Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2003


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Fasteignakaup
  • Gagnaöflun
  • Vextir
  • Kyrrsetning


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. maí 2004. 

Nr. 443/2003.

K

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

M

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Óvígð sambúð. Fasteignakaup. Gagnaöflun. Fyrning. Vextir. Kyrrsetning.

K og M voru í óvígðri sambúð með hléum frá hausti 1998 til vors 2002. Í málinu lá fyrir að K hafði greitt tilteknar fjárhæðir inn á bankareikning M fyrsta ár sambúðartímans sem hún kvað að hluta hafa verið söluandvirði íbúðar sem hún seldi í apríl 1999. Deildu aðilar um það hvers vegna hún hefði lagt féð inn á reikning M. Hélt K því fram að hún og M hefðu samið um að með þessum fjárframlögum skyldi hún eignast hlutdeild í fasteign M þar sem þau bjuggu á sambúðartímanum. Taldist K hafa sannað nægilega að hún hefði innt féð af hendi í þessum tilgangi. Var fallist á að forsendur samkomulagsins hefðu brostið er sambúð aðilanna lauk og K þá öðlast rétt til endurgreiðslu á því fé sem hún lét af hendi. Var M hvorki talinn hafa sýnt fram á að fénu hafi verið varið til þarfa K sjálfrar né að það hafi verið gert með samþykki hennar. Var jafnframt staðfest kyrrsetning í fasteign M fyrir umræddum fjárhæðum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. nóvember 2003. Krefst hún þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.667.873 krónur með vöxtum samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 4. nóvember 1998 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 12. desember 2002, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að staðfest verði kyrrsetning 14. janúar 2003 í fasteign stefnda að [...] fyrir tildæmdum fjárhæðum. Loks gerir áfrýjandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málsaðilar voru í óvígðri sambúð með hléum frá hausti 1998 til vors 2002. Er óumdeilt að á tímabilinu frá 4. nóvember 1998 til 24. nóvember 1999 greiddi áfrýjandi inn á bankareikning stefnda samtals 5.580.000 krónur með tólf greiðslum. Kveður áfrýjandi féð hafa að hluta verið söluandvirði íbúðar að [...] í Reykjavík, sem hún seldi 15. apríl 1999. Hugðust aðilarnir ganga í hjónband og heldur áfrýjandi fram að þau hafi samið um að með þessum fjárframlögum til stefnda skyldi hún eignast hlutdeild í fasteign hans að [...] þar sem þau bjuggu á sambúðartímanum. Ekki kemur þó skýrt fram hver sú eignarhlutdeild skyldi vera, sem áfrýjandi hafi átt að fá með þessu. Stefndi mótmælir því að samningur þessa efnis hafi komist á. Hafi hann varið fénu með ýmsum hætti í þágu áfrýjanda í samræmi við hennar eigin ákvarðanir, svo sem hann hefur skýrt nánar í einstökum atriðum. Við aðalmeðferð málsins í héraði lækkaði áfrýjandi tvo af tólf liðum kröfu sinnar og féll frá einum. Féllst hún á að því fé, sem nemur lækkun kröfunnar, hafi stefndi varið með tilteknum hætti í hennar þágu. Lækkaði hún kröfuna með þessu í 4.667.873 krónur, sem er jafnframt krafa hennar fyrir Hæstarétti. Málsatvik að öðru leyti og málsástæður aðila eru nánar raktar í héraðsdómi.

II.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms óskaði áfrýjandi eftir því að skýrslur yrðu teknar af sjö vitnum, sem var gert fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 17. desember 2003. Hefur endurrit skýrslnanna verið lagt fyrir Hæstarétt. Stefndi mótmælir því að þessi nýju gögn fái komist að í málinu, enda hafi áfrýjanda verið í lófa lagið að afla þeirra meðan málið var enn rekið fyrir héraðsdómi. Telur hann að í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála felist ekki heimild til að bæta fyrir handvömm við öflun gagna í héraði. Ekki verður fallist á mótmæli stefnda við því að áðurnefnd gögn fái komist að í málinu, en ekki ræður úrslitum um heimild áfrýjanda til að afla gagna nú að hún hafi átt þess kost á fyrri stigum að hlutast til um að skýrslur yrðu teknar af umræddum mönnum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. mars 2001 í máli nr. 98/2001.

Í framburði allra áðurnefndra vitna kom fram að þau hafi átt samtöl við málsaðila á sambúðartíma þeirra, þar sem þau síðastnefndu greindu frá áformum sínum eða ákvörðun þess efnis að áfrýjandi legði fram fé til að kaupa hlut í fasteign stefnda að [...]. Lýstu vitnin þessu hvert með sínum hætti, en í öllum tilvikum var það skilningur vitnanna eftir samtölin að áfrýjandi hefði þegar eða myndi með þessu eignast hlutdeild í nefndri fasteign. Í flestum tilvikanna fóru samtöl vitnanna fram við báða málsaðila samtímis. Stefndi, sem var viðstaddur skýrslutökurnar, kom einnig fyrir dóm. Gerði hann athugasemdir við framburð tveggja vitnanna, en vissi „ekki betur en að hin vitnin hafi sagt satt og rétt frá ...“. Kannaðist hann við að áform hafi verið uppi um að áfrýjandi myndi kaupa hlut í eigninni, en þeim hafi ekki verið hrint í framkvæmt. Í greinargerð sinni til héraðsdóms lýsti stefndi því svo að aðilar hafi „í hálfkæringi“ rætt um  að áfrýjandi myndi kaupa hlut í húsi hans eftir sölu á íbúð hennar við [...].

Aðilar málsins deila um það hvers vegna áfrýjandi greiddi áðurnefndar fjárhæðir inn á bankareikning stefnda. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, telst áfrýjandi hafa sannað nægilega að hún hafi innt féð af hendi til að eignast ótilgreindan hluta af fasteign stefnda á grundvelli samkomulags þess efnis milli þeirra. Verður jafnframt fallist á að forsendur samkomulagsins hafi brostið er sambúð aðilanna lauk og að áfrýjandi hafi þá öðlast rétt til endurgreiðslu á því fé, sem hún lét af hendi í þessu skyni, í stað þeirra umsömdu verðmæta, sem hún fékk ekki.

III.

Svo sem getið var að framan viðurkenndi áfrýjandi fyrir dómi að stefndi hefði varið hluta fjárins, sem hún lagði á bankareikning hans, í hennar þágu og lækkaði kröfuna í samræmi við það. Stefndi heldur á hinn bóginn fram að hann hafi ráðstafað öllu fénu, en ekki aðeins hluta þess, með þessum hætti og við það hafi hann fylgt ákvörðunum áfrýjanda sjálfrar. Eins og málið liggur fyrir hefur hann sönnunarbyrði fyrir því að fé, sem hann sannanlega tók við á grundvelli samkomulags um kaup áfrýjanda á hluta í fasteign hans, hafi hann engu að síður ráðstafað með þeim hætti, sem haldið er fram.

Í greinargerð stefnda í héraði er rakið í fjölmörgum liðum hvernig hann hafi ráðstafað áðurnefndum greiðslum áfrýjanda í hennar þágu. Varða hæstu einstöku fjárhæðirnar kaup hennar á Mercedes Benz bifreið, en innborganir áfrýjanda 7. og 12. júlí 1999, samtals 2.200.000 krónur, kveðst stefndi hafa notað í þessu skyni 8. og 13. sama mánaðar. Framlögð gögn í málinu varðandi innflutning bifreiðarinnar styðja ekki þessar staðhæfingar stefnda. Af 1.200.000 króna innborgun áfrýjanda 23. nóvember 1998 kveður stefndi 1.000.000 krónur hafa farið í kostnað er tengdist því að dóttir áfrýjanda flutti inn í [...] með henni við upphaf sambúðar málsaðila. Í greinargerð stefnda til héraðsdóms er því lýst svo að áfrýjandi hafi boðist til að greiða þá fjárhæð sem „framlag til heimilisrekstursins en stór hluti þessarar greiðslu var notaður til að búa til vistvænlegt herbergi fyrir dóttur stefnanda í íbúð stefnda.“ Nánar aðspurður fyrir dómi um þennan kostnað komu engar skýringar fram af hálfu stefnda, en áfrýjandi skýrði frá því að aðilarnir hafi málað herbergið, sem dóttir hennar fékk til afnota. Sá óverulegi kostnaður, sem af því kann að hafa hlotist, fór þannig til viðhalds á fasteign stefnda sjálfs. Er málsvörn hans um þennan lið haldlaus og engum gögnum studd. Aðrir liðir, sem stefndi kveðst hafa greitt af innborguðu fé áfrýjanda, eru allir mun lægri en þeir, sem að framan voru nefndir. Hefur hann hvorki sýnt fram á að fénu hafi verið varið til þarfa áfrýjanda sjálfrar né að það hafi verið gert með samþykki hennar.

Í greinargerð stefnda í héraði var því hreyft að ef litið yrði á greiðslur áfrýjanda sem lán til stefnda væri krafa hennar fallin niður fyrir tómlæti og fyrningu. Innborganir hennar verða ekki taldar lán, eins og að framan var rakið. Þótt þessi málsástæða stefnda sé ekki sett fram á markvissan hátt verður því engu að síður hafnað að áfrýjandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti um að halda kröfunni fram, en engu slíku var til að dreifa. Að því er varðar fyrningu ber að líta til þess að endurkrafa áfrýjanda gjaldféll þá fyrst er sambúð aðilanna lauk vorið 2002 og sýnt var að áfrýjandi yrði af þeim verðmætum, sem greiðslunum var ætlað að koma fyrir. Vörn stefnda, sem kann að vera reist á fyrningu, kemur því þegar af þeirri ástæðu ekki til álita.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður krafa áfrýjanda tekin til greina. Til stuðnings vaxtakröfu vísar áfrýjandi til 5. gr. vaxtalaga og 4. gr. laga nr. 38/2001 án þess að nánar sé skýrð sú heimild, sem stuðst sé við til að krefjast vaxta af ógjaldfallinni kröfu við þær aðstæður, sem hér eru fyrir hendi. Verður stefnda gert að greiða dráttarvexti af allri fjárhæðinni eins og krafist er, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en að öðru leyti eru ekki skilyrði til að dæma vexti af kröfu áfrýjanda.

Í samræmi við það, sem að framan greinir, verður staðfest kyrrsetning sýslumannsins í Hafnarfirði á fasteign stefnda að [...] fyrir þeim fjárhæðum, sem áfrýjanda eru dæmdar í málinu.

Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, M, greiði áfrýjanda, K, 4.667.873 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2002 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Staðfest er kyrrsetning 14. janúar 2003 í fasteigninni [...] fyrir framangreindum fjárhæðum.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2003.

                Mál þetta, sem dómtekið var 7. október sl. var höfðað með stefnu birtri 24. janúar 2003. Stefnandi er K, kt. […], […], en stefndi er M, kt. […], […].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að staðfest verði kyrrsetningargerð sú er framkvæmd var af fulltrúa Sýslumannsins í Hafnarfirði þann 14. janúar 2003, að fjárhæð kr. 6.676.410 sem gerð var í fasteigninni að […]. Þá er þess krafist af hálfu stefnanda að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 5.596.673 með vöxtum skv. 4. grein vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. desember 2002 til 12. desember 2002, en með dráttarvöxtum skv. 3. mgr. 5. grein vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags eða lægri upphæð að mati dómsins. Gerir stefnandi kröfu um að greiðslur stefnanda til stefnda á tímabilinu 1. nóvember 1998 til 1. nóvember 1999 sem hún gerir kröfu um að fá endurgreiddar verði uppreiknaðar miðað við lánskjaravísitölu frá þeim mánuði sem greiðslan var innt af hendi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að staðfest verði kyrrsetning sú er framkvæmd var af fulltrúa Sýslumannsins í Hafnarfirði þann 14. janúar 2003, að fjárhæð kr. 6.676.410 sem gerð var í fasteigninni að […]. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 4.667.873 auk vaxta skv. 5. grein vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 200.000 frá 4. nóvember 1998 til 12. nóvember sama ár, en af kr. 300.000 frá þeim degi til 23. nóvember sama ár, en af kr. 1.500.000 frá þeim degi til 24. nóvember sama ár, en af kr. 1.600.000 frá þeim degi til 2. desember sama ár, en af kr. 1.800.000 frá þeim degi til 15. júní 1999, en af kr. 1.905.000 frá þeim degi til 7. júlí sama ár, af kr. 2.905.000,- frá þeim degi til 12. júlí sama ár, en af kr. 4.105.000 frá þeim degi og til 26. ágúst það ár, en af kr. 4.205.000 frá þeim degi og til 3. september sama ár, en af kr. 4.637.872 frá þeim degi til 24. nóvember sama ár, en af kr. 4.667.872 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með vöxtum skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. desember 2002, en síðan með dráttarvöxtum skv. 3. mgr. 5. grein laga nr. 38/2001 frá 12. desember 2002 til greiðsludags eða aðra lægri upp­hæð að mati dómsins.

Þá krefst stefnandi þess, í báðum tilvikum, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts á málskostnað.

 

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

 

Í aðalkröfu stefnanda er þess krafist að greiðslur stefnanda inn á reikning stefnda verði uppreiknaðar miðað við lánskjaravísitölu frá þeim mánuði sem greiðslan var innt af hendi til greiðsludags. Ekki liggur fyrir neinn samningur milli aðila um að um hafi verið að ræða verðtryggt lán, eins og heimild er til að gera samkvæmt 14. grein l. nr. 38/2001, og þar sem ekki eru færð nein haldbær rök fyrir heimild til að uppreikna greiðslurnar með þessum hætti er aðalkröfu stefnanda hafnað. Verður því hér á eftir lögð til grundvallar varakrafa stefnanda.

 

Stefnandi og stefndi voru í óvígðri sambúð, með hléum, frá 1. september 1998 þangað til endanlega slitnaði upp úr sambandi þeirra vorið 2002. Ráðgerðu þau að ganga í hjónaband 1. janúar 2000, en ekkert varð úr þeim áformum vegna deilna þeirra um kaupmála sem stefndi vildi gera fyrir vígsluna. Ekki náðist samkomulag um skipti eftir að upp úr sambúðinni slitnaði og gerði stefnandi þá kröfu um opinber skipti með vísan til 100. grein skiptalaga nr. 20/1991. Þeirri kröfu var hins vegar hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 18. október 2002 á þeim forsendum að sambúð málsaðila hefði ekki staðið samfellt í tvö ár.

 

Greiðslur stefnanda inn á reikning stefnda nr. 0546-26-102103 sem deilt er um í máli þessu eru eftirfarandi:

Þann 4. nóvember 1998,      kr. 200.000.

Þann 12. nóvember s.á.,      kr. 100.000.

Þann 23. nóvember s.á.,      kr. 1.200.000.

Þann 24. nóvember s.á.,      kr. 100.000.

Þann 2. desember s.á.,         kr. 200.000.

Þann 15. júní 1999,               kr. 105.000.

Þann 7. júlí s.á.,                     kr. 1.000.000.

Þann 12. júlí s.á.,                   kr. 1.200.000.

Þann 26. ágúst s.á.,              kr. 100.000.

Þann 3. september s.á.,        kr. 432.873.

Þann 24. nóvember s.á.,      kr. 30.000.

 

Samanlagt námu þessar greiðslur kr. 4.667.873. Óumdeilt er að þessar greiðslur runnu inn á reikning stefnda en deilt er um af hvaða tilefni þær voru inntar af hendi.

Að sögn stefnanda voru umræddar greiðslur lagðar inn á reikning stefnda vegna samkomulags sem tekist hafi með þeim um að stefnandi eignaðist hlutdeild í fasteign stefnda að […]. Að sögn stefnanda var fjárhagsstaða stefnda erfið á umræddu tímabili þar sem hann hafi verið í veikindaleyfi og því fengið greidd minni laun en ella. Hafi því orðið að samkomulagi milli málsaðila að stefnandi léti stefnda fá þá peninga sem hann væri aflögufær um hverju sinni auk þess sem stefnandi seldi íbúð sína að […] til að fjármagna hlut sinn í eign stefnda að […]. Að sögn stefnanda voru málsaðilar einnig sammála um að stefnandi sæi að mestu um matarinnkaup og greiðslu símreikninga auk þess sem stefnandi greiddi fasteignagjöld og leigu á bílskúr fyrir bíl í eigu stefnda. Þá kveður stefnandi að samkomulag hafi verið um það milli málsaðila að vinnuframlag stefnanda yrði metið til verðmætasköpunar.

 

Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og því að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem stefnandi heldur fram. Hann hafnar því að hann hafi verið í nokkrum fjárhagsörðugleikum á umræddu tímabili og kveður laun sín ekki hafa lækkað á tímabilinu eins og stefnandi haldi fram, þar sem hann hafi haldið fullum launum þrátt fyrir óvinnufærni sökum slyss. Þá hafi hann, eftir að hann lét af störfum sem þyrluflugmaður, starfað sem sjálfstæður verktaki.

Að sögn stefnda varð það að samkomulagi milli málsaðilanna að stefnandi fengi afnot af bifreið stefnda, eða að hann keyrði stefnanda til og frá vinnu, en í staðinn myndi stefnandi greiða stefnda ökutækjastyrk sinn. Þá kveður stefndi að stefnandi hafi á umræddu tímabili lítið verið innanbæjar og því hafi hann sinnt ýmsum erindum fyrir stefnanda sem greitt hafi þann kostnað sem af því hafi hlotist inn á reikning stefnda. Að sögn stefnda gekk hann m.a. frá greiðslum á þremur bifreiðum sem stefnandi keypti á sambúðartíma þeirra. Þá kveður stefndi að hann hafi lánað stefnanda fyrir mörgum heimilismunum sem stefnandi hafi síðan endurgreitt stefnda með greiðslu inn á reikning hans. Þá kveður stefndi það af og frá að á hafi komist samningur eða samkomulag milli stefnanda og stefnda um að stefnandi myndi kaupa eignarhlutdeild í íbúð stefnda að […]. Telur stefndi að stefnandi hafi ekki lagt neitt fram til sönnunar þessari fullyrðingu og verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. meginreglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafnar stefndi því alfarið að forsendur fyrir millifærslunum hafi brostið við sambúðarslit þeirra þar sem greiðslurnar hafi verið til komnar vegna neyslu stefnanda sjálfs.

 

Í máli þessu er deilt um af hvaða tilefni ofangreindar greiðslur stefnanda inn á reikning stefnda voru inntar af hendi. Sú fullyrðing stefnanda að þær hafi verið ætlaðar til að stefnandi myndi eignast hlutdeild í fasteign stefnda að […], er hvorki studd gögnum né vitnaskýrslum og gegn eindreginni neitun stefnda verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að samkomulag þessa efnis hafi tekist milli málsaðila. Þá hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi verið í fjárhagsörðugleikum á umræddu tímabili. Þvert á móti kemur fram í afriti sameiginlegrar skattaskýrslu málsaðila vegna ársins 2000 að tekjur stefnda voru þá mun hærri en tekjur stefnanda. Hefur stefnanda því ekki tekist að renna stoðum undir þá fullyrðingu sína að hann hafi lánað stefnda umrætt fé vegna fjárhagsörðugleika stefnda.

Þótt óljóst sé í hvað sumar af umræddum greiðslum runnu hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi nýtt þær í eigin þágu. Verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndi viðurkennir að vísu að stór hluti 1.000.000 króna greiðslu þann 28. nóvember 1998 frá stefnanda til stefnda hafi verið notuð til að gera herbergi í húseign stefnda að […], vistvænlegra fyrir dóttur stefnanda. Ekkert liggur hins vegar fyrir í málinu um hugsanlega verð­mætaaukningu húseignarinnar vegna þeirra framkvæmda. Verður stefnandi að bera hallann af sönnunarskorti varðandi það einnig. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Þá er felld úr gildi kyrrsetningargerð sem fram fór þann 14. janúar 2003 í fasteigninni […].

 

Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, M, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, K. Kyrrsetning sem fram fór þann 14. janúar 2003 í fasteigninni […], er felld úr gildi.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.