Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
|
Þriðjudaginn 22. febrúar 2005. |
|
Nr. 54/2005. |
Pace Products International Inc. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Pace Ísland ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð.
PPI krafðist þess að fyrirtækinu yrðu afhentar nánar tilgreindar vörur með beinni aðfarargerð. Fyrirtækið hafði selt PÍ vörurnar, en þær ekki verið greiddar að fullu. Í kaupsamningi þeim er PPI reisti kröfu sína á, var ákvæði um söluveð í vörunum, en B hafði undirritað samninginn fyrir hönd PÍ. Þótti varhugavert að láta aðfarargerðina fram ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fyrir lágu og lutu að umboði B til slíkrar samningsgerðar fyrir PÍ. Þá varð ekki ráðið af gögnum málsins að PPI hafi rift söluveðssamningnum svo sem lög um samningsveð áskildu til að hann gæti krafist afhendingar varanna. Þegar af þessum ástæðum var kröfu PPI um afhendingu varanna hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. janúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nánar tilgreindar vörur yrðu teknar með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengnar sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst heimildar til aðfarargerðarinnar og að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili reisti kröfu sína í héraði ekki á 36. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð en ber ákvæðið fyrir sig í greinargerð sinni til Hæstaréttar án frekari umfjöllunar. Málatilbúnaður aðila og gagnaöflun hefur hins vegar í engu lotið að því að sýna fram á hvort umræddar vörur væru ætlaðar til endursölu. Verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað á grundvelli þessarar síðbúnu málsástæðu varnaraðila.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði undirritaði Bergsteinn Ómar Óskarsson af hálfu varnaraðila 5. júní 2004 samning við sóknaraðila um kaup á vörum þeim sem aðfararbeiðni sóknaraðila lýtur að. Samningurinn hefur að geyma ákvæði um söluveð sóknaraðila í vörunum. Verður að fallast á það með héraðsdómara að varhugavert sé að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja og lúta að umboði Bergsteins Ómars til slíkrar samningsgerðar fyrir varnaraðila. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi rift söluveðssamningnum, sem er skilyrði til að hann geti krafist afhendingar hins veðsetta úr hendi varnaraðila, sbr. síðari málslið 4. mgr. 38. gr. laga nr. 75/1997. Þegar af þessum ástæðum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Pace Products International Inc., greiði varnaraðila, Pace Ísland ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. janúar 2005.
Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 1. nóvember sl., hefur sóknaraðili, Pace Products International Inc., 7200 W. 132nd. St., Overland Park, KS 66213, bandaríkjum Norður-Ameríku, krafist dómsúrskurðar um að eftirtaldar vörur verði teknar með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengnar lögmanni sóknaraðila fyrir hönd sóknaraðila:
100 fötur af AlumaChron Graystone [#9130-2], 5 gallon hver.
100 fötur af AlumaChron White [#9130-1], 5 gallon hver.
100 fötur af AlumaChron Black [#9130-9], 5 gallon hver.
100 fötur af AlumaChron RAL8011 [#9130], 5 gallon hver.
100 fötur af AlumaChron Smoke Red [#9130-12], 5 gallon hver.
20 fötur af AlumaChron Sandstone [#9130-8], 5 gallon hver.
20 fötur af AlumaChron Natural Brown [#9130-11], 5 gallon hver.
40 fötur af AlumaChron Horizon Blue [#9130-5], 5 gallon hver.
40 fötur af AlumaChron Green Mist [#9130-10], 5 gallon hver.
60 fötur af AlumaChron Metalic Gray [#9130-7], 5 gallon hver.
20 fötur af AlumaChron WB White [#2030-1], 5 gallon hver.
100 fötur af ScarnGuard+20% Grade [#9140], 5 gallon hver.
20 fötur af Neoprene 66 Gray HBG [#9155-2], 5 gallon hver.
5 fötur af ConcretePlus [#1000] , 5 gallon hver.
5 fötur af Rust Arrestor [#RRC-600], 5 gallon hver.
10 rúllur af Fabron III 101 cm x 88m [#FF3-40”]
20 rúllur af Fabron III 4-in. roll (10cm) [#FF3-4”]
1 fata af Toluene, 55 gallon.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila og virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málið var tekið til úrskurðar 29. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi og skýrslugjöf fyrirsvarsmanns varnaraðila, Jóhönnu Hjördísar Gunnarsdóttur.
I.
Sóknaraðili segir þær vörur sem hann krefst innsetningar í, einkum vera þéttiefni fyrir húsþök og veggi, sem að sóknaraðili hafi selt varnaraðila, samkvæmt kaupsamningi dags. 5. júní 2004 og beri yfirskriftina „Agreement of Purchase”. Kaupverðið hafi verið ákveðið í bandarískum dollurum (USD) 80.888 og skyldi greiðast þannig:
USD 30.000,- áður en vörurnar voru sendar af stað.
USD 20.000,- við tollafgreiðslu.
USD 30.888,- 60 dögum síðar.
Sérstaklega hafi verið kveðið á um það, að yrði greiðslufall af hálfu varnaraðila þá gæti sóknaraðili krafist endursendingar varanna á kostnað varnaraðila. Auk þess hafi verið kveðið á um að vörurnar væru eign sóknaraðila þar til þær væru að fullu greiddar.
Varnaraðili hafi innt af hendi fyrstu greiðslu samkvæmt áðurnefndum samningi, USD 30.000, en ekki greiðslu að fjárhæð USD 20.000 sem inna átti af hendi við tollafgreiðslu varanna. Af reikningi frá Eimskip ehf. megi ráða að vörurnar hafi verið tollafgreiddar eigi síðar en 16. september sl. Varnaraðili hafi hinsvegar ekki sinnt ítrekuðum áskorunum um afhendingu varanna eða um greiðslu gjaldfallinna afborgana.
Þar sem varnaraðili hafi ekki staðið í skilum samkvæmt samningnum krefjist sóknaraðili umráða yfir hinu selda samkvæmt heimild í samningnum sjálfum og með tilvísun til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
II.
Varnaraðili kveður málavexti þá að Pace Ísland ehf. sé félag sem stofnað hafi verið í marsmánuði 1999 til þess að flytja inn og selja viðgerðar- og þéttiefni og fleiri slík efni til húsaviðgerða, einkum af tegundinni Aluma Chron. Varnaraðili hafi um nokkurt skeið keypt slík efni af sóknaraðila og endurselt verktökum og öðrum sem noti efnið til viðgerða á þökum og veggjum húsa. Hjá varnaraðila hafi einnig starfarð verktakar og launþegar sem hafi notað efnið til húsaviðgerða.
Varnaraðili sé til heimilis að Kirkjuvegi 11b, Hafnarfirði, á heimili fyrirsvarsmanns varnaraðila. Félagið hafi haft húsnæði og lageraðstöðu annarsstaðar en á heimili varnaraðila og fyrir skömmu hafi félagið flutt aðstöðu sína úr húsinu nr. 34c við Lækjargötu í Hafnarfirði og hafi varnaraðili komið sér upp aðstöðu annarsstaðar.
Varnaraðili kveðst hafa keypt, í febrúarmánuði 2004, vörur af sóknaraðila fyrir $ 79,922,10, sbr. nánar vörureikning á dskj. nr. 9: 300 fötur af AlumaChron Greystone, 100 fötur af AlumaChron White, 40 fötur af AlumaChron Black, 40 fötur af AlumaChron Smoke Red, 40 fötur af AlumaChron Metallic Brick, 40 fötur af AlumaChron Horizon Blue, 50 fötur af AlumaChron Metallic Gray, 25 fötur af AlumaChron Sandstone, 25 fötur af AlumaChron WB RAL9001, 35 fötur af AlumaChron WB RAL7035, 25 fötur af AlumaChron WB Modified RAL5010, 25 fötur af AlumaChron WB Modified RAL6005, 50 fötur af SeamGuard, 20 fötur af Neoprene 66 Gray HBG, 10 fötur af RustArrestor, 5 fötur af ConcretePlus, 1 fötu af Toluene, svo og Fabron III 101 cm x 99 m., Fabron III 15 cm x 91 m., Fabron III 4-in. roll (10 cm.).
Varnaraðili kveðst hafa greitt fyrir vörurnar samkvæmt munnlegu samkomulagi við sóknaraðila með eftirfarandi hætti:
31. mars 2004: USD 30.000
29. apríl 2004: USD 2.000
12. maí 2004: USD 18.000
6. júlí 2004: USD 12.000
18. ágúst 2004: USD 17.922
Hluti af þessum vörum séu enn óseldur í birgðum á lager hjá gerðarþola.
Um mitt ár 2004 hafi varnaraðili pantað svipað magn af viðgerðarefni hjá sóknaraðila og hann hafði keypt í febrúar. Þann 17. ágúst hafi sóknaraðili gefið út reikning fyrir vörunum. Á reikningnum sjálfum komi fram greiðsluskilmálar sem hafi gilt milli aðila um þessi viðskipti. Hluti af þessum vörum hafi verið seldur til einstaklinga, húsfélaga, verktaka og annarra aðila, en hluti sé óseldur í birgðum hjá varnaraðila ásamt öðrum eldri vörubirgðum. Það láti nær að um helmingur af heildarmagni vörunnar, sem varnaraðili hafi keypt í ágúst sl., sé enn í birgðum hjá varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki greitt sóknaraðila að fullu þær vörur sem hann hafi keypt í ágúst á þessu ári, en hafi þó greitt ríflega þriðjung af kaupverðinu, eða USD 30.000 með þremur jöfnum greiðslum í ágúst og september sl. Það sé um 37% af heildarkaupverðinu. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi þegar hafið innheimtumál á hendur varnaraðila til heimtu eftirstöðva kaupverðsins.
Samkvæmt vörureikningi frá 17. ágúst 2004 hafi þeir skilmálar gilt milli aðila um viðskiptin, að varnarðila bæri að greiða USD 30.000 áður en varan væri afhent frá seljanda, USD 20.000 við móttöku vöru og eftirstöðvar 60 dögum síðar. Fyrir liggi að nokkur töf hafi orðið á greiðslum til sóknaraðila, án þess að sóknaraðili hafi gert athugasemdir við það, ekki frekar heldur en hann hafi gert athugasemdir við það hvernig varnaraðili hafi greitt fyrir vörurnar sem hann fékk sendar í febrúar 2004.
Varnaraðili byggir á því að greiðslur hans til sóknaraðila fyrir þær vörur sem sóknaraðili krefst innsetningar í séu í fullkomnu samræmi við samkomulag milli aðila og það sem venjulega hefur tíðkast í viðskiptum þeirra í milli. Sóknaraðila megi vera kunnugt um að talsverðan tíma geti tekið að selja umrædda vöru en söluhraði sé m.a. mjög háður veðráttu, þannig að þegar veður er vætusamt sé sölutími efnisins lengri en þegar þurrt er, enda sé ekki hægt að nota efnið til húsaviðgerða nema þegar þurrt sé og frostlaust.
Krafa varnaraðila um að hafnað verði kröfu sóknaraðila er byggð á því að sóknaraðili eigi ekki að lögum þau réttindi sem hann tjái sig eiga. Þannig séu ekki uppfyllt nauðsynleg lagaskilyrði til að verða við beiðni sóknaraðila. Fyrir liggi að varnaraðili hafi keypt umræddar vörur og greitt fyrir þær að stórum hluta og hafi varnaraðili hagað greiðslum sínum til sóknaraðila fyrir vörurnar, eins og áður, samkvæmt munnlegu samkomulagi aðila sem sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við fyrr en hann skyndilega í septembermánuði krefjist þess að vörurnar verði afhentar þriðja aðila. Kaupunum hafi sóknaraðili þó ekki rift enda sé slík riftun ekki tæk þrátt fyrir að vörurnar hafi ekki verið greiddar að fullu og öllu.
Varnaraðili hafnar alfarið þeim staðhæfingum sóknaraðila sem fram koma í aðfararbeiðni að fyrir liggi samningur um að yrði hugsanlega greiðslufall af hálfu varnaraðila gæti sóknaraðili krafist afhendingar á vörunni á kostnað varnaraðila. Þessi staðhæfing sé beinlínis röng og hafi varnaraðili ekki skuldbundið sig til að undirgangast slíka skilmála.
Varnaraðila sýnist málatilbúnaður sóknaraðila og kröfur byggja á gögnum um viðskipti aðila sem hafi átt að eiga sér stað í júnímánuði 2004, en svo sé ekki og ekki fáist betur séð en að þau gögn sem kröfur sóknaraðila séu byggðar á séu fölsuð. Það sé að minnsta kosti ljóst að Bergsteinn Ómar Óskarsson, sá aðili sem virðist hafa undirritað „samning” við sóknaraðila, hafi ekki haft á þeim tíma umboð til að skuldbinda félagið. Hvað sem því líði sé ljóst að engin vörukaup hafi átt sér stað milli málsaðila frá því í febrúarmánuði þar til í ágúst sama ár. Þá sýnist ennfremur vera fullkomið ósamræmi á milli þess heildarkaupverðs sem tilgreint sé í hinum meinta „samningi”, sem sóknaraðili hafi lagt fram og því verði sem tilgreint sé á vörureikningi á dskj. 11. Fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi fyrst séð hinn meinta „samning” í októbermánuði sl. þegar hafnar hafi verið innheimtuaðgerðir af hálfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Hafi „samningurinn” að geyma aðra skilmála en þá sem varnarðili hafi undirgengist við kaupin og komi fram á áðurnefndum reikningi á dskj 11.
Varnaraðili byggir einnig á því að reifun málsins af hálfu sóknaraðila sé fátækleg og ekki liggi fyrir með skýrum hætti hvaða vörusending það sé sem sóknaraðili krefjist umráða yfir. Þá tilgreini sóknaraðili ekki hvar þær vörur sem hann krefst innsetningar í, séu geymdar, að öðru leyti en því að þær séu geymdar á lögheimili varnaraðila en vörulager sóknaraðila sé ekki geymdur þar. Hvað sem þessu líði þá sé ljóst að í vörslum varnaraðila séu vörubirgðir, sem séu óseldar vörur að minnsta kosti tveggja vörusendinga frá sóknaraðila, auk annarra vörutegunda og muna í eigu varnaraðila. Kröfu sóknaraðila skorti því augljóslega nauðsynlegan skýrleika til að unnt sé að verða við henni. Þá hafi sóknaraðili ekki lagt fram nein skilríki í málinu sem staðfesti rétt hans til að krefjast þeirra umráða sem hann fari fram á.
Varnaraðili vísar til þess að þær vörur sem sóknaraðili krefjist innsetningar í séu að hluta ásamt þeim vörum sem varnaraðili hafi keypt í byrjun febrúar sl. seldar eða nýttar á annan hátt af varnaraðila og af aðilum á hans vegum og því séu þær ekki í vörslum varnaraðila. Kröfur sóknaraðila virðist á hinn bóginn beinast að ætluðum viðskiptum málsaðila frá því í júní 2004 og beinist því alls ekki að þeim vörum sem varnaraðili hafi keypt í ágúst sl. Fram sé komið að varnaraðili hafi greitt fyrir vörurnar að hluta en óseldar vörur úr þessari sendingu séu enn í vörslum varnaraðila án þess að vera þar sérgreindar frá öðrum eldri birgðum.
Eins og gögn málsins staðfesti þá hafi sóknaraðili þegar hafið innheimtumál á hendur varnaraðila, eins og sjá megi af innheimtubréfi frá 27. október sl. Innheimta sóknaraðila á skuld varnaraðila, sem sannanlega sé til staðar, staðfesti viðurkenningu sóknaraðila á yfirfærslu eignarréttar yfir vörunum, sem sóknaraðili seldi varnaraðila samkvæmt reikningi á dómskjali 11. Því sé ljóst að allar forsendur skorti að lögum til þess að gerðin nái fram að ganga og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili vísar til aðfararlaga nr. 90/1989, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á sömu lögum. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þar sem varnaraðili hafi ekki frádráttarrétt á móti þeim skatti sé honum nauðsynlegt vegna skaðleysissjónarmiða að þess verði gætt við ákvörðun málskostnaðar.
III.
Kröfu sína, um beina innsetningu í vörur í vörslum gerðarþola, byggir gerðarbeiðandi á skjali dagsettu 5. júní sl. Það ber titilinn „Agreement of Purchase”. Efni þess er svohljóðandi:
„Undersigned parties, Pace Productions International (seller) and Pace Island EHF (buyer) hereby agree to following purchase:
Seller agrees to sell and buyer agrees to buy following items:
Qty Pkg Description No
500 5-gal AlumaChron Graystone [#9130-2] 100
500 5-gal AlumaChron White [#9130-1] 100
500 5-gal AlumaChron Black [#9130-9] 100
500 5-gal AlumaChron RAL8011 [#9130] 100
500 5-gal AlumaChron Smoke Red [#9130-12], 100
100 5-gal AlumaChron Sandstone [#9130-8] 20
100 5-gal AlumaChron Natural Brown [#9130-11] 20
200 5-gal AlumaChron Horizon Blue [#9130-5] 40
200 5-gal AlumaChron Green Mist [#9130-10] 40
300 5-gal AlumaChron Metalic Gray [#9130-7] 60
100 5-gal AlumaChron WB White [#2030-1] 20
500 5-gal ScarnGuard+20% Grade [#9140] 100
100 5-gal Neoprene 66 Gray HBG [#9155-2] 20
25 5-gal ConcretePlus [#1000] 5
25 5-gal Rust Arrestor [#RRC-600] 5
10 rolls Fabron III 101 cm x 99m [#FF3-40”] 10
20 rolls Fabron III 4-in. roll (10cm) [#FF3-4”] 20
55 55-gal Toluene 1
The purchase price US$ 80.888 shall be paid as follows:
$ 30.000 Before a container with abovmentioned goods is shipped out.
$ 20.000 When the goods are being cleared through customs.
$ 31.888 60 days later.
In case of default the agreement becomes null and void. In that case the seller can demand a return of the sold goods, transported back to seller on buyers costs or to a location in Iceland decided by the seller.
Until the abovementioned goods have been fully paid the ownership remains the sellers.
June 5th 2004
_____________________ _______________________
John Fry Bergsteinn Ómar Óskarsson
Fyrirsvarsmaður varnaraðila, Jóhanna Hjördís Gunnarsdóttir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa stofnað félagið með móður sinni snemma árs 1999, en þáverandi sambýlismaður hennar, Bergsteinn Ómar Óskarsson, hefði átt viðskiptahugmyndina að fyrirtækinu. Hann hafi hinsvegar verið gjaldþrota og eignalaus og því hafi aldrei komið til að hann ætti hlutdeild í félaginu, sem hún og móðir hennar hafi einar lagt fé til. Hafi hún alla tíð haft prókúruumboð félagsins, ein.
Fyrirsvarsmaðurinn kvaðst ekki hafa vitað af tilvist skjalsins á dskj. 2, „Agreement of Purcase”, fyrr en eftir að þetta aðfararmál var komið af stað. Að hennar sögn hefðu viðskipti málsaðila aldrei byggst á skjali með yfirskriftina „Agreement of Purchase.” Við vörukaup hefði sóknaraðili ætíð fyllt vörupöntun varnaraðila inn á „Pro-Forma Invoice” og sent varnaraðila, en varnaraðili hefði svo samþykkt pöntunina með undirritun sinni og símsent til baka. Endurgjaldið hafi ætíð átt að greiða í þremur hlutum.
Ennfremur bar fyrirsvarsmaður varnaraðila að þeir skilmálar, sem settir eru fram í dskj. 2, hefðu aldrei áður verið settir fram í viðskiptum milli sóknaraðila og varnaraðila. Í fyrsta lagi hafi varnaraðila aldrei verið gert að undirgangast það skilyrði að flytja vörur, sem hann fengi frá sóknaraðila, til einhvers þriðja aðila á Íslandi eins og komi fram í skjalinu. Hún kvaðst hafa fengið bréf frá lögmanni sóknaraðila í byrjun október þar sem hún var beðin að greiða vörurnar eða færa þær ella á starfsstöð Almennra verktaka ehf., en lögmaður sóknaraðila sé einnig lögmaður Almennra verktaka ehf. Á þeim tíma hafi henni ekki verið kunnugt um skjalið. Taldi hún dskj. 2 hafa verið samið mun síðar en dagsetning þess gefur til kynna. Sá sem undirriti skjalið, af hálfu varnaraðila, sé fyrrverandi sambýlismaður hennar og einnig fyrrum starfsmaður varnaraðila en nú einn af fyrirsvarsmönnum Almennra verktaka ehf. Kvað hún hann hafa verið undirverktaka hjá varnaraðila frá því að fyrirtækið var stofnað 1999 og hafi hún ætíð treyst honum vel þar til í sumar þegar það tvennt gerðist, að nánar tilgreind breyting varð í lífi hans, svo og að annar maður, Jón Pálmason, hafi farið að reyna að skapa sér ítök í fyrirtækinu Pace Ísland.
Hún kvað varnaraðila hafa pantað vörur frá sóknaraðila 9. júní sl. og sé vörureikningur (Commercial Invoice) vegna þeirra dags. 17. ágúst sl. Þessar vörur hafi hún leyst úr tolli 16. september en hafi einhverntíma á tímabilinu 17. - 20. september sl. lokað vörurnar inni eftir að hún hafi komist að því að Bergsteinn Ómar, færi frjálslega með efnið á lagernum en bróðir Bergsteins, sem sé verkstjóri hjá Pace Ísland, og jafnan stýri aðgangi verktaka í efni á lagernum, hafi látið hana vita af þessu. Telur hún skjalið hafa verið samið í kjölfar þeirrar ráðstöfunar hennar að hefta aðgang Bergsteins Ómars að lagernum.
Fyrirsvarsmaður varnaraðila taldi einnig að grunsemdir hennar um að dskj. 2 hefði verið samið og undirritað eftir að hún lokaði aðgangi Bergsteins Ómars að vörulagernum fengju stoð í rafpóstsamskiptum Bergsteins Ómars og John Fry, fyrirsvarsmanns sóknaraðila, sem fóru fram 20. september og lögð voru fram í málinu. Einnig vísar hún til þess að ósamræmi sé milli dskj. 2 og pöntunarinnar sem gerð var 9. júní sl. (dskj. 3). Það standist ekki að „Agreement of Purchase” hafi verið gert áður en varnaraðili hafi pantað vörur frá sóknaraðila.
Að hennar sögn fóru þeir tveir, Bergsteinn Ómar og Jón Pálmason, í sumar á fund John Fry, fyrirsvarsmanns Pace International og hafi tjáð honum að þeir hygðust koma á fót fyrirtæki með Pace vörur í Danmörku og Litháen, en fyrirtæki þeirra, Almennir verktakar ehf., hefði þegar pantað efni frá Pace International. Þeir hygðust einnig sinna verkefnum á Íslandi en Bergsteinn Ómar hefði meðal annars tekið frá Pace Ísland undirrituð verktilboð, andvirði tuga milljóna, og breytt mörgum þeirra yfir á nafn Almennra verktaka ehf.
Í öðru lagi fullyrti fyrirsvarsmaður varnaraðila að sóknaraðili hefði aldrei selt varnaraðila vörur með eignarréttarfyrirvara. Í viðskiptum þeirra hefði varnaraðili að jafnaði útvegað bankaábyrgð en það hefði ekki verið gert vegna pantananna í febrúar sl. og júní sl. Sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við að pöntunin í febrúar hafi ekki verið greidd á nákvæmlega á þeim dagsetningum sem jafnan var miðað við í þeirra viðskiptum.
Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga 90/1989 um aðför er sönnunarfærsla takmörkuð í málum þar sem krafist er beinnar aðfarar. Sóknaraðili þarf að geta sýnt fram á ótvíræðan rétt sinn einvörðungu með sýnilegum sönnunargögnum svo og aðilaskýrslu sinni ef henni verður komið við. Telji héraðsdómari varhugavert að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem sóknaraðili hefur lagt fram verður dómari að hafna beiðninni, sbr. 3. mgr. 83. gr.
Sóknaraðili hefur enga skýringu gefið á því, afhverju hann hafi ákveðið að gera þá kröfu til varnaraðila, kæmi til vanefnda, að flytja skyldi vörurnar til þriðja aðila að vali sóknaraðila. Hann hefur hinsvegar skýrt eignarréttarfyrirvarann með því að sóknaraðila hefði verið nauðsynlegt að tryggja sig gegn hugsanlegum vanefndum varnaraðila úr því varnaraðili hafi ekki fengið bankaábyrgð vegna varanna sem pantaðar voru í júní sl. Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi aldrei krafist bankaábyrgðar vegna pöntunarinnar í júní sl.
Vegna sönnunarstöðu í þessu máli eru ekki tök á að taka afstöðu til þeirrar fullyrðingar fyrirsvarsmanns varnaraðila að dskj. 2 sé samið tæpum eða rúmum fjórum mánuðum síðar en dagsetning þess gefur til kynna og þá eftir að sá sem undirritaði það fyrir hönd varnaraðila hafði hætt störfum hjá varnaraðila.
Fyrirsvarsmaður varnaraðila kvaðst oftast hafa staðfest vörupantanir, en einnig hefði Bergsteinn Ómar oft undirritað þær og símsent þær til sóknaraðila, þrátt fyrir að einungis hún hefði átt að gera það, þar sem einungis hún hafi prókúru fyrir fyrirtækið. Hinsvegar hafi Bergsteinn Ómar ekki haft nokkurt umboð til að undirrita fyrirvara eins og settir séu fram á dskj. 2.
Sóknaraðili ber því við að hann hafi hvorki vitað né mátt vita að Bergsteinn Ómar hefði ekki umboð til að gera samninga fyrir hönd varnaraðila eða að umboð hans væri takmarkað á einhvern hátt. Þessu mótmælir fyrirsvarsmaður varnaraðila og fullyrðir að John Fry hafi verið fullkunnugt um það að hún ein bæri ábyrgð á samningum fyrirtækisins. Þessu til stuðnings bendir hún á misvísandi fullyrðingar John Fry um hlutverk og stöðu Bergsteins Ómars innan Pace Ísland, sem sjá megi af gögnum málsins, meðal annars dskj. 16 og dskj. 30 sem bæði séu dagsett í október 2004.
Fyrir liggur að skjalið „Agreement of Purchase”, sem krafa um innsetningu byggist á, er nýmæli í viðskiptum aðila. Fyrirvararnir sem sóknaraðili setur þar fram, eru að sumu leyti óvenjulegir og báðir mjög íþyngjandi fyrir varnaraðila. Slíkir fyrirvarar hafa ekki áður verið settir fram í viðskiptum aðila. Þessir fyrirvarar eru ekki samþykktir af fyrirsvarsmanni varnaraðila, sem ein hefur prókúru fyrir fyrirtækið. Fyrirsvarsmaður varnaraðila mótmælir því að starfsmaður hennar hafi haft heimild eða umboð til að undirrita slíka skilmála. Að mati dómara verður ekki skorið úr álitaefnum varðandi umboð og heimild Bergsteins Ómars til að skuldbinda varnaraðila nema í máli þar sem sönnunarfærsla er ekki takmörkuð. Þar sem svo mikill vafi leikur á um tilurð og gildi eignarréttarfyrirvarans þykir varhugavert að láta gerðina ná fram að ganga.
Þessu til viðbótar kemur að krafan, eins og hún er sett upp í aðfararbeiðninni, tekur til ákveðins fjölda fatna af ákveðnum litum efnisins Aluma Chron. Engu að síður krefst sóknaraðili þess að fá afhentar þær vörur sem hann kveðst hafa selt varnaraðila 5. júní sl. með eignarréttarfyrirvara. Í málflutningi vísaði hann til þess að á dskj. 14 séu tilgreind framleiðslunúmer (framleiðsludagur) þeirra vörutegunda sem pantaðar voru 9. júní sl. Til þess að unnt sé að greina þær vörur frá eldri vörum hefði þurft, í aðfararbeiðninni, að tilgreina þessi framleiðslunúmer, til viðbótar við greind litanúmer, þannig að ekki yrðu við aðförina teknar aðrar vörur en þær sem sóknaraðili byggir á að hann sé enn eigandi að vegna greiðsludráttar varnaraðila. Ekki verður nú, með útskýringum í málflutningi, bætt úr því að sóknaraðili tilgreinir ekki nógu nákvæmlega, í aðfararbeiðninni, auðkenni þeirra vara sem hann heldur fram að hann eigi tilkall til.
Samkvæmt framansögðu og með sérstakri vísan til seinni málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til að hin umbeðna aðfarargerð nái fram að ganga. Því verður að hafna kröfu sóknaraðila um beina aðfarargerð á hendur varnaraðila.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu sóknaraðila, Pace Products International Inc. um beina aðfarargerð á hendur varnaraðila, Pace Ísland ehf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.