Hæstiréttur íslands
Mál nr. 657/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 11. október 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. nóvember 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að rannsókn á alvarlegri líkamsárás sem hafi átt sér stað á heimili við [...] í Reykjavík að kvöldi 3. október sl. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A legið, hér eftir brotaþoli, í stofu íbúðarinnar með stungusár á kvið. Hafi hann í kjölfarið verið fluttur á slysadeild. Upplýsingar hafi borist lögreglu í framhaldi um að fimm aðilar hefðu hlaupið frá [...] og ekið á brott á bifreiðinni [...]. Öryggismyndavélar séu í sameign hússins og hafi lögregla skoðað myndefni úr þeim. Á upptökunum sjáist fimm aðilar koma að [...] á bifreiðinni [...] og fari inn í húsið. Stuttu seinna hafi sömu aðilar sést koma hlaupandi út úr húsinu og aka í burtu. Hafi lögregla þekkt einn aðila, B, á upptökunum og haft samband við hann. B hafi skömmu síðar gefið sig fram við lögreglu og verið handtekinn.
Lögregla hafi yfirheyrt vitnið C sem hafi verið staddur á vettvangi þegar árásin hafi átt sér stað. Fram hafi komið hjá vitninu að hann hafi verið ásamt hópi fólks á heimili við [...] þegar þangað hafi ruðst inn 4-5 menn sem hafi sprautað „macei“ framan í vitnið. Hafi vitnið sagt að tveir úr hópi árásarmannanna hafi verið með kjöthnífa á lofti. Hafi þeir farið að brotaþola og sagt að hann skuldaði þeim pening og í framhaldi stungið brotaþola með hnífunum. Vitnið hafi þá sagst ætla að kalla eftir aðstoð lögreglu og þá hafi mennirnir hlaupið út. Framburður annarra vitna sem stödd hafi verið á vettvangi sé til samræmis við framangreint.
Brotaþoli málsins hafi verið yfirheyrður 2. og 4. október sl. Hafi brotaþoli lýst því að hafa verið heima hjá félaga sínum þegar þangað hefðu ruðst inn kærði, B og D auk tveggja annarra sem hann vissi ekki hverjir væru. Í framhaldi hafi tveir mannanna, kærði og D, ráðist að brotaþola vopnaðir hnífum og annar þeirra stungið hann. Þá hefði B í framhaldi slegið brotaþola með gítar.
Við skoðun á slysadeild hafi brotaþoli verið stunginn með löngum hníf fyrir neðan nafla. Samkvæmt vakthafandi lækni hafi hnífurinn farið inn í kviðarholið og hafi verið um lífshættulegan áverka að ræða. Brotaþoli hafi farið í aðgerð eftir komu á slysadeild og hafi í kjölfarið legið á gjörgæslu vegna áverka sinna.
Fram kemur í greinargerð að í yfirheyrslu af E hafi hann viðurkennt að hafa farið með kærða, D, F, B og manni sem hann hafi ekki þekkt að [...] til að vísa þeim á brotaþola. Sagðist E hafa hringt dyrabjöllu á húsnæðinu og fengið húsráðandann til að opna fyrir þeim. Kærði, D, F og B hafi síðan farið inn en hann hafi sjálfur farið heim til sín eftir það. E kannaðist við sjálfan sig og framangreinda aðila á upptökum úr [...].
B hafi verið yfirheyrður af lögreglu. Hann kannast við að hafa verið á vettvangi umrætt sinn og kannast við að hafa slegið brotaþola með gítar. B neiti að hafa séð nokkurn mann með hníf í átökum við brotaþola og neiti að upplýsa um hverjir fóru með honum í [...]. B kannist við sjálfan sig á upptökum úr öryggismyndavélum við [...].
D neiti sök. Hann kannast við að hafa verið með B umrætt kvöld en neiti að hafa verið í [...] á þeim tíma sem árásin hafi átt sér stað. D kannist hinsvegar við að hafa verið þar fyrr um daginn. D kveðst ekki kannast við sjálfan sig á myndum úr öryggismyndavélum úr [...].
F sagðist í skýrslutöku hjá lögreglu hafa farið ásamt D, F, B og kærða að [...] til að hitta brotaþola. Þeim hafi verið hleypt inn í íbúð sem brotaþoli hafi verið gestkomandi í og þar hafi hann séð kærða stinga brotaþola með hnífi. F kannist við sjálfan sig, D, B og kærða á upptökum úr eftirlitsmyndvél úr [...].
Kærði viðurkenni að hafa stungið brotaþola. Sagðist kærði hafa farið að [...] í þeim tilgangi að hitta brotaþola og stinga hann.
Kærði hafi þann 7. október sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 357/2017 verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag sem staðfest var með dómi Hæstaréttar þann 9. október sl.
Kærði liggi samkvæmt framangreindu undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20 gr. hegningarlaga, eða til vara gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi, með því að hafa ráðist á brotaþola vopnaður hníf og stungið hann í kviðinn. Kærði viðurkenni sök og segist hafa komið á heimilið við [...] í þeim tilgangi að stinga brotaþola. Sé ljóst að beiting vopnsins og staðsetning áverkans sé lífshættuleg og mátti kærða vera það ljóst. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat lögreglustjóra að brot kærða sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hann gangi ekki laus meðan mál hans sé til meðferðar hjá lögreglu og dómstólum.
Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum getur varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða:
Eins og rakið hefur verið krefst sóknaraðili að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en tilefni kröfunnar hefur verið rakin. Samkvæmt framangreindu ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Kærði hefur játað að hafa veist að brotaþola með hnífi í íbúð í [...] að kvöldi 3. október sl. og fær það jafnframt stoð í frásögn vitna. Fyrir liggur að stunguáverki var á brotaþola á kvið og virðist hnífurinn hafa farið í gegnum kviðvegginn og lífhimnu fyrir neðan nafla. Samkvæmt áverkavottorði sem lagt hefur verið fram getur hnífsstunga sem þessi verið lífshættuleg og valdið dauða. Í þessu ljósi ber að fallast á það með sóknaraðila að kærði sé undir sterkum grun um annað hvort tilraun til manndráps, sbr. 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eða hættulega líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þessi brot geta að lögum varðað 10 ára fangelsi eða meira. Þegar litið er til eðli brotsins og þess sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila um aðdraganda þess ber að fallast með sóknaraðila að að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt og verður kærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. nóvember nk. kl. 16.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. nóvember 2017 kl. 16:00.