Hæstiréttur íslands

Mál nr. 694/2012


Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Ómerking héraðsdóms
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 6. júní 2013.

Nr. 694/2012.

Vörður tryggingar hf. og

(Björn L. Bergsson hrl.)

Linda Mjöll ehf.

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

gegn

Reyni Viðari Ingasyni

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

Málskostnaður. Ómerking héraðsdóms. Gjafsókn.

R krafði L ehf. um greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar starfsmaður L ehf. veitti honum áverka fyrir utan skemmtistað í Reykjavík. Þá krafðist hann greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu félagsins hjá V hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að R hefði verið veitt gjafsókn í héraði vegna málsóknar gegn L ehf. og V hf. Málið hefði jafnframt verið höfðað á hendur V en gjafsóknin ekki tekið til höfðunar máls á hendur honum. Sá annmarki væri á héraðsdómi að þóknun umboðsmanns R úr ríkissjóði fyrir flutning málsins hafði ekki verið ákveðin og að allir stefndu í héraði hefðu verið dæmdir óskipt til greiðslu málskostnaðar, sem skyldi renna í ríkissjóð, þrátt fyrir að gjafsókn tæki ekki til málshöfðunar á hendur V. Vegna þessa annmarka var talið óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísan málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppkvaðningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. nóvember 2012 og 7. febrúar 2013. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í Hæstarétti. Þá krefst áfrýjandinn Linda Mjöll ehf. einnig málskostnaðar í héraði.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefnda var veitt gjafsókn í héraði vegna málsóknar gegn áfrýjendum. Málið var jafnframt höfðað á hendur Visar Hazhisefajh, en gjafsóknin tók ekki til höfðunar málsins á hendur honum. Útivist varð af hálfu Visar Hazhisefajh og var málið dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og Visar Hazhisefajh dæmdur óskipt til greiðslu skaðabóta með áfrýjendum.

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 skal þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls ákveðin í dómi. Þá segir í 4. mgr. 128. gr. sömu laga að verði gagnaðili gjafsóknarhafa dæmdur til að greiða málskostnað skuli ekki tekið tillit til þess að gjafsókn hafi verið veitt við ákvörðun málskostnaðar. Jafnframt er þar kveðið á um að ef gjafsóknarhafi hafi sjálfur haft kostnað af máli skuli honum ákveðin greiðsla málskostnaðar að því leyti í dómi, en að öðru leyti verði málskostnaður dæmdur ríkinu.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjendur og Visar Hazhisefajh dæmdir óskipt til að greiða stefnda 550.000 krónur í málskostnað sem renna skyldi í ríkissjóð. Á hinn bóginn var þóknun lögmanns stefnda úr ríkissjóði fyrir flutning málsins ekki ákveðin og þá voru allir stefndu í héraði dæmdir óskipt til greiðslu málskostnaðar, er renna skyldi í ríkissjóð, þrátt fyrir að gjafsókn tæki ekki til málshöfðunar á hendur Visar Hazhisefajh. Er þetta slíkur annmarki á dóminum að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppkvaðningar á ný.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Reynis Viðars Ingasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

                              

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. október sl., er höfðað með stefnu birtri 1., 3.

og 4. febrúar sl. 

Stefnandi er Reynir Viðar Ingason, Fannafold 11, Reykjavík, en stefndu eru Linda Mjöll ehf., Hverfisgötu 18, Reykjavík, Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík, og Visar Haxhisefaj, Orrahólum 1, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaðbætur að fjárhæð 3.855.904 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. desember 2011 til greiðsludags. Þá er gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefndu að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Endanlegar dómkröfur stefnda, Lindu Mjallar ehf., eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnukröfur á verði lækkaðar verulega og að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu. Stefndi krefst þess að dráttarvaxtakröfu stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfunni.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að meðtöldum virðisaukaskatti í samræmi við hagsmuni málsins að teknu tilliti til vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 og leggist við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti.

Endanlegar dómkröfur stefnda, Varðar trygginga hf., eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Af hálfu stefnda, Visar Haxhisefaj, var hvorki sótt þing við þingfestingu málsins né síðar og eru því engar kröfur gerðar af hans hálfu í málinu.

                Með bréfi, dagsettu 9. maí 2011, var stefnanda veitt gjafsókn í málinu.

I.

Stefnandi lýsir helstu málavöxtum þannig að hann hafi orðið fyrir tjóni þegar hann varð fyrir líkamsárás dyravarða á Laugavegi, skammt frá skemmtistaðnum Ellefu-bar að Laugavegi 11 í Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 20. september 2009. Stefnandi hafi verið að skemmta sér í miðbænum ásamt vinum sínum og ætlað að fara inn á barinn ásamt félaga sínum, Aroni Huga Charlessyni. Í biðröðinni hafi Aron Hugi rekist utan í einn dyravörðinn, sem hafi kastað Aroni Huga til baka að stefnanda og hafi þá komið til orðaskipta milli stefnanda og dyravarðarins en ekki hafi komið til átaka. Í kjölfarið hafi stefnandi farið af stað áleiðis frá staðnum og ætlað að halda heim til sín. Á leið sinni frá staðnum hafi stefnandi verið tekinn hálstaki aftan frá, lagður í jörðina og við það hafi hann misst meðvitund. Þá hafi verið sparkað í fótlegg hans eða hoppað á honum með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði mjög illa og var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús.

Lögreglan hafi komið á vettvang og rætt við stefnanda og vitni. Samkvæmt frásögn vitna hafi það verið dyravörður stefnda, Lindu Mjallar ehf., sem hefði tekið stefnanda taki og skellt honum í jörðina, en annar dyravörður stefnda, Lindu Mjallar ehf., hafi sparkað fast í fót stefnanda. Báðir dyraverðirnir hefðu þó neitað sök við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Stefnandi kærði atvikið til lögreglu hinn 28. september 2009 og setti fram skaðabótakröfu á hendur stefnda Visar og Przemyslaw Kristian Grencel hinn 15. október 2009. Með bréfi, dagsettu 11. febrúar 2010, var stefnanda tilkynnt um þá niðurstöðu lögreglustjóra að fella málið niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 þar sem fyrirliggjandi gögn þóttu ekki nægjanleg til sakfellis. Rökstuðningur fyrir niðurfellingunni barst stefnanda 25. febrúar 2010. Stefnandi kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara með bréfi, dagsettu 10. mars 2010, og krafðist þess að ákvörðun lögreglustjóra yrði breytt og rannsókn málsins hafin að nýju, m.a. með vísan til þess að stefnandi hefði orðið fyrir verulegu og varanlegu tjóni, að fjöldi vitna hefði verið að atburðinum, auk þess sem atvikið hefði hugsanlega náðst á eftirlitsmyndavél. Niðurstaða ríkissaksóknara var kynnt stefnanda í bréfi, dagsettu 6. apríl 2010, og kom þar fram að það, sem fram hefði komið við rannsókn málsins, teldist ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis og var því staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að fella málið niður.

Stefnandi beindi kröfum fyrst að stefnda, Lindu Mjöll ehf., með bréfi, dagsettu 29. september 2009, að stefnda Visar með skaðabótakröfu til lögreglu, dagsettri 15. október 2009, og að stefnda, Verði tryggingum hf. sem tryggingarfélagi veitingastaðarins, með bréfi, dagsettu 15. október 2009. Með bréfi stefnda, Varðar trygginga hf., dagsettu 10. febrúar 2010, var greiðsluskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu hafnað. Stefnandi vísaði þá málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og kvað hún upp úrskurð sinn 30. desember 2010. Var niðurstaða nefndarinnar á þann veg að dyraverðir í starfi hjá stefnda, Lindu Mjöll ehf., hefðu lent í ryskingum við stefnanda við framkvæmd dyravörslu fyrir vinnuveitanda sinn. Lagðar yrðu ríkar skyldur á rekstraraðila skemmtistaða að gæta að öryggi viðskiptavina sinna og þeirra, sem leita eftir viðskiptum, og ráða til sín hæft starfsfólk með fullnægjandi réttindi. Ekki hefði verið sýnt fram á það af hálfu stefndu, Lindu Mjallar ehf. og Varðar trygginga hf., að starfsfólk skemmtistaðarins hefði fengið eðlilega þjálfun eða verið í þeirri stöðu að eðlilegt hefði verið að það sinnti þeim störfum sem þeim voru falin í umrætt sinn varðandi öryggisgæslu. Að virtum öllum gögnum málsins var talið að starfsfólk skemmtistaðarins, einn eða fleiri, hefðu valdið stefnanda þeim áverka sem hann varð fyrir og farið yfir eðlileg mörk í samskiptum sínum við hann. Rekstraraðilar skemmtistaða beri ábyrgð á starfsfólki sínu, einnig hvað þetta varðar, og hafi stefnandi því átt rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu Lindu Mjallar ehf., hjá stefnda, Verði tryggingum hf. Með bréfi, dagsettu 17. janúar 2011, hafnaði stefndi, Vörður tryggingar hf., niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2011, óskaði stefnandi eftir því að tryggingafélagið yrði til samvinnu um að vísa málinu til mats örorkunefndar en ekki var fallist á það af hálfu stefndu.

Í málinu liggja frammi tvö læknisvottorð. Fyrra vottorðið er útgefið af Ásu Elísu Einarsdóttur, sérfræðilækni á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, dagsett 7. nóvember 2009. Þar segir að stefnandi hafi gefið sig fram á slysa- og bráðadeild framangreinds sjúkrahúss 20. september 2009 kl. 6:00 og sagst hafa verið að skemmta sér niðri í bæ og fengið spark hliðlægt í hægri ökkla með þeim afleiðingum að hann hafi fallið við og ekki getað stigið í fótinn eftir það. Hafi hann komið á sjúkrahúsið um hálftíma síðar. Við skoðun hafi komið í ljós mikil bólga hliðlægt á ökkla og talsverð eymsli yfir sköflungs- og dálkshnyðju og einnig yfir rist. Röntgenmynd hafi sýnst skábrot distalt í dálksbol og hafi svonefnt fjærfragment verið tilfært aftur á við. Einnig sé brot í sköflungshnyðju sem gangi niður í ökklaliðinn. Brotið hafi verið nánast ótilfært og liðgaffall virðist með nokkru auknu bili miðlægt. Síðan er því lýst að stefnandi hafi verið lagður inn á bæklunardeild og farið í aðgerð hjá bæklunarlæknum sama dag. Samkvæmt vottorði dr. Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis, dagsettu 25. mars 2011, var stefnandi greindur með brot á dálkshnyðju og sköflungshnyðju og hefði hann eftir aðgerð verið í gifsi í sex vikur en svonefnd syndesmosuskrúfa tekin úr honum tveimur vikum síðar. Hafi brot hans þá verið gróin en einhver stirðleiki við svonefnt dorsiflexion. Stefnandi hafi mátt gera allt sem hann treysti sér til en ekki sé búist við frekari bata og séu einkennin því varanleg.

Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna með beiðni, dagsettri 7. júní 2011. Í kjölfarið voru Sigurður Thorlacius, heila- og taugalæknir, og Birgir G. Magnússon hdl. dómkvaddir sem matsmenn og skiluðu þeir matsgerð 1. desember 2011. Þar segir að stefnandi hafi umrætt sinn hlotið skábrot neðst í dálksbol og brot í sköflungshnyðju. Vegna eðlis áverkanna verði að gera ráð fyrir að auknar líkur séu á ótímabærri þróun slitgigtar í ökklanum. Niðurstaða matsgerðarinnar er á þann veg að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni vegna afleiðinga líkamsárásarinnar og að stefnandi teljist hafa verið veikur vegna afleiðinga slyssins, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, í tvo mánuði frá slysdegi að telja, þar af rúmliggjandi í tvo daga. Þá er varanlegur miski metinn til 10 stiga og varanleg örorka metin 5%. Kemur loks fram að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 31. desember 2010. Eftir að matsgerðar hafði verið aflað ítrekaði stefnandi kröfu sína um greiðslu skaðabóta með bréfi, dagsettu 21. desember 2011, en stefndi hefur hafnað bótaskyldu.

Í kæruskýrslu 28. september 2009 er haft eftir stefnanda að hann hafi umrætt sinn verið ásamt vini sínum, Aroni Huga Charlessyni, fyrir utan Ellefu-bar og hafi Aron Hugi farið inn á veitingastaðinn en stefnanda verið meinuð innganga þar sem hann var skilríkjalaus. Skömmu síðar hafi Aron Hugi komið út af staðnum og stefnandi þá hrint honum í „einhverjum fíflagangi“. Þá hafi dyravörður hrint Aroni Huga til baka þannig að höfuð hans lenti í andliti stefnanda og við það hafi vör stefnanda sprungið. Hafi stefnandi þá orðið pirraður og farið að tala við dyravörðinn, sem ekki hafi skilið hann og sagt „English, English“. Kvaðst stefnandi ekki muna hvað hann sagði við dyravörðinn nema: „What´s wrong with you?“ Stefnandi kvaðst síðan hafa farið út á götu áleiðis heim til sín en þá hafi hann séð dyravörðinn, sem hann átti orðaskipti við, koma upp að sér og á sama tíma séð að annar dyravörður kom aftan að honum og tók hann taki aftan frá og sneri hann niður. Lýsti stefnandi því að hann hefði ekki munað meira og farið í „blackout“ en næst munað eftir því þegar einhver hafi reynt að hjálpa honum á fætur þar sem hann gat það ekki sjálfur. Einhver hafi stutt hann upp að húsvegg þar sem félagi hans hafi komið og aðstoðað hann og þeir hafi þá hringt í lögreglu og á sjúkrabifreið. Hafi hann síðan farið í sjúkrabifreið á slysadeild.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst stefnandi hafa staðið í röðinni við Ellefu-bar ásamt Aroni Huga Charlessyni, félaga sínum, og kærustu hans, Ingibjörgu Ólafsdóttur. Í röðinni kvaðst stefnandi hafa verið „eitthvað að fíflast“ í Aroni Huga og ýtt við honum svo hann hafi farið í dyravörðinn sem þarna var. Þá hafi dyravörðurinn hrint Aroni Huga á stefnanda og þá hefði stefnandi farið að tala við dyravörðinn. Kvaðst stefnandi kvaðst ekki hafa snert dyravörðinn og hvorki ýtt í hann né slegið til hans. Þeim Aroni Huga og Ingibjörgu hafi verið hleypt inn á skemmtistaðinn en stefnanda ekki þar sem hann gat ekki framvísað skilríkjum. Kvaðst stefnandi þá hafa farið út á götuna við skemmtistaðinn og ætlað að koma sér heim. Um það bil 10 til 15 mínútum síðar hafi dyravörðurinn, sem var í dyrunum þegar stefnandi var í röðinni, komið framan að honum og annar maður komið aftan að honum. Kvaðst hann ekki hafa séð hver það var sem kom aftan að honum. Þá kvaðst hann ekki muna frekar eftir því sem gerðist í kjölfarið en hann  hefði síðan rankað við sér og þá verið fótbrotinn.

Aðspurður um það sem hann sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu um að hrindingarnar hefðu átt sér stað eftir að Aron Hugi kom út af skemmtistaðnum, kvað stefnandi lýsingu sína hér fyrir dóminum vera rétta á þann veg að þetta hefði átt sér stað áður en Aron Hugi fór inn á skemmtistaðinn. 

Tekin var lögregluskýrsla af Aroni Huga Charlessyni vegna málsins 21. desember 2009. Hann lýsti atvikum á þá leið að hann hafi umrætt sinn leitað inngöngu á Ellefu-bar ásamt unnustu sinni, Ingibjörgu Ólafsdóttur, og stefnanda. Þau Ingibjörg hafi komist inn en stefnandi ekki. Síðan hefði hann farið út af veitingastaðnum til að tala við stefnanda og þeir hafi verið að ýtast á í gamni. Þá hafi dyravörður hrint honum þannig að hann hafi skallað stefnanda á munninn. Við þetta hafi vitnið ringlast og gengið nokkur skref í átt að Laugavegi. Hann hafi litið til baka og séð að stefnandi var að þrátta við dyravörðinn og hafi þeir báðir verið frekar æstir. Hefði dyravörðurinn síðan lokað hurðinni á stefnanda og stefnandi þá gengið í átt að Hverfisgötu en dyravörðurinn þá komið aftur út og stöðvað stefnanda og farið að þrátta við hann á nýjan leik. Kvaðst vitnið ekki hafa heyrt orðaskil en annar dyravörður hefði þá komið aftan að stefnanda og tekið hann hengingartaki aftan frá og skellt honum í götuna. Hefði safnast að fjöldi fólks en vitnið kvaðst hafa séð sama dyravörð standa yfir stefnanda og einnig annan dyravörð og hefði sá dökkhærði sparkað í hægri fót stefnanda.

Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst Aron Hugi hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn en hann hefði verið í afmælisveislu stefnanda fyrr um kvöldið. Þau vitnið, stefnandi og Ingibjörg Ólafsdóttir hafi verið í röð fyrir utan Ellefu-bar á leið inn á barinn þegar þeir stefnandi hafi farið að „fíflast í hvor öðrum“ og ýta hvor í annan. Það hafi orðið til þess að vitnið lenti á dyraverði sem hafi brugðist við með því að ýta vitninu á stefnanda. Við það hafi vitnið skallað stefnanda svo vör stefnanda hafi sprungið svo úr henni blæddi. Þeir stefnandi hafi orðið dálítið pirraðir út í dyravörðinn við þetta og átt í orðaskiptum við hann. Hins vegar hefðu þeir stefnandi ekki lent í handalögmálum við dyravörðinn. Skömmu síðar hafi þeim vitninu og Ingibjörgu verið hleypt inn á skemmtistaðinn og verið þar inni í um það bil 15 mínútur þegar þau áttuðu sig á því að stefnandi væri ekki inni á staðnum. Hafi þau því farið út af staðnum og þá séð hvar stefnandi stóð úti á götu rétt fyrir neðan skemmtistaðinn, um fjórar bíllengdir í burtu frá vitninu. Kvaðst vitnið síðan hafa séð dyravörðinn koma framan að stefnanda og annan dyravörð koma aftan að stefnanda sem tekið hafi hann hálstaki og síðan tekið hann niður í götuna. Hafi þá drifið að fjölda manna. Þegar vitnið hafi komið þarna að, hafi þeir stefnandi og dyravörðinn verið að öskra hvor á annan en vitnið hefði síðan hjálpað stefnanda í burtu. Vitnið kvaðst hafa séð dyravörðinn, sem var í dyrunum þegar þau voru í röðinni áður en vitnið og Ingibjörg fóru inn á skemmtistaðinn, sparka í stefnanda og hafi sparkið komið einhvers staðar í fót stefnanda. Hins vegar kvaðst hann ekki hafa séð önnur spörk eða átök. Kvaðst hann ekki hafa átt í orðaskiptum við dyraverðina þegar hann kom aftur út af staðnum um það bil 15 mínútum eftir að hann fór þar inn.

                Samkvæmt lögregluskýrslu var tekin skýrsla af Ingibjörgu Ólafsdóttur símleiðis hinn 6. janúar 2010. Þá var haft eftir henni að hún gæti lítið tjáð sig um málið. Hún hafi verið nærri vettvangi en hún hefði ekki séð ætlaða árás þar sem hópur fólks hefði verið á staðnum. Hún kvaðst hafa séð tvo dyraverði fara að stefnanda en treysti sér ekki til að þekkja þá aftur. Þá kvaðst hún ekki hafa fylgst með hegðun stefnanda.

Við skýrslutöku hér fyrir dómi kvaðst Ingibjörg hafa verið í gleðskap hjá stefnanda fyrr um kvöldið og hefði verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn eins og þeir stefnandi og Aron Hugi. Í röðinni við Ellefu-bar hefðu þeir stefnandi og Aron Hugi farið að fíflast sem leitt hafi til þess að annað hvor þeirra hrinti hinum þannig að hann féll á dyravörðinn. Nánar aðspurð kvaðst vitnið halda að það hafi verið stefnandi sem féll á dyravörðinn. Dyravörðurinn hafi brugðist illa við og hrint honum til baka Við það hafi þeir Aron Hugi og stefnandi rekist hvor á annan. Síðan hafi þau vitnið og Aron Hugi farið inn á skemmtistaðinn en farið aftur út um það bil 15 mínútum síðar þegar þau áttuðu sig á að stefnandi var ekki þar inni. Stefnandi hafi staðið einn úti á götunni þegar þau komu út en síðan hafi þau séð dyravörðinn, sem var í dyrunum þegar þau voru í röðinni áður en þau Aron Hugi fóru inn á skemmtistaðinn, koma að stefnanda og annar hafi komið aftan að honum. Vitnið hafi þá farið frá og ákveðið að skipta sér ekki af þessu. Hafi hún séð að það myndaðist þvaga í kringum stefnanda og mennina tvo og því hafi hún ekki séð hvað gerðist milli þeirra.

II.

Krafa stefnanda um skaðabætur úr hendi stefndu byggist á því að honum hafi verið valdið alvarlegu og varanlegu tjóni við líkamsárás starfsmanna stefnda, Lindu Mjallar ehf., á stefnanda, m.a. af völdum stefnda Visar, og vegna þess beri stefndu allir óskerta skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda. Stefnandi byggir á því að stefndi Visar, auk annars starfsmanns stefnda, Lindu Mjallar ehf., hafi með ásetningi ráðist á stefnanda hinn 20. september 2009 og valdið honum bótaskyldu tjóni sem stefndi, Linda Mjöll ehf., beri alfarið ábyrgð á sem vinnuveitandi þeirra starfsmanna sem tjóninu ollu. Óumdeilt sé að í íslenskum skaðabótarétti sé í gildi almenn regla um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna sem þeir valdi með saknæmum hætti. Byggir stefnandi á því að stefndi, Linda Mjöll ehf., beri af þeim sökum ótakmarkaða skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem starfsmenn fyrirtækisins hafi valdið honum. Vísast um þetta einnig m.a. til 1. gr. laga nr. 50/1993 en samkvæmt því ákvæði skuli sá, sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni, greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur. Ef varanlegar afleiðingar hljótist af, skuli einnig greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku.

Krafa stefnanda um skaðabætur á hendur stefnda, Verði tryggingum hf., byggist á því að hann beri greiðsluskyldu samkvæmt frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda, Lindu Mjallar ehf., hjá félaginu. Samkvæmt 2. gr. skilmála þeirrar tryggingar, taki vátrygging til skaðabótaábyrgðar, sem falli á vátryggðan, þ.e. í þessu tilviki stefnda, Lindu Mjöll ehf., vegna slysa á mönnum eða skemmda á munum vegna starfssemi sem getið er í skírteini eða iðgjaldskvittun. Hafi stefndi, Vörður tryggingar hf., hafnað bótaskyldu á þeim grundvelli að ef vátryggingaratburð megi rekja til ásetnings vátryggðs, beri félagið ekki bótaskyldu, sbr. 12. gr. skilmála tryggingarinnar. Telur stefnandi að fyrir liggi að hann varð fyrir tjóni vegna árásar starfsmanna stefnda, Lindu Mjallar ehf., og hafi sú árás verið í nægum tengslum við starf þeirra starfsmanna sem dyravarða til að skilyrði tryggingarinnar séu uppfyllt. Hafi niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum verið á sama veg, þ.e. að stefnda, Verði tryggingum hf., bæri að greiða stefnanda bætur vegna tjóns stefnanda og að skilyrði tryggingarinnar væru uppfyllt.

Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni sem verið hafi bein afleiðing af árás dyravarða stefnda, Lindu Mjallar ehf., svo sem fram komi í matsgerð Sigurðar Thorlacius, heila- og taugalæknis, og Birgis G. Magnússonar hdl., dagsettri 1. desember 2011. Samkvæmt matsgerðinni teljist stefnandi hafa orðið fyrir tjóni og verðið veikur í skilningi laga í alls 60 daga og í rúmlegu í alls 3 daga. Varanlegur miski stefnanda sé 10 stig vegna afleiðinga árásarinnar og varanleg örorka sé 5%. Heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt hinn 31. desember 2010.

Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á hendur stefnda Visar á ólögfestri sakarreglu skaðabótaréttar og 1. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi Visar hafi ráðist að stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og beri hann skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem hann olli stefnanda, með þeirri háttsemi sinni. Stefnandi kveðst ekki beina kröfu sinni að Przwmyslaw Kristian Grencel þar sem heimilisfang hans sé óþekkt og yrði það miklum vandkvæðum búið að stefna honum, auk þess sem fyrirsjáanlegt sé að það myndi reynast stefnanda kostnaðarsamt.

                Stefnandi sundurliðar kröfu sína í stefnu með eftirfarandi hætti:

Þjáningabætur í 60 daga, þar af 3 dagar rúmliggjandi                              kr.              100.500

Miskatjón, m.v. 10% miskastig                                                                     kr.              925.600

Varanleg fjárhagsleg örorka                                                                           kr.           2.503.604

Vextir                                                                                                                  kr.              222.981

Útlagður kostnaður tjónþola                                                                          kr.              103.219

                                                                                              Alls        kr.          3.855.904

                Undir rekstri málsins lagði stefnandi fram nánari sundurliðun á skaðabótakröfu sinni sem er svohljóðandi:

Þjáningabætur:                                                                                                           100.500                                      

                                                               Dagafjöldi                            Fjárhæð

Rúmlega                                              3                                             3.100 uppfært                     9.300

Án rúmlegu                                          57                                          1.660 uppfært                 91.200

skv. 3. gr. laga nr. 50/1993, fjárhæðir uppfærðar m.v. vísitölu í janúar 2012, 7594 stig (frá 3283 stigum)

Miskatjón:                                                                                                                                 930.000

Miðað við 10% metna örorku skv. matsgerð og viðmiðunarfjárhæð 9.256.000 krónur, uppfært m.v. vísitölu í janúar 2012, 7594 stig (frá 3283 stigum)

Varanleg fjárhagsleg örorka:                                                                                         2.503.604

Reiknuð árslaun með vísitöluhækkun 2.777.000 krónur skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, m.v. 5% metna örorku skv. matsgerð.

Vextir:                                                                                                                                     222.981

Vextir 20.09.09-20.1.12. 4,5% af 1.026.100 krónum (tl. 1 og 2)                  94.659

Vextir 31.12.10-20.1.12 4,5% af 2.503.604 krónum (tl. 1-3)                      128.322

Útlagður kostnaður:                                                                                                             103.219

Tjón á fatnaði                                                                                                                         11.570

Lyfjakostnaður                                                                                                         3.831

Hjúkrunarmóttaka, 5.10.09                                                                                                   2.400

Hjúkrunarmóttaka, 15.10.09                                                                                                2.400

Vottorð v. fjarvista, 19.10.09                                                                                                   460

Sjúkrabílasjóður RKÍ, 1.11.09                                                                               4.700

Komugjald heilsugæslu, 22.12.09                                                                          1.000

SKP lækningar, 10.12.09                                                                                         5.249

Íþróttalækningar ehf., 10.12.09                                                                             5.565

Landspítali, koma til sérfræðings, 2.12.09                                                           3.862

Læknisfræðileg myndgreining ehf., 30.09.10                                                                      3.785

Íþróttalækningar ehf., 4.10.10                                                                                              13.445

SKP lækningar, 4.10.10                                                                                          12.578

Háskóli Íslands, vottorð 8.3.11                                                                                  300

Læknisfræðileg myndgreining ehf., 3.8.11                                                          28.000

Íþróttalækningar ehf., 8.6.11                                                                                                  4.074

                                                                                                              Samtals              3.855.904

Um lagarök vísar stefnandi skaðabótakröfu sinni til stuðnings til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttarins. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001 og kröfu um málflutningsþóknun við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.

III.

                Stefndi, Linda Mjöll ehf., byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi að ósannað sé að starfsmenn stefnda hafi unnið tjón á líkama stefnanda. Lögregla hafi rannsakað meinta líkamsárás sem stefnandi kærði og hafi verið teknar skýrslur af vitnum, m.a. af vini stefnanda, sem ekki hafi getað séð hver það var sem olli stefnanda tjóni. Þá hafi Ingibjörg, vinkona stefnanda, gefið skýrslu en hún hefði ekki séð hina meintu líkamsárás. Báðir kærðu í málinu hafi neitað sök og sagst ekki bera ábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Hafi niðurstaðan orðið sú að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu felldi málið niður, enda voru ekki taldar líkur á sakfellingu. Hafi ríkissaksóknari staðfest þess niðurstöðu lögreglustjórans 6. apríl 2010. Í stað þess að leita til bótasjóðs vegna þolenda afbrota og takmarka þannig tjón sitt, hafi stefnandi aðeins stefnt öðrum meintum brotamanninum, stefnda Visar, en ekki báðum. Ekkert sé víst um þátttöku þeirra í meintu broti, né heldur hvor það var sem bar ábyrgð á umræddu tjóni. Þar sem stefnandi telji að stefndi, Linda Mjöll ehf., beri ábyrgð á meintum skaðaverkum á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, sé ljóst að stefnandi þurfi að sanna háttsemi umræddra starfsmanna en það hafi hann ekki gert. Ekki sé hægt að taka mið af niðurstöðum úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, enda hafi ekkert verið fjallað um afstöðu stefndu í málinu, né heldur hvort háttsemin ætti undir vinnuveitendaábyrgð með þeim takmörkunum sem þar greinir. Þá hafi stefndi ekki einu sinni verið aðili máls í umræddum úrskurði. Telur stefndi að takist ekki sönnun meints brots leiði það til sýknu.

Verði litið svo á að stefndi Visar, við annan mann, hafi gerst sekur um að hafa valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og að tjónið hafi verið bein afleiðing háttsemi Visars, krefst stefndi samt sem áður sýknu á grundvelli þess að félagið beri ekki ábyrgð á meintu tjóni sem stefndi Visar kunni að hafa valdið, enda tjónið framið með háttsemi sem ekki falli undir reglu um vinnuveitendaábyrgð skaðabótaréttar.

Vinnuveitendaábyrgð í skaðabótarétti feli í sér undantekningu frá þeirri reglu að sá, sem veldur tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, beri fjárhagslega ábyrgð á því tjóni til tjónþola. Vinnuveitandinn er því samsamaður tjónvaldi og beri almennt að skýra slíkar undantekningar þröngt. Rökin fyrir reglunni séu þau að vinnuveitandinn standi fyrir þeirri starfsemi þar sem tjóni sé valdið og hafi af henni fjárhagslegan ávinning og því sé eðlilegt að líta á starfsmann og vinnuveitanda hans sem eina heild frá sjónarhorni skaðabótaréttar, enda um að ræða framkvæmd verkefna á vegum vinnuveitanda. Það sé í raun vinnuveitandi sem ákveði með hvaða hætti starfið skuli framkvæmt. Hér skipti mestu máli þau álitaefni sem lúti að því hvaða háttsemi starfsmanns falli undir regluna, þ.e. hvort reglan eigi eingöngu við um tjón sem verður vegna framkvæmd starfs.

Stefndi vísar til þess að með hliðsjón af því, sem stefnandi haldi fram að hafi gerst í málinu, sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið gestur staðarins þegar umrædd atvik urðu og að verið var að loka staðnum á umræddum tíma. Hefði stefnanda verið meinaður aðgangur að staðnum og eftir rifrildi við dyravörð staðarins, hafi stefnandi haldið sína leið. Eins og stefnandi hafi lýst háttsemi stefnda Visar og fallist dómurinn á þær lýsingar, virðist sem stefndi Visar hafi, ásamt öðrum manni, komið út af veitingastaðnum, og þar að leiðandi yfirgefið vinnustaðinn, dregið stefnanda niður í götuna og sparkað í fótlegg hans. Starf dyravarða felist ekki í því að beita samborgara sína ofbeldi eða viðlíka líkamsmeiðingum og hafi verið unnið tjón á líkama stefnanda með þeim hætti, sem áður sé lýst, sé augljóst að það hafi ekki verið þáttur í því að meina honum inngöngu eða vísa honum af veitingastaðnum, né nokkuð annað sem stefndi Visar hafi átt að vinna við framkvæmd starfa sinna fyrir stefnda, Lindu Mjöll ehf. Þvert á móti sé lýst atburðarrás sem sé mjög fjarlæg þeim skyldum sem stefndi leggi á starfsfólk sitt. Sé því ljóst að verknaðurinn var í slíkri fjarlægð við framkvæmd starfans að ekki sé hægt að fella ábyrgð á stefnda, Lindu Mjöll ehf., á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Sé bótaskyldu því alfarið hafnað.

Stefndi hafnar dráttarvaxtakröfu stefnanda sem órökstuddri en ekki sé sjáanlegt að kröfunni bregði fyrir í málsástæðukafla stefnanda í málinu, þrátt fyrir að vera hluti af dómkröfum stefnanda. Ekkert sé fjallað um það af hverju reikna eigi dráttarvexti frá þeirri dagsetningu sem stefnandi leggi upp með í stefnu. Sé dráttarvaxtakrafa stefnanda því órökstudd, óglögg og vanreifuð og beri því að sýkna stefndu af henni eða vísa henni alfarið frá dómi.

Um lagarök vísar stefndi til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar, m.a. reglna um takmarkanir á vinnuveitendaábyrgð. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga  nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Stefndi, Vörður tryggingar hf., byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé að starfsmenn meðstefnda, Lindu Mjallar ehf., hafi fótbrotið stefnanda. Stefnandi sjálfur sé ekki til frásagnar og eini sjónarvotturinn, sem borið hafi um atburðarásina sé vinur stefnanda, Aron Hugi Charlesson, en hann hafi tæplega séð atburðinn þar sem mannþröng hafi verið á staðnum og hafi unnusta hans ekkert getað borið um málsatvik, þótt hún væri viðstödd. Báðir starfsmenn meðstefnda, Lindu Mjallar ehf., meðstefndi, Visar Haxhisefaj, og Przemyslaw K. Grencel hafi borið um að þeir hafi hvorki farið út fyrir vinnusvæði sitt né veist að stefnanda. Ekkert sé á reiki í þeim efnum en hvorugum verði lagðir til lasts tungumálaörðugleikar í samskiptum við lögreglu greinda nótt. Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi þeir, að viðstöddum túlki, hvor um sig gert skilmerkilega grein fyrir málsatvikum eins og þau horfðu við þeim.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að einboðið sé að hann beri að sýkna, verði málatilbúnaður stefnanda lagður til grundvallar. Stefnandi byggi á því að hann hafi lokið orðaskaki við meðstefnda, Visar Haxhisefaj, og verið búinn að snúa sér frá veitingastaðnum og lagður af stað áleiðis heim til sín þegar hann hafi orðið fyrir árás meðstefnda, Visar Haxhsefaj, og Przemyslaw K. Grencel. Sé þessi frásögn rétt, sé um að ræða líkamsárás á götu úti og sé hún í engum tengslum við rækslu starfa í þágu meðstefnda, Lindu Mjallar ehf. Breyti í þeim efnum engu þótt stefnandi hafi fyrr gengið svo fram gagnvart starfsmönnum meðstefndu, hafi sú verið raunin, að þeim hafi runnið svo í skap að þeir hafi veist að stefnanda. Samkvæmt frásgögn stefnanda hafi þeir ekki gert það sem hluta af rækslu dyravarðarstarfa, heldur þegar stefnandi var lagður af stað heim á leið.

Í annan stað byggir stefndi á því að það sé grundvöllur málsóknar stefnanda að hann hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu meðstefnda, Visar Haxhisefaj, og Przemyslaw K. Grencel en slík árás sé refsiverð samkvæmt 217. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eftir atvikum, en saknæmisskilyrði samkvæmt þeim ákvæðum sé ásetningur. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 beri stefndi, Vörður tryggingar hf., ekki ábyrgð þegar vátryggður, í þessu tilviki þar sem starfsmenn meðstefnda, Lindu Mjallar ehf., hafi af ásetningi valdið því að vátryggingaratburður varð. Málflutningsyfirlýsingar stefnanda, sem felist í þessum málatilbúnaði, að hann hafi orðið fyrir líkamsárás af ásetningi, leiði þegar af þeirri ástæðu til sýknu stefnda. Þessi réttarstaða sé áréttuð í 12. gr. skilmála vátryggingar stefnda sem á reyni í máli þessu.

Framhjá þessu grundvallaratriði vátryggingaréttar, að ekki sé hægt að tryggja gegn ásetningsverkum, hafi úrskurðanefnd í vátryggingamálum litið. Þá hafi nefndin litið framhjá þeirri staðreynd að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni í ryskingum við starfsmenn meðstefnda, Lindu Mjallar ehf., er hann freistaði inngöngu á veitingastaðinn. Meiðsli stefnanda hafi ekki hlotist af dyravörslu gagnvart ódælum eða hvimleiðum viðskiptavini. Samkvæmt stefnanda hafði hann lokið öllum samskiptum við starfsmennina og hafi verið lagður af stað á brott frá staðnum heim á leið. Þá fyrst hafi hann orðið fyrir árás sem helst sýnist hafa verið gerð í einhvers konar hefndarskyni eða algerlega af tilefnislausu, sé rýnt í málatilbúnað stefnanda. Byggi stefnandi ekki að neinu leyti á því að árásin hafi átt sér stað sem hluti af rækslu dyravarðarstarfa og leiði það til sýknu.            

Stefndi byggir á ákvæðum laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, lögum nr. 50/1993 og lögum nr. 38/2001. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

V.

                Í kjölfar þess að stefnandi lagði fram sundurliðun á dómkröfum sínum í þinghaldi 1. júní sl., féllu stefndu, Vörður tryggingar hf. og Linda Mjöll ehf., frá frávísunarkröfum sínum, sem fram koma í greinargerðum þeirra.           

                Ekki er í málinu tölulegur ágreiningur milli aðila og þá hafa stefndu ekki haft uppi mótmæli gegn framlagðri matsgerð Sigurðar Thorlacius, heila- og tauglæknis, og Birgis G. Magnússonar hdl.

                Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum, auk vitnanna Arons Huga Charlessonar og Ingibjargar Ólafsdóttur. Hefur efni skýrslna þeirra þegar verið rakið.        

                Stefnandi byggir kröfur sínar um skaðabætur á hendur stefndu á því að honum hafi verið valdið alvarlegu og varanlegu tjóni með líkamsárás starfsmanna stefnda, Lindu Mjallar ehf., þ.m.t. stefnda Visar Haxhisefaj, fyrir utan veitingastaðinn Ellefu-bar á Laugavegi aðfaranótt sunnudagsins 20. september 2009. Beri stefndu allir óskerta skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda. Stefndu, Linda Mjöll ehf. og Vörður hf., hafa hafnað bótakröfu stefnanda og byggja sýknukröfur sínar í fyrsta lagi á því að ósannað sé að starfsmenn stefnda, Lindu Mjallar ehf., hafi valdið stefnanda líkamstjóni.

                Áður er rakinn framburður stefnanda og vætti vitnanna, Arons Huga Charlessonar og Ingibjargar Ólafsdóttur, sem voru í för með stefnanda umrætt kvöld. Lýsingum þeirra á atvikum málsins ber að mestu leyti saman í öllum aðalatriðum. Af skýrslum þeirra hér fyrir dóminum verður ráðið að til ósættis og orðahnippinga hafi komið milli stefnanda og dyravarðar veitingastaðarins sem af framlögðum gögnum lögreglu mun hafa verið stefndi Visar. Hafi þetta gerst í kjölfar þess að þeir stefnandi og Aron Hugi voru að gantast með því að hrinda hvor öðrum í biðröðinni fyrir framan veitingastaðinn og að annar þeirra, að því er virðist Aron Hugi, féll utan í stefnda Visar. Lýsingar á því, hvort þetta gerðist áður en þau Aron Hugi og Ingibjörg fóru inn á veitingastaðinn umrætt sinn eða eftir að þau komu þaðan út einhverju síðar, eru ekki með nákvæmlega sama hætti í skýrslum stefnanda og vitnanna hjá lögreglu annars vegar og hér fyrir dóminum hins vegar. Þótt ekki verði því með fullri vissu afráðið hvort heldur var, er ljóst að ekki nýtur við vættis um að stefnandi hafi komið við stefnda Visar, heldur virðist eingöngu hafa verið um að ræða orðahnippingar milli þeirra.

                Af framburði stefnanda og vætti framangreindra vitna verður ráðið að stefnandi var kominn út á götu fyrir utan veitingastaðinn um það bil 10 til 15 mínútum eftir að þau Aron Hugi og Ingibjörg fóru inn á veitingastaðinn. Hafi stefndi Visar þá farið út á götuna og komið framan að stefnanda og þeir átt í einhverjum orðaskiptum. Bera þau öll um að einhver hafi einnig komið aftan að stefnanda. Vitnin, Aron Hugi og Ingibjörg, bera bæði um að sá maður hafi einnig verið dyravörður á veitingastaðnum. Vitnið, Aron Hugi, bar á þann veg að dyravörðurinn, sem kom aftan að stefnanda hafi tekið hann hálstaki og síðan tekið hann niður í götuna. Þá bar Aron Hugi um að stefndi Visar hafi sparkað í stefnanda og að sparkið hafi komið í fót stefnanda. Framlögð læknisvottorð bera með sér að stefnandi hafi komið á slysadeild í kjölfar umrædds atviks og er áverkum stefnanda lýst þannig að hann hafi verið brotinn á fæti, bæði á dálkshnyðju og sköflungshnyðju. Í framlagðri matsgerð segir að stefnandi sé vegna þessa með skerta hreyfigetu í hægri ökkla og fái þar verki og þrota við álag. Segir jafnframt að vegna eðlis áverkanna, verði að gera ráð fyrir að auknar líkur séu á ótímabærri þróun slitgigtar í ökklanum og að vegna hennar þurfi að stífa ökklann. Eins og áður er rakið, hafa stefndu ekki mótmælt niðurstöðum framangreindra læknisvottorða og matsgerð. Að virtum áðurröktum lýsingum vitna og framangreindum læknisvottorðum og matsgerð er það niðurstaða dómsins að sannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni því, sem hann krefur um bætur fyrir í máli þessu, þegar stefndi Visar og annar starfsmaður stefnda, Lindu Mjallar ehf., veittust að  honum fyrir utan veitingastaðinn Ellefu-bar umrætt kvöld.

                Stefndi, Linda Mjöll ehf., byggir sýknukröfu sína í öðru lagi á því, að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda, sem stefndi Visar hafi valdið umrætt sinn, þar sem tjónið sé tilkomið vegna  háttsemi sem falli ekki undir reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð. Slík ábyrgð sé undantekningarregla sem beri að skýra þröngt. Miðað við lýsingu stefnanda sjálfs hafi stefndi Visar og annar maður verið komnir út af veitingastaðnum og höfðu því yfirgefið vinnustað sinn þegar þeir veittust að honum. Hafi því hvorki verið um það að ræða að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sínu vegna háttsemi stefnda Visar og annars manns í tengslum við störf þeirra hjá stefnda.

                Stefndi, Vörður tryggingar hf., byggir sýknukröfu sína einnig á því að verði fallist á málatilbúnað stefnanda um að stefndi Visar og annar dyravörður hafi ráðist á stefnanda umrætt sinn, sé ekki hægt að líta svo á að háttsemi dyravarðanna falli undir rækslu dyravarðastarfa. Þá byggir hann jafnframt á því að verði talið um líkamsárás dyravarða að ræða, beri stefndi ekki ábyrgð á slíku ásetningsverki starfsmanna stefnda, Lindu Mjallar ehf., sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 og 12. gr. skilmála vátryggingar stefnda. 

                Fram er komið að skömmu áður en til umrædds atviks kom, hafði stefnanda verið vísað út af veitingastaðnum. Af framburði stefnanda og vitna má ráða að þá hefði komið til orðaskipta milli stefnanda og stefnda Visar og einnig þegar út á götuna við skemmtistaðinn var komið. Einnig liggur fyrir, eins og áður er rakið, að þeir, sem veittust að stefnanda, störfuðu sem dyraverðir á Ellefu-bar umrætt kvöld og er því ómótmælt að þeir voru starfsmenn stefnd, Lindu Mjallar ehf. Þótt fyrir liggi að bæði stefnandi og dyraverðirnir voru komnir út af veitingastaðnum og stóðu úti á götu þar skammt frá þegar umrædd atvik urðu, verður í ljósi framangreinds að fallast á það með stefnanda að dyraverðirnir hafi verið að störfum fyrir stefnda þegar þeir veittust að stefnanda með þeim afleiðingum að hann varð fyrir því tjóni sem sannað hefur verið með framlögðum læknisvottorðum og matsgerð.

                Óumdeilt er að stefnandi var ölvaður umrætt sinn og að til einhverra orðahnippinga kom milli hans og stefnda Visar en ekki liggur fyrir með skýrum hætti um hvað þær snerust. Að þessu virtu og þegar litið er til gagna málsins og vættis vitna verður að telja að með háttsemi sinni hafi dyraverðirnir farið yfir eðlileg mörk í samskiptum sínum við stefnanda. Ber stefndi, Linda Mjöll ehf., ábyrgð á verkum framangreindra starfsmanna sinna eftir reglum skaðabótaréttarins um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna á tjóni sem þeir valda við störf sín með ólögmætum og saknæmum hætti.  

Í stefnu kveðst stefnandi byggja kröfu sína m.a. á „ólögfestri meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð“ og verður því ekki á það fallist á það, sem fram kemur í greinargerð, Varðar trygginga hf., að stefnandi hafi ekki að neinu leyti byggt málatilbúnað sinn á því, umrædd árás hafi átt sér stað sem hluti af rækslu dyravarðarstarfa.          

                Stefndi, Vörður tryggingar hf., byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að verði talið að um líkamsárás dyravarða hafi verið að ræða, beri stefndi ekki ábyrgð á slíku ásetningsverki, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 og 12. gr. skilmála vátryggingar stefnda. 

                Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga segir: „Ef vátryggður hefur af ásetningi valdið því að vátryggingaratburður varð ber félagið ekki ábyrgð.“ Samkvæmt 1. gr. skilmála ábyrgðartryggingar stefnda, Varðar trygginga hf., eru báðir stefndu, Linda Mjöll ehf. og Visar, vátryggðir en Visar var launþegi í þjónustu Lindu Mjallar ehf. Þegar fleiri en einn eru vátryggðir verður að meta sjálfstætt stöðu hvers þeirra gagnvart ákvæðum skilmálanna og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004. Með hliðsjón af efni framangreinds lagaákvæðis er ekki hægt að skýra það svo að félagið verði laust úr ábyrgð gagnvart öllum vátryggðum þegar einn þeirra hefur valdið tjóni af ásetningi. Hefði félagið viljað losna úr ábyrgð vegna ásetningsverka starfsmanna vátryggingartaka, hefði þurft að mæla skýrt fyrir um það í 12. gr. skilmálanna. Þótt einn vátryggðra hafi valdið tjóni af ásetningi, losnar félagið í þessu tilviki ekki úr ábyrgð gagnvart öðrum vátryggðum.

                Varakrafa stefnda, Lindu Mjallar ehf., um lækkun á dómkröfu stefnanda er studd sömu málsástæðum og aðalkrafa hans. Eins og að framan er rakið hefur þeim málsástæðum verið hafnað og er því ekki unnt að verða við varakröfu stefnda.

                Af hálfu stefnda, Visar Haxhisefaj, hefur hvorki verið sótt þing né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem samrýmanlegt er framkomnum gögnum. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða dómsins að stefndu beri óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda umrætt sinn. Eins og áður er rakið er tjón stefnanda sannað með framlögðum læknisvottorðum og matsgerð dómkvaddra matsmanna. Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu stefnanda. Verður stefndu því gert að greiða stefnanda skaðabætur eins og nánar greinir í dómsorði.

                Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnufjárhæð samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001. Stefndi, Linda Mjöll ehf., hefur mótmælt kröfunni sérstaklega sem órökstuddri, óglöggri og vanreifaðri. Í stefnu er krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæð samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þar sem fjallað er um upphafsdag dráttarvaxta þegar ekki er samið um gjalddaga kröfu, en í lagarakakafla segir að stefnandi styðji dráttarvaxtakröfu sína við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Er því hvorki um það að ræða að dráttarvaxtakrafan sé mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Verður því ekki hjá því komist að vísa dráttarvaxtakröfu stefnanda frá dómi með vísan til vanreifunar, sbr. ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                  Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 2. málsliðar 132. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu gert að greiða stefnanda óskipt 550.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem renni í ríkissjóð.  

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndu, Linda Mjöll ehf., Vörður tryggingar hf. og Visar Hazhisefaj, greiði óskipt stefnanda, Reyni Viðari Ingasyni, 3.855.904 krónur.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er vísað frá dómi.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 550.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem renni í ríkissjóð.