Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2018
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2018, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. maí 2018, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi „og breytt á þá leið að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. X-5/2017 frá 14. mars sl. um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, verði felldur úr gildi.“ Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar, en að því frágengnu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi „og breytt á þá leið að málinu verði vísað aftur heim [í] hérað til efnislegrar umfjöllunar og munnlegs málflutnings“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili 20. janúar 2017 gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila á grundvelli tveggja árangurslausra fjárnámsgerða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem gerðar höfðu verið nokkru áður. Ágreiningsmál vegna beiðninnar fékk númerið X-5/2017 og í þinghaldi í því 15. febrúar 2018 var bókað að málinu væri frestað til munnlegs flutnings 14. mars sama ár klukkan 10. Þann dag var bókað í þingbók að málið hafi verið tekið fyrir og í því kveðinn upp úrskurður um að bú sóknaraðila væri tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Var jafnframt bókað að úrskurðarorð hefði verið lesið í réttinum að aðilum fjarstöddum og að tilgreindur lögmaður hefði verið skipaður til að vera skiptastjóri í þrotabúinu. Degi síðar sendi sóknaraðili dómara málsins beiðni um endurupptöku þess og vísaði í því sambandi til 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni sína reisti sóknaraðili á því að hann hefði haft lögleg forföll er málið var tekið fyrir 14. mars 2018 vegna slyss sem hann hafi orðið fyrir fáeinum dögum áður. Hann hefði tilkynnt forföll sín í tölvubréfi til dómsins 13. mars og aftur að morgni næsta dags, auk þess sem hann hefði sent dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness afrit tölvubréfanna. Þá hefði hann sent dóminum vottorð læknis 14. mars um áverka sína.
Með bréfi héraðsdómara 15. mars 2018 til sóknaraðila var upplýst að beiðni hans um endurupptöku málsins X-5/2017 hefði borist dóminum. Þar kom meðal annars fram að 97. gr. laga nr. 91/1991 ætti ekki við um beiðni sóknaraðila. Í bréfinu var jafnframt vakin athygli sóknaraðila á því að samkvæmt 138. gr. laga nr. 91/1991 skuli í beiðni um endurupptöku greina skýrlega hverra breytinga ,,stefndi“ krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé reist. Ekki hafi verið getið um það í beiðni um endurupptöku hverra breytinga væri krafist. Þá benti héraðsdómarinn á að samkvæmt 3. mgr. 137. gr. laganna verði beiðni um endurupptöku ekki sinnt nema ,,stefndi“ setji áður tryggingu sem dómari meti gilda fyrir greiðslu þess málskostnaðar sem lagður var á hann í dómi eða hann sanni að hann hafi greitt málskostnaðinn. Frá þessu megi þó víkja með samþykki gagnaðila. Dómarinn tók fram að hann hefði ekki fengið upplýsingar um að svo hefði verið gert. Með vísan til þessa taldi héraðsdómarinn ekki skilyrði til þess að taka beiðni sóknaraðila um endurupptöku fyrir og væri henni ,,því hafnað.“ Í lok bréfsins sagði: ,,Bent er á lokamálslið 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að dómari synji þegar í stað um endurupptöku telji hann sýnt að skilyrðum 137. gr. sé ekki fullnægt en úrskurður skuli kveðinn upp um synjunina sé þess krafist.“
Sóknaraðili sendi héraðsdómara bréf 19. mars 2018 og ítrekaði kröfu sína um endurupptöku, auk þess að gera kröfu um að úrskurðurinn 14. mars yrði felldur úr gildi, en ella úrskurðar héraðsdóms um synjun um að taka kröfu hans um endurupptöku til efnismeðferðar. Úrskurður um það var kveðinn upp 20. sama mánaðar og var málið merkt nr. Ö-7/2018. Þar var meðal annars rakið að máli nr. X-5/2017 um beiðni um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila hafi verið frestað 19 sinnum auk þess sem sóknaraðili hafi boðað forföll í ,,um 30 skipti“. Í fyrirtöku 15. febrúar 2018 hafi verið boðað til munnlegs málflutnings 14. mars sama ár, en sóknaraðili fullyrt að hann myndi þá ekki hafa lausan tíma. Héraðsdómari hafi þá gert sóknaraðila grein fyrir því að málið yrði þá tekið fyrir að honum fjarstöddum hefði hann ekki lögmæt forföll. Sóknaraðili hefði sent dómaranum tölvubréf að morgni þess dags, sem málflutningur hafði verið boðaður og upplýst um meiðsl sín og að hann myndi senda dóminum vottorð því til staðfestingar síðar. Í upplýsingum sóknaraðila um slys það er hann varð fyrir hafi komið fram að hann ,,færi allra nauðsynlegustu ferða á hækjum.“ Dómurinn hafi því ekki talið um lögmæt forföll að ræða ,,sbr. a-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991“ og því verið um útivist af hálfu sóknaraðila að ræða þegar hann mætti ekki til dómþings er málið skyldi flytja munnlega. Hafi málið því verið tekið til úrskurðar þar sem því hafi verið hafnað að beiðni sóknaraðila um endurupptöku máls nr. X-5/2017 fengi efnismeðferð. Hafi úrskurðinn verið sendur honum í tölvupósti samdægurs. Var niðurstaða héraðsdómara á því reist að beiðni sóknaraðila hefði að efni til ekki fullnægt lagafyrirmælum og auk þess hefði hann hvorki greitt málskostnað þann er honum var gert að greiða í málinu né sett tryggingu fyrir greiðslu hans. Þá hefði hann heldur ekki sýnt fram á að hann hefði aflað samþykkis varnaraðila fyrir því að verða leystur undan skyldu til að greiða eða setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.
Sóknaraðili kærði 23. mars 2018 að fenginni framangreindri niðurstöðu, úrskurð í máli nr. X-5/2017 til Landsréttar og krafðist þess að niðurstaðan um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta yrði felld úr gildi. Í úrskurði Landsréttar 7. maí 2018 sagði að því hafi ítrekað verið slegið föstu að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til æðra dóms ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann, úr því sem komið er, að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna en ,,af þeim sökum brestur heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfdáðum frá Landsrétti.“
II
Eins og rakið hefur verið krafðist varnaraðili gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila 20. janúar 2017. Sóknaraðili andmælti kröfunni og var málið nr. X-5/2017 rekið um ágreininginn. Sóknaraðili hefur margsinnis fengið fresti í málinu en samkvæmt endurritum úr þingbók hefur það verið tekið fyrir oftar en 20 sinnum, auk þess sem hann hefur margítrekað boðað forföll er málið skyldi taka fyrir. Hann hefur einkum borið fyrir sig að á kröfu um gjaldþrotaskipti séu formgallar. Sá dráttur sem varð á lyktum málsins fyrir héraðsdómi var að mestu vegna ástæðna sem sóknaraðila varða. Að gengnum úrskurði í málinu sinnti hann ekki ráðgjöf héraðsdómara um hvernig hann skyldi bera sig að við að leita endurupptöku máls nr. X-5/2017. Að fengnum úrskurði í máli nr. Ö-7/2018 þar sem hafnað var að taka til meðferðar beiðni hans um endurupptöku á fyrrnefnda málinu með röksemdum, sem honum hafði áður verið gerð grein fyrir er dómari freistaði þess að leiðbeina honum um framhald málsins, kærði hann til Landsréttar úrskurð í máli nr. X-5/2017. Landsréttur vísaði málinu frá réttinum með úrskurði, sem hér er til endurskoðunar.
Eins og fram er komið sinnti sóknaraðili ekki leiðbeiningum héraðsdómara um efni beiðni um endurupptöku máls nr. X-5/2017 og fullnægði heldur ekki öðrum skilyrðum þess að fá beiðni um það tekna til meðferðar, heldur krafðist þess að héraðsdómari úrskurðaði um beiðnina þótt honum hafi verið bent á að málatilbúnaður hans væri ófullburða. Að fengnum þeim úrskurði hefur hann freistað þess að fá fyrri úrskurð í máli nr. X-5/2017 endurskoðaðan með kæru til Landsréttar. Kæra sóknaraðila á úrskurði Landsréttar er, eins og málið er allt vaxið, með öllu tilefnislaus. Verður ekki af henni, og öðru því sem rakið hefur verið, annað ráðið en að sóknaraðili hafi kært úrskurðinn í því skyni einu að tefja framgang málsins. Verður málinu samkvæmt 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Gunnar Árnason, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 750.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Landsréttar 7. maí 2018.
Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu.
Málsmeðferð og dómkröfur aðila
Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 26. mars 2018 en kærumálsgögn bárust Landsrétti 9. næsta mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. mars 2018 í málinu nr. X-5/2017, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og XXV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Niðurstaða Landsréttar
Sóknaraðili boðaði forföll með tölvupósti 13. mars 2018, vegna máls varnaraðila á hendur honum er skyldi flutt í héraði daginn eftir. Þar upplýsti sóknaraðili að hann hefði slasast á fæti síðastliðna helgi og að hann væri sem stæði „í hvíld heima við en fer allra nauðsynlegustu ferða á hækjum“. Sóknaraðili ítrekaði tilkynningu sína að morgni 14. mars 2018 og tók fram að honum hefðu ekki borist viðbrögð vegna fyrri tölvupóstsins. Var málið tekið til úrskurðar að loknu þinghaldinu 14. mars að kröfu varnaraðila. Í þingbók við það tækifæri var meðal annars bókað að sóknaraðili „sækir ekki þing og hefur ekki boðað lögmæt forföll“. Úrskurður var kveðinn upp sama dag.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, teljast forföll aðila frá þinghaldi lögmæt ef þau stafa af sjúkdómi hans sjálfs, heimilismanns hans eða annars manns sem hann þarf að annast eða leita læknishjálpar fyrir. Mátti sóknaraðila, sem sjálfur upplýsti um að hann færi „allra nauðsynlegustu ferða á hækjum“, vera ljóst að meiðsli hans féllu ekki undir lögmæt forföll í skilningi ákvæðisins. Var því um útivist að ræða af hans hálfu.
Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til æðra dómstigs ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verður hann, úr því sem komið er, að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Af þeim sökum brestur heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Landsrétti.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá Landsrétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.