Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2007


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Missir framfæranda
  • Orsakasamband
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 17. janúar 2008.

Nr. 195/2007.

Sigurbjörg Björgúlfsdóttir

Álfheiður Fanney Ásmundsdóttir og

Ásrún Ásta Ásmundsdóttir

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og

Austurleið – SBS hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Missir framfæranda. Orsakasamband. Gjafsókn.

Á, eiginmaður S og faðir dætra hennar lenti í umferðarslysi árið 2000 þegar rútubifreið á vegum A hf. var ekið í veg fyrir hann. Á hlaut heilsutjón vegna slyssins, metinn var varanlegur miski og örorka hans og greiddi vátryggingarfélagið V honum bætur vegna þess árið 2001. Um haust 2002 svipti Á sig lífi. Krafist var skaðabóta til S og dætra hennar vegna missis framfæranda sem rekja mætti til umferðarslyssins árið 2000. Var byggt á því að orsakasamband hefði verið milli umferðarslyssins og sjálfsvígsins, þar sem þunglyndi Á hefði fyrst gætt eftir umrætt umferðarslys. Var þessum kröfum mótmælt af hálfu V og höfðaði S því mál þetta. Í gögnum málsins lá fyrir matsgerð tveggja lækna sem gerð var í kjölfar umferðarslyssins. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að hvorki í þessu mati né í öðrum læknisfræðilegum gögnum sem þar væri vísað til hefði komið fram að Á hefði við umferðarslysið hlotið áverka á höfði eða miðtaugakerfi sem hefðu getað leitt til þess að andleg geta hans hefði beðið skaða af. Ekki væri ágreiningur um að Á hefði haft mikla verki og síðar verið haldinn þunglyndi eftir slysið, en það eitt að hann þjáðist af þessum einkennum eftir slysið gæti þó ekki talist sönnun þess að slysið hefði verið orsök sjálfsvígsins. Þá sagði ennfremur að í málinu hefði ekki verið upplýst um nánari tildrög sjálfsvígsins en ekkert hefði komið fram um að þau yrðu rakin til vitrænna glapa sem stafað hefðu af áverkum af völdum slyssins. Þótti því ósannað orsakasamband milli umferðarslyssins og andlátsins og var niðurstaða héraðsdóms um sýknu A hf. og V staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2007. Þær krefjast þess að stefndu verði gert in solidum að greiða áfrýjandanum Sigurbjörgu Björgúlfsdóttur 6.317.185 krónur, Álfheiði Fanneyju Ásmundsdóttur 4.819.212 krónur og Ásrúnu Ástu Ásmundsdóttur 5.135.808 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 8. september 2002 til 11. mars 2005 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þær krefjast og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

Stefndu krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi slasaðist Ásmundur Jón Pálsson í bifreiðaárekstri 26. febrúar 2000 á Suðurlandsvegi rétt vestan við Hellu, þegar fólksflutningabifreið stefnda Austurleiðar – SBS hf. fór yfir á rangan vegarhelming og skall framan á bifreið hans. Hann var fluttur á heilsugæslustöðina á Hellu og þaðan á sjúkrahúsið á Selfossi og lagður þar inn. Læknir kom að slysinu og lýsti áverkum þeim er Ásmundur varð fyrir, sem voru mikið mar og verulega mikil einkenni frá hálsi. Hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu daginn eftir, óbrotinn en með verki víða, aðallega í hrygg, vinstri öxl og hálsi og hafði vinstri hendi í fatla og var ráðlagt að nota hálskraga. Hann gekk áfram til heilsugæslulækna, slæmur af verkjum og tók verkjalyf og var vísað í sjúkraþjálfun. Um haustið komu fram þunglyndiseinkenni og hann var settur á geðlyf og fór til endurhæfingar á Reykjalund 12. mars til 18. maí 2001. Í matsgerð 1. október 2001 mátu tveir læknar miska hans og örorku vegna slyssins, hvort tveggja 25% varanlegt, sem þótti stafa af tognun á hálsi og baki, beinum höggáverka framan á bæði hné og rifnum liðþófum. Hið stefnda vátryggingafélag gerði upp tjón hans á grundvelli matsgerðarinnar 8. nóvember sama ár.

Þegar slysið varð var Ásmundur 31 árs að aldri, kvæntur áfrýjandanum Sigurbjörgu. Hún gekk þá með barn þeirra, Álfheiði Fanneyju, sem fæddist 6. apríl 2000. Þau hjónin eignuðust aðra dóttur, Ásrúnu Ástu, 21. janúar 2002. Ásmundur svipti sig lífi 8. september 2002. Áfrýjendur reisa kröfur sínar um bætur fyrir missi framfæranda á því að sjálfsvígið megi rekja til umferðarslyssins og sé sennileg afleiðing af því. Því til stuðnings benda þær einkum á að læknisfræðileg gögn og framburður vitna sanni að orsakasamband sé milli bifreiðaslyssins og sjálfsvígsins. Þannig hafi læknir staðfest fyrir dómi að Ásmundur heitinn hafi engin einkenni þunglyndis haft fyrir slys en þjáðst af þunglyndi eftir það. Sérfræðingur í geðlækningum hafi og staðfest fyrir dómi að Ásmundur hafi í kjölfar slyssins lent í vítahring verkja, þunglyndis og áfallastreitu og slysið sé því nokkurn veginn bein orsök þess að hann hafi tekið líf sitt. Þessu hafna stefndu og lýtur ágreiningur málsaðila því fyrst og fremst að því hvort sannað sé orsakasamband milli umferðarslyssins 26. febrúar 2000 og sjálfsvígsins 8. september 2002 og hvort hið síðara sé sennileg afleiðing af því fyrra.

II.

Svo sem áður segir voru varanlegur miski og örorka Ásmundar metin af tveimur læknum 1. október 2001. Í mati þessu og þeim læknisfræðilegu gögnum sem þar er vísað til kemur hvergi fram að Ásmundur hafi við slysið hlotið áverka á höfði eða miðtaugakerfi sem gætu hafa leitt til þess að andleg geta hans hafi beðið skaða af. Ekki er ágreiningur um að hann hafi haft mikla verki og síðar verið haldinn þunglyndi eftir slysið. Það eitt að hann þjáðist af þessum einkennum eftir slysið getur þó ekki talist sönnun þess að slysið hafi verið orsök sjálfsvígsins. Í málinu hefur ekki verið upplýst um nánari tildrög þess að Ásmundur svipti sig lífi en ekkert hefur komið fram um að það verði rakið til vitrænna glapa sem stafað hafi af áverkum af völdum slyssins. Þegar til þessa er litið er ósannað orsakasamband milli umferðarslyssins og andlátsins. Ber af þessari ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Rétt er að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Sigurbjargar Björgúlfsdóttur, Álfheiðar Fanneyjar Ásmundsdóttur og Ásrúnar Ástu Ásmundsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 14. nóvember 2005.

Stefnandi er Sigurbjörg Björgúlfsdóttir, Nesi, Hellu, persónulega og fyrir hönd ólögráða dætra sinna, Álfheiðar Fanneyjar Ásmundsdóttur og Ásrúnar Ástu Ásmundsdóttur.

 Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og Austurleið – SBS hf., Hvolsvegi 14, Hvolsvelli.

Dómkröfur stefnanda, Sigurbjargar, eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða henni, sjálfs sín vegna, skaðabætur að fjárhæð 6.317.185 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. september 2002 til 11. mars 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi, Sigurbjörg, þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða henni vegna dóttur hennar, Álfheiðar Fanneyjar Ásmundsdóttur, skaðabætur að fjárhæð 4.819.212 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. september 2002 til 11. mars 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags.

Loks krefst stefnandi, Sigurbjörg, þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða henni vegna dóttur hennar, Ásrúnar Ástu Ásmundsdóttur, skaðabætur að fjárhæð 5.135.808 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. september 2002 til 11. mars 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags.

Að síðustu er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

 

Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr höndum stefnanda að mati dómsins.

Til vara eru gerðar þær kröfur að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

 

MÁLSATVIK

Málsatvik eru í stuttu máli þau að Ásmundur Jón Pálsson heitinn, eiginmaður stefnanda Sigurbjargar og faðir dætra hennar, lenti í umferðarslysi á Suðurlandsvegi, rétt vestan við Hellu, hinn 26. febrúar 2000. Slysið bar að með þeim hætti að rútubifreið á vegum stefnda, Austurleiðar – SBS hf., ók í veg fyrir Ásmund, sem kom úr gagnstæðri átt, og varð árekstur. Í lögregluskýrslu, kemur fram að ökumaður rútubifreiðarinnar hafi, er slysið varð, ekið yfir hámarkshraða í mikilli umferð á glerhálum veginum. Stefnendur halda því fram að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi umrætt sinn.

Ásmundur heitinn hafi hlotið varanlegt andlegt og líkamlegt heilsutjón vegna slyssins. Læknarnir Ragnar Jónsson og Sigurjón Sigurðsson mátu varanlegan miska Ásmundar vegna slyssins 25% og varanlega örorku sömuleiðis 25%. Greiddi Vátryggingafélag Íslands hf. honum bætur á þeim grundvelli hinn 8. nóvember 2001.

Að sögn stefnenda hafði Ásmundur heitinn aldrei haft nein einkenni þunglyndis fyrir umferðarslysið, sbr. vottorð frá Þóri B. Kolbeinssyni lækni, dags. 3. mars 2003. Eftir slysið hafi þunglyndis hins vegar orðið vart hjá Ásmundi, sbr. áðurnefnt vottorð. Því hafi fyrst verið lýst svo að hann væri daufur, vansæll og svæfi illa. Hafi honum verið ráðlagt af lækni að taka geðdeyfðarlyfið Fluoxetin. Ingólfur Sveinsson geðlæknir hafi talið Ásmund þjást af áfallastreitu sem rekja mætti til umferðarslyssins að því er fram kemur í vottorði Magnúsar Ólasonar, læknis á Reykjalundi, frá árinu 2001 og framburði Ingólfs fyrir dóminum. Hinn 28. september 2001 skráði Þórir Kolbeinsson læknir að hann teldi þunglyndi Ásmundar verra en áður og var Fluoxetin lyfjagjöf aukin. Þá er getið um veruleg þunglyndiseinkenni Ásmundar eftir slysið í matsgerð Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar frá 1. október 2001. Ásmundur endurnýjaði lyfseðla sína vegna Fluoxetion geðdeyfðarlyfsins reglulega árið 2002.

Ásmundur svipti sig lífi 8. september 2002. Í bréfi sem hann ritaði til eiginkonu sinnar, stefnanda, skömmu fyrir andlátið, sagði hann að sér líði „rosalega illa sérstaklega á sálinni“ og að „þegar vonleysið hellist yfir [sig] [geti] hann ekkert gert annað en að gráta“. Undir þetta ritaði Ásmundur: „Ástarkveðja, Ási bæklaði.“ Í læknisvottorði Ingólfs S. Sveinssonar, sérfræðings í geðlækningum, dags. 5. maí 2005, komst Ingólfur að þeirri niðurstöðu að ljóst sé að umferðarslysið 26. febrúar 2000 sé „nokkurn veginn bein orsök þess að [Ásmundur] treysti sé ekki að lifa lengur“.

Þegar umferðarslysið varð var stefndi, Austurleið – SBS hf., með ábyrgðartryggingu ökutækja hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og ber stefnendum því samkvæmt 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga að beina málsókn þessari bæði að Austurleið – SBS hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf.

Arnar Þór Stefánsson hdl. sendi f.h. stefnenda stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., bréf, dags. 11. febrúar 2005, þar sem þess var krafist að stefnanda og dætrum hennar yrðu greiddar skaðabætur að tiltekinni fjárhæð vegna missis framfæranda sem rekja mætti til umferðarslyssins 26. febrúar 2000, auk vaxta, kostnaðar o.fl. Með bréfi frá hinu stefnda félagi, dags. 11. júlí 2005, var bótaskyldu vegna slyssins hafnað. Af þeim sökum er stefnandi nauðbeygð fyrir sína hönd og dætra sinna að höfða mál þetta til að ná fram rétti sínum. Stefnandi fékk hinn 28. september 2005 gjafsókn til þessa málareksturs.

 

MÁLSÁSTÆÐUR:

Stefnandi reisir kröfur sínar á 13.-14. og 26. gr. skaðabótalaga, 88.-90. gr. umferðarlaga og reglunni um vinnuveitandaábyrgð en samkvæmt þessum ákvæðum beri stefndu skaðabótaábyrgð á því tjóni er stefnandi og dætur hennar hafi orðið fyrir vegna missis framfæranda þeirra, Ásmundar Jóns Pálssonar, en andlát hans 8. september 2002 sé að rekja til umferðarslyssins sem hann lenti í 26. febrúar 2000.

Stefnandi byggir á því að orsakasamband sé milli umferðarslyssins 26. febrúar 2000 og sjálfsvígsins 8. september 2002 og vísar þessu til sönnunar m.a. til vottorðs Ingólfs S. Sveinssonar, sérfræðings í geðlækningum, dags. 5. maí 2005, þar sem Ingólfur komst að þeirri niðurstöðu að ljóst sé að umferðarslysið 26. febrúar 2000 sé „nokkurn veginn bein orsök þess að [Ásmundur] treysti sér ekki að lifa lengur“. Jafnframt er vísað til vottorðs Þóris B. Kolbeinssonar, læknis dags. 3. mars 2003, þar sem fram kemur að Ásmundur heitinn hafi aldrei haft nein einkenni þunglyndis fyrir slysið en eftir slysið hafi hann orðið þunglyndur, sem lýst hafi sér í því að hann hafi orðið daufur, vansæll og sofið illa. Sama megi ráða af matsgerð Ragnars Jónssonar og Sigurjóns Sigurðssonar frá 1. október 2001. Loks vísar stefnandi til ódags. bréfs sem Ásmundur heitinn ritaði henni skömmu fyrir andlátið, þar sem hann sagði að sér líði „rosalega illa sérstaklega á sálinni“ og að „þegar vonleysið hellist yfir [sig] [geti] hann ekkert gert annað en að gráta“. Undir þetta ritaði Ásmundur: „Ástarkveðja, Ási bæklaði.“

Með vísan til alls framangreinds telja stefnendur óyggjandi að orsakasamband sé milli umferðarslyssins 26. febrúar 2000 og andlátsins 8. september 2002. Þá byggja stefnendur á því að andlátið sé sennileg afleiðing slyssins og vísa því til stuðnings til dómaframkvæmdar hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum þar sem mun fjarlægari afleiðingar skaðabótaskyldrar háttsemi hafa verið taldar sennilegar afleiðingar í skilningi skaðabótaréttarins.

Samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga skuli sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða manns greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann. Um bætur til maka framfæranda fari eftir 13. gr. og bætur til barna framfæranda fari eftir 14. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga megi gera þeim sem af stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns að greiða maka hans og börnum miskabætur. Byggir stefnandi á því að umferðarslysið sé að rekja til stórfellds gáleysis ökumanns rútubifreiðar stefnda, Austurleiðar – SBS hf., er hann hafi komið úr gagnstæðri átt, á röngum vegarhelmingi, yfir hámarkshraða, í mikilli umferð á glerhálum vegi og rekist á bifreið Ásmundar heitins.

Með vísan til framangreindra lagaákvæða sundurliðast bótakrafa stefnenda með svofelldum hætti:

Stefnandi Sigurbjörg:

3.000.000 x (4732 / 3282) = 4.317.185 krónur

Er þess krafist að skaðabótakrafa stefnanda, Sigurbjargar, skuli miðast við lágmarksviðmið 2. málsl. 1. gr. 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Byggist þessi kröfugerð á niðurstöðu tryggingastærðfræðings um eingreiðsluverðmæti bóta sem Ásmundur heitinn hefði fengið frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum miðað við 100% örorku á dánardegi. Nemi höfuðstóll skaðabótakröfu stefnanda á framangreindum grundvelli 4.317.185 krónum og krafa um miskabætur, byggð á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, 2.000.000 króna.  Samtals sé krafa stefnanda, Sigurbjargar, því 6.317.185 krónur.

Dóttirin Álfheiður Fanney:

187 x 15.076 = kr. 2.819.212.

Fjöldi mánaða frá dánardegi Ásmundar til þess er dóttir stefnanda, Álfheiður Fanney, verður 18 ára (apríl 2018) er 187 mánuðir. Barnalífeyrir árið 2002 var kr. 15.076 á mánuði.

Krafist er miskabóta vegna Álfheiðar Fanneyjar á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð kr. 2.000.000.

Alls er krafa stefnanda vegna Álfheiðar Fanneyjar samkvæmt framangreindu kr. 4.819.212.

Dóttirin Ásrún Ásta:

208 x 15.076 = kr. 3.135.808.

Fjöldi mánaða frá dánardegi Ásmundar til þess er dóttir stefnanda Ásrún Ásta verður 18 ára (janúar 2020) er 208 mánuðir. Barnalífeyrir árið 2002 var kr. 15.076 á mánuði.

Krafist er miskabóta vegna Ásrúnar á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð kr. 2.000.000.

Alls er krafa stefnanda vegna Ásrúnar Ástu samkvæmt framangreindu kr. 5.135.808.

Vextir og dráttarvextir:

Þess er krafist með vísan til 16. gr. skaðabótalaga að framangreindar fjárhæðir beri 4,5% vexti frá tjónsdegi, 8. september 2002 til 11. mars 2005. Frá þeim degi er krafist dráttarvaxta en þá var liðinn mánuður frá því að stefnendur lögðu sannanlega fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var það gert með kröfubréfi, dags. 11. febrúar 2005.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, 88.-91. og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 12.-14., 16. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi eru ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

Um fyrirsvar stefnanda, Sigurbjargar, fyrir hönd dætra sinna vísast til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um sameiginlega aðild þeirra til sóknar vísast til 19. gr. sömu laga.

 

Af hálfu stefndu er aðalkrafa um sýknu rökstudd með því að orsakatengsl séu ekki sönnuð. Það sé ótvíræð meginregla í íslenskum skaðabótarétti að tjónþola beri að sanna að orsakatengsl séu á milli tjóns og líkamlegra afleiðinga þess. Oftast nær sé enginn vafi þar um en sé einhver vafi sé aflað sönnunar með óhlutlægri matsgerð. Engin slík matsgerð liggi fyrir í þessu máli heldur hafi stefnandi kostið að afla tveggja hlutdrægra læknisvottorða hjá meðferðarlæknum Ásmundar. Komi þar í ljós greinilegur vilji þeirra til þess að sjálfsvíg Ásmundar sé bein afleiðing af umferðarslysinu tveimur og hálfu ári fyrr. Stefndu hafi ekki fengið tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum að í þessum einu gögnum málsins og hafi dómstólar í þó nokkrum málum talið slíkt veikja sönnunargildi þeirra þannig að ekki væri á þeim byggt.

Stefndu mótmæla því að sönnun orsakatengsla hafi tekist með fullnægjandi hætti en strangar kröfur hljóti að vera gerðar um sönnun m.a. með tilliti til sjónarmiða tjónvalds.

Bent skuli á að andleg líðan Ásmundar hafi verið  talsvert betri eftir dvöl hans á Reykjalundi en hann hafi útskrifast þaðan 18. maí 2001. Frá þeim tíma til 8. september 2002 sé margt á huldu og ljóst að ýmislegt getur hafa gerst sem aukið hafi á vanlíðan hans óháð umferðarslysinu. Megi m.a. nefna það, sem fram komi í læknisvottorði Ingólfs, ofarlega á blaðsíðu 5, um að Ásmundur hafi farið ásamt stefnanda í hjónameðferðarviðtal til Guðfinnu Eydal, sálfræðings í Reykjavík, mjög stuttu fyrir sjálfsvígið. Einnig má benda á að Ásmundur og stefnandi eignuðust annað barn 22. janúar 2002 en vitað mál sé, þótt það sé afar ánægjulegt, að það veldur mjög miklu álagi.

 Miðað við framangreint verði að telja orsakatengsl á milli umferðarslyssins 26. febrúar 2000 og sjálfsvígsins 8. september 2002, tveimur og hálfu ári seinna, ósönnuð.

Þá er á það bent að mat á sennilegri afleiðingu líkamstjóns vegna tiltekins atburðar verði að fara fram sjálfstætt í hverju máli fyrir sig. Rökstuðningur stefnanda fyrir því að um sennilega afleiðingu sé að ræða í þessu máli byggist alfarið á vísun til þriggja dóma, UfR. 1974, bls. 967, NJA 1966, bls. 331 og Hrd. 1983, bls. 1826. Ekki sé hægt að sanna sennilega afleiðingu í þessu máli með vísan til þessara dóma, því að meta beri hvert tilvik fyrir sig. Enn fremur séu málsatvik í framangreindum dómum ekki sambærileg þessu máli og veiti því enga vísbendingu um úrlausn þessa máls. Krafa stefnanda sé ekki rökstudd á annan hátt.

Þrátt fyrir að rökstuðningi stefnanda sé ábótavant fyrir bótaskyldu, á grundvelli þess að sjálfsvíg Ásmundar sé sennileg afleiðing af umferðarslysinu, verði að benda á eftirfarandi atriði:

Mjög langur tími leið frá umferðarslysinu þar til að Ásmundur framdi sjálfsvíg, eða tvö og hálft ár. Verður að telja það meginreglu að því lengri tími sem líður, því ósennilegri verður afleiðingin.

Umferðarslysið hafi ekki á nokkurn hátt verið frábrugðið öðrum umferðarslysum. Ásmundur telji sig ekki hafa rotast og ekki hafi verið sýnt fram á heilaskaða eða höfuðkúpubrot. Þótt andlegar afleiðingar teljist til sennilegra afleiðinga umferðarslysa leiði andleg áföll þeirra nánast aldrei til sjálfsvígs. Sé algerlega ómögulegt að sjá það fyrir við umferðarslys að tjónþoli muni taka sitt eigið líf, þ.e. sjálfsvíg séu ekki fyrirsjáanlegar afleiðingar umferðarslysa. Þvert á móti sé um að ræða fjarlæga og afbrigðilega afleiðingu slyss.

Ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru á milli sjálfsvígsins og umferðarslyssins og að sjálfsvígið væri sennileg afleiðing þessa umferðarslyss sé m.a. verið að álykta eftirfarandi:

             Sjálfsvíg Ásmundar hafi verið ökumanni fólksflutningabifreiðarinnar, Jóhanni Leví Guðmundssyni, að kenna.

Sjálfsvíg geti verið sennileg afleiðing hefðbundins umferðarslyss.

Sjálfsvíg séu sennilegar afleiðingar af andlegri vanlíðan.

Verði að telja miðað við framangreint að sjálfsvíg Ásmundar hinn 8. september 2002 sé ekki sennileg afleiðing af umferðarslysi 26. febrúar 2000.

Því er hafnað að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu ökumanns fólksflutningabifreiðarinnar þegar umferðarslysið varð hinn 26. febrúar 2000. Séu slíkar fullyrðingar af hálfu stefnanda ósannaðar.

Mun meira þurfi til svo að um stórkostlegt gáleysi sé að ræða miðað við atvik málsins. Umferðarslys sem þessi séu nokkuð algeng, þar sem verið sé að forða yfirvofandi árekstri vegna hálku. Í stað þess að eiga það á hættu að velta bifreiðinni með 12 – 14 manns innanborðs hafi ökumaðurinn reynt að stýra fram hjá bifreiðinni fyrir framan hann en það hafi ekki farið eins vel og vilji hafi verið fyrir.

Miðað við dómaframkvæmd þurfi vangá tjónvalds að hafa verið á mjög háu stigi. Stórkostlegt gáleysi feli í sér alvarlegra frávik frá þeirri háttsemi sem tjónvaldi hafi borið að viðhafa en þegar um almennt gáleysi sé að ræða. Umferðarslys eins og þetta geti aldrei talist vera vegna háttsemi sem talin sé stórkostlegt gáleysi.

Krafan hafi fyrst komið fram með bréfi lögmanns frá 11. febrúar 2005 en því hafi aldrei verið haldið fram vegna uppgjörs á líkamstjóni Ásmundar að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Verði því að telja hana of seint fram komna.

Verði með hliðsjón af framangreindu að hafna því að stefnandi eigi rétt á bótum á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga kemur fram að bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Ásmundur heitinn framdi sjálfsvíg tveimur og hálfu ári eftir umferðarslysið. Ljóst er samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga að eftirlifendur eiga ekki bótarétt úr ábyrgðartryggingu ökutækis.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að stefndu séu bótaskyld vegna sjálfsvígs Ásmundar er varakrafan sú að dómkröfur verði lækkaðar verulega.

Ásmundur hafi fengið greiddar bætur í nóvember 2001 á grundvelli 25% varanlegrar örorku, samtals kr. 8.197.897. Þessar greiðslur verði að koma til frádráttar við útreikning á bótum fyrir missi framfæranda:

(Kr. 1.200.000 x (4379/3282) x 12.020 x 100%) – kr. 8.197.897 = kr. 10.986.023. 30% af kr. 10.986.023 = 3.295.807.

Þar sem þessi fjárhæð er undir lágmarksupphæð 13. gr. á andlátsdegi Ásmundar ber að miða við lágmarksfjárhæðina kr. 4.002.742.

Kröfum stefnanda um miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er mótmælt sem allt of háum og úr takti við dómaframkvæmd hér á landi. Krafan sé einnig algerlega órökstudd. Eigi þetta við um kröfur stefnanda vegna sjálfrar sín og vegna ófjárráða barna sinna.

Aðallega er krafist málskostnaðar til handa stefndu úr hendi stefnanda að mati dómsins á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla samkvæmt heimild í 3. mgr. 130. gr. framangreindra laga nr. 91/1991.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt og þess krafist að dráttarvextir skuli miðast við dómsuppsögudag, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Verði ekki fallist á framangreint er byggt á því að miða beri við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Ef ekki er á það fallist er þess krafist að dráttarvextir miðist við 7. júlí 2005, þ.e. mánuð eftir að stefnda VÍS var sent símbréf ásamt lögregluskýrslum o.fl. Þá fyrst hafi félagið getað metið tjónsatvikið, sbr. 9. gr. framangreindra laga nr. 38/2001.

 

NIÐURSTAÐA

Ásmundur Jón Pálsson lenti í árekstri við fólksflutningabifreið á Suðurlandsvegi hinn 26. febrúar 2000. Varð áreksturinn með þeim hætti að ökumaður fólksflutningabifreiðarinnar snögghemlaði þegar bifreið fyrir framan hann var snarhemlað og tókst ekki betur til en svo að fólksflutningabifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming og framan á bifreið Ásmundar. Að mati lækna var varanlegur miski Ásmundar vegna slyssins 25% og varanleg örorka 25%. Var tjón Ásmundar gert upp á grundvelli matsgerðar þessarar hinn 8. nóvember 2001. Í matsgerð kemur fram að við slysið virðist Ásmundur hafa tognað á hálsi og baki. Hann hafi að því er virðist fengið beinan höggáverka framan á bæði hné. Hann hafi haft talsverð tognunareinkenni frá vinstri öxl. Gerð hafi verið liðspeglun á vinstra hné og muni hafa greinst rifinn liðþófi innanvert í hnénu. Einnig hafi verið gerð liðspeglun á hægra hné og muni þar hafa geinst rifinn liðþófi utanvert. Segulómskoðun af báðum öxlum, hálshrygg og mjóhrygg hafi verið eðlileg. Eins og fram komi í gögnum sem læknarnir höfðu hafði Ásmundur haft nokkur einkenni frá stoðkerfi fyrir slysið 26. febrúar 2000. Þar hafi verið um að ræða einkenni frá öxlum, hálsi, baki og hnjám. Tekið sé tillit til þessa við mat á afleiðingum slyssins.

Af gögnum þeim sem fyrir liggja verður ekki séð að Ásmundur hafi hlotið áverka á höfði eða miðtaugakerfi við slysið. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, þar á meðal framburði vitnisins Ingólfs Sveinssonar, en að almennt heilsufar Ásmundar, andlegt og líkamlegt, hafi verið slæmt og telur dómari það ekki einungis stafa frá slysinu 26. febrúar 2000 heldur verður hér að líta til þess að Ásmundur hafði, áður en slysið varð, átt við verkjavandamál í hægra hné að stríða á árinu 1990 og árið 1992 og aftur 1993 leitaði hann til læknis vegna verkja í hnjám og enn fremur kemur fram að á árinu 1995 kvartaði hann yfir verkjum í öxlum og herðum. Segir í nótu læknis frá þessum tíma að hann hafi almenn stoðkerfisóþægindi vegna skertrar líkamsstöðu og einhæfrar vinnustellingar, þurfi leiðbeiningar í vinnustellingum, hugsanlega léttari vinnu með breytilegu álagi og þyrfti að fara í sjúkraþjálfun sem hann gerði. Hinn 15. júní 1995 datt á hann steypuklumpur á höfuð og hægri öxl og var talið að hann hefði marist á höfði og tognað á hálsliðum. Hann leitaði á læknastofu í maí 1996 vegna kvartana um bakverki og leitaði til kiropraktors í framhaldinu. Hinn 17. nóvember 1997 leitaði hann á slysa og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og kom fram að um 4 metra langt og nærri 50 kg þungt stál hefði fallið úr tveggja metra hæð á höfuð hans. Hafði hann verið með hjálm og talinn hafa tognað á hálsi og marist á hægri öxl og upphandlegg. Loks virðist hann hafa fengið verkjalyf og bólgueyðandi lyf nokkrum sinnum vegna verkja í mjóbaki síðari hluta árs 1999.

Þegar litið er til heilsufars Ásmundar almennt árin 1990 til láts hans verður ekki séð að slys það er hann varð fyrir 26. febrúar 2000 sé orsök þess að hann fyrirfór sér tveimur og hálfu ári seinna hinn 8. september 2002. Þá telur dómari að sjálfsvíg Ásmundar sé ekki sennileg afleiðing slyssins og enn fremur verður ekki fallist á það með stefnanda að sýnt sé fram á að akstur ökumanns fólksbifreiðar stefnda, Austurleiðar – SBS hf., falli undir hugtakið stórkostlegt gáleysi.

Samkvæmt þessu verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hennar úr ríkissjóði eða 500.000 krónur sem er þóknun lögmanns þeirra að viðbættum virðisaukaskatti kr. 122.500 og 104.572 krónur í útlagðan kostnað, samtals   616.822 krónur.

Allan V Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ

 Stefndu Vátryggingafélag Íslands hf. og Austurleið – SBS hf. skulu sýknir af kröfum stefnanda Sigurbjargar Björgúlfsdóttur, f.h. sjálfrar sín og Álfheiðar Fanneyjar Ásmundsdóttur og Ástrúnar Ástu Ásmundsdóttur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 616.822 krónur, greiðist úr ríkissjóði.