Hæstiréttur íslands

Mál nr. 725/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 22. nóvember 2013.

Nr. 725/2013.

Óskar Þór Sævarsson

(Jónas Haraldsson hdl.)

gegn

Johan Rönning hf.

(Daníel Ísebarn Ágústsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms þar sem kröfu Ó um vangreidd laun í uppsagnarfresti var vísað frá dómi en J hf. að öðru leyti sýknað af kröfum Ó. Í málinu krafði hann J hf., auk vangreiddra launa í uppsagnarfresti, um óuppgert orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót. Héraðsdómur taldi reifun málsins hvað varðaði frádrátt tekna Ó frá þriðja aðila vera svo vanreifaða að dómur yrði ekki lagður á þann þátt kröfu hans er laut að launum í uppsagnarfresti. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að ágreiningslaust væri að J hf. væri heimilt að draga frá launum Ó í uppsagnarfresti þau laun sem hann fékk frá öðrum á sama tímabili. Aðila greindi hins vegar á um hvenær Ó hefði aflað þeirra tekna sem til frádráttar gætu komið og við hvaða tímamark miða ætti rétt J hf. til lækkunar launagreiðslna. Reifun málsins af hálfu Ó hvað þessi atriði varðaði væri á reiki og ekki í samræmi við gögn málsins. Fullnægði hún því ekki áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa þessum þætti kröfugerðar Ó frá dómi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013 þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um vangreidd laun í uppsagnarfresti var vísað frá dómi, en með dóminum var varnaraðili sýknaður af öðrum þáttum í kröfu sóknaraðila í málinu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um frávísun verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi var krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila tvíþætt. Hann krafði varnaraðila í fyrsta lagi um vangreidd laun í uppsagnarfresti vegna mánaðanna janúar, febrúar og mars 2012, samtals 1.720.125 krónur, og í öðru lagi um 567.983 krónur í orlofsfé, orlofsuppbót og desemberuppbót. Frá þessu dró sóknaraðili greiðslu frá varnaraðila 1. febrúar 2012 á 966.594 krónum og nam þannig stefnukrafan 1.321.514 krónum. Í héraðsdómi var varnaraðili sýknaður af kröfu sóknaraðila um greiðslu orlofsfjár, orlofsuppbótar og desemberuppbótar þar sem greiðslan 1. febrúar 2012 væri að teknu tilliti til dráttarvaxta af kröfunni hærri en henni nam. Þá vísaði héraðsdómur af sjálfsdáðum frá dómi kröfu sóknaraðila um vangreidd laun í uppsagnarfresti vegna vanreifunar og er sá þáttur héraðsdóms til endurskoðunar hér fyrir dómi.

Varnaraðili sagði sóknaraðila upp störfum 29. desember 2011 og tók uppsögnin gildi 31. sama mánaðar. Samkvæmt ráðningarsamningi málsaðila 23. apríl 2010 var gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir og mun varnaraðili ekki hafa óskað eftir vinnuframlagi sóknaraðila á uppsagnarfrestinum. Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili störf sem verktaki hjá fasteignasölu síðla í janúar 2012 og naut þar tekna sem slíkur. Framkvæmdastjóri fasteignasölunnar bar fyrir dómi að árangurstengd þóknun sóknaraðila hafi verið fyrir sölur sem áttu sér stað í febrúar og mars 2012 en sóknaraðili heldur því fram að sölurnar hafi átt sér stað í mars og apríl og hann gert fyrir þeim reikning í júlí sama ár. Ágreiningslaust er að varnaraðila sé heimilt að draga frá launum sóknaraðila í uppsagnarfresti þau laun sem hann fékk frá öðrum á sama tímabili. Hins vegar greinir málsaðila á um hvenær sóknaraðili aflaði þeirra tekna sem til frádráttar geti komið og hvort miða beri rétt varnaraðila til lækkunar launagreiðslna við það tímamark þegar til teknanna stofnaðist eða þegar sóknaraðili framvísaði reikningum vegna þeirra og fékk þá greidda. Reifun málsins af hálfu sóknaraðila hvað þessi atriði varðar er á reiki og ekki í samræmi við gögn málsins en af þeim sökum fullnægir hún ekki áskilnaði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður samkvæmt þessu staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa þessum þætti kröfugerðar sóknaraðila frá dómi.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Staðfest er hið kærða ákvæði héraðsdóms um vísa frá dómi kröfu sóknaraðila, Óskars Þórs Sævarssonar, á hendur varnaraðila, Johan Rönning hf., um vangreidd laun í uppsagnarfresti.

Sóknaraðili greiða varnaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 24. október 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. september 2012 af Óskari Þór Sævarssyni, Úlfarsbraut 32, Reykjavík á hendur Johan Rönning hf., Klettagörðum 25, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.321.514 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til þess, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Að auki krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Atvik máls

Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda með ráðningarsamningi dagsettum 23. apríl 2010. Starfssvið hans var samkvæmt ráðningarsamningnum skilgreint sem söluráðgjöf hjá Sindra Viðarhöfða sem er rekstrareining í eigu stefnda. Samkvæmt ráðningarsamningnum var gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Með bréfi, dagsettu 29. desember 2011, var stefnda sagt upp störfum hjá stefnda með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti frá og með 31. desember 2011. Ástæður uppsagnarinnar voru tilgreindar sem trúnaðarbrestur. Var stefnanda jafnfram tilkynnt að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfrestinum. Hinn 1. febrúar 2012 greiddi stefndi stefnanda laun fyrir janúarmánuð. Stefndi hefur hins vegar ekki ekki greitt honum laun fyrir febrúar eða mars. Með tölvubréfi, 5. mars 2012, krafði stéttarfélag stefnanda, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, stefnda um meint vangreidd laun í uppsagnarfresti auk óuppgerðs orlofs og desemberuppbótar. Á tímabilinu 5. mars til 18. maí 2012 gengu allmörg tölvubréf milli stéttarfélags stefnanda og stefnda um rétt stefnanda til launa í framangreindum uppsagnarfesti, án þess að samkomulag næðist. Var því haldið fram af stefnda í tölvubréfi 5. mars að fyrir lægi að stefnandi væri þegar kominn með vinnu hjá RE/MAX Senter og ætti því ekki rétt til frekari launagreiðslna í uppsagnarfrestinum. Sú skoðun stefnda var ítrekuð í tölvubréfi 16. maí auk þess sem vísað var til þess að þær ástæður sem að baki uppsögn stefnanda hafi legið hafi leitt til þess að réttur hans til launa í uppsagnarfresti hefði fallið niður. Með bréfi, 23. maí 2012, krafði lögmaður stefnanda stefnda um greiðslu meintra vangreiddra launa í uppsagnarfesti. Í bréfinu er því hafnað að réttur stefnanda til launa hafi falli niður vegna þeirra ástæðna sem stefndi telji að legið hafi til grundvallar uppsögn hans enda hafi honum verið sagt upp störfum en ekki vikið úr starfi. Þá hafi stefnandi ekki haft neinar tekjur hjá öðrum í uppsagnarfrestinum. Með bréfi, 2. nóvember 2012, kærði stefndi stefnanda til embættis sérstaks saksóknara fyrir meint brot á 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fyrir að misnota aðstöðu sína sem sölumaður hjá stefnda með því að veita afslætti af vörum hjá fyrirtækinu gegn því að fá sjálfur sérstakan afslátt við kaup á fasteign. Fyrir liggur að embætti sérstaks saksóknara hefur ekki talið tilefni til rannsóknar á kæruefninu. Í máli þessu greinir aðila á um rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti. Af hálfu stefnda er því haldið fram að réttur stefnanda til launa sé niður fallinn vegna launa sem hann hafi þegið í uppsagnarfrestinum frá þriðja aðila auk þess sem réttur til frekari launa hafi fallið niður vegna þeirra ástæðna sem að baki uppsögn stefnanda hafi legið.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda um eftirstöðvar launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti á eftirfarandi. Stefndi hafi sagt stefnanda upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara, en ekki vikið honum úr starfi. Þá hafi stefndi leyst stefnanda undan starfsskyldum á uppsagnarfrestinum. Ekki hafi verið áskilið af hálfu stefnda, að stefnandi mætti ekki hefja störf annars staðar á uppsagnarfrestinum. Hafi stefnandi gert það. Það eitt og sér stöðvi ekki greiðsluskyldu stefnda, heldur heimili stefnda að draga frá launagreiðslum í uppsagnarfresti þær tekjur, sem stefnandi kunni að hafa aflað sér á sama tíma hjá öðrum atvinnurekanda. Stefnandi hafi hins vegar engar slíkar tekjur haft, eins og fram komi á fyrirliggjandi upplýsingum úr staðgreiðsluskrá. Beri því stefnanda samkvæmt framansögðu að greiða stefnanda eftirstöðvar launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Stefndi hafi greitt stefnanda laun vegna janúar 2012 og hafi því í raun viðurkennt greiðsluskyldu sína. Dugi honum ekki að ákvarða upp á eigin spýtur hversu mikið eða hve lengi stefnandi skuli eiga rétt á launum í uppsagnarfresti.

Í fyrirliggjandi bréfi stéttarfélags stefnanda komi fram eftirfarandi sundurliðun á kröfu stefnanda um vangreidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti:

Laun fyrir janúarmánuð 2012

kr.     573.375,-

Laun fyrir febrúarmánuð 2012

kr.     573.375,-

Laun fyrir marsmánuð 2012

kr.     573.375,-

Óuppgert orlof – 22 dagar af 24            

kr.     525.594,-

Orlofsuppbót                                             

kr.       27.800,-

Desemberuppbót – 13 vikur af 45

kr.       14.589,-

                                Samtals

kr.  2.288.108,-

Stefndi greiddi 1. febrúar 2012

kr.     966.594,-

                               Eftirstöðvar

kr.  1.321.514,- 

Stefnandi byggi kröfur sínar einkum á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launþega, lögum nr. 30/1987 um orlof, lögum nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Um dráttarvexti vísist til III. kafla  vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988.

                Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi á þeim grundvelli að krafa stefnanda byggi á óskrifuðu réttarsambandi milli aðila, en stefnandi geti ekki átt slíka kröfu, þar sem til staðar sé skriflegur ráðningarsamningur. Í öðru lagi á þeim grundvelli að stefnandi hafi gerst sekur um svo alvarlegan trúnaðarbrest í starfi sínu gagnvart stefnanda að hann hafi fyrirgert rétti sínum til launa á uppsagnarfresti. Í þriðja lagi að með því að hefja störf hjá öðrum vinnuveitanda hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til frekari launa í uppsagnarfresti en til vara að greiðslur frá nýjum vinnuveitanda eða reiknað endurgjald stefnanda komi þar til frádráttar kröfu stefnanda. Framangreindar málsástæður styðjist við eftirfarandi rök. Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum haldið því fram að ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur milli sín og stefnda. Þá krefji stefnandi stefnda um laun í uppsagnarfresti á grundvelli kjarasamnings VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna við Samtök atvinnulífsins. Ljóst sé hins vegar að grundvöllur kröfunnar sé rangur og af þeim sökum krefjist stefndi sýknu af aðalkröfu stefnanda. Stefnandi byggi kröfu sína á óskrifuðu réttarsambandi milli aðila, þrátt fyrir að fyrir hendi sé skriflegur ráðningarsamningur. Ráðningarsamningurinn grundvalli lögskipti aðilanna og af þeim sökum beri stefnanda að grundvalla kröfu sína á viðkomandi ráðningarsamningi. Slíkt hafi hins vegar farist fyrir og sé því réttargrundvöllur kröfunnar rangur. Jafnframt fari umræddur ráðningarsamningur eftir ákvæðum kjarasamnings VR við FÍS, Félags íslenskra stórkaupmanna, sbr. 7. gr. ráðningarsamningsins. Stefnandi geti því ekki átt  kröfu á þeim grundvelli sem lagt sé upp með í stefnu. Á því sé byggt að réttur til launa í uppsagnarfresti falli niður, þegar starfsmaður sýni af sér vítaverða vanrækslu gagnvart vinnuveitanda sínum eða brjóti gegn vinnuveitanda sínum með ámælisverðum hætti. Stefnandi hafi brotið gegn almennum hegningarlögum með því, eins og fram komi í fyrirliggjandi gögnum, að gefa viðskiptavini stefnda ríflega afslætti gegn persónulegum ávinningi sínum, sem falist hafi í greiðslu kaupverðs í fasteign. Ljóst sé að afslátturinn, sem stefnandi hafi veitt, hafi farið langt fram úr því umboði sem hann hafi haft. Með þessu hafi stefnandi ætlað að lækka kaupverðið á fasteigninni. Háttsemin hafi farið í bága við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt ákvæðinu sé refsing lögð við umboðssvikum en þar komi fram að ef maður, sem fengið hafi aðstöðu til þess að gera eitthvað misnoti aðstöðu sína, varði það fangelsi allt að tveimur árum. Stefndi hafi nú þegar kært málið til embættis sérstaks saksóknara. Einnig liggi fyrir að stefnandi hafi valdið stefnda umtalsverðu tjóni með gjörðum sínum. Þar sem ljóst sé að stefnandi hafi brotið gróflega á skyldum sínum gagnvart stefnda, í formi umboðssvika, hafi réttur hans til launa í uppsagnarfresti fallið niður. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda. Jafnvel þótt ekki verði fallist á kröfu stefnda um sýknu, á þeim grundvelli að réttur til launa í uppsagnarfresti sé niður fallinn vegna refsiverðra brota í starfi, verði að leggja til grundvallar að þegar stefnandi hafi hafið störf á nýjum vinnustað, hafi  réttur hans til launa í uppsagnarfresti fallið niður. Launum í uppsagnarfresti sé í eðli sínu ætlað að brúa bilið meðan launþegar leiti sér að nýjum vinnustað eftir starfslok á öðrum vinnustað. Samkvæmt meginreglum vinnuréttar og dómaframkvæmd Hæstaréttar sé ekki þörf á því að kveða á um það í uppsagnarsamningi að réttur til launa í uppsagnarfresti falli niður, hefji launþegar störf annars staðar. Hafi verið staðfest að þegar launþegi hefji störf á nýjum vinnustað, falli réttur hans til launa í uppsagnarfresti niður. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda en til vara sé á því byggt að slík krafa eigi að koma til frádráttar launakröfu stefnanda en engan slíkan frádrátt sé að finna í málatilbúnaði hans. Óumdeilt sé að stefnandi hafi hafið störf hjá fasteignasölunni RE/MAX, 21. janúar 2012. Stefnandi hafi þó haldið því fram að réttur hans til launa í uppsagnarfresti hafi ekki fallið niður í ljósi þess að hann hafi ekki fengið nein laun og vísi í því samhengi til fyrirliggjandi staðgreiðsluskrár. Sá málatilbúnaður stefnanda standist ekki enda hafi hann sannanlega verið við störf hjá fasteignasölunni og hefði því í það minnsta átt að fá laun eða reikna sér endurgjald, sem kæmi til frádráttar kröfum hans gagnvart stefnda. Þrátt fyrir að tekið væri trúanlegt að stefnandi hafi engin laun þegið, liggi fyrir að hann hafi starfað fyrir fasteignasöluna en slík störf feli í sér að greiðslur berist ekki með reglulegum hætti. Þannig geti stefnandi hafa aflað sér tekna á umræddu tímabili án þess að fá fyrir það greitt sem nemi framlagi hans. Ljóst sé því að stefnanda hafi borið að draga þau laun, sem hann hafi unnið sér inn hjá umræddri fasteignasölu, frá kröfu sinni á hendur stefnda. Ljóst sé hins vegar að stefnandi hafi ekki fullnægt þeirri skyldu sinni og beri af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda eða til vara að lækka kröfuna. Stefndi vísi hvað lagarök varði til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og meginreglna vinnu- og kröfuréttar. Þá byggi stefndi einnig á dómafordæmum um sakarefnið sem og viðeigandi ákvæðum kjarasamninga. Málskostnaðarkrafa stefnda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga, nr. 91/1991. Þá byggi stefndi á kjarasamningi VR við FÍS, Félags íslenskra stórkaupmanna (nú Félag atvinnurekenda).

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi starfaði á vegum stefnda frá apríl 2010 til 29. desember 2012, þegar honum var sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfi stefnda, 29. desember 2012, er uppsögnin sögð „vegna trúnaðarbrests“. Óumdeilt er að ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda meðan á uppsagnarfrestinum stóð. Fyrir liggur að stefndi greiddi stefnanda laun, 1. febrúar 2012, fyrir janúarmánuð en hafnaði frekari  launagreiðslum til stefnanda í uppsagnarfrestinum. Í málinu krefur stefnandi stefnda, með vísan til framangreinds þriggja mánaða uppsagnarfrests, um meintar eftirstöðvar launa í uppsagnarfresti og ennfremur ógreitt orlof og ógreidda desemberuppbót. 

Eins og áður hefur verið rakið byggir stefndi sýknukröfu sína á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi sé krafa stefnanda grundvölluð á óskrifuðu réttarsambandi  aðila en stefnandi geti ekki átt slíka kröfu þar sem til staðar sé skriflegur ráðningarsamningur. Ráðningarsamningurinn grundvalli lögskipti aðilanna og af þeim sökum beri stefnanda að reisa kröfu sína á viðkomandi skriflegum ráðningarsamningi. Slíkt hafi hins vegar farist fyrir og sé því réttargrundvöllur kröfunnar rangur. Jafnframt fari  ráðningarsamningur aðila eftir ákvæðum kjarasamnings VR við FÍS, Félags íslenskra stórkaupmanna, sbr. 7. gr. ráðningarsamningsins en ekki kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, eins og stefnandi byggi á. Stefnandi geti því ekki átt kröfu á þeim grundvelli, sem lagt sé upp með í stefnu.

Stefnandi andmælir framangreindri málsástæðu stefnda með þeim rökum að efni ráðningarsamnings þeirra sé óumdeilt og kröfugerð stefnanda í málinu ekki byggð á ákvæðum kjarasamnings.

Ágreiningur aðila snýst ekki um í hvaða formi ráðningarsamningur þeirra hafi verið. Skriflegur ráðningarsamningur aðila liggur fyrir í málinu og er ekki ágreiningur um efni hans. Kröfugerð stefnanda er ekki reist á kjarasamningi. Er því framangreindri málsástæðu, til stuðnings sýknukröfu stefnda, hafnað. 

Stefndi byggir í öðru lagi á því að stefnandi hafi gerst sekur um svo alvarlegan trúnaðarbrest í starfi sínu hjá stefnda að hann hafi fyrirgert rétti sínum til launa á uppsagnarfresti. Stefnandi hafi brotið gegn almennum hegningarlögum með því, eins og fram komi í fyrirliggjandi gögnum, að gefa viðskiptavini stefnda ríflega afslætti gegn persónulegum ávinningi sínum af afslætti í fasteignakaupum. Ljóst sé að afslátturinn, sem stefnandi hafi veitt, hafi farið langt fram úr því umboði sem hann hafi haft. Hafi háttsemi stefnanda brotið í bága við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt ákvæðinu sé refsing lögð við umboðssvikum en þar komi fram að ef maður, sem fengið hafi aðstöðu til þess að gera eitthvað, misnoti aðstöðu sína, varði það fangelsi allt að tveimur árum. Stefndi hafi nú þegar kært háttsemi stefnanda til embættis sérstaks saksóknara. Þá liggi einnig fyrir að stefnandi hafi valdið stefnda umtalsverðu tjóni með háttsemi sinni. Þar sem ljóst sé að stefnandi hafi brotið gróflega gegn skyldum sínum gagnvart stefnda, í formi umboðssvika, hafi réttur hans til launa í uppsagnarfresti fallið niður. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda. 

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnanda hafi ekki verið vikið úr starfi heldur sagt upp störfum. Með öllu sé ósannað að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu hjá stefnda en hvað sem því líði eigi hann rétt til fullra launa í umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda með þriggja mánaða uppsagnarfresti en ekki vikið úr starfi vegna þeirrar meintu refsiverðu háttsemi, sem stefndi ber honum á brýn. Fyrir liggur að stefndi kærði stefnanda, 2. nóvember 2012, til embættis sérstaks saksóknara, vegna meintra brota gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnda að af hálfu embættis sérstaks saksóknara hefði ekki verið talin ástæða til aðgerða af þessu tilefni og hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun bréflega. Fyrir liggur að stefndi sagði stefnanda skriflega upp störfum, 29. desember 2011. Í uppsagnarbréfinu er að sönnu tilgreint að stefnanda sé sagt upp störfum „vegna trúnaðarbrests“. Engin sönnun liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi brotið svo af sér í starfi sínu hjá stefnda að réttlætt hafi niðurfellingu laungreiðslna til hans 1. mars og 1. apríl 2012, vegna launa í febrúar og mars. Verður framangreindri málsástæðu stefnda því hafnað.

Stefndi byggir í þriðja lagi á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launa í uppsagnarfresti, með því að hefja störf hjá öðrum vinnuveitanda, en til vara eigi laun frá öðrum launagreiðanda eða reiknað endurgjald vegna starfa stefnanda í þágu annars vinuveitanda, á uppsagnarfrestinum, að koma til frádráttar kröfum stefnanda í máli þessu. Jafnvel þótt ekki verði fallist á kröfu stefnda um sýknu á þeim grundvelli að réttur til launa í uppsagnarfresti sé niður fallinn vegna refsiverðra brota í starfi, verði að leggja til grundvallar að þegar stefnandi hafi hafið störf á nýjum vinnustað, hafi réttur hans til launa í uppsagnarfresti fallið niður. Launum í uppsagnarfresti sé í eðli sínu ætlað að brúa bilið, meðan launþegar, í framhaldi uppsagnar, leiti sér að nýrri vinnu. Samkvæmt meginreglum vinnuréttar og dómaframkvæmd Hæstaréttar sé ekki þörf á því að kveða á um það í uppsagnarsamningi að réttur til launa í uppsagnarfresti falli niður hefji launþegi störf annars staðar. Staðfest hafi verið að þegar launþegi hefji störf á nýjum vinnustað, falli réttur hans til launa í uppsagnarfresti niður. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda en til vara sé á því byggt að laun stefnanda hjá þriðja aðila á uppsagnarfrestinum eigi að koma til frádráttar launakröfu stefnanda á hendur stefnda en engan slíkan frádrátt sé að finna í málatilbúnaði stefnanda. Óumdeilt sé að stefnandi hafi hafið störf hjá fasteignasölunni RE/MAX Senter, 21. janúar 2012. Stefnandi hafi þó haldið því fram að réttur hans til launa í uppsagnarfresti hafi ekki fallið niður í ljósi þess að hann hafi ekki fengið nein laun og vísi í því samhengi til fyrirliggjandi staðgreiðsluskrár. Sá málatilbúnaður stefnanda standist ekki enda hafi hann sannanlega, á uppsagnarfrestinum, starfað hjá fasteignasölunni RE/MAX Senter og hafi því átt að reikna sér endurgjald fyrir þau störf og það átt að koma til frádráttar kröfum hans á hendur stefnda.

Af hálfu stefnanda er á það fallist að stefnda hefði verið heimilt að draga frá launagreiðslum til stefnanda, í uppsagnafrestinum, þau laun sem hann hefði fengið frá öðrum. Hins vegar hafi stefnandi ekki fengið greidd laun frá öðrum meðan á  uppsagnarfrestinum stóð. Hann hafi starfað sem sjálfstæður verktaki hjá RE/MAX Senter, hluta uppsagnarfrestsins, en ekki fengið greidda þóknun vegna þeirra starfa fyrr en í júní og júlí 2012, vegna sölu sem átt hafi sér stað á uppsagnarfrestinum.

                Það er almenn regla á sviði vinnuréttar að hafi starfsmaður verið leystur undan vinnuskyldu í uppsagnarfresti, sé honum heimilt, meðan á uppsagnarfrestinum stendur, að hefja störf hjá öðrum vinnuveitanda, nema um annað sé sérstaklega samið. Þá er það ennfremur almenn regla á sviði vinnuréttar að vinnulaun sem starfsmaður aflar í uppsagnarfesti, hjá öðrum vinnuveitanda, eigi að koma til lækkunar á umsöndum launum í uppsagnarfrestinum, nema um annað sé samið, sbr. dóm Hæstaréttar á máli nr. 144/1996, í dómabindi réttarins 1997, bls. 580, og dóm Hæstaréttar í máli nr. 159/2002 í dómabindi réttarins 2002, bls. 2775. Í skýrslu stefnanda við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hefði, meðan á umræddum uppsagnarfresti stóð, fengið verktakastarf hjá RE/MAX Senter, við sölu á fasteignum. Hafi hann fengið söluþóknun greidda í byrjun júlí, samkvæmt reikningum sem hann hafi sent RE/MAX Senter í lok júní, vegna sölu í mars og apríl. Ástæðan fyrir því hversu seint reikningurinn hafi verið sendur hafi verið að bókhaldskerfið hjá sér hafi legið niðri. Aðspurður sagði hann sér ekki hafa verið ljóst að laun hjá öðrum atvinnurekanda í uppsagnarfrestinum ættu að koma til frádráttar greiðslum frá stefnda, fyrr en honum hafi verið tjáð það af lögfræðingi sínum. Aðspurður kvaðst hann hafa skrifað tvo reikninga á Remax. Hafi annar reikningurinn verið upp á 200.000 krónur með virðisaukaskatti en hinn upp á 50.000 krónur auk virðisaukaskatts. Tekjurnar hafi myndast í mars og apríl, þóknun skv. hærri reikningnum í mars en þeim lægri í byrjun apríl. Ástþór Reynir Guðmundsson, framkvæmdastóri RE/MAX Senter gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvað hann stefnanda hafa byrjað að starfa hjá RE/MAX Senter, sem verktaki, 20. janúar 2012. Verktakar hjá RE/MAX Senter hafi fengið árangurstengdar þóknanir fyrir sölur. Stefnandi væri með eina fasteign skráða sem selda og hlutdeild í annarri sölu. Sölurnar hefði átt sér stað í febrúar og mars 2012 en hann myndi ekki nákvæma dagsetningar. Stefnandi hefði framvísað tveimur reikningum í nafni Kæliafls ehf., vegna þessara viðskipta. Söluþóknunin hafi, eins og venja væri, verið greidd strax og reikningunum hefði verið framvísað.

Með hliðsjón af framangreindum framburði stefnanda og framkvæmdastjóra RE/MAX Senter liggur fyrir að stefnandi aflaði tekna frá þriðja aðila, á meðan á umræddum uppsagnarfresti stóð. Þær tekjur bar honum, eins og áður hefur verið rakið, að draga frá kröfum sínum á hendur stefnda. Það hefur hann ekki gert. Þá hefur hann ekki upplýst nægilega hvenær umræddar sölur áttu sér stað. Hefur hann nefnt mars og apríl í þessu sambandi en  framkvæmdastjóri RE/MAX Senter, febrúar og mars. Sú málsástæða stefnanda kom fram við aðalmeðferð málsins að miða bæri rétt stefnda til lækkunar við það hvenær umrædd þóknun hefði verið greidd en ekki hvenær réttur til hennar hefði stofnast. Stefndi mótmælti þessari málsástæðu við aðalmeðferðina með þeim rökum að miða bæri við hvenær réttur til þóknunar úr hendi RE/MAX Senter hefði stofnast en ekki hvenær stefnandi hefði ákveðið að gefa út reikning á RE/MAX Senter fyrir söluþóknuninni. Fallist er á það með stefnda að miða beri, í þessu efni, við það tímamark þegar krafa til þóknunar stofnist en eins og áður er rakið bar framkvæmdastjóri RE/MAX Senter fyrir dómi að söluþóknun væri greidd verktökum strax og sala væri frágengin og reikningi vegna hennar væri framvísað. Reifun málsins af hálfu stefnanda er, hvað framangreindan frádrátt frá stefnukröfum varðar, svo vanreifuð að dómur verður ekki lagður á kröfu hans um vangreidd laun í uppsagnarfresti. Verður að því virtu að vísa þeim þætti kröfugerðar hans frá dómi, án kröfu. Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfur stefnanda vegna óuppgerðs orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Þessi hluti kröfugerðar stefnanda er að höfuðstól samtals 567.983 krónur. Eins og áður er rakið greiddi stefnanda stefnda hinn 1. febrúar 2012, 966.594 krónur. Er sú greiðsla hærri en framangreind krafa stefnanda, að teknu  tilliti til dráttarvaxta af henni frá 5. apríl 2012. Samkvæmt framangreindu verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda um greiðslu orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Með vísan til þeirrar niðurstöðu og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefna málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 550.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Kröfu stefnanda, Óskars Þórs Sævarssonar, um vangreidd laun í uppsagnarfresti er vísað frá dómi, án kröfu. Stefndi, Johan Rönning hf., skal vera sýkn af öðrum kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 550.000 krónur í málskostnað.