Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 11. apríl 2002. |
|
Nr. 162/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað.
Lögregla krafðist þess með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Hafði X gengist við því að hafa tekið við um 4 kg af amfetamíni, sem talið var að Y hefði sent hingað til lands frá Þýskalandi. Þá hafði X skýrt svo frá að hefði áður tekið við nokkru magni fíkniefna frá sama manni, þar á meðal 1 kg af amfetamíni og 300 g af kókaíni auk ótilgreinds magns af fíkniefninu MDMA, svo og sent peninga til hans. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar metið sé hvort skilyrði séu til gæsluvarðhalds yfir X samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verði ekki horft til þeirra fíkniefna, annarra en amfetamíns, sem X hafi gengist við að hafa tekið við. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni komi fram að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin séu upp í 6. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 68/2001, sé óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Amfetamín sé ekki meðal þeirra ávana- og fíkniefna. Í 2. mgr. 2. gr. áðurgreindra laga sé heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna, sem sérstaklega mikil hætta sé talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum, sé á sama hátt óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Þegar X hafi tekið við því amfetamíni, sem um ræði í málinu, hafi verið í gildi fyrrnefnd reglugerð nr. 233/2001 eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001. Eftir hljóðan hennar hafi amfetamín ekki verið flokkað sem efni, sem bannað sé á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2001, heldur sem efni, sem getið sé á fylgiskjali II með alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá 1971 með síðari breytingum. Á gildistíma þeirrar breytingar á reglugerð nr. 233/2001, sem gerð hafi verið með reglugerð nr. 490/2001, hafi amfetamín því fallið undir ákvæði 3. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Innflutningur, sala og varsla efnisins á þessum tíma hafi því eingöngu verið heimil lyfsölum og þeim, sem ráðherra hafi veitt sérstakt leyfi til slíks, en öðrum bönnuð, sbr. 2. mgr. og 4. mgr. 3. gr. laganna. Þótt brot gegn því banni geti varðað refsingu samkvæmt 5. gr. laganna séu ekki skilyrði til að beita af því tilefni gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var kröfu lögreglunnar því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 21. maí nk. kl. 16.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Varnaraðili var handtekinn 27. janúar 2002 vegna gruns um að hann ætti hlut að stórfelldum innflutningi og sölu fíkniefna. Hann sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 28. sama mánaðar þar til héraðsdómari kvað upp hinn kærða úrskurð. Við rannsókn málsins gekkst varnaraðili við því að hafa þá nýverið tekið við um 4 kg af amfetamíni, sem talið er að Y hafi sent hingað til lands frá Þýskalandi. Þá hefur varnaraðili skýrt svo frá að hann hafi áður tekið við nokkru magni fíkniefna frá sama manni, þar á meðal 1 kg af amfetamíni og 300 g af kókaíni auk ótilgreinds magns af fíkniefninu MDMA, svo og sent peninga til hans. Í tengslum við rannsókn málsins lagði lögreglan 27. janúar 2002 hald á 5 kg af amfetamíni auk 158 g af kókaíni.
Varnaraðili andmælir kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald með vísan til þess að við breytingu á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með reglugerð nr. 490/2001 hafi amfetamín fallið af skrá um þau efni, sem óheimilt sé að flytja inn á íslenskt yfirráðasvæði, selja þar eða hafa í vörslum sínum. Með því að þessa efnis sé heldur ekki getið í 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni sem eins af þeim efnum, sem falli undir ákvæði 2. gr. sömu laga, sé sú háttsemi, sem hann hafi gengist við í málinu, ekki refsiverð.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á það með héraðsdómara að þegar metið er hvort skilyrði séu til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sem sóknaraðili reisir kröfu sína eingöngu á, verði ekki horft til þeirra fíkniefna, annarra en amfetamíns, sem varnaraðili hefur gengist við að hafa tekið við. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 kemur fram að varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í 6. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 68/2001, sé óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Amfetamín er ekki meðal þeirra ávana- og fíkniefna. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til að mæla svo fyrir í reglugerð að varsla og meðferð annarra ávana- og fíkniefna, sem sérstaklega mikil hætta er talin stafa af samkvæmt alþjóðasamningum, sé á sama hátt óheimil á íslensku yfirráðasvæði. Þegar varnaraðili tók við því amfetamíni, sem um ræðir í málinu, var í gildi fyrrnefnd reglugerð nr. 233/2001 eins og henni hafði verið breytt með reglugerð nr. 490/2001. Eftir hljóðan hennar var amfetamín ekki flokkað sem efni, sem bannað er á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt 2. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 233/2001, heldur sem efni, sem getið er á fylgiskjali II með alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá 1971 með síðari breytingum. Samkvæmt þessu féll amfetamín á gildistíma þeirrar breytingar á reglugerð nr. 233/2001, sem gerð var með reglugerð nr. 490/2001, undir ákvæði 3. gr. laga nr. 65/1974, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í dómasafni 1987, bls. 890. Var innflutningur, sala og varsla þessa efnis því eingöngu á þessum tíma heimil lyfsölum og þeim, sem ráðherra hafði veitt sérstakt leyfi til slíks, en öðrum bönnuð, sbr. 2. mgr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 65/1974. Þótt brot gegn því banni geti varðað refsingu samkvæmt 5. gr. laganna með áorðnum breytingum eru ekki skilyrði til að beita af því tilefni gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 21. maí 2002 klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn 28. janúar sl., en þann dag hafi lögregla lagt hald á tæp 5 kg af amfetamíni og 158 g af kókaíni. Hluti amfetamínsins, eða 626 g hafi verið í vörslum kærða við handtökuna, en mismunurinn í vörslum Z.
Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að allt amfetamínið hafði skömmu áður verið í vörslum kærða sem hafði sótt það í bifreið við Sundlaug Kópavogs fyrr um daginn samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun, en kærði síðan farið með það til Z til geymslu. Hafi verið hlutverk kærða að taka við efnunum frá vörslumanni þeirra hérlendis og koma efnunum í verð. Kærði hafi ætlað að geyma efnin hjá Z áður en hann seldi þau.
Þá hafi komið fram hjá kærða að hann hafi áður tekið við fíkniefnasendingum. Hafi komið fram að á síðasta ári hafi hann tekið við um 1 kg af amfetamíni, um 300 g af kókaíni og ótilteknum fjölda “e-taflna”. Fjöldi taflnanna sé óvíst, þar sem kærði hafi fyrst talað um að þær hefðu verið í þremur stórum niðursuðudósum, en hafi svo ekki verið viss um það, en það njóti stuðnings í framburði annarra að þær hafi verið í niðursuðudósum. Hver slík dós taki um 800 g skv. merkingum og hafi verið rúm 600 g í hverri dós af amfetamíninu. Töflurnar hafi þannig skipt þúsundum, en venjulegast sé hver slík tafla um þriðjungur til fjórðungur gramms. Þá hafi kærði kannast við að hafa afhent V, systur Y, allt að eini milljón króna vegna sölu efnanna.
Þrír aðrir aðilar hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins hérlendis og einn hefur verið handtekinn ytra í því skyni að hann verði framseldur til Íslands vegna málins. Rannsóknin sé mjög langt á veg komin og sé að verulegu leyti lokið gagnvart kærða. Kærði sé þannig undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé brot kærða mjög alvarlegt en það lúti að dreifingu á miklu magni fíkniefna í ágóða- og atvinnuskyni. Sé um að ræða fast að 6 kg af amfetamíni, en styrkleiki þess sé þannig að slíkt hafi ekki sést áður, eða milli 97 og 99 % hreint efni, sem fyrir sölu verði margfaldað með þynningu, þannig að í smásölu hefði magn amfetamínsins vart verið undir 15-20 kílóum. Þá sé einnig um að tefla mikið magn ætlaðra MDMA-taflna auk kókaíns.
Um sé hér að ræða skipulagða brotastarfsemi sem hafi staðið um all nokkurn tíma, eða a.m.k. frá síðasta sumri. Sé málið sérstakt að því leyti að efnin séu óvenjulega hrein og nánast örugglega beint frá verksmiðju, eða eins og Y segi sjálfur “þetta kemur beint af kúnni”. Þáttur kærða í brotastarfseminni sé mjög stór og nauðsynlegur, en hann hafi séð um að taka við efnunum hérlendis og koma þeim í verð og hafi hann þannig selt og tekið að sér að selja mjög mikið magn amfetamíns, kókaíns og MDMA-taflna. Verði að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna, en nauðsynlegt sé að uppræta með öllu umræddan innflutning og dreifingu fíkniefna, en kærði hafi leikið lykilhlutverk í brotastarfseminni. Sé því nauðsynlegt að halda kærða í gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað í 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði mótmælir kröfu um gæsluvarðhald. Bendir hann á að ætlað brot, þ.e. meðferð á talsverðu magni amfetamíns, hafi ekki verið refsivert, þegar það á að hafa verið framið. Refsinæmi meðferðar amfetamíns hafi byggst á reglugerðum sem settar hafi verið samkvæmt lögum nr. 65/1974, en með reglugerð nr. 490/2001 hafi amfetamín verið fellt út af skrá um efni sem bönnuð væru á íslensku yfirráðasvæði. Úr því var síðan bætt með reglugerð nr. 248/2002.
Atvik þessi eru skýrð í bréfi Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til lögreglunnar, dagsettu 27. mars 2002. Þar segir m.a.:
“Þegar umrædd reglugerð var endurútgefin 23. mars 2001 var amfetamín (amphetamine) merkt með B í fylgiskjali I með reglugerðinni eins og áður hafði verið, en það merkir eins og segir í reglugerðinni: “Efni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði, ...”. Með reglugerð nr. 490/2001 um (1.) breytingu á reglugerð 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, dags. 14. júní 2001, var fylgiskjal við reglugerðina endurútgefið vegna rangra tilvitnana í því. Jafnframt var B-merkingin felld niður á amfetamíni, ketóbemidóni og methýlfenídati, þar sem á markaði voru lyf með markaðsleyfi, sem innihéldu þessi efni. Þetta var einungis gert í því skyni að heimild væri fyrir hendi til að hafa þessi lyf á markaði. Hins vegar láðist að gera ráðstafanir samhliða þessari breytingu sem tryggðu óbreytta stöðu amfetamíns sem ávana- og fíkniefnis. Rétt er að taka fram að það var ekki ætlunin að breyta að neinu leyti stöðu amfetamíns sem ávana- og fíkniefnis og ekki stóð annað til en að meðferð efnisins yrði áfram refsiverð skv...”
Niðurstaða.
Kærði hefur játað meðferð á talsverðu magni amfetamíns. Er magnið slíkt að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, ef komist er að þeirri niðurstöðu að meðferð amfetamíns hafi verið refsiverð á þeim tíma sem hér skiptir máli.
Þá kemur fram að málið varðar einnig meðferð á 300 grömmum af kókaíni og dósir með MDMA-töflum, sem kærði játaði hjá lögreglu að hafa tekið við og selt áfram. Tók hann þar fram að töflurnar hefðu verið “handónýtar”.
Við blasir að ákærði hefur játað dreifingu fíkniefna. Það magn af kókaíni og MDMA-töflum sem um ræðir er ekki slíkt að það eitt og sér réttlæti það að kærða verði haldið í gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. Er fjöldi taflnanna raunar óupplýstur. Gæsluvarðhaldskrafan veltur því á þeirri spurningu hvort meðferð amfetamíns hafi verið refsiverð eftir að reglugerð nr. 490/2001 tók gildi.
Í lögum nr. 65/1974 eru í 6. gr. talin upp fáein efni sem falla undir bannreglu 1. mgr. 2. gr. laganna. Amfetamín er ekki þar á meðal. Í 2. mgr. 2. gr. er ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð að fleiri efni en talin eru í 6. gr. skuli falla undir bannreglu 1. mgr. 2. gr. Lengst af hefur refsinæmi meðferðar á amfetamíni byggst á reglugerð sem sett hefur verið samkvæmt þessari heimild, nú reglugerð nr. 248/2002. Er kærði fór með framangreint amfetamín var hins vegar í gildi reglugerð nr. 490/2001. Eins og að framan er lýst var amfetamín þá ekki berum orðum fellt undir bannreglu laganna. Hefur því verið lýst að vilji þeirra sem settu reglugerðina stóð ekki til þess að breyta reglum að þessu leyti. Hins vegar voru mistökin ekki fólgin í einfaldri ritvillu, eða annarri ámóta yfirsjón. Mistökin fólust í því að að breyting sú sem gerð var hafði víðtækari afleiðingar en stefnt var að. Blasir við að ekki hafi verið í gildi refsiheimild um meðferð amfetamíns frá því að reglugerð nr. 490/2001 tók gildi og þar til reglugerð nr. 248/2002 var sett. Því eru ekki skilyrði til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram.
Jón Finnbjörnsson hérðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi.