Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2008


Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Kærumál
  • Niðurfelling máls


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2008.

Nr. 90/2008.

Viktor Sveinn Viktorsson

(Daníel Isebarn Ágústsson hdl.)

gegn

Staðsetningu ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

S stefndi V til greiðslu reiknings vegna vinnu við lóð tiltekins húss. Þegar komið var að fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins felldi S það niður, en V krafðist málskostnaðar. Með hinum kærða úrskurði var málið fellt niður og S gert að greiða V 275.000 krónur í málskostnað. Í dómi Hæstaréttar var vísað til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og með hliðsjón af umfangi málsins og kostnaði sem V hafði af öflun matsgerðar var S gert að greiða V 800.000 krónur í málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2008, þar sem kveðið var á um greiðslu málskostnaðar í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem jafnframt var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 1.061.533 krónur í málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili höfðaði málið með stefnu 22. janúar 2007 til að fá sóknaraðila dæmdan til greiðslu skuldar samkvæmt reikningi 26. júní 2006 að fjárhæð 2.081.899 krónur ásamt dráttarvöxtum frá útgáfudegi hans og málskostnaði. Eftir hljóðan reikningsins og fylgigagna með honum var hann gerður vegna vinnu við lóð að Hraunbæ 24 í Hveragerði. Sóknaraðili tók til varna í málinu og krafðist aðallega sýknu af kröfu varnaraðila, en til vara að hún yrði lækkuð. Aðalkröfuna reisti sóknaraðili á því að varnaraðili væri rangur aðili að kröfu á hendur sér vegna þessa verks, en fyrir varakröfunni færði hann meðal annars þau rök að umkrafin verklaun væru of há miðað við umfang verksins og annmarkar hafi einnig verið á því. Þessu til stuðnings leitaði sóknaraðili eftir því 12. mars 2007 að dómkvaddur yrði maður til að leggja mat á nánar tilgreind atriði. Matsgerð, sem lokið var af þessu tilefni 29. október 2007, var lögð fram á dómþingi 15. nóvember sama ár og var málinu þá frestað til þinghalds 29. sama mánaðar, þar sem ákveðin var aðalmeðferð þess 24. janúar 2008. Þegar til hennar kom felldi varnaraðili málið niður, en sóknaraðili hélt til streitu kröfu um málskostnað. Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 275.000 krónur í málskostnað.

Samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem sóknaraðili lagði fram þegar taka átti málið til aðalmeðferðar í héraði, var útlagður kostnaður hans vegna framangreindrar matsgerðar alls 252.726 krónur, en þóknun lögmanns fyrir vinnu við málið í 54,25 klukkustundir 649.644 krónur auk 159.163 króna í virðisaukaskatt. Heildarfjárhæð reikningsins var því 1.061.533 krónur. Með því að varnaraðili felldi niður málið bar honum samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að greiða sóknaraðila málskostnað. Sóknaraðila var þörf á matsgerð til stuðnings varakröfu sinni og verður að telja útgjöld af henni til málskostnaðar hans þótt ekki hafi reynt á sönnunargildi hennar úr því að varnaraðili felldi niður málið. Þegar það og umfang málsins er virt verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 800.000 krónur í málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði, sem ákveðinn er eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði hins kærða úrskurðar um niðurfellingu málsins er óraskað.

Varnaraðili, Staðsetning ehf., greiði sóknaraðila, Viktori Sveini Viktorssyni, 800.000 krónur í málskostnað í héraði og 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2008.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um niðurfellingu málsins og málskostnaðarkröfu stefnda á hendur stefnanda 24. janúar s.l., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Staðsetningu ehf., Hávallagötu 40, Reykjavík, á hendur Viktori S. Viktorssyni, Hraunbæ 24, Hveragerði, með stefnu birtri 24. janúar 2007.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefnda yrði gert að greiða stefnanda 2.081.899 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 26. júní 2006 til greiðsludags, auk málskostnaðar, samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefndu voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega.  Þá var krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Í þinghaldi hinn 24. janúar 2008, er fara skyldi fram aðalmeðferð málsins óskaði stefnandi eftir því, að málið yrði fellt niður og krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. 

Var málið tekið til úrskurðar.

II

Málið var þingfest 13. febrúar 2007 og frestað til 13. mars 2007 til framlagningar greinargerðar.  Málið fór út af hinu reglulega dómþingi hinn 13. mars 2007, er greinargerð hafði verið lögð fram af hálfu stefnda. 

Undirritaður dómari fékk málinu úthlutað 1. apríl 2007.  Var það því næst tekið fyrir hinn 17. apríl 2007 og frestað, að ósk lögmanns stefnda, til framlagningar matsbeiðni, til 27. apríl 2007.  Á dómþingi hinn 27. apríl 2007 var dómkvaddur matsmaður og var málinu frestað til 14. júní 2007 til framlagningar matsgerðar.  Í því þinghaldi var málinu frestað til 3. september 2007, þar sem matsbeiðni lá ekki fyrir.  Málið var ekki tekið fyrir hinn 3. september 2007 heldur frestað utan réttar til 15. nóvember 2007, þar sem matsgerð lá enn ekki fyrir.  Í þinghaldi hinn 15. nóvember 2007 óskaði lögmaður stefnanda eftir að fresta málinu til þess að kynna sér efni matsgerðarinnar, sem þá var lögð fram.  Málinu var frestað í því skyni til 29. nóvember 2007.  Í þinghaldi hinn 27. nóvember 2007 var málinu frestað til aðalmeðferðar til 24. janúar 2008.  Í því þinghaldi óskaði stefnandi eftir að fella málið niður.  Eins og áður greinir krafðist lögmaður stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.            

Mál þetta var höfðað til greiðslu á reikningi, útgefnum 26. júní 2006 með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 2.081.899, vegna vinnu stefnanda við lóð stefnda að Hraunbæ 24, Hveragerði.  Stefndi hélt uppi vörnum með greinargerð, sem lögð var fram hinn 13. mars 2007 og byggði sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, en til vara m.a. á því, að krafan væri alltof há miðað við það verk sem unnið hefði verið á lóð Hraunbæjar 24, Hveragerði, að verkinu væri ábótavant og að kaupandi, stefndi í málinu hefði greitt fyrir efni, sem notað hafi verið í lóðarvinnuna, og bæri að draga þá fjárhæð frá andvirði kröfunnar.  Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu var haft eftir lögmanni stefnda, að stefndi hefði beðið fyrirtækið 5x ehf. um verkið og hygðist hann gera upp reikninginn við það fyrirtæki.

Þar sem stefnandi óskaði eftir að málið yrði fellt niður, ber samkvæmt c lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að verða við þeirri kröfu.

Samkvæmt lyktum málsins ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað.  Með hliðsjón umfangi málsins, fjölda fyrirtaka þykir málskostnaður hans hæfilega ákveðinn 275.000 krónur.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnda.  Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu nýtist matsgerð ekki og verður stefndi því sjálfur að bera kostnað af henni.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málið er fellt niður.

Stefnandi, Staðsetning ehf., greiði stefnda, Viktori S. Viktorssyni, 275.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.