Hæstiréttur íslands
Mál nr. 296/2004
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 2004. |
|
Nr. 296/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Valgarði Frey Gestssyni (Gísli M. Auðbergsson hdl.) |
Líkamsárás.
V var sakfelldur fyrir að þrjár líkamsárásir sem áttu sér stað á hálfs árs tímabili, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar vegna einnar þeirra var litið til ákvæða 3. mgr. 218. gr. a laganna. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði, sbr. 60. gr., 77. gr. og 78. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingar ákærða og þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds, en til vara að refsing hans verði felld niður. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og skilorðsbundin.
I.
Í máli þessu eru ákærða gefnar að sök þrjár líkamsárásir, sem heimfærðar eru til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
Með ákæru 6. janúar 2003 er ákærði sakaður um að hafa aðafaranótt sunnudagsins 22. desember 2002 í félagsheimilinu [...] á [...] veist að X og slegið hann hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á efri vör, þannig að sauma varð fjögur spor í vörina. Málavöxtum og framburði vitna er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa slegið einhvern hnefahögg umrætt sinn, þótt hann viti ekki hver hafi orðið fyrir því höggi. Aðdragandi þess hafi verið sá að X hafi hrint sér og hafi honum fundist árás yfirvofandi. Framburður X um að ákærði hafi veitt sér hnefahögg umrætt sinn, eftir að hann hefði óvart rekist utan í ákærða, fær stoð í framburði vitnanna A og B. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði veitti X hnefahögg með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru og áverkavottorði gerðu eftir skoðun á X umrædda nótt. Hins vegar fær fullyrðing ákærða fyrir dómi um að X hafi veist að honum áður en hann veitti hnefahöggið ekki stoð í framburði vitna eða gögnum málsins.
Þá er ákærða gefið að sök með ákæru 15. apríl 2003 að hafa ráðist á Y í samkvæmi í húsi á [...] og slegið hann nokkur hnefahögg í andlit og hnakka með afleiðingum sem nánar eru tilgreindar í ákærunni. Málavöxtum og framburði ákærða og vitna að atvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þó ber þess að geta að ákærði bar ekki aðeins fyrir dómi að áður en hann réðist á Y hafi sá síðarnefndi slegið sig utanundir, eins og getið er um í dómnum, heldur gaf hann þá nánari lýsingu að um hnefahögg hafi verið að ræða. Þá staðfesti vitnið C framburð ákærða um að til deilna hafi komið milli ákærða og Y í umræddu samkvæmi áður en ákærði veitti hinum síðarnefnda hnefahögg. Ekki verður talið að rannsókn lögreglu á vettvangi hafi verið áfátt þannig að áhrif eigi að hafa á niðurstöðu málsins, eins og haldið er fram af hálfu ákærða. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði réðist á Y umrætt sinn og sló hann að minnsta kosti tvö hnefahögg í hnakka. Hins vegar bar ekkert vitna fyrir dómi að ákærði hefði slegið Y hnefahögg í andlit. Gegn neitun ákærða verður ekki talið sannað að svo hafi verið. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Af framburði ákærða og vitnisins C verður ráðið að til deilna hafi komið milli ákærða og Y áður en líkamsárásin átti sér stað, þótt ekki verði frekar fullyrt um þau orðaskipti.
Með ákæru 4. júlí 2003 er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt laugardagsins 10. maí það ár í húsi á [...] og stuttu síðar utan við sama hús, veist að Z og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið og víðar með þeim afleiðingum sem nánar eru tilgreindar í ákærunni. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um að hafa slegið Z tvö hnefahögg í átökum fyrir utan húsið, en ekki til að dreifa játningu ákærða eða skýrum vitnisburði fyrir dómi um að ákærði hafi veitt Z hnefahögg inni í húsinu, þótt þar hafi komið til ryskinga milli þeirra. Ákæruvaldið hefur fyrir Hæstarétti tekið undir röksemdir og niðurstöðu héraðsdómara fyrir sakfellingu og krefst staðfestingar hennar. Kemur því niðurstaða héraðsdóms um málsatvik inni í húsinu ekki til endurskoðunar. Óumdeilt er að ákærði og Z lentu í átökum fyrir utan húsið, en ákærði hefur neitað því að hafa veist þar að Z að fyrra bragði. Af framburði ákærða og vitnanna E og húsráðandans Fmá ráða að Z hafi umrætt sinn ekki verið velkominn inn í húsið. Ákærði og F báru að Z hafi ítrekað móðgað ákærða með því að hafa uppi niðrandi ummæli um bróður hans, bæði þá og einnig fyrr um kvöldið. Vitnið G staðfesti einnig síðastgreint atriði um samskipti ákærða og Z. Það vitni mun hins vegar ekki hafa verið í húsinu, en séð átök ákærða og Z fyrir utan það. Z bar raunar sjálfur fyrir dómi að hann hefði móðgað ákærða, en kvaðst hins vegar ekki kannast við að hafa verið óvelkominn í umrætt hús. Samkvæmt framburði þeirra sem þar voru mun Z hafa yfirgefið húsið eftir að þeim ákærða lenti saman þar inni, en snúið til baka skömmu síðar. Upplýst er að þá hafi komið til átaka milli ákærða og Z. Ákærði bar að Z hefði átt upptökin, en Z kvaðst ekki minnast þess. Vegna ölvunar greint sinn kvaðst Z ekki geta lýst átökunum í smáatriðum. Vitnin E, F, G og H báru öll að Z hefði þá ítrekað skorað á ákærða að slást við sig og í kjölfar þess hafi komið til átakanna. Ákærði kvað þá Z hafa slegið hvor til annars, en ákærði hafi hætt barsmíðum eftir að hann hafi haft Z undir. Hafi Z einnig sparkað í sig og spörkin komið í háls og bringu. Kvaðst hann hafa marist við þetta og staðfestir vitnið H að ákærði hafi verið með rispur á hálsi og höndum eftir átökin. Vitnið F kvað ákærða hafa haft betur og reynt að veita Z hnefahögg, en halda að hann hafi hitt Z „illa“, þar sem Z væri maður liðugur og raunar ekki geta sagt til um hvar höggin lentu. Vitnið E kvað hnefahögg hafa gengið milli ákærða og Z fyrir utan húsið. Vitnið G, sem virðist ekki hafa verið vitni að upphafi átakanna og frýjunarorðum Z þá, bar að Z hafi gengið frá húsinu og sagt að þeir ættu að gera út um málin í eitt skipti fyrir öll. Hafi ákærði þá stokkið á Z og þeir veltst um á jörðinni. Hafi ákærði að lokum haft Z undir og veitt honum tvö eða þrjú hnefahögg í andlit. Höggin hafi virst þung. Öll framangreind vitni nema H og G munu hafa verið undir áhrifum áfengis. Samkvæmt framangreindu er fallist á með héraðsdómi að til átaka hafi komið milli ákærða og Z fyrir utan umrætt hús sem endað hafi með því að ákærði veitti Z að minnsta kosti tvö hnefahögg í andlit og að í átökunum hafi Z hlotið þá áverka sem getið er um í ákæru. Einnig er upplýst að upphaf átakanna megi rekja til þess að Z hafði ítrekað móðgað ákærða fyrr um nóttina og síðan skorað á ákærða til að takast á við sig.
II.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður við það miðað að X hafi rekist utan í ákærða áður en ákærði sló hann hnefahögg, en ekki verður á það fallist með ákærða að ákvæði 12. gr. almennra hegningarlaga eigi við um viðbrögð hans. Þá verður ekki heldur talið að atferli X leiði til að ákvæði 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, eigi við. Ekki er heldur fram komið að deilur ákærða og Y réttlæti árás ákærða þannig að áhrif hafi við ákvörðun refsingar. Hins vegar verður litið til ákvæða 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða vegna atvika sem um er fjallað í ákæru 4. júlí 2003. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði unnið sér til refsingar fyrir brot sín og verður hún ákveðin með tilliti til 77. gr. almennra hegningarlaga. Sakarferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Að gegnum héraðsdómi var ákærði fundinn sekur um líkamsárás 9. nóvember 2003, en ekki gerð sérstök refsing í því máli að teknu tilliti til þess dóms sem nú er til endurskoðunar og með skírskotun til 78. gr. almennra hegningarlaga. Er fallist á með héraðsdómi að vegna sakarferils ákærða komi ekki til álita að skilorðsbinda refsingu hans, en að ákveða beri hana samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga. Að framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um refsingu ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Valgarður Freyr Gestsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 27. janúar 2004.
Mál þetta er höfðað með þremur ákærum lögreglustjórans á Eskifirði gegn ákærða, Valgarði Frey Gestssyni, kt. [...], [...].
Með ákæru dagsettri 6. janúar 2003 er ákærða gefin að sök “líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. desember 2002 í [...], veist að X, kennitala [...], og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum, að hann hlaut skurð á efri vör, þannig að sauma varð fjögur spor í vörina”.
Með ákæru dagsettri 15. apríl 2003 er ákærða gefin að sök “líkamsárás með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 18. febrúar 2003 að [...], veist að Y, kenntala [...], og slegið hann nokkur hnefahögg í andlit og hnakka, með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og hlaut skafsár hæ. megin á enni og mar á vi. kinnbein, roða og þrota á hnakka og bak við vi. eyra á hnefastóru svæði með gífurlegum eymslum, verk og verulega bólgu í hálsvöðvum og í hálshluta axlarvöðvans hæ. megin ásamt lemstrun á hálsi og milli herðablaða”.
Með ákæru dagsettri 4. júlí 2003 er ákærða gefin að sök “líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 10. maí 2003 í húsi [...] og stuttu síðar utan við sama hús, veist að Z, kt. [...] og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið og víðar, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og blæðingu undir húð á enni og kringum vi. eyra ásamt eymslum og blæðingum úr eyranu og bólgu við hæ. auga, dreifða áverka á hálsi og bólgu í hálsvöðvum, barkakýli og á báðum upphandleggjum sem einnig voru marðir og þrota vi. megin á brjóstkassa”.
Brot þau sem ákærða eru gefin að sök teljast öll varða við 217. gr. almennra hegningalaga nr. 19, 1940, sbr., 10. gr. laga nr. 20, 1981.
Í öllum tilvikum er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða gerir aðallega kröfu um að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing ákærða verði svo væg sem lög leyfa. Þá gerir verjandi kröfu um málsvarnarlaun.
I.
Ákæra dags. 6. janúar 2003.
Sunnudaginn 22. desember 2002 kl. 03:30 óskaði B rekstraraðili félagsheimilisins [...] á [...] eftir aðstoð lögreglu vegna slagsmála við anddyri hússins. Þegar lögregla kom á staðinn tjáði X lögreglu að Valgarður Freyr, ákærði í máli þessu, hefði kýlt hann með þeim afleiðingum að vörin á honum skarst. Var X mjög ölvaður og æstur.
Lögregla hafði síðan tal af ákærða sem virtist ekki mjög ölvaður. Kvað ákærði X hafa rifið í hann þar sem hann var staddur við barinn. Við það hafi honum brugðið og hann snúið sér við og kýlt X eitt högg með krepptum hnefa. Hafi X síðan rifið bol utan af honum í hefndarskyni. Ákærði tók fram að X hefði verið með einhverjar yfirlýsingar við hann fyrr um kvöldið.
Farið var með X á Heilsugæslustöðina á [...], en hann tjáði lögreglu að hann hyggðist ekki kæra líkamsárásina.
Samkvæmt áverkavottorði D yfirlæknis, dags. 27. janúar 2003, lýsir hann áverkanum sem „( ) sár á efri vör um cm stórt og saumað var 4 spor. Sár þetta ætti ekki að gefa honum varanlegt mein, en þyrfti hann að koma aftur í skoðun til að meta það.“
Við skýrslutöku hjá lögreglu þann 30. desember 2002 neitaði ákærði að hafa slegið X í andlitið í umrætt sinn. Við skýrslutöku fyrir dómi lýsti ákærði atvikum hins vegar þannig að hann og félagi hans, E, hefðu verið að fá sér í glas á barnum og verið að fíflast með falskar tennur. Einn af Eskfirðingunum sem þarna voru, X, hafi veist að honum, gripið í öxl hans og hrint honum aftur á bak. Hinir Eskfirðingarnir hafi komið þar að og hafi hann þá snúist til varnar og slegið frá sér með krepptum hnefa. Hann telji sig hafa slegið einhvern en ekki geta sagt til um hver hafi orðið fyrir högginu. Hann hafi síðan farið aftur að barnum en þá hafi X gripið í hálsmál hans þannig að bolurinn rifnaði og slegið í áttina til hans. Hann kvað þá ekki hafa haft önnur samskipti um kvöldið.
X hefur skýrt svo frá að þegar hann hafi gengið inn í kaffisalinn á Hótel Valhöll umrætt kvöld hafi hann rekist utan í ákærða sem hafi þá snúið sér að honum og slegið hann með krepptum hnefa beint í andlitið með þeim afleiðingum að efri vör hans sprakk og úr henni blæddi talsvert. Hann hafi þá gripið í bol ákærða sem við það hafi rifnað. Hann hafi reiðst þegar hann hafi athugað áverkann betur og ætlað að hefna sín, en verið stöðvaður af nærstöddum. Hann kveðst ekki hafa átt önnur samskipti við ákærða og ekki hafa þekkt hann.
Vitnið B rekstraraðili félagsheimilisins hefur lýst því að hann hafi séð X rekast utan í ákærða sem hafi þá snúið sér við og kýlt hann beint í andlitið.
Vitnið A bar fyrir dóminum að hann hafi séð X sleginn við barinn, en ekki séð framan í þann sem sló hann og því ekki vitað hver það var. Síðar hafi hann áttað sig á að það var ákærði. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann hins vegar að hann hefði séð ákærða slá X eitt högg með krepptum hnefa í andlitið.
Með framburði ákærða og vitna þykir fullsannað að ákærði hafi í umrætt sinn eftir að X hafði rekist í hann slegið hann hnefahögg í andlitið eins og honum er gefið að sök í ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsilagaákvæðis í ákæru.
II.
Ákæra dags. 15. apríl 2003.
Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, laust eftir kl. 4:00, barst lögreglu tilkynning frá Neyðarlínunni um að maður lægi slasaður og meðvitundarlaus eftir líkamsárás í húsi [...] og verið væri að kalla út sjúkrabíl og lækni. Hélt lögregla þegar á vettvang. Á [...] var töluverður fjöldi drukkinna manna innandyra, flestir aðkomumenn af bátum sem lágu við bryggju á [...] vegna veðurs. Inni í stofunni var sá sem ráðist hafði verið á, Y, og var hann kominn til meðvitundar. Var andlit hans alblóðugt og blóð hafði runnið niður á föt hans. Y sem bersýnilega var nokkuð ölvaður vildi ekki fara til læknis og afþakkaði alla aðstoð.
Húsráðandi var óviðræðuhæfur sökum ölvunar og aðrir viðstaddir sýndu engan samstarfsvilja og fékkst því ekki uppgefið hvað hafði gerst.
Sigurður Halldórsson stýrimaður á [...] gaf sig fram við lögreglu og upplýsti að hann hefði tilkynnt atvikið til Neyðarlínunnar. Kvað hann Y vera úr sinni áhöfn. Sagðist hann hafa hringt vegna þess að Y hefði misst meðvitund við högg sem hann fékk í andlitið. Hann sagðist ekki vita hvað árásarmaðurinn héti en féllst á að benda lögreglu á hann og benti á, Valgarð Frey Gestsson, ákærða í málinu.
Sama dag kærði Y líkamsárásina til lögreglu. Skýrði hann svo frá að hann hefði í umrætt sinn farið ásamt þremur öðrum úr áhöfninni á [...] í gleðskap að [...] þar sem þeir hafi spjallað og hlustað á tónlist. Hann hafi verið á leið á snyrtingu þegar hann hafi verið slegin í höfuðið aftanfrá og rotast. Skipsfélagar hans hafi sagt honum að Valgarður Freyr sem hann þekki ekki, hafi lagst ofan á hann og barið hann hvað eftir annað í andlit og aftan á höfuðið. Hann muni hins vegar sjálfur ekki eftir sér fyrr en um borð í skipi sínu morgunin eftir. Kvaðst hann hafa hruflast á hægri hnúa og vera marinn. Þá væri hann bólginn á vinstri kinn og hruflaður á enni. Einnig marinn og bólginn fyrir aftan vinstra eyra.
Við skýrslutöku fyrir dómi kvaðst Y hafa verið töluvert ölvaður í umrætt sinn og lítið muna frá kvöldinu og ekkert eftir því að hafa fengið högg. Vitneskju um atvik kvaðst hann hafa frá öðrum.
Í vottorði Brynjólfs Haukssonar, læknis við Heilsugæslustöðina á [...], dags. 11. apríl 2003, segir meðal annars um skoðun á Y: „Gefur góða sögu af subj. líðan. Ytri áverkar á andliti. Hæ. meginn á enni þar sem hann er með skrafsár eða abrasion og mar á vi. kinnbeini. Ekki hægt að staðfesta brot en kliniskt er það ólíklegt. Roði og þroti á hnakka og bak við vinstra eyra á svæði sem er ca. hnefastórt og þar eru gífurleg eymsli. Verkur og bólgustrengur í hálsvöðvum hæ. meginn eins og gerist við Whiplash áverka. Sterno-Cleido Mastoideus vöðvinn hægra megin er verulega bólginn ásamt hálshluta m. Trapesius en ekki beinn grunur um brot á hálshrygg”.
Ákærði neitaði að tjá sig um málsatvik vegna veikinda þegar hann mætti til skýrslutöku hjá lögreglu þann 27. febrúar 2003. Við skýrslutöku fyrir dómi kvaðst ákærði í umrætt sinn hafa farið ásamt fleirum að [...] eftir lokun “barsins” en áður hafi hann komið við heima hjá sér til að sækja “flösku”. Á [...] hafi 25 til 30 menn verið við drykkju og hafi hver verið öðrum drukknari. Hann hafi einnig verið ölvaður. Hann hafi setið inn í stofu með flöskuna þegar kærandi, Y, hafi komið og sest hjá honum og rifið af honum flöskuna. Hann hafi sagt Y að láta flöskuna í friði, hún væri hans eign. Þeim hafi verið nokkuð heitt í hamsi þar sem þeir hafi verið búnir að deila fyrr um kvöldið. Þegar hann hafi svo reynt að ná flöskunni aftur hafi Y slegið hann utan undir. Við það hafi hann misst stjórn á skapi sínu, stokkið á Y og reynt að slá hann utan undir en hann viti ekki hvort það tókst. Þeir hafi við þetta fallið ofan á nærliggjandi borð og hafi hann ekki slegið Y eftir það.
Vitnið C, sem var staddur að [...] í umrætt sinn kveður væringar hafi verið á milli Y og ákærða. Allt hafi þó verið friðsælt þangað til komið var að brottför og menn flestir komnir út úr stofunni, aðrir en Y og ákærði og nokkrir menn sem voru ofurölvi. Honum hafi verið litið inn í stofunna og þá séð að Y hafði verið sleginn í gólfið. Hann hafi þá rutt sér leið inn í stofuna þar sem hann hafi séð ákærða sitja ofan á Y og slá hann tvívegis í hnakkann. Y hafi verið meðvitundarlaus og blætt hafi bæði úr vör og nösum. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti vitnið atvikum þannig að hann hafi séð ákærða halda annarri hendi fyrir aftan höfuðið á Y og slá hann með hinni beint í andlitið, að minnsta kosti tvö högg. Síðan hafi fólk hópast inn í stofuna og hann ekki séð meir.
Vitnið, J, sem einnig var að [...] í umrætt sinn kveðst fyrst hafa hitt ákærða á barnum þar sem þeir hafi spjallað saman. Honum hafi fundist ákærði vera að reyna að fá einhvern til að slást við sig. Hann hafi síðan ásamt fleirum farið í gleðskapinn að [...] þar sem allt hafi farið vel fram í fyrstu. Hann hafi síðan farið út úr stofunni en þegar hann hafi komið til baka hafi hann séð séð ákærða standa yfir Y sem hafi legið á fjórum fótum og berja hann í hnakkann þrjú til fjögur þung högg með krepptum hnefa.
Ákærði viðurkennir að hafa reynt að slá Y í andlitið. Vitnið C bar fyrir lögreglu að ákærði hefði slegið Y að minnsta kosti tvö högg í andlitið. Vitnið C hefur borið að hann hafi séð ákærða slá Y nokkur högg í hnakka og vitnið J kveðst hafa séð ákærða slá hann þrjú til fjögur þung högg með krepttum hnefa í hnakkann. Samkvæmt framanröktu og með hliðsjón af þeim áverkum sem Y var með þykir nægilega sannað að ákærði hafi slegið Y högg í andlit og nokkur högg í hnakka í umrætt sinn. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsilagaákvæðis í ákæru.
III.
Ákæra dagsett 4. júlí 2003.
Laugardaginn 10. maí 2003 kom Z á lögreglustöðina á Eskifirði og kvaðst vilja leggja fram kæru á hendur, Valgarði Frey Gestssyni, ákærða í máli þessu. Kvaðst Z hafa verið staddur á heimili F ásamt þeim E og ákærða. Hann hafi sagt eitthvað við ákærða sem æsti hann upp og hafi ákærði þá ráðist á hann með höggum en síðan hafi átökin færst út.
Kærandi hefur skýrt svo frá að hann hafi verið búinn að eiga orðastað við ákærða áður en ákærði réðst á hann. Hann hafi m.a. talað um að hann hafi rassskellt bróðir ákærða og hann haldi að það hafi farið í taugarnar á ákærða. Hann muni ekki hvort árásin hafi verið í framhaldi af orðaskiptum þeirra en hann hafi verið mikið ölvaður. Hann muni þó að hann hafi setið á stól þegar ákærði réðst beint framan að honum. Átökin hafi síðan borist út. Hann viti ekki hvort högg sem hann fékk hafi stafað frá ákærða eða gólfinu.
Samkvæmt læknisvottorði I kom Z á heilsugæslu-stöðina kl. 11:38 þann 10. maí 2003. Í vottorðinu er áverkum hans þannig lýst: “Mar og hematom (blæðing undir húð) vinstra megin á enni og einnig hægra megin en þar er einnig abrasion (skröpuð húð). Blætt hefur úr vinstra eyra en ekki að sjá blóð í hlust og hljóðhimna er heil en nokkur roði á hljóðhimnunni. Hematoma (blæðing undir húð) ofan og framan við vi. eyra 3x4 cm á stærð og annað aftan og ofan við eyrað heldur minna. Á báðum stöðum er húð heil en veruleg eymsli við þreifingu. Eymsli og bólga neða og lateralt (hliðlægt) við hægra auga en ekki er komið mar eða glóðarauga. Orbita (augntóft) virðist ekki brotin. Ytri áverkar á hálsi diffust (dreifðir) eins og eftir klemmuáverka sem kemur við mjög fast hálstak. Er einnig bólginn í öllum hálsstöðvum og allar hreyfingar í hálsi eru takmarkaðar og hindraðar af verkjum, mest lateralisering (höfði hallað til hliðanna) síðan rotation (snúningur höfuðs) og minnst flexion extension (höfuð beygt fram eða sveigt aftur). Ekki hægt að útiloka höggáverka á háls. Málbein, barkarkýli og barki aumur viðkomu og bólgusvörun. Á erfitt með að kyngja. Bólga og mar á báðum upphandleggjum líklega eftir högg fremur en klemmuáverka. Þroti á thorax (brjóstkassa) vinstra megin rétt framan við miðaxillarlínu (ímynduð lína á hliðarvegg brjóstkassans sem nær lóðrétt niður frá handarkrika) sem sennilegast er einnig eftir högg”.
Húsráðandi, vitnið F, hefur skýrt svo frá að hann muni atvik ekki vel vegna þess hve drukkinn hann var. Z hafi verið búinn að vera með einhver leiðindi út í ákærða. Hann viti ekki hvernig átökin byrjuðu og fyrir dómi kvaðst hann engin högg hafa séð. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann hins vegar hafa séð ákærða ofan á Z sem legið hafi á bakinu og hafi ákærði slegið hann nokkur högg. Þegar framburðinn var borinn undir hann fyrir dómi staðfesti hann að framburðurinn gæti verið réttur.
Vitnið, K, kveðst hafa komið að [...] í umrætt sinn. Einhver læti hafi orðið á milli ákærða og Z en hún muni ekki hvor hafi átt upptökin. Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti hún því að ákærði hefði allt í einu stokkið á Z slegið til hans. Þegar sá framburður hennar var borinn undir hana fyrir dómi kvað hún hann geta verið réttan því að hún hafi munað atvik vel þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu.
Vitnið, G, rekstraraðili Hótels [...] hefur lýst því að hann hafi umrætt kvöld séð ákærða stökkva á Z og takan hann hálstaki utan við húsið. Þeir hafi við það dottið á stéttina en ákærði hafi ekki sleppt takinu. Þeir hafi síðan rúllað fram af palli og niður á flötina þar sem þeir hafi kútveltst. Hann hafi ákveðið að skipta sér ekkert af þessu en honum hafi sýnst Z alveg eins hafa í fullu tré við ákærða. Síðan hafi ákærði komist ofan á Z og allt í einu slegið hann tvö frekar en þrjú mjög þung högg. Þegar þarna hafi verið komið hafi þeir F og E komið að og dregið ákærða í burtu. Z hafi verið með einhver fúkyrði og hafi ákærði hvað eftir annað ætlað að hjóla í hann. Kvað hann ákærða og Z fyrr um kvöldið hafa verið að pexa og að þeir hefðu lent í slagsmálum ef hann hefði ekki stoppað þá af. Hafi Z eitthvað verið að derra sig við ákærða og sagt við hann “Vertu nú ekki að sperra þig ég hef nú rassskellt stóra bróður þinn”. Ákærði hafi reiðst þessu mjög og haft í hótunum við Z.
Vitnið, H, hefur lýst því að allt í einu hafi komið til slagsmála á milli ákærða og Z. Þeim hafi verið stíað í sundur og farið hafi verið með Z út. Z hafi hins vegar komist aftur inn og sagt við ákærða að þeir skyldu bara klára þetta úti.
Vitnið, E, kveðst hafa komið að ákærða og Z þar sem þeir voru að takast á inni á gólfinu. Hann hafi stíðað þeim í sundur og sagt Z að fara út. Z hafi síðan komið inn skömmu seinna og sagt við ákærða að hann vildi klára þetta mál. Þá hafi ákærði farið út.
Með hliðsjón af framburði vitnanna H og E þykir mega leggja til grundvallar að í kjölfar átaka ákærða og Z inni að [...] í umrætt sinn hafi Z verið vísað á dyr. Z hafi hins vegar ekki viljað láta þar við sitja og beðið ákærða að koma út. Um það sem síðan gerðist fyrir utan húsið eftir að ákærði fór út er hins vegar ekki við að styðjast skýran vitnisburð annarra en G sem þykir mjög trúverðugur, en hann hefur borið að hann hafi séð ákærða komast ofan á Z og slá hann tvö frekar en þrjú mjög þung högg í andlitið í umrætt sinn. Þykir að virtum framburði hans og hafðri hliðsjón af framburði annarra vitna og áverka þeirra sem Z var með nægjanlega sannað að ákærði hafi slegið Z a.m.k. tvö hnefahögg í andlitið í umrætt sinn. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsilagaákvæðis í ákæru.
IV.
Ákærði á sakarferil að baki. Auk þess að hafa hlotið dóm og undirgengist viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn umferðarlögum hefur ákærði fjórum sinnum hlotið dóma fyirr líkamsárásir. Fyrst 22. febrúar 1999 er hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í annað sinn hinn 5. apríl 2000 er hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Var dómurinn frá 22. febrúar 1999 dæmdur með. Í þriðja sinn hinn 19. júní 2001 er hann var aftur dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Var dómurinn frá 5 apríl dæmdur með. Í fjórða sinn hinn 20 desember 2002 en þá var hann dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi frá birtingu dómsins, sem var 7. febrúar 2003, fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga en sá dómur er hegningarauki við dóminn 19. júní 2001. Þá var ákærði 5. febrúar 2003 dæmdur til sektargreiðslu fyrir brot gegn 246. gr. almennra hegningarlaga.
Líkamsárásin 22. desember 2002 er framin fyrir uppkvaðningu dómsins 5. febrúar 2003. Með brotum þeim sem ákærði er nú sakfelldur fyrir og framin voru 18. febrúar og 10. maí 2003 hefur hann rofið skilorð dómsins frá 20. desember 2002. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955 ber því að taka þann dóm upp og ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir brot samkvæmt ofangreindum dómi og brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir. Verður refsing ákveðin samkvæmt reglum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Vegna sakarferils ákærða verður við ákvörðun refsingar að taka tillit til ákvæðis 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr 12. gr. laga nr. 20/1981. Þá verður við ákvörðun refsingar ákærða að líta til þess að árásir ákærða eru hrottafengnar og hættulegar. Hins vegar þykir við ákvörðun refsingar þurfa að líta til þess að meðferð málsins hefur tekið langan tíma án þess að ákærða verði um kennt.
Þykir refsing ákærða að öllu framanröktu virtu hæfileg ákveðin fangelsi í átta mánuði. Ekki þykir lengur koma til álita að skilorðsbinda refsingu ákærða sem hefur ítrekað rofið skilorð.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda sins, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.
Þorgerður Erlendsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærði, Valgarður Freyr Gestsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þ.m.t. málsvarnarlaun Gísla M. Auðbergssonar hdl. 180.000 krónur.