Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Mánudaginn 1. júlí 2002. |
|
Nr. 281/2002. |
Frjáls fjölmiðlun ehf. (Jón Gunnar Zoëga hrl.) gegn Sparisjóði Hafnarfjarðar (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að F ehf. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Haraldur Henrysson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Fallast ber á það með héraðsdómara að árangurslaus fjárnámsgerð hjá sóknaraðila 26. nóvember 2001 verði lögð til grundvallar úrskurði um gjaldþrotaskipti á búi hans, enda hefur hann hvorki sýnt fram á að gerðin hafi gefið ranga mynd af fjárhag hans né að hann sé fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Frjáls fjölmiðlun ehf., greiði varnaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 10. þ.m.
Sóknaraðili er Sparisjóður Hafnarfjarðar, kt. 610269-5599, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.
Varnaraðili er Frjáls fjölmiðlun ehf., kt. 550282-0469, Þverholti 11, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði kröfu sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Helstu málsatvik eru að aðilar gerðu dómsátt 10. apríl 2001 þess efnis að varnaraðili greiddi sóknaraðila skuld að fjárhæð 17.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá 20. september 2000 til greiðsludags. Þann 26. nóvember 2001 lýsti deildarstjóri hjá sýslumanninum í Reykjavík yfir árangurslausu fjárnámi hjá varnaraðila að kröfu gerðarbeiðanda, Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Með bréfi, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. desember 2001, krafðist sóknaraðili að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli fjárnáms án árangurs hjá varnaraðila, 26. nóvember 2001, samkvæmt 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Jafnframt var lýst kröfu að höfuðstól 17.000.000 kr. en með dráttarvöxtum og kostnaði samtals að fjárhæð 23.677.008 kr.
Þann 8. maí 2002 var tekin fyrir í héraðsdómi beiðni sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu varnaraðila var beiðninni mótmælt.
Varnaraðili byggir á því að árangurslausa fjárnámsgerðin 26. nóvember 2001 að kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi verið endurupptekin 4. desember 2001. Með samþykki Eyjólfs Sveinssonar, meðstjórnanda Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., hafi fjárnám verið gert í fasteign Eyjólfs að Ægissíðu 96 í Reykjavík til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda að fjárhæð 2.969.891 kr. Grundvöllur fyrir kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldrotaskipta sé því brostinn, lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 ekki lengur fyrir hendi.
Sóknaraðili byggir á því að umrætt árangurslaust fjárnám gefi ekki ranga mynd af fjárhag varnaraðila. Engu máli skipti fyrir kröfu sóknaraðila þótt gerðin hafi verið endurupptekin og trygging sett fyrir kröfu gerðarbeiðanda í því tilviki í eignum stjórnarmanns varnaraðila.
Niðurstaða: Nægilegt er fyrir sóknaraðila að vísa til þess að fjárnám var gert hjá varnaraðila án árangurs á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, þ.e. 4. desember 2001, til að krefjast þess með réttu að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, enda hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sönnunarbyrðin hvílir á varnaraðila. Raunar verður að telja að varnaraðila, sem bókhaldsskyldum skuldara, hafi verið skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta fyrst hann gat ekki staðið í fullum skilum við sóknaraðila, sbr. 64. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila 30.000 kr. í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú varnaraðila, Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 30.000 krónur í málskostnað.