Hæstiréttur íslands
Mál nr. 103/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
- Aðfararheimild
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst héraðsdómi 13. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði meinað að leggja fram hluta nánar tilgreinds skjals. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði ,, synjað um framlagningu dómskjals 4, sem merkt er 12.1 og þeirra gagna sem af því leiða.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í máli þessu er varnaraðila gefið að sök að hafa 20. október 2015 ekið bifreið, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, um [...], þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Í þágu rannsóknar málsins var varnaraðila, í framhaldi af því að lögregla stöðvaði akstur hans umrætt sinn, tekið blóðsýni til lyfjarannsóknar vegna rökstudds gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 10. nóvember 2015 taldist varnaraðili hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið, sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Skjal þetta, ásamt öðrum rannsóknargögnum málsins, var lagt fram af hálfu ákæranda við þingfestingu þess 7. september 2016.
Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 leggur ákærandi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn málsins og sönnunargildi hafa að hans mati. Ákærandi hefur metið það svo að fyrrgreint skjal, sem aflað var við rannsókn málsins, ásamt þeim skjölum sem því tengjast, hafi sönnunargildi í málinu. Þau andmæli sem varnaraðili teflir fram vegna öflunar þessara sönnunargagna koma til úrlausnar við efnismeðferð málsins, en leiða ekki til þess að framlagningu þeirra verði synjað. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2017.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 14. júní 2016, á hendur X fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 20. október 2015 ekið bifreiðinni [...] óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 22 ng/ml) um [...], þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Brot ákærða er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
Málið var þingfest 7. september 2016 og gögn málsins lögð fram. Ákærði sótti ekki þing heldur lögmaður hans sem var þá skipaður verjandi og er bókað af því tilefni að það hafi verið ósk ákærða. Við næstu fimm fyrirtökur, 21. september, 19. október, 26. október, 16. nóvember og 14. desember sl., sótti ákærði ekki þing heldur verjandi hans. Ekki voru bókaðar skýringar á fjarveru ákærða utan eitt skipti en þá var bókað að hann væri á sjúkrahúsi. Í síðastgreindu fyrirtökunni er bókað að sækjandi hyggist láta handtaka ákærða og færa fyrir dóminn. Í fyrirtöku 11. janúar sl. mætti ákærði ásamt verjanda sínum og neitaði sök. Við það tilefni óskaði verjandinn eftir því að bókað yrði að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu yrði talið óheimilt að leggja fram til sönnunar í málinu blóðsýni og önnur sýni sem tekin voru í tengslum við handtöku ákærða, þar sem hann hafi aðeins verið 17 ára gamall á þeim tíma og hvorki notið aðstoðar barnaverndar né ráðlegginga forráðamanns. Málið fór í endurúthlutun til dómara.
Í fyrirtöku 10. febrúar sl. stóð til að birta ákærða nýja ákæru þar sem honum eru gefin að sök umferðarlagabrot, þjófnaður og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Verjandi hans mætti einn til þeirrar fyrirtöku og á ákærði því eftir að taka afstöðu til ákærunnar. Þá var tekin til úrskurðar áðurgreind krafa ákærða eftir að verjandi ákærða og sækjandi höfðu tjáð sig um hana.
Ákærði reisir kröfu sína á því að óheimilt sé að leggja fram til sönnunar matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dómskjal nr. 4 sem merkt er 12-1, og hefur að geyma niðurstöður rannsóknar á blóðsýni ákærða. Ástæða þess sé sú að hann hafi hvorki notið aðstoðar fulltrúa barnaverndarnefndar né forráðamanns þegar hann var handtekinn og blóðsýni tekið úr honum. Blóðsýnisins sé því í reynd aflað með ólögmætum hætti og beri dómara að meina ákæruvaldinu um framlagningu gagna vegna rannsóknar þess.
Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að það sé á forræði þess á hvaða sönnunargögnum það reisi málatilbúnað sinn. Í þessu tilviki sé fyrrgreind matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði það sönnunargagn sem ákæruvaldið reisir málatilbúnað sinn á.
Framlagningu þess sönnunargagns sem hér er deilt um var eins og áður greinir andmælt af hálfu verjanda ákærða í sjöttu fyrirtöku eftir þingfestingu málsins en þá mætti ákærði í fyrsta skiptið með verjanda sínum og tók afstöðu til sakarefnisins. Samkvæmt 2. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 skiptir ekki máli hvenær yfirlýsingar, mótmæli og sönnunargögn koma fram undir rekstri málsins og er því ekki litið svo á að krafan sé of seint fram komin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram umrætt rannsóknargagn eða draga það til baka en fram kom við málflutning að skilja bæri kröfu ákærða á þann veg.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda verði kleift að henni lokinni að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Í 2. mgr. 134. gr. laganna segir að ákærandi leggi fram skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og hafa sönnunargildi að hans mati, sbr. einnig 154. gr. laganna. Það er því á forræði ákæruvaldsins að ákveða hvaða gögn eru lögð fram til að fullnægja sönnunarbyrði ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. laganna.
Ákærði sem var ökumaður bifreiðarinnar [...] var stöðvaður af lögreglu í akstri kl. 4:37 þann 20. október 2015. Hann var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en í frumskýrslu er lýst ákveðnum einkennum sem þóttu benda til þess. Ákærði var því handtekinn á vettvangi og segir í frumskýrslu lögreglu að honum hafi verið kynnt réttarstaða sín. Hann hafi ekki óskað eftir verjanda eða að nákomnum yrði gert viðvart um handtökuna. Farið var fram á að ákærði skilaði þvagsýni sem hann gat ekki gefið. Þá tók hjúkrunarfræðingur úr honum blóðsýni. Að þessu loknu var haft samband við móður ákærða sem hvorki vildi taka við ákærða né ræða við hann. Þá var haft samband við barnaverndarnefnd Kópavogsbæjar sem vildi ekkert aðhafast í málinu. Ákærði var þá látinn laus en engin formleg skýrslutaka fór fram enda gaf sakarefnið ekki tilefni til þess.
Í X. kafla laga nr. 88/2008 er fjallað um leit og líkamsrannsókn. Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laganna er heimilt að taka blóð- og þvagsýni og önnur lífsýni úr sakborningi og rannsaka þau, svo og að framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn í þágu rannsóknar sem gerð verður honum að meinalausu, enda leiki rökstuddur grunur á að hann hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.
Í VIII. kafla laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um skýrslutökur við rannsókn. Í 2 ml. 1. mgr. 61. gr. segir að ef taka á skýrslu af sakborningi yngri en 18 ára vegna ætlaðs brots gegn almennum hegningarlögum eða brots gegn öðrum lögum, sem getur varðað þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, skal tilkynna það barnaverndarnefnd sem getur sent fulltrúa sinn til að vera við skýrslutökuna.
Í XIII. kafla laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um handtöku. Þá er í reglugerð nr. 651/2009 að finna reglur um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Í I. kafla þeirrar reglugerðar er fjallað um tilkynningar til vandamanna handtekinna manna. Þar segir í 1. gr. að maður sem hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar máls eigi rétt á að hafa samband við lögmann þegar eftir handtöku, sömuleiðis nánustu vandamenn sína. Ef handtekinn maður er yngri en 18 ára skal þá þegar hafa samband við foreldra hans og fulltrúa barnaverndarnefndar og hvetja þá til að koma án tafar á lögreglustöð.
Samkvæmt 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 má enginn stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt 47. gr. laganna er ökumanni, sem grunaður er um brot á fyrrgreindu ákvæði, skylt að kröfu lögreglu að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- og munnvatnssýnapróf. Þá getur lögreglan fært ökumann til rannsóknar á sýnunum eða til blóð- og þvagrannsóknar. Brot á umferðarlögum, eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 50/1987.
Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal manni eigi refsað fyrir verknað sem hann framdi áður en hann varð 15 ára gamall. Í 18. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um tilkynningaskyldu og skýrslutöku af börnum. Í 2. ml. 1. mgr. ákvæðisins segir að þegar grunur leiki á að barn hafi framið brot gegn almennum hegningarlögum eða brot gegn öðrum lögum sem varðað getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldri barns um slíkt mál mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því.
Í athugasemdum í greinargerð með 8. gr. laga nr. 80/2002, um breytingu á barnaverndarlögum, segir um þær breytingartillögur á tilkynningaskyldu lögreglunnar á refsiverðum brotum barna, að lögin hefðu þá að geyma ákvæði sem skyldaði lögreglu til þess að tilkynna barnaverndarnefnd öll tilvik þar sem grunur léki á að refsiverður verknaður hefði verið framinn af barni eða gegn barni. Lagt var til að dregið yrði úr þeirri víðtæku skyldu og tekið upp orðalag til samræmis við fyrrgreinda 61. gr. laga nr. 88/2008. Ein helsta breytingin yrði sú að brot á umferðarlögum væri ekki lengur tilkynningarskyld.
Ákærði var grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Eins og rakið hefur verið er ekki að finna ákvæði í lögum eða reglugerðum sem leggur skyldu á herðar lögreglu, til þess að tilkynna slíkt forráðamanni barns undir 18 ára aldri, sem grunað er um slíkt brot, áður en framkvæmd eru nauðsynleg próf eða blóðsýni tekin. Ljóst er að lögreglu er ætlað svigrúm til mats á því hvenær það skal gert. Þá ber lögreglu ekki skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um umferðarlagabrot nema því aðeins að 16. gr. barnaverndarlaga eigi við. Fyrir liggur að forráðamanni ákærða og barnaverndarnefnd var tilkynnt um meint brot ákærða, í samræmi við ákvæði reglugerðar 651/2009, en þau töldu ekki ástæðu til að afhafast nokkuð.
Það gagn sem hér er deilt um er grundvallargagn í máli þessu og telst eðli máls samkvæmt ekki þarflaust við sönnunarfærslu í málinu. Þess var aflað í þágu rannsóknar málsins með lögmætum hætti og er hluti þeirra gagna sem ákæruvaldinu var rétt að leggja fram við meðferð málsins fyrir dómi. Verður ákæruvaldinu hvorki meinað að leggja það fram í málinu né gert að draga það til baka. Verður kröfu ákærða því hafnað.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu ákærða um að ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram þann hluta dómskjals nr. 4 sem merkt er 12-1 eða því gert að fella skjalið úr rannsóknargögnum málsins.