Hæstiréttur íslands

Mál nr. 562/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 1. október 2010.

Nr. 562/2010.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 4. október 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess aðallega að sér verði ekki gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstíma en til vara að einangruninni verði markaður skemmri tími. Loks krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

     Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2010.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 5. október nk. kl. 16:00 á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Lögreglustjóri krefst þess að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. 

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að í gærmorgun, mánudaginn 27. september 2010, hafi verið  óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] þar sem maður hafi ruðst inn í húsið og gengið þar berserksgang. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola og tvö vitni. Mikið hafi blætt úr höfði brotaþola og hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið á vettvang. Í herberginu hafi mátt sjá mikið blóð á gólfi, blóðkám á veggjum og á rúmi. Gerandinn hafi yfirgefið vettvang en vitni gefið lýsingu á manninum og náð skráningarnúmeri bifreiðarinnar, [...], sem kallað hafi verið út til lögreglumanna.  Hafi bifreiðin verið stöðvuð við [...] í Reykjavík og kærði handtekinn. Í bifreiðinni hafi fundist blóðugt hnúajárn og blóðugir vettlingar, en jafnframt hafi verið blóð á peysu kærða.

Brotaþoli hafi hlotið alvarlega áverka af atlögunni en samkvæmt skoðun réttarmeinafræðings á áverkum brotaþola hafi að öllum líkindum verið beitt barefli við verknaðinn. Ekki verði betur séð en að atlagan hafi aðallega beinst að höfði brotaþola.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og enn eigi eftir að rannsaka vettvang, tengsl kærða við brotaþola,  hvaða verkfæri hafi verið beitt og taka skýrslur af brotaþola og öðrum vitnum. Brotaþoli hafi ekki þorað að tjá sig af ótta við hefndaraðgerðir.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði neitað að tjá sig.

Ljóst sé af ummerkjum á vettvangi og áverkum brotaþola að hér sé um að ræða hrottafengna atlögu með hættulegu vopni og hending ein hafi ráðið því að ekki hlaust af mannsbani. Brotið geti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Það sé mat lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir málsins mæli eindregið með því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og að honum verði gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstímanum á grundvelli b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem rannsókn málsins sé skammt á veg komin og hætta sé á að kærði muni geta torveldað hana ef hann sætir ekki einangrun.

Kærði hefur neitað að tjá sig um sakargiftir við skýrslutöku hjá lögreglu, en þegar hann kom fyrir dóm neitaði hann sakargiftum og vildi ekki tjá sig að öðru leyti.

Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings hafði brotaþoli talsverða áverka og er þeim lýst í skýrslunni.  Kemur fram að brotaþoli hafi haft ýmis sár og blæðingar mest megnis á höfði og hálsi, en jafnframt á handleggjum og brjósti.  Þá hafi hún kvartað undan verkjum í höfði, hálsi og brjósti.

Samkvæmt rannsóknargögnum var allnokkuð blóð á vettvangi.  Í viðræðum við vitni á vettvangi kom fram að árásarmaðurinn hefði ekið burt á bifreið með númerinu [...], og lýstu vitni útliti og klæðnaði árásarmannsins að nokkru leyti.  Samkvæmt rannsóknarskýrslu réttarmeinafræðings benda áverkar á brotaþola til þess að barefli eða öðru áhaldi hafi verið beitt við árásina. 

Þegar kærði var handtekinn var hann við akstur við [...] í Reykjavík, á bifreiðinni [...].  Kærði var klæddur í peysu sem samræmist lýsingu vitna, m.a. samrýmist áletrun á peysunni lýsingu vitna.  Lýsing á árásarmanninum fellur að útliti kærða.  Við leit í bifreið kærða fundust hnúajárn og svartir hanskar og mátti sjá blóðkám á hlutum þessum og var það staðfest með prófun tæknideildar lögreglu.  Þá mátti sjá blóðkám á peysu sem kærði var í við handtöku, skv. rannsóknargögnum.

Það er mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið þau afbrot sem vísað er til í kröfu lögreglustjóra og geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sannast.  Í kröfu lögreglustjóra eru meint brot kærða talin geta varðað við 2. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Í skýrslu réttarmeinafræðings kemur fram að megináverkar séu á höfði og andliti og er lýst a.m.k. fimm áverkum á því svæði.  Almennt geti svo kröftugt ofbeldi, sem brotaþoli hafi orðið fyrir, leitt til dauða, en brotaþoli hafi þó ekki verið í lífshættu.  Áverkar samrýmist því að barefli eða áhaldi hafi verið beitt.  Það er mat dómsins að ekki sé óvarlegt að telja að það árásarbrot sem kærði er grunaður um, geti talist varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með hliðsjón af áverkum og staðsetningu þeirra, sem og því að grunur er um að  hnúajárni eða öðru áhaldi hafi verið beitt.  Jafnframt er kærði grunaður um húsbrot skv. 231. gr. almennra hegningarlaga.  Í báðum tilfellum er kærði grunaður um brot sem geta varðað hann fangelsisrefsingu ef sannast.

Í kröfu lögreglustjóra, sem og við fyrirtöku málsins fyrir dómi, kemur fram að ekki hafi reynst unnt að taka skýrslu af brotaþola, en brotaþoli mun ekki hafa viljað tjá sig vegna ótta.  Eftir er að taka skýrslur af öðrum vitnum.

Samkvæmt framansögðu má fallast á það með lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins haldi hann frelsi sínu óskertu, s.s. með því að hafa áhrif á möguleg vitni, en af því hefur hann augljósa hagsmuni.

Þegar kærði var leiddur fyrir dóm var liðinn röskur sólarhringur frá handtöku.  Ekki þykir það koma að sök enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að slegið hafi verið slöku við frumrannsókn málsins í gær, en þess er að geta að lögregla hafði samband við dóminn vel innan við sólarhring frá handtöku kærða og óskaði eftir að leiða hann fyrir dóminn, en allir dómarar við dómstólinn voru þá við störf annars staðar.  Fyrir liggur að leit var gerð í bifreið kærða án þess að hann hafi heimilað leitina eða að annarrar heimildar hefði verið aflað.  Þykir þetta ekki geta réttlæst af rannsóknarhagsmunum en ekkert liggur fyrir um að brýn hætta hafi verið á að bið eftir úrskurði gæti valdið sakarspjöllum, en lögregla hafði lagt hald á bifreiðina ásamt öllu sem í henni var.  Ber að átelja þetta, en ekki þykja þó vera efni til að hafna kröfu um gæsluvarðhald af þessum sökum.

Kærði var handtekinn í gær.  Fyrir liggur að taka þarf skýrslur af nokkrum vitnum.  Þykir nægilegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 4.október nk.

Með vísan til þessa og á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður því fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 4. október 2010 kl. 16:00.  Kærði skal í gæsluvarðhaldinu sæta einangrun skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.