Hæstiréttur íslands

Mál nr. 476/2014


Lykilorð

  • Fjárkúgun
  • Tilraun
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2014.

Nr. 476/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðmundi Tryggva Ásbergssyni

(Björn Jóhannesson hrl.)

(Sigurður G. Guðjónsson hrl. f.h. brotaþola)

Fjárkúgun. Tilraun. Miskabætur.  

G var ákærður fyrir brot gegn 251. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa bréflega og með símasamskiptum reynt að hafa fé af A og B, samtals að fjárhæð 100.000.000 krónur, með hótunum um að beita A eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi. Taldi Hæstiréttur að samkvæmt gögnum málsins væri hafið yfir skynsamlegan vafa að G hefði skrifað umrætt bréf. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest niðurstaða hans um sakfellingu G. Var refsing G ákveðin fangelsi í eitt ár en fullnustu níu mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var G dæmdur til að greiða 400.000 krónur í miskabætur auk þess sem honum var gert að sæta upptöku á tveimur farsímum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu að tildæmd fjárhæð verði lækkuð.

A krefst þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hans verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi skrifað bréf það sem í ákæru greinir. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

Ákærði á sér engar málsbætur en að teknu tilliti til þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu hans og skilorðsbindingu hennar að hluta.

Að því er varðar einkaréttarkröfu A þá hafa engin gögn verið lögð fram sem sýna fram á miska hans. Þar sem brot ákærða er almennt til þess fallið að valda brotaþola miska eru bætur til hans hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Þá verður ákærða gert að greiða honum málskostnað eins og greinir í dómsorði.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um upptöku tveggja farsíma og sakarkostnað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu A.

Ákærði, Guðmundur Tryggvi Ásbergsson, greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2012 til 19. desember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði A 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 862.077 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björns Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 16. maí 2014.

I

Mál þetta, sem upphaflega var dómtekið 17. febrúar sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 3. október 2013 á hendur ákærða; „Guðmundi Tryggva Ásbergssyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir tilraun til fjárkúgunar, með því að hafa í október og nóvember á árinu 2012, bréflega og með símasamskiptum reynt að hafa fé af hjónunum A, kennitala [...], og B, kennitala [...], samtals að fjárhæð kr. 100.000.000 (eitt hundrað milljónir króna), með hótunum um að beita A eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi. Miðvikudaginn 31. október, við [...] í [...], póstlagði ákærði nafnlaust og ódagsett bréf til A, sem hann hafði sjálfur ritað, og barst A 2. nóvember eftir að hann hafði vitjað þess í pósthólf á pósthúsinu að [...] á [...]. Í bréfinu voru ógnandi fyrirmæli til A um að hann ætti að greiða þeim sem stæði að baki bréfinu framangreinda fjárhæð í reiðufé fyrir þriðjudaginn 20. nóvember. Í bréfinu voru nánari fyrirmæli um hvar og hvenær A ætti að útvega hluta reiðufjárins dagana 9. og 16. nóvember með úttektum í tilteknum bankaútibúum í [...], að fylgst yrði með ferðum A við útibúin og að frekari fyrirmæli um afhendingu fjárins yrðu veitt síðar með smáskilaboðum í farsíma A. Í bréfinu var A hótað ofbeldi ef hann leitaði til lögreglu vegna fjárkröfunnar, þar með talið lífláti. Í bréfinu var meðal annars tekið fram að nokkrir menn stæðu að baki sendingu þess, að þeir hefðu reynslu af því að hafa fé af fólki sem þeir hefðu valið úr og að A væri einn þeirra sem hefði verið valinn, að þeir hefðu þurft að hrista menn til til að ná fram vilja sínum, að þeir slepptu ekki þeim mönnum sem þeir hefðu valið úr til að greiða þeim fjármuni, að þeir hefðu undanfarið fylgst með A og hefðu því vitneskju um daglegt líf hans og vandamanna hans, að þeir vonuðust til þess að þurfa ekki að beina aðgerðum að vandamönnum A og að þeir vonuðust til þess að ekki kæmi til leiðinda eða átaka vegna fjárkröfunnar en velferð A væri best borgið með því að verða að kröfunni. Ákærði reyndi að fylgja fjárkúguninni eftir dagana 16., 24. og 25. nóvember, í [...], og 20. sama mánaðar, á [...], með því að senda ógnandi smáskilaboð í farsíma A þar sem fram komu fyrirmæli og upplýsingar varðandi útvegun og afhendingu fjárins. Allt til þess fallið að valda A og B ótta um líf þeirra og velferð en þau leituðu í framhaldinu til lögreglu.

Telst þetta varða við 251. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er jafnframt krafist upptöku samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a. laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, á tveimur Nokia farsímum, annar með IMEI auðkenni [...] (munaskrá [...]) og hinn með IMEI auðkenni [...] (munaskrá [...]), sem notaðir voru til að senda framangreind smáskilaboð dagana 16., 20., 24. og 25. nóvember 2012, en lögregla lagði hald á.“

Í málinu gera A, kennitala [...], og B, kennitala [...], hvort um sig, þá kröfu að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 króna í miskabætur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. nóvember 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er birt sakborningi, en frá þeim degi og til greiðsludags beri fjárhæðin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá er þess krafist að sakborningur greiði þann kostnað sem brotaþoli hefur af því að halda uppi miskabótakröfu sinni, þar með talið þóknun lögmanns að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt síðar framlögðum reikningi eða að mati dómsins.

Aðalmeðferð málsins fór fram 17. febrúar 2014 og var málið tekið til dóms að henni lokinni. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að einkaréttarkröfum A og B verði vísað frá dómi. Til vara er gerð sú krafa að ákærða verði gerð vægasta refsing er lög frekast heimila og refsingin verði skilorðsbundin að öllu leyti. Verði ekki fallist á að vísa einkaréttarkröfum frá dómi er þess krafist til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunum en til þrautavara að þær verði lækkaðar verulega. Þá er gerð krafa um hæfileg málsvarnarlaun, að mati dómsins, er greiðist úr ríkissjóði, auk virðisaukaskatts á málsvarnarlaun. Málið var endurupptekið 24. mars 2014 til framlagningar á frumriti þess bréfs sem ákært er fyrir og umslagsins er bréfið barst í og frímerkjum sem voru á umslaginu. Af hálfu aðila máls voru gerðar sömu kröfur og áður og var málið síðan dómtekið á ný. Eftir dómtöku málsins óskað verjandi ákærða, með bréfi dagsettu 3. apríl 2014, eftir því að skýrsla yrði tekin af C réttarrannsakanda hjá Statens kriminaltekniska laboratorium, sem hafði framkvæmt rannsókn á fyrrgreindum frímerkjum, og eftir atvikum meta það eftir þá skýrslutöku hvort nauðsynlegt væri að framkvæma frekari rannsókn á frímerkjunum í leit að mögulegum lífsýnum. Með bréfi dagsettu 8. apríl 2012 lagði dómurinn fyrir sækjanda málsins að senda frímerkin til frekari rannsóknar til að fullreynt verði hvort á þeim sé að finna lífsýni. Málið var endurupptekið á ný 16. maí 2014 til framlagningar framangreindra skjal auk niðurstöðu framangreindrar rannsóknar. Af hálfu sækjanda málsins og verjanda ákærða voru ekki gerðar kröfur um frekari skýrslutökur. Af hálfu aðila máls voru gerðar sömu kröfur og áður, og hér að framan hafa verið raktar, og var málið síðan dómtekið á ný.

II

Lögregla fékk fyrst vitneskju um málið þegar B hafði samband við yfirlögregluþjón lögreglunnar á [...] 5. nóvember 2012 og óskaði eftir því að hitta hann, ásamt eiginmanni sínum, A. Það varð úr og sýndu B og A yfirlögregluþjóni bréf og umslag, sem þau sögðu bréfið hafa verið í, og á það var ritað nafn og heimilisfang A. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu bar bréfið með sér að hafa verið ritað í tölvu og prentað út á laser- eða bleksprautuprentara. Þá segir þar að bréfið beri yfirbragð fjárkúgunar en þar komi fram að bréfritari sé að rita A bréfið fyrir nokkra ónafngreinda einstaklinga sem séu „að safna fé frá auðmönnum sem hafi hagnast á auðlindum landsins, á kostnað Íslendinga“. Í bréfinu komi fram að bréfritari og aðrir hafi fylgst með A og fjölskyldu hans og að bréfritari vonist til þess að ekki þurfi að koma til þess að þeir sem standi að innheimtunni þurfi að notfæra sér fjölskyldu A til að knýja fram greiðslu frá honum. A er sagt að taka út lausafé, 100.000.000 króna, fyrir 20. nóvember 2012 og setja í tösku. Hann muni fá smáskilaboð í farsíma sinn, og hafi rétt númer hans verið tilgreint í bréfinu, og þar komi fram hvar hann eigi að skilja fjármunina eftir. Einnig kom fram í bréfinu að ef A gerði lögreglu viðvart um innihald bréfsins yrði litið á það sem svik sem hefnt yrði fyrir. A sagði bréfið hafa verið meðal pósts sem hann sótti á pósthúsið á [...] föstudaginn 2. nóvember 2012. Samkvæmt framburði A við aðalmeðferð málsins las hann bréfið nokkrum dögum seinna eða mánudaginn 5. nóvember. Hann hafi haldið tilvist þess leyndri fyrir öðrum en eiginkonu sinni, B. A og B sögðust óttast afleiðingar þessa bréfs, velferð barna sinna og annarra nákominna, enda hafi þessu fólki verið hótað í bréfinu. Það sé ástæða þess að þau hafi viljað tilkynna um bréfið til lögreglu en sögðust að svo komnu máli ekki þora að leggja fram kæru og óska eftir rannsókn. Þau afhentu lögreglu bréfið og umslagið. Af hálfu lögreglu voru strax gerðar ráðstafanir til að fá afrit úr eftirlitsmyndavélum [...] en þar er einnig póstafgreiðsla fyrir [...] en þar var bréfið póstlagt samkvæmt póststimpli.

Meðal gagna málsins er framangreint bréf sem er af stærðinni A4 ásamt umslagi af stærðinni A5. Á umslagið er ritað nafn og heimilisfang A og á því eru tvö 50 gramma frímerki og póststimpill sem ber með sér að bréfið hafi verið póstlagt í [...] 31. október 2012.

Í gögnum málsins liggja fyrir skjámyndir af þeim smáskilaboðum sem A voru send. Fyrstu skilaboðin voru send 16. nóvember 2012 og voru svohljóðandi: „Sæll þá er að líða að 20 nóv. Það hefur ekki unnist tími til að fylgjast með úttektum hjá þér en vonum að það sé klárt. Þér verdur ge* vantar texta*“ Önnur skilaboðin voru send 20. nóvember 2012 og voru svohljóðandi: „Tad verdur ekkert af tessu i dag. Frestad til 25 nov“. Þriðju skilaboðin voru send 24. nóvember 2012 og voru svohljóðandi: „Sæll á morgun er 25 nov. Við reiknum með þér í [...] milli 14 og 17. Frekari staður gefinn a morgun. Ég vil benda þér á að það er betra fyrir þig að biðja um frest í nokkra daga en mæta ekki. Við komum [...] ef þú mætir ekki eða lætur vita.“ Fjórðu skilaboðin voru send 25. nóvember 2012, kl. 11.05, og voru svohljóðandi: „3 klst“. Fimmtu og síðustu skilaboðin voru send sama dag, 25. nóvember 2012, kl. 13.35, og voru svohljóðandi: „við verðum á [...] um kl. 14.00 staðfestu að þú verðir þar“. Í lok allra skilaboðanna var „broskall“.

Einnig liggja fyrir gögn um notkun á þeim tveim símtækjum og símanúmerum sem talið er að ákærði hafi notað og gögn um greiðslukortanotkun ákærða haustið 2012.

Þá liggja fyrir upptökur úr eftirlitsmyndavél [...] frá 31. október 2012 þar sem sjá má ákærða setja bréf í póstkassa.

Við rannsókn málsins var tvisvar tekin skýrsla af ákærða. Fyrri skýrsluna gaf hann 14. janúar 2013. Hann kvaðst þá ekki kannast við bréfið eða vita hver A væri en hafa áttað sig á því eftir að hafa fengið upplýsingar um gælunafn hans. Þá kvaðst hann ekki hafa skrifað bréfið. Hann kvaðst hafa farið með bréf í póst í [...], 31. október 2012, sama dag og bréfið er póststimplað. Hann sagði það hafa verið sett á bifreið hans á [...] og þá verið í plastpoka. Bréfið hafi síðan verið í sæti í bifreiðinni í nokkra daga, gæti verið hálfan mánuð, en hann hafi síðan hent því í póstkassa þegar hann fór í [...] að tala við D [...]. Hann kvaðst aldrei hafa tekið bréfið úr pokanum og ekki muna hvað stóð á umslaginu. Aðspurður af hverju hann hafi sett það í póstkassann sagðist hann hafa ætlað að henda þessu inn á pósthús á [...] en ætli hann hafi ekki bara séð póstkassann eða eitthvað þegar hann átti leið um [...]. Síðar í skýrslunni sagði hann að hann hefði aldrei skoðað umslagið en það hafi verið minna en A4 stærð. Aðspurður hvort bréfið hafi verið frímerkt kvaðst hann ekki vita það, hann hafi ekki einu sinni tekið það úr pokanum. Þegar ákærða var bent á að bréf væru ekki sett ófrímerkt í póst sagði hann að það hlyti að hafa verið frímerki á því en hann sé ekki klár á því. Hann neitaði því alfarið að hafa sent smáskilaboð til A í símanúmerið [...]. Þá sagðist hann búa í [...] en hafa mikið verið á [...] þetta haust. Hann sagði að einungis fjölskyldu sín, það er hann, [...], hefðu aðgang að heimili hans auk konu sem sjái um þrif. Þá sagði hann bílskúrinn yfirleitt vera lokaðan. Ákærða var kynnt að smáskilaboð til A hafi komið úr Nokia-síma sem hafi fundist í bílskúr hans. Hann kvaðst ekki kunna skýringu á því en sagði þennan síma vera mikið í bifreið hans og hann notaði símann í vinnunni til að hlífa tölvusímanum við ryki og óhreinindum og færði þá kortið á milli. Kvaðst hann ekki þurfa að nota PIN-númer á símana. Hann hafi verið að þrífa bifreiðina og þá rekist á símann og sett í skúrinn. Aðspurður hvort aðrir notuðu Nokia-símann svaraði hann: „Nei, það á ekki að vera þannig.“ Ákærði var spurður um þá daga sem smáskilaboðin voru send, 16., 20., 24. og 25. nóvember, og staðfesti hann að hafa verið á [...] 16. en ætlaði að kanna hvort hann gæti séð af gögnum hvar hann hefði verið hina daganna. Aðspurður um aðrar tölvur en þær sem hefðu verið haldlagðar sagði hann tölvu vera á [...] auk þess sem hann notaði einnig tölvu E, samstarfsmanns síns. Þá sagði hann alla vita að A ætti pening en sjálfur væri hann heldur ekki í fjárkröggum þrátt fyrir að einhver félög sem hann standi að stæðu ekki vel.

Þann 22. mars 2013 gaf ákærði skýrslu á ný hjá lögreglu. Hann lýsti því að hann væri að gera upp hús að [...] á [...] og hafi áður gert upp hús á [...]. Hann stefni á að byggja fjölbýlishús á [...] og smáhýsi í [...]. Að auki sé hann með [...] á [...]. Hann sagði að á ferðum sínum [...] haustið 2012 hafi hann verið á hvítri sendiferðabifreið, [...], sem hann legði yfirleitt í portið milli [...]. Hann sagði að þegar hann fór að hitta D í [...] 31. október hafi það verið vegna þess að D hafi í einhverjar vikur verið búinn að biðja hann að hitta sig en ákærði hafi „trassað það endalaust“. Þegar hann kom þangað hafi hann allt í einu verið staddur fyrir utan pósthús þannig að hann hafi tekið bréfið og hent því ofan í póstkassann áður en hann fór inn og dinglaði hjá D. Aðspurður af hverju hann hafi ekki farið með þetta í afgreiðsluna svaraði hann: „Ég bara veit það ekki, ég hefði alveg eins getað gert það skilurðu, það hefði sennilega verið miklu betra, ég henti þessu bara þarna í lúguna, hún er þarna við hurðina á leiðinni inn...“ Þá var honum sýnd upptaka úr eftirlitsmyndavél [...] þar sem sjá má að hann kemur inn í anddyrið en fer svo út aftur og setur bréf í póstkassa úti. Aðspurður sagðist hann ekki hafa neina hugmynd um það af hverju hann hafi gert þetta í stað þess að setja bréfið í afgreiðsluna. Ákærði kvaðst ekki hafa kannað gögn sín með tilliti til þess hvaða daga hann var á [...]. Þá voru kynnt fyrir honum gögn þar sem fram kemur um hvaða sendi smáskilaboðin fóru og kvaðst hann ekkert hafa um það að segja. Í skýrslutökunni skrifaði ákærði á tölvu eftir upplestri nokkrar setningar úr bréfinu sem A var sent.

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði sagði í framburði sínum við aðalmeðferð málsins að hann hafi á þessum tíma, í nóvember 2012, kannast við A en hafi ekki þekkt fullt nafn hans fyrst þar sem hann þekkti hann undir öðru nafni. Hann kvaðst ekki hafa átt viðskipti við A, þekkja gróflega fjárhagsstöðu hans, vita að hann væri í stjórn [...], eigi húsnæði og sennilega sé fjárhagsstaðan hans ágæt. Hann hafi ekki verið í neinum samskiptum við A en hafi stundum hitt hann á förnum vegi og þá heilsað honum. Hann kvaðst hafa vitað að A hafi búið í húsi sem sé kallað [...] og er nálægt [...]. Þá hafi hann vitað að [...] og hafi [...] hennar verið með honum í [...] en sagðist ekki vera viss um hvort [...]. Ákærði kvaðst hafa búið í [...] á árinu 2012 en hafa verið að gera upp hús á [...], að [...], og einnig gistiheimili á [...]. Hann hafi þó mest verið í [...] á þessum tíma.

Ákærði sagði að miklar líkur væru á því að hann hefði póstlagt það bréf, sem greinir í ákæru, í [...]. Hann sagði að dagsetningin gæti passað, 31. október 2012. Aðspurður af hverju hann hafi póstlagt bréfið sagði hann það hafa verið af einskærri kurteisi sem hann hafi komið því til skila. Bréfið hafi verið sett á framrúðuna á bifreið hans þar sem henni var lagt við [...] á [...], viku til hálfum mánuði áður en bréfið var póstlagt. Bréfið hafi verið í nestispoka, þ.e. glærum plastpoka, og hafi hann átt þess kost að lesa á bréfið í gegnum pokann. Hann hafi hent bréfinu inn í bifreiðina og ekki tekið sérstaklega eftir því hverjum bréfið var merkt en það hafi verið með frímerkjum og af stærðinni A5. Bifreiðin sem um ræðir sé stór sendibifreið og hafi hann verið að nota hana á þeim tíma sem umslagið var í henni. Hann hafi viljað koma bréfinu til skila og hafi verið byrjaður að fá móral yfir því að vera ekki búinn að því. Þennan dag átti hann erindi í [...] en D [...] hafi kallað hann á sinn fund. Þegar hann kom þangað hafi hann séð að þar var einnig pósthús. Aðspurður af hverju hann hafi sett bréfið í póstkassa í stað þess að afhenda það starfsmanni kvaðst hann ekkert hafa velt því fyrir sér, þetta hafi bara verið ákvörðun sem hann tók. Hann viti ekki af hverju hann ætti að afhenda starfsmanni [...] bréfið, hreinlegast hafi verið að setja það í póstkassann. Hann hafi ætlað að setja bréfið í póst á [...] og hafi gengið fram hjá pósthúsinu á hverjum degi. Þá kvaðst hann ekki hafa skrifað bréfið, enga vitneskju hafa um það hver skrifaði það og ekki hafa áttað sig á því hver viðtakandi bréfsins var. Aðspurður hvort honum hafi ekki fundist skrítið að bréfið hafi verið sett á bifreið hans sagðist hann hafa litið á þetta á sama hátt og þegar einhver missir húfu eða vettlinga.

Ákærði kvaðst nota og hafa á árinu 2012 notað símanúmerið [...] en kvaðst ekki kannast við símanúmerið [...]. Þegar húsleit vegna málsins var gerð hafi hann búið í [...] ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum. Hann sagðist reikna með að hann ætti Nokia-síma með IMEI-númerinu [...] sem fannst við leit lögreglu í bílskúrnum hjá honum, a.m.k. ætti hann samskonar síma. Hann væri venjulega með annan síma, tölvusíma, en notaði Nokia-símann þegar hann væri í rykvinnu og færði þá símkortið á milli. Hann sagði Nokia-símann hafa endað í bílskúrnum eftir að hann fann símann í bifreiðinni þegar hann var að þrífa hann. Hann kvaðst eiga erfitt með að útskýra að síminn hafi verið notaður til að senda smáskilaboð í nóvember en telja að einhver hafi komist yfir símann. Sjálfur hefði hann ekki tekið eftir því hefði síminn horfið í mánuð eða meira en hann hafi yfirleitt verið í bifreiðinni sem hafi verið ólæst. Hann kvaðst halda að einhver og jafnvel fleiri en einn aðili væru að reyna að koma á hann sök og að greinilegt væri að fylgst hefði verið með honum. Ákærði neitaði að hafa sent þau smáskilaboð sem greinir í ákæru og kvaðst ekki vita hver sendi þau.

Ákærði staðfesti að vera með skrifstofu í [...] í [...] og hafa verið með hana haustið 2012. Kynnt voru fyrir ákærða gögn um símanotkun 16. nóvember 2012. Þar kemur fram að símagögn sýna að 16. nóvember 2012, klukkan 12.52, var símanúmerið [...] notað í gegnum sendi í [...] og sama dag klukkan 12.57 var símanúmer ákærða [...] notað í gegnum sendi við [...]. Ákærði sagði að sér fyndist þetta vera sérstakt en hafði ekki aðra skýringu á þessu en að einhver væri að reyna að koma sök á hann. Hann kvaðst ekki missa símann frá sér í langan tíma án þess að taka eftir því. Hann gæti ekki hafa verið staddur á [...] og síminn í [...] eða öfugt. Hann sé almennt staddur þar sem síminn er. Aðspurður um smáskilaboð sem A voru send úr símanúmerinu [...] frá tölvusíma ákærða kvaðst hann ekki hafa aðra skýringu á því en að einhver hafi komist yfir tækið, skipt um símkort og sent smáskilaboð.

Ákærði kvaðst kannast við sig á upptöku úr eftirlitskerfi [...] frá 31. október 2012. Hann sagði það alrangt að hann hafi falið bréfið þegar hann kom með það inn í anddyri [...] en kvaðst ekki muna hvernig hann hafi haldið á því.

Ákærði kvaðst telja að einhver væri að reyna að koma á hann sök en viti ekki af hverju. Hann nefndi að fyrirhugaðar framkvæmdi hans í Tungudal, þar sem hann ætlar að reisa smáhýsi, væru umdeildar. Þá sagði ákærði að ýmsir aðilar fái sendibifreið hans lánaða og bifreiðin sé aldrei læst. Einnig sé E samstarfsmaður hans alltaf með honum fyrir [...] og einnig oft í [...]. Þeir keyri saman á milli [...] og [...], vinni á sama stað og gisti á sama stað á [...]. Ákærði sagðist telja ólíklegt að E komi að þessu en aldrei sé hægt að segja aldrei. Þá kvaðst ákærði ekki hafa sjálfur beitt sér í málum gegn þeim sem hafi auðgast á auðlindum landsins og telji sig sjálfan vera „kvótason“ úr báðum ættum.

Ákærði sagði fjárhagsstöðu sína á árinu 2012 hafa verið þokkalega góða en sjálfur hafi hann þá verið á atvinnuleysisbótum. Vel hafi gengið hjá honum að fjármagna framkvæmdir auk þess sem hann gæti leitað til fjölskyldu sinnar þyrfti hann á því að halda. Í árslok 2012 hafi heimili hans átt laust fé sem nemur 25-30 milljónum og ofan á það hafi hann átt eignir. Sum þeirra félaga sem hann standi að hafi hins vegar farið illa eftir hrunið. Aðspurður um skjöl sem voru á heimili hans við húsleit, annars vegar greiðsluáskorun og hins vegar bréf frá umboðsmanni skuldara, sagði hann að greiðsluáskorunin væri vegna félaga og að honum hafi verið ráðlagt af starfsmönnum Landsbankans að leita til umboðsmanns vegna erlendra lána félaga sem hann eigi.

Aðspurður kvaðst ákærði venjulega nota íslenska stafi þegar hann sendir smáskilaboð. Þá gerði hann athugasemd við framkvæmd seinni skýrslutökunnar við rannsókn málsins. Þegar formlegri skýrslutöku var lokið hafi honum verið sýndar myndir af þremur mönnum og spurður hvort þeir tengdust málinu. Ekkert komi fram um þetta í skýrslu lögreglu. Þá sagði hann málið hafa haft mikil áhrif á hann, fjölskylda hans hafi tekið því mjög illa og það hafi haft gríðarleg áhrif í þeim viðskiptum sem hann er í. Þá staðfesti hann undirritun sína á skjal sem hann ritaði í yfirheyrslu hjá lögreglu 22. mars 2013 eftir upplestri lögreglu úr bréfi því sem greinir í ákæru.

Vitnið A kvaðst hafa fengið bréfið í pósti og hafi honum brugðið en efni bréfsins sé alvarlegt og í því væru miklar hótanir, bæði gagnvart honum og fjölskyldu hans, yrði ekki orðið við körfu. Fyrst hafi hann talið að þetta væri grín en samt farið til lögreglu með bréfið. Þegar fyrstu smáskilaboðin komu sá hann að þetta var alvara. Hann hafi haft áhyggjur af því að hótununum yrði framfylgt. Honum hafi fundist erfitt að vita ekki hver mótaðilinn væri og hvort það væri flokkur manna. Honum hafi fundist mjög óþægilegt að fá smáskilaboðin og enn í dag bregði honum þegar hann fái smáskilaboð. Hann kvaðst vera málkunnugur ákærða og hafa spjallað við hann þegar hann hitti hann og þannig hafi samskipti þeirra verið 2012. Þeir hafi aldrei rætt fjárhagsleg málefni, þeir hafi ekki verið í fjárhagslegum viðskiptum og hann hafi aldrei gert ákærða grein fyrir fjárhagslegri stöðu sinni né heldur hafi ákærði leitað eftir fjármagni hjá honum.

Vitnið kvaðst reikna með því að ákærði þekki hann með fullu nafni en enginn annar væri með sama nafn og hann og byggi á [...]. Hann telur sig ekkert hafa gert á hlut ákærða eða fjölskyldu hans. Vitnið sagðist vera stjórnarformaður [...], vera eigandi [...] auk þess sem hann ætti húsnæði sem væri í útleigu. Engin viðskiptatengsl séu milli hans og ákærða og kvaðst hann ekki telja að ákærði þekki hans fjárhag utan þess sem fram kemur í opinberum gögnum. Vitnið sagði að líðan hans hafi verið slæm fyrstu daganna eftir að bréfið barst og hafi hann m.a. ekki sofið vel. Nokkru seinna ákváðu þau að leita til lögreglu og kvaðst hann telja að það hafi verið góð ákvörðun, enda hafi honum fundist lögregla taka þetta alvarlega. Vitnið sagði [...] sem komi töluvert til þeirra. Í bréfinu kom fram að búið væri að mynda þau við leik og störf. Þetta komi alltaf upp í hugann af og til. Einnig hugsunin um það hvort þetta geti gerst aftur. Það hafi verið mikil lífsreynsla að ganga í gegnum þetta og hafi það haft mest áhrif að þeim var hótað og sagt var að fylgst hefði verið með þeim og teknar af þeim myndir.

Þá lýsti vitnið því að verjandi ákærða hafi hringt í hann og sagt að maður, sem hafði þá verið sakaður um brotið, hefði áhuga á að hafa samband við hann. Þessu hafi hann hafnað. Löngu seinna fékk hann upplýsingar um að þetta var ákærði. Vitninu voru sýndar skjámyndir af smáskilaboðum sem send voru í símanúmer hans á tímabilinu 16. til 25. nóvember 2012 og staðfesti hann að hafa fengið þessi smáskilaboð. Þá sagði vitnið að nokkru seinna, eftir að öll skilaboðin höfðu borist, hafi verið ákveðið af lögreglu að svara skilaboðunum og þá hafi verið spurt hver hafi verið að senda skilaboðin. Vitnið kvaðst ekki telja sig eiga óvildarmenn og ekki eiga í útistöðum við neinn. Hann hafi hvorki fyrir eða eftir þetta fengið símtöl eða smáskilaboð sem hafi verið undarleg.

Vitnið B, eiginkona A, sagði í framburði sínum fyrir dómi að hún teldi efni bréfsins mjög alvarlegt, þetta sé morðhótun, og það hafi haft mikil áhrif á hana og hafi henni liðið mjög illa. Líkti hún áhrifunum við það þegar flugvélum var flogið á turnana í New York. Hún hafi ekki sofið á nóttinni og hafi þurft að leita sér sálfræðiaðstoðar vegna málsins. Hún hafi hugsað um það hverju þau gætu átt von á og þegar hún hafi hlustað á fréttir af alvarlegum líkamsárásarmálum hafi hún hugsað um það hvort ráðist yrði á [...] sem búi [...]. Þau hafi verið á leið [...] þegar þau fengu fyrst smáskilaboð og hafi líf þeirra þá umturnast. Hún hafi ekki trúað þessari mannvonsku. A hafi verið ófær um að aka eftir að hann fékk smáskilaboðin. Málið hafi síðan hvílt þungt á þeim báðum. Aðspurð um samskipti hennar við ákærða sagði hún þau hafa verið góð. Hann hafi komið til hennar þegar hann var að breyta gistiheimili á [...] og talað um að fá hana til að aðstoða sig við [...] en hafi ekki haft meira samband við hana út af því. Einnig hafi komið til tals að hún og ákærði mundu auglýsa saman gististaði sína á [...].

Vitnið F, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði unnið úr símagögnum sem aflað hafði verið vegna málsins. Hann kvaðst hafa unnið úr símaútskriftum og teiknað upp notkun þessara tveggja númera, [...] og [...], til að sjá hvort notkun þeirra fylgdist að. Þannig hafi hann skoðað hvort þau væru notuð á svipuðum stað og tíma þannig að verið gæti að um sama notanda hafi verið að ræða. Einnig hafi hann skoðað notkun símanúmera út frá IMEI-númeri eða númeri símtækis. Hann noti teikniforrit til að setja upp notkun síma út frá símamöstrum eða sendi en þar séu sendarnir staðsettir en ekki símarnir. Hann sagði að þegar farsímar væru notaðir þá leituðu þeir upp þann sendi sem væri næstur. Á höfuðborgarsvæðinu væri þétt net senda sem hver um sig nái yfir frekar smátt svæði þannig að nákvæmni sé þó nokkur en á landsbyggðinni sé dreifingin meiri. Þann 16. nóvember hafi símanúmerin verið notuð með fimm mínútna millibili. Reynsla hans úr öðru máli sýni honum að þetta sé sterk vísbending um að um sama notanda sé að ræða. Þá voru þeir sendar sem símtölin fóru um mjög stutt hvor frá öðrum, annars vegar í [...] og hins vegar í [...], og það sé einnig sterk vísbending. Auðveldara sé að álykta um það hvort um sama notanda sé að ræða þegar stutt er á milli símtala. Þegar lengri tími er á milli þá er auðveldara að ferðast á milli staða og því erfiðara að staðhæfa.

Þá sagði vitnið að símanúmerið [...] hafi verið lítið notað og sé notkun þess ekki venjuleg notkun á símanúmeri heldur bendir allt til þess að það sé einungis notað í ákveðnum tilgangi. Notkun þess hafi raunverulega einskorðast við að senda smáskilaboðin. Ekki hafi verið hringt í sömu númer úr þessum tveim símanúmerum og ekki hafi verið hringt úr símunum hvorum í annan. Þetta sé einnig vísbending um að um sama aðila sé að ræða. Bæði númerin hafi einnig verið notuð í símtæki með sama IMEI-númerinu á sama degi. Það sé önnur vísbending um að um sama notanda sé að ræða. Þá hafi bæði númerin verið notuð með stuttu millibili á [...] 20. nóvember og [...] hafi einnig verið notað í símtæki ákærða 19. og 20. nóvember. Vitnið sagði að unnið hafi verið eftir gögnum frá öllum símafyrirtækjunum. Kerfi þeirra séu mismunandi, þurft geti að taka t.d. smáskilaboð og símtöl úr mismunandi kerfum sem þarf að púsla saman þegar þetta er skoðað.

Vitnið E kvaðst hafa verið samstarfsmaður ákærða frá árinu 1996 eða 1997. Hann og ákærði hafi verið að gera upp gamalt hús á [...] í október og nóvember 2012 og hafi þá yfirleitt verið samferða þegar þeir fóru [...]. Hann sagði ákærða yfirleitt hafa verið með símann á sér og ekki geyma síma í sendibifreiðinni nema að hann sé í bifreiðinni sjálfur. Taldi vitnið að ákærði hefði varla skilið símann eftir í bifreiðinni í langan tíma að honum fjarstöddum. Hann sagði bifreiðina yfirleitt vera ólæsta. Þá staðfesti hann að hafa sjálfur notað bifreiðina eitthvað en vissi ekki um fleiri sem það gerðu. Hann kvaðst ekki hafa notað síma ákærða og ekki hafa vitneskju um það hvort aðrir hafi notað hann. Þá kvaðst hann ekki vita hvort ákærði var í fjárþröng á þessum tíma. Aðspurður um það hvort umslag hafi verið í bifreiðinni á þessum tíma sagði hann að svo hafi verið og hafi það verið ýmist á mælaborði eða í sætinu. Hann hafi örugglega séð hvað stóð á umslaginu en muni það ekki lengur. Ákærði hafi seinna sagt vitninu frá umslaginu og viti hann um hvað málið snýst en ákærði hafi sagt vitninu að hann hafi sett það í póst. Um var að ræða hvítt umslag en hann muni ekki stærð þess. Þá sagði vitnið að aukasími hafi verið í bifreið ákærða á þessum tíma en hann hafi ekki séð ákærða nota þann síma. Aðspurður hvort ákærði hafi notað tölvu vitnisins neitaði hann því en eftir að borinn var undir hann framburður ákærða um að hann hefði notað tölvuna sagði vitnið að það gæti verið.

Vitnið D, [...] í [...], sagði ákærða hafa átt erindi við sig 31. október 2012 en ákærði sé viðskiptavinur [...]. Ákærði hafi þá verið að upplýsa hann um gang mála vegna félaga sinna. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa kallað eftir því að ákærði kæmi til fundar við sig þennan dag. Þá hafi hann ekki vitað til þess að ákærði hafi verið í vanskilum á þessum tíma. Hann staðfesti að hafa afhent lögreglu upptöku úr eftirlitsmyndavélum [...] og bréf sem þeim fylgdi. Vitnið staðfesti að tímasetning á upptökunum væri 40 mínútum of sein. Vitnið sagði klæðaburð ákærða þennan dag hafa vakið sérstaka athygli sína en ákærði hafi verið í „jogginggalla“.

Vitnið G lögreglufulltrúi sagði að enginn hafi verið grunaður í málinu fyrr en smáskilaboð bárust frá símatæki ákærða. Ekkert kom fram í málinu sem varpaði grun á aðra en ákærða. Hann sagði lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hafa annast milligöngu um öflun gagna frá símafyrirtækjum. Þau gögn hafi sýnt að ákærði var alltaf á þeim stað sem smáskilaboðin voru send frá og að þessi tvö tæki, þ.e. símtæki ákærða og símtækið sem flest smáskilaboðin voru send úr, ferðuðust saman. Ákærði hafi talað um að leggja fram gögn um það hvar hann hefði verið þessa daga sem voru til skoðunar en þau hafi ekki skilað sér. Þá kvaðst vitnið hafa verið í samskiptum við A og B vegna málsins. Í samskiptum hans við þau hafi komið fram að málið hafi haft djúpstæð áhrif á þau, þeim hafi liðið illa og þau verið óttaslegin. Þá kom fram hjá vitninu að seinasti stafur í IMEI-númeri símtækis kæmi ekki fram á yfirlitum símafyrirtækja. Aðspurður sagði hann lögreglu ekki hafa kannað sérstaklega hvort ákærði notaði íslenska stafi þegar hann sendi smáskilaboð.

Vitnið H, yfirlögregluþjónn í [...], sagðist fyrst hafa komið að málinu 5. nóvember 2012 þegar honum barst símtal frá B sem þá sagði honum frá bréfinu. Vegna innihalds bréfsins voru hún og eiginmaður hennar A hrædd og hafi þau ekki haft kjark til að koma á lögreglustöð heldur báðu vitnið að hitta þau annars staðar. Hann hafi hitt hjónin og þá fengið afhent bréfið og umslagið. Á þeim fundi hafi hjónunum liðið mjög illa og verið óttaslegin. Seinna hafi hann átt fleiri fundi með þeim. Vegna póststimpils hafi fyrst verið leitað eftir gögnum frá [...] og m.a. kannaðar eftirlitsmyndavélar þar. Það hafi verið fyrst þegar A bárust smáskilaboð úr einkasíma ákærða að athyglin fór að beinast að honum. Vitnið kvaðst hafa sagt A og B að svara ekki smáskilaboðunum en 19. desember 2012 hafi verið ákveðið að svara skilaboðunum en þá höfðu engin skilaboð komið síðan 25. nóvember. Þá voru send skilaboðin: „Hver er að reyna að ná í mig“. Ástæða þess að það hafi verið gert var sú að það var stígandi í smáskilaboðunum 16. til 25. nóvember en síðan gerðist ekkert.

Aðspurður sagði vitnið að ekki hafi verið skoðað sérstaklega að ein smáskilaboðin voru ekki með íslenskum stöfum. Aðspurður um símanúmer sem skráð var á [...] sagði hann að ekki hafi verið óskað eftir heimild til að hlusta það númer og kvaðst hann minna að um hafi verið að ræða gamalt númer frá [...] sem sé ekki lengur notað af starfsmönnum [...]. Ekki hafi verið aflað upplýsinga um fjárhag ákærða en fram kom hjá ákærða að hann væri á atvinnuleysisbótum og í skattaskýrslu sem fannst við húsleit kom fram að hann ætti einhverjar peningaeignir.

Vitnið I rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa gert fingrafararannsókn á bréfi og umslagi. Ekki hafi verið tekin fingraför af frímerki heldur hafi það verið klippt af og sent áfram til rannsóknar. Þá tók hann sýni af bæði fram- og bakhlið bréfsins í því skyni að kannað yrði hvort þar fyndust lífsýni. Hann sagði bréfið hafa verið brotið í miðju og þaðan hafi verið tekin stroksýni af bakhlið og framhlið til rannsóknar. Að því loknu var leitað fingrafara á bréfinu. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið sú að einungis hafi fundist fingraför frá A. Þá hafi ekki verið leitað að fingraförum á umslaginu sjálfu.

Vitnið J rannsóknarlögreglumaður lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði komið að handtöku ákærða og leit á heimili hans. Hann lýsti því að við húsleitina hafi farsími fundist uppi á ísskáp í bílskúr ákærða. Þá staðfesti hann að á skrifstofu ákærða hafi fundist skjöl er vörðuðu skuldastöðu ákærða og skattaskýrsla 2012. Ekki hafi verið talin nauðsyn á að haldleggja prentara.

Vitnið K, fyrrverandi lögreglufulltrúi, lýsti því í skýrslu sinni að hann hefði í lok skýrslutöku af ákærða í mars 2013 sýnt ákærða myndir af þremur mönnum. Ástæða þess hafi verið sú að hann hafi verið að vinna í öðru fjárkúgunarmáli og hafi fundist bréfin í báðum málunum keimlík hvað varðar uppsetningu. Hann hafi ekki fundið nein tengsl á milli málanna. Það hafi verið meðvituð ákvörðun að gera þetta í lok skýrslutöku og taldi hann að þeir sem stjórnuðu rannsókn málsins hafi vitað eitthvað um þessar vangaveltur hans. Þá sagði hann að sími ákærða hafi verið tekinn af honum þegar hann var fyrst yfirheyrður og kvaðst hann minna að síminn hefði verið rannsakaður.

Vitnið L rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa annast öflun símagagna vegna málsins sem upplýsinga- og eftirlitsdeild hafi svo unnið úr. Hann sagði að í ljós hafi komið að símanúmerið [...] hafi verið notað í tveimur símtækjum en hvert símtæki hafi sitt IMEI-númer. Þá staðfesti vitnið að hafa sent tölvupóst til lögreglunnar á [...] 26. nóvember 2012 þar sem fram kemur að í kerfum símans hafi komið fram að símtæki með IMEI-númerið [...] hafi einungis verið notað með númerinu [...]. Hann sagði þetta ekkert segja til um það hvort tækið hafi verið notað fyrir símanúmer frá öðrum símafyrirtækjum.

Vitnið M, sérfræðingur í tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa annast tölvuskoðun vegna málsins. Hans hlutverk hafi verið að draga gögnin fram en hann hafi ekki farið yfir þau. Engar niðurstöður hafi fengist úr þeim leitarorðum sem notuð voru. Hluti tækjanna hafi verið tekin til frekari skoðunar. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort sími ákærða hafi verið skoðaður en telja að sími af gerðinni Nokia 1208 sé eini síminn sem hafi verið rannsakaður. Þá kom fram hjá honum að ekki væri hægt að fullyrða að hægt sé að finna öll skjöl sem hafi verið eytt. Þau gætu fundist þrátt fyrir það nema að notaður hefði verið skráatætari, en í þeim tilvikum væri hægt að skoða hvort slíkur tætari hefði verið notaður. Ekki hafi verið óskað eftir því að þetta yrði kannað. Þá sagði hann suma prentara geyma upplýsingar yfir þau skjöl sem prentuð hafi verið með tækinu. Með þeirri skoðun sem var framkvæmd var ekki að finna ummerki um skjalið í tækjunum.

Vitnið N, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lýsti því við aðalmeðferð málsins að hans hlutverk hafi verið að senda áfram til DNA-rannsóknar sýni sem hann fékk og tekin höfðu verið af bréfinu og einnig frímerki. Hann hafi fengið tvö stroksýni, annars vegar af bréfinu og hins vegar af umslaginu og bréfpoka með frímerki. Ákveðið hafi verið að senda frímerkið beint án þess að eiga nokkuð við það til að eiga ekki á hættu að eyðileggja eitthvað. Hann sagði að upplýsingar um það hvaðan sýnin hefðu verið tekin kæmu með sýnunum og byggði hann á þeim upplýsingum. Niðurstaða rannsóknar hafi verið sú að í sýnum hafi ekki fundist nothæf lífsýni.

Vitnið O lögregluvarðstjóri kvaðst hafa farið yfir hluta af upptökum úr eftirlitsmyndavél [...] en í allt hafi verið farið yfir þrjá sólarhringa af efni. Honum hafi helst verið falið að leita að aðila sem setti bréf í póstafgreiðslu. Við skoðun á upptökunni hafi fleiri en ákærði komið til greina en verið útilokaðir eftir frekari skoðun. Ákærði hafi ekki legið undir grun á þeim tíma þegar þeir voru að leita á upptökunum. Hann hafi sérstaklega tekið eftir því að ákærði hikaði þegar hann kom í anddyrið.

IV

Ákærði er í máli þessu ákærður fyrir fjárkúgun samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt ákvæðinu skal sá sæta refsingu sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa uppi rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, eða annan slíkan sakburð, þótt sannur sé, ef nauðungin á ekki nægilegan rétt á sér vegna málefnis þess, er hótunin beinist að, eða loks með því að hóta honum að valda verulegum skemmdum eða eyðileggingu á eignum hans. Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki hafa verið í fjárþörf á þessum tíma og eigi ekkert sökótt við móttakanda bréfsins. Byggir ákærði vörn sína á því að verið sé að koma á hann sök og telur að framlögð gögn ákæruvalds sem beinast að honum verði skýrð með því.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa sett umslag í póstkassa við sameiginlegt húsnæði [...] og [...], við [...] í [...], 31. október 2012, og telur líklegt að um sé að ræða það bréf sem mál þetta snýst um. Þá þekkti hann sig á upptökum úr eftirlitsmyndavélum [...]. Þar má sjá ákærða koma inn í anddyri húsnæðisins. Hann heldur á umslagi í hægri hendi sem brotið hefur verið saman einu sinni. Höndin með umslaginu hangir niður með hægri síðu hans þegar hann kemur í anddyrið þannig að ekki er áberandi að hann er með bréfið. Ákærði horfði í kringum sig í anddyrinu og fór svo út aftur og gekk að póstkassa sem staðsettur er utandyra við inngang húsnæðisins og setti eitthvað í póstkassann. Það tók hann nokkra stund og virðist hann gera eitthvað áður en hann setti bréfið í kassann. Þá gengur hann inn í anddyrið á ný og setur eitthvað að því er virðist í ruslafötu. Fyrir innan anddyrið er staðsettur starfsmaður póstsins. Háttsemi ákærða við póstlagningu bréfsins bendir til þess að hann hafi ekki viljað vekja athygli á því að hann væri með umslagið. Þá gætu gerðir hans samrýmst því að umslagið hafi verið í poka, eins og ákærði hefur sjálfur borið um, sem hann hafi tekið bréfið úr áður en hann setti það í póstkassann, og að hann hafi losað sig við pokann í ruslafötu í anddyrinu. Telja verður að það samrýmist illa kenningu ákærða um að verið sé að koma á hann sök að bréfið var í plasti þegar hann fann það, sem hindraði að fingraför hans kæmu á umslagið hefði hann það áfram í plastinu. Þá verður einnig að telja ólíkleg að einhver teldi það vísa leið til að koma bréfi til skila að setja það frímerkt á bifreið ákærða. Af upptökum úr eftirlitsmyndavélum má sjá starfsmann tæma póstkassann og skömmu síðar má sjá sama starfsmann með umslag í hendi sem líkist því umslagi sem hér er fjallað um. Ekki er hægt að greina utanáskrift á umslaginu en sjá má að í því er brot sem samrýmist því að umslagið hafi verið brotið á sama hátt og umslagið sem ákærði sást með í anddyrinu. Framlagt bréf er af stærðinni A4 en umslagið A5. Samskonar brot og hér að ofan var lýst er í umslaginu sjálfu. Einnig er brot í bréfinu sem samrýmist því að það hafi verið brotið á þennan hátt eftir að hafa verið sett samanbrotið í umslagið.

Þá sagði ákærði að bréfið hafi verið í bifreiðinni í viku til tíu daga frá því að það var sett á rúðuna þar til hann setti það í póst. Framburður E styður það að bréfið hafi verið í bifreiðinni þennan tíma en framburðinn verður þó að skoða í ljósi þess að hann hefur verið vinnufélagi ákærða frá árinu 1996 eða 1997 og eru þeir einnig vinir og í miklum samskiptum og höfðu rætt um málið sín á milli áður en vitnið gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá segir þetta ekkert um ástæðu þess að bréfið var í bifreiðinni í þennan tíma.

Við húsleit á heimili ákærða fannst í bílskúr Nokia-farsími með IMEI-númerinu [...]. Það símtæki var samkvæmt framlögðum gögnum notað til að senda fjögur af fimm smáskilaboðum sem A bárust og voru þau send úr símanúmerinu [...]. Ákærði hefur staðfest að hann noti almennt símanúmerið [...]. Samkvæmt gögnum málsins er símtæki ákærða, sem hann notar þetta símanúmer almennt í, með IMEI-númerið [...]. Þá voru ein smáskilaboð send úr því símtæki en þá notað í það símkort með símanúmerinu [...]. Ákærði hefur borið um að hann skilji farsíma sinn sjaldan við sig og á sama veg var framburður E, vinnufélaga ákærða til margra ára. Fyrir liggur að ekki hafi aðrir en ákærði og fjölskylda hans haft aðgang að bílskúrnum þar sem síminn fannst. Þá kom fram í framburði E að á tímabilinu október til nóvember 2012 hafi hann verið að vinna með ákærða og þá hafi aukasími einnig verið í bifreiðinni.

Gögn málsins benda til þess að símanúmerið [...] hafi verið lítið notað og takmarkar það hversu miklar ályktanir hægt er að draga af notkun þess. Taldi vitnið F að svo virtist sem megintilgangur þess hafi verið að senda smáskilaboðin til A. Samkvæmt gögnum málsins var sendandi smáskilaboða til A staddur í [...] þegar boðin voru send, í öllum tilvikum nema 20. nóvember, en þá var hann á [...]. Bæði gögn um notkun á símanúmeri ákærða [...] og gögn um greiðslukortanotkun hans benda til þess að hann hafi verið á sömu stöðum þessa daga. Ákærði heldur því fram að hann hafi fært símkort sitt á milli síma og notað símann, sem fannst í bílskúr hans, við rykvinnu. Ekki er að sjá af framlögðum gögnum að símkort ákærða hafi verið notað í þann síma á því tímabili sem hér er til skoðunar.

Eins og fram kom í framburði F er meginreglan sú að farsími leitar að þeim sendi sem er staðsettur næst honum og fer notkun símans um þann sendi. Ekki getur verið um nákvæma staðsetningu að ræða eins og fram kemur í fyrirvara í greinargerð lögreglu um notkun símanúmeranna. Þá var, eins og vitnið F rakti, sérstaklega rannsakað hvort sami aðili notaði bæði símanúmerin. Samkvæmt gögnum málsins voru símtækin á svipuðum stað í [...] 16. nóvember en númerið [...] var notað kl. 12.52 um sendi í [...] við gatnamót [...]. Sími ákærða var skömmu síðar, eða kl. 12.57, notaður í gegnum sendi við [...]. Í framburði F kom fram að þetta bendi til þess að um sama notanda hafi verið að ræða. Þá voru send smáskilaboð úr símanúmeri [...] í síma A 24. nóvember kl. 17.58 um sendi sem kallaður er [...] og staðsettur er á [...] eða [...] í [...]. Um sjö mínútum seinna eða kl. 18.05 hringdi ákærði úr síma sínum og fór það símtal um sendi við [...]. Þá voru bæði númerin notuð á [...] 20. nóvember, með sjö mínútna millibili.

Við rannsókn málsins var kannað hvort frekari tengsl væru milli símtækjanna. Í ljós kom að símanúmerið [...] hafði verið notað í bæði símtækin, eins og hér að framan hefur verið rakið. Einnig kom fram að aldrei var hringt úr þeim númerum, sem aðallega voru notuð í símana, hvoru í annað og aldrei var hringt í sömu símanúmer úr þessum númerum. Styður þetta enn frekar að sami aðili hafi verið með báða símana og bæði símanúmerin.

Við rannsókn lögreglu var ákærði fenginn til að skrifa á tölvu, eftir upplestri, hluta af þeim texta sem fram kemur í bréfinu. Ákærði skrifaði þá að einhverju leyti sömu villur og eru í bréfinu, t.d. skrifaði hann „kosnað“ í stað „kostnað“, „einig“ í stað „einnig“ og „skylningsleisi“ í stað „skilningsleysi“ en í bréfinu til A var skrifað „skilningsleisi“. Einnig ritaði hann þá aðrar villur sem ekki voru í bréfinu, t.d. „knýa“ í stað „knýja“. Ákærði vissi um gildi bréfsins fyrir rannsóknina þegar hann ritaði textann en gögn málsins bera ekki með sér að hann hafi þá verið búinn að sjá bréfið. Með hliðsjón af þessu er það mat dómsins að ritun textans með sömu villum og fram koma í bréfinu bendi til þess að ákærði hafi skrifað það en hefur þó ekki úrslitaáhrif við mat dómsins á sekt ákærða.

Dómurinn telur að framburður ákærða um að einhver sé að koma á hann sök sé mjög ótrúverðugur. Væri svo þyrfti viðkomandi að hafa aðgang að báðum símtækjum ákærða og símkorti með símanúmerinu [...]. Ljóst er af framburði ákærða að það væri helst E sem hefði aðstöðu til þess en hugsanlega einnig fjölskyldumeðlimir ákærða. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessir aðilar eigi einhverja aðild að verknaðnum. Telja verður að framburður ákærða, um að hann hafi fundið bréfið frímerkt á bílrúðu sinni og hann hafi í framhaldi af því haft það um tíma í bifreið sinni og sett það síðan í póst þegar hann var komin með samviskubit yfir því að hafa ekki komið því fyrr til skila, sé mjög ótrúverðugur. Þá verður að telja að sem aðferð við að koma sök á ákærða sé þetta nokkuð langsótt. Einnig er ótrúverðug sú staðhæfing hans að hafa aldrei lesið hver væri viðtakandi bréfsins, hvorki þegar hann fann það né heldur meðan það var í bifreiðinni. Fyrstu viðbrögð einstaklings við því þegar bréf er sett í bílrúðuna hjá honum hljóta að vera þau að kanna hvort bréfið sé til hans með því að lesa á það. Framburður ákærða um þetta hefur verið misvísandi. Fyrsti framburður hans um þetta í fyrri skýrslu hjá lögreglu var á þann veg að hann myndi ekki hvað stóð á umslaginu. Seinna í sömu skýrslu kvaðst hann aldrei hafa skoðað umslagið og í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki hafa tekið sérstaklega eftir því hverjum umslagið var merkt. Þá sagði hann í fyrri skýrslunni hjá lögreglu að hann muni ekki hvort frímerki hafi verið á umslaginu en breytti þeim framburði eftir að hafa verið bent á að almennt væri bréf ekki sett ófrímerkt í póst, og hélt sig við þann framburð. Í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu var ákærði spurður af hverju hann hefði sett bréfið í póst í [...] og svaraði hann því til að líklega hafi hann bara séð póstkassann eða eitthvað þegar hann átti leið um [...]. Í næstu skýrslu hjá lögreglu sagði hann að þegar hann kom þangað hafi hann allt í einu verið staddur fyrir utan pósthús þannig að hann hafi tekið bréfið og hent því ofan í póstkassann áður en hann fór inn og hringdi hjá D. Á sama veg var framburður hans fyrir dómi. Upptaka úr eftirlitsmyndavél sýni að nokkru leyti aðra atburðarás, eins og fyrr hefur verið rakið, og af henni má ráða að ákærði ætlaði sér ekki að afhenda starfsmanni bréfið. Þá er ljóst af upptökunni að hann var ekki búinn að sjá að póstkassinn var utan á anddyrinu þegar hann kom inn í anddyrið.

Gögn málsins benda til þess að ákærði hafi sjálfur átt umtalsverðar peningaeignir á þessum tíma en ekkert liggur fyrir um það hvort það fé hafi verið bundið. Þá hefur hann upplýst að hafa á þessum tíma verið á atvinnuleysisbótum en unnið að ýmsum verkefnum m.a. byggingaframkvæmdum á [...]. Af framburði hans má einnig ráða og að sum þeirra félaga sem hann hafi komið að hafi verið í slæmri stöðu fjárhagslega. Fyrir liggur að ákærði hafði nægilega miklar upplýsingar um aðstæður A og fjölskyldu hans til að geta ætlað að hann gæti verið hentugt fórnarlamb fjárkúgunar. Ákærði vissi um starf hans, eignastöðu og fjölskylduaðstæður.

Við aðalmeðferð málsins gagnrýndi verjandi ákærða harðlega rannsókn lögreglu sem hann taldi verulega ábótavant og að einhverju leyti í andstöðu við lög. Að sumu leyti tekur dómurinn undir athugasemdir verjanda. Má þar nefna að ekki hafa fengist fullnægjandi skýringar af hálfu lögreglu á ástæðu þess að það var fyrst í janúar 2013 sem rannsóknin beindist að ákærða þrátt fyrir að lögregla hafi frá 15. nóvember 2012 haft í höndum upptökur úr eftirlitsmyndavélum [...] sem sýna ákærða póstleggja bréfið. Þá bera gögn málsins ekki með sér að sími ákærða hafi verið rannsakaður þrátt fyrir að ein smáskilaboðin hafi verið send úr honum.

Þá dreifði verjandi til dómara og annarra málflytjenda yfirliti verjanda yfir málflutningsræðu sína. Yfirlitið er svo ítarlegt að telja verður að það sé í andstöðu við þá meginreglu sem fram kemur í lögum um meðferð sakamála að málflutningur skuli vera munnlegur.

Í máli þessu er ákærði ákærður fyrir að reyna að hafa fé af hjónunum B og A með hótunum um að beita A eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi. Bréf það sem kom máli þessu af stað er einungis stílað á A og frekari fyrirmælum með smáskilaboðum var beint að honum. Ekkert hefur komið fram í máli þessu sem bendir til þess að brotinu hafi verið beint að B þó ljóst sé að brotið hafi haft áhrif á hana sem eiginkonu A og sem eins af þeim fjölskyldumeðlimum A sem hótað er að verði fyrir líkamlegu tjóni greiði A ekki féð. Með vísan til þess er ekki fallist á það með ákæruvaldi að brotinu hafi verið beint að B eins og tilgreint er í ákæru.

Ákærði er ákærður fyrir tilraun í fjárkúgunar. Böndin beindust fyrst að ákærða þegar A voru send smáskilaboð úr síma ákærða. Eins og rakið hefur verið benda framlögð gögn til þess að ákærði hafi átt bæði þau símtæki sem notuð voru við verknaðinn, að hann hafi verið með símtækin þegar skilaboðin voru send auk þess sem hann póstlagði bréfið og bjó yfir þeim upplýsingum sem þurfti til að velja brotaþola sem viðtakanda bréfsins. Þó verður ekki talið sannað að ákærði hafi sjálfur ritað bréfið, eins og greinir í ákæru, en dómurinn telur ótvírætt að ákærði hafi vitað af innihaldi þess. Eins og rakið hefur verið eru skýringar ákærða einkar ótrúverðugar. Þá telur dómurinn að vafalaust sé að efni bréfsins sé fjárkúgun í samræmi við 251. gr. almennra hegningarlaga með því að hóta því að beita A eða nána vandamenn hans ofbeldi verði greiðsla ekki innt af hendi. Telur dómurinn fullvíst að verknaður sá sem ákært var fyrir geti einungis hafa verið framin í auðgunarskyni. Ekki liggur fyrir hvort ákærði mætti 25. nóvember 2013 í því skyni að taka á móti fjármununum en af hálfu A var ekki reynt að afhenda þá. Þá bárust A ekki smáskilaboð eða önnur fyrirmæli eftir 25. nóvember 2012. Brot samkvæmt 251. gr. almennra hegningarlaga telst fullframið þegar hótun hefur borið árangur sem væri í þessu tilviki ef hótun hefði leitt til afhendingar á fjármunum. Þar sem svo var ekki er um tilraunabrot að ræða, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, að því undanskildu að ekki er talið að brotið hafi beinst að B eins og rakið er hér að ofan og að ekki sé sannað að ákærði hafi sjálfur ritað bréfið. Er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

V

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsingu og verður til þess litið við ákvörðun refsingar, ákærða til málsbóta. Við ákvörðun refsingar ber einnig að líta til alvarleika brotsins, sbr. 1. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en brotið olli A og eiginkonu hans mikilli vanlíðan og þá voru þær hótanir sem ákærði setti fram mjög alvarlegar. Hann bæði hótaði því að hann mundi notfæra sér fjölskyldu A til að knýja fram greiðslu og hótaði A með þeim orðum að ef hann talaði við lögreglu eða aðra sem mundu leita þeirra gæti hann lofað því að A mundi sjá eftir því alla tíð eða ekki vera til staðar til að sjá eftir því. Þá ber að líta til 6. töluliðs sama ákvæðis en ákærði setti bréfið í póst 31. október 2012 og allt til 25. nóvember 2012, eða í a.m.k. 25 daga, hélt hann sig við framkvæmd brotsins.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga má dæma lægri refsingu fyrir tilraunabrot en fyrir fullframið. Að mati dómsins eru ekki til staðar þær aðstæður sem þar eru tilgreindar í dæmaskyni að réttlæti lægri refsingu. Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár. Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað skal fresta fullnustu níu mánaða af dæmdri refsivist og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

VI

Af hálfu A og B er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 3.000.000 króna til handa hvoru. Við mat á bótaskyldu ákærða gagnvart A og B fer eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Bótakröfurnar eru byggðar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bæði byggja þau bótakröfu sína á b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og telja sig hafa orðið fyrir umtalsverðu andlegu tjóni eftir að hafa móttekið bréfið. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Ekki liggja fyrir nein gögn um þær afleiðingar sem brotin hafa haft fyrir A og B utan framburðar þeirra við aðalmeðferð málsins en af honum mátti ráða að brot ákærða hafi valdið þeim miklum ótta og hafi um langan tíma haft mikil áhrif á þau og svo sé að einhverju leyti enn. Þá ber að líta til þess að brotið er til þess fallið að valda þeim sem fyrir því verður miska. Með því broti sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann valdið A miska. Eins og rakið er hér að ofan verður ekki talið að brotið hafi beinst að B og var ákærði sýknaður að þeim þætti ákærunnar. Ber því samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 að vísa bótakröfu hennar frá dómi. Þær hótanir sem settar eru fram í bréfinu eru mjög grófar og augljóslega til þess fallnar að valda ótta hjá viðtakanda þess um líf sitt og sinna nánustu. Með hliðsjón af eðli brotsins og afleiðingum þess fyrir A þykja bætur til hans hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu þannig að vextir reiknist frá 2. nóvember 2012, en síðan dráttarvextir frá 19. desember 2013, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá gerir A einnig kröfu um að ákærði greiði þann kostnað sem hann hafi haft af því að halda uppi kröfu sinni. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða málskostnað A vegna bótakröfu hans, eins og nánar greinir í dómsorði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

VII

Í ákæru er þess krafist að gerðir verði upptækir tveir Nokia-farsímar sem talið er að ákærði hafi notað til að senda þau smáskilaboð sem getið er um í ákæru. Upptökukrafan er byggð á 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga. Með vísan til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brotið eins og hér að ofan hefur verið rakið, þ. á m. með því að hafa notað nefnda farsíma til að senda tilgreind smáskilaboð, er krafa ákæruvalds tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

VIII

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði verður því dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk annars sakarkostnaðar sem til er kominn vegna ferðakostnaðar vitnis og rannsóknar National Laboratory of Forensic Science, 145.744 krónur.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Daði Kristjánsson saksóknari.

Dóm þennan kveða upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri sem dómsformaður og Hjörtur O. Aðalsteinsson og Ragnheiður Thorlacius héraðsdómarar.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Guðmundur Tryggvi Ásbergsson, sæti fangelsi í eitt ár en fresta skal fullnustu níu mánaða af þeirri refsivist og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptækir eru gerðir til ríkissjóðs tveir Nokia-farsímar, annar með IMEI-númerið [...] og hinn með IMEI-númerið [...].

Ákærði greiði A 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. nóvember 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 19. desember 2013 til greiðsludags.

Ákærði greiði A 300.000 krónur í málskostnað.

Bótakröfu B er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnaðar málsins, 745.744 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björns Jóhannessonar hrl.‚ 600.000 krónur.