Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 24. október 2001. |
|
Nr. 407/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Guðjón Ólafur Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði fellur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2001.
Ár, föstudaginn, er á dómþingi, sem háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærði X [ . . . ] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 30. nóvember nk. kl. 16:00.
[ . . . ]
Fyrir héraðsdómi er til meðferðar sakamál á hendur X og í því er hann ákærður fyrir þjófnað þann 2. ágúst sl. í félagi með Y og þjófnað í félagi með öðrum manni, kærði játaði sakargiftir við þingfestingu málsins þann 3. október sl. Þá gaf lögreglustjórinn í Reykjavík út ákæru í dag á hendur X þar sem hann er ákærður fyrir þjófnað, nytjastuld, umferðarlagabrot og 2 fíkniefnalagabrot og fyrir að hafa framið í félagi með öðrum 5 þjófnaði og 1 tilraun til þjófnaðar. Nemur verðmæti þýfis í þessum tveimur ákærum samtals um kr. 7.000.000. Brotin í ákærunni frá því í dag eru framin á tímabilinu frá 29. ágúst til 20. september sl. og hefur kærði játað sakargiftir við yfirheyrslu hjá lögreglu og hluta þeirra fyrir dómi.
Kærði hefur játað við yfirheyrslu að vera atvinnulaus, vera fíkniefnaneytandi og að hann og Y séu stórskuldugir vegna þessa. Kveðst kærði standa í afbrotum til þess að greiða fíkniefnaskuldir. Þetta ásamt ferli kærða og Y síðustu vikur bendir til þess að mati lögreglu að yfirgnæfandi líkur séu til þess að kærði haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Að mati lögreglunnar eru því miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfu hennar svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot. Er krafan gerð með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Kærða hefur í dag verið birt ákæra vegna þeirra brota sem hafa verið til rannsóknar. Er hann ákærður fyrir þjófnaði, nytjastuld og fíkniefnabort. Brotin framdi hann á þessu hausti ýmist einn og í félagi við annan. Um mjög mikil verðmæti er að ræða. Hann hefur áður verið dæmdur til samtals fimm mánaða fangelsisrefsingar skilorðsbundið fyrir þjófnaðarbrot. Verjandi hans hefur lagt fram gögn um að hann geti hafið tveggja vikna afplánun vararefsingar og verið sé að leita meðferðarúrræða fyrir hann. Eins og aðstæður hans eru þykir þetta ekki tryggja það að hann haldi ekki áfram afbrotum fái hann að ganga laus. Þykja því vera til staðar skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til alls framanritaðs og framlagðra gagna þykir rétt að fallast á áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli framangreinds ákvæðis og skal hann sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 30. nóvember nk. kl. 16:00.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 30. nóvember nk. kl. 16:00.