Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2005
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 2. mars 2006. |
|
Nr. 413/2005. |
X(Jóhannes Albert Sævarsson hrl. Guðrún H. Brynleifsdóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. Anton B. Markússon hdl.) |
Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.
Barnaverndarnefnd R krafðist þess að X yrði svipt forsjá barns síns sem fætt er 2000. Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður sem taldi X ekki vera færa til að fara með forsjá barnsins, jafnvel þótt hún nyti til þess verulegs stuðnings. Héraðsdómur taldi skilyrði barnaverndarlaga til forsjársviptingar vera uppfyllt og féllst á kröfu barnaverndarnefndar R. Í yfirmatsgerð, sem fram fór að beiðni X eftir uppkvaðningu héraðsdóms, kom fram að yfirmatsmenn teldu X ekki hafa tekið sig á sem skyldi, eins og nauðsynlegt hefði verið til að breyta og bæta forsendur fyrir því að hún héldi forsjá barnsins og að vandinn væri ekki minni en hann hefði verið við undirmatsgerð. Að þessu virtu og því hvernig umgengni X við barnið hafði farið fram eftir að málinu var skotið til Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms um forsjársviptingu staðfest með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2005. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjanda 6. október 2004 með þeirri kröfu að hún yrði svipt forsjá nafngreinds barns síns, sem fætt er árið 2000. Undir rekstri málsins í héraði fékk áfrýjandi 8. febrúar 2005 dómkvaddan sérfræðing í klínískri sálfræði til að láta í té mat á nánar tilteknum atriðum, sem vörðuðu einkum heilsufar hennar og persónulega hagi, tengsl hennar við barnið, hvernig henni hafi tekist til við umönnun þess og hæfni hennar til að skapa því viðeigandi uppeldisskilyrði í framtíðinni. Í matsgerð 28. apríl sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að hæfni áfrýjanda sem móður tengdist því mjög hvort hún forðaðist neyslu vímuefna, en það hefði hún þá gert í fjóra mánuði, sem telja yrði fremur skamman tíma, hvort sem horft væri til fortíðar hennar eða aðstæðna almennt. Á þessum grunni taldi matsmaðurinn að áfrýjandi væri ekki fær um að fara með forsjá barnsins, jafnvel þótt hún nyti til þess verulegs stuðnings. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, féllst á dómkröfu stefnda.
Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, ákvað stefndi 4. október 2005 að ráðstafa barninu, sem málið varðar, tímabundið í fóstur hjá föður þess til 1. október 2006. Á fundi stefnda 18. október 2005 var tekin ákvörðun um umgengni áfrýjanda og barnsins meðan málið væri til meðferðar fyrir Hæstarétti. Skyldi umgengnin verða í tvö skipti fram til ársloka 2005 og önnur tvö skipti á tímabilinu 1. janúar til 15. mars 2006, allt að þrjár klukkustundir í senn í húsnæði á vegum stefnda og undir eftirliti starfsmanns hans. Ekkert varð af þeirri umgengni fyrr en 22. desember 2005 og hefur hún engin verið síðan. Samkvæmt skýrslu Barnaverndar Reykjavíkur 18. janúar 2006 fór umgengni í það sinn vel fram í byrjun, en til ágreinings hafi síðan komið milli áfrýjanda og eftirlitsmanns stefnda þegar hann hafi leitast við að stöðva ítrekaðar tilraunir hennar til að fá barnið til að tjá sig um tilhögun umgengninnar, svo og neikvæð ummæli hennar við barnið um föður þess. Við þessu hafi áfrýjandi brugðist illa og hafi orðið að kalla til aðstoð til að ljúka umgengninni þegar í stað. Að mati eftirlitsmannsins hafi þessi atburður reynst barninu mjög erfiður og hafi því liðið afar illa eftir umgengnina að sögn föður þess. Af þessu tilefni tók stefndi ákvörðun 7. febrúar 2006 um að barnið hefði ekki umgengni við áfrýjanda næstu tvo mánuði.
Áfrýjandi fékk 20. janúar 2006 dómkvadda tvo klíníska sálfræðinga sem yfirmatsmenn. Í yfirmatsgerð þeirra 20. febrúar 2006 kom meðal annars fram að áfrýjandi hafi í október 2005 flust frá Akureyri, þar sem hún hafði verið búsett um tíma meðan málið var rekið fyrir héraðsdómi, en frá janúar 2006 hafi hún dvalið á gistiheimili í Reykjavík. Í niðurlagi yfirmatsgerðarinnar var vísað til þess að yfirmatsmennirnir hafi átt viðtöl við áfrýjanda, lagt fyrir hana sálfræðileg próf og hugað að þróun atvika frá því að undirmatsgerð var lokið. Hafi þeir ekki fundið nægar vísbendingar um að ástand áfrýjanda hafi batnað á þeim tíma. Í undirmatsgerð hafi komið fram að hún hefði ekki neytt vímuefna í fjóra mánuði, en á fundi með yfirmatsmönnum hafi hún greint frá því að hún hefði ekki notað þau á síðustu fjórum eða fimm mánuðum. Töldu yfirmatsmenn að áfrýjandi hefði því ekki tekið sig á sem skyldi, eins og nauðsynlegt hefði verið til að breyta og bæta forsendur fyrir því að hún héldi forsjá barnsins, en vandinn væri ekki orðinn minni en hann hefði verið við undirmatsgerð. Alls ekki væri komin næg reynsla á að áfrýjandi myndi til lengri tíma nýta sér þá aðstoð, sem hún hefði þegar fengið og henni stæði til boða. Yfirmatsmenn létu jafnframt í ljós það álit að vandi áfrýjanda „sé víðtækari og flóknari en aðeins varðandi vímuefni. Hún á einnig við persónuleikaröskun að stríða. Ef vandinn væri einungis vímuefnavandi hefði hún að öllum líkindum tekið á honum fyrr, í ljósi ítarlegra upplýsinga frá fagfólki og endurtekinna aðvarana barnaverndaryfirvalda.“
Að framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, X, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí sl., var höfðað 6. október 2004 af Reykjavíkurborg vegna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur á hendur X, [...], Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, kt. [...], samkvæmt a og d liðum l. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er gerð krafa um málskostnað.
Stefnda krefst sýknu af þeirri kröfu stefnanda að hún verði svipt forsjá sonar síns. Hún krefst einnig að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefndu var veitt gjafsókn 1. nóvember 2004.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi hefur höfðað mál þetta samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga og krefst þess að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, fæddur [...] 2000. Krafa stefnanda er studd þeim rökum að stefnda sé ófær um að annast barnið vegna vímuefnaneyslu og andlegra veikinda. Barnaverndarnefnd hafi ítrekað reynt að aðstoða stefndu við að taka á þessum vandamálum í þeim tilgangi að hún gæti annast uppeldi drengsins en það hafi engan veginn tekist.
Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var drengurinn vistaður á einkaheimili í byrjun árs 2001 þegar hann var fimm mánaða gamall en stefnda fór þá í vímuefnameðferð sem hún lauk þó ekki. Drengurinn fór aftur í vistun á einkaheimili á vegum sóknaraðila með samþykki stefndu í desember sama ár til janúarloka en stefnda var á þeim tíma í áfengismeðferð sem hún lauk ekki að fullu. Drengurinn dvaldi enn á ný á einkaheimili er stefnda fór í meðferð á Vogi í lok mars 2002 sem lauk 7. maí sama ár. Í lok júlí s.á. flutti stefnda með son sinn til Danmerkur en hún ætlaði að stunda þar nám. Af því varð þó ekki og flutti hún aftur til Íslands í september s.á.
Í júlí 2003 fékk barnaverndarnefnd upplýsingar um að komið hefði til átaka milli stefndu og föður drengsins og hefði hún skorið hann nokkrum sinnum með hnífi. Stefnda fór í framhaldi af því í vímuefnameðferð á Landspítalanum og var drengurinn vistaður utan heimilis með samþykki stefndu til 30. september s.á. Með úrskurði barnaverndarnefndar 7. október s.á. var ákveðið að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis samkvæmt b lið 27. gr. barnaverndarlaga á heimili á vegum Barnaverndarstofu í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins.
Með beiðni stefnanda í nóvember sama ár var krafist úrskurðar dómsins um að sonur stefndu yrði vistaður utan heimilis hennar í 12 mánuði samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga. Krafan var sett fram í tilefni af því að stefnda hafði ekki samþykkt að drengurinn yrði vistaður í svo langan tíma heldur aðeins í sex mánuði sem stefnandi hafi ekki talið nægilega langan tíma til að leysa úr vandamálum sem stefnda þyrfti að takast á við vegna vímuefnanotkunar. Dómurinn hafnaði kröfu sóknaraðila með úrskurði 28. janúar 2004 og fór drengurinn til stefndu í febrúar s.á. Stefnda samþykkti að drengurinn færi til föðurömmu sinnar 15. júlí s.á. og yrði þar til 24. ágúst s.á. Með úrskurði barnaverndarnefndar 7. september s.á. var ákveðið að drengurinn yrði vistaður utan heimilis samkvæmt b lið 27. gr. barnaverndarlaga á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins. Mál þetta var höfðað 6. október sama ár, eins og áður hefur komið fram, en samkvæmt 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga helst ráðstöfun barnaverndarnefndar ef krafist hefur verið forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. laganna áður en vistunartíma lýkur þar til dómur liggur fyrir. Drengurinn hefur því verið áfram hjá föðurömmu sinni.
Stefnda mótmælir því að skilyrði séu til þess að svipta hana forsjá sonarins. Hún hafi tekið á sínum vandamálum, sé hætt í allri óreglu og misnotkun á áfengi, hún hafi flutt til [...] þar sem móðir hennar búi og sé nú að byggja upp nýtt og betra líf þar. Hún kveðst löngu áður hafa hætt allri neyslu annarra vímuefna. Í greinargerð stefndu er því haldið fram að málið hafi verið höfðað af stefnanda án þess að fyrir lægi óhlutdrægt mat á forsjárhæfni stefndu svo og mat á tengslum hennar og drengsins og hvað teljist vera honum fyrir bestu. Í þinghaldi 21. janúar sl. var þess óskað af hálfu stefndu að hún fengi að leggja fram matsbeiðni en því var mótmælt af stefnanda hálfu. Úrskurður var kveðinn upp um þann ágreining 2. febrúar sl. þar sem fallist var á beiðni stefndu um að dómkvaddur yrði matsmaður til meta það sem um var beðið í matsbeiðni stefndu 27. janúar sl. Dómkvaddur var sem matsmaður Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur 8. febrúar sl. en matsgerð hans er dagsett 28. apríl sl.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að málið varði 4 ára son stefndu sem lúti forsjá hennar. Auk drengsins eigi stefnda telpu á 16. aldursári sem hafi frá árinu 2001 verið í tímabundnu fóstri á [...] með samþykki stefndu. Stefnda hafi átt við langvarandi vímuefnavanda og andlega vanlíðan að stríða. Þessir erfiðleikar hafi gert hana ófæra um að axla ábyrgð á og sinna þörfum sonar síns eins og forsjáraðilum sé skylt að lögum að veita börnum sínum. Drengurinn hafi af þeim sökum verið vistaður átta sinnum utan heimils frá fæðingu, í mislangan tíma, bæði á einkaheimilum og vistheimili barna.
Afskipti barnaverndar af mæðginunum hafi hafist í ársbyrjun 2001, er drengurinn var fimm mánaða gamall, en þá hafi borist tilkynning um bágar uppeldisaðstæður hans vegna vímuefnavanda stefndu. Í kjölfarið hafi stefnda farið í vímuefnameðferð á Teigi og hafi drengurinn verið vistaður á einkaheimili á meðan. Stefnda hafi ekki lokið meðferðinni.
Starfsmönnum barnaverndar hafi borist tilkynning frá bráðamóttöku Landspítalans 8. apríl 2001, en drengurinn hafi verið lagður inn vegna erfiðleika við fæðuinntöku vegna áverka sem hann hafi hlotið þegar faðir hans hafi reynt að ná brjóstsykri úr hálsi hans. Í tilkynningunni komi enn fremur fram að faðir drengsins, sem í umrætt sinn hafi virst vera undir verulegum áhrifum vímuefna, hafi misst drenginn í gólfið á sjúkrahúsinu með þeim afleiðingum að drengurinn hafi hlotið blóðnasir. Drengurinn hafi því einnig verið innlagður m.t.t. höfuðáverka. Stefnda hafi mætt á sjúkrahúsið daginn eftir í þeim tilgangi að taka drenginn með sér heim, en þar sem grunur hafi leikið á að hún væri undir áhrifum vímuefna hafi ekki þótt verjandi að fela henni umsjá drengsins. Við það hafi hún gengið berserksgang á spítalanum og ráðist m.a. að starfsmanni barnaverndar. Einnig hafi stefnda raskað ró annarra barna á spítalanum með framkomu sinni. Hafi þurfti aðstoð lögreglu til að fjarlægja hana af spítalanum. Í ljósi þess að stefnda hafi ekki samþykkt frekari dvöl drengsins á spítalanum hafi verið gripið til þess ráðs að kyrrsetja hann þar og hafi sú neyðarráðstöfun verið staðfest með úrskurði barnaverndarnefndar 10. apríl s.á. Á fundi nefndarinnar sama dag hafi stefnda undirritað meðferðaráætlun, þar sem hún hafi m.a. skuldbundið sig til að undirgangast sálfræðiathugun. Á tímabilinu júlí til september s.á. hafi stefnda mætt þrisvar sinnum í viðtöl hjá Grétari Sigurbergssyni geðlækni. Í bréfi hans 10. september það ár, komi fram að hann telji stefndu þjást af athyglisbresti með nokkurri ofvirkni. Enn fremur hafi hann talið nauðsynlegt að gerð yrði á henni sálfræðileg úttekt.
Á næstu vikum og mánuðum hafi verið unnið að því að framfylgja ákvæðum meðferðaráætlunarinnar. Drengurinn hafi verið í vistun hjá dagmóður frá miðjum ágúst 2001 og 18. október sama ár hafi stefnda samþykkt að sjálfboðaliði á vegum Rauða krossins gætti drengsins á meðan hún stundaði AA-fundi. Fljótlega hafi komið í ljós að stefnda hafi ekki nýtt sér stuðninginn sem skyldi og hafi stuðningsaðilinn hætt í desember sama ár. Í sama mánuði hafi aftur farið að bera á vanda hjá stefndu. Hún hafi gengið berserksgang í Miðgarði er henni var synjað um fjárhagsaðstoð. Kalla hafi þurft á aðstoð lögreglu sem hafi fært stefndu í fangageymslu, en grunur hafi leikið á að hún væri í neyslu fíkniefna. Stefnda hafi farið í áfengismeðferð á Hlaðgerðarkoti 19. desember 2001 og hafi hún dvalið þar til janúarloka án þess að ljúka fullri meðferð. Á meðan hafi drengurinn verið vistaður með hennar samþykki á einkaheimili á vegum barnaverndar. Í lok mars 2002 hafi stefnda óskað eftir því að drengurinn yrði vistaður á nýjan leik, nú á einkaheimili, þar sem hún ætlaði í 2 vikna meðferð á Vogi.
Um mánaðamótin júlí/ágúst 2002 hafi stefnda flust búferlum til Danmerkur ásamt drengnum, þar sem hún hafi ætlað að setjast á skólabekk. Þær fyrirætlanir hafi hins vegar ekki gengið eftir og í september sama ár hafi hún snúið aftur heim til Íslands.
Stefnda hafi undirgengist forsjárhæfnismat hjá Áskeli Erni Kárasyni sálfræðingi í samræmi við meðferðaráætlun frá 2001, sbr. matgerð 21. október 2002. Í niðurstöðu hennar segi að vegna stopullar samvinnu við gerð athugunarinnar hafi ekki fengist allar þær upplýsingar sem æskilegt hefði verið, en þó nægar til að gefa nokkuð skýra mynd af stefndu. Hún sé ung kona sem þrátt fyrir góða greind hafi frá unglingsárum átt erfitt með að fóta sig í lífinu. Hún hafi misnotað vímuefni og búið við skort á fjárhagslegu og félagslegu öryggi og almennum stöðugleika. Hún þjáist ekki af þunglyndi eða geðsýki en virtist byrgja inni mikla reiði og hætti mjög til að lenda í árekstrum við umhverfi sitt. Hún sýni ýmis merki um athyglisbrest með ofvirkni. Stefnda hafi tilhneigingu til að afneita vandamálum sínum eða bregðast við þeim með óraunhæfum og óyfirveguðum hætti. Tengsl hennar við ættingja og vini séu árekstrarsöm og félagslegt stuðningsnet veikburða. Um sé að ræða móður í veikri aðstöðu þar sem óstöðugleiki og ýmis áföll vofi sífellt yfir. Hún þurfi á mikilli félagslegri aðstoð og persónulegri ráðgjöf að halda eigi henni að takast að bæta stöðu sína og búa börnum sínum viðunandi uppeldisskilyrði. Slíka aðstoð hafi hún ekki getað nýtt sér sem skyldi til þessa. Var það niðurstaða sálfræðingsins að forsjárhæfni stefndu væri mjög skert.
Málefni A hafi verið tekin fyrir á fundi barnverndarnefndar 29. október 2002. Í framhaldinu hafi verið gerð áætlun um meðferð máls í samvinnu við stefndu, þar sem kveðið hafi verið á um stuðning við mæðginin. Stefnda hafi nýtt sér stuðninginn vel og hafi uppeldisaðstæður drengsins virst vera að breytast til hins betra eins og fram komi í samantekt stuðningsaðila 13. mars 2003 og skýrslu sálfræðings 18. sama mánaðar. Málið hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndarinnar 29. apríl 2003 og í ljósi þess hve vel þótti hafa gengið hafi verið gerð ný áætlun um meðferð máls í samvinnu við stefndu 15. maí þar sem m.a. komi fram að stefnda skyldi studd áfram í uppeldishlutverkinu og að hún héldi sig alfarið frá neyslu vímuefna.
Í júlí 2003 hafi borist tvær tilkynningar til barnaverndar vegna aðbúnaðar drengsins hjá stefndu vegna gruns um fíkniefnaneyslu hennar og föður drengsins. Í tilkynningu 15. júlí komi fram að til átaka hefði komið milli stefndu og föðurins sem leitt hafi til þess að hún hafi skorið barnsföður sinn ítrekað með hnífi. Í kjölfar átakanna hafi stefnda undirgengist vímuefnameðferð á Landspítalanum og hafi drengurinn verið vistaður utan heimilis með samþykki hennar til 30. september sama ár. Samkvæmt gögnum málsins hafi umræddur atburður virst hafa haft gríðarleg áhrif á sálarlíf drengsins, en hegðun hans í leikskóla renni stoðum undir það. Í samantekt frá leikskólastjóra 11. september 2003 komi fram að drengurinn hafi átt í miklum erfiðleikum með sjálfan sig fyrstu dagana eftir umræddan atburð. Hann hafi klórað önnur börn og starfsfólk og notað setningar á borð við; „á ég að drepa þig.” Vísað sé til þess að langan tíma hafi tekið að ná honum niður, hann hafi klórað og klipið. Hann hafi kallað á mömmu sína, hálfgrátið og sagt frá því að mamma hafi lamið hann með hnífi í kinnina, en marblettur hafi verið að koma fram á kinn hans, mamma hafi öskrað, pabbi sé leiðinlegur og blóð sé á gólfinu. Hann hafi farið aftur að gráta og loks hafi hann sofnað. Atferli drengsins hafi farið síversnandi eftir umræddan atburð og í ágúst s.á. hafi honum verið vísað af leikskólanum vegna erfiðrar hegðunar. Hann hafi ekki sótt leikskóla síðan.
Stefnda hafi komið í viðtal til starfsmanns barnaverndar 9. september 2003. Hún hafi upplýst að næsta dag hæfi hún meðferð á Vogi og síðan stæði til að fara í eftirmeðferð á Vík. Meðferðarferlið hafi í heild sinni átt að taka fimm til sex vikur. Stefnda hafi haft samband við starfsmenn barnaverndar 15. september, frá Vogi að hennar eigin sögn, vegna fyrirtöku sem fyrirhuguð var í máli hennar 23. september s.á. Tilefnið hafi verið að fara fram á að fyrirtöku í máli hennar yrði frestað til loka október það ár, eða þar til áætlaðri meðferð og eftirmeðferð væri lokið. Eftir umrætt símtal hafi ekki heyrst meira frá stefndu og eftir ítrekaðar tilraunir starfsmanns barnaverndar við að koma skilaboðum til hennar, þess efnis að ekki væri unnt að verða við beiðni hennar um frestun málins, hafi fengist þær upplýsingar hjá lækni á Vogi að stefnda hefði hætt í meðferð 16. september s.á.
Málefni A hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 23. september 2003 og hafi foreldrar drengsins mætt ásamt lögmanni stefndu á fundinn. Stefnda hafi samþykkt vistun drengsins utan heimilis í allt að sex mánuði, gegn þeim skilyrðum að hann yrði vistaður hjá móður hennar, bróður eða stuðningsfjölskyldu og að umgengni við foreldra yrði rúm. Barnaverndarnefnd hafi ekki talið sex mánuði nægilegan langan tíma til þess að stefndu tækist að sýna fram á varanlegar breytingar á uppeldisaðstæðum drengsins. Starfsmönnum hafi því verið falið að afla samþykkis hennar fyrir vistun hans utan heimils í 12 mánuði.
Á fundi barnaverndarnefndar 7. október 2003 hafi málefni stefndu verið tekið fyrir að nýju. Stefnda hafi ekki mætt til fundarins en lögmaður hennar hafi verið viðstaddur. Lögmaðurinn hafi ítrekað samþykki stefndu fyrir vistun drengsins utan heimilis í allt að sex mánuði. Þar sem samþykki stefndu fyrir 12 mánaða vistun hafi ekki fengist hafi málið verið tekið til úrskurðar og sá úrskurður uppkveðinn að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis, sbr. b liður 27. gr. barnaverndarlaga, í tvo mánuði frá 7. október 2003 að telja, á heimili á vegum Barnaverndarstofu. Þar sem stefnda hafi ekki samþykkt vistun drengsins á heimili á vegum Barnaverndarstofu í 12 mánuði og þar sem talið var nauðsynlegt að vistunin stæði lengur en þá tvo mánuði sem barnaverndarnefnd hefði heimild til að úrskurða um, sbr. b liður 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, hafi sú krafa verið gerð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að drengurinn yrði vistaður á heimili á vegum Barnaverndarstofu í 12 mánuði, sbr. 28. gr. sömu laga.
Með úrskurði 24. janúar 2004 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur hafnað kröfu barnaverndarnefndar. Nefndin hafi ákveðið að una úrskurðinum gegn því skilyrði að stefnda yrði til samvinnu um stuðning og eftirlit. Hún hafi undirritað meðferðaráætlun 13. febrúar sama ár þar sem kveðið hafi verið á um óboðað eftirlit með heimilinu, samvinnu af hálfu stefndu og að hún héldi sig frá neyslu vímuefna. Í áætluninni hafi einnig verið kveðið á um að drengurinn fengi stuðningsfjölskyldu eina helgi í mánuði og að stefnda mætti reglulega í viðtöl hjá starfsmanni barnaverndar. Erfiðlega hafi gengið að fylgja meðferðaráætluninni vegna skorts á samvinnu af hálfu stefndu. Hún hafi hvorki skilað inn vottorðum frá Grensáskirkju né blóðprufum eins og ráðgert hafi verið í áætluninni. Þá hafi reynst ógerlegt að endurmeta áætlunina í maí sl. eins og ráð hafi verið gert fyrir, þar sem ekki hafi náðst í stefndu.
Í júlímánuði sama ár hafi starfsmönnum barnaverndar borist ítrekaðar tilkynningar um bágar uppeldisaðstæður drengsins. Í viðtali við starfsmann barnaverndar 15. júlí hafi stefnda viðurkennt að hafa fallið á vímuefnabindindi mánuði áður, eftir heimkomu frá [...], þar sem hún hafi dvalið í þrjár vikur hjá hálfsystur sinni ásamt drengnum. Hún hafi lýst yfir þeim vilja sínum að hálfsystirin og eiginmaður hennar ættleiddu drenginn. Á fundinum hafi stefnda samþykkt að drengurinn yrði vistaður hjá föðurömmu sinni til 24. ágúst s.á. Enn fremur hafi hún undirritað að nýju meðferðaráætlun þar sem hún hafi skuldbundið sig m.a. til að undirgangast forsjárhæfnismat.
Stefnda hafi haft umgengni við drenginn 29. júlí 2004 undir eftirliti starfsmanns barnaverndar. Þeirri umgengni hafi lokið með því að kalla hafi þurft til lögreglu vegna skapofsa stefndu. Stefnda hafi farið á heimili föðurömmu drengsins 25. ágúst sama ár í því skyni að ná í hann. Þar hafi hún ráðist á föðurömmuna og veitt henni margvíslega áverka. Henni hafi þó tekist við illan leik að koma stefndu út úr inngangi fjölbýlishússins þar sem árásin hafi átt sér stað og hafi stefnda þá flúið af vettvangi. Sama dag hafi stefnda hafið meðferð á Sjúkrastöðinni Vogi, en þar sem hún hafi ekki samþykkt áframhaldandi vistun drengsins hjá föðurömmu hafi hann verið kyrrsettur þar á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga til 1. september s.á.
Málið hafi verið tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. september 2004. Faðir drengsins hafi mætt á fundinn og lýst áhyggjum sínum af andlegum veikindum stefndu og talið hana beinlínis hættulega. Stefnda hafi einnig mætt á fundinn ásamt lögmanni sínum og krafist þess að fá drenginn í sína umsjá. Þar sem hún hafi reynst ófáanleg til að samþykkja frekari vistun hans utan heimils hafi málið verið tekið til úrskurðar á fundinum og sá úrskurður uppkveðinn að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis, sbr. b liður 27. gr. barnaverndarlaga, á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Enn fremur hafi nefndin tekið þá ákvörðun að krefjast þess fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá drengsins á grundvelli a og d liða 1. mgr. 29. gr. sömu laga.
Krafa stefnanda um varanlega forsjársviptingu byggðist einkum á því að ítrekað hafi verið leitast við að aðstoða stefndu við að taka á vandamálum sínum með það að markmiði að drengurinn nyti uppeldis hennar. Vandi stefndu sé hins vegar djúpstæður og virtist áfengisneysla hennar vera hömlulaus sem leiði til þess að drengurinn þurfi að vistast utan heimilis vegna óviðunandi heimilisaðstæðna. Við þær aðstæður njóti hann ekki samskipta við stefndu í lengri tíma í senn þar sem hún gleymi tilvist hans í vímuástandi. Þau tengslarof geti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir persónuþroska og geðheilsu drengsins þegar til lengri tíma sé litið.
Ávallt hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu um málið og aðstæður hafi leyft. Fjölmargar meðferðaráætlanir hafi verið gerðar í samráði við hana á undanförnum árum með það að markmiði að drengurinn gæti að lokum búið hjá henni. Þannig hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni, en óhjákvæmilegt hafi reynst að vista drenginn annars staðar en hjá stefndu þegar hún hafi t.a.m. ekki staðið við vímuefnabindindi. Í máli stefndu hafi öll tæk stuðningsúrræði ekki megnað að skapa syni hennar þau uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt á. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tiltæk nú en brýna nauðsyn beri til að skapa drengnum öryggi og uppeldi sem hann hafi ótvírætt farið á mis við hjá stefndu. Meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi borið til.
Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það hafi sýnt sig að stefnda geti ekki búið syni sínum þau uppeldisskilyrði sem hann eigi rétt á, en þrátt fyrir ungan aldur hafi drengurinn verið vistaður átta sinnum utan heimils stefndu að tilhlutan barnaverndaryfirvalda í samtals 15 mánuði vegna alvarlegs vímuefnavanda stefndu. Slík dvöl sé ekki hugsuð sem varanleg ráðstöfun.
Þótt foreldrar eigi rétt á að ala upp börnin sín takmarkist forsjárrétturinn af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldra og barns vegast á séu hagsmunir barnsins og hvað því sé fyrir bestu þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskránni, barnaverndarlögum og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Reglan sé einnig í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgaraleg réttindi sem Ísland sé aðili að.
Gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun og uppeldi drengsins verði stefnt í verulega hættu fari stefnda áfram með forsjá hans. Álitsgerðir og önnur gögn málsins sýni að hún sé ekki hæf til að fara með forsjána vegna vímuefnaneyslu sinnar og andlegra veikinda. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að aðstoða stefndu við að taka á vandamálunum en þær hafi ekki skilað viðunandi árangri. Heilsu og ekki síst þroska drengsins sé hætta búin fari stefnda með forsjá hans eins og málum hennar sé háttað. Hagsmunir hans mæli því eindregið með því að stefnda verði svipt forsjá hans og að honum verði komið fyrir í varanlegt fóstur á heimili þar sem vel verði hlúð að honum og réttur hans til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður. Ekki megi fórna meiri tíma í óvissu en þegar hafi verið gert.
Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarstarfsemi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, og gagna málsins geri stefnandi þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá A, sbr. a og d liðir 1. mgr. 29. gr. sömu laga, enda hafi önnur og vægari úrræði ekki skilað tilætluðum árangri.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er málsatvikum lýst þannig að sonur hennar hafi verið vistaður utan heimilis móður sinnar allt frá 15. júlí 2004 hjá föðurömmu sinni, fyrst með samþykki stefndu en síðan með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. september 2004. Barnaverndarnefndin hafi jafnframt bókað í fyrrgreindum úrskurði að þess yrði krafist fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá sonar síns. Meginefni stefnunnar í máli þessu fjalli fyrst og fremst um fortíðina fyrir úrskurðinn sem kveðinn var upp af dóminum 28. janúar 2004, þar sem hafnað hafi verið kröfu stefnanda um vistun sonarins utan heimilis móður sinnar í 12 mánuði. Þessum úrskurði hafi ekki verið vísað til Hæstaréttar af hálfu stefnanda. Ákvörðun um það hafi verið tekin án nokkurs samráðs eða skilyrða af hálfu stefndu. Það sé því rangt að stefnandi hafi ákveðið að una úrskurðinum gegn því skilyrði að stefnda yrði til samvinnu um stuðning og eftirlit. Stefnandi hafi ekki verið sáttur við niðurstöðuna og telji stefnda að hún hafi verið látin gjalda þess með óþarfa hnýsni í hennar garð. Þau afskipti hafi að sjálfsögðu haft mjög slæm áhrif á hana. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur sé því þannig „resjudicata” og sé bindandi fyrir stefnanda varðandi þær forsendur sem hann sé reistur á.
Stefnda geri margvíslegar athugasemdir við gögn málsins og það sem fram komi í stefnu. Andlegir erfiðleikar hennar eigi rót sína að rekja til þess að sonur hennar var kyrrsettur og vistaður utan heimilis þeirra. Þetta hafi tekið mikið á hjá stefndu og hafi haft í för með sér röskun á sálrænu ástandi hennar. Af þeim sökum hafi hún farið á deild 33A á Landspítala-háskólasjúkrahús í október 2004 vegna „áfallastreitu”, sem hafi verið afleiðing af kyrrsetningu sonar hennar.
Það sé rangt að hún hafi verið í neyslu vímuefna eins og fullyrt sé af hálfu stefnanda. Það sé einnig rangt að tengsl hennar við ættingja sína hafi verið árekstrarsöm. Ekki sé ljóst hvað stefnandi eigi við með þessu orðalagi. Samband hennar við móður sína, systur og dóttur sé mjög gott og stefnda hafi verið reiðubúinn að samþykkja að drengurinn færi til systur hennar á [...].
Stefnda mótmæli því alfarið að hún hafi ráðist á ömmu drengsins 25. ágúst 2004 og veitt henni „margvíslega áverka”. Það sé einnig rangt að hún hafi sama dag farið á Vog, en þangað hafi hún farið um mánaðamót ágúst/september. Fullyrðingu þess efnis af hálfu stefnanda, að stefnda hafi gleymt tilvist drengsins vegna vímuefnaástands, sé mótmælt sem rangri. Um sé að ræða órökstuddar fullyrðingar, sem eigi sér enga stoð í gögnum málsins, en stefnda viti ekki hvar eða hvenær slíkt hafi átt að eiga sér stað. Einnig sé það rangt að lögreglan hafi verið kölluð til ömmu drengins vegna „skapofsa X”. Meintur „skapofsi” geti varla verið refsiverður eða lögreglumál. Engin gögn séu í málinu þar að lútandi.
Rangt sé að stefnda hafi fallið á vímuefnabindindi mánuði eftir að hún kom úr heimsókn til systur sinnar á [...]. Einnig sé rangt að hún hafi ekki skilað blóðprufum þegar farið var fram á það. Það sé rangt að hún hafi neitað að drengurinn fengi aðhlynningu á sjúkrahúsi. Hið rétta sé að hún hafi reiðst yfir því að borið hafi verið á hana í umrætt skipti að hún væri í neyslu.
Stefnda mótmæli sérstaklega fullyrðingum, sem fram hafi komið hjá föður drengsins á fundi 7. september 2004 hjá Barnaverndarnefnd, varðandi veikindi hennar. Hann sé þar að yfirfæra sín eigin veikindi á hana. Staðreyndin sé sú að hann eigi sjálfur við mikinn vímuefnavanda að stríða og hafi margsinnis þurft að fara í meðferð af þeim sökum. Fram hjá þessu virtist stefnandi alfarið líta.
Heimildarákvæðið um forsjársviptingu samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 verði að vera studd nægjanlegum og jafnframt ótvíræðum ástæðum, bæði að því er tekur til a og d liða lagagreinarinnar. Í máli þessu byggi stefnandi fyrst og fremst á fortíðarvanda stefndu en ekki eingöngu á ástæðum sem hann telji vera fyrir hendi í dag. Því sé hafnað af hálfu stefndu að skilyrðum framangreindra lagaákvæða sé fullnægt svo að unnt sé að taka kröfur stefnanda til greina.
Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skuli því aðeins krafist sviptingar forsjár ef ekki er unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Slíkt hafi ekki verið fullreynt þar sem stefnda hafi verið reiðubúin að samþykkja vistun sonar síns hjá systur sinni, sbr. yfirlýsingu hennar 15. október 2004, sem afhent hafi verið barnavernd Reykjavíkur sama dag.
Niðurstaða
Stefnda heldur því fram að hún geti tekið drenginn til sín nú og farið með forsjá hans. Hún hafi hætt allri fíkniefnaneyslu á hassi og amfetamíni á árinu 1999. Allt hafi gengið vel hjá þeim mæðginum þegar þau hafi verið í friði fyrir föður drengsins sem hafi verið í mikilli vímuefnaneyslu á árinu 2003. Stefnda hafi verið í meðferð á Vogi í lok ársins 2004. Í ársbyrjun 2005 hafi hún flutt til [...] en þar búi móðir hennar og hún hafi verulegan stuðning af henni. Fram hefur komið að drengurinn er mjög tengdur móður sinni. Þessu heldur stefnda fram og jafnframt að hann sé tengdur fjölskyldu hálfsystur hennar sem búi á [...]. Stefnda vísar til þess að hún hafi samþykkt að drengurinn færi þangað í fóstur þótt hún vilji fremur að hann komi til hennar.
Þegar drengurinn var kyrrsettur á heimili föðurömmu sinnar með úrskurði barnaverndarnefndar 7. september 2004 var það gert með vísan til þess að hann væri nýlega fjögurra ára. Í úrskurðinum segir að mál hans hafi verið til meðferðar hjá stefnanda frá árinu 2001 vegna langvarandi vímuefnavanda og annarra erfiðleika stefndu sem hafi gert hana ófæra um að taka ábyrgð á og sinna þörfum sonar síns, en hann hafi frá árinu 2001 verið vistaður utan heimils í samtals sex skipti. Drengurinn hafi að minnsta kosti frá fimm mánaða aldri búið við óöryggi og óstöðugleika í lífi sínu og verið í samtals 15 mánuði vistaður utan heimilis. Í júlí 2004 hafi drengurinn verið vistaður utan heimilis vegna vímuefnaneyslu móður og andlegs ójafnvægis hennar. Illa hafi gengið að framfylgja áætlunum um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga, sem gerð hafi verið í samvinnu við móður 13. febrúar sama ár, um stuðning og eftirlit á heimilinu, en það hafi verið vegna skorts á samvinnu af hennar hálfu. Grunsemdir séu um að andlegir erfiðleikar hennar fari vaxandi sem geri hana, samfara vímuefnavanda, ófæra um að annast son sinn. Margreyndar stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga hafi verið fullreyndar án viðunandi árangurs. Þessar staðhæfingar og röksemdir í úrskurðinum eru í samræmi við það sem fram kemur í gögnum málsins.
Í matsgerð Rúnars Helga Andrasonar sálfræðings 28. apríl 2005 kemur meðal annars fram að sé litið til sögunnar sé ekki ástæða til bjartsýni varðandi möguleika stefndu og hæfni hennar til að skapa drengnum viðeigandi uppeldisskilyrði til framtíðar sem taka verði mið af við mat á því. Ítrekað hafi verið reynt að hjálpa henni sem ávallt hafi endað á einn veg. Þegar matið fór fram hafi hún aðeins verið frá neyslu í fjóra mánuði. Hún virtist gera sér einhverja grein fyrir því að hún væri ekki í stakk búin til að fara með forsjá drengsins í dag, en hún hafi nefnt að systir hennar á [...] gæti gert það í einhvern tíma á meðan stefnda væri að styrkja stöðu sína og byggja sig upp og þar með gæti hún tekið drenginn til sín síðar. Hún vildi þó helst að hann kæmi til hennar og að hún fengi stuðning og leiðbeiningar frá móður sinni. Einnig myndi hún vera í samvinnu við fjölskyldudeild [...]. Sálfræðingurinn telur að hæfni stefndu sem móður sé mjög háð því að hún sé ekki í neyslu. Sá tími sem hún hafi verið frá neyslu verði að teljast stuttur hvort sem litið sé á það út frá henni og sögu hennar eða almennt. Að hans áliti sé stefnda ekki í stakk búin í dag til að fara með forsjá drengsins, ekki einu sinn þótt til kæmi verulegur stuðningur og eftirfylgd.
Í matsgerðinni kemur enn fremur fram að heildarkvarðar persónuleikaprófs, er matsmaður lagði fyrir stefndu, hafi verið innan eðlilegra marka en þó hafi mátt sjá hækkun á ákveðnum undirkvörðum sem bendi til erfiðleika í skapgerð og persónuleika. Eins og við hafi mátt búast hafi kvarðinn, sem meti erfiðleika með áfengismisnotkun og eiturlyfjanotkun, verið nokkuð hár, en þó ekki eins hár og við hafi verið að búast í ljósi persónusögu stefndu. Svo virtist sem hún hafi annað hvort reynt að fegra myndina, sem hún hafi gefið af sér, eða hreinlega verið í afneitun á það hvaða erfiðleikum þetta hafi valdið henni. Sjálfsmat hennar gefi til kynna að hún sé fljót að upplifa sem aðrir komi illa fram við hana eða reyni að gera á hennar hlut. Hún telji að markvisst sé reynt að hindra hana í því að ná ákveðnum markmiðum í lífinu. Í skýrslu Áskels Arnar Kárasonar sálfræðings 21. október 2002 um mat á forsjárhæfni stefndu kemur meðal annars fram að stefnda hafi frá unglingsárum átt erfitt með að fóta sig í lífinu þrátt fyrir góða greind. Hún hafi misnotað vímuefni og búið við skort á fjárhagslegu og félagslegu öryggi og almennum stöðugleika. Hún þjáist ekki af þunglyndi eða geðsýki en virtist byrgja inni mikla reiði og hætti mjög til að lenda í árekstrum við umhverfi sitt og hún sýni ýmis merki um athyglisbrest með ofvirkni.
Stefnda var mjög ung þegar hún byrjaði að neyta áfengis og hún notaði hass frá 18 ára aldri og amfetamíns neytti hún frá því hún var 21 árs en segist fyrir löngu hafa hætt að neyta þessara fíkniefna. Stefnda vísar til þess að aðstæður hennar séu breyttar í dag og að henni hafi nú tekist að vinna bug á vandamálunum sem hún hafi áður staðið frammi fyrir. Eins og að framan er rakið var drengurinn vistaður utan heimilis vegna vímuefnameðferðar stefndu frá júlí 2003 en til þess úrræðis hafði oft verið gripið áður. Stefnda fékk drenginn aftur til sín í febrúar 2004 er héraðsdómur hafði synjað kröfu stefnanda um vistun drengsins í tólf mánuði utan heimilis samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga með úrskurði 28. janúar sama ár. Í greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndar 2. september s.á. kemur fram að barnaverndarnefnd hafi borist upplýsingar sem leiddu til að farið var á heimili stefndu til að kanna aðstæður 7. júlí s.á. Drengurinn var þá tæplega fjögurra ára gamall en starfsmaður kom að honum skammt frá heimilinu þar sem hann var eftirlitslaus. Farið var á heimilið og hafði stefnda þá greinilega verið sofandi. Tilkynning barst frá lögreglu 11. sama mánaðar um að stefnda hafi verið á gangi með son sinn snemma á sunnudagsmorgni en hún hafi gefið þær upplýsingar að þau hafi flúið að heiman vegna föður drengsins. Hún samþykkti 13. júlí s.á. að drengurinn yrði vistaður utan heimilis frá þeim degi til 24. ágúst s.á. Fram kemur í greinargerðinni að stefnda hafi í viðtali við starfsmann 15. júlí viðurkennt að hafa fallið í neyslu 12. júní s.á.
Eins og fram kemur í læknabréfi Þórarins Tyrfingssonar 27. september 2004 telur hann engan veginn hægt að meta batahorfur stefndu hvað varðar vímuefnafíkn fyrr en nokkur vissa liggi fyrir um bindindi hennar frá öllum vímuefnum í að minnsta kosti ár. Samfara því þurfi helst að bætast eitt ár til viðbótar án vímuefna og félagslegur stöðugleiki til að hægt sé að tala um að sjúklingur hafi góðar batahorfur. Á þetta er meðal annars bent í ofangreindri matsgerð sálfræðingsins Rúnars Helga og tekið fram að erfitt sé að færa rök fyrir því að þetta álit sérfræðings í vímuefnum sé rangt og ekkert sem styðji það í fyrirliggjandi gögnum.
Dómurinn telur að miðað við þann langa feril sem stefnda hefur að baki í misnotkun áfengis og annarra vímuefna hafi stefndu ekki tekist á þeim stutta tíma, sem liðinn er frá því að misnotkuninni lauk, að ráða bót á því sem úrskeiðis hefur farið. Telja verður að hinar breyttu aðstæður, sem stefnda vísar til, hafi ekki staðið í nægilega langan tíma til að unnt verði að ganga út frá því að stefndu hafi tekist að ráða varanlega bót á þeim vandamálum sem hún hefur átt í miklum erfiðleikum með að takast á við á undanförnum árum og staðið hafa yfir með mislöngum hléum allt til ársloka 2004.
Af öllu þessu, og því sem að öðru leyti kemur fram í gögnum málsins og rakið er hér að framan, telur dómurinn að ráða megi að öryggi barnsins geti engan veginn verið nægilega tryggt hjá stefndu til frambúðar. Dómurinn telur að alvarlegar misfellur hafi verið á aðbúnaði drengsins vegna drykkjuvandamála, óreglu og innsæisleysis stefndu. Dómurinn telur einnig að stefnda þurfi augljóslega á mikilli endurhæfingu og uppbyggingu að halda. Þótt fyrir liggi og óumdeilt sé að tengsl barnsins við stefndu séu sterk hefur barnið augljóslega búið við mjög ótryggar aðstæður hjá stefndu þar sem óstöðugleiki og erfiðleikar vegna vímuefnavanda og ístöðuleysis stefndu hefur verið meginorsökin fyrir hinum skerta aðbúnaði þótt aðrir þættir geti jafnframt hafa spilað þar inn í. Tengslamyndun hefur auk þess verið verulega ábótavant vegna ítrekaðs aðskilnaðar drengsins frá stefndu vegna hátternis hennar og drykkju og þar með tengslarofa á mislöngum tímabilum, því lengsta núna á þessu og fyrra ári, samtals í tæpt ár.
Af öllu þessu og því sem að öðru leyti kemur fram í gögnum málsins og rakið er hér að framan verður ráðið að líf drengsins hefur verið stormasamt vegna framangreindra vandamála stefndu sem henni hefur ekki tekst að ráða fullnægjandi bót á. Drengurinn hefur á stuttri ævi allt of oft verið vistaður utan heimilis síns vegna vímuefnanotkunar stefndu. Drengurinn er því að mati dómsins í mikilli þörf fyrir stöðugleika og ró. Mikilvægt er fyrir hann að búa við lágmarks samfellu í uppvextinum sem stefnda hefur ekki verið fær um að veita honum. Hætta er á að hann hafi ekki fengið næga örvun. Átök milli foreldra drengsins hafa valdið honum vanlíðan eins og lýst er í gögnum málsins. Frekari óvissa um aðbúnað hans í nútíð og framtíð en hann hefur nú þegar þurft að sæta verður að teljast óviðunandi fyrir hann með tilliti til þarfa hans nú fyrir þroskavænleg uppeldisskilyrði.
Með vísan til þessa verður að telja að fram hafi komið með óyggjandi hætti að daglegri umönnum og uppeldi barnsins hefur verið alvarlega ábótavant í höndum stefndu þegar tekið er tillit til aldurs og þroska barnsins. Enn fremur verður að telja fullvíst að andlegri heilsu barnsins sé veruleg hætta búin vegna augljósrar vanhæfni stefndu til að fara með forsjá þess af ástæðum sem hér að framan eru raktar. Margar og ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að koma því til leiðar að stefnda geti annast drenginn og alið hann upp, meðal annars með stuðningsúrræðum og áætlunum um meðferð máls eins og hér að framan er lýst. Þær hafa ekki skilað viðunandi árangri. Dómurinn telur að á þessu stigi málsins sé ekki unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta fyrir barnið en forsjársviptingu. Það telst ekki vægara úrræði að senda barnið í fóstur til hálfsystur stefndu á [...]. Með því yrði hann slitinn úr öllum eðlilegum samskiptum við þá sem hafa annast hann og sem hann er augljóslega tengdur tilfinningalegum böndum. Slík ráðstöfun getur því ekki talist góð tilhögun fyrir drenginn þar sem hún samræmist ekki þörfum hans og hagsmunum. Eins og fram kemur í matsgerð sálfræðings 28. apríl 2005 er að hans mati ástæða til að tryggja rúma og góða umgengni stefndu við drenginn haldi hún áfram á þeirri braut sem hún hafi fylgt eftir á þessu ári. Erfitt væri að fylgja þessu eftir ef drengurinn byggi á [...] og stefnda á Íslandi svo og því að hann geti áfram haft tengsl við aðra sem hafa annast hann fram að þessu. Að öllu þessu virtu ber að taka kröfur stefnanda til greina um að stefnda verði svipt forsjá drengsins samkvæmt a og d liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Ekki er gerð krafa um málskostnað af stefnanda hálfu en krafa stefndu um málskostnað úr hendi stefnanda verður ekki tekin til greina og fellur málskostnaður því niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 180.000 krónur án virðisaukaskatts, og Þrastar Þórssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 250.000 krónur án virðisaukaskatts. Kostnaður vegna matsgerðar, að fjárhæð 362.020 krónur, hefur verið greiddur úr ríkissjóði.
Dóminn kváðu upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Guðfinna Eydal sálfræðingur og Jón R. Kristinsson barnalæknir.
DÓMSORÐ:
Stefnda, X, er svipt forsjá sonar síns, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 180.000 krónur, og Þrastar Þórssonar hdl., 250.000 krónur. Kostnaður vegna matsgerðar, að fjárhæð 362.020 krónur, hefur verið greiddur úr ríkissjóði.