seafood SAS reyndi að liðka fyrir viðskiptum aðila með því að senda stefnanda umrædda ábyrgðaryfirlýsingu. Af stefnanda hálfu var ekki fallist á að hún gæti komið í stað bankaábyrgðar sem hann gerði kröfu um. Því var því ekki til að dreifa að sjálfskuldarábyrgð hafi skapast á þeim grunni að Opale Seafood SAS væri veittur greiðslufrestur gegn því að þriðji maður gengi í ábyrgð. Niðurstaðan er því sú að ábyrgð sú er stefndi Opal Holding ehf. veitti 7. júlí 2006 telst vera einföld ábyrgð og ber því stefnanda að leita fullnustu úr hendi aðalskuldara áður en greiðsluskylda ábyrgðarmanns verður virk.
Verður stefndi, Opal Holding ehf., því sýknaður að svo stöddu af kröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Rétt þykir að málskostnaður milli stefnanda og stefnda Opal holding ehf. falli niður.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Opale Seafood SAS, greiði stefnanda, Vigni G. Jónssyni hf., 149.988,17 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2007 til greiðsludags.
Stefndi, Opale Seafood SAS, greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.
Stefndi, Opal Holding ehf., skal að svo stöddu vera sýkn af kröfu stefnanda í málinu.
Málskostnaður milli stefnanda og Opal Holding ehf. fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. júní 2008
Mál þetta var þingfest 6. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 5. júní sl. Stefnandi er Vignir G. Jónsson hf., Smiðjuvöllum 4, Akranesi, en stefndu eru Opale Seafood SAS, Frakkandi og Opal Holding ehf., Grandatröð 8, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða 99.988,17 evrur auk dráttarvaxta skv. 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2007 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar. Þá krefst stefnandi ennfremur þess að stefndi Opale Seafood SAS greiði stefnanda 50.000 evrur auk dráttarvaxta skv. 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. mars 2007 til greiðsludags og málskostnað.
Í þessum þætti málsins krefst stefndi frávísunar.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að stefnandi seldi stefna Opale Seafood SAS lagmeti sem sá síðarnefndi seldi smásölukeðju í Frakklandi. Með yfirlýsingu 7. júlí 2006 gekkst félagið Opal Holding ehf. í ábyrgð fyrir greiðslum á útgefnum reikningum stefnanda á hendur stefnda Opale Seafood SAS. Var hér um að ræða ábyrgð fyrir greiðslum á viðskiptaskuld sem væri umfram 50.000 evrur. Stefnandi kveður stefndu Opale Seafood SAS hafa komist í veruleg vanskil og ekki hafi tekist að fá eftirstöðvar skuldarinnar greiddar.
Kröfu sína um frávísun styður stefndi Opale Seafood SAS þeim rökum að hann sé franskt félag með starfsstöð í Frakklandi og sé löglegt varnarþing því í Frakklandi. Beri því að stefna honum fyrir dóm í Frakkklandi. Hvorki ákvæði einkamálalaga né ákvæði Lugano samningsins skv. lögum nr. 68/1995 eigi við í málinu. Þá heldur stefndi Opal Holding ehf. því fram að ekki séu lagaskilyrði til þess að fella greiðsluskyldu á hann þar sem ábyrgð hans á efndum meðstefnda sé einföld og skilyrt og standi ákvæði 4. tl. 114. gr. einkamálalaga nr. 97/1991 því í vegi fyrir að unnt sé að kveða upp dóm gagnvart honum. Ekki geti gengið dómur yfir honum vegna meintra skuldbindinga stefnda Opale Seafood SAS fyrr en dómur sé genginn yfir þeim síðarnefda og innheimtutilraunir hafi verið gerðar í Frakklandi. Af þessum sökum sé hvorki lagaskilyrði til að reka málið á Íslandi né yfir stefndu báðum samtímis í einu máli.
Stefnandi byggir varnarþing í málinu á 1. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála en þar segir að ef kröfu sé beint að fleiri en einum aðila í sama máli megi sækja það á varnarþingi hvers þeirra sem er. Stefnandi vísar einnig til 1. mgr. 43. gr. laganna þar sem segir að ákvæði 1. mgr. 42. gr. verði einnig beitt til að sækja mann sem búsettur er erlendis, svo og félög, firma, stofnun eða samtök sem eins er ástatt um, nema annað leiði af samningi við erlend ríki.
Fallist er á með stefndu að framangreindum ákvæðum verði beitt þegar samaðild skv. 18. gr. eml. og aðildarsamlag skv. 19. gr. eml. er nauðsynlegt varnarmegin en ekki þegar sá aðili, sem tengist varnarþingi hér á landi, er stefnt sem ábyrgðaraðila með skilyrta og einfalda ábyrgð.
Hins vegar gyrðir 4. mgr. 32. gr. laganna ekki fyrir að málið sé höfðað hér á landi þar sem stefna hefur verið birt stjórnarformanni stefnda Opale Seafood SAS á heimili hans í Hafnarfirði en hann er reyndar stjórnarformaður beggja stefndu. Málið telst því réttilega höfðað á þessu varnarþingi. Hvorki lög né dómaframkvæmd þykir standa í vegi fyrir að málið sé höfðað samtímis gegn báðum stefndu í sama máli. Frávísunarkröfu stefndu verður því hrundið. Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Frávísunarkröfu stefndu er hrundið. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.