Hæstiréttur íslands
Mál nr. 35/2007
Lykilorð
- Kynferðisbrot
|
|
Mánudaginn 18. júní 2007. |
|
Nr. 35/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Stefáni Hjaltested Ófeigssyni (Brynjar Níelsson hrl) |
Kynferðisbrot.
S var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað Y með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka. Með vísan til þess að héraðsdómur hafði metið frásögn Y af atburðinum trúverðuga, auk þess sem hún fékk stoð í líkamlegum áverkum á Y eftir atburðinn, lostástand og andlegra erfiðleika hennar í kjölfar atburðarins, svo og framburð vitna um frásögn Y strax á fyrstu stigum, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu S fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. S hafði með dómi héraðsdóms 17. nóvember 2005, sem staðfestur var í Hæstarétti, verið dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Brot S í þessu máli voru framin fyrir uppsögu héraðsdómsins frá 17. nóvember 2005. Bar því að tiltaka refsingu S samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár auk þess sem hann var dæmdur til að greiða Y 1.000.000 króna í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing verði þyngd, en niðurstaða héraðsdóms um bótakröfu staðfest.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi.
Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, en það var mat dómsins að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi átt kynmök við kæranda í stofu á heimili hans, gegn vilja hennar og með valdbeitingu, eftir að kærandi hafði gefið til kynna að samræðið væri gegn vilja hennar. Taldi héraðsdómur að framburður kæranda væri trúverðugur og styddist við líkamlega áverka á henni eftir atburðinn, lostástand og andlega erfiðleika í kjölfar hans, svo og framburð vitna um frásögn kæranda strax á fyrstu stigum. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa misþyrmt kæranda í umrætt sinn. Ekki er fram komið að þeir annmarkar séu á þessu sönnunarmati héraðsdóms að ómerkingu varði. Verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest.
Með vísan til þess, sem segir í forsendum héraðsdóms um ákvörðun refsingar ákærða, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Stefán Hjaltested Ófeigsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnaður skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 502.079 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember 2006, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 10. október 2006, á hendur Stefáni H. Ófeigssyni, kt. 200677-4209, án lögheimilis á Íslandi, fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt laugardags í lok maí eða byrjun júní 2004, á þáverandi heimili sínu að Njálsgötu 7, Reykjavík, með ofbeldi þröngvað Y í tvígang til samræðis eða kynmaka í endaþarm.
Er þetta talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y, kt. [...], er krafist skaðabóta, að fjárhæð 1.200.000 kr., auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. júní 2004 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, fyrst er liðið er ár frá því að bótakrafan er kynnt ákærða. Hvað varðar almenna vexti er til vara gerð krafa um vexti frá þeim tíma er Y lagði fram kæru hjá lögreglu 28. desember 2005. Þá er krafist þóknunar við réttargæslu samkvæmt mati dómsins.
Verjandi ákærða krefst sýknu og þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnalauna að mati dómsins og þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
I.
Hinn 28. desember 2005 lagði Y fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot, að viðstöddum réttargæslumanni sínum. Skýrði hún svo frá að hún hefði farið með A á Hverfisbarinn, aðfaranótt laugardags í lok maí eða í byrjun júní 2004, þar sem þau hefðu hitt ákærða. Þetta hafi verið um klukkan eitt eftir miðnætti. A hefði leiðst og farið heim á undan henni. Hún og ákærði hafi orðið eftir og haldið áfram að spjalla saman. Ákærði hafi svo boðið henni heim og haft á orði að það væri ódýrara að fá sér í glas heima hjá honum. Hún hafi þegið það. Þau hafi síðan gengið eftir Skólavörðustígnum upp á Njálsgötu og í íbúð ákærða í kjallara þar. Sagði hún að ekkert daður eða eitthvað kynferðislegt hefði átt sér stað á milli þeirra á leiðinni þangað og hún hefði ekki ætlað sér að eiga kynferðisleg samskipti við ákærða. Aðspurð kvaðst hún hafa verið búin að drekka tvo bjóra og ekki neytt neinna annarra vímuefna. Hún hefði fundið lítillega til áfengisáhrifa, en alls ekki verið ofurölvi. Hún sagði að þau hefðu sest í stofuna. Íbúðin hafi samanstaðið af eldhúsi, stofu, svefnherbergi og baðherbergi. Þriggja sæta sófi með tauáklæði var í stofunni. Hana minnti að sjónvarp hafi verið fyrir framan sófann. Í svefnherberginu hafi verið rúm, um 130 cm breitt, sem á var blátt „frotte“ lak, en hana minnti að rúmið væri frekar hátt. Fannst henni íbúðin hafa verið fremur tómleg. Ákærði hefði farið fram í eldhús og komið með tvær opnar bjórflöskur inn í stofu. Kvaðst hún ekki hafa tekið eftir því þegar hann opnaði bjórflöskurnar. Hún hafi farið á baðherbergið og minntist þess að hafa horft í spegilinn og fundist ákærði vera sætur strákur. Sagði hún að áður en hún fór á baðið hafi hún verið farin að finna fyrir sljóleika, en ekkert spáð sérstaklega í það. Hún minntist þess að hafa síðan farið fram í stofu. Kvaðst hún muna í brotum hvað hefði gerst eftir það, en minni hennar af atburðum væri alls ekki í einni samfellu. Hún hafi rankað við sér í rúminu og verið ber að neðan og í fötum að ofan. Hún hafi legið á maganum í rúminu með mjaðmirnar eitthvað reistar upp og verið með hendur niður með síðum. Ákærði hafi verið að eiga mök við hana aftan frá og slegið hana ítrekað með flötum lófum í báðar mjaðmirnar. Gerði hún sér ekki grein fyrir því hvort hann væri að eiga við hana kynmök um leggöng eða endaþarm. Hún hafi rankað við sér vegna sársaukans þegar hann sló hana. Hún hafi sagt við hann: „Ekki.“ Það hafi verið hálfkæft, enda hafi hún verið orkulaus á þessum tímapunkti. Síðan hljóti hún að hafa dottið út af aftur. Hún hafi rankað við sér aftur í sófanum, en hún hafi legið afkáralega á bakinu. Hún hafi vaknað við að ákærði var að klæða hana úr að ofan. Hann hafi dregið hana upp á sig og þannig hafi þau átt mök. Gerði hún sér ekki grein fyrir því hvort hann hafi átt við hana mök um leggöng eða endaþarm. Hann hafi ítrekað slegið hana í mjaðmirnar og síðan með flötum lófa margsinnis í bæði brjóstin. Hún hafi við þetta fundið fyrir miklum sársauka og ítrekað sagt við hann: „Hættu og nei“, en hann hefði þrátt fyrir mótmæli hennar haldið áfram. Kvaðst hún hafa reynt að grípa í hendur hans á víxl, en hann haldið fast um úlnliði hennar til skiptis og slegið í brjóst hennar með hinni hendinni. Hún minntist þess að hafa sagt við hann „hættu“ á meðan á þessu hafi staðið. Þá minnti hana að hann hefði sagt henni að hún ætti að segja að hún vildi fá það í rassinn, fá það fast o.fl. Hún ætti einnig að segja að hún væri hrein mey o.fl. Svo hefði hún dottið eitthvað út aftur. Hún kvaðst minnast þess að hafa einhvern tímann legið á gólfinu, á milli stofunnar og eldhússins, annað hvort á maganum eða hliðinni. Aðspurð mundi hún ekki hvort ákærði hafi átt við hana mök þá. Það næsta sem hún myndi væri að hún hefði klætt sig í nærbuxurnar og brjóstahaldarann. Hún hafi sagt við hann ítrekað: „Ég verð að fara.“ Hún hafi svo farið í hin fötin og farið út, en hann haldið út á eftir henni. Þau hafi sest við bekk á Njálsgötunni í námunda við söluturninn Drekann og ákærði reynt að telja hana á að koma aftur inn í íbúðina. Hún hafi svo staðið upp og farið. Hann hafi staðið kyrr og öskrað á eftir henni: „Hóra, drusla, komdu hér aftur.“ Hann hafi hreytt til hennar fleiri orðum og hún gengið heim til A að [...]. Taldi hún að þetta hafi verið um sexleytið. Hún hafi fengið að sofa heima hjá A en þau hafi lengi verið mjög góðir vinir. Hún kvaðst hafa vaknað um kl. 11 og hafa verið ofsalega vönkuð og liðið illa á líkama og sál. Hún hafi farið í sturtu og þá veitt athygli stórum marblettum á mjöðmum og brjóstum. Hún hafi verið með marblett á hægri úlnlið og verið rauð á hinum úlnliðnum. Hún hafi komið fram á handklæðinu í „sjokki“ og A séð þessa marbletti. Hefði hún þá greint A frá því að hún héldi að eitthvað hefði komið fyrir, en væri ekki viss um hvað það væri. Kvaðst hún svo hafa farið að vinna í [...] og sagt starfsfélaga sínum, B, frá því að hún hefði vaknað með marbletti um allan líkamann og hún væri að „fríka út“ vegna þess, en lýsti þessu ekki nánar fyrir honum. Þá sagði hún að móðir hennar hefði hringt til hennar í vinnuna. Hún hefði sagt móður sinni að eitthvað hefði komið fyrir og þegar liðið hafi á samtalið hafi hún sagt móður sinni að sér hafi verið nauðgað. Jafnframt kvaðst hún hafa hringt úr vinnunni í C og beðið hann að koma til hennar og faðma hana, henni liði svo illa. Hann hafi komið í vinnuna og hún sýnt honum marblettina inni á salerninu. Hún hafi sagt honum frá því hvað hafi komið fyrir hana um nóttina. Nokkrum dögum síðar hafi hann tekið ljósmyndir af áverkum hennar sem hann vistaði í tölvu sinni. Mánudaginn eða þriðjudaginn eftir þetta hafi hún verið í vinnu í [...]. Hún hafi hágrátið og sagt yfirmanni sínum, D, að hún yrði að fara heim. D hafi þá spurt hana af hverju og hún svarað að það væri persónulegt. D hafi viljað að hún harkaði af sér og samtal þeirra endað með því að hún öskraði á D að henni hefði verið nauðgað. D hafi sagt henni að fara og seinna rekið hana úr vinnunni. Hún kvaðst þá hafa strunsað í gegnum eldhúsið og kokkurinn, F, hafi gengið að henni og spurt hana hvort það væri ekki í lagi með hana. Hún hafi lagst í gólfið hágrátandi og sýnt honum marblettina og sagt honum frá því að henni hafi verið nauðgað. Einni eða tveimur vikum eftir atburðinn hafi hún leitað á húð- og kynsjúkdómadeild, en hún hafi verið hrædd um að hafa smitast af alnæmi. Þar hefði hún greint frá því að henni hafi verið nauðgað og gengist undir kvenskoðun. Um ástæðu þess að hún kærir atburðinn svo seint kvaðst hún ekki hafa treyst sér til að leggja fram kæru þar sem henni hafi ekki fundist hún hafa neitt í höndunum, auk þess sem hún hafi verið full sjálfsásökunar þar sem hún hefði farið heim með ákærða. Málið hafi síðan hvolfst yfir hana þegar hún sá fréttaflutning af því að ákærði hefði hlotið dóm fyrir samskonar brot og hún hefði sjálf orðið fyrir. Hún hafi því ákveðið að leggja fram kæru í því skyni að takast á við þetta.
A gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 14. mars 2006. Hann minntist þess að hafa farið með Y á Hverfisbarinn í lok maí eða byrjun júní 2004. Aðspurður kvaðst hann ekki þekkja ákærða, en hafa séð ljósmynd af honum í Dagblaðinu. Hann minntist þess ekki að hafa hitt ákærða þetta kvöld. A kvaðst hafa farið heim á undan Y og vaknað milli kl. 8 og 9 um morguninn. Y hafi þá komið inn í herbergi til hans með handklæði vafið utan um sig. Hún hafi verið grátandi og í mikilli geðshræringu. Hún hafi sýnt honum marbletti á framanverðum fótleggjum, á utanverðum lærunum og ofan á brjóstunum. Marblettirnir á lærunum hafi verið eins og einhver hefði gripið óþyrmilega í hana með báðum höndum. A kvaðst ekki hafa áttað sig á alvarleika málsins og aðstæðum í fyrstu. Hún hafi svo lýst því að hún hefði farið með ákærða heim, eitthvert á Njálsgötuna, nálægt gömlu ölgerðinni. Þau hefðu átt einhver samskipti og hún hlaupið frá honum. Hann hafi náð henni fyrir framan ölgerðina, hann skellt henni á jörðina og nauðgað henni þar. A sagði að hún hafi verið í mjög mikilli geðshræringu þegar hún hafi greint honum frá þessu og trúlega verið ennþá drukkin. Frásögnin hafi því verið frekar ruglingsleg. Á meðan hún hafi greint honum frá atvikum hafi hún verið með handklæðið utan um sig og ruggað fram og til baka, samanhnipruð og verið mjög viðkvæm. Þetta ástand hafi verið mjög óeðlilegt og ólíkt henni. A hafi boðist til að aka henni á slysadeild Landspítalans, en hún neitað því með þessum orðum: „Þeir geta ekkert gert. Ég er búin að fara í sturtu.“ A tók það fram að það væri mjög ólíkt henni að fara í sturtu þegar hún væri búin að skemmta sér. Venjulega færi hún bara beint að sofa. Hann kvaðst hafa boðist til að ræða við móður sína sem er lögmaður en Y hafi alls ekki viljað það. Þá hafi hann boðist til að fara með henni til lögreglunnar en hún afþakkað það. Næstu daga hefði hann séð marbletti hennar stækka og ítrekað boðist til að hjálpa henni með því að leita faglegrar aðstoðar fyrir hana en hún afþakkað alla hjálp og sagst ætla að taka á þessu sjálf. Sagði hann að hún hafi á þessum tíma vitað að maðurinn heiti Stefán og væri verkfræðingur, en talið sönnunarstöðuna í málinu slæma. Þá sagði hann að það væri eins og hún hafi veigrað sér við það að leita aðstoðar hjá lögreglunni. Y væri mjög áreiðanleg og gerði sér aldrei upp hluti. Það væri því engin ástæða til að rengja sögu hennar.
Lögregla ræddi hinn 13. júní 2006 símleiðis við C, en hann var í Svíþjóð. Hann greindi svo frá að Y hefði hringt í hann einhver tímann um vorið 2004, en henni hafi liðið mjög illa. Hann hafi svo farið í vinnuna til hennar á [...]. Hún hafi farið með honum inn á salernið og sýnt honum marbletti víðsvegar á líkama hennar. Hann hafi tekið ljósmyndir af áverkum hennar nokkrum dögum síðar og vistað á tölvu hennar. Hann kvaðst eiga umrædda tölvu enn en hún væri ónýt og því ekki hægt að ná myndunum fram. Hann tók það svo fram að það gæti verið að hann hefði eytt myndunum út af minni tölvunnar.
Hinn 8. ágúst 2006 ræddi lögregla símleiðis við E, móður Y. Í lögregluskýrslu kemur fram að Y hafi hringt til hennar vorið 2004 og verið í miklu uppnámi. Y hafi sagt frá því að henni hafi verið byrlað eitthvað og nauðgað hrottalega deginum áður á Njálsgötunni af ákærða. Y hafi sagst vera með marbletti á brjóstunum og hún misst meðvitund, en þegar hún hafi verið komin til meðvitundar hafi hann verið að slá hana. Hún hafi sagt að henni hafi þótt verst orðbragðið sem ákærði hafi notað við hana. Hún hafi ekki viljað segja hvað hann sagði, enda hafi hann notað hræðileg orð. Miklu betra væri að móðir hennar vissi ekki hvað ákærði hefði sagt. E sagði að henni hefði brugðið mjög að heyra þessa frásögn. Fram kemur að hún hefði eiginlega ekki trúað Y í fyrstu og hálfdregið úr henni að kæra atburðinn. Y hafi verið í miklu „sjokki“. Eftir þetta hafi Y átt í miklum erfiðleikum með að vera ein og farið í meðferð hjá listmeðferðarfræðingi. Hún væri enn ekki búin að ná sér. E sagði að hún hefði ekki hitt Y á þessum tíma, enda hafi hún verið búsett á Akureyri.
Þá ræddi lögregla símleiðis við F. Í lögregluskýrslu frá 16. ágúst 2006 kemur fram að hann starfaði sem kokkur í [...] vorið og sumarið 2004. Hann hafi sagt að einhvern tímann hefði Y komið inn í eldhúsið og sest niður við borð, en hún hafi verið í mikilli geðshræringu. Hann hafi tekið eftir því fyrr um daginn að hún hafi verið frekar annars hugar og yfirmaður hennar hafi verið að reka á eftir henni. Hann hafi gengið á hana og spurt hvort eitthvað væri að. Eftir nokkurt þóf hafi hún brotnað saman og greint frá því að henni hafi verið nauðgað. Ekki hafi komið fram hvar eða hvenær það hafi verið. Hún hafi sýnt honum marbletti hægra megin á hálsinum, sem hún sagði að væri eftir nauðgunina. Hann hafi ráðlagt henni að leita á slysadeild og kæra málið til lögreglu. Samtalinu hafi svo lokið, en hún hefði ekki mætt aftur til vinnu í [...].
Jafnframt ræddi lögregla símleiðis við D. Í lögregluskýrslu kemur fram að hún hafi verið yfirmaður í [...] vorið og sumarið 2004. Einhvern tímann um vorið hafi hún rætt við Y, en hún hefði þá mætt illa í vinnu í nokkra daga og ekki boðað forföll. D hafi veitt henni tiltal vegna þessa. Y hafi komist í mikla geðshræringu og svarað eitthvað á þessa leið: „Já, en mér var nú nauðgað.“ D kvaðst ekki hafa trúað Y á þessum tíma. Fljótlega eftir þetta hefði Y hætt í vinnu í [...]. Aðspurð kvaðst D ekki hafa tekið eftir því hvort Y hefði verið með einhverja áverka.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 8. mars 2006. Hann kvaðst kannast við umrædda stúlku, þó hann þekki nokkrar stúlkur að nafni Y. Hann hafi á svipuðum tíma farið heim til sín með stúlku að nafni Y sem sé á svipuðum aldri og kærandi, en hann hafi ekki þekkt stúlkuna fyrir. Hann hefði hitt hana í miðbæ Reykjavíkur og þau farið heim til hans, eins og gangi og gerist, og haft þar mök. Sagði hann það fráleitt að hann hefði nauðgað stúlkunni. Þau hafi haft mök með fullkomnu samþykki beggja. Neitaði hann því alfarið að hafa nokkurn tímann byrlað stúlku lyf. Kvaðst hann lítið meira geta sagt um þessi kynni þeirra, þau hafi ekki verið eftirminnileg. Aðspurður mundi hann ekki hvar þau hefðu hist, hvenær þau hafi farið heim til hans, eða hvenær hún hafi farið þaðan, enda væri langt um liðið. Honum var kynntur framburður Y í kæruskýrslu hennar. Um lýsingu hennar á íbúð hans sagði hann að í henni hafi ekki verið þriggja sæta sófi og sófinn hafi ekki verið með tauáklæði. Það væri frekar flauel. Þá væri rúmið ekkert sérstaklega hátt. Tók hann fram að ekki væri óeðlilegt að hún kannaðist við íbúð hans. Þá sagði hann að hún hafi verið með meðvitund allan tímann, en þau hafi bæði verið ölvuð en með fullu ráði. Hann mundi ekki sérstaklega eftir því að hafa gefið henni bjór en fannst það líklegt. Kvað hann lýsingu hennar á atburðum alranga. Þá sagði hann að hann hefði ekki farið út úr íbúðinni á eftir henni heldur hafi hún farið frá honum með venjulegum hætti, en það gæti hafa verið í kringum sex að morgni. Að lokum sagði hann að þessi kæra væri eingöngu til komin vegna fjölmiðlaumfjöllunar um hann.
II.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð G, yfirlæknis á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, frá 3. janúar 2006. Í vottorðinu segir að Y hafi komið á göngudeild kynsjúkdóma hinn 29. júní 2004 og tjáð deildarlækni göngudeildarinnar, H, að henni hafi verið nauðgað mánuði áður, en hún hafi verið stödd á Hverfisbarnum. Hún hafi greint frá því að hafa drukkuð lítið eða ekkert, en verið með bjór í grænni flösku. Það næsta sem hún muni er að hún vakni í miðjum klíðum uppi í sófa heima hjá manni sem hafi verið að hafa samfarir við hana. Hún hafi verið með marbletti, sem hún hafi tekið myndir af þegar hún hafi komist heim. Hún hafi haft aukna hvítleita útferð mánuði fyrir komuna á deildina. Þá segir að við komu á kynsjúkdómadeildina hafi hún haft kláða en ekki kviðverki. Skoðun leiddi ekkert athugavert í ljós, enda væri liðinn mánuður frá atvikinu. Tekið var þvagsýni en merki um chlamydiu eða lekanda sáust ekki. Blóðpróf sýndu ekki merki um alnæmi, sárasótt eða lifrarbólgu. Bakteríuræktun frá leggöngum sýndi eðlilega skeiðarflóru. Henni var ráðlagt að endurtaka blóðpróf eftir sex mánuði. Jafnframt segir í vottorðinu að vaninn sé að læknar og hjúkrunarfræðingar deildarinnar ráðleggi að sjúklingar sem hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi leiti einnig aðstoðar á neyðarmóttöku vegna kynferðislegs ofbeldis og einnig til Stígamóta. Þetta væri oft ekki tekið fram í sjúkraskrám þó það hafi verið gert. Umræddur læknir muni ekki hvort þetta hafi verið gert í þessu tilviki, en hann geri það venjulega. Þá segir að hinn 14. desember 2004 hafi hún komið á deildina og óskað eftir að próf yrðu endurtekin, en sýni hafi reynst neikvæð. Þá voru prófin endurtekin 22. apríl 2005 og reyndust þau öll eðlileg.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla þar sem fram kemur að tölva C hafi verið sótt á heimili hans í Svíþjóð og send upplýsinga- og eftirlitsdeild lögreglunnar í Reykjavík til tölvurannsóknar. Allar ljósmyndir er fundust á CD-diski hafi verið afritaðar. Við skoðun myndanna hafi engin mynd fundist er sýndi áverka Y.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa sofið hjá Y á þeim tíma sem um ræðir, en vissi ekki nákvæma dagsetningu á því. Sagði hann það af og frá að um nauðgun hafi verið að ræða. Greindi hann frá því að hafa hitt hana í bænum og þau tekið tal saman, sem hefði leitt til þess að hann bauð henni heim með sér. Hann kvaðst ekki hafa þekkt hana áður. Aðspurður sagði hann að það gæti verið að þau hefðu hist á Hverfisbarnum, en hann myndi eftir að þau hefðu gengið saman í miðbænum. Mundi hann ekki sérstaklega eftir því að einhver hefði verið með henni. Gat hann ekki tímasett um hvaða leyti þetta hafi verið, en eitthvað hafi verið liðið á nóttina. Hann hefði haldið utan um hana á leið heim til sín og í huga sínum hafi klárlega verið daður á milli þeirra, þau verið á leið heim til hans seint um nóttina, og talið að þetta gæti leitt til kynlífs, sem það hefði og gert. Þegar heim var komið hefði hann boðið upp á drykk, annað hvort bjór eða hvítvín, líklega bjór. Ákærði gat ekki sagt til um hvort þau hefðu drukkið úr flösku eða glasi, ef þetta var bjór í flösku hafi það verið úr flösku, en annars úr glasi. Sagði hann að það gæti verið að þetta hefði verið flaska og hann líklega komið með bjórinn inn í stofu úr eldhúsinu, eftir að hafa opnað hann þar, enda væri bjórinn geymdur í eldhúsinu. Neitaði hann því alfarið að hafa sett nokkuð í drykk hennar. Hann myndi aldrei gera slíkt. Þau hefðu sest í sófann í stofunni og eitt leitt af öðru. Þau hefðu byrjað að kyssast og hún komið og sest ofan á hann. Þau hafi farið úr að neðan og samræði hafist. Ákærði sagði að hann hefði lyft upp bol hennar og í hita leiksins hafi hann slegið í brjóst hennar, með opnum flötum lófa, í nokkur skipti, en þetta hafi ekki verið einhver barningur, heldur hluti af leiknum. Það hefðu aldrei komið fram mótmæli svo hann muni eftir. Síðan hafi þau fært sig í svefnherbergið. Þar hafi hann verið „aftan frá“ og slegið í mjaðmir og rass hennar. Þetta hafi áfram verið hluti af leiknum. Sagði ákærði að samræðinu hafi aldrei verið mótmælt og ef sagt væri „hættu“ við hann myndi hann hætta. Mundi hann ekki hvaða orðaskipti hefðu verið á milli þeirra enda langt um liðið. Síðan sagði ákærði að það megi vera, og það væri mjög líklegt, að um „dirty talk“ hafi verið að ræða. Samræðinu hefði lokið uppi í rúmi og þau lagst niður. Hún hefði strax eða mjög fljótlega sagst vilja fara, eða hún þyrfti að fara, en hann viljað að hún yrði áfram það sem eftir væri nætur. Hún hefði farið fram í stofu og klætt sig. Hann hefði staðið upp á eftir henni og hún svo farið út. Ákærði hefði orðið eftir og farið að sofa. Þannig hefði þeirra samskiptum lokið. Aðspurður taldi ákærða þetta hafa verið undir morgun, en gat ekki tímasett það nánar, enda langt um liðið. Neitaði hann því að hafa farið út á eftir henni eða að hafa hreytt einhverju í hana. Fullyrti hann að þetta hefði ekki verið nauðgun. Aðspurður sagði hann að þau hefðu haft samræði um leggöng og ekki notað verjur. Þá sagði hann að þau hefðu bæði verið undir áhrifum áfengis, en með fullri meðvitund. Þau hefðu e.t.v. drukkið einn bjór eða eitt glas, en byrjað að kyssast fljótlega.
Þegar ákærði var inntur eftir því hvort hún hefði kveinkað sér við það að hann sló hana eða beðið hann að hætta svaraði hann neitandi. Hann kvaðst hins vegar gera sér fulla grein fyrir því að þetta hefði ekki átt heima í venjulegum skyndikynnum, að slá. Á þessu tímabili hafi hann verið nýhættur í árslöngu sambandi og mikið „djamm“ verið á honum eftir að upp úr því slitnaði. Hann hafi verið að fara heim með stelpum og þetta hefði verið „fullharkalegt þannig“ en þetta hafi klárlega ekki verið nauðgun. Samræðið hafi verið samþykkt og hún byrjað ofan á sér. Ákærði sagði að honum þætti það afskaplega miður ef hún hefði upplifað þetta svona og hann vildi þá biðjast afsökunar.
Þegar hann var aftur inntur eftir því hvort hún hefði ekki beðinn hann á einhverjum tímapunkti að hætta kvaðst hann ekki muna til þess og ef hann væri beðinn að hætta myndi hann hætta. Það væri alveg klárt. Þegar verjandi ákærða innti hann eftir því hvort það væri rétt skilið að hann myndi ekki til þess að hún hafi sagt honum með áberandi hætti, eða látbragði, að hún vildi hætta samræðinu, eða þessari hörku í samræðinu, sagði ákærði að hann muni ekki til þess að hann hefði verið beðinn að hætta. Hún hefði ekki hreyft andmælum við samræðinu eða þegar hann sló hana. Aðspurður hvort hún hefði verið samþykk þessum kynferðislegu athöfnum og hvernig hann hefði vitað það sagði hann hana hafa verið samþykka. Hún hafi komið ofan á hann og hafið samræðið í byrjun. Það hefði í sjálfu sér ekki verið rætt. Þegar um væri að ræða „kelerí“ og stúlka komi ofan á og fari úr buxunum þá hljóti samræðið að vera með samþykki. Um það hver hefði klætt hvern úr buxunum sagði hann það hafa verið sameiginlegt, en mundi ekki nákvæmlega hvernig handtökin hefðu verið. Hún hefði líklega staðið upp og hann tekið buxurnar niður á henni og hún kannski hjálpað honum úr buxunum. Svo hafi hún komið ofan á hann.
Aðspurður um framburð hennar, þess efnis að hún hafi misst meðvitund í íbúð hans og skýringu á því, sagði ákærði að spyrja þurfi hana að því. Hún hefði verið með meðvitund meðan á samræðinu stóð og allan tímann. Hann hefði engan áhuga á því að eiga mök við einhvern sem væri sofandi. Um það hvort hún hafi verið sljó sagði hann svo ekki hafa verið að sínu viti. Hún hafi virkað á hann eins og með fullri meðvitund, þannig hefði hann upplifað það. Þá sagði hann að hún hefði verið með meðvitund meðan á samræðinu stóð og reyndar allan tímann. Taldi hann að það gæti verið að hún hefði farið frá honum um sexleytið um morguninn.
Vitnið, Y, skýrði svo frá að meint nauðgun hefði átt sér stað stuttu áður en Eurovision var haldið. Hún hefði farið út á lífið í miðbæinn um miðnætti og hitt vin sinn C á veitingastaðnum Sirkus. A vinur hennar hefði hringt og hún stoppað þar stutt. Hún hefði hitt hann á veitingastaðnum Hverfisbarnum. Þau hefðu fengið sér aðeins að drekka og hún kynnst ákærða við barinn og þau spjallað saman. Aðspurð um hvaða leyti hún hefði hitt ákærða sagði hún að það hefði verið um miðnætti. Síðan hefði liðið á kvöldið og A viljað fara heim. Hún hafi ekki viljað koma með honum og viljað vera eftir. Hafi hún verið að spjalla við ákærða. Hún og ákærði hefðu svo sest nálægt útihurðinni og spjallað. Ákærði hefði rætt um sína fyrrverandi og verið eitthvað mikið niðri fyrir með það. Hún hefði sagt við A að þess vegna langaði hana að vera áfram. Hún hefði viljað leyfa ákærða að spjalla og fundist gott að tala við hann. Sagði hún að það væri ekki oft sem maður hitti á skemmtistöðum strák sem væri hálfedrú og vel máli farinn. Ákærði hefði rætt um að áfengi væri svo dýrt og boðið henni heim, sem hún þáði. Henni hafi fundist það allt í lagi. Þau hefðu gengið upp Skólavörðustíginn, þau spjallað saman, og hún haldið undir hendi ákærða. Aðspurð hvort eitthvað daður hefði verið í gangi sagði hún örugglega eitthvað, en það verið mjög „settlegt“. Þau hefðu farið heim til hans og sest niður. Hún var ekki viss hvað klukkan var þá en taldi það hafa verið klukkan þrjú. Ákærði hefði sýnt henni mynd af sér í blaðinu að taka við verðlaunum. Svo hefði hann farið í eldhúsið, en þetta hafi verið eitt rými, eldhúsið og stofan. Hann hefði farið í eldhúsið og sótt bjór, opnað hann og komið með hann. Þau hefðu setið og drukkið aðeins og spjallað. Síðan hefði hún farið á salernið og verið orðin vönkuð þá, en liðið vel. Með því síðasta sem hún muni ágætlega skýrt hefði verið það að hún horfði í spegil og brosti. Hún hefði hugsað með sér hversu gaman það væri að hitta svona strák sem væri svona klár. Henni hefði fundist skemmtilega kjánalegt hvað hann var að reyna mikið að ganga í augu hennar með því að sýna henni þessa mynd og hún hugsað með sér að hann „þyrfti ekki að reyna svona stíft eða svona mikið“. Þetta sé með því síðasta sem hún muni ágætlega skýrt. Aðspurð hvort hann hefði vakið hrifningu hennar svaraði hún því játandi. Hann hefði verið frekar þögull og alvarlegur, en þægilegur.
Þegar Y var innt eftir því hversu mikið hún var búin að drekka af áfengi sagðist hún ekki muna það nákvæmlega. Hún hefði fengið sopa hjá C áður en hún fór á Hverfisbarinn. Síðan hefði hún drukkið einn eða tvo bjóra á Hverfisbarnum. Hún hefði ekki klárað bjórinn heima hjá ákærða. Um það hvernig sljóleiki hennar á baðherberginu heima hjá ákærða lýsti sér kvaðst hún hafa fundið fyrir eins og miklum ölvunaráhrifum. Henni hefði liðið þægilega, en fundist hún tapa stjórninni. Kvaðst hún ekki hafa fundið fyrir svona áhrifum áður. Þetta hafi verið öðruvísi en ölvunaráhrif.
Síðan sagði hún að það næsta sem hún muni eftir sér í íbúð ákærða sé er hún liggi á maganum í rúmi hans, með mjaðmir upp í loft, og hann verið að hafa við hana samfarir. Hún hefði verið á hnjánum og ákærði slegið hana ítrekað í mjaðmirnar, aðallega hægra megin. Hún hefði eitthvað kveinkað sér undan því. Hún hefði einhvern veginn ekki náð að tjá sig. Næst muni hún eftir sér í stofunni. Kvaðst hún ekki muna almennilega eftir stofunni. Hún myndi samt að ákærði hafi setið og hún verið klofvega yfir honum í sófanum og hann lyft sér. Hann hefði einnig slegið hana ítrekað í bæði brjóstin, ofan á þau. Það hefði verið virkilega vont. Þá hefði hún reynt að nota kraftana og taka í hendur hans. Hann hefði tekið um hendur hennar og haldið henni fastri, en ekki hefði þurft mikið til því hún hefði verið kraftlítil.
Skýrði hún frá því að ákærði hefði beðið hana að segja ýmislegt kynferðislegt, eins og hvort henni hefði ekki þótt gott þegar hann hafði endaþarmsmök við hana áður í rúminu. Síðan sagði hún: „Ég man ekki eftir því samt sko, það geti vel verið“ því hún myndi ekki nema brot af því. Aðspurð hvort hann hefði haft kynmök við hana um endaþarm eða leggöng taldi hún að þetta hefðu verið „venjulegar“ samfarir. Hún kvaðst hafa sagt við ákærða „nei“, „hættu“, „ég get þetta ekki“, „ái“ og „ekki“. Kvaðst hún hafa verið svo örmagna. Aðspurð hvort henni hafi virst ákærði heyra það sem hún sagði svaraði hún játandi. Um það hvort þetta hefði verið það lágt að hann heyrði ekki í henni kvaðst hún hafa sagt „nei“ er hún hélt hendi hans og hann hefði „alveg þá að minnsta kosti“ átt að heyra í henni, en hún vissi að „sumt kæfðist sko, ég talaði soldið lágt.“ Þegar þetta hefði verið sem verst, þegar hann sló hana, hefði hún „alveg náð að kreista fram“. Þá sagði hún að hún hefði átt að segja að hún væri hrein mey. Aðspurð hvort hún hefði ekki getað komist frá ákærða þegar hún sat ofan á honum þá sagði hún að hann hefði haldið í hana. Aðspurð hvernig hann hefði haldið henni, í hendur eða annars staðar, sagði hún það misjafnt. Hann hefði haldið utan um hana með annarri og svo slegið sig með hinni, eins og „verið að skiptast og eitthvað“. Hún myndi þetta ekki alveg nákvæmlega. Seinna við aðalmeðferð málsins var hún nánar spurð hvernig ákærði hefði haldið henni í sófanum. Kvaðst hún þá eiga erfitt með að lýsa því, hún myndi það ekki alveg. Hún hélt að hann hefði haldið utan um hana með annarri hendi og stundum haldið undir handarkrika hennar. Hann hefði yfirleitt verið með aðra höndina lausa.
Um það hvort hún muni ekki hvernig það hefði gerst að hún var komin ofan á ákærða í sófanum sagði hún sig ráma í að hafa legið á gólfinu, milli stofunnar og eldhússins rétt hjá stofuborðinu og sófanum, en mundi ekki hvenær það var og hvort það hefði verið í millitíðinni. Varðandi það hvað hún muni fleira kvaðst hún hafa náð að standa upp og fara. Aðspurð hvort það hafi verið í framhaldi af sófanum svaraði hún játandi. Ákærði hefði þá einhvern veginn verið rólegri. Hún hefði klætt sig. Þegar hún var innt eftir því hvort hann hefði klætt hana úr, eða hún sjálf, kvaðst hún muna eftir sér nakinni inni í rúminu. Hana minnti að hann hefði klætt hana úr buxunum þar. Þá hefði hann klætt hana úr brjóstahaldaranum hjá sófanum, en hún verið í brjóstahaldaranum í rúminu. Hún var ekki viss hvernig hún hafði verið klædd að ofan, en taldi það vera hvítan brjóstahaldara, hvítan hlýrabol og jafnvel hvíta skyrtu.
Nánar aðspurð um áfengisdrykkju sagðist Y ekki hafa drukkið meira en einn til tvo bjóra áður en hún fór heim til ákærða. Sagði hún að það væri ekki oft sem maður hitti hálfedrú, klára stráka, og hún fegin að vera það líka. Hún hafi viljað koma vel fyrir. Um það hvort til hafi staðið að eiga kynlíf með ákærða sagði hún ekkert kynferðislegt búið að vera á milli þeirra, engir kossar eða slíkt, en hún hefði haldið undir hendi ákærða á leið heim til hans. Á þessum tíma hefði henni fundist allt í lagi ef eitthvað hefði gerst. Henni hefði litist það vel á hann og hún alveg verið til í eitthvað, kyssast eða eitthvað þannig. Þegar hún var innt eftir því hvort það sem gerðist hefði verið henni á móti skapi sagði hún svo hafa verið. Nánar aðspurð, vegna þess að henni hefði legið lágt rómur í svefnherberginu, hvort ákærði hefði getað vitað að þetta var ekki með hennar vilja, hvort hún hefði sagt eða sýnt það með látbragði, kvaðst hún hafa „legið eins og skata“ og ekkert sagt. Hún hefði ekkert getað gert eða sagt. Þegar borinn var undir hana framburður hennar hjá lögreglu um að hún hafi sagt „ekki“ en það hafi verið hálfkæft og hún verið svo orkulaus, og hvort hún átti erfitt með að hreyfa sig og tala, sagði hún: „Já, mjög.“ Aðspurð um ástand hennar þegar hún fór í fötin kvaðst hún hafa verið mjög vönkuð, rosalega ringluð og dofin. Það eina sem hún hefði getað sagt og hún sagt nokkrum sinnum: „Ég þarf að fara, ég þarf að fara.“ Kvaðst hún hafa verið hissa á því að ákærði sat bara, þar sem hann hefði áður verið svo æstur, slegið hana, og talað svo ógeðslega, og hún mátt fara. Hún hefði farið út og labbað út götuna og sest á bekk hjá Drekanum. Hún hefði verið mjög ringluð. Hann hefði komið og sest hjá henni og beðið hana að róa sig og koma aftur inn, en hún ekki sagt neitt. Hún hefði síðan staðið upp og farið. Hún hefði „verið svo búin einhvern veginn á því að ég kom mér upp“ og labbaði af stað. Ákærði hefði kallað á eftir henni „svona ókvæðisorð eitthvað“. Þegar hún var innt eftir því um hvaða leyti hún hefði farið frá ákærða sagði hún það hafa verið undir morgun, um klukkan fimm eða sex.
Hún kvaðst síðan hafa farið heim til A, sem ætti heima þarna rétt hjá. Hún hefði grátið á leiðinni og verið þreytt. Aðspurð mundi hún ekki hvort A var vakandi þegar hún kom, en það væri oftast opið hjá honum. Um það hvort hún hefði rætt við A um morguninn sagði hún: „Já, um daginn, þarna daginn eftir. Þegar hún var spurð hvort hún hafi þá verið búin að sofa eitthvað kvaðst hún hafa steinsofnað. Hún kvaðst muna eftir að hafa hálfskjögrað heim til A og grátið mikið. Hún hefði verið útgrátin og þreytt. Aðspurð hvort hún hefði rætt við A þegar hún vaknaði kvaðst hún hafa verið ringluð og spurt hvort hún mætti fara í sturtu. Þá hefði ýmislegt einhvern veginn farið að rifjast upp fyrir henni þegar hún sá marblettina. Hún hefði verið búin að „steingleyma því og öllu“. Aðspurð hvort hún hefði ekki munað hvað hafði gerst þegar hún vaknaði sagði hún að áður en hún fór í sturtu hefði hún ekki verið viss um hvað gerðist en henni liðið illa og haft ónotatilfinningu. Hún hefði haft á tilfinningunni að „eitthvað slæmt hafði gerst eða eitthvað þannig“. Þetta hefði rifjast upp fyrir henni þegar hún hefði séð marblettina. Varðandi það hvar hún hefði haft marbletti sagði hún á mjöðmum og brjóstum, en mundi ekki eftir að hafa verið með mar á hálsi, eins og fram kom í framburði F hjá lögreglu. Síðan sagði hún að hún hefði verið með mar hér og þar, en muni þetta ekki alveg. Þetta hefðu verið skrýtnir marblettir og hún verið með fleiri marbletti á höndum. Marblettirnir hefðu verið lófastórir með litlum doppum, en stærri á mjöðmum.
Þegar hún var innt eftir því hvað hún hefði sagt A kvaðst hún hafa komið úr sturtunni inn í herbergi til hans. Henni hafi verið mjög brugðið og sýnt honum marblettina sem voru á mjöðmunum, en ekki sagt neitt. Hún hefði ekki viljað segja honum frá, en sagt honum það seinna. Hún hefði „einhvern veginn ekki getað farið í það þarna“. Hann hefði spurt hvað gerðist og hún kvaðst ekki alveg muna þetta. Nánar aðspurð hvort hún hefði sagt honum eitthvað frá því þarna um morguninn, sem hún var búin að lýsa fyrir dóminum, svaraði hún neitandi. Þegar borinn var undir hana framburður A hjá lögreglu þess efnis að hún hefði sagt honum frá því að henni hefði verið nauðgað fyrir utan Ölgerðina á Njálsgötunni kvaðst hún ekki hafa sagt það. Aðspurð hvort A hefði boðist til að fara með hana á Neyðarmóttökuna sagði hún að hann hefði gert það. Hún hefði átt að mæta í vinnu og hann keyrt hana í vinnuna. Þetta hefði verið, að hana minnti, klukkan 11. Á leiðinni hefði A ítrekað að hún ætti að leita sér aðstoðar, en hún sagst verða að fara í vinnuna, enda gæti hún ekki sagt fólki að hún hefði vaknað upp með marbletti og yrði að fá frí. Hún hafi ekki getað hugsað sér það. Þegar hún var spurð hvers vegna hún hefði ekki farið á Neyðarmóttökuna eða til lögreglu sagði hún að henni hefði þótt þetta svo óraunverulegt og viljað halda því þannig.
Þegar hún var innt eftir því hvort þetta hefði rifjast upp fyrir henni á leið í vinnuna sagði hún að þetta hefði eiginlega komið í vinnunni og hún farið að rifja upp enn meira. Þá hefði einhvern veginn restin komið, það sem hún muni í dag, það hefði verið komið þá. Aðspurð hvort hún hefði sagt einhverjum frá þessu í vinnunni þann dag kvaðst hún hafa sagt B, sem starfaði sem kokkur, að hún hefði vaknað með marbletti um morguninn, hún væri ekki alveg viss af hverju þeir væru. Hana hefði langað til að tala um þetta og þau verið „soldið náin“ og búin að eiga „soldið moment“. Hann hefði verið búinn að deila ýmsu, en lokað á þetta og þetta því ekki farið lengra. Hún hefði þá bara farið að vinna. Um það hvort hún hefði ekki sagt einhverjum öðrum frá þessu kvaðst hún hafa sagt Steinunni, vinkonu sinni, sem var að vinna með henni, en mjög óljóst. Hún hefði ekki farið djúpt í það sem gerðist. Þegar hún var beðin um að rekja hverjum öðrum hún hefði sagt frá kvaðst hún hafa hringt í C og beðið hann að koma, en áður hefði hún hringt í móður sína. Hún hefði farið á salernið til að ræða við hana í einrúmi og sagt henni frá þessu. Móður hennar hefði verið mjög brugðið. Þær hefðu komið sér saman um að segja föður hennar ekki frá þessu þar sem fjölskyldan hefði verið búin að ganga í gegnum erfiðan tíma vegna bróður hennar sem hefði verið misnotaður. Þær héldu að hann gæti ekki tekið á þessu líka. Þær væru þessar sterku og faðirinn myndi sligast. Sagði hún að sem sálusorgari hefði hann nóg með vinnu sína. Hún sagði að tekið hefði á móðurina að heyra þetta og hún verið hlý við sig. Aðspurð hvort það væri rétt, sem fram kemur í lögregluskýrslu vegna símtals við móður hennar, að hún hefði eiginlega ekki trúað henni og hálfdregið úr henni að leggja fram kæru, kvaðst Y ekki muna það, en minnti að þetta hefði verið svona. Hún myndi það samt ekki. Um það hvað í samtalinu hefði gefið þetta til kynna, og hver ástæða þess þá væri, svaraði hún því til að hún myndi ekki til þess, en móðir hennar væri mjög „skeptísk manneskja“ og hún gæti alveg trúað því að móðir sín hefði brugðist svona við, en rámaði ekki í það.
Aðspurð hvort hún hefði sagt fleirum frá atvikum á næstu dögum greindi hún frá því að hafa verið í listmeðferð hjá K, í kjölfar atviksins með bróður hennar, sem hefði tekið mjög á fjölskylduna. Hana hefði ekki langað til að prófa listmeðferð og talið það svo mikið „húmbúg“, en ákveðið að prufa það því hún hefði náð „extra mikilli lægð“ eftir að hún og kærasti hennar hefðu hætt saman. Hún hafi verið í meðferð þegar meint nauðgun átti sér stað og átt tíma nokkrum dögum síðar. Í millitíðinni hefði hún þurft að mæta í vinnu í [...]. Kvaðst hún hafa átt eftir að „missa sig“ og viljað gera það í öruggu umhverfi og beðið þar til hún kæmist til K, en svo hefði það gerst í vinnunni. Nánar aðspurð hvenær hún hefði byrjað meðferðina og ástæðu þess, hvort það hefði verið í tengslum við atvikið með bróður hennar, kvað hún það aðallega hafa verið þess vegna, en einnig þar sem hún hefði hætt með strák. Þau hefðu verið saman í þrjú ár og verið mjög náin. Hann hefði verið nýbyrjaður með stelpu um þetta leyti og þá hafi þetta „verið svo rosalega búið eitthvað“. Einnig hefði hún þurft að flytja og miklar breytingar verið. Kvaðst hún hafa átt tíma í listmeðferðinni daginn eftir að hún var að vinna í [...] og greint K frá atvikinu þá. Hún hefði farið í þrjú eða fjögur skipti eftir meinta nauðgun.
Þegar Y var beðin um að lýsa því sem gerðist í vinnunni í [...] sagði hún að D, yfirmaður hennar, hefði verið búin að vera mjög hörð og leiðinleg í sinn garð. Það hefði komið upp misskilningur með vaktir hennar. Vinkona hennar hefði ætlað að taka einhverjar vaktir og ekki mætt. Kvaðst Y hafa heyrt af því þennan dag og reynt að leiðrétta það við yfirmann sinn. Y kvað sér hafa liðið svo illa nálægt yfirmanni sínum og liðið enn verr að þurfa að vera í kringum hana því hún hefði efnt til starfsmannafunda án þess að boða sig og ræða við sig. Vinir hennar í vinnunni hefðu talað um þetta við sig. Hana hefði samt ekki langað til að hætta. Hún kvaðst hafa verið grátandi á bak við borð og verið að ræða við móður sína um að hún gæti ekki verið þarna í vinnunni og viljað fara heim, en henni yrði örugglega ekki leyft að fara nema hún segði af hverju. Hún hefði ekki viljað greina frá ástæðunni og vildi síst að yfirmaður hennar vissi eitthvað um sín mál, en svo hafi hún verið farin að gráta það mikið að hún fór og talaði við D, alveg útgrátin, og bað um að fá að fara heim. Hún hefði verið beðin um að harka af sér en hún kvaðst ekki geta það. Síðan hefði D farið að skamma sig fyrir að vera alltaf með vesen. Hún hefði óskað skýringa á því og ekki getað fengið svör, en D nefnt vaktirnar og hún sagst vera búin að leiðrétta það. Síðan hefði D byrjað að hella sér yfir sig og hún þá hreytt í hana upplýsingum um það sem hefði komið fyrir, eiginlega öskrað á hana. Aðspurð hvað hún hefði sagt við hana vissi hún það ekki nákvæmlega, en það hefði verið eitthvað á þá leið að hún gæti ekki unnið, þar sem henni hefði verið nauðgað, og hún yrði að fara heim. D hefði brugðið soldið en spurt hvernig hún hefði átt að vita það og sagt að hún væri ekki hugsanalesari. Nánar aðspurð um samskiptavandamál hennar og D skýrði hún frá því að hún hafi eitt sinn átt að tala fyrir hönd vinnustaðarins við kvikmyndatökulið frá sjónvarpsstöð án þess að fá greitt fyrir það. Henni hefði oft verið stillt upp við vegg og komið í alls konar aðstæður. Hún hefði upplifað það þannig að það hefði alltaf verið að reyna að klekkja á sér. Nefndi hún að ein stúlka, sem var að vinna með henni, hefði hringt í sig eftir að hún var rekin sem var að skrifa grein um misbeitingu valds og viljað tala við sig. Þetta hefði verið vitað meðal starfsmanna, hún hefði ekki verið sú eina sem hafi verið tekin fyrir.
Í framhaldi þess að hafa rætt við yfirmann sinn kvaðst Y hafa farið inn í eldhúsið þar sem F hefði verið. Hann hefði séð að hún var útgrátin og spurt hvað væri að. Hún hefði látið sig detta á gólfið og hágrátið, hátt. Hann hafi komið til hennar og ætlað að hugga hana og hún byrjað að „þvaðra“ um hvað hefði gerst, hvað ákærði hefði verið vondur við hana og slegið hana. Hún hefði sýnt honum áverkana. Þá hefði hún verið grátandi og „hysterísk“. Hún hefði svo farið á baðið og skvett köldu vatni framan í sig. D hefði sagt að hún mætti fara. Hún þyrfti ekki að mæta aftur og hefði verið rekin á staðnum. Vinkona móður hennar, Helga, hefði svo komið og sótt sig. Sagði hún að þetta hefði verið rosalega erfiður dagur. Aðspurð hvenær þetta hefði verið taldi Y að þetta hefði verið á mánudegi eða þriðjudegi eftir meinta nauðgun.
Þegar Y var innt eftir því hvort hún hefði í kjölfarið ekki velt fyrir sér að fara á Neyðarmóttökuna, eða til lögreglu, greindi hún frá því að hafa farið í kynsjúkdómaskoðun. Þar hefði hún sagt lækninum frá því sem gerðist. Læknirinn hefði spurt hana hvort hún vildi fara á Neyðarmóttökuna. Hún kvaðst líka hafa sagt honum hvað hefði komið fyrir því hún vildi hafa hjúkrunarfræðing inni við skoðunina. Henni hefði fundist hún þurfa að hafa afsökun eða skýringu á því af hverju hún vildi hafa hjúkrunarfræðing viðstaddan. Kvaðst hún hafa fundið fyrir blæðingu úr endaþarmi stuttu áður en hún fór í skoðun og rætt það við lækninn. Hann hefði talið að það væri ekki vegna meintrar nauðgunar og ekki verið viss, en hálfpartinn útilokað það. Hún kvaðst hafa „verið soldið smeyk við allt einhvern veginn, um að hún væri einhvern veginn, að það væri eitthvað“ þannig að það gæti vel verið að hún hafi verið óvenju „paranoid“ fyrir öllu. Eftir þetta hefði hún oft farið þangað því hún væri hrædd um að „eitthvað hefði orðið eftir“ og kannski til að „friða samviskuna“ í staðinn fyrir að fara á Neyðarmóttökuna. Nánar aðspurð hvort læknirinn hefði skoðað hana vegna blæðingar frá endaþarmi sagði hún að hann hefði eitthvað skoðað hana en mjög lítið.
Aðspurð af hverju hún kærði ekki fyrr, og hvað kom til að hún kærði síðan í desember 2005, skýrði hún frá að hún hefði látið C taka myndir af marblettunum. Hana hefði langað til að leggja fram kæru, en ekki getað hugsað svo langt og átt erfitt með það. Hún hefði séð mynd af ákærða í blaðinu og verið búin að tala um það við námsráðgjafa sinn að fyrrverandi kærasti hennar, sem hún átti vorið áður en hún kærði, hefði haldið fram hjá henni og allt ýfst upp. Síðan hafi verið prófstress og allt einhvern veginn verið svo yfirþyrmandi. Kvaðst hún hafa farið eitt sinn á Njálsgötuna og bankað í hurðir og sparkað í rúður, en á röngu húsi. Hún hefði strax hringt í lögregluna og beðist afsökunar á þessu. Það hefði verið eins og hún hefði fengið taugaáfall, hún hefði setið og grátið. Lögreglan hefði keyrt hana heim. Var hún ekki alveg viss hvenær þetta var. Líklega tæpu ári eftir meinta nauðgun, en áður en hún hefði séð mynd af ákærða í blaðinu, sem móðir hennar hefði sagt henni frá. Henni hefði fundist eins og hún gæti ekki lengur falið sig á bak við þetta og talið meiri líkur á að henni yrði trúað. Hún gæti ekki lengur falið sig fyrir þessu og látið eins og þetta hefði ekki gerst. Henni fannst hún mjög knúin til að koma fram með þetta og ákveðið að byrja nýtt ár búin að koma þessu af stað.
Undir meðferð málsins fyrir dómi var aflað upplýsinga úr málaskrá lögreglu um framangreint rúðubrot. Í málaskrá kemur fram að Y tilkynnti lögreglu um rúðubrot á Njálsgötu 26. apríl 2005.
Um áhrif meintrar nauðgunar á hana og líf hennar sagði Y að þau væru mjög mikil. Aðspurð, hvort lífið hefði breyst, kvaðst hún vera óvenju viðkvæm og lítið þyrfti til að eitthvað annað væri að. Þá kæmi þetta alltaf upp líka og „þá verður allt svo mikið“, sérstaklega á álagstímum eins og í kringum próf. Nú væri hún í miðjum prófum. Síðan greindi hún frá því að hún hefði átt kærasta á sínum tíma og þau verið búin að hittast í 7-8 mánuði og hann alltaf viljað segja frá því að hann væri kærasti hennar. Hún hefði ekki treyst sér til þess og að sofa hjá honum, en þau hefðu alveg verið eins og kærustupar. Síðan þegar hún hafi sagt „já“ þá hefði hann haldið fram hjá henni. Það hefði verið svo erfitt að treysta eftir það. Þetta hefði verið mjög óþægilegt. Síðan sagði hún að það væri svo margt dagsdaglega. Þegar hún var innt eftir því hvort þetta hefði haft áhrif á námsframvindu sína sagði hún að svo væri tvímælalaust. Aðspurð hvort þetta, sem hún lýsti með fyrrverandi kærasta hefði ekki haft áhrif á námið, sagði hún að það hefði líka haft mikið að segja í prófunum. Hvort tveggja hefði haft mikið vægi þá. Aðspurð hvaða próf hún ætti við sagði hún það hafa verið prófin um vorið 2005.
Þegar verjandi ákærða bar undir hana framburð hennar hjá lögreglu, um að hún hefði sagt við A að hún væri ekki viss hvað hefði komið fyrir, sagði hún að það gæti passað. Aðspurð hvort hún hefði þá ekki verið viss um morguninn hvað hefði gerst sagði hún að það hefði ekki verið fyrr en í vinnunni á [...] að það hefði komið allt til hennar. Allt hefði hlaðist utan á. Hún hefði vitað að eitthvað væri ekki í lagi, eitthvað hefði komið fyrir, en hún ýtt því frá sér. Aðspurð, hvort hún hefði sagt við móður sína að hún vissi ekki hvað hefði komið fyrir, kvaðst hún ekki alveg muna hvernig samtalið við móður hennar hefði verið, en taldi sig hafa verið skýra með það að sér hefði verið nauðgað. Um það hvort hún hefði lýst því eitthvað nánar við móður sína, þar sem fólk túlkaði þetta hugtak á mismunandi hátt, kvaðst hún ekki hafa getað talað þannig við hana. Aðspurð hvort hún hefði notað orðið „nauðgun“ sagðist hún geta trúað því, en hún væri ekki viss. Hún myndi þetta ekki alveg. Þegar verjandi spurði: „Þú lýstir atvikunum í sjálfu sér ekkert?“ sagði hún: „Nei, ekki heldur, ekki við neinn heldur nákvæmlega.“ Þegar hún var innt eftir því hvort það hefði ekki hvarflað að henni að það gæti átt sér stað eitthvað meira kynferðislegt en „kelerí“, eða hvort hún hefði ekkert velt þessu fyrir sér, sagði hún nei. Þá sagði hún aðspurð að hún hefði áður farið heim með mönnum sem hún hefði hitt sama kvöld þannig að leitt hefði til kynmaka. Sagði hún að eitt samband sem hún hefði átt í hefði byrjað þannig.
Þegar Y var innt eftir því hvort það hefði verið þrýst mikið á hana, að leggja fram kæru, sagði hún að fyrrverandi kærasti hennar, sem hélt síðan fram hjá henni, hefði gert það og tvær vinkonur hennar. Líka þegar hún hefði farið á húð- og kynsjúkdómadeildina. Þegar hún var innt eftir því hvort hún hefði sagt þeim frá því í smáatriðum, sem hefði gerst, svaraði hún neitandi. Um það hvað þau vissu sagði hún að þau vissu nafn ákærða. Hún hefði vitað nafn hans og að hann væri verkfræðingur. Hún hefði ásamt vinkonum sínum leitað á internetinu að upplýsingum um hann. Henni hefði fundist þetta allt svo óraunverulegt og langað að vita hvort hann væri raunverulega til. Kvaðst hún ekki hafa sagt þeim frá atvikum í smáatriðum, hvað hefði gerst, en sagt þeim frá marblettunum því henni hafi fundist það segja allt og hún ekki þurft að segja meira.
Jafnframt skýrði Y frá því að hún hefði byrjað í skóla haustið 2004, eftir atvikið. Hún kvaðst hafa þurft að leggja atvikið til hliðar. Hún hefði þá um sumarið verið að vinna með börnum. Hún hefði þurft að vera brosandi og því þurft að setja málið í „pásu“. Í rauninni hefði þetta ekki komið upp fyrr en vorið eftir. Henni hefði gengið mjög vel að loka á þetta um sumarið og eiginlega ekkert hugsað um þetta.
Þegar Y var innt eftir því hverja hún teldi ástæðu þess að hún var í því ástandi sem hún hefur lýst, er nauðgunin á að hafa átt sér stað, taldi hún að ákærði hefði sett eitthvað út í bjórinn. Sagði hún að henni hefði ekki liðið svona áður. Borin var undir hana frásögn hennar hjá lögreglu þess efnis að hún hefði leitað á húð- og kynsjúkdómadeild einni til tveimur vikum eftir atburðinn, sem ætti þá að vera um miðjan júní, þar sem í vottorði læknisins kemur fram að hún hafi komið þangað 29. júní það ár, og síðan frásögn hennar fyrir dómi um að þetta hefði verið helgina fyrir Eurovision, sem er venjulega í lok maí. Kvaðst hún þá ekki vera með tímasetninguna á hreinu, en það rétta væri hið síðastnefnda.
Aðspurð hvað hún ætti við með að henni hefði verið nauðgað umrædda nótt, þar sem fólk gæti lagt misjafnan skilning í það, sagði hún að það væri af því að hún vildi þetta ekki. Þá aðspurð hvað hún vildi ekki kvaðst hún ekki hafa viljað stunda kynlíf með honum og að hann slægi hana svona.
Þegar Y var innt eftir því hvað átt væri við með því sem kemur fram í bréfi I námsráðgjafa frá 4. desember 2006, sem liggur fyrir í málinu, um að hún hefði átt erfitt með að horfast í augu við lífið, þ.m.t. námið og þau félagstengsl sem þar hefðu myndast, sagði hún að hún hefði komið til námsráðgjafans í kjölfar þess að hafa brotið rúðu á Njálsgötunni og kærastinn hefði haldið fram hjá henni. Hún hefði verið farin að berjast við námið þá. Hún hefði þurft að tala við hana um það og heyra frá henni að þetta yrði kannski allt í lagi og hvort það væru einhver ráð fyrir hana ef hún stæði sig ekki þetta vormisseri, hvað biði hennar. Nánar um það hvað væri verið að vísa til með félagstengsl og hvort átt væri við kærasta hennar fyrrverandi svaraði hún því játandi og sagði einnig að hún hefði verið búin að draga sig út úr bekknum. Sagði hún að kærasti hennar hefði verið áberandi vegna félagsstarfs í skólanum og stúlkan sem hann hefði haldið fram hjá með hefði einnig verið í skólanum.
Vitnið, A, kvaðst þekkja Y síðan árið 1998 og væru þau mjög góðir vinir. Hann minntist þess að hafa hitt Y og farið með henni á Hverfisbarinn umrætt kvöld. Kvöldið sem slíkt hefði ekki verið minnisstætt, en ekki hefði verið óvenjulegt að þau hittust um helgi. Þau hefðu orðið viðskila og vitnið farið heim til sín. Hún hefði viljað skemmta sér lengur og ætlaði svo að koma heim til hans. Hann mundi ekki eftir því að hún hefði rætt við einhvern mann. Vitnið sagði að þegar hann varð viðskila við hana hefði hún ekki verið ölvuð og að hún væri hófdrykkjumanneskja. Hann minntist þess ekki þegar hún kom heim til hans. Um morguninn hefði hún farið í sturtu og vakið sig í mikilli geðshræringu. Vitnið kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvort hún hefði verið ölvuð eða undir áhrifum einhvers annars. Hún hefði bent á marbletti á líkama sínum, á lærum, mjöðmum og ofanverðum brjóstum. Aðspurður hvort hún hefði verið með marbletti annars staðar sagði hann að hún hefði einnig verið með marbletti á kálfum og löppum, sem hann taldi ekki tengjast þessu. Algengt væri að stúlkur væru með marbletti eftir helgar þar sem fólk rækist hvort í annað. Mundi hann ekki sérstaklega eftir því að hún hefði verið með marbletti á handleggjum, en sagði að það gæti verið. Þeir marblettir sem hefðu verið honum mest minnisstæðir hefðu verið á ofanverðum brjóstunum, eða brjóstkassanum, þar sem óvenjulegt væri að hafa marbletti þar. Þeir hefðu verið stórir og sláandi og „kölluðu á mann“.
Vitnið kvaðst hafa reynt að róa hana og spyrja hana hvað hefði gerst. Hann vissi ekki hvort hún hefði slasast eða meitt sig. Hún hefði átt erfitt með að tala og skolfið. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð hana í svona ástandi. Hún hefði ekki getað sagt nákvæmlega hvað gerðist og átt mjög erfitt með að tala. Þau hefðu setið saman í sófanum í stofunni og hún reynt að koma upp úr sér orðum en ekki tekist það. Hún hefði kjökrað og sagt: „Sérðu marblettina, sérðu marblettina.“ Þegar þau hefðu bæði gert sér grein fyrir því sem hefði átt sér stað, ofbeldinu, þá hefði hann boðist til að fara með hana á Neyðarmóttökuna. Aðspurður hvað hann ætti við með að þau hefðu gert sér grein fyrir hvað átti sér stað, og hvort hún hefði sagt honum hvað gerðist, svaraði hann því til að hún hefði sagt að henni hefði verið nauðgað og hún lamin, beitt ofbeldi. Hún hefði ekki lýst kynmökum og hann ekki innt hana eftir því. Hann kvaðst hafa boðið henni ítrekað að fara með hana til að leita ráðgjafar og aðstoða hana, en hún alls ekki viljað það. Þetta væri liðið, hún væri búin að fara í sturtu og allar sannanir farnar af henni. Hún hefði verið í svo mikilli geðshræringu að hún hefði ekki getað hugsað hálfa hugsun. Sagði vitnið að hún hefði viljað takast á við þetta vandamál sjálf. Hún væri afskaplega trúuð og viljað gera þetta upp á milli sín og Guðs.
Aðspurður hvort vitnið hefði umgengist hana eftir þetta, og hvort Y hefði breyst eftir atvik þetta, sagði hann þau umgangast mikið. Nefndi hann að nokkrum mánuðum síðar hefðu þau gengið á Skólavörðuholtinu og hún virst endurupplifa atburðinn. Þá sagði hann að hún væri að jafnaði kát og lífsglöð stúlka, en eftir þetta hefði hún ekki verið eins og hún ætti að sér að vera. Hún talaði oft um þetta og minntist á þetta. Hún væri afskaplega viðkvæm og það þyrfti að sýna sérstaka nærgætni nálægt henni. Hún væri mjög meðvituð um það sem hefði gerst.
Þegar borið var undir vitnið að Y hefði átt í vandræðum með fyrrverandi kærasta, vorið 2005, sem hefði haldið fram hjá henni, og hvort viðkvæmni hennar gæti tengst því frekar, taldi hann svo ekki vera. Vitnið sagði að hún hefði hins vegar orðið fyrir áföllum í lífinu. Hún hefði t.d. misst fóstur árið 2002 eða 2003 og það verið henni erfitt. Einnig kannaðist hann við atvik með bróður hennar.
Nánar aðspurður af verjanda hvort Y hefði sagt að henni hefði verið nauðgað, en ekki lýst atvikum, svaraði vitnið því játandi. Hann hefði heldur ekki spurt hana nákvæmlega út í það hvernig verknaðurinn hefði farið fram. Á síðari stigum, þegar tíminn hafi liðið, hefðu þau kosið að ræða ekki um það. Vitnið kannaðist ekki við að hún misskildi hluti, upplifði eða skildi hluti öðruvísi en aðrir. Þá gerði hún ekki meira úr hlutum eða væri óáreiðanleg í vinnu.
Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu þess efnis að Y hefði lýst því þannig að ákærði hefði náð henni fyrir framan Ölgerðina á Njálsgötu, skellt henni í jörðina og nauðgað henni þar. Um framburð sinn, þegar lögregluskýrsla var gefin 14. mars 2006, sagði vitnið að hún hefði vissulega sagt honum, eftir á, að þetta hefði verið atvikalýsingin. Hún hefði líka sagt sér fyrir nokkru síðan að þetta hefði verið röng atvikalýsing. Þessi atvikalýsing sem hún hefði sagt honum stemmi því ekki við það sem hún hefði sagt honum á síðari stigum. Þetta með Ölgerðina hefði hún ekki sagt umræddan morgun, heldur síðar um daginn. Síðan hefði komið í ljós löngu seinna að þetta hefði verið önnur atvikalýsing. Hann hefði aldrei spurt hana nákvæmlega út í það hvað gerðist eða hvar. Honum hefði ekki fundist það skipta mestu máli, hver forsagan var, heldur að hún fengi aðstoð.
Þegar vitnið var innt eftir ástandi Y, þegar þau urðu viðskila á Hverfisbarnum, hvort hún hefði verið ölvuð eða hann séð hana drekka áfengi, kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því. Ef hún hefði drukkið áfengi hefði það ekki verið mikið, hún væri hófdrykkjumanneskja. Hann minntist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð hana ofurölvi. Þá mundi hann ekki hvenær þau hefðu orðið viðskila umrædda nótt, en taldi að það gæti hafa verið um miðnætti.
Vitnið, E, móðir Y, skýrði svo frá að Y hefði hringt í sig daginn eftir, á laugardeginum, og sagt að henni hefði verið nauðgað. Hún hefði sagt: „Mamma, mér var nauðgað í nótt.“ Þetta væri eitthvað sem móðir vilji ekki heyra og væri hrædd um þegar dætur færu út að skemmta sér. Þetta væri það sem maður hræðist. Vitnið kvaðst hafa verið „sjokkeruð“ að heyra þetta. Þá sagði vitnið að Y hefði ekki sagt mikið, hún hefði verið mjög marin, hann hefði barið hana mikið. Taldi vitnið að hún hefði sagt sér að brjóst hennar væru svört og hún væri mjög marin um líkamann. Seinna hefði Y sagt sér að nauðgunin og barsmíðarnar hefðu ekki verið það versta, heldur það sem hann hefði neytt hana til að segja. Það væri betra að hún vissi ekki hvað hann sagði og vitnið hefði ekki gengið á eftir henni með það. Smám saman hefði vitnið fundið að þetta hafi verið að fara á sálina á henni og réttarhöld fram undan. Um haustið hefði vitnið flutt til að vera nær henni og Y sagt sér meira. Vitnið hefði fengið fyllri og fyllri mynd að því sem gerðist. Sagði vitnið að Y hefði sagt henni strax hvað ákærði heitir. Vitnið sagði að Y hefði skýrt henni fljótlega frá því að hún hefði misst meðvitund og þegar hún hefði komið til meðvitundar hefði hann verið að slá hana. Þá hafi hún verið komin í bol. Þetta hefði verið svo hræðilegt og hún misst meðvitund aftur. Vitnið kvaðst ekki hafa gengið á eftir Y að skýra frá atburðum.
Jafnframt greindi vitnið frá því að hafa sagt J lögreglumanni frá þessu. Hún hefði sent honum tölvupóst, sem liggur fyrir í málinu, og sagt að Y hefði verið nauðgað hrottalega. Sagði vitnið að það hefði ekki hvarflað að þeim að kæra. Maður hugsi að þetta sé eitthvað sem hún verði að lifa við. Vitnið kvaðst ekki skilja eftir á af hverju kæra hefði ekki verið lögð fram. Bið eftir dómi væri löng og Y því ekki getað sett þetta að baki sér og haldið áfram með lífið og jafnað sig andlega, heldur væri alltaf að hugsa um málið.
Vitnið sagði það alrangt sem haft er eftir henni í lögregluskýrslu, vegna símtals lögreglu við hana 8. ágúst 2006, að hún hefði ekki trúað Y og dregið úr henni að kæra. Þegar Y hefði hins vegar sagt vitninu frá þessu hafi verið eins og hún hefði ekki verið alveg með sjálfri sér. Vitnið sagði að hún og faðirinn hefðu alltaf varað Y við að fara á skemmtistaði og sagt henni að passa sig. Síðan hefði hún hitt ákærða sem hafi verið tiltölulega ódrukkinn, skynsamur, greinilega vel menntaður og vel útlítandi. Hélt vitnið að Y hefði hringt í föður sinn og sagt að kannski væri „þetta bara maðurinn minn“, en hún hefði verið að leita sér að eiginmanni á þessum tíma. Þá sagði vitnið að Y hefði beðið sig um að segja föður hennar ekki frá þessu. Hann yrði rosalega reiður, bæði við hana og ákærða. Vitnið hefði síðan sagt föðurnum frá því með leyfi Y.
Þegar borið var undir vitnið að Y hefði átt í löngu sambandi sem slitnaði upp úr rétt áður en meint nauðgun átti sér stað, og síðan hefði kærasti haldið fram hjá henni eftir það, og hvernig hún hefði tekið því, sagði vitnið að hún hefði verið með manni í þrjú ár. Þau hefðu hætt saman í október árið áður. Fyrstu tvo mánuðina eftir sambandsslitin hefði þetta tekið á hana, þótt hún hefði átt frumkvæðið að slitunum. Enn fremur nefndi vitnið áföll í fjölskyldunni og sagði að erfitt væri að einangra hvað væri afleiðing af hverju. Sagði vitnið að Y hefði í fyrstu ekki verið svo reið. Það hafi þróast eftir því sem liðið hefði á. Í fyrstu hefði bara verið þetta „sjokk“. Þegar vitnið var innt eftir því hvort það væri rétt að Y hefði verið í þokkalegu lagi næstu mánuðina og jafnvel ári eftir að nauðgunin hefði átt að eiga sér stað, og síðan versnað, fannst vitninu það vera rétt.
Um það hvort breytingar hefðu orðið á Y eftir meinta nauðgun sagði vitnið að það hefðu orðið miklar breytingar á henni. Grundvallarbreytingin væri sú að hún hefði misst ákveðna kjölfestu. Stundum væri hún í fínu formi, en mikil innri reiði væri í henni sem bitnaði á þeim sem stæðu næst henni. Hún mætti ekki við neinu, eins og þegar hún sá myndina af ákærða á forsíðu DV, eftir að vitnið greindi henni frá myndinni. Y hefði brotnað saman við að sjá myndina og vitnið stungið upp á því að Y færi í listmeðferð.
Vitnið, I, náms- og starfsráðgjafi, bar fyrir dómi að Y hefði oft komið til hennar. Í málinu liggur fyrir bréf vitnisins, dagsett 4. desember 2006. Vitnið sagði fyrir dómi að hún hefði ekki skráð neitt hjá sér í samtölum þeirra. Y hefði verið hætt að mæta í skólann og verið í miklu uppnámi þegar hún kom til sín fyrst. Hún hefði lýst þessum atburði sem hefði gerst. Það hefði verið eins og hún hefði lokað á þetta. Fram kom að nám hennar hefði verið með eðlilegum hætti haustið 2004, en síðan væri eins og stífla hefði brostið, þannig að eitthvað hefði ýtt þessu af stað. Þegar vitnið var spurð hvort Y hefði sagt frá öðrum erfiðleikum, sem hefðu getað ýtt þessu af stað, sagði vitnið að hún hafi reynt að halda sjó og ekkert talað um þetta. Hún hafi ætlað að stunda námið og tengjast skólafélögunum. Hún hefði reynt að mynda vináttutengsl við einhvern pilt, en það ekki gengið upp. Sagði vitnið að í minningunni væri eins og það hefði ýtt þessu af stað.
Þá sagði vitnið að Y hefði farið vel af stað og komið til sín öðru hverju og leyft sér að fylgjast með. Hún hefði staðið í skilum með öll verkefni. Síðan hefði birst mynd af ákærða í blöðunum og þá væri eins og allt sem hún var búin að byggja upp hefði brotnað niður. Y hefði þá komið til sín. Vitnið sagði að desemberprófin 2005 hefðu farið í vaskinn hjá Y og þetta hefði haft gífurleg áhrif á hana. Taldi vitnið að meint nauðgun væri eina ástæðan fyrir námserfiðleikum hennar. Hún hefði virst vera félagslega sterk, en svo hefði hún ekki getað horfst í augu við skólafélagana, hún verið svo skítug og talið að allir vissu um nauðgunina. Þá hefði hún ekki getað lokið vettvangsnámi.
Þegar vitnið var spurt af hverju hún drægi þá ályktun að námserfiðleikar Y væru vegna nauðgunar þegar henni hefði gengið vel haustið 2004, eftir meinta nauðgun, en illa haustið 2005, sagði hún að Y hefði sagt sér að hún hefði lokað á þetta. Aðspurð hvort Y hefði rætt við vitnið um aðra andlega erfiðleika sagði hún að Y hefði rætt um þessa tilraun til að mynda vináttutengsl við piltinn, sem hefði farið forgörðum.
Aðspurð hvort Y hefði lýst fyrir vitninu í hverju hin meinta nauðgun fólst, sagði vitnið að hún hefði greint frá því að hafa hitt ákærða og farið með honum heim og hann nauðgað sér. Nefndi vitnið skömm og sektarkennd því Y gerði ekki svona hluti, að fara heim með einhverjum. Y hefði ekki lýst því hvernig það hafi verið og vitnið forðast það og ekki viljað fara svona mikið ofan í persónuleg mál.
Vitnið, D, sagði að Y hefði verið að vinna hjá sér í [...] sumarið 2004. Y hefði alltaf staðið sig vel, mætt vel og unnið vel, en svo hefði farið að halla undan fæti hjá henni og hún mætt illa og óreglulega og án þess að láta vita af sér. Vitnið minnti að henni hefði verið gefið tækifæri til að bæta sig. Síðan hefði vitnið verið búin að ákveða að segja henni upp og Y greint frá því, í einhverju reiðikasti, að henni hefði verið nauðgað. Aðspurð hvort hún hefði þá verið búin að segja Y upp störfum kvaðst vitnið ekki vera viss, en sennilega hafi hún verið búin að því og Y verið reið við sig. Aðspurð mundi vitnið ekki til þess að hún hafi verið með áverka.
Þegar borið var undir vitnið að Y hefði skýrt frá því að hafa verið ómöguleg og grátandi sagði vitnið það rétt. Gat vitnið ekki sagt til um hvort hún hefði grátið áður en þær fóru að tala saman, allavega hefði hún verið grátandi þegar þær töluðu saman. Vitnið sagði að henni hefði fundist þetta allt skrýtið, eins og Y hefði verið að segja eitthvað út í loftið. Aðspurð um ástæðu þess að hún hefði ekki tekið hana trúanlega kvaðst vitnið hafa þurft í einhver skipti að leita að henni þegar hún átti að vera mætt í vinnu og hún gefið loðin svör um af hverju hún væri ekki að koma, eins og hún hefði sofið svo illa um nóttina.
Vitnið var innt eftir því í hversu langan tíma Y hefði mætt illa, hvort það hefði verið í meira en 2-3 daga eða nokkrar vikur. Sagði vitnið að það hefði verið í meira en 2-3 daga, en ekki nokkrar vikur. Aðspurð hvort hún hefði, þegar Y sagði að sér hefði verið nauðgað, talið þessa nauðgun vera nálægt í tíma, fannst vitninu eins og hún hefði gerst mjög nýlega, en aðdragandi uppsagnarinnar verið lengri. Þegar borinn var undir vitnið framburður Y, um misskilning með vaktir, kannaðist hún ekki við að þær hefðu rætt um slíkt. Þá var vitnið spurt hvort hún hefði orðið vör við óreglu á Y, eins og t.d. áfengisneyslu. Sagði vitnið að henni hefði fundist hún ekki vera eins og hún væri vön að vera, en gat ekki sagt til um hvort það gæti verið vegna áfengisneyslu eða einhvers annars.
Vitnið, H læknir, greindi frá því að Y hefði komið á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss 29. júní 2004. Hún hefði greint frá því að henni hefði verið nauðgað um það bil mánuði áður. Hún hefði verið að skemmta sér á Hverfisbarnum og ekki verið búin að drekka mikið áfengi. Hún hefði verið með bjór í grænni flösku og minni hennar svo brostið. Það næsta sem hún muni hafi verið það að hún vaknaði liggjandi í sófa heima hjá ókunnugum manni, sem væri að hafa samfarir við hana. Þá hefði hún sagt að þegar hún kom heim hefði hún hafi haft marbletti hér og þar um líkamann og myndað þá þegar hún kom heim. Aðspurður hvort hún hefði skýrt svona frá sagði vitnið að hún hefði sagt svona frá. Fram kom að hann punktaði niður hjá sér frásögn hennar jafnóðum. Vitnið kvaðst ekki muna mjög glöggt eftir samtalinu enda væri langt um liðið og hann sinnti mörgum sjúklingum í viku hverri, en hann myndi að hún kom og sagði þetta. Vitnið gat ekki sagt til um andlegt ástand Y er hún greindi frá atvikum, hvort hún hefði verið í uppnámi eða verið yfirveguð. Hann hefði ekki skrifað neitt hjá sér um andlegt ástand hennar. Vitnið sagði að sum próf um kynsjúkdóma þyrfti að endurtaka á sjúklingum og þeim því ráðlagt að láta endurtaka próf. Vitnið kvaðst hafa gert hefðbundna kvenskoðun á henni, með tilliti til þess hvort merki væru um sýkingu, sár, mar, rifur eða því um líkt. Almennt væri ekki gerð skoðun á endaþarmi nema eitthvað sérstakt gæfi tilefni til þess eins og ef hún hefði talað um einkenni þar. Aðspurður hvort hún hefði sagt frá blæðingu í endaþarmi og hvort það hefði verið athugað kannaðist vitnið ekki við það og að slíkt ætti að vera skráð í sjúkraská.
Vitnið, F, kvaðst hafa unnið með Y í [...] vorið og sumarið 2004. Skýrði hann svo frá að hún hefði mætt einn laugardag- eða sunnudagsmorgun og ekki verið með sjálfri sér. Mundi hann ekki hvenær ársins þetta var. Gat hann ekki tímasett hvenær ársins þetta var. Yfirmaður hennar hefði gengið á hana og sagt henni að „koma sér í gírinn“. Y hefði komið inn í eldhúsið og vitnið spurt hana hvað væri að. Hún hefði þá hálfpartinn brotnað niður og farið að gráta. Hún hafi sagt frá því að ráðist hafi verið á hana, það er að henni hefði verið nauðgað. Hefði hún sýnt vitninu marblett ofan við annað brjóstið. Aðspurður sagði vitnið að hún hefði ekki lýst nauðguninni nánar. Þá hefði hún ekki sagt hver gerandinn var. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hana í svona ástandi áður og hvatt hana til að leggja fram kæru. Um það hvenær þessi nauðgun hefði átt að eiga sér stað sagði vitnið að þetta hafi átt að gerast nóttina áður. Þegar borið var undir vitnið það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu, vegna símtals lögreglu við hann 16. ágúst 2006, að hún hefði sýnt honum marblett á hálsi, kvaðst hann ekki hafa lýst þessu þannig heldur hafi þetta verið á bringu. Vitnið sagði að marbletturinn hefði verið greinilegur. Þetta hefði verið slæmur marblettur og í dekkri kantinum. Vitnið kvaðst ekki vita hvort hún hefði verið með fleiri marbletti. Sagði vitnið að hún hefði ekki komið aftur til vinnu eftir þetta. Aðspurður sagði vitnið að hún hefði staðið sig ágætlega í vinnu og verið hress og kát stelpa. Um það hvort hún hefði mætt illa í vinnu sagði hann að hún hefði verið ung og þetta verið aukavinna hjá henni og það ekki óvenjulegt. Varðandi það hvort Y hefði átt í samskiptavandamálum við yfirmann sinn sagði hann að hún hefði ekki verið besti þjónninn á staðnum, verið ný í starfi og ekki með mikla reynslu. Ýmislegt hefði gengið á eins og gengur og gerist hjá nýjum starfsmönnum. Því hafi yfirmaðurinn gengið svona hart að henni þennan dag því hún hafi verið orðin hálfpirruð á henni. Vitnið kannaðist ekki við að sérstök vandamál hefðu verið milli yfirmanns og starfsmanna.
Vitnið, Helga Steinunn Hróbjartsdóttir, skýrði frá því að móðir Y hefði hringt í sig, en þær væru miklar vinkonur, og sagt að Y hefði verið nauðgað. Vitnið gat ekki sagt hvenær þetta var. Móðirin hafi beðið vitnið um að sækja Y á [...]. Vitnið kvaðst hafa farið þangið en Y hafi þá verið farin. Kvaðst vitnið hafa rætt við starfsmann þar sem sagði að hún hefði farið og vissi ekki hvert. Vitnið hefði síðan leitað að henni fyrir utan staðinn. Móðir Y hefði þá hringt aftur og sagt að hún væri komin að Hlemmi og vitnið hafi sótt hana þangað í bíl sínum. Þær hefðu mjög lítið talað saman og hún ekki rætt við sig um hvað hefði gerst. Vitnið hefði síðar fengið að vita meira hjá móður hennar. Sagði vitnið að Y hefði liðið afskaplega illa og hniprað sig saman. Hún hefði ekki viljað snertingu eða ræða við hana og beðið vitnið að keyra sig heim. Vitninu fannst eins og hún væri flakandi sár og í mikilli þjáningu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð Y svona áður. Sagði vitnið að þær hefðu haft gaman af því að spjalla en eftir þetta hefði Y dregið sig til baka. Aðspurð kvaðst vitnið vita að Y hefði verið rekin úr vinnunni, móðir hennar hefði sagt sér það, en hún ekki sagt sér frá því. Um það hvort hún hefði átt við andlega vanlíðan að stríða fyrir meinta nauðgun svaraði vitnið neitandi en nefndi að hún hefði verið í sambúð sem hefði slitnað upp úr. Taldi vitnið að þetta hefði haft áhrif á hana.
Vitnið, K listmeðferðafræðingur, kvaðst ekki muna mikið hvað henni og Y fór á milli og vitnið skrái ekki niður upplýsingar um þá sem koma til hennar. Vitnið greindi frá því að í listmeðferð fái viðkomandi tækifæri til að skoða tilfinningar sínar og tjá þær í viðtölum og með myndlist. Þannig væri fólk að vinna með tilfinningar sínar og tilgangurinn sé að hjálpa fólki að styrkja sjálfsmynd sína. Þetta væri ekki ráðgjöf. Sagði vitnið að í einum tímanum hefði Y byrjað á að segja frá einhverju óhugnanlegu sem hefði gerst. Fannst henni eins og þetta hefði gerst nóttina áður. Vitnið kvaðst hafa rifjað tvennt upp, eftir að haft var samband við hana í síðustu viku um að koma sem vitni fyrir dóm, að Y hefði sagt frá því að maður hefði lamið hana eða sparkað í hana. Einnig hefði verið hrækt á hana í andlitið. Þá hefði hún lyft bolnum og sýnt vitninu marblett á spjaldhrygg eða mjöðm, annað hvort, en það hefði verið stórt svæði og bletturinn blár. Sagði vitnið að þetta hefði verið andstyggilegt. Aðspurð hvort Y hefði haft á orði að maðurinn hefði brotið á henni kynferðislega sagði vitnið að maður gæti séð fyrir sér að hann hefði nauðgað henni en vitnið sagði að hún hefði ekki notað orðið nauðgun í tímunum þeirra. Sagði vitnið að sér hefði brugðið þegar lögregla hringdi til sín því þær hefðu ekki rætt um þetta sem nauðgun, en hún hefði sagt frá því hvað hún hefði verið meðhöndluð hryllilega. Vitnið sagði að fyrir sér hefði verið ljóst að Y hefði lent í rúminu með manni hvort sem það var nauðugt eða ekki.
Fram kom að Y hefði ekki byrjað í meðferð hjá vitninu vegna þess atviks sem vitnið lýsti, heldur hafi þetta verið um miðja meðferð. Þetta hefði ekki verið rætt meira en í þessum eina tíma. Greindi vitnið frá því að henni hafi fundist Y brotin og þurft að styrkja sig. Sagði vitnið að sér hefði fundist að Y hefði átt að halda meðferð áfram. Þegar vitnið var innt eftir því hvort hún hefði merkt breytingu á líðan Y áður en hún greindi frá þessu og eftir það sagði vitnið að sér hefði fundist hún vera „furðu kúl“, en henni gæti samt hafa liðið illa. Það hefði verið eins og hún hefði haft einhverja skel og vitnið ekki átt auðvelt með að komast að tilfinningum hennar. Hún hefði ekki borið þær utan á sér.
Vitnið, C kvaðst hafa kynnst Y árið 2003. Þau hefðu „deitað“ í byrjun en síðan verið vinir. Fram kom að hann hefði umgengist hana mikið árin 2003 og 2004, en nú hefðu þau samband 3-4 sinnum á ári, en vitnið býr í Svíþjóð. Aðspurður hvort hann hefði hitt hana á veitingastaðnum Sirkus eitt kvöld kannaðist hann við það. Hann kvaðst hafa verið þar með finnskum félögum sínum en hún hefði verið þar í stutta stund. Vissi hann ekki hvort hún hefði þá verið undir áhrifum áfengis. Hélt hann að þetta hefði verið um miðnætti. Sagði hann að ekkert óeðlilegt hefði verið við ástand hennar þá. Skýrði hann frá því að hafa átt mjög einkennilegt samtal við hana daginn eftir og hún viljað að hann kæmi til hennar í vinnuna. Hún hefði ekki sagt mikið en hann heyrt á rödd hennar að eitthvað væri að. Hann hefði farið í vinnuna til hennar á [...] og hitt hana þar. Hún hefði verið öðruvísi, fjarræn og þögul. Hann hefði reynt að spyrja hana hvað væri að en hún ekkert sagt. Þau hefðu farið inn á salernið og hún sýnt honum fullt af marblettum. Nánar tiltekið á brjósti og ofarlega á bringu. Aðspurður hvort hún hefði sagt hvernig hún hefði fengið marbletti kvaðst vitnið ekki muna það en hélt að hún hefði ekki sagt mikið þá. Þetta hefði verið mjög ruglingslegt og hann ekki fengið svar. Hún hefði viljað ræða þetta seinna. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hana svona áður. Um það hvenær þau hefðu hist aftur taldi vitnið að það hefði verið sama kvöld. Hún hefði komið til hans og sýnt honum alla marblettina, á rasskinnum og brjóstum. Þetta hefðu verið stórir marblettir og ekki eins og hún hefði rekist í borð. Þeir hefðu verið bæði ljósbláir og dökkbláir. Sagði vitnið að hann hefði alltaf þurft að biðja hana að segja frá og síðan hefði hún sagt að henni hefði verið nauðgað, en ekki viljað segja nákvæmlega hvernig því hún vissi að hann yrði reiður yfir því að hún hefði orðið fyrir þessu. Y hefði stöðugt sagt að það væri allt í lagi með sig. Hún væri þannig að hún vildi alltaf sýnast sterkari en hún er. Síðan hefði vitnið fengið að vita meira á næstu tveimur mánuðum. Hefði hún þá greint frá því að hafa hitt A á Hverfisbarnum. Þar hefði hún hitt mann og rætt við hann. Hann hefði verið mjög þægilegur og talað um fyrrverandi vinkonu sína. Maðurinn hefði boðið henni heim og gefið henni þar bjór. Hún hefði síðan sagt eitthvað á þá leið að hún hefði sennilega sofnað og vaknað, eins og í draumi, og síðan náð sér. Aðspurður hvort hún hefði sagt að maðurinn hefði beitt hana ofbeldi eða þvingunum til að hafa kynmök við hana sagði vitnið að maðurinn hefði valdið henni marblettunum, en hún vissi ekki hvernig hann hefði gert það. Hún hefði ekki sagt honum það. Um það hvort hún hefði lýst því að maðurinn hefði haft samræði gegn vilja hennar svaraði vitnið því játandi. Varðandi það hvort hún hefði reynt að komast undan manninum sagði vitnið að hún hefði reynt það en ekki getað hreyft sig og verið alveg frosin. Þegar hún hefði verið með meðvitund hefði hún sagt nei. Vitnið kvaðst hafa viljað að hún færi beint til lögreglunnar og þau tekið myndir stuttu síðar af áverkum, en vitnið ekki fundið myndirnar í tölvunni. Sagði vitnið að hún hefði verið hrædd og skammast sín og ætti þá við hún væri sú sem hjálpaði öðrum.
Þegar vitnið var innt eftir því hvort þau hefðu rætt þetta eftir að hún lagði fram kæru sagði hann að hún hefði hringt til sín og hljómað alveg eins og daginn sem þetta gerðist. Hann hefði verið hræddur um að eitthvað hefði núna gerst. Hún hefði sagst hafa séð mynd af ákærða. Taldi vitnið að hún hefði ákveðið að gera eitthvað í málinu sama dag.
Aðspurður sagði vitnið að þau hefðu farið nokkuð oft út að skemmta sér og hún drukkið áfengi í hófi og ekki notað önnur vímuefni. Fram kom að hún hefði slitið sambandi við kærasta sem hún var með til þriggja ára stuttu áður en þau kynntust. Aðspurður sagði vitnið þau hefðu haft samræði er þau hittust í fyrsta sinn. Þá kvaðst vitnið ekki vita til þess að hún hefði átt í vandræðum í einkalífinu.
Vitnið, J rannsóknarlögreglumaður, greindi frá því að móðir Y hefði sent henni tölvupóst og rætt við sig í síma um að dóttur hennar hefði verið nauðgað. Gat hann ekki sagt til um hvenær þetta var en taldi að þetta hefði verið um mitt árið 2004. Hann kvaðst hafa hvatt hana til að leggja fram kæru en ekki fylgst með því hvort svo hefði verið gert. Aðspurður hvort það hefði komið fram hvernig meint brot var framið sagði vitnið að henni hefði verið byrlað eitthvað og hún verið hálfrænulaus.
IV.
Ákærði neitar sök. Hefur hann borið um aðdraganda þess að hann og Y fóru tvö saman á heimili hans að Njálsgötu 7 í Reykjavík. Hann hefur viðurkennt að þau hafi síðar um nóttina haft samfarir. Það hafi verið með fullu samþykki Y. Ákærði hefur viðurkennt að hafa verið harðhentur á meðan þau hafi haft samfarirnar og að hafa slegið með flötum lófa ofan á brjóst Y. Hann hafi einnig slegið með flötum lófa í mjaðmir hennar og rass. Kvaðst ákærði gera sér grein fyrir því að þetta hafi ekki átt heima í venjulegum skyndikynnum og að þetta hafi verið fullharkalegt.
Y skýrði dóminum frá því að hún myndi í brotum það sem gerst hafi í íbúð ákærða. Síðast myndi hún almennilega eftir sér er hún hafi verið inni á baðherbergi heima hjá ákærða. Það næsta er hún myndi væri að hún hafi legið á maganum í rúmi ákærða og hann verið að hafa við hana samfarir. Hafi hann ítrekað slegið hana í mjaðmirnar. Hún kveðst ekki hafa náð að tjá sig og legið eins og skata. Kvaðst hún næst muna eftir sér í stofu ofan á ákærða. Hafi hann verið að hafa við hana samfarir sitjandi í sófa. Hann hafi slegið hana í brjóstin. Í kæruskýrslu kvaðst hún ítrekað hafa sagt við ákærða að hætta og sagt nei við hann. Hann hafi haldið áfram þrátt fyrir mótmæli hennar. Hafi hún reynt að grípa í hendur hans á víxl en hann haldið fast um úlnliði hennar til skiptis og slegið á brjóst hennar með hinni hendinni. Hún hafi dottið eitthvað út. Hún myndi síðan eftir því að hún hafi verið að klæða sig í nærbuxur og brjóstahaldara. Hún hafi eftir það farið út úr íbúðinni. Fram hefur komið að þegar hún fór frá ákærða undir morgun hafi hún farið heim til A, vinar síns, og sofnað þar.
A hefur staðfest að Y hafi vaknað í íbúð hans undir morgun. Hafi hún farið í sturtu og vakið hann eftir það. Hún hafi verið í mikilli geðshræringu og sýnt honum stóra marbletti ofanvert á brjóstum og á mjöðmum eða lærum. Kvaðst A hafa þekkt Y vel og aldrei séð hana í viðlíka ástandi. Hafi hún átt mjög erfitt með að tala. Hafi hún greint frá því að sér hafi verið nauðgað. Kvaðst hann hafa hvatt hana til að leita á Neyðarmóttöku vegna atburðarins. A kvaðst hafa umgengist Y mikið á þessum tíma og séð greinilega breytingu á henni við þessa atburði. Þá liggur fyrir að Y greindi fyrrverandi kærasta sínum, C frá því að sér hafi verið nauðgað. Var það einnig daginn eftir atburðinn. Staðfesti C það fyrir dóminum og bar að Y hafi sýnt honum stóra marbletti er hún hafi verið með fyrir ofan brjóstin. Kvaðst C ekki hafa séð Y í slíku ástandi áður. Hún hafi verið mjög fjarræn. F kvað Y hafi sýnt sér marblettina daginn eftir atburðinn. Þeir hafi verið slæmir. Hafi hún jafnframt skýrt honum frá því að sér hafi verið nauðgað. Hafi hún grátið er hún hafi sagt honum frá því. Kvaðst F hafa hvatt Y til að gera eitthvað í sínum málum. Loks liggur það fyrir að Y greindi móður sinni frá því að sér hafi verið nauðgað. Kvað hún atburðinn hafa fengið mjög á Y og hafi hún síðar flutt frá Akureyri til Reykjavíkur til að geta verið nærri henni til að veita henni styrk. Miklar breytingar hafi orðið á stúlkunni við þetta. Áður hafi hún verið mjög jarðbundin en eftir þetta skort alla kjölfestu. Helga Hróbjartsdóttir kvaðst hafa náð í Y á vinnustað Y daginn eftir að atburðurinn eigi að hafa átt sér stað. Hafi Y verið eins og ,,flakandi sár” og greinilega þjáðst mikið.
Í málinu liggur fyrir vottorð námsráðgjafa hjá Kennaraháskóla Íslands sem ritað hefur verið 4. desember sl. Í vottorðinu kemur fram að Y hafi gert námsráðgjafa grein fyrir því á vormisseri 2005 að henni hafi verið nauðgað. Hafi hún sagt að hún hafi reynt að gleyma atburðinum og ætlað að takast á við nám og vinnu. Er það mat námsráðgjafans að atburðurinn hafi haft áhrif á námsframvindu Y. Hafi mikill kvíði og einbeitingarskortur hamlað henni verulega í að ná settum markmiðum í náminu. Í gögnum málsins er vottorð vegna skoðunar á Y á göngudeild húð- og kynsjúkdóma LSH. Í vottorðinu kemur fram að Y hafi komið á göngudeild 29. júní 2004. Hafi hún tjáð lækni að henni hafi verið nauðgað mánuði áður, er hún hafi verið stödd á Hverfisbarnum. Fram kemur að Y hafi leitað aftur í tvígang á deildina í skoðun, 14. desember 2004 og 22. apríl 2005.
Y komst í mikið tilfinningalegt uppnám við að lýsa fyrir dómi því er hún mundi eftir atburðum á heimili ákærða um nóttina. Fékk greinilega mikið á hana að rifja atburðinn upp. Var hún að mati dómsins trúverðug í frásögn sinni. Hefur samræmi verið í frásögn hennar af atburðum um þau atriði er máli skipta. Hluti atburðarins er þokukenndur fyrir henni, enda hefur hún alla tíð sagt að margt sé henni hulið um það sem gerðist um nóttina. Miðað við lýsingu hennar og frásagnir vitna var Y í miklu andlegu ójafnvægi daginn eftir atburðinn og var greinilegt að eitthvað mjög alvarlegt hafði komið fyrir hana um nóttina.
Í málinu er ákærða gefið að sök brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940. Er fyrir dóminum að leysa úr hvort Y hafi gefið ákærða ótvírætt til kynna í stofunni að samræðið væri gegn vilja hennar. Ef svo var og því var haldið áfram gegn vilja hennar og með valdbeitingu, er um að ræða brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940. Um aðra þætti í atburðarásinni verður ekki fjallað hér. Er nærtækt um svipaða stöðu að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. júní 2006 í máli ákærða nr. 542/2006. Þegar mat er lagt á framburð ákærða verður ekki litið fram hjá sérkennilegri kynlífshegðun hans. Y hefur lýst þeim líkamlegu áverkum er hún hlaut frá ákærða. Hafa nokkur vitni lýst þessum sömu áverkum. Í ljósi þessara framburða er ekki nokkrum vafa undirorpið að marblettir eftir ákærða voru bæði stórir og ljótir. Slíkir marblettir koma ekki nema eftir þung högg, enda lýsti ákærði því yfir að slíkur atgangur ætti ekki heima í venjulegum skyndikynnum. Þá liggur fyrir að ákærði var í dómi 17. nóvember 2005 sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart stúlku sem einnig bar áverka í kjölfar samræðis við ákærða. Einnig hafa verið lögð fram hér í dóminum lögregluskýrslur vegna kæru stúlku á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við lögregluyfirheyrslu í því máli viðurkenndi ákærði að hafa slegið stúlkuna í andlitið undir kynlífsathöfnum þeirra. Verður að meta framburð ákærða með hliðsjón af þessu.
Svo sem áður er rakið greindi Y fjölda einstaklinga frá því í beinu framhaldi af veru hennar í íbúð ákærða að sér hafi verið nauðgað. Var ýmist hvort hún gerði frekar grein fyrir í hverju nauðgunin hafi verið fólgin eða lét við það eitt sitja að segja að sér hafi verið nauðgað. Þó svo nauðgun sé öðrum þræði lagalegt hugtak sem refsivert er samkvæmt 194. gr. laga nr. 19/1940 er vitund almennings næsta áreiðanleg þegar kemur að því að meta hvað felst í nauðgun. Á það ekki hvað síst rætur í því forvarnarstarfi sem unnið hefur verið á vettvangi félagasamtaka og opinberra aðila í tengslum við skemmtanir og útihátíðir. Þá hefur sífellt aukin umræða í fjölmiðlum um dómsmál stuðlað að hinu sama. Er hamrað á því að um nauðgun sé að ræða ef fremjandi brots hefur samræði við annan aðila gegn vilja hans og með valdbeitingu. Þegar þetta er virt er að mati dómsins engin ástæða til annars en að leggja til grundvallar að Y hafi verið þess fullmeðvituð hvað í hugtakinu nauðgun fólst er hún greindi nákomnum og vinum frá því að sér hafi verið nauðgað af ákærða. Þá hefur Y skýrt ástæðu þess að hún hafi dregið að kæra atburðinn til lögreglu. Er skýring Y á drætti skýrður haldbærum rökum. Dregur þetta ekki úr trúverðugleika framburðar hennar, þó svo ákjósanlegra hefði verið rannsóknarinnar vegna að hún hefði kært atburðinn strax til lögreglu.
Þegar virtur er framburður Y sem dómurinn metur trúverðugan, og litið er til líkamlegra áverka á stúlkunni og þess lostástands sem hún var í eftir atburðinn, sem og þeirra andlegu erfiðleika sem hún hefur glímt við í kjölfar atburðarins og eru þekktar afleiðingar kynferðisbrota og loks þeirrar líkamlegu valdbeitingar er ákærði hefur viðurkennt að hafa beitt Y og orðið sannur að í öðrum tilvikum, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þröngvað Y með ofbeldi til samræðis í sófa í stofu á heimili sínu að Njálsgötu 7 í Reykjavík. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessari lýsingu í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í júní 1977. Hann gekkst undir sektargreiðslur fyrir umferðarlagabrot á árunum 1997 og 1998. Hann var með dómi héraðsdóms 17. nóvember 2005 dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940. Var dómurinn staðfestur í dómi Hæstaréttar Íslands 15. júní 2006. Brot ákærða í þessu máli er framið fyrir uppsögu refsidómsins frá 17. nóvember 2005 og því hegningarauki. Ber því að tiltaka refsingu samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot. Á hann sér engar málsbætur. Ákærði var í fyrra máli samkynja þessu dæmdur í fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Ef brot hans gagnvart Y hefði verið dæmt samhliða fyrra brotinu hefði ákærða í því máli verið ákvörðuð refsing sem nemur fangelsi í 4 ár. Með vísan til þessa, sbr. og 1., 2. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing hans nú ákveðin fangelsi í 1 ár og 6 mánuði.
V.
Ása Ólafsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur f.h. Y krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotið hafi valdið Y umtalsverðum miska. Atburðurinn hafi valdið henni miklum andlegum þjáningum og verið henni þungbær. Hafi hann haft neikvæð áhrif á geðheilsu hennar, skaðað sjálfsmynd hennar og dregið úr sjálfstrausti. Muni hann setja mark sitt á líf stúlkunnar. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.
VI.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, alls 695.083 krónur. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna vitnis, 40.790 krónur. Þóknun verjanda þykir hæfilega ákveðin 438.240 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá telst þóknun réttargæslumanns hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 216.053 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun þóknunar verjanda og réttargæslumanns er litið til vinnu þeirra á rannsóknarstigi.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir og Símon Sigvaldason og Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Stefán Hjaltested Ófeigsson, sæti fangelsi í 1 ár og 6 mánuði.
Ákærði greiði Y 1.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2004 til 24. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 695.083 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 438.240 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 216.053 krónur.
S é r a t k v æ ð i
Söndru Baldvinsdóttur
Ákærða er gefið að sök að hafa með ofbeldi þvingað Y í tvígang til samræðis eða kynmaka í endaþarm. Ákærði hefur frá upphafi neitað sök og kveðst hafa haft samræði við hana í tvígang með hennar vilja og fullri vitund. Hann hefur hins vegar skýrt frá því að hafa „í hita leiksins“ slegið nokkrum sinnum í brjóst hennar með flötum lófa. Þá hefur hann greint frá því að það hafi einnig verið hluti af leiknum að slá í mjaðmir og rass hennar. Einnig hefur hann sagt að mjög líklega um „dirty talk“ að ræða af hans hálfu. Segir hann að hún hafi ekki hreyft neinum mótmælum við þessu eða gefið til kynna að hún vildi þetta ekki. Hann kveðst gera sér fulla grein fyrir því að þetta átti ekki heima í venjulegum skyndikynnum og þetta hafi verið fullharkalegt.
Samkvæmt vitnisburði Y man hún í brotum það sem gerðist í íbúð ákærða en hún hafi verið máttvana þar sem hann hafi sett eitthvað í bjór hennar. Það síðasta sem hún muni skýrt sé þegar hún var á baðherberginu og hugsaði með sér hversu ánægð hún var að hafa hitt ákærða. Fannst henni skemmtilegt hvað ákærði reyndi mikið að ganga í augu hennar og hugsaði með sér að hann „þyrfti ekki að reyna svona stíft“. Óumdeilt er að ákærði hefur vakið hrifningu hjá henni. Þykir þetta styðja framburð ákærða um að þau hafi haft samræði með vilja hennar. Hún segir að það næsta sem hún muni sé að hún liggur á maganum í rúmi ákærða og hann sé að hafa við hana samræði og hafi slegið hana ítrekað í mjaðmirnar. Hún kveðst ekki hafa náð að tjá sig og legið eins og skata, eins og hún orðaði það, og ekkert sagt. Síðan kveðst hún næst muna eftir sér í stofunni ofan á ákærða sem sat í sófa og hann hafi slegið hana í brjóstin. Þetta hefði verið virkilega vont og hún sagt honum að hætta en sumt sem hún sagði hefði kæfst og hún talað lágt þar sem hún var kraftlítil og örmagna. Fram hefur komið að þegar hún fór frá ákærða undir morgun hafi hún farið heim til A, vinar síns, og sofnað. Þegar hún vaknaði hafi hún ekki verið viss um hvað gerðist en haft slæma tilfinningu. Síðan í sturtu hafi hún tekið eftir marblettum sem hún sýndi A. Segir hún að atvik, eins og hún muni þau í dag, hefðu ekki rifjast upp fyrir henni fyrr en þá um daginn í vinnunni.
Y átti erfitt með að skýra sjálfstætt frá atvikum fyrir dóminum og þurfti að verulegu leyti að leiða hana áfram með spurningum til að fá svör og lýsingu á atburðum. Hún var fremur yfirveguð en komst í nokkur skipti í nokkuð tilfinningalegt uppnám, ekki endilega í tengslum við sakarefnið sjálft. Hún hefur ekki verið fyllilega samkvæm sjálfri sér í frásögn sinni af því sem gerðist. Hjá lögreglu kvaðst hún hafa verið ber að neðan en í fötum að ofan þegar hún var í rúminu. Fyrir dómi sagði hún hins vegar að hún hefði munað eftir sér nakinni í rúminu en einnig sagði hún að hann hefði klætt hana úr brjóstahaldaranum þar. Þá lýsti hún því hjá lögreglu að hún hefði rankað við sér aftur í sófanum. Hún hefði legið afkáralega á bakinu og vaknað við að ákærði var að klæða hana úr að ofan. Hann hefði dregið hana upp á sig og þau átt mök þannig. Aftur á móti sagði hún fyrir dómi að hún myndi næst eftir sér í stofunni ofan á ákærða sem sat í sófanum. Þá var hún hjá lögreglu ekki viss hvort hann hefði átt mök við hana um leggöng eða endaþarm, en fyrir dómi sagði hún að það hefði verið um leggöng. Jafnframt er vitnisburður hennar um atvik ekki fyllilega í samræmi við framburð vitna. Þannig skýrði vitnið A frá því hjá lögreglu að hún hefði sagt honum að ákærði hefði nauðgað henni fyrir utan Ölgerðina á Njálsgötu en síðan hefði hún leiðrétt það löngu síðar. Hún kvaðst hins vegar ekki hafa sagt þetta. Þá kom fram að hún hefði sagt lækni á húð- og kynsjúkdómadeild frá einkennum í endaþarmi og hann hefði skoðað hana með tilliti til þess en ekki talið það tengjast meintri nauðgun. Læknirinn kannaðist ekki við það og þetta kemur ekki fram í sjúkraskrá hennar. Þá greindi hún frá misskilningi með vaktir í vinnu sinni sem yfirmaður hennar kannaðist ekki við. Þá er óljóst hvenær þetta á að hafa átt sér stað. Af framburði hennar og því sem fram hefur komið í málinu má ráða að þetta hafi verið um miðjan júní, mánaðamótin maí og júní, miðjan maí eða jafnvel í apríl 2004. Fleiri atriði mætti telja til, en ekki er ástæða til þess.
Að mati formanns dómsins þykir ljóst af því sem fram hefur komið fyrir dómi að hún hefur ekki hreyft andmælum við því sem gerst hefur í rúminu þar sem hún kvaðst hafa legið kyrr og ekkert sagt. Jafnframt þykir óljóst hvort hún hefur gefið til kynna með nægilega skýrum hætti að hún vildi ekki það sem gerðist í stofunni og að ákærði hafi haldið henni. Þannig kvaðst hún hafa sagt „nei“ er hún hélt hendi hans og hann hefði „alveg þá að minnsta kosti“ átt að heyra í henni, en hún vissi að „sumt kæfðist sko, ég talaði soldið lágt“. Þá er lýsingin á því hvernig hann hafi haldið henni fastri ónákvæm. Kvaðst hún ekki muna þetta nákvæmlega og eiga erfitt með að lýsa því en sagði að hann hefði yfirleitt verið með aðra höndina lausa.
Fram hefur komið að Y skýrði móður sinni og vitnunum A, I námsráðgjafa, D yfirmanni sínum, auk lækni á húð- og kynsjúkdómadeild, frá því að henni hefði verið nauðgað án þess að hafa skýrt nánar frá atvikum. Vitnið, K, sem var meðferðaraðili Y á þeim tíma sem meint nauðgun á að hafa átt sér stað, sagði hins vegar að hún hefði ekki notað orðið nauðgun heldur sagt að hún hefði verið lamin eða sparkað í hana. Þá kom fram að Y greindi aðeins frá þessu í einu viðtali við vitnið en ræddi þetta ekki frekar.
Með hliðsjón af framburði ákærða og vitnisburði Y er ljóst að henni hefur verið misboðið með orðbragði ákærða og hann verið harkalegur. Einnig er ljóst af framburði hennar og vitna að samskipti hennar við ákærða hafa verið henni þungbær. Vitni lýsti því að henni hefði þótt orðbragðið það versta. Að mati formanns dómsins er varhugavert að draga of víðtækar ályktanir af viðbrögðum hennar og líðan í kjölfarið, um að henni hafi verið nauðgað, þegar litið er til þessa og í ljósi þess sem fram hefur komið um önnur áföll og erfiðleika í lífi hennar, bæði áður en hún hitti ákærða og eftir. Eins og móðir hennar komst að orði er erfitt að einangra hvað sé afleiðing af hverju. Einnig er að líta til þess sem fram hefur komið um að henni hafi liðið ágætlega fyrstu mánuði og jafnvel ári eftir meinta nauðgun en síðan farið að halla undan fæti hjá henni þegar upp komu vandamál vegna pilts.
Í máli þessu er ákært fyrir nauðgun. Samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, skal refsa þeim sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Eins og rakið hefur verið telur Y að ákærði hafi sett eitthvað í bjór hennar þannig að hún gat ekki spornað við háttsemi hans og man ekki atvik að öllu leyti. Ákærði neitar þessu og segir að hún hafi verið með meðvitund allan tímann. Gegn neitun ákærða þykir þessi tilgáta ekki sönnuð og verður ekki á því byggt að ákærði hafi gefið henni eitthvert lyf þannig að hún hafi verið í annarlegu ástandi sem sé tilkomið af hans völdum. Kæra á hendur ákærða er ekki lögð fram fyrr en um einu og hálfu ári eftir að meint nauðgun á að hafa átt sér stað, eftir þrýsting frá öðrum. Var því ekki unnt að leita lyfja í blóði hennar eða mæla áfengismagn sem skýrt geti ástand hennar og minnisleysi. Þá var ekki unnt að gera tæknirannsókn á vettvangi. Ekki fór heldur fram nein kvenskoðun en ætla má að þess hefðu sést merki að henni hafi verið þröngvað til samræðis í tvígang. Ekkert mat liggur fyrir um áverka eða myndir af þeim svo dómurinn geti tekið afstöðu til þeirra. Í því sambandi verður að hafa í huga að það kom fram hjá henni sjálfri fyrir dómi að marblettirnir hefðu verið „skrýtnir“ og með „litlum doppum“. Þá kom fram hjá A, vini hennar, að hún hafi haft marbletti sem hann taldi ekki tengjast meintri nauðgun. Áverkar geta stutt frásögn hennar en þeir geta einnig samrýmst framburði ákærða um atvik. Eins og rakið hefur verið er framburður Y um margt óljós. Þá gætir ósamræmis í frásögn hennar og er hún í ýmsum atriðum í mótsögn við framburð vitna.
Að öllu þessu virtu, og gegn eindreginni neitun ákærða, hefur að mati formanns dómsins ekki verið færð fram nægileg sönnun um sök ákærða sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Er ósannað að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað henni til samræðis eða kynmaka í endaþarm. Eins og verknaðarlýsingu er háttað í ákæru verður háttsemi ákærða ekki heimfærð til annarra refsiákvæða. Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins.