Hæstiréttur íslands

Mál nr. 225/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. apríl 2008.

Nr. 225/2008.

Þrotabú Snæbjörns Tryggva Guðnasonar

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

DaPaCo ehf.

(Klemenz Eggertsson hdl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Þ höfðaði mál á hendur D og krafðist aflýsingar tiltekins tryggingabréfs og skaðabóta, en felldi málið niður, í kjölfar þess að D aflýsti tryggingabréfinu. Talið var með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 2. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að rétt væri að D yrði gert að greiða hluta málskostnaðar Þ og þótti sú fjárhæð hæfilega ákveðin 300.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2008, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem fellt var að öðru leyti niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér 1.337.800 krónur í málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. apríl 2008 og krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en þó þannig að með hliðsjón af eðli og umfangi málsins verður málskostnaður ákveðinn, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, DaPaCo ehf., greiði sóknaraðila, þrotabúi Snæbjörns Tryggva Guðnasonar, 300.000 krónur í málskostnað í héraði og 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2008.

Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar um ákvörðun málskostnaðar 31. mars sl., er höfðað með stefnu, þingfestri 24. október 2007, af þrotabúi Snæbjörns T. Guðna­sonar, kt. 130161-2519, Aðalstræti 6, Reykjavík, á hendur DaPaCo ehf., kt. 410271-0449, Landakoti, Álftanesi. Til réttargæslu var stefnt Úlfhildi Elísdóttur, kt. 080262-4429, Laufengi 160, Reykjavík.

          Stefnandi gerði þrjár dómkröfur:

1. að rift yrði með dómi veðsetningu þrotamanns, Snæbjörns T. Guðnasonar, í 50% eignarhluta hans samkvæmt tryggingabréfi að fjárhæð 19.600.000 krónur, sem hann og Úlfhildur Elísdóttir gáfu út til stefnda 9. október 2006, með 5. veðrétti í íbúð þeirra merktri 04-0101 við Laufengi 160, Reykjavík.

2. að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.800.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2006 til greiðsludags.

3. að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

 Ekki voru gerðar neinar dómkröfur á hendur réttargæslustefndu og lét hún málið ekki til sín taka.

 Stefndi krafðist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

 Við fyrirtöku málsins 5. mars sl. var því lýst yfir af hálfu stefnda að trygg­inga­bréfi, sem fyrsta dómkrafa stefnanda varðar, yrði aflýst af eigninni. Í þinghaldi 17. mars var lagt fram frumrit bréfsins áritað um aflýsingu þann 5. mars sl. Við fyrirtöku málsins 31. mars var því lýst yfir af hálfu stefnda að þrátt fyrir að sú skuld sem átt hefði að tryggja með ofangreindu trygg­inga­bréfi væri enn ógreidd muni stefndi ekki gera kröfur á hendur réttargæslustefndu í málinu.

 Þá var bókað af hálfu stefnanda að í ljósi viðbragða stefnda við málssókn stefnanda, aflýsingar hins umþrætta veðtryggingabréfs og þess að stefndi hygðist ekki hafa uppi fjárkröfur á hendur réttargæslustefndu, þá félli stefnandi frá kröfum samkvæmt tölulið 1 og 2 í stefnu en héldi sig við kröfu um málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir.

 Bú Snæbjörns T. Guðnasonar var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2007. Frestdagur við skiptin var 17. nóvember 2007. Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra bar þrotamaður að hann ætti ekki eignir en byggi í íbúð eiginkonu sinnar að Laufengi 160 í Reykjavík.

 Við eftirgrennslan skiptastjóra kom í ljós að þrotamaður hafði áður átt íbúðina að Laufengi 160 ásamt eiginkonu sinni. Þann 17. nóvember 2006 hafði hann afsalað sínum eignarhluta til hennar. Einnig kom í ljós að skömmu áður, þann 9. október 2006, höfðu þau sett íbúðina að veði, með trygg­ingabréfi, fyrir skuld þrotamanns við Öríss ehf., samtals að fjárhæð 19.600.000 krónur.

 Samkvæmt upplýsingum hlutafélagaskrár voru stefndi, DaPaCo ehf., og þrota­maður stofnendur Öríss ehf. ásamt þriðja manni. Að mati skiptastjóra var veðsetning íbúðarinnar riftanleg bæði á grundvelli 131. gr. og 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Hann skoraði því á stefnda að aflýsa tryggingabréfinu en þeirri áskorun var ekki sinnt.

 Málið var þingfest 24. október sl. og var greinargerð lögð fram 21. nóvember. Í henni mótmælti stefndi öllum kröfum stefnanda og taldi jafnframt að skilyrði laga um gjaldþrotaskipti væru ekki uppfyllt. Sérstaklega mótmælti hann því að unnt væri að krefjast bæði riftunar og skaðabóta þar sem kröfurnar gengju hvor gegn annarri og fengju ekki staðist.

Málsástæður og lagarök stefnanda vegna málskostnaðar.

Stefnandi telur að með viðbrögðum sínum hafi stefndi í raun samþykkt kröfur stefnanda í málinu. Stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni lengur af því að halda uppi dómkröfum í málinu gagnvart stefnda en hafi nú gert kröfu á hendur réttargæslu­stefndu þar sem hún eigi eftir að greiða stóran hluta af kaupverði þeirrar íbúðar sem veð var veitt í. Hún hafi átt að greiða hluta verðsins með yfirtöku á skuld þrotamanns við stefnda. Það hafi gengið til baka með því að tryggingabréfinu var aflýst og því eigi þrotabúið kröfu á hendur réttargæslustefndu.

Stefnandi vísar til þess að kröfugerð hans sé í fullu samræmi við XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti og túlkun fræðimanna á þeim ákvæðum. Ennfremur fái málskostnaðarkrafa stefnanda stoð í ákvæði XXI. kafla laga um meðferð einkamála.

 Krafa stefnanda um málskostnað byggist á því að stefndi hafi fallist á allar kröfur stefnanda í málinu með því að aflýsa umþrættu veðtryggingabréfi.

Málsástæður og lagarök stefnda vegna málskostnaðar.

 Af hálfu stefnda er kröfu stefnanda um málskostnað mótmælt og vísað í 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þar sem segi að stefnandi skuli greiða stefnda málskostnað sé máli vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í málinu.

 Stefndi vísar til þess að stefnandi setji dómkröfur sínar ekki fram sem aðal­kröfu og varakröfu heldur séu þær settar fram sem tvær jafngildar kröfur, annars vegar krafa um aflýsingu bréfsins og hins vegar skaðabótakrafa. Þessar tvær kröfur fái ekki samrýmst og því hefði stefnandi ekki getað fengið þær báðar dæmdar sér í vil. Því sé alfarið mótmælt að með því að aflýsa bréfinu sé stefndi að fallast á skaðabótakröfuna.

Niðurstaða.

Gögn málsins sýna að skorað var á stefnda þann 15. ágúst 2007 að aflýsa tryggingabréfinu af íbúðinni til þess að ekki yrði af málshöfðun. Stefndi nýtti sér ekki það tækifæri og málið var höfðað. Við fyrstu fyrirtöku þess var svo upplýst að tryggingabréfinu yrði aflýst. Því er nærtækt að álykta að málshöfðun stefnanda sé ástæða þess að tryggingabréfinu var aflýst. Þegar bréfinu hafði verið aflýst ákvað stefnandi að halda ekki til streitu kröfu sinni um skaðabætur úr hendi stefnda. Að mati dómsins var málið því fellt niður að hluta til af því að stefndi efndi þá skyldu sem hann var krafinn um í málinu og að hluta til af annarri ástæðu.

Þar sem stefndi átti þess kost að aflýsa bréfinu án málshöfðunar en nýtti sér það ekki verður hann að bera sinn kostnað af málinu. Með hliðsjón af því að ekki varð hjá málshöfðun komist til að knýja fram aflýsingu bréfsins af íbúðinni og með hliðsjón af 2. og 3. mgr. 130. gr. laga um með­ferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda hluta málskostnaðar stefnanda. Þykir sú fjárhæð hæfilega ákveðin 140.000 krónur og hefur við ákvörðun fjárhæðar­innar verið tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Málið er fellt niður.

Stefndi, DaPaCo ehf., greiði stefnanda, þrotabúi Snæbjörns Tryggva Guðna­sonar, 140.000 krónur í málskostnað.