Hæstiréttur íslands

Mál nr. 26/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 21

 

Miðvikudaginn 21. janúar 2009.

Nr. 26/2009.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(enginn)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

 

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. janúar 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 22. janúar 2009 kl. 16, jafnframt því sem kveðið var á um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhald verði án þeirra takmarkana sem ákveðnar voru í hinum kærða úrskurði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi handtekið sextán menn og framkvæmt sex húsleitir „vegna rannsóknar á fíkniefnamálum, þjófnuðum og innbrotum, m.a. þar sem brotist hafði verið inn í gróðurhús í Árnessýslu og gróðurhúsalömpum stolið.“ Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili, sem er 17 ára gamall, undir rökstuddum grun um að hafa framið eitt af þessum afbrotum með því að hafa í desember 2008 ásamt tveimur öðrum nafngreindum mönnum brotist inn í gróðurhús og stolið þaðan gróðurhúsalömpum. Annar þessara manna hefur viðurkennt hjá lögreglu að hafa framið brotið ásamt varnaraðila og öðrum þeim manni sem nafngreindur hefur verið. Hafi þeir selt lampana og hann fengið 175.000 krónur í sinn hlut en varnaraðili 75.000 krónur. Ekki kvaðst hann vilja gefa upp nafn kaupandans. Sá þriðji, sem grunaður er um aðild að innbrotinu, hefur neitað að tjá sig líkt og varnaraðili. Þá mun vitni hafa lýst fyrir lögreglu vitneskju sinni um að þessir þrír menn hafi framið brotið. Krafa sóknaraðila er reist á a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem heimilað er að setja mann í gæsluvarðhald ef ætla má að hann muni torvelda rannsókn máls, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að þeir tveir sem eiga að hafa staðið að framangreindu broti með varnaraðila séu nú frjálsir ferða sinna. Að þessu virtu verður ekki talið að rannsóknarhagsmunir standi til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. janúar 2009.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], til heimilis að [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 fimmtudaginn 29. janúar nk., með vísan til til a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.

    Þá er gerð farið fram á, nái krafa þessi fram að ganga að varnaraðila verði gert með úrskurði að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðahaldi stendur, samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að henni verði markaður skemmri tími.

 Í greinargerð með kröfunni kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi í gær og síðastliðna nótt handtekið 16 aðila og framkvæmt 6 húsleitir vegna rannsóknar á fíkniefnamálum, þjófnuðum og innbrotum, m.a. þar sem brotist hafði verið inn í gróðurhús í Árnessýslu og gróðurhúsalömpum stolið.  Einn hina handteknu sé varnaraðili.  Fyrir liggi játning aðila um að hafa tekið þátt í innbroti í gróðurhúsi í Árnessýslu í desember sl., þar sem X hafi í félagi við tvo aðra, brotist inn og stolið 30 gróðurhúsalömpum, sem síðan hafi verið seldir á 250.000 krónur. X neiti alfarið sök og allri aðild að innbrotum og að tjá sig að öðru leyti. Í ljósi þess hve málið sé umfangsmikið telji lögregla nauðsynlegt að krafa þessi nái fram að ganga, til að hægt sé að rannsaka málið frekar án þess að X nái að hafa áhrif á samsekta eða vitni og spilla hugsanlegum sakargögnum. 

Þá segir ennfremur að  verið sé að rannsaka ætluð brot X á 244. gr. almennra hegningarlaga og að rannsókn málsins sé mjög viðamikil,  þar sem um mörg innbrot sé að ræða og sé rannsóknin á frumstigi, auk þess sem ljóst sé að X eigi sér samverkamann.  Loks er bent á að hluti þýfisins úr framangreindum innbrotum sé enn ófundið.  Auk þess telji lögregla verulega hættu eins og mál þetta sé vaxið að hinn grunaði muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni og samseka. Þá er vísað til alls ofanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og til a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, og þess krafist að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga.

 Kærði er grunaður um aðild að innbrotum. Varðar brot hans ef sök sannast fangelsi allt að sex árum. Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hans og annarra að brotunum.  Í gögnum málsins kemur fram að sextán manns hafi verið handtekin gruns um hluta af ofangreindum brotum og á eftir að yfirheyra hluta þeirra.

Krafan um gæsluvarðhald byggist á a-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Kærði er grunaður um brot sem geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sök sannast.  Kærði neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hans að framangreindum brotum. Eftir er að rannsaka hugsanlega samseka í málinu ásamt öðru sem tekið er fram í greinargerð lögreglu en fyrir liggur í gögnum málsins játning eins aðila þar sem varnaraðili er sagður hafa tekið þátt í innbroti. Þá sé hluti þýfis úr ofangreindum innbrotum enn ófundið. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærði geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.  Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina.  Gerð er krafa um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 fimmtudaginn 29. janúar nk. Með vísan til eðli þeirra brota sem kærði er grunaður um, þykir rétt að tími gæsluvarðhaldsins sé markaður skemmri tími eða til klukkan 16.00 fimmtudaginn 22. janúar nk.

Vegna rannsóknarhagsmuna og þess að rannsókn málsins er á algjöru frumstigi, verður krafan um að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi tekin til greina þannig að takmarkanir verða á c-,d-,e-,og f-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 22. janúar nk. kl. 16:00.

Kærði sæti takmörkunum á á c-,d-,e-,og f-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.