Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn


                                     

Föstudaginn 8. mars 2013.

Nr. 105/2013.

M

(Auður Björg Jónsdóttir hdl.)

gegn

K

(Þuríður Halldórsdóttir hdl.)

Kærumál. Gjafsókn.

M og K kærðu úrskurð héraðsdóms og kröfðust þess að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanna þeirra vegna gjafsóknar í héraði yrði ákveðin hærri en gert var í hinum kærða úrskurði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við ákvörðun þóknunar umboðsmanns gjafsóknarhafa skv. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði fyrst og fremst að líta til þess tíma sem eðlilegt væri að umboðsmaðurinn hefði þurft að verja til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns og hvert væri hæfilegt tímagjald fyrir þá vinnu. Við ákvörðun fjárhæðar þessarar lögmannsþóknunar gæti mat dómara á því hvort umrædd málsókn hefði verið þarflaus þó engu máli skipt, enda væri ákvörðun um veitingu gjafsóknar í hendi ráðherra. Að þessu gættu þótti málflutningsþóknun lögmanns hvors aðila um sig hæfilega ákveðin 700.000 kr. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013, þar sem málskostnaður í forsjárdeilumáli milli aðila var felldur niður og kveðið á um gjafsóknarkostnað þeirra úr ríkissjóði. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hans vegna gjafsóknar verði ákveðin hærri en gert gert var í hinum kærða úrskurði.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 14. febrúar 2013. Krefst hún þess einnig að fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hennar verði ákveðin hærri en gert var í hinum kærða úrskurði.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili 2. mars 2012 mál á hendur sóknaraðila og krafðist þess að henni yrði falin forsjá sonar þeirra. Sóknaraðili tók til varna og krafðist forsjár barnsins. Í þinghaldi 25. janúar 2013 varð sátt um að aðilar fari sameiginlega með forsjá sonarins, lögheimili hans verði hjá sóknaraðila og varnaraðili greiði einfalt meðlag með drengnum. Þá var í dómsáttinni kveðið á um umgengni drengsins við varnaraðila. Báðir aðilar nutu gjafsóknar vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Gjafsókn sóknaraðila var takmörkuð við réttargjöld og lögmannskostnað, en gjafsókn varnaraðila við réttargjöld, þóknun lögmanns og kostnað við undirmatsgerð. Með hinum kærða úrskurði var málskostnaður felldur niður og kveðið á um gjafsóknarkostnað aðila.

Í þinghaldi 25. janúar 2013 voru af hálfu beggja aðila lögð fram málskostnaðaryfirlit. Kom þar fram sundurliðuð greinargerð um þann tímafjölda sem lögmaður hvors aðila um sig taldi sig hafa varið við vinnu að málinu. Var samtals um að ræða rétt rúmlega 70 klukkustunda vinnu af hálfu hvors lögmanns og var í málskostnaðaryfirlitunum miðað við að tímagjald væri 10.000 krónur auk virðisaukaskatts. Málsaðilar reisa kröfur sínar á því að leggja beri framangreind yfirlit til grundvallar ákvörðun málflutningsþóknunar lögmanna þeirra enda séu þar réttilega skráðir þeir tímar sem varið hafi verið til vinnu við málið og ekki verði séð að héraðsdómari hafi dregið réttmæti þeirrar skráningar í efa.

Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 skal þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls ákveðin með úrskurði ef sátt tekst í máli. Enda þótt ekki séu í lögum nr. 91/1991 nánari ákvæði um við hvað dómari skuli miða þá ákvörðun er ljóst að í þeim efnum hlýtur fyrst og fremst að verða að líta til þess tíma sem eðlilegt telst að umboðsmaðurinn hafi þurft að verja til að gæta hagsmuna skjólstæðings síns og hvert sé hæfilegt tímagjald fyrir þá vinnu. Við ákvörðun fjárhæðar þessarar lögmannsþóknunar getur mat dómara á því hvort umrædd málsókn hafi verið þarflaus þó engu máli skipt, enda er ákvörðun um veitingu gjafsóknar í hendi ráðherra að undangengum lögformlegum undirbúningi samkvæmt 125. gr., sbr. 126. gr., laga nr. 91/1991. Að þessu gættu er málflutningsþóknun lögmanns hvors aðila um sig hæfilega ákveðin 700.000 krónur.

Dómsorð:

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, M, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 700.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 700.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 25. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...],  [...] á hendur M, [...], [...], með stefnu birtri 2. mars 2012.

Stefnandi krefst þess að henni verði einni falin forsjá sonar þeirra til 18 ára aldurs. Einnig er krafist einfalds meðlags svo og ákvörðunar dómsins á inntaki umgengisréttar. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi hafnar kröfum stefnanda. Hann krefst forsjár sonarins og einfalds meðlags úr hendi stefnanda og að í dómi verði kveðið á um inntak umgengisréttar. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.        

Í þinghaldi 25. janúar sl. varð sátt í málinu um annað en málskostnað. Samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991, skal málskostnaður ákveðinn með úrskurði dómsins, þegar svo stendur á. Báðir málsaðilar gera kröfu um málskostnað sér til handa úr hendi hins, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður og hvor aðili um sig beri sinn hluta kostnaðar af málinu. Gjafsóknarkostnaður beggja málsaðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talið málflutningsþóknun lögmanna svo sem greinir í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar til handa lögmönnum er tekið tillit til eftirfarandi atriða.

Málsaðilar hafa farið sameiginlega með forsjá sonar þeirra. Í máli þessu krefst stefnandi þess aðallega, að henni verði einni falin forsjáin. Stefnandi lagði, hinn 6. mars 2012, fram í Héraðsdómi Reykjavíkur stutta stefnu og umboð. Stefndi fékk frest til 3. apríl 2012 og lagði þá fram nr. 3 greinargerð sína, ásamt tólf skjölum. Á sama tíma eða hinn 28. mars 2012 gerði stefnandi kröfu um bráðabirgðaforsjá og krafðist þess að henni yrði falin forsjá sonarins til bráðabirgða þar til endanlegur dómur lægi fyrir í forsjármáli aðila. Stefndi tók til varna og gerði sömu kröfu. Með úrskurði 4. maí 2012 var kröfum beggja hafnað.

Mál þetta var síðan tekið fyrir 16. maí sl. og lagði sóknaraðili þá fram gögn sem eru nánast þau sömu og lögð voru fram í bráðabirgðaforsjármálinu. Jafnframt var krafist dómkvaðningar matsmanns. Það gekk eftir og skilaði matsmaður matsgerð sem dagsett er 6. desember sl. og var niðurstaðan sú að hvorki móðir né faðir væru hæf til að fara með forsjá sonarins.

Að mati dómsins er hér um þarflausa málssókn að ræða. Málsaðilar höfðu sameiginlega forsjá er mál var höfðað og í dómsátt þeirra var miðað við að svo yrði áfram. Sérstaklega er tekið fram að engin efni voru til þess að krefjast úrskurðar um bráðabirgðaforsjá. Tímaskýrslur lögmanna bera það með sér að hvor um sig hafa eytt rúmlega 70 klst. í málið. Þar af hefur lögmaður stefnanda eytt 29 klst. í bráðabirgðaforsjármálið. Tekið er tillit til þessa við ákvörðunar þóknunarinnar.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda og stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda Þuríðar Halldórsdóttur hdl., 350.000 kr. og lögmanns stefnda, Auðar Jónsdóttur hdl., 450.000 krónur.