Hæstiréttur íslands
Mál nr. 383/2001
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Ábyrgð
- Lífeyrissjóður
|
|
Fimmtudaginn 21. mars 2002. |
|
Nr. 383/2001. |
Lífeyrissjóður Vesturlands(Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Ábyrgðasjóði launa (Jakob R. Möller hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Ábyrgð. Lífeyrissjóður.
L og Á deildu um það hvort lífeyrissjóðsiðgjöld til L vegna starfsmanna B ehf., sem féllu í gjalddaga eftir frestdag en áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta, nytu ábygðar Á samkvæmt ákvæði c. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993. Fór svo að L höfðaði mál á hendur Á til heimtu iðgjalda frá því tímabili. Orðalag fyrrgreinds ákvæðis var í engum atriðum talið orka tvímælis, enda þótti meðal annars fullljóst að með orðinu frestdagur væri þar skírskotað til skilgreiningar hugtaksins í 2. gr. laga nr. 21/1991. Óumdeilt var að Á hafði þegar greitt L kröfu hans um lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna B ehf. að því leyti sem hún var fallin í gjalddaga á frestdegi við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Var Á samkvæmt þessu sýknaður af kröfum L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 128.675 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. maí 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var lögð fram krafa í Héraðsdómi Vesturlands 30. mars 1998 um að bú Brúarnestis ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hún var tekin til greina með úrskurði dómsins 3. júní sama árs. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. taldist 30. mars 1998 vera frestdagur við skiptin. Félagið mun þó hafa haldið áfram starfsemi allt til 26. maí á því ári.
Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi hafi lýst kröfu í þrotabúið vegna ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda, sem virðist hafa tekið til tímabilsins frá september 1996 til maí 1998. Áfrýjandi leitaði jafnframt eftir greiðslu kröfunnar frá stefnda með bréfi 9. júlí 1998, en kom síðan á framfæri leiðréttingu á henni 14. janúar 1999. Í umsögn um kröfuna, sem skiptastjóri sendi stefnda 19. febrúar 1999, var staðfest að hann hafi viðurkennt hana við gjaldþrotaskiptin sem forgangskröfu að fjárhæð 1.367.531 króna, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi til áfrýjanda 10. maí 1999 tilkynnti stefndi að hann hafi fallist á að lífeyrissjóðsiðgjöld að fjárhæð 1.234.313 krónur, sem krafa þessi tæki til, nytu ábyrgðar á grundvelli laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Mun stefndi hafa um líkt leyti greitt áfrýjanda þá fjárhæð ásamt vöxtum. Eftir að hafa tekið við þeirri greiðslu leitaði áfrýjandi skýringa hjá stefnda á því að ekki hafi með þessu verið greidd lífeyrissjóðsiðgjöld vegna mánaðanna mars, apríl og maí 1998, sem hann ítrekaði kröfu um. Þessu erindi svaraði stefndi með bréfi 23. nóvember 1999, þar sem fram kom að hann teldi sig ekki bera „ríkari ábyrgð á greiðslu vangoldinna iðgjalda en sem kveðið er á um í c. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993“, en sú ábyrgð tæki aðeins til vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda, sem fallið hefðu í gjalddaga á síðustu 18 mánuðunum fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti. Var þar einnig bent á að „ákveðið ósamræmi“ væri milli þessa ákvæðis og 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti að samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu gætu vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld notið forgangsréttar við gjaldþrotaskipti einnig að því leyti, sem þau féllu í gjalddaga eftir frestdag.
Í framhaldi af því, sem að framan greinir, urðu frekari bréfaskipti milli aðilanna vegna ágreinings þeirra um hvort lífeyrissjóðsiðgjöld til áfrýjanda vegna starfsmanna Brúarnestis ehf., sem féllu í gjalddaga eftir frestdag en áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta, nytu ábyrgðar stefnda samkvæmt ákvæði c. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993. Fór svo að áfrýjandi höfðaði mál þetta gegn stefnda 23. janúar 2001 til heimtu lífeyrissjóðsiðgjalda frá því tímabili, en ekki er deilt um að þau hafi numið þeirri fjárhæð, sem greinir í dómkröfu áfrýjanda. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á með stefnda að ábyrgð hans samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði tæki ekki til lífeyrissjóðsiðgjalda til áfrýjanda, sem féllu í gjalddaga eftir frestdag. Krafa stefnda um staðfestingu héraðsdóms er aðallega reist á þeirri málsástæðu, en til vara ber hann fyrir sig, eins og fyrir héraðsdómi, að hann eigi að öðrum kosti gagnkröfu á hendur áfrýjanda að fjárhæð 429.181 króna, sem hann megi neyta til skuldajafnaðar og þar með sýknu af dómkröfu áfrýjanda.
II.
Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 kemur fram að stefndi beri meðal annars ábyrgð á kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs í þrotabú vinnuveitanda „um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag“, enda hafi krafan verið viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991. Áfrýjandi hefur réttilega bent á að í lögum nr. 52/1992 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, sem lög nr. 53/1993 leystu af hólmi, svo og í enn eldri lögum um sama eða hliðstætt efni, var miðað við að ábyrgð stefnda tæki til kröfu um lífeyrissjóðsiðgjöld, sem féll í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum áður en úrskurður gekk um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda. Þá er í 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 miðað við að sams konar krafa njóti forgangsréttar við gjaldþrotaskipti ef hún hefur fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða síðar.
Ekki verður ráðið af lögskýringargögnum hver ástæða þess hafi verið að orðalagi c. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 hafi að þessu leyti verið hagað á annan veg en reglu um sama atriði í eldri lögum eða hvers vegna viðmiðunarmörk ákvæðisins séu önnur en sett eru í 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 fyrir forgangsrétti sams konar kröfu við gjaldþrotaskipti. Þetta fær því hins vegar ekki breytt að orðalag c. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 orkar í engum atriðum tvímælis, enda er meðal annars fullljóst að með orðinu frestdagur sé þar skírskotað til skilgreiningar hugtaksins í 2. gr. laga nr. 21/1991. Getur forsaga fyrrnefnda ákvæðisins eða samanburður á efni þess við reglu 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 ekki haggað í neinu þeirri merkingu, sem réttilega verður leidd af hljóðan orða þess. Óumdeilt er að stefndi hefur þegar greitt áfrýjanda kröfu hans um lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna Brúarnestis ehf. að því leyti, sem hún var fallin í gjalddaga á frestdegi við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, svo og um málskostnað.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lífeyrissjóður Vesturlands, greiði stefnda, Ábyrgðasjóði launa, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu af Lífeyrissjóði Vesturlands, kt. 630371-0669, Kirkjubraut 40, Akranesi, á hendur Ábyrgðasjóði launa, kt. 450193-2759, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, Reykjavík, með stefnu þingfestri 15. febrúar 2001.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða 128.675 krónur með vöxtum samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 18.080 krónum frá 10. apríl 1998 til 10. maí 1998, af 58.742,50 krónum frá þeim degi til 10. júní 1998, en af 128.675 krónum frá þeim degi til 3. maí 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að dómkrafa stefnanda verði lækkuð á grundvelli skuldajafnaðar um fjárhæð allt að 429.181 krónu.
Gætt var ákvæðis 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum hinn 3. júní 1998 var, að kröfu stefnanda, bú Brúarnestis ehf., kt. 690496-2409, tekið til gjaldþrotaskipta. Krafa stefnanda um gjaldþrotaskiptin var gerð á grundvelli vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda starfsmanna. Frestdagur við skiptin var 30. mars 1998. Brúarnesti hélt áfram rekstri eftir frestdag, en hætti rekstri hinn 26. maí 1998.
Stefnandi lýsti kröfum í þrotabúið. Stefnandi gerði greiðslukröfu á hendur stefnda á grundvelli laga nr. 53/1993, um Ábyrgðasjóð launa.
Eftir að krafa stefnanda hafði fengið efnislega umfjöllun hjá skiptastjóra, m.a. þar sem hluti iðgjalda var áætlaður, sendi skiptastjóri umsögn til stefnda, dagsetta 19. febrúar 1999. Kom þar fram að kröfur stefnanda hefðu verið samþykktar, sem forgangskröfur í þrotabúið, samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Hinn 3. maí 1999 greiddi stefndi kröfur stefnanda inn á bankareikning lögmanns stefnanda. Sundurliðun á greiðslu barst lögmanninum 5. maí sama ár. Samkvæmt sundurliðuninni greiddi stefndi ekki iðgjöld vegna mánaðanna mars, apríl og maí 1998. Sama dag sendi stefnandi stefnda símbréf, þar sem óskað var eftir greiðslu iðgjalda fyrir fyrrgreinda mánuði. Hinn 23. nóvember 1999 sendi stefndi stefnanda bréf þar sem greiðslu var hafnað með þeirri skýringu, að sjóðurinn bæri aðeins ábyrgð á greiðslu vangoldinnna iðgjalda, sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag. Stefnandi bar þessa afgreiðslu undir stjórn sjóðsins með bréfi dagsettu 30. nóvember 1999. Með bréfi dagsettu 7. nóvember 2000 var stefnanda tilkynnt að stjórnin hefði staðfest afgreiðslu stefnda, þar sem sjóðnum bæri ekki skylda til að greiða fyrrgreind iðgjöld, samkvæmt lögum nr. 53/1993.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að ekki séu rök til þess að skýra ákvæði c. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993, um Ábyrgðasjóð launa, með þeim hætti sem stefndi hafi gert. Heldur stefnandi því fram að skýra beri ákvæðið í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt því ákvæði teljist lífeyrissjóðsiðgjöld, sem þrotamanni hafi borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi og fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag eða eftir frestdag, vera forgangskröfur í þrotabú. Önnur niðurstaða væri óeðlileg t.d. í því tilviki þegar greiðslustöðvun samkvæmt 2. þætti laga nr. 21/1991 er undanfari gjaldþrots, og frestdagur við gjaldþrotið miðast við þann dag er héraðsdómara berst beiðni um greiðslustöðvun, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991, eða ef þrotamaður heldur áfram rekstri eftir að héraðsdómara barst beiðni um gjaldþrotaskipti, svo sem hafi verið í þessu tilviki. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, geti því iðgjöld fyrir lengri tíma en 18 mánuði talist forgangskröfur í þrotabú, þ.e. þau iðgjöld sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag svo og á þeim tíma sem líður frá frestdegi þar til gjaldþrotaúrskurður gengur.
Stefnandi telur að túlka beri ákvæðið með fyrrgreindum hætti þar sem sú túlkun byggist m.a. á forsögu ákvæðisins í c. lið 5. gr. laga nr. 53/1993, um Ábyrgðasjóð launa.
Með lögum nr. 7/1990, um ráðstafanir vegna kjarasamninga, sem breytt hafi lögum nr. 23/1985, 10. gr., hafi kröfum viðurkennds lífeyrissjóðs verið veitt ábyrgð ríkissjóðs. Hafi verið miðað við þau tímamörk, að krafan nyti forgangsréttar í þrotabúinu.
Með lögum nr. 88/1990, hafi verið gerðar breytingar á lögum um ríkisábyrgð á launum. Þau lög hafi ekki öðlast gildi þegar lög nr. 52/1992, um sama efni, hafi leyst þau af hólmi. Í 5. gr. síðastgreindra laga hafi verið kveðið á um ábyrgð ríkissjóðs, sem tæki til krafna í bú vinnuveitanda, sem viðurkenndar hefðu verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum og krafna viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld, sem fallið hefðu í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrot.
Núgildandi lög um Ábyrgðasjóð launa, nr. 53/1993, hafi leyst síðastgreind lög af hólmi. Í athugasemdum með frumvarpi að þeim lögum komi fram, að nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa til samræmis við lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem gengið hefðu í gildi hinn 1. júlí 1992. Fyrir gildistöku núgildandi gjaldþrotaskiptalaga hafi farið um skuldaröðina í gjaldþrotabúum eftir 8. kapítula skiptalaga nr. 3/1878, sbr. lög nr. 23/1974. Í 84. gr. laga nr. 3/1878, hafi lífeyrissjóðsiðgjöld, sem fallið hefðu í gjalddaga 18 mánuðum fyrir andlát verið forgangskrafa í búið. Í 8. gr. laga nr. 55/1980 hafi verið tekið fram að lífeyrissjóðsiðgjöld teldust forgangskröfur samkvæmt 84. gr. laga nr. 3/1878. Í lögum nr. 52/1992 hafi á sama hátt og í lögum nr. 55/1980 verið tekið fram að ábyrgð tæki til iðgjalda, sem fallið hefðu í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir gjaldþrot.
Í greinargerð með lögum nr. 53/1993 sé lögð áhersla á að breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa séu tilkomnar vegna þeirra breytinga sem lög nr. 21/1991 hafi haft í för með sér. Ein þeirra breytinga hafi verið að miða við frestdag í 4. tl. 1. mgr. 112. gr., en ekki gjaldþrot. Telur stefnandi ótvírætt að skýra skuli c- lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 til samræmis við tilvitnað ákvæði gjaldþrotaskiptalaganna. Stefnandi bendir og á, að í 2. tl. og 3. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sem varði bætur vegna slita á vinnusamningi og kröfur vegna orlofs, sé notað orðalagið „eða eftir frestdag”. Með því sé verið að viðurkenna að þessar kröfur geti fallið í gjalddaga eftir frestdag og talist forgangskröfur í þrotabúið. Þó svo samsvarandi orðalag sé ekki að finna í 5. gr. laga nr. 53/1993, sé engu að síður ljóst, að stefndi beri ábyrgð á greiðslu bóta vegna slita á vinnusamningi. Í flestum tilvikum gjaldfalli slík krafa við gjaldþrotaúrskurð, þ.e. eftir frestdag.
Þá bendir stefnandi og á, að upphafsákvæði 5. gr. laga nr. 53/1993 vísi beinlínis til ákvæða gjaldþrotaskiptalaga um það hvað teljist samþykktar forgangskröfur.
Samkvæmt f. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 beri stefnda að greiða vexti samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá gjalddaga til þess dags er krafan fáist greidd úr ríkissjóði. Stefndi hafi afgreitt kröfu stefnanda með greiðslu inntri af hendi þann 3. maí 1999. Greiðsluskylda stefnda hafi þá orðið virk og sé því gerð krafa um dráttarvexti frá þeim degi. Fram til þess dags sé gerð krafa um vexti samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Gjalddagi iðgjalda sé 10. dagur næsta mánaðar á eftir og miðist upphafstími vaxtakröfu við það.
Stefnandi kveður fjárhæð kröfu sinnar vera samkvæmt iðgjaldaskilagreinum vegna mánaðanna mars, apríl og maí 1998. Á iðgjaldaskilagrein fyrir mars 1998 séu iðgjöld vegna Níelsar Óskars Jónssonar, en hann hafi verið einn af eigendum Brúarnestis ehf. Stefndi beri ekki ábyrgð á iðgjöldum hans og sé því iðgjaldaskilagrein fyrir marsmánuð 1998 lækkuð sem svarar til iðgjalda Níelsar Óskars og mótframlags, samtals 5.500 krónur.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 53/1993, einkum 5. gr. þeirra laga og laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 112. gr. þeirra laga.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á f. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993, sbr. 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að hann hafi þegar uppfyllt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda samkvæmt c-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins sé sjóðnum óheimilt að greiða iðgjöld lífeyrissjóða, sem fallið hafi í gjalddaga eftir frestdag. Þessa takmörkun á ábyrgð sjóðsins sé einnig að finna í 1. gr. reglugerðar nr. 33/1995, um lífeyrissjóðsgreiðslur Ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota. Stefndi hafi greitt stefnanda 1.234.313 krónur auk vaxta, 330.526 krónur. Með greiðslu þessari hafi farið fram uppgjör á vangoldnum iðgjöldum þrotabús Brúarnestis ehf. á 18 mánaða tímabili, fram að frestdegi hinn 30. mars 1998.
Stefndi kveður túlkun sína á umdeildu ákvæði laga nr. 53/1993 eiga sér stoð í ýmsum lögskýringargögnum. Í greinargerð með lögum nr. 52/1992, komi fram að markmiðið með lögunum sé m.a. að koma í veg fyrir óeðlilega uppsöfnun iðgjalda í vanskilum og jafnframt að skilgreina ábyrgð lífeyrissjóða og sjóðfélaga þeirra. Í því skyni sé lagt til að gerðar verði kröfur til markvissrar og skilvirkrar innheimtu af hálfu sjóðanna, fá sjóðfélögum eftirlitshlutverk og gera þeim skylt að bregðast við vanskilum. Þá segi í greinargerðinni, að stemma þurfi stigu við því að greiðsla fáist úr Ábyrgðasjóði ef skynsamlegar skýringar finnist ekki á uppsöfnun iðgjalda. Það verði gert án þess að breyta forgangstíma, enda sé fresturinn í samræmi við 4. gr. tilskipunar EB frá 20. október 1980.
Í greinargerð með lögunum nr. 53/1993 komi fram, að ákvæðið sem fram komi í 5. gr. laganna sé óbreytt að frátöldum c-lið 1. mgr. og 4. mgr. en ákvæðið kveði skýrt á um það, að 18 mánaða ábyrgð sjóðsins sé miðuð við frestdag á lífeyrissjóðsiðgjöldum.
Stefndi telur að gildissvið c. liðar 1. mgr. 5. gr. verði ekki rýmkað og ábyrgð stefnda á lífeyrissjóðsiðgjöldum látin ná til lengri tíma en 18 mánaða miðað við frestdag, eins og stefnandi vilji byggja á.
Stefndi telur sig ekki vera bundinn af umsögn skiptastjóra um þær kröfur, sem hann hafi samþykkt sem forgangskröfur, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnda sé skylt samkvæmt lögum, sem stefndi starfi eftir, að taka sjálfstæða afstöðu til réttmæti krafna, sem honum berist, sbr. 10.gr. laga nr. 53/1993. Ljóst sé af forsögu laganna og einstökum ákvæðum þeirra, að umsögn skiptastjóra samkvæmt 11. gr. laga nr. 53/1993, sé fyrst og fremst nauðsynleg til þess að stefndi geti tekið afstöðu til greiðsluskyldu sinnar samkvæmt 5. gr. og 14. gr. laganna.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að hann eigi kröfu á hendur stefnanda, sem honum sé heimilt að skuldajafna við kröfu stefnanda, verði hún tekin til greina, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ef fallist verði á túlkun stefnanda, um að ábyrgð stefnda, samkvæmt 1.lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1991, taki einnig til iðgjalda, sem fallið hafi í gjalddaga eftir frestdag, verði ábyrgð stefnda eftir sem áður bundin við 18 mánaða hámark, og taki þar með til síðustu 18 mánaða í rekstri fyrirtækisins. Sú niðurstaða leiði til þess, að stefndi eigi endurkröfu, sem nemi greiðslu stefnda til stefnanda á iðgjöldum þriggja elstu iðgjaldamánaðanna, þ.e.a.s. september, október og nóvember 1996. Greiðsla stefnda vegna þessara mánaða hafi numið 323.129 krónum auk vaxta að fjárhæð 106.052 krónur. Krafa stefnanda vegna mánaðanna, mars, apríl og maí 1998 sé 128.675 krónur. Sé því gerð krafa um að stefnukrafan verði lækkuð á grundvelli skuldajafnaðar, um allt að 429.181 krónu.
V
Ágreiningur aðila lýtur að því hvernig túlka beri c. lið 5. gr. laga nr. 53/1993, um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, en ábyrgð stefnda á kröfu stefnanda byggir á því ákvæði. Umrætt ákvæði hljóðar svo : „ Ábyrgð sjóðsins tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum:...kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs um vangoldin lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag að uppfylltum skilyrðum III. kafla laga þessara; ábyrgðin takmarkast þó við lágmark 4. gr. laga nr. 55/1980.” Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ábyrgð stefnda aðeins til krafna sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag. Stefnandi byggir kröfu sína á því að túlka beri ákvæðið þannig að ábyrgðin taki einnig til lífeyrissjóðsiðgjalda, sem fallið hafi í gjalddaga eftir frestdag. Eins og stefnandi rekur í stefnu sinni um sögu þessa ábyrgðarákvæðis, bar nauðsyn til þess að breyta lögum um Ábyrgðasjóð launa til samræmis við ný lög um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Lögin nr. 53/1993, eru því yngri en lögin um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt því ber að líta svo á, að í yngri lögum sé tæmandi talið til hvaða krafna ábyrgðin nái. Þó svo teljast megi óeðlilegt að ábyrgðin taki ekki til krafna sem falla í gjalddaga eftir frestdag verður ekki með vísan til framanritaðs horft fram hjá skýru orðalagi greinarinnar. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Ábyrgðasjóður launa, er sýkn af kröfum stefnanda, Lífeyrissjóðs Vesturlands, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.