Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Vörumerki
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 8. september 2004. |
|
Nr. 278/2004. |
Unilever N.V. (Skúli Th. Fjeldsted hrl.) gegn Einkaleyfastofunni (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Vörumerki. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
U kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur E var vísað frá dómi. Taldi héraðsdómur að það færi gegn jafnræði aðila að meginhluti þeirra gagna sem U lagði fram væri á erlendum tungumálum án þýðingar á íslensku. Í Hæstarétti var tekið fram að ekki væri séð að dómari hefði beint því til U að leggja fram þýðingar á skjölunum, þar sem hann hefði ekki talið sér fært að þýða þau. Þá yrði að líta til þess að E væri stjórnvald, en ákvörðun þess, sem til úrlausnar var í málinu, var meðal annars reist á sömu skjölum við þá málsmeðferð. Var málið því ekki svo vanreifað að þessu leyti að ekki yrði bætt úr því á síðari stigum málsmeðferðar. Hins vegar var kröfum U um skráningu á tilteknu vörumerki og um að ákvörðun E yrði hrundið vísað frá héraðsdómi. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en að því frágengnu að hann verði lækkaður.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila 16. október 2003. Krafðist hann þess að „hrundið verði ákvörðun Einkaleyfastofunnar, dags. 3. júní 2002, um að hafna skráningu alþjóðavörumerkisins CREME BONJOUR nr. 741888, og úrskurði Áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, í málinu nr. 5/2002 um staðfestingu þeirrar ákvörðunar, og dæmt að þessi alþjóðlega vörumerkjaskráning ... skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi.“
Fyrir héraðsdómi krafðist varnaraðili aðallega frávísunar málsins. Reisti hann þá kröfu í fyrsta lagi á því að ekki fáist staðist að krefjast þess samhliða að hrundið verði ákvörðun lægra setts stjórnvalds annars vegar og hins vegar úrskurði æðra setts stjórnvalds um staðfestingu á þeirri ákvörðun. Í öðru lagi sé ekki unnt að hafa uppi þá dómkröfu að hin alþjóðlega vörumerkjaskráning skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi, þar sem það sé ekki á valdi dómstóla að taka slíka ákvörðun. Í þessu sambandi verði að líta til þess að enda þótt kröfugerð sóknaraðila sé margþætt þá myndi hún eina heild. Í þriðja lagi hafi sóknaraðili lagt fram við þingfestingu málsins í héraði fjölmörg skjöl á erlendum tungumálum án þess að þau hafi verið þýdd á íslensku. Nánari grein er gerð fyrir málsástæðum varnaraðila í hinum kærða úrskurði. Héraðsdómari fjallaði ekki um fyrstu tvær frávísunarástæður varnaraðila, en vísaði málinu í heild sinni frá dómi á þeim grunni að meginhluti þeirra skjala sem sóknaraðili lagði fram séu á erlendum tungumálum og ekki fylgi þeim þýðingar á íslensku. Fyrir Hæstarétti bendir varnaraðili sérstaklega á að ekki verði bætt úr skorti á þýðingum með því að leggja þær fram eftir að greinargerð var lögð fram af hans hálfu í héraði. Bendir hann jafnframt á að þær þýðingar, sem fylgi kæru sóknaraðila til Hæstaréttar, beri ekki með sér að þær stafi frá löggiltum skjalaþýðanda og hafi þær þannig ekkert gildi í málinu.
Sóknaraðili bendir á að varnaraðili sé aðili að alþjóðlegu skráningarkerfi á sviði vörumerkja og vörumerki það, sem málið fjalli um, sé innan þess kerfis. Ákvörðun varnaraðila 3. júní 2002 hafi verið skrifuð af honum sjálfum á ensku, sem og tilgreint bréf hans er sóknaraðili lagði fram í málinu. Önnur skjöl á erlendu tungumáli séu einungis stöðluð vörumerkjaskráningarvottorð sem varnaraðili eigi öðrum betur að kunna skil á. Varnaraðili hafi ekki krafist þýðingar á þessum skjölum við meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og krafa hans þess efnis sé því ekki eðlileg. Þrátt fyrir þetta hafi sóknaraðili þýtt framlögð vörumerkjavottorð og sent varnaraðila með tölvupósti fyrir flutning málsins í héraði. Hins vegar hafi dómari ekki viljað taka við umræddum skjölum til framlagningar í þinghaldi er málið var flutt um frávísunarkröfu. Hafa þessi gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Þá telur sóknaraðili að málsefnið eigi undir lögsögu dómstóla, meðal annars með vísan til 63. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Við mat á kröfugerð sóknaraðila beri einnig að líta til þess að staða áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar sé ekki skýrt skilgreind í lögum. Því sé ekkert tilefni til að vísa málinu frá dómi vegna kröfugerðar.
II.
Þingmálið er íslenska samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem er byggt á efni þess nema dómari telji sér fært að þýða það. Komi aðilar sér ekki saman um rétta þýðingu skjals skal hún gerð af löggiltum skjalaþýðanda, en sé þess ekki kostur má leggja fram þýðingu annars hæfs manns.
Mál þetta var þingfest í héraði 6. nóvember 2003. Lagði sóknaraðili þá fram stefnu en fékk jafnframt frest til frekari málatilbúnaðar. Við næstu fyrirtöku málsins 20. sama mánaðar lagði sóknaraðili fram þau skjöl á erlendu tungumáli sem um er fjallað í málinu. Fékk varnaraðili þá frest til 8. janúar 2004 til að leggja fram greinargerð. Var sá frestur tvívegis framlengdur, en greinargerð var lögð fram af hans hálfu 26. febrúar 2004. Í því þinghaldi var bókað að málsaðilar fengju „sameiginlegan frest til gagnaöflunar um óákveðinn tíma um framkomna frávísunarkröfu.“ Jafnframt var bókað að málið færi til úthlutunar hjá dómstjóra. Við upphaf þinghalds, er málið var flutt um frávísunarkröfu varnaraðila, mun sóknaraðili hafa óskað eftir að fá að leggja fram þýðingar á umræddum skjölum sem hann hafði áður sent varnaraðila með tölvupósti. Mun dómari hafa hafnað framlagningu hinna þýddu skjala. Ekki er ljóst hvort þýðingar þessar hafi verið unnar af löggiltum skjalþýðanda. Eins og að framan er rakið hafa þýðingar þessar verið lagðar fram fyrir Hæstarétt.
Af þeim endurritum úr þinghöldum, sem að framan er vísað til, verður ekki séð að varnaraðili hafi haft uppi óskir um þýðingu framlagðra skjala áður en hann skilaði greinargerð með kröfu um frávísun, er byggði meðal annars á skorti á þýðingum. Verður heldur ekki séð að dómari hafi beint því til sóknaraðila að leggja fram þýðingar skjalanna, þar sem dómari hafi ekki talið sér fært að þýða þau. Þá verður að líta til þess að varnaraðili er stjórnvald. Var ákvörðun hans 3. júní 2002, sem um er deilt í málinu, sem og úrskurður áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 16. júlí 2003, meðal annars reist á þessum skjölum án þess að séð verði að þau hafi verið þýdd á íslensku við þá málsmeðferð. Stafar reyndar hluti þessara skjala frá varnaraðila sjálfum. Af öllu framanrituðu verður ekki talið að málið hafi verið svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að þessu leyti að ekki verði bætt úr því á síðari stigum málsmeðferðar.
Eins og að framan er rakið eru stefnukröfur sóknaraðila margþættar. Sóknaraðili krefst þess meðal annars að dæmt verði að alþjóðleg vörumerkjaskráning vörumerkisins CREME BONJOUR nr. 741888 „skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi.“ Með kröfugerð þessari verður ekki annað séð en að sóknaraðili fari fram á að dómstólar ákveði skráningu á vörumerki, sem hann telur varnaraðila hafa verið lögskylt að framkvæma. Slíkt er ekki á valdsviði dómstóla. Þá er einnig fallist á með varnaraðila að sóknaraðila hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að krefjast ógildingar á ákvörðun varnaraðila 3. júní 2002 þar sem fram er komin endanleg stjórnsýsluúrlausn áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar um umrætt álitamál. Verður þessum hluta stefnukrafna sóknaraðila vísað frá héraðsdómi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Sá þáttur stefnukrafna sóknaraðila, sem lýtur að ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 16. júlí 2003, er hins vegar nægilega skýr og verður að telja að hann sé ekki tengdur öðrum þáttum stefnukrafna sóknaraðila þannig að vísa beri málinu frá í heild. Ber héraðsdómara því að taka til efnismeðferðar kröfu sóknaraðila um ógildingu á fyrrnefndum úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar 16. júlí 2003 í máli nefndarinnar nr. 5/2002.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila, Unilever N.V., um að hrundið verði ákvörðun varnaraðila, Einkaleyfastofunnar, frá 3. júní 2002.
Vísað er frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila um að dæmt verði að alþjóðleg vörumerkjaskráning sóknaraðila á alþjóðavörumerkinu CREME BONJOUR nr. 741888, skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi.
Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið að öðru leyti til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2004
Stefnandi er Unilever N.V., 455 Weena, 3013 AL Rotterdam Hollandi.
Stefndi er Einkaleyfastofan, Skúlagötu 63, Reykjavík.
Málið var höfðað 16. október 2003.
Stefnandi krefst þess að hrundið verði ákvörðun Einkaleyfastofunnar, dags. 3. júní 2002, um að hafna skráningu alþjóðavörumerkisins CREME BONJOUR nr. 741888 og úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar í málinu nr. 5/2002 um staðfestingu þeirrar ákvörðunar og dæmt að þessi alþjóðlega vörumerkjaskráning stefnanda skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi. Að auki krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um hana 4. þ.m. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað.
I
Í stefnu segir í upphafi lýsingar málavaxta og málsástæðna:
“Með bréfi stefnda til The International Bureau, WIPO, dags. 3.6.2002, tilkynnti stefndi höfnun alþjóðlegarar vörumerkjaskráningar stefnanda CREME BONJOUR, nr. 741888, en áður hafði stefndi í bréfi til sama, dags. 20.08.01, lýst því að hann teldi merki þetta ekki hæft til að greina vörur stefnanda frá vörum annarra. Þessu vildi stefnandi ekki una þar sem hann telur merkið vel aðgreiningarhæft og áfrýjaði því ákvörðun stefnda til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og hlaut málið þar nr. 5/2002. Hinn 16. júlí 2003 kvað áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar upp úrskurð í málinu og staðfesti höfnun stefnda á skráningu merkisins hér á landi. Stefnandi telur þessa niðurstöðu ekki réttmæta og ber því nauðsyn að höfða mál þetta til að nefndum ákvörðunum verði hrundið og dæmt að nefnd alþjóðleg vörumerkjaskráning hans skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi.”
Stefnandi lagði fram úrskurð áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar frá 16. júlí 2003 þar sem fram kemur sú niðurstaða nefndarinnar að orðmerkið CREME BONJOUR, skv. alþjóðaskráningu nr. 741 888, sé ekki skráningarhæft hér á landi fyrir vörur í flokki 29 með vísan til 1. mgr. 13. gr. og 2. tl. 1. mgr. 14. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997. “Úrskurðarorð: Ákvörðun Einkaleyfastofunnar, dags. 3. júní 2002, um að hafna skráningu alþjóðavörumerkisins CREME BONJOUR nr. 741 888 er staðfest.”
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að framangreint merki hafi verið samþykkt til skráningar í löndum sem séu með vandaða stjórnsýslu og sé ekki viðunandi að hér á landi, þar sem hvorki enska né franska séu tungumál íbúanna, sé hafnað skráningu með skírskotun til þessara tungumála þegar hún sé samþykkt í “heimalöndum tungumálanna”.
Stefnandi vísar um kröfur sínar til reglna vörumerkjalaga nr. 45/1997 og vörumerkjaréttarins yfirleitt.
Við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram, auk stefnu og skrár yfir framlögð skjöl, fjórtán skjöl. Af þeim eru níu á erlendum tungumálum. Eftir því sem segir í skránni eru skjölin þessi: 1) Afrit bréfs Einkaleyfastofu til The International Bureau, WIPO, dags. 3.6.2002. 2) Afrit bréfs Einkaleyfastofu til Ther International Bureau, WIPO, dags. 20.8.2001. 3) Afrit skráningarvottorðs KUNUNGARIKET SVERIGE fyrir vörumerkið CREME BONJOUR, dags. 23. febúar 2001. 4) Afrit skráningarvottorðs SUOMI FINLAND fyrir vörumerkið CREME BONJOUR, dags. 15.07.1998. 5) Afrit skráningarvottorðs ÖSTERREICHISCHES PATENTAMT fyrir vörumerkið CREME BONJOUR, dags. 6. febrúar 2002. 6) Afrit skráningarvottorðs BENELUX-MERKENBUREAU fyrir vörumerkið CREME BONJOUR, dags. 4. október 1999. 7) Ljósrit úr 7. tbl. ELS Tíðinda, birt alþjóðleg skráning nr. 766369, HONORABLE. 8) Ljósrit úr 8. tbl. ELS Tíðinda, birt alþjóðleg skráning nr. 749467, PRIVILEGE. 9) Ljósrit úr 8. tbl. ELS Tíðinda, birt alþjóðleg skráning nr. 768443, FISH FOR LIFE. Íslensk þýðing fylgir ekki framangreindum skjölum.
II
Frávísunarkrafa stefnda er byggð á eftirfarandi málsástæðum, öllum saman og sjálfstætt hverri um sig:
Sá kröfuháttur stefnanda fái ekki staðist að krefjast þess samhliða að hrundið sé ákvörðun annars vegar lægra setts og hins vegar æðra setts stjórnvalds í sama máli. Engir lögvarðir hagsmunir geti verið tengdir því að fá ákvörðun stefnda, dags. 3. júní 2002, fellda úr gildi enda hafi sú ákvörðun ekki sjálfstætt gildi eftir að áfrýjunarnefndin, hið æðra stjórnvald, felldi úrskurð sinn í málinu. Um þetta er vísað til meginreglna einkamálaréttarfars um nauðsyn lögvarinna hagsmuna af sakarefni og til 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Ekki fái staðist hjá stefnanda að gera þá kröfu fyrir dómi að hin alþjóðlega vörumerkjaskráning hans skuli metin skráningarhæf og veitt gildi, skráning og birting hér á landi. Stefnda sé með lögum, sbr. fjölmörg ákvæði í lögum nr. 45/1997, falið það verkefni að ákveða hvort vörumerki fáist skráð hér á landi. Þetta sé því skilið undan valdsviði dómsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Líta verði til þess að krafa stefnanda myndi eina heild þótt margþætt sé.
Stefnandi leggi við þingfestingu fram skjöl, og byggi á efni þeirra, sem séu á erlendum tungumálum án þess að þeim fylgi íslensk þýðing en það sé í andstöðu við ákvæði 10. gr. laga nr. 91/1991, það horfi stefnda til réttarspjalla og telji hann sig ekki þurfa að sæta því.
III
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að þingmálið sé íslenska. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um það sem aðalreglu að skjali á erlendu tungumáli skuli fylgja þýðing á íslensku. Sem fyrr greinir er meginhluti þeirra skjala, sem stefnandi leggur fram, á erlendum tungumálum og fylgja þeim ekki þýðingar þeirra á íslensku; þetta tekur m.a. til ákvörðunar stefnda, dags. 3. júní 2002, sem krafa er gerð um að verði hrundið. Vegna meginreglu réttarfars um réttláta málsmeðferð og jafnræði aðila er ekki unnt gegn mótmælum stefnda að miða við að nægilegt sé að á síðara stigi málsmeðferðar verði bætt úr umræddum misbresti.
Þegar með vísun til framangreinds er niðurstaða úrskurðarins sú að fallast beri á kröfu stefnda um frávísun málsins. Eftir þessum úrslitum er ákveðið að stefnandi skuli greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 100.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Unilever N.V., greiði stefnda, Einkaleyfastofunni, 100.000 krónur í málskostnað.