Hæstiréttur íslands
Mál nr. 309/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Hlutafélag
- Fyrirsvar
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 31. ágúst 2005. |
|
Nr. 309/2005. |
Hótel Valhöll ehf. (Agnar Gústafsson hrl.) gegn Jóni Ó. Ragnarssyni Hrafnhildi Valdimarsdóttur og Lykilhótelum hf. (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Hlutafélög. Fyrirsvar. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Í málinu krafðist H skaðabóta úr hendi J, HV og L, en R, Þ og HH, hluthafar í H fóru með fyrirsvar félagsins í málinu á grundvelli heimildar í 2. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Var skaðabótakrafan sögð vegna útgáfu fimm veðskuldabréfa með veði í fasteign H sem J og H hefðu undirritað, sem stjórnendur H, til hagsbóta fyrir L. Var byggt á því að um hefði verið að ræða refsiverða háttsemi af hálfu þeirra J og HV. Heimild R, Þ og HH til fyrirsvars fyrir H var talin byggjast á tillögu sem borin var upp á hluthafafundi um að krefja J og HV um skaðabætur vegna tjóns sem þau hefðu valdið félaginu og var þar felld með tilgreindum atkvæðafjölda. Í framangreindri tillögu var ekki getið málsóknar á hendur L og gátu R, Þ og HH því ekki farið með fyrirsvar í máli á hendur því félagi og var kröfu H á hendur L vísað frá dómi þegar af þeirri ástæðu. Varðandi kröfur H á hendur J og HV var talið að í gögnum málsins kæmi fram með nægilega skýrum hætti hvernig fjárhæð stefnukröfu H hafi verið fundin og þó að krafan væri ekki sundurliðuð með þeim hætti að rekja mætti hvernig fyrrnefndri fjárhæð hafi verið ráðstafað til greiðslu hvers og eins þeirra fimm veðskuldabréfa sem H teldi J og HV hafa gefið út honum til tjóns, yrði að telja, með hliðsjón meðal annars af því hvernig háttað væri fyrirsvari H í málinu, að þessi ágalli geti ekki einn og sér leitt til frávísunar málsins á þessu stigi. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi varðandi kröfur H á hendur J og HV og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar, en til vara að hann verði staðfestur að því er varðar varnaraðilann Lykilhótel hf. Þeir krefjast og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fara Rakel Ragnarsdóttir, Þór Ragnarsson og Hilmir Hinriksson, sem eru hluthafar í sóknaraðila með fyrirsvar félagsins í málinu á grundvelli heimildar í 2. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í því lagaákvæði kemur fram að hafi hluthafafundur fellt tillögu um að beita nánar tilgreinda stjórnendur, sbr. 108. gr. laganna, fébótaábyrgð geti hluthafar, sem ráða yfir minnst 1/5 heildarhlutafjár félagsins gert skaðabótakröfu vegna félagsins og í nafni þess, en tekið er fram að kostnaður af slíku máli sé félaginu óviðkomandi. Héraðsdómur kemst réttilega að þeirri niðurstöðu að þeir þrír einstaklingar sem koma fram í málinu í nafni sóknaraðila fullnægi framangreindum skilyrðum laga til að fara með fyrirsvar hans í máli félagsins á hendur varnaraðilunum Jóni Ó. Ragnarssyni, sem mun vera stjórnarformaður og framkvæmdastjóri sóknaraðila, og Hrafnhildi Valdimarsdóttur, sem mun eiga sæti í stjórn félagsins. Málsóknin er að þessu leyti reist á tillögu sem fram kom á hluthafafundi 6. mars 2003, og var þar felld með 61,112% atkvæða gegn 38,888 % atkvæða. Hins vegar var í þeirri tillögu að engu getið málshöfðunar á hendur varnaraðilanum Lykilhótelum hf. og geta nefndir einstaklingar því ekki talist fara réttilega með fyrirsvar sóknaraðila varðandi kröfu á hendur þeim varnaraðila. Af þeirri ástæðu og með vísan til 108. gr. laganna ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Lykilhótelum hf.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili kröfu sína einkum á því að varnaraðilarnir Jón og Hrafnhildur hafi með saknæmum og ólögmætum hætti staðið að veðsetningu fasteignar sóknaraðila í þágu varnaraðilans Lykilhótela hf., en fyrrnefndir varnaraðilar munu einnig hafa verið stjórnendur þess félags. Hafi þau með þessu valdið sóknaraðila tjóni, sem felist í því að sóknaraðili hafi neyðst til að ráðstafa 181.520.508 krónum af söluverði fasteignar sinnar til að aflétta veðböndum sem til hafi verið stofnað í þágu varnaraðilans Lykilhótela hf. vegna krafna Framkvæmdasjóðs Íslands. Sóknaraðili heldur því fram að framangreind háttsemi hafi verið refsiverð. Meðal gagna málsins eru afrit þeirra fimm veðskuldabréfa sem um ræðir og bera þau með sér að hafa verið undirrituð af varnaraðilunum Jóni og Hrafnhildi fyrir hönd sóknaraðila. Í málinu liggur einnig fyrir bréf fjármálaráðuneytisins 11. janúar 2003 um sundurliðun á ráðstöfun kaupverðs fasteignar félagsins. Því bréfi fylgdu nánar tilgreind gögn og er þar á meðal sögð vera fyrsta blaðsíða bréfs sem nafngreindur hæstaréttarlögmaður hafi ritað ráðuneytinu, en sá lögmaður hafi gætt hagsmuna ríkissjóðs við kaupin. Á þeirri blaðsíðu kemur fram að 181.520.508 krónum af kaupverðinu hafi verið ráðstafað til greiðslu krafna Framkvæmdasjóðs Íslands sem tengjast fasteign varnaraðilans Lykilhótela hf. Að þessu virtu verður talið nægjanlega fram komið hvernig fjárhæð stefnukröfu sóknaraðila er fengin. Krafa sóknaraðila er ekki sundurliðuð með þeim hætti að rekja megi hvernig fyrrnefndri fjárhæð var ráðstafað til greiðslu hvers og eins þeirra fimm veðskuldabréfa sem sóknaraðili telur varnaraðila Jón og Hrafnhildi hafa gefið út honum til tjóns. Hins vegar verður að telja, með hliðsjón af því sem að framan greinir og því hvernig háttað er fyrirsvari sóknaraðila í málinu, að þessi ágalli geti ekki einn og sér leitt til frávísunar málsins á þessu stigi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilunum Jóni Ó. Ragnarssyni og Hrafnhildi Valdimarsdóttur.
Um kærumálskostnað fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að því er varðar frávísun kröfu sóknaraðila, Hótels Valhallar ehf., á hendur varnaraðilanum Lykilhótelum hf.
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilunum Jóni Ó. Ragnarssyni og Hrafnhildi Valdimarsdóttur og lagt fyrir héraðsdómara að taka hana til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður milli sóknaraðila og varnaraðilans Lykilhótela hf.
Varnaraðilarnir Jón Ó. Ragnarsson og Hrafnhildur Valdimarsdóttir greiði sameiginlega hverjum fyrirsvarsmanna sóknaraðila, Rakel Ragnarsdóttur, Þór Ragnarssyni og Hilmi Hinrikssyni, 70.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.
I
Mál þetta var höfðað 8. júlí 2004 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 30. maí 2005.
Stefnandi er Hótel Valhöll ehf., kt. 630169-2489 og í nafni félagsins höfða málið hluthafarnir, Rakel Ragnarsdóttir, kt. 060236-4889, Depluhólum 8, Reykjavík, Þór Ragnarsson, kt. 170443-3819, Víðihlíð 26, Reykjavík og Hilmir Hinriksson, kt. 310332-4379, Kambahrauni 30, Hveragerði. Stefndu eru Jón Ó. Ragnarsson, kt. 290639-2479, Seljugerði 12, Reykjavík, Hrafnhildur Valdimarsdóttir, kt. 221141-4909, Seljugerði 12, Reykjavík og Lykilhótel hf. kt. 590169-6339, Seljugerði 12, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 181.520.508 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. júlí 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og að Rakel Ragnarsdóttir, Þór Ragnarsson og Hilmir Hinriksson verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varakröfur stefndu eru:
1. Að dæmt verði eins og í aðalkröfu að öðru leyti en því að málskostnaður verði dæmdur úr hendi stefnanda, Hótels Valhallar ehf.
2. Að kröfum á hendur stefnda Lykilhótelum hf. verði vísað frá dómi en aðrir stefndu sýknaðir af kröfu stefnanda.
3. Að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
4. Að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Í 2. og 3. varakröfu er krafist málskostnaðar eins og í aðalkröfu en til vara hins sama úr hendi stefnanda Hótels Valhallar ehf.
Með bókun sem stefndu lögðu fram í þinghaldi 6. apríl 2005 var sett fram ný dómkrafa þess efnis að málið verði fellt niður með vísan til a liðar 1. mgr. sbr. 3. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 auk þess sem krafist er málskostnaðar eins og í aðalkröfu en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Eins og að framan er rakið er í þessum þætti málsins eingöngu fjallað um frávísunarkröfu stefndu og í þeim þætti málsins gerir stefnandi þá kröfu að frávísunarkröfu verði hrundið og að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað fyrir þennan þátt málsins en til vara að málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms.
II
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru hluthafar í stefnanda eftirtaldir: stefndi, Jón Ó. Ragnarsson, eigandi 61,111% hlutafjár, Rakel Ragnarsdóttir, eigandi 11,111% hlutafjár, Þór Ragnarsson, eigandi 11,111% hlutafjár, Ruth Ragnarsdóttir, eigandi 11,111% hlutafjár og Hilmir Hinriksson, eigandi 5,556% hlutafjár.
Í stjórn félagsins eru stefndi, Jón Ó. Ragnarsson, sem er formaður og framkvæmdastjóri með prókúruumboð en meðstjórnendur eru stefnda, Hrafnhildur Valdimarsdóttir, eiginkona Jóns, og Ruth Ragnarsdóttir. Í varastjórn eru Hilmir Hinriksson og Þór Ragnarsson. Til að skuldbinda félagið þarf undirskriftir tveggja stjórnarmanna.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi Jón hafi stjórnað félaginu eins og hann væri einkaeigandi þess og án nokkurs samráðs við stjórnarmanninn Ruth eða aðra hluthafa sem séu systkini hans. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafi ekki verið boðað til aðalfundar í félaginu árum saman. Hvorki hafi verið haldnir stjórnarfundir, aðalfundir né hluthafafundir. Þá kemur fram af hálfu stefnanda að á árunum 1989-1998 hafi meiri hluti stjórnar stefnanda, stefndu Jón og Hrafnhildur, heimilað veðsetningu á fasteign félagsins, Hótel Valhöll Þingvöllum til tryggingar eftirtöldum lánum, teknum hjá Framkvæmdasjóði Íslands, vegna kaupa Hafnarbíós hf., eign stefnda Jóns, á Hótel Örk í Hveragerði en Hótel Örk hafi síðar orðið eign Lykilhótela ehf.:
1. Lán samkvæmt veðbréfi 31. maí 1989 USD 1.133.589,11
2. Lán samkvæmt veðbréfi 30. ágúst 1989 USD 166.389,35
3. Lán samkvæmt veðbréfi 12. mars 1990 USD 250.626,56
4. Lán samkvæmt veðbréfi 8. ágúst 1991 USD 422.443,82
5. Lán samkvæmt veðbréfi 24. mars 1998 ÍKR 37.000.000
Ekki hafi formaður boðað aðra stjórnarmenn á fund áður en framangreind veðleyfi hafi verið veitt. Undir veðleyfin hafi aðeins stefndu, Jón og Hrafnhildur, ritað.
Á árinu 2002 hafi uppboð á fasteignum Hótel Valhallar og Hótel Arkar verið yfirvofandi að kröfu Framkvæmdasjóðs og hafi stefndi Jón þá komið að máli við hluthafa 2. apríl 2002 og upplýst um vandann. Hafi hann jafnframt upplýst meðeigendur sína um að íslenska ríkið hefði boðið 200.000.000 krónur í hótelið á Þingvöllum og til að forða uppboði væri eina ráðið að ganga að tilboði ríkisins. Varð samkomulag með hluthöfum um að ganga að tilboðinu.
Þann 3. apríl 2002 undirrituðu hluthafar í stefnanda samkomulag þar sem samþykkt var að selja íslenska ríkinu Hótel Valhöll á 200.000.000 króna. Í því samkomulagi greinir meðal annars að þar sem allt andvirði eignarinnar renni til greiðslu skulda sem séu óviðkomandi Hótel Valhöll, lýsi stefndi Jón því yfir, að hann muni standa meðhluthöfum sínum skil á þeirra hlut í söluverðinu og skuli greiðsla fara fram innan árs. Þá segir að þar sem söluandvirðið hafi runnið til greiðslu á skuldum Hótels Arkar, muni stefndi Jón sjá til þess að innan mánaðar verði gefið út tryggingarbréf til tryggingar efndum samkvæmt þessum samningi, með veði í Hótel Örk á eftir þeim skuldum sem nú séu áhvílandi.
Ekkert varð úr að stefndi Jón stæði við það loforð að gefa út tilgreint tryggingarbréf með veði í Hótel Örk og telur stefnandi að endanlega hafi stefndi Jón svikið það loforð sitt er Lykilhótel hf. seldu Hótel Örk til Nóa ehf. þann 21. febrúar 2004.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi Jón hafi í engu sinnt beiðnum annarra hluthafa um að halda hluthafafund um þá stöðu sem upp hafi verið komin vegna sölu Hótels Valhallar. Hafi þeir því orðið að leita atbeina viðskiptaráðherra til þess að knýja fram hluthafafund.
Hluthafafundur var haldinn 12. ágúst 2002 þar sem meðal annars kom fram áhugi stefnda Jóns á að kaupa af systkinum sínum hlut þeirra í félaginu. Var honum veittur frestur til 15. september 2002 til að gera tilboð en ekkert varð af því.
Þann 30. desember 2002 var að tilhlutan viðskiptaráðuneytisins haldinn hluthafafundur í stefnanda. Á þeim fundi fór stefndi Jón fram á sex mánaða frest til að ráða fram úr þeim vanda sem Lykilhótel hf. stæðu frammi fyrir vegna sölunnar á Hótel Valhöll og upplýsti hann að fram væri komin beiðni um að bú Lykilhótela hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Samþykkt var að fresta fundinum í hálfan mánuð þar til frekari upplýsingar lægju fyrir. Næsti hluthafafundur var svo haldinn 15. janúar 2003 að tilhlutan viðskiptaráðuneytisins þar sem fram kom meðal annars af hálfu stefnda Jóns að verið væri að vinna við að styrkja Lykilhótel hf. með ýmsum ráðum svo félagið gæti gert upp við stefnanda meðal annars með skuldbreytingum og frágangi á veðskuldum á Hótel Örk.
Á aðalfundi stefnanda fyrir árin 1995-2001 sem haldinn var 6. mars 2003 báru hluthafar aðrir en stefndi Jón fram eftirfarandi tillögu: „Aðalfundur í Hótel Valhöll ehf. haldinn 6. mars 2003 samþykkir með tilvísun til 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að félagið höfði bótamál á hendur formanni félagsins, Jóni Ó. Ragnarssyni og meðstjórnanda Hrafnhildi Valdimarsdóttur. Í bótamálinu verði þess krafist að þau verði dæmd til þess að greiða Hótel Valhöll ehf. það tjón sem þau hafa valdið félaginu með veðsetningum á fasteign þess, Hótel Valhöll, Þingvöllum til tryggingar lánum hjá Framkvæmdasjóði Íslands o.fl. sem á sínum tíma voru tekin í sambandi við kaup Hafnarbíós hf. á Hótel Örk (Breiðumörk 1C) Hveragerði en eigandi þeirrar eignar nú er Lykilhótel ehf.
Vegna þessarar veðsetningar var Hótel Valhöll seld ríkissjóði Íslands 3. apríl 2002 til þess að forða uppboði á fasteigninni sem vofði yfir. Megnið af andvirði hússins rann til lúkningar skuldum Lykilhótela ehf.”
Að tillögu þessari stóðu Ruth Ragnarsdóttir, Þór Ragnarsson, Rakel Björg Ragnarsdóttir og Hilmir Hinriksson. Var tillagan felld með 61,112% atkvæða gegn 38.888% atkvæða.
Með bréfi til ríkislögreglustjóra 19. mars 2003 kærðu Ruth Ragnarsdóttir, Rakel Ragnarsdóttir, Þór Ragnarsson og Hilmir Hinriksson stefndu, Jón og Hrafnhildi, fyrir refsivert athæfi sem þau hefðu gerst sek um í starfi sínu sem stjórnarmenn í stefnanda. Ríkislögreglustjóri vísaði málinu frá á þeim forsendum að sakirnar væru fyrndar en með bréfum ríkissaksóknara til ríkislögreglustjóra 16. maí 2003 og 12. febrúar 2004 var lagt fyrir ríkislögreglustjóra að halda áfram rannsókn málsins.
Þann 27. október 2003 var haldinn aðalfundur í stefnanda. Á fundinum kom fram yfirlýsing frá talsmanni minnihluta eigenda þess efnis að minnihlutinn áskildi sér rétt til að höfða mál til slita á félaginu og bótamáls á hendur stefndu, Jóni og Hrafnhildi.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 17. nóvember 2004, var stefndi Jón dæmdur fyrir umboðssvik, með því að hafa, sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Lykilhótela hf., tekið lán í nafni félagsins hjá Framkvæmdasjóði Íslands þann 24. mars 1998 að fjárhæð 37.000.000 króna og misnotað aðstöðu sína sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri stefnanda, þegar hann ásamt öðrum stjórnarmanni, hafi með áritun sinni á skuldabréfið veitt veðheimild til tryggingar láninu í eignarhlut stefnanda í gistiheimilinu Valhöll í Þingvallarhreppi og þar með bundið stefnanda og eigur hans í ábyrgð fyrir láni sem hafi verið ótengt starfsemi stefnanda.
Þann 1. september 2004 var af hálfu Rakelar Ragnarsdóttur, Ruthar Ragnarsdóttur, Þórs Ragnarssonar og Hilmis Hinrikssonar höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda Jóni vegna þess samkomulags sem dómkröfur stefnanda byggja á í þessu máli, mál nr. E-7375/2004. Lögmaður stefnda í því máli, sá sami og tekur til varna í þessu máli, krafðist þess að málið yrði fellt niður. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2005 var sú krafa tekin til greina á þeim forsendum að lögmaður sá sem höfðaði málið í nafni stefnenda hefði ekki haft til þess umboð. Að ósk lögmanna aðila var meðferð þessa máls frestað þar til niðurstaða var fengin í fyrrgreindu dómsmáli.
Með kaupsamningi 31. desember 2004 seldi Lykilhótel hf. stefnanda, hótel við Mývatn ásamt lausafjármunum og öllu sem tilheyrir hótelrekstri sem þar er og með tilheyrandi lóðarréttindum. Umsamið kaupverð var 295.000.000 sem skyldi greiðast með yfirtöku lána og með skuldajöfnun upp í kröfu kaupanda á hendur seljanda vegna ráðstöfunar á söluverði hótels kaupanda, Hótels Valhallar á Þingvöllum. Kemur fram í kaupsamningi að umrædd krafa sé áætluð 189.430.385 krónur og samkvæmt kaupsamningi greiðist upp í hana 173.844.000 krónur. Undir kaupsamning þennan rita fyrir hönd beggja félaganna stefndu, Jón og Hrafnhildur.
Lögmanni stefnanda barst bréf stefnda Jóns áður en gengið var frá framangreindum kaupsamningi þar sem þess var farið á leit að meðeigendum stefnda Jóns í stefnanda yrði kynnt ákvörðun meirihluta stjórnar stefnanda um söluna. Í því bréfi kemur ekkert fram um efni kaupsamningsins. Lögmaður stefnanda svaraði bréfi stefnda Jóns 3. janúar 2005 og kemur þar fram að umbjóðendur hans geti ekki fyrir sitt leyti samþykkt þá ráðstöfun þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar vanti.
Með bréfi stefnda Jóns fyrir hönd stefnanda, Hótels Valhallar ehf., til lögmanns stefnanda 19. janúar 2005, er sérstaklega áréttað að kaupin hafi verið gerð til að forða söluhagnaði frá skattlagningu vegna sölu á Hótel Valhöll og til að bæta stefnanda það tjón sem sumir hluthafa telji sig eða félagið hafa orðið fyrir vegna veðsetninga á Hótel Valhöll í þágu stefnda Lykilhótela hf. og sölu Hótels Valhallar sem síðar hafi fylgt. Þá kemur fram í bréfi þessu að með umræddum kaupsamningi sé krafa stefnanda vegna veðsetninganna að mestu gerð upp og það sem eftir kunni að standa ca. 15.000.000 króna muni verða greiddar af stefnda Lykilhótelum hf. á næstu mánuðum.
Vegna framangreindrar sölu hafa stefndu lagt fram óundirritað afsal og uppgjör þar sem gert er ráð fyrir að upp í kröfu stefnanda á hendur seljanda vegna ráðstöfunar á söluverði Hótels Valhallar greiðist 170.929.036 krónur í stað 173.844.000 króna eins og fram kemur í kaupsamningi.
Á hluthafafundi í stefnanda sem haldinn var 28. febrúar 2005 var meðal annars til umræðu afsal á grundvelli framangreinds kaupsamnings og umrætt uppgjör. Var sá dagskrárliður samþykktur af stefnda Jóni sem fór með 62% atkvæða á móti atkvæðum Rakelar, Þórs og Hilmis sem fóru með 27% atkvæða. Fram kom á fundinum að Ruth væri ekki lengur hluthafi og hefði stefndi Jón keypt hennar hlut. Var ákveðið að enginn færi með hennar atkvæði á fundinum.
III
Stefnandi kveður mál þetta höfðað samkvæmt heimild í 109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Vísað sé til tillögu sem fram hafi verið borin á aðalfundi félagsins 6. mars 2003 svo og bókunar á aðalfundi 27. október 2003 varðandi áskilnað um höfðun bótamáls á hendur stefndu, Jóni og Hrafnhildi.
Mál þetta sé sprottið út af veðsetningum þeim sem stefndu, Jón og Hrafnhildur, hafi heimilað í fasteigninni Hótel Valhöll á Þingvöllum, til tryggingar lánum sem Hafnarbíó hf. hafði tekið í sambandi við kaup á fasteigninni Breiðumörk 1C, Hótel Örk í Hveragerði. Samkvæmt hlutafélagalögum sé þetta óheimilt, sbr. 51. gr. , 79. gr. og 108. gr. laga nr. 138/1994. Þá sé þetta refsivert samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt samkomulagi sem hluthafar hafi gert 3. apríl 2002 þegar Hótel Valhöll hafi verið selt, hafi stefndi Jón tekið á sig persónulega ábyrgð á því að skuld sú sem stofnaðist á hendur stefnda Lykilhótelum hf. yrði greidd. Það loforð hafi hann ekki efnt og engan lit sýnt í þá átt að reyna að tryggja skuldina með veði eins og hann hafi lofað. Með því að svíkja það loforð að hlutast til um að gefið yrði út tryggingarbréf með veði í Hótel Örk til tryggingar kröfu stefnanda hafi stefndi Jón með athafnaleysi sínu valdið stefnanda stórkostlegu tjóni sem honum beri að bæta. Hann beri persónulega ábyrgð á efndum þess samkomulags sem gert hafi verið 3. apríl 2002 auk þess sem skuldin sé til komin vegna refsiverðarar háttsemi stefnda Jóns sem ekkert hafi gert til þess að gæta hagsmuna stefnanda gagnvart Lykilhótelum hf. sem hann sé einnig stjórnarformaður í.
Þá telji hluthafar að stefndi Jón hafi beitt svikum þar sem hann hafi aldrei ætlað sér að hlutast til um að gefið yrði út tryggingarbréf með veði í Hótel Örk eða ætlað að greiða skuldina.
Gagnvart stefndu Hrafnhildi sé krafan reist á því að hún hafi tekið þátt í því sem stjórnarmaður í stefnanda að veita umrædd veðleyfi fyrir skuldum sem hafi algerlega verið óviðkomandi félaginu. Hafi hún með þessu bakað félaginu tjón sem henni beri að bæta samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994.
Gagnvart stefnda Lykilhótelum hf. sé krafan reist á því að stefnufjárhæðin sé sú fjárhæð af andvirði Hótels Valhallar sem runnið hafi til greiðslu skulda Lykilhótela hf. við Framkvæmdasjóð en skuldirnar hafi verið tryggðar með veði í Hótel Valhöll.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið byggir stefnandi á 1. mgr. 47. gr. og 110. gr. laga nr. 138/1994. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
IV
Stefndu kveða að krafist sé einnar fjárhæðar úr hendi allra stefndu en óljóst sé á hvaða málsástæðum sé byggt og séu þær að því er virðist ekki þær sömu gagnvart hverjum aðila fyrir sig. Þeim ægi saman og rekist hver á aðra. Telji stefndu að um óleyfilegt málasamlag og aðilasamlag sbr. 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 sé að ræða. Kröfur stefnanda séu ekki samrættar og kröfur byggðar á samkomulagi 3. apríl 2002 geti ekki bundið aðra en þá hluthafa sem staðið hafi að því og þá hvorki Hótel Valhöll ehf., Hrafnhildi né Lykilhótel hf. Hluthafarnir sem stefni í nafni félagsins séu ekki aðilar málsins að öðru leyti en um málskostnað, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994. Í stefnu sé tekið fram að allar kröfur á hendur stefnda Jóni séu reistar á heimild í 109. gr. laga nr. 138/1994 sbr. 108. gr. laganna en krafan sé ekki aðeins rökstudd með gerðum hans í félaginu heldur einnig með vanrækslu á persónulegu loforði og svikum á því. Ekki verði séð að hinar síðarnefndu málsástæður standi á þeim grunni sem stefnandi kveðist reisa málsókn sína á og sé grundvöllur málsins því óljós. Sé greinargerð um aðild málsins að mati stefndu svo óljós að þessu leyti að varði frávísun. Þar sem kröfur stefnanda sem að vísu séu samkynja séu ekki sundurliðaðar virðist ekki fær leið að vísa frá að hluta á annan hátt en samkvæmt 2. varakröfu sem byggist á því að málssóknarheimild nái ekki til málsóknar á hendur Lykilhótelum hf. Fundarsamþykkt 6. mars 2003 hafi lotið að málshöfðun á hendur stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra til greiðslu bóta vegna veðsetninga. Þegar gætt sé ákvæða 57. gr. laga nr. 138/1994 um vanhæfi sé út af fyrir sig álitamál hvort tillagan hafi verið samþykkt eða felld. Hljóti heimild til málshöfðunar samkvæmt 2. mgr. 109. gr. að takmarkast við efni samþykktarinnar. Samkvæmt þessu verði hvorki dæmt að efni um kröfur á hendur Lykilhótelum hf. í þessu máli né um kröfur hluthafa á hendur stefnda Jóni út af samkomulagi sem hvorki hlutafélögin né stefnda Hrafnhildur hafi verið aðilar að. Svo virðist sem krafan á hendur stefnda Lykilhótelum hf. sé auðgunarkrafa en ekki bótakrafa enda sé því ekki haldið fram að stefndi Lykilhótel hf. hafi unnið sér neitt til óhelgi. Málssóknarheimildin varði aðeins bótakröfur og fyrir því álíti stefndu að vísa beri auðgunarkröfu frá dómi.
Þá sé tjón ekki reiknað út í samræmi við málsástæður með þeim hætti sem hver málsástæða gefi tilefni til.
Að því virtu sem nú hafi verið rakið sé svo óhægt um vik að taka til varna að óhjákvæmilegt sé að krefjast frávísunar málsins.
V
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eru stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn einkahluta-félags, svo og rannsóknarmenn, skyldir að bæta félaginu það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Sama gildir þegar hluthafi eða aðrir verða fyrir tjóni vegna brota á ákvæðum laga þessara eða samþykktum félags. Þá er hluthafi skyldur til að bæta tjón sem hann af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur valdið félaginu, öðrum hluthöfum eða þriðja aðila með broti á lögum þessum eða samþykktum félagsins.
Samkvæmt 1. mgr.109. gr. laganna skal ákvörðun um að félag skuli hafa uppi skaðabótakröfu sbr. 108. gr. tekin á hluthafafundi. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að hafi hluthafafundur fellt tillögur um að beita fébótaábyrgð geti hluthafahópar, sem ráða yfir minnst 1/5 af heildarhlutafé félagsins, gert skaðabótakröfuna vegna félagsins og í nafni þess. Kostnaður af slíku máli sé félaginu óviðkomandi. Þó geti málshefjendur krafist þess að kostnaðurinn verði greiddur af félaginu allt að þeirri fjárhæð sem félagið fengi greidda í skaðabætur.
Þeir hluthafar sem höfða mál þetta ráða yfir meira en 1/5 af heildarhlutafé félagsins og er málshöfðun stefnanda því í samræmi við framangreint ákvæði 2. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því meðal annars að því að óljóst sé á hvaða málsástæðum sé byggt og að um óleyfilegt málasamlag og aðilasamlag sé að ræða sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 27. gr. sömu laga. Þá sé grundvöllur málsins óljós. Af málatilbúnaði stefnanda er ljóst að hann byggir skaðabótakröfur sínar á hendur stefndu, Jóni og Hrafnhildi, á því fyrst og fremst að þau hafi gerst sek um umboðssvik sem stjórnarmenn í stefnanda. Þá verður málatilbúnaður stefnanda skilinn á þann veg að auk þess byggi hann kröfur sínar á hendur stefnda Jóni á samkomulagi sem hluthafar í stefnanda gerðu 3. apríl 2002. Að auki byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda Jóni á því að hann hafi beitt meðeigendur sína svikum. Þá verður málatilbúnaður stefnanda gagnvart stefnda Lykilhótelum hf. ekki skilinn á annan hátt en að hann hafi vegna fyrrgreindra aðgerða stefndu, Jóns og Hrafnhildar, auðgast á óréttmætan hátt á kostnað stefnanda. Er því ljóst að mál þetta er skaðabótamál og grundvöllur þess því ljós auk þess sem ljóst er á hvaða málsástæðum stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 má í einu máli sækja allar kröfur, á hendur sama aðila, sem eru samkynja eða eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Öðrum kröfum verður vísað frá dómi ef varnaraðili krefst. Ákvæði þetta á einungis við þegar mál er höfðað vegna krafna á hendur einum aðila og á því ekki við í þessu máli.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 segir hins vegar að fleiri en einum sé heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og með sömu skilyrðum megi sækja fleiri en einn í sama máli. Ella skal vísa máli frá dómi að kröfu varnaraðila að því er hann varðar.
Samkvæmt þessu er það skilyrði þess að stefnandi geti höfðað mál á hendur stefndu í þessu máli að dómkröfur hans á hendur stefndu eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og dugir að eitt þessara þriggja skilyrða sé fyrir hendi. Dómkrafa stefnanda á hendur öllum stefndu á rætur að rekja til þess atviks að eignir stefnanda voru veðsettar fyrir skuldum sem voru stefnanda óviðkomandi og verður því að telja að fullnægt sé framangreindum skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um aðilasamlag sé fyrir hendi í máli þessu og skiptir þá ekki máli hvort kröfur stefnanda byggi á sömu lagaforsendum gagnvart öllum stefndu. Verður málinu því ekki vísað frá á þeim forsendum að skilyrði aðilasamlags sé ekki fyrir hendi.
Af málatilbúnaði stefndu má ráða að krafa um frávísun byggi auk framangreinds á því að málið sé vanreifað þannig að málatilbúnaður stefnanda brjóti í bága við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að því er virðist einkum við d og e lið ákvæðisins, þótt ekki sé vísað til þeirra ákvæða í málatilbúnaði þeirra. Í e lið ákvæðisins segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi þær málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Eins og að framan er rakið hefur því verið slegið föstu að ljóst sé á hvaða málsástæðum stefnandi byggir kröfur sínar auk þess sem grundvöllur málsins sé ljós.
Grundvöllur kröfu stefnanda eru fimm veðskuldabréf sem voru með veði í fasteign stefnanda. Fjögur þeirra eru útgefin af Hafnarbíó hf. og eitt þeirra er útgefið af stefnda Lykilhótelum hf. Stefnandi lætur þess ekki getið í stefnu hvernig Lykilhótel hf. varð skuldari samkvæmt þeim öllum en tekur fram að öll lánin hafi verið tekin í sambandi við kaup Hafnarbíós hf. á Hótel Örk og eigandi þeirrar eignar sé Lykilhótel hf. Við skoðun á þeim gögnum sem liggja frammi í málinu kemur í ljós að Hafnarbíó hf. er í raun forveri stefnda Lykilhótela hf. enda félögin með sömu kennitölu. Hefði verið til skýringar ef þessi tengsl félaganna hefðu verið reifuð í stefnu þótt annmarki þessi einn út af fyrir sig leiði ekki til frávísunar málsins.
Í d lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda. Í málinu eru stefndu krafðir um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 181.520.508 krónur með dráttarvöxtum. Hvorki í stefnu né í öðrum gögnum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu er að finna rökstuðning fyrir fjárhæð dómkröfunnar. Í stefnu er látið nægja að vísa til höfuðstóls umræddra veðskulda, sem öll nema eitt eru í erlendri mynt, auk þess sem tekið er fram að krafan á hendur stefnda Lykilhótelum hf. sé „reist á því, að stefnufjárhæðin er sú fjárhæð af andvirði Hótels Valhallar sem rann til greiðslu skulda Lykilhótela við Framkvæmdasjóð...”
Í málinu liggja ekki fyrir ótvíræð gögn um fjárhæð þeirrar kröfu á hendur Lykilhótelum hf. sem söluandvirði Hótels Valhallar rann til greiðslu á eða sundurliðun á eftirstöðvum hvers skuldabréfs fyrir sig á þeim degi sem greitt var inn á skuldina. Fjárhæð kröfu stefanda sýnist byggð á upplýsingum sem fram koma í dómskjali nr. 7 sem er ljósrit af framhlið bréfs til Fjármálaráðuneytisins 23. júlí 2002. Ekki liggur fyrir frá hverjum þetta bréf stafar en í því er tíundað hvernig kaupverði Hótels Valhallar hafi verið ráðstafað upp í skuldir við Framkvæmdasjóð Íslands, áhvílandi á Hótel Örk, að hluta til upp í vanskil og að hluta til lækkunar skulda við sjóðinn.
Í efnisþætti málsins er deilt um mjög mikla hagsmuni, að því er virðist nokkuð flókin viðskipti og meinta saknæma háttsemi stefndu sem hafi valdið stefnanda tjóni. Með tilliti til þess og umfangs málsins er sérstaklega mikilvægt að í stefnu sé gerð glögg og skýr grein fyrir kröfugerð. Framangreind tilgreining dómkröfu stefnanda þykir ekki fullnægja skilyrðum d liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og þykja því slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að þessu leyti að óhjákvæmilegt sé að verða við kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hver aðili um sig beri sinn hluta málskostnaðar.
Af hálfu stefnanda flutti málið Agnar Gústafsson hrl. en af hálfu stefndu flutti málið Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.