Hæstiréttur íslands

Mál nr. 475/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Útivist í héraði
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Föstudaginn 17. ágúst 2012.

Nr. 475/2012.

Kristjón Benediktsson

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist í héraði. Frávísun máls frá Hæstarétti.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. K sótti ekki þing í héraði þegar krafa um gjaldþrotaskipti var þar til meðferðar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að allt frá dómi Hæstaréttar 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra bæri kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig yrði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefði orðið af hálfu skuldara í héraði, heldur yrði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst Héraðsdómi Reykjaness 27. júní 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2012 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar, en til vara að hafnað verði kröfu varnaraðila um að bú hans skuli tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar mál þetta var tekið fyrir á dómþingi 13. júní 2012. Í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar og hinn kærði úrskurður kveðinn upp. Allt frá dómi Hæstaréttar 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992, sem birtur er í dómasafni þess árs, bls. 2028, hefur ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Af þeim sökum brestur heimild til kæru í máli þessu og verður því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 13. júní 2012.

Málið var  þingfest 23. júní 2011 og tekið til úrskurðar í dag 13. júní 2012.

Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, krefst þess í málinu að bú Kristjóns Benediktssonar, kt. 230256-7649, áður með lögheimili að Blikanesi 22, Garðabæ, en nú á Spáni, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfu á hendur skuldara sem að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði nemi 241.227.237 krónum. Gögn í málinu sýna að árangurslaust fjárnám var gert hjá skuldara þann 24. febrúar 2011. Skiptabeiðni var móttekin af héraðsdómi 6. maí 2011.

Fyrirkall, ásamt skiptakröfu, var löglega birt skuldara. Þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á gjaldþrotaþingi þann 23. júní 2011 var sótt þing af hálfu skuldara. Samkomulag var gert með aðilum um að fresta meðferð málsins, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi 29. september 2011 sótti skuldari sjálfur þing og mótmælti kröfunni. Mótmælunum var vísað á bug sem of seint fram komnum og var málið tekið til úrskurðar. Kveðinn var upp úrskurður í málinu 6. október 2011 þar sem bú skuldara var tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu skuldara var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar Íslands á þeim grundvelli að aðstoðarmaður dómara hefði tekið málið fyrir og stýrt áðurgreindu þinghaldi 29. september 2011 og synjað sér um framlagningu greinargerðar. Með dómi, uppkveðnum 9. nóvember 2011, ómerkti Hæstiréttur úrskurðinn á þeim grundvelli að sú ákvörðun að synja málsaðila um að leggja fram gögn í dómsmáli sé dómsathöfn og að aðstoðarmann dómara hafi brostið vald til að synja sóknaraðila um að leggja fram greinargerð af sinni hálfu í þinghaldinu 29. september 2011. Var málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Boðað var til þinghalds í málinu 1. og 12. desember 2011, sem frestað var utan réttar með samþykki lögmanns skiptabeiðanda vegna forfalla skuldara. Þá var boðað til þinghalds í málinu 31. janúar sl. en þá hafði ekki tekist að birta fyrir skuldara. Skuldari hafði samband við dómara símleiðis þann 31. janúar 2012 og tilkynnti að hann væri að fara til Spánar daginn eftir og kæmi ekki til Íslands fyrr en í vor. Fyrirkall var síðan birt á föstum dvalarstað skuldara þann 5. júní sl.

Málið var tekið fyrir í dag og sótti skuldari ekki þing. Skuldari hafði tilkynnt að hann væri staddur erlendis vegna vinnu og gæti því ekki mætt. Með hliðsjón að því að boðun til þinghaldsins hafi verið birt á föstum dvalarstað skuldara fyrir rúmri viku eða 5. júní sl. telur dómari að skuldari hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögmæt forföll í málinu með því einu að tilkynna að hann sé staddur erlendis sama dag og taka á málið fyrir. Af hálfu skiptabeiðanda var skiptakrafan ítrekuð og málið lagt í úrskurð.

Telst fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er því bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Ragnheiði Bragadóttur, héraðsdómara.   

ÚRSKURÐARORÐ:

Bú Kristjóns Benediktssonar, kt. 230256-7649 er  tekið til gjaldþrotaskipta.