Hæstiréttur íslands

Mál nr. 750/2013


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 27. mars 2014.

Nr. 750/2013.

 

Þorbjörn hf.

(Jóhannes B. Björnsson hrl.)

gegn

Haf Funding 2008-1 Ltd.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Lánssamningur. Gengistrygging.

Þ hf. höfðaði mál gegn H Ltd. og krafðist meðal annars viðurkenningar á því að nánar tilteknir lánssamningar hefðu verið um lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu en ekki í erlendum myntum. Orðalag samninganna, athafnir samningsaðila við gerð og efndir á aðalskyldum þeirra og önnur atvik málsins þóttu ekki benda til þess að umræddir samningar hefðu í reynd falið í sér lán í íslenskum krónum í upphafi eða eftir að skilmálum þeirra var síðar breytt. Þá var ekki fallist á með Þ hf. að öðrum lánssamningum, sem ágreiningslaust var að hefðu í upphafi verið í erlendum myntum, hefði með skilmálabreytingu verið breytt í gengistryggð lán í íslenskum krónum. Loks var talið að H Ltd. hefði verið heimilt að breyta samningsvöxtum samkvæmt ákvæði lánssamnings þar að lútandi.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2013. Endanlegar dómkröfur hans eru að stefnda verði gert að greiða sér 793.475.466 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2012 til greiðsludags að frádreginni innborgun 28. febrúar 2014 að fjárhæð 182.868.465 krónur. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að eftirtaldir lánssamningar séu bundnir ólögmætri gengistryggingu „í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001“: Lánssamningur 28. október 2002, að fjárhæð jafnvirði 220.000.000 krónur, upphaflega milli áfrýjanda og Íslandsbanka hf. en nú milli málsaðila, sem skilmálabreytt var 15. júlí 2004. Lánssamningur 20. maí 2003, að fjárhæð jafnvirði 200.000.000 krónur, upphaflega milli áfrýjanda og Íslandsbanka hf. en nú milli aðila málsins, sem skilmálabreytt var 15. júlí 2004. Lánssamningur 25. maí 2007, að fjárhæð jafnvirði 1.300.000.000 krónur, upphaflega milli áfrýjanda og Glitnis banka hf. en nú milli aðila þessa máls. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að endurgreiðsluskylda áfrýjanda samkvæmt viðauka 15. júlí 2004, við lánssamning 9. nóvember 2001, upphaflega að fjárhæð 3.166.000 svissneskir frankar, 1.447.500 bandaríkjadalir, 176.387.600 japönsk jen og 1.103.300 evrur, upphaflega milli áfrýjanda og Íslandsbanka – FBA hf. en nú milli málsaðila, sé í íslenskum krónum og frá þeim tíma hafi lánssamningurinn verið bundinn ólögmætri gengistryggingu. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að endurgreiðsluskylda áfrýjanda samkvæmt viðauka 15. júlí 2004 við lánssamning 20. nóvember 2003, upphaflega að fjárhæð 4.183.000 bandaríkjadalir, 3.954.000 evrur, 4.785.000 svissneskir frankar, 304.000 sterlingspund og 307.300.000 japönsk jen, upphaflega milli áfrýjanda og Íslandsbanka hf. en nú milli málsaðila, sé í íslenskum krónum og frá þeim tíma hafi lánssamningurinn verið bundinn ólögmætri gengistryggingu. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að hækka einhliða vaxtaálag fyrrgreinds lánssamnings 9. nóvember 2001, upphaflega að fjárhæð 3.166.000 svissneskir frankar og 1.447.500 bandaríkjadalir og 176.387.600 japönsk jen og 1.103.300 evrur milli áfrýjanda og Íslandsbanka – FBA hf., úr 1,2% í 6,5% frá og með 20. desember 2012 með tilkynningu 20. júní 2012. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að honum hafi ekki verið heimilt að krefja áfrýjanda um greiðslu dráttarvaxta við uppgjör í janúar 2012 á lánssamningi 23. september 2005. Hefur áfrýjandi greitt þá fjárhæð sem hann var dæmdur til að greiða áfrýjanda samkvæmt héraðsdómi og tók dómkrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti breytingum í samræmi við það.

Málsaðilar eru sammála um að stefndi sé ekki dótturfélag Glitnis hf., sem mun áður hafa heitið Glitnir banki hf. Þá telur áfrýjandi ekki réttilega greint frá í málavaxtalýsingu héraðsdóms að skuldbindingar áfrýjanda samkvæmt ársreikningum fyrir árin 2009 til 2012 hafi allar verið í erlendum gjaldmiðlum og í nánar tilgreindum hlutföllum. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Haf Funding 2008-1 Ltd., er sýkn af kröfum áfrýjanda, Þorbjarnar hf.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2013.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 8. apríl 2013 og dómtekið 11. nóvember sl. Stefnandi er Þorbjörn hf., Hafnargötu 12, Grindavík. Stefndi er HAF Funding 2008-1 Limited, Harbourmaster Place 5, Dyflini, Írlandi.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: 1) Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 793.475.466 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2012 til greiðsludags; 2) Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur 28. október 2002, að fjárhæð jafnvirði 220.000.000 krónur, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka hf., sem skilmálabreytt var 15. júlí 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001; 3) Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur 20. maí 2003, að fjárhæð jafnvirði 200.000.000 krónur, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka hf., en nú milli aðila þessa máls, sem skilmálabreytt var 15. júlí 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001; 4) Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur 25. maí 2007, að fjárhæð jafnvirði 1.300.000.000 krónur, upphaflega milli stefnanda og Glitnis banka hf., en nú milli aðila þessa máls, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001; 5) Að viðurkennt verði með dómi að endurgreiðsluskylda stefnanda samkvæmt viðauka  15. júlí 2004, við lánssamningi 9. nóvember 2001, upphaflega að fjárhæð 3.166.000 svissneskir frankar, 1.447.500 bandaríkjadalir, 176.387.600 japönsk jen og 1.103.300 evrur, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka - FBA hf., en nú milli aðila þessa máls, sé í íslenskum krónum og frá þeim tíma hafi lánssamningurinn verið bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001; 6) Að viðurkennt verði með dómi að endurgreiðsluskylda stefnanda samkvæmt viðauka 15. júlí 2004, við lánssamning 20. nóvember 2003, upphaflega að fjárhæð 4.183.000 bandaríkjadalir, 3.954.000 evrur, 4.785.000 svissneskir frankar, 304.000 sterlingspund og 307.300.000 japönsk jen, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka hf., en nú milli aðila þessa máls, sé í íslenskum krónum og frá þeim tíma hafi lánssamningurinn verið bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001; 7) Að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að hækka einhliða vaxtaálag lánssamnings upphaflega að fjárhæð 3.166.000 svissneskir frankar, 1.447.500 bandaríkjadalir, 176.387.600 japönsk jen og 1.103.300 evrur, milli stefnanda og Íslandsbanka-FBA hf. 9. nóvember 2001, úr 1,2% í 6,5% frá og með 20. desember 2012, með tilkynningu 20. júní 2012. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru að meginstefnu óumdeild, en málið lýtur að ágreiningi aðila um uppgjör og túlkun sjö lánssamninga sem stefnandi gerði við Glitni banka hf. á mismunandi tímum, svo sem nánar greinir síðar. Glitnir banki hf. framseldi réttindi sín samkvæmt samningunum hinn 31. júlí 2008  til stefnda sem er dótturfélag Glitnis banka hf. Ekki er um það deilt að Glitnir banki hf., síðar Glitnir hf., mun hafa haft umsjón með umræddum lánssamningum fyrir hönd stefnda.

Stefnandi er umsvifamikið fyrirtæki á sviði útgerðar, hefur tekjur sínar að lang mestu leyti í erlendum myntum og færir ársreikning sinn í evrum. Samkvæmt ársreikningum stefnanda fyrir árin 2009 til 2012 voru skuldbindingar stefnanda á þessum árum allar í erlendum gjaldmiðlum í nánar tilgreindum hlutföllum. Ekki er um það deilt að stefnandi átti í viðvarandi viðskiptasambandi við Glitni banka hf. á árunum 2001 til 2008 sem fólst meðal annars í gerð þeirra lánssamninga sem málið lýtur að. Þessir lánssamningar eru sem hér segir:

Lánssamningur 23. september 2005 (dómkrafa 1)

Á forsíðu samningsins kemur fram að stefnandi og Íslandsbanki hf. geri með sér lánssamning um „lán í erlendum gjaldmiðlum“. Í meginmáli samningsins er tiltekið að aðilar geri með sér „lánssamning til 3ja ára að fjárhæð jafnvirði ISK 500.000.000,- -fimmhundruðmilljónir 00/100 íslenskar krónur“. Um lánsfjárhæðina og skuldbindingar samningsaðila segir svo 1. grein samningsins: „Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð. Lánið er laust til útborgunar frá undirritun samnings þessa til 30. september 2005.“ Um skyldu lánveitanda til útgreiðslu lánsins segir að lánið verði greitt út að uppfylltum útborgunarskilyrðum með einni greiðslu eigi síðar en 30. september 2005. Útgreiðsluskilyrði var að lántaki sendi beiðni um útborgun á láninu fyrir 28. september 2005 en slík beiðni liggur ekki fyrir í málinu í útfylltu formi. Í 5. mgr. kom fram að ráðstafa skyldi lánsfjárhæðinni til greiðslu skammtímalána félagsins nr. 15356-15357-15358-15359 og 15361 en samkvæmt því sem fram kom við aðalmeðferð málsins var hér um að ræða peningamarkaðslán í erlendum myntum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. skyldi stefnandi endurgreiða lánið með einni greiðslu 26. september 2008. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins bar stefnanda að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Þá segir í 7. mgr. 2. gr. að lánveitandi hafi heimild til þess að skuldfæra „innlenda gjaldeyrisreikninga“ lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum.

Um vexti og vaxtabreytingar voru ákvæði í 3. gr. samningsins en vextir áttu að taka mið af LIBOR- eða EURIBOR-vöxtum með nánar tilgreindu álagi eftir gjaldmiðli viðkomandi lánshluta. Samkvæmt d-lið greinarinnar var lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi við vanefnd lántaka. Í 4. gr. samningsins var kveðið á um heimildir til myntbreytingar. Segir þar meðal annars að stefnandi geti óskað eftir því á vaxtagjalddögum lánsins að „lánið miðist við aðra mynt eða reikningseiningu, eina eða fleiri frá og með upphafi næsta vaxtatímabils“.  Um framkvæmd þessarar breytingar á viðmiðunarmynt eða reikningseiningu segir í sama ákvæði að miða skuli við „sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni“. Ekki er ástæða til að rekja önnur ákvæði samningsins sem eru í alls 14 greinum .

Samkvæmt gögnum málsins var endanleg lánsfjárhæð 471.233.700 krónur. Samkvæmt kaupnótu var þeirri fjárhæð, að frádregnu lántökugjaldi, ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda í nánar tilgreindum upphæðum í svissneskum frönkum (42%), evrum (28%), sterlingspundum (6%) og bandaríkjadölum (24%). Svo sem áður greinir mun fénu hafa verið varið til uppgjörs á skammtímalánum stefnanda í erlendum myntum.

Með viðauka við lánssamninginn 18. september 2008 var samið um nýjan gjalddaga á láninu þann 26. september 2009 og hækkun á vaxtaálagi, en stefndi var þá orðinn framsalshafi kröfunnar. Í skilmálabreytingunni er láninu lýst sem láni að „jafnvirði ISK 500.000.000 í erlendum myntum“ og staða lánsins svo tilgreind í þeim viðmiðunarmyntum sem þá voru í gildi.

Stefnandi greiddi vaxtaafborganir sínar í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af. Stefnandi greiddi áfallna vexti af lánssamningnum á gjalddaga lánsins 26. september 2009. Í stefnu segir að þá hafi verið fyrir hendi samkomulag með aðilum um að fresta áfram greiðslu á höfuðstól lánsins og að hann yrði síðan endurfjármagnaður sem hluti heildarsamkomulags milli aðila. Er því til stuðnings einkum vísað til tölvupósts Ásmunds Gíslasonar, starfsmanns Glitnis hf., 28. desember 2009 þar sem tölvupósti fjármálastjóra stefnanda var svarað með eftirfarandi hætti: „ Þar sem við erum að vinna að lausn á ykkar málum þá teljum við rétt að þið greiðið ekki vexti núna enda samræmist það ekki stöðu lánsins í okkar kerfum. Við munum taka tillit til þessarar vaxtagreiðslu inní þeirri heildarlausn sem unnið er að. Eins og við ræddum áðan þá skulum við vera í sambandi strax á nýju ári en við myndum vilja fara yfir ákveðnar forsendur með ykkur vegna lána/afborgana til annarra lánastofnana.“ Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að ekki hafi verið um neinar framlengingar að ræða eða greiðslufresti á þessu stigi málsins eða síðar.

Viðræður áttu sér stað milli aðila með hléum á árunum 2010 og 2011 um lausn á lánamálum stefnanda, en inn í þær umræður komu á síðari stigum sjónarmið stefnanda um að skilmálar lána kynnu að fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Þann 2. september 2010 ítrekaði fjármálastjóri stefnanda beiðni til stefnda um að greiða áfallna vexti af lánssamningi aðila og sendi útreikning á samningsvöxtum miðað við þann dag og bauð greiðslu þeirra. Sama dag samþykkti stefndi það fyrirkomulag og greiddi stefnanda áfallna vexti daginn eftir.

Haustið 2011 var orðið ljóst að aðilar voru ósammála um hvort lánssamningar fælu í sér ólögmæta skilmála um gengistryggingu. Með bréfi 6. janúar 2012 tilkynnti stefnandi að hann hefði ákveðið af greiða upp lánssamninginn miðað við að samningurinn innihéldi skilmála um ólögmæta gengistryggingu. Greiddi stefnandi í framhaldinu 741.913.982 krónur til stefnda. Stefndi mótmælti greiðslunni með bréfi 11. janúar 2012 og því að lánið væri ólögmætt gengistryggt lán. Hafnaði hann greiðslunni og vísaði til heimildar sinnar til þess að gjaldfella alla lánssamninga stefnanda ef stefndi gerði skuldina ekki upp í samræmi við kröfu stefnda. Hinn 23. og 24. sama mánaðar reiddi stefnandi af hendi greiðslu samkvæmt kröfu stefnda án viðurkenningar á því að krafan væri réttmæt og gerði fyrirvara um endurgreiðslu ásamt dráttarvöxtum. Greiðsla stefnanda var sem hér segir miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands 24. janúar 2012:

 

Mynt

Fjárhæð:

Sölugengi myntar hjá Seðlabanka Ísl.

Fjárhæð í íslenskum krónum:

CHF

4.779.072

133,32

637.145.879

EUR

2.093.393

160,76

336.533.659

GBP

305.817

192,31

58.811.667

USD

2.181.516

123,62

269.679.008

 

 

 

1.302.170.413

 

Framangreindum fjárhæðum er ekki mótmælt af stefnda.

Lánssamningur 28. október 2005 (dómkrafa 2)

Lánssamningurinn 28. október 2005 fól í sér „lánssamning um lán til 8 ára að fjárhæð jafnvirði: ISK 220.000.000,- -tvöhundruð og tuttugu milljónir 00/100“ samkvæmt því sem fram kom í upphafi samningstextans. Á forsíðu var samningurinn auðkenndur sem „lán í erlendum gjaldmiðlum“. Um lánsfjárhæðina og skuldbindingar samningsaðila sagði í 1. mgr. 1. gr. samningsins: „Lántaki lofar að taka að láni og lánveitandi að lána umsamda lánsfjárhæð. Lánið er laust til útborgunar frá undirritun samnings þessa til 30. nóv. 2002.“ Í 2. mgr. samningsins sagði að lánveitandi lofaði að greiða lántaka lánið með einni greiðslu eigi síðar en 30. nóvember 2002 að uppfylltum útborgunarskilmálum. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. lánssamningsins skyldi lántaki senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara þar sem tiltekinn væri sá reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á, á því formi sem fylgdi sem viðauki 1 við samninginn. Andstætt því sem átti við um lánssamninginn 23. september 2005 kvað málsgreinin einnig á um að fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðaðist þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Einnig sagði í málsgreininni að lánið yrði eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum, samkvæmt heimildum í 3. og 3. mgr. samningsins. Í 1. gr. samningsins kom fram að lántaki hygðist nýta lánið til að endurfjármagna skammtímalán hjá lánveitanda og til endurbóta á tilteknu fiskiskipi sínu.

Skuldbindingu stefnanda um endurgreiðslu er að finna í 2. grein samningsins en þar segir: „Lántaki skuldbindur sig til þess að endurgreiða lánið með 16 jöfnum afborgunum á 6 mánaða fresti í fyrsta sinn  þann 20 júlí 2003.“ Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. lánssamningsins bar stefnanda að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af.

Um vexti var fjallað í 3. gr. samningsins. Þar kom fram í a-lið 1. mgr. að lánshlutar í öðrum myntum en evrum skyldu bera vexti sem væru sex mánaða LIBOR-vextir, eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu tilteknu vaxtaálagi. Kæmi viðkomandi gjaldmiðill ekki almennt fram í vaxtatöflu skyldu vextir taka mið af öðrum vöxtum á millibankamarkaði eða gjaldmiðlaskiptamarkaði sem lánveitandi gæfi upp. Lánshluti í evrum skyldi bera sex mánaða EURIBOR-vexti með tilteknu álagi, sbr. b-lið málsgreinarinnar. Í c- og d-lið málsgreinarinnar var fjallað um dráttarvexti og vaxtaálag vegna vanefnda. Kom fram í síðargreinda liðnum að vanefndi lántaki samninginn væri lánveitanda heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi og heimta dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Í 4. gr. samningsins var kveðið á um heimild lántaka til myntbreytingar „þannig að eftirstöðvar lánsins miðist við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri frá og með upphafi næsta vaxtatímabils“. Um framkvæmd þessarar breytingar á viðmiðunarmynt eða reikningseiningu segir í sama ákvæði að miða skuli við „ sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt er að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skal miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni“.

Stefnandi sendi lánveitanda beiðni um útborgun 28. október 2002 og óskaði þess að jafnir lánshlutar í bandaríkjadölum og svissneskum frönkum yrðu lagðir inn á nánar tilgreinda gjaldeyrisreikninga hans. Er ekki um það deilt að fjárhæðirnar voru í framhaldinu afgreiddar af hálfu bankans til stefnanda. Ekki er heldur ágreiningur um að stefnandi greiddi vaxtaafborganir sínar í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstóð af.

Þann 15. júlí 2004 var gerð skilmálabreyting á láninu þar sem endurgreiðsluskilmálum þess var breytt. Þar er láninu lýst og tiltekið að eftirstöðvar lánssamningsins séu 172.925.482 krónur. Jafnframt kemur fram að lánið sé í skilum. Þá er kveðið á um breytingu á gjalddögum bréfsins þannig að eftirstöðvar bréfsins skuli greiðast með 40 afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 20. júlí 2004.

Sem fyrr greinir var téður lánssamningur framseldur stefnda 31. júlí 2008 og þá einungis tiltekið að upphafleg fjárhæð samningsins hefði verið 220 milljónir króna.

Lánssamningar 20. maí 2003 og 25. maí 2007 (dómkröfur 3 – 4)

Lánssamningurinn 20. maí 2003 var „um lán til 12 ára að fjárhæð jafnvirði: ISK 200.000.000,- -tvöhundruð milljónir 00/100-“. Að frátaldri fjárhæð og gjalddögum voru ákvæði lánssamningsins sambærileg því sem greinir um fyrrgreindan lánssamning 28. október 2005. Með útfylltri greiðslubeiðni 20. maí 2003 óskaði stefnandi eftir því að lánið yrði greitt út í svissneskum frönkum og er ekki um það deilt að sú fjárhæð var afgreidd á nánar tiltekinn gjaldeyrisreikning stefnanda. Láninu var skilmálabreytt 15. júlí 2004 og síðar framselt stefnda með sambærilegum hætti og fyrrgreindu láni. Ekki er ágreiningur um að stefnandi greiddi af láninu í þeirri mynt sem það samanstóð af.

Lánssamningurinn 25. maí 2007var  „um lán til 15 ára að fjárhæð jafnvirði: ISK 1.300.000.000,- -einnmilljarðurogþrjúhundruð milljónir 00/100 íslenskar krónur-“. Að frátaldri fjárhæð og gjalddögum voru ákvæði lánssamningsins sambærileg því sem greinir um fyrrgreindan lánssamning 28. október 2005. Með tölvupósti 4. júní 2007 óskaði stefnandi eftir því að lánið yrði greitt út í svissneskum frönkum, evrum, sterlingspundum og japönskum jenum í nánar tilgreindum hlutföllum og er ekki um það deilt að þær fjárhæðir voru afgreiddar á nánar tiltekna gjaldeyrisreikninga stefnanda. Lánið var framselt stefnda með sambærilegum hætti og fyrrgreint lán. Ekki er ágreiningur um að stefnandi greiddi af láninu í þeirri mynt sem það samanstóð af.        

Lánssamningar 9. nóvember 2001 og 20. nóvember 2003 (dómkröfur 5 – 7)

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu eru þessir lánssamningar á sambærilegu formi og lánssamningar þeir sem áður hefur verið gerð grein fyrir með þeirri breytingu að lánsfjárhæðin er tilgreind í tilteknum erlendum myntum skv. 1. gr. samningsins. Í samningnum 9. nóvember 2001 var þannig tiltekið að um væri að ræða lán til sex ára „að fjárhæð CHF 3.166.000,00 USD 1.447.500,00 JPY 176.387.600,00 og EUR 1.103.300,00‟. Í samningnum 20. nóvember 2003 sagði að lánið væri „að fjárhæð USD 4.183.000,00 EUR 3.954.000,00 CHF 4.785.000,00 GBP 304.000,00 og JPY 307.300.000,00‟.

Ágreiningslaust er að fyrrgreind lán voru í erlendum myntum samkvæmt þessum samningum. Af hálfu stefnanda er hins vegar vísað til þess að 15. júlí 2004 hafi verið gerður viðauki við samningana þar sem skuldbindingum samningsaðila var breytt úr erlendum myntum í íslenskar krónur. Í viðauka vegna fyrrgreinda samningsins segir eftirfarandi: „Eftirstöðvar lánssamningsins 8. júlí eru ISK 397.726.960. Lánssamningurinn er í skilum nú 8. júlí 2004. Með samkomulagi aðila samningsins er greiðsluskilmálum lánssamningsins nú breytt þannig að núverandi eftirstöðvar bréfsins skulu greiðast með 40 afborgunum á þriggja mánaða fresti í fyrsta sinn þann 20. september 2004. Fyrstu 39 gjalddagana greiðast 1/80 hluti höfuðstólsins í hvert sinn, en lokagreiðslan er 41/80 hluti höfuðstóls. Vaxtagrunnur Libor-vaxta breytist úr 6mán libor, í 3mán libor og greiðast vextir á þriggja mánaða fresti á sömu gjalddögum og afborganir. Að öðru leyti haldast ákvæði lánssamningsins óbreytt.“ Sambærileg ákvæði eru að finna í viðauka vegna síðargreinda lánsins sem dagsettur er sama dag.

Sjöunda dómkrafa stefnanda lýtur að ákvörðun stefnda um að hækka vaxtaálag lánssamningsins 9. nóvember 2001 úr 1,2% í 6,5% frá og með 20. desember 2012  með tilkynningu 20. júní 2012. Í síðustu málsgrein 3. gr. lánssamningsins kemur fram að lánveitanda sé heimilt að breyta vaxtaálagi lánssamningsins einhliða á gjalddaga 20. desember 2002 og síðan á 12 mánaða fresti. Eigi síðar en 30 dögum fyrir gjalddaga skuli lánveitandi tilkynna lántaka um fyrirhugað vaxtaálag og sé lántaka þá heimilt að greiða lánið upp á endurskoðunardegi vaxta án sérstakrar uppgreiðsluþóknunar, enda geri hann lánveitanda grein fyrir þeirri fyrirætlan með einnar viku fyrirvara. Í lánssamningi aðila eru hins vegar engin ákvæði um heimild lánveitanda til framsals á samningnum eða til að setja annan aðila í sinn stað varðandi einstök réttindi og skyldur skv. samningnum. 

Með bréfi 20. júní 2012 tilkynnti stefndi að hann hygðist nýta umrædda heimild til þess að hækka vaxtaálag lánsins einhliða úr 1,2% í 6,5% frá og með næsta gjalddaga þess, 20. desember 2012. Stefnandi mótmælti boðaðri vaxtahækkun stefnda og sendi m.a. formlegt bréf þess efnis 5. desember 2012, þar sem sjónarmið stefnanda varðandi hina ólögmætu hækkun vaxtaálagsins voru reifuð og áskilinn réttur til bóta úr hendi stefnda drægi hann boðaða vaxtahækkun ekki til baka. Stefndi svaraði stefnanda með bréfi dags. 13. desember 2012 sem ekki er ástæða til að reifa sérstaklega.

Í stefnu og greinargerð eru raktir ýmsar dómar Hæstaréttar Íslands í svokölluðum gengistryggingarmálum sem ekki þykir ástæða til að reifa undir lýsingu málsatvika. Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að samningar þeir sem undir dómkröfur hans falla hafi allir að geyma ákvæði um gengistryggingu á lánum í íslenskum krónum og ákvæði þeirra fari því gegn 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af tveimur meginástæðum. Annars vegar að lánssamningar sem vísað er til í dómkröfum 1-4 hafi verið um lán í íslenskum krónum og með skilmálum þess efnis að höfuðstóll lánsins tæki mið af þeim erlendu myntum sem stefnandi kysi að tengja hann við og féllu innan þeirra valmöguleika sem lánveitandi bauð upp á við veitingu slíkra lána. Hins vegar, að því er varðar þau lán sem vísað er til í dómkröfum 5-6, að með skilmálabreytingum sem gerðar voru 24. júlí 2004 hafi þeim verið markaður nýr höfuðstóll í íslenskum krónum. Við þá skilmálabreytingu hafi höfuðstólum lána, sem upphaflega voru erlend lán, verið breytt þannig að þau voru framvegis með höfuðstól í íslenskum krónum, sem var gengistryggður miðað við þær myntir sem stefndi bauð upp á og stefnandi kaus. Í stefnu er í þessu sambandi gerð grein fyrir dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, dómum 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010, dómi 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og dómi 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.

Um stefnukröfu 1

Stefnandi vísar til þess að hann hafi greitt lánið að fullu upp í samræmi við kröfu stefnda 23. september 2005. Stefnandi eigi því rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnanda fyrir því sem ofgreitt var í samræmi við áskilnað sinn þess efnis við greiðslu sem og 18. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggir á því að lánssamningurinn hafi verið um lán í íslenskum krónum sem með ólögmætum hætti var tengt við gengi erlendra mynta. Þá sé staðfest i framsali lánssamningsins til stefnda að um sé að ræða lánssamning í íslenskum krónum. Stefnandi vísar til framsetningar samningsins sem áður greinir og leggur áherslu á að í 1. og 2. gr. samningsins sé ekki minnst á neina aðra mynt en íslenskar krónur. Hins vegar virðist gengið út frá því að við útgreiðslu lánsins velji stefnandi við hvaða myntir hann vilji miða lánið eins og það sé skýrlega orðað í 4. gr. samningsins. Stefnandi hafi síðan getað valið aðrar viðmiðunarmyntir við hvern vaxtagjalddaga lánsins. Stefnandi telur einnig að d-liður 3. gr. samningsins um að lánveitanda sé heimilt að „umreikna lánið‟ í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi verði ekki skilið öðruvísi en sem staðfesting á því að lánið sé í grunninn í íslenskum krónum.

Við mat á því hvort um lán í íslenskum krónum hafi verið að ræða telur stefnandi að líta megi til forsendna Hæstaréttar 17. janúar 2013 í málinu nr. 386/2012 þar sem vísað sé til þess að eina fjárhæð lánssamnings hafi verið í íslenskum krónum og því hafi engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli.

Stefnandi byggir einnig á því að með greiðslu á áföllnum vöxtum, fyrst þann 20. desember 2005 í samræmi við ákvæði lánssamningsins og skilmálabreytingu dags. 18. september 2008, og síðan þann 3. september 2010 í samráði við stefnda, hafi stefnandi að fullu greitt áfallna samningsvexti af skuldinni til og með 3. september 2010. Byggir stefnandi á því að stefndi eigi ekki frekari kröfur á hendur sér um greiðslu vaxta fyrir þann tíma sem samningsvextir hafi verið greiddir í samræmi við kröfu stefnda, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og nr. 464/2012, enda séu fyrir hendi sömu aðstæður í tilviki stefnanda og áttu við í tilviki skuldara ólögmætra gengistryggðra lána í þessum málum. Samkvæmt þessu sundurliðar stefnandi kröfu sína með eftirfarandi hætti:

 

Höfuðstóll láns........................................................................................................ kr.                471.233.700

Vextir skv. 4. gr. vl. frá 3.9.2010 – 24.1.2012................................................... kr.                   37.461.247

Greitt þann 24.1.2012............................................................................................ kr.             1.302.170.413

Samtals ofgreitt þann 24.1.2012......................................................................... kr.                793.475.365

 

Til vara byggir stefnandi á því að stefndi eigi ekki kröfu um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. september 2009 til uppgjörsdags, þó þannig að greiðsla stefnanda 3. október 2010 er þá reiknuð yfir í íslenskar krónur samkvæmt útreikningi sem ekki sætir ágreiningi og dregin frá skuldinni:

 

Höfuðstóll láns........................................................................................................ kr.                471.233.700

Vextir skv. 4. gr. vl. frá 26.9.2009  – 24.1.2012................................................ kr.                   79.193.277

Innborgun þann 3.9.2010..................................................................................... kr.                 -35.417.678

Vextir á innborgun.................................................................................................. kr.                    -2.810.578

Greitt þann 24.1.2012............................................................................................ kr.            -1.302.170.413

Samtals ofgreitt þann 24.1.2012......................................................................... kr.                789.971.604

 

Til  frekari vara undir þessum lið byggir stefnandi á þeirri forsendu að talið verði að honum sé óheimilt að bera fyrir fullnaðarkvittanir vegna vaxtagreiðslna og vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 reiknist því frá upphafi sem hér segir:

 

Höfuðstóll láns........................................................................................................ kr.                471.233.700

Vextir skv. 4. gr. vxl. frá 26.9.2005  – 24.1.2012............................................. kr.                442.068.775

Samtals innborganir frá des. 2005...................................................................... kr.               -170.312.306

Staða skuldar þann  24.1.2012............................................................................ kr.                742.990.169

Greitt þann 24.1.2012............................................................................................ kr.            -1.302.170.413

Samtals ofgreitt þann 24.1.2012......................................................................... kr.                559.180.224

 

 

Til enn frekari vara byggir stefnandi undir þessum lið endurgreiðslukröfu sína á því að verði ekki fallist á að um ólögmætt gengistryggt lán hafi verið að ræða, heldur gilt erlent lán, hafi stefnda verið óheimilt að krefja hann um dráttarvexti af skuldinni þann 24. janúar 2012, enda hafi hann veitt greiðslufrest á skuldinni, með samningsvöxtum, á meðan aðilar leituðu niðurstöðu um fjárhæðir og endurgreiðslu á skuldum stefnanda við stefnda. Til stuðnings því vísar stefnandi til samskipta aðila sem og yfirlýsingar stefnda í bréfi 11. janúar 2012 þess efnis að hann áskilji sér rétt til gjaldfellingar á skuldinni verði hún ekki greidd, en í þeirri yfirlýsingu felst viðurkenning á því að stefnandi naut á þeim tíma greiðslufrests og skuldin ekki komin á gjalddaga. Hann vísar til fyrrgreinds tölvupósts 28. desember 2009, þar sem stefnandi hafi óskað eftir því við stefnda að fá að inna af hendi áfallna vexti af láninu, og einnig beiðni hans um hið sama 2. september 2010, og greiðslu í kjölfarið af því. Hann vísar einnig til tölvupóstsamskipta aðila 19. október 2010, sem og 15. apríl 2011, og telur að ráða  megi af öllum þessum samskiptum að stefnandi hafi notið greiðslufrests meðan lánamál stefnanda voru til umræðu og úrlausnar. Það hafi fyrst verið með bréfi stefnda 11. janúar 2012 sem lánið hafi verið gjaldfellt þegar ljóst var að samkomulag tækist ekki. Þá fyrst hafi verið gerð krafa um dráttarvexti.

Stefnandi vísar til ákvæða 3. gr. lánssamningsins um vanskilaálag og byggir á því að hann hafi ekki verið í vanefnd með skuldina þann 24. janúar 2012 þegar hún var gerð upp.  Stefnandi telur einnig að stefnda hafi borið að tilkynna honum um það sérstaklega ef hann taldi skilyrði til að leggja vanskilaálag á skuldina enda um verulega vaxtahækkun að ræða. Stefnda hafi verið sérstaklega brýnt að halda slíkum rétti fram þegar uppgjör á samningsvöxtum fór fram þann 3. september 2010. Slík tilkynning eða að minnsta kosti skýr áskilnaður um vanskilavexti, sé að mati stefnanda forsenda þess að stefndi geti talist hafa átt rétt eða viðhaldið rétti til vanskilavaxtaálags á meðan stefnandi naut greiðslufrests. 

Að því er varðar fjárhæð kröfu stefnanda samkvæmt þessum síðastgreindu forsendum er vísað til útreikninga stefnanda þess efnis að ofgreiðsla á dráttarvöxtum hafi numið 142.161.645 krónum hinn 24. janúar 2012. Sé miðað við að stefndi eigi rétt til dráttarvaxta eftir 3. september 2010 nemi fjárhæðin 50.579.308 krónum. Með hliðsjón af því að þessum fjárhæðum er ekki tölulega mótmælt af stefnda er ekki ástæða til þess að gera nánari grein fyrir útreikningum hans.

Stefnandi byggir á því að krafa hans um endurgreiðslu beri dráttarvexti frá greiðsludegi enda hafi verið greitt með skýrum áskilnaði um endurgreiðslu. Stefndi hafi kosið að ofkrefja stefnanda um greiðslur þrátt fyrir andmæli hans, með hótunum um gjaldfellingu að öðrum kosti. Stefndi eigi að bera áhættuna og ábyrgð á því að ýtrustu kröfur hans um vexti og gengistryggingu standist að lögum. Byggir stefnandi á því að endurkrafa hans hafi gjaldfallið á greiðsludegi, enda þá þegar gerð krafa um endurgreiðslu. 

Um stefnukröfur 2-4

Stefnandi byggir á því að þeir lánssamningar sem vísað er til í þessum kröfuliðum hafi verið um lán í íslenskum krónum sem með ólögmætum hætti var tengt við gengi erlendra mynta. Þá sé staðfest í framsali lánssamninganna til stefnda að um sé að ræða lánssamning í íslenskum krónum. Líkt og um fyrstu stefnukröfu sína leggur stefnandi áherslu á að lánssamningarnir hafi einungis að geyma tilvísun til íslenskra króna. Þá vísar stefnandi til 3. mgr. 1. gr. samninganna þar sem kveðið sé á um það að stefnandi geti við útgreiðslu lánsins valið við hvaða myntir hann vilji tengja lánið eða einstaka lánshluta ef hann kýs að tengja lánið við fleiri myntir. Segi að fjárhæð hvers gjaldmiðils sem stefnandi kýs að tengja lánið við ákveðist tveimur virkum dögum fyrir útgreiðslu þess en „[l]ánið verður þá eftirleiðis tilgreint sem fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum, skv. heimild í 3. og 4. gr. samningsins“. Þannig sé með beinum hætti í samningi aðila kveðið á um það að lánið skuli gengistryggt með því að breyta tilgreiningu á fjárhæð þess úr hinni íslensku fjárhæð yfir í erlendar myntir og hvernig það geti síðan tekið frekari breytingum milli mynta skv. reglum 3. og 4. gr. samningsins. Stefnandi telur einnig að fyrrgreind skilmálabreyting lánanna hafi staðfest að um var að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónum. Öllum vafa um að lánið hafi upphaflega verið í íslenskum krónum hafi verið eytt við skilmálabreytingu, en með þeirri skilmálabreytingunni hafi láninu verið markaður nýr höfuðstóll sem var í íslenskum krónum. Að öðru leyti er vísað til sömu lagasjónarmiða og áður greinir um fyrstu kröfu stefnanda.

Um stefnukröfur 5-7.

Sem fyrr greinir er ekki ágreiningur um það að þau lán sem vísað er til í þessum stefnukröfum voru upphaflega lán í erlendri mynt. Stefnandi byggir hins vegar á því að með þeim viðaukum sem gerðir voru 15. júlí 2004, og samdir voru einhliða af lánveitanda, hafi endurgreiðsluskuldbindingu stefnanda verið breytt frá því sem hún var við gerð lánssamningsins. Frá gerð viðaukans hafi skuldbinding stefnanda og loforð um endurgreiðslu verið í íslenskum krónum. Orðalag í viðaukanum styðji það einnig að lánið hafi farið úr því að vera með ferns konar mismunandi höfuðstól, yfir í það að vera með einn höfuðstól í íslenskum krónum, enda segi að stefnandi skuli greiða ákveðinn hluta „höfuðstólsins“ og lokagreiðslan sé ákveðinn hluti „höfuðstóls“. Stefnandi hafi svo getað valið um það að miða „eftirstöðvar lánsins við aðra erlenda mynt eða reikningseiningu, eina eða fleiri“ sbr. 4. gr. samningsins og þannig gengistryggt eftirstöðvarnar. Hafi stefnandi gert það, enda lánveitandi boðið á þeim tíma lægri nafnvexti ef lántakandi myndi gangast undir gengistryggingu skuldarinnar. Stefnandi áréttar að skilmálar hafi verið samdir einhliða af lánveitanda og því beri að skýra allan vafa stefnanda í vil, sbr. meginreglur samningaréttar og 36. gr. b. samningalaga nr. 7/1936.

Sjöundu stefnukröfu sína byggir stefnandi á því að hækkun stefnda á vaxtaálagi lánssamningsins hafi verið ólögmæt, enda hafi stefndi ekki notið réttar til einhliða hækkunar á vaxtaálagi skv. 3. grein lánssamningsins. Sú heimild hafi verið bundin við lánveitanda skv. lánssamningnum, þ.e. Íslandsbanka – FBA hf., síðar Glitni banki hf. Stefnandi hafi hins vegar hvorki verið upplýstur um framsal kröfunnar til stefnda né samþykkt það. Um hafi verið að ræða gagnkvæman samning og hafi bankinn ekki haft heimild til að framselja umrædda heimild eða setja stefnda í sinn stað að þessu leyti. Umrædd heimild hafi verið mjög sérstök og tekið tillit til þeirrar aðstöðu bankans að vaxtakostnaður hans gæti verið misjafn og því væri sanngjarnt að bankinn gæti endurskoðað samningsvexti í því skyni að verða ekki fyrir tapi. Ljóst sé að stefnandi hefði ekki lagt þessa heimild í hendur hverjum sem er heldur hafi búið þarna að baki traust stefnanda til viðskiptabanka síns. Stefnandi vísar til þess að viðskiptabankar endurskoði vexti með almennum hætti samkvæmt hlutlægum mælikvarða og séu bundnir af reglum í lögum, þ. á m. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálastofnanir, starfsleyfi og lúti opinberu eftirliti. Því hafi verið um að ræða sérstakt og persónubundið samband stefnanda og bankans. Stefndi eigi hins vegar ekkert skylt við viðskiptabanka og lúti allt öðrum reglum. Samkvæmt öllu framangreindu telur stefnandi að heimild lánveitanda samkvæmt téðri 3. gr. lánssamningsins til að hækka einhliða vexti hafi verið bundin við upprunalegan lánveitanda og því óframseljanleg. Stefnda hafi því verið óheimilt að beita umræddri heimild. Stefnandi vísar einnig til þess að þeir vextir sem hann hafi notið samkvæmt samningnum hafi verið hagstæðir og hafi hækkun stefnda verið veruleg. Hann hafi neyðst til þess að taka annað og óhagstæðara lán til þess að greiða upp kröfu stefnda og orðið fyrir tjóni af þeim sökum.

Verði talið að stefndi hafi haft heimild til að taka ákvörðun um vaxtahækkun byggir stefnandi á því að sú heimild hafi verið bundin við það að mæta hækkun á eigin kostnaði vegna lánveitingarinnar, þ.e. auknum fjármagnskostnaði. Stefndi verði því að sýna fram á hlutlægar ástæður að baki ákvörðun um breytingu á samningi aðila, en geti ekki breytt samningi aðila og hækkað vaxtaálag í því skyni einu að hann vilji hærra endurgjald frá stefnanda eða til að knýja hann til annarra samninga. Þar sem stefndi hafi ekki sýnt fram á hlutlægar eða málefnalegar ástæður fyrir hækkun á vaxtaálaginu hafi hækkun þess verið ólögmæt. 

Stefnandi mótmælir öllum sjónarmiðum stefnda um að 2. gr. laga nr. 38/2001 eigi við í málinu þannig að heimilt hafi verið að binda lán stefnanda gengistryggingu.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að með undirritun sinni á alla framangreinda lánssamninga hafi hann skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum og greiða þau til baka í þeim sömu gjaldmiðlum. Stefnanda beri að efna gerða samninga og virða skuldbindingar sínar. Stefndi byggir þannig á því að skuldbindingar stefnanda, samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum sem vísað er til í fyrstu sex dómkröfum hans, séu að öllu leyti í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Af hálfu stefnanda er á því byggt að allir lánssamningarnir sem og framkvæmd lánveitinganna, þ.e. útgreiðsla lánanna og endurgreiðsla þeirra, beri það með sér að um skuldbindingar í erlendri mynt sé að ræða, en túlka verði atvik heildstætt og horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila. Stefndi mótmælir því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 386/2012 hafi fordæmisgildi í málinu enda hafi atvik þar verið með öðrum hætti.

Um stefnukröfur 1-4

Stefndi vísar til þess að á forsíðu lánssamningsins komi fram að um sé að ræða „lán í erlendum gjaldmiðlum“ og í meginmáli hans segi að um sé að ræða lán í erlendum myntum. Af hálfu stefnda er því mótmælt að tilgreining íslenskra króna í lánssamningnum hafi þau áhrif að lánið teljist ólögmætt gengistryggt lán enda augljóst af heiti lánssamningsins að lána átti erlendar myntir og skuldbindingin í öllum öðrum skjölum, sem verða að teljast tengjast lánssamningnum órjúfanlegum böndum, tilgreind með hinni erlendu mynt. Í þessu samhengi er vísað til þess að skuldbinding stefnanda var tilgreind með hinni erlendu mynt um leið og þess var kostur, þ.e. í kaupnótu lánsins, öllum tilkynningum til stefnanda og viðauka við lánið. Þá er vísað til þess að láninu skyldi ráðstafað til greiðslu skammtímalána félagsins en þessi tilgreindu lán hafi verið í erlendum myntum. Stefnanda hafi borið að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af og framkvæmd endurgreiðslu lánsins farið fram með þeim hætti.

Stefndi hafi ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnda að grunni til byggst á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir voru í raun enda hvorki LIBOR- né EURIBOR-vextir ákvarðaðir á íslenskar krónur. Skuldbinding stefnda hafi því án vafa verið í erlendum myntum. Stefndi vísar að öðru leyti til ákvæða lánssamningsins sem hann telur bera með sér að skuldbinding stefnanda hafi alltaf verið í erlendri mynt og áréttar að aðalskylda lánveitanda samkvæmt lánssamningnum hafi ekki aðeins verið skilgreind sem afhending á erlendum myntum heldur hafi aðalskyldan jafnframt verið efnd með þeim hætti. Einnig hafi stefnandi greitt allar vaxtaafborganir sínar af hinu umþrætta láni í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af og uppfyllt aðalskyldu sína í erlendum myntum í samræmi við ákvæði lánssamningsins. Stefndi hafi hins vegar hafnað því að stefnandi gæti greitt lánið í íslenskum krónum þegar slíku var haldið fram af stefnanda síðar. Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi hafi sjálfur, með tilgreiningu skulda í ársreikningum sínum, viðurkennt að skuldirnar séu í erlendum myntum en ekki íslenskum krónum.

Því er mótmælt að staðfest sé í framsali lánssamningsins til stefnda að um sé að ræða lán í íslenskum krónum. Þá er því mótmælt að í 4. gr. lánssamningsins sé að finna ákvæði um gengistryggingu. Í fyrsta lagi er á það bent að á lánstímanum var framangreindu ákvæði aldrei beitt. Í öðru lagi fái orðalag í þess háttar heimild því ekki breytt hvers eðlis skuldbindingin er og þá megi í þriðja lagi skýrlega ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni, færu fram viðskipti með viðkomandi myntir. Þannig segir orðrétt: „[g]eti lánveitandi ekki útvegað þann gjaldmiðil, sem lántaki kann að vilja nota til myntbreytingar eða útvegun hans hefur í för með sér verulegan kostnað fyrir lánveitanda, er lánveitanda heimilt að nota USD í stað þess gjaldmiðils.“ Ef ætlunin hafi verið að miða íslenska fjárhæð við gengi myntar væri framangreint orðalag óþarft enda ljóst að þá þyrfti ekki að útvega neina mynt. Ákvæði þetta renni þannig enn frekari stoðum undir það að um erlendan lánssamning hafi verið að ræða. Enn fremur mótmælir stefndi því að d-liður 3. gr. í lánssamningnum staðfesti að lánið sé í grunninn í íslenskum krónum svo sem haldið er fram í stefnu. Ákvæðið sýnir þvert á móti að um er að ræða skuldbindingu í erlendum myntum. Að öðrum kosti hefði ekki verið þörf á að hafa ákvæði þetta inni.

Fallist dómurinn ekki á sýknukröfu stefnda er í öðru lagi á því byggt að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum hafi a.m.k. verið í erlendum myntum frá og með 18. september 2008 þegar aðilar undirrituðu viðauka við lánssamninginn. Í viðaukanum hafi lánsfjárhæðin einungis verið tilgreind með þeim erlendu myntum sem hún samanstóð af. Þegar svo háttar sé ágreiningslaust að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða. Fari svo að dómurinn fallist á kröfu stefnanda að um sé að ræða lán í íslenskum krónum sem með ólögmætum hætti hafi verið gengistryggt er kröfu stefnanda allt að einu mótmælt.

Í fyrsta lagi er á því byggt að lánið hafi frá upphafi átt að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 og stefndi eigi þannig tilkall til vangreiddra vaxta úr hendi stefnda. Meint krafa stefnanda sé því miklum mun lægri. Verði ekki á þetta fallist er vísað til þess að samkvæmt viðauka hafi endanlegur gjalddagi lánsins átt að vera 26. september 2009 og eigi lánið því að bera dráttarvexti frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgana stefnanda. Af hálfu stefnda hafi aldrei verið veittur greiðslufrestur af láninu. Samkvæmt þessu nemi krafa stefnanda í mesta lagi 707.381.493 krónum. Í öllu falli er því mótmælt að stefnda hafi ekki verið heimilt að krefja hann um dráttarvexti af skuldinni þann 24. janúar 2012. Um það vísar stefndi sem fyrr til þess að lánið hafi gjaldfallið hinn 26. september 2009 og aldrei verið veittur greiðslufrestur.

Stefndi vísar til sambærilegra sjónarmiða um túlkun þeirra samninga sem hér er um að ræða og áður greinir um fyrstu kröfu stefnanda. Því er harðlega mótmælt að skilmálabreytingin 15. júlí 2004 hafi haft þýðingu um eðli lánanna sem erlendra lána. Tilgangur skilmálabreytingarinnar hafi verið að skjalfesta breytta greiðsluskilmála og lotið að engu leyti að því að myntbreyta láninu eða annarri efnisbreytingu á skuldbindingu stefnanda. Hann hafi eftir sem áður átt að greiða LIBOR-vexti sem eingöngu séu reiknaðir á erlenda gjaldmiðla en ekki íslensku krónuna.

 

Um stefnukröfur 5-7

Því er hafnað af hálfu stefnda að fyrrgreindur viðauki um skilmálabreytingu hafi haft þau áhrif sem stefnandi lýsir enda ekkert í honum sem gefi tilefni til þess. Eina breytingin sem gerð hafi verið á lánssamningunum hafi verið að lækka greiðslubyrði stefnanda og gera honum auðveldara að endurgreiða lánið með lengingu lánstímans. Þá hafi vöxtum lánanna verið breytt, þó þannig að stefnandi átti eftir sem áður að greiða LIBOR-vexti og því augljóst að skuldbinding stefnanda var áfram í erlendum myntum. Hafi svo loks sagt í lok viðaukans að önnur ákvæði viðaukans skyldu haldast óbreytt. Stefndi vísar til þess að ef ætlun hans hefði verið að myntbreyta láni hefði þurft að koma fram ósk um það af hálfu stefnanda í samræmi við ákvæði 4. gr. lánssamningsins. Þá hefði það verið sérstaklega tekið fram í viðaukanum ef ætlun aðila hefði verið að breyta grunnskuldbindingu stefnanda samkvæmt lánssamningunum. Ekki hafi verið um það að ræða. Þá vísar stefndi til þess að ekkert breyttist eftir gerð viðaukans annað en það að reglulegar greiðslur stefnanda urðu lægri. Stefnandi hafi haldið áfram að greiða viðkomandi lán til baka í þeim erlendu myntum sem það samanstóð af og lánin hafi áfram verið skráð í erlendum myntum.

Stefndi byggir sýknukröfu sína vegna sjöundu stefnukröfu á því að hann hafi verið í fullum rétti til að hækka vaxtaálag lánsins samkvæmt 3. gr. lánssamningsins og hækkun hans því að öllu leyti verið lögmæt. Því er þannig mótmælt að heimildin hafi verið bundin við upphaflegan lánveitanda og vísað til orðalags fyrrgreinds ákvæðis. Allar vangaveltur um að heimild til hækkunar sé bundin við hækkun á fjármagnskostnaði lánveitanda o.fl. séu samkvæmt þessu úr lausu lofti gripnar. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar um aðilaskipti að kröfuréttindum sé kröfuhöfum frjálst að framselja réttindi sín nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Engar takmarkanir sé að finna í lánssamningnum á heimild lánveitanda til að framselja kröfuréttindi sín til þriðja aðila. Samkvæmt framsalssamningnum 31. júlí 2008 framselji Glitnir banki hf. stefnda öll réttindi, heiti, hlutdeild og ágóða samkvæmt lánssamningnum. Megi því ljóst vera að bankinn hafi framselt stefnda öll réttindi sín samkvæmt samningnum og hafi framsalið með engum hætti verið takmarkað. Af framangreindum ástæðum megi augljóst vera að ákvæði laga nr. 7/1936 um ógildingu samninga og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki geti ekki á neinn hátt átt við um samningssamband aðila. Þá er þeirri kröfu stefnanda sérstaklega mótmælt að heimild verði bundin við það að mæta hækkun á eigin kostnaði vegna lánveitingarinnar, þ.e. auknum fjármagnskostnaði, ef talið verður að stefndi hafi heimild til að taka ákvörðun um vaxtahækkun.

Fari svo að dómurinn telji skuldbindingar stefnanda samkvæmt framangreindum lánssamningum vera í íslenskum krónum færir stefndi rök að því að honum hafi verið heimilt að gera samning sem þennan samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 þar sem lánssamningarnir hafi sannarlega verið stefnda til hagsbóta. Vísar stefnandi þessu til stuðnings til atvinnustarfsemi stefnanda, þess að tekjur hans séu í erlendri mynt og að hann hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna gengisfalls íslensku krónunnar.

 

Niðurstaða

Við munnlegan flutning málsins var áréttað af hálfu stefnda að hann hefði ekki uppi mótmæli við því að allar framangreindar kröfur stefnanda væru hafðar uppi í sama málinu. Kemur því ekki til sérstakrar skoðunar hvort skilyrðum 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 fyrir kröfusamlagi sé fullnægt. Hins vegar var því hreyft af lögmanni stefnda að ástæða kynni að vera til þess að vísa sjöundu kröfu stefnanda sjálfkrafa frá dómi með vísan til þess að ekki lægi fyrir að stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar.

Eins og áður greinir greiddi stefnandi það lán, sem sjöunda krafa stefnanda lýtur að, að fullu upp áður en kom að þeirri hækkun vaxta sem stefndi hafði tilkynnt 20. júní 2012 að tæki gildi 20. desember þess árs. Samkvæmt þessu kom sú vaxtahækkun, sem téð viðurkenningarkrafa stefnanda lýtur að, aldrei til framkvæmda. Á hitt er að líta að stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnda hafi verið umrædd vaxtahækkun óheimil, en gjalddagi lánsins samkvæmt skilmálabreytingu hafi ekki verið fyrr en 20. september 2014. Ekki er um það deilt að stefnandi tók annað lán á hærri vöxtum til þess að endurfjármagna það lán sem hér um ræðir og hafði jafnframt þegar í stað uppi fyrirvara um kröfu gegn stefnda vegna þess umframkostnaðar sem hlytist af hinu nýja láni. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu telur dómurinn að stefndi hafi nægilega sýnt fram á lögvarða hagsmuni af umræddri kröfugerð sinni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

A

Við úrlausn á því hvort lánssamningur um lán í erlendri mynt feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum ber að líta bæði til forms og efnis samnings í samræmi við þau nánari viðmið sem fram koma í fordæmisrétti, sbr. einkum dóma Hæstaréttar Íslands 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og 15. sama mánaðar í máli nr. 3/2012. Við þær aðstæður að texti lánssamnings tekur ekki af skarið um hvers efnis lánssamningur er að þessu leyti verður hins vegar líta til annarra atvika við samningsgerðina og framkvæmdar samningsins, einkum þess hvernig aðilar efna aðalskyldur sínar, sbr. dóm Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 og dóm réttarins 14. nóvember 2013.

Samkvæmt þessu er í máli þessu fyrst á það að líta að þeir lánssamningar, sem fyrstu fjórar stefnukröfur stefnanda lúta að, eru á forsíðu sinni auðkenndir sem „Lán í erlendum gjaldmiðlum“. Í meginmáli samninganna er enn fremur áréttað að lánin séu í erlendum myntum að „jafnvirði“ ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og kveðið á um heimild lánveitanda til þess að skuldfæra gjaldeyrisreikninga lántaka. Getur þetta orðalag ekki bent til annars en að hér sé um að ræða skuldbindingu í erlendri mynt, en ekki íslenskum krónum. 

Í tilviki allra umræddra lána var gert ráð fyrir því að stefnandi legði fram sérstaka útborgunarbeiðni þar sem hann tilgreindi þá mynt eða hlutföll myntar sem hann óskaði eftir að lánið yrði greitt út í. Liggur enn fremur fyrir að stefnandi fékk í tilviki allra umræddra samninga greiddan gjaldeyri inn á gjaldeyrisreikninga sína og er ekki annað komið fram en að þær greiðslur hafi í öllum tilvikum verið í samræmi við óskir hans sjálfs þar að lútandi. Telur dómurinn fjarstæðukennt að túlka megi gögn um útborgun lánanna með þeim hætti að lánin hafi verið greidd út í íslenskum krónum en breytt í erlendar myntir þegar fjárhæðir voru greiddar út til stefnanda og ráðstafað inn á gjaldeyrisreikninga hans. Þá er fram komið að stefnandi hefur tekjur sínar að meginstefnu í erlendum gjaldeyri og hefur í framkvæmd greitt af umræddum lánum í erlendri mynt. Eru atvik að þessu leyti sambærileg atvikum í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2013 og ólík því sem átti við í þeim dómi réttarins 9. júní 2011 sem áður hefur verið vísað til. Samkvæmt þessu þykir framkvæmd umræddra lánssamninga, eða önnur atvik við samningsgerðina, ekki benda til þess að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum.

Í umræddum lánssamningum var kveðið um LIBOR-vexti, að viðbættu ákveðnu hundraðshlutfalli, að því er varðaði lánshluta í öðrum myntun en EURIBOR-vexti, að viðbættu ákveðnu hundraðshlutfalli, að því er snerti lánshluta í evrum. Þá höfðu samningarnir enn fremur að geyma heimild til myntbreytingar. Hvergi í texta samninganna er vikið að gengistryggingu eða bindingu fjárhæðar í íslenskum krónum við erlenda mynt. Hins vegar er kveðið á um heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna þá á dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Samræmast þessi ákvæði samninganna því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.

Í viðauka 18. september 2008 við lánssamning 23. maí 2005, sem fyrsta krafa stefnanda lýtur að, kemur fram að um sé að ræða lán að jafnvirði 500 milljónir króna, en þar er staða lánsins þó eingöngu tilgreind í erlendum myntum. Í skilmálabreytingum vegna þeirra lána, sem önnur til fjórða krafa stefnanda lýtur að, er staða lánanna hins vegar eingöngu tilgreind í íslenskum krónum. Meginefni síðastgreindu löggerninganna er augljóslega breyting á greiðsluskilmálum lánsins en hvorki myntbreyting, árétting um gengistryggingu eða umbreyting í gengistryggt lán. Getur þetta síðastgreinda atriði því ekki ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Sama á við um lýsingu lánssamninganna í því framsali þeirra frá Glitni banka hf. til stefnda sem áður er gerð grein fyrir.

Samkvæmt framansögðu þykir hvorki orðalag téðra lánssamninga, athafnir samningsaðila við gerð og efndir á aðalskyldum þeirra, né önnur atvik málsins benda til þess að þeir lánssamningar, sem fyrstu fjórar kröfur stefnanda lúta að, hafi í reynd falið í sér lán í íslenskum krónum, hvorki í upphafi né eftir að skilmálum þeirra var síðar breytt. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfum stefnanda í öðrum til fjórða lið kröfugerðar hans.

B

Af tölvupósti starfsmanns Glitnis banka hf. til fjármálastjóra stefnanda 28. desember 2009 verður ráðið að af hálfu bankans hafi þá verið talið rétt að stefnandi greiddi ekki þá vexti sem þegar voru gjaldfallnir vegna lánssamningsins 23. september 2005. Verður ráðið af póstinum, svo og öðrum tölvupóstsamskiptum sem lögð hafa verið fram í málinu, að unnið hafi verið að endurskipulagningu lánamála stefnanda hjá bankanum og talið rétt að fresta afborgun þar til niðurstaða fengist í þeim viðræðum.

                Að mati dómsins verður umræddur tölvupóstur ekki skilinn á aðra leið en þá að Glitnir banki hf. hafi veitt stefnanda frest með tilliti til greiðslu dráttarvaxta og annarra vanefndaúrræða vegna umrædds lánssamnings meðan á viðræðum um heildarlausn á lánamálum stefnanda stæði. Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn ekki nægilega sýnt fram á að umrædd yfirlýsing hafi verið utan marka stöðuumboðs þess starfsmanns bankans sem kom fram fyrir hönd stefnda gagnvart stefnanda. Verður því ekki á það fallist að umrædd yfirlýsing hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnda.

Samkvæmt gögnum málsins dróst að stefnandi og stefndi kæmust að samkomulagi um lánamál stefnanda. Af hálfu stefnda var hins vegar fyrirvaralaust tekið við vaxtagreiðslu vegna lánsins í framhaldi af tölvupósti fjármálastjóra stefnanda 2. september 2010 sem ekki varð túlkaður á aðra leið en þá að stefnanda bæri á þeim tíma engin skylda til greiðslu dráttarvaxta. Gögn um samskipti aðila á árinu 2011 verða ekki skilin á þá leið að breyting hafi orðið á afstöðu stefnda að þessu leyti. Er þá litið til þess að fram til 11. janúar 2012 hafði stefndi ekki uppi kröfu um dráttarvexti eða bar fyrir sig vanefndaúrræði samkvæmt samningnum.

Eins og samskiptum aðila var háttað telur dómurinn að við áðurlýstar aðstæður hafi Glitni banka hf. borið að tilkynna stefnanda um það með sanngjörnum fyrirvara að hann hygðist ljúka greiðslufresti hans og krefjast dráttarvaxta eða beita öðrum vanefndaúrræðum. Er þá bæði litið til meginreglu kröfuréttar um trúnaðarskyldu samningsaðila í gagnkvæmum samningum og stöðu bankans sem fjármálastofnunar samkvæmt lögum nr. 161/2002, sbr. einkum meginreglu 1. mgr. 19. gr. laganna. Sem fyrr segir kom tilkynning þessa efnis hins vegar fyrst fram með ótvíræðum hætti 11. janúar 2012 og var stefnanda þá veittur 14 daga frestur til þess að greiða upp lánið. Liggur jafnframt fyrir að stefnandi greiddi lánið upp innan þess frests.

Samkvæmt öllu framangreindu verður á það fallist með stefnanda að hann hafi greitt dráttarvexti umfram skyldu við uppgreiðslu téðs láns sem ágreiningslaust er að fór fram 23. og 24. janúar 2012. Með vísan til þess að stefnandi gerði þegar frá því tímamarki fyrirvara um fulla endurgreiðslu ofgreidds fjár við umrætt fullnaðaruppgjör verður stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda þetta fé með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, eins og nánar greinir í dómsorði, en stefndi hefur ekki mótmælt tölulegum útreikningi stefnanda að þessu leyti.

C

Í málinu er ágreiningslaust að þeir lánssamningar, sem fimmta og sjötta krafa stefnanda lúta að, fólu í upphafi í sér lán í erlendri mynt. Af hálfu stefnanda er hins vegar á því byggt að með skilmálabreytingu téðra samninga hafi þeim verið breytt í lánssamninga í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu.

Í téðum löggerningum er staða lánanna tilgreind í íslenskum krónum. Meginefni löggerninganna er þó breyting á gjalddögum lánanna og tilteknum greiðslukjörum en hvorki myntbreyting né önnur umbreyting á gjaldmiðli þeirra. Engin önnur atvik við gerð umræddra löggerninga eða framkvæmd lánssamninganna benda til þess að samningunum hafi verið breytt í gengistryggt lán í íslenskum krónum í umrætt sinn. Verður málsástæðum stefnanda á þessa leið því hafnað og stefnandi sýknaður af fimmtu og sjöttu kröfu stefnanda.

D

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar var Glitni banka hf. almennt heimilt að framselja kröfuréttindi sín samkvæmt lánssamningum 9. nóvember 2001. Verður og að skilja framsal Glitnis banka hf. til stefnda 31. júlí 2008 þannig að um hafi verið að ræða ótakmarkað framsal og hafi því hvers kyns réttindi samkvæmt samningnum verið framseld, þar á meðal tryggingarréttindi og heimildir til fullnustu, sbr. lokaorð 2. gr. framsalsins. Verður umræddur löggerningur þannig ekki túlkaður á aðra leið en þá að meðal annars hafi verið framseld heimild lánveitanda til þess einhliða að hækka samningsvexti samkvæmt þeim ákvæðum 3. gr. lánssamningsins sem áður greinir.

Af hálfu stefnanda hefur ekki verið rökstutt að framsal umræddrar heimildar hafi verið andstætt ófrávíkjanlegum fyrirmælum í settum lögum, en ekkert í lánssamningnum sjálfum fól í sér takmarkanir á slíkum aðilaskiptum. Dómurinn lítur til þess að hér var um að ræða lánssamning sem fól í sér skyldu lántaka til greiðslu peninga með nánar ákveðnum skilmálum. Eins og eðli samningsins var háttað gat stefndi ekki haft réttmætar væntingar til þess að samningurinn yrði ekki framseldur þriðja aðila. Geta skyldur Glitnis banka hf. sem fjármálastofnunar samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002, svo og öðrum fyrirmælum þeirrar laga, ekki haggað þeirri niðurstöðu.

Á það verður fallist með stefnanda að eftir framsal lánssamningsins hafi honum, eftir sem áður, verið heimilt að hafa uppi sömu mótbárur og hann hefði getað borið fyrir sig gagnvart Glitni banka hf. Hins vegar hafa ekki verið færð fyrir því haldbær rök að Glitni banka hf. hefði verið óheimilt að breyta samningsvöxtum með þeim hætti sem stefndi ákvað með tilkynningu sinni 20. júní 2012. Er því hafnað málsástæðum stefnanda þess efnis að lánveitanda samkvæmt umræddum samningi hafi einungis verið heimilt að hækka vexti að því marki sem hann gat sýnt fram á að slík hækkun leiddi af auknum fjármagnskostnaði hans sjálfs enda fær slík niðurstaða hvorki stoð í texta samningsins né réttarheimildum sem hér eiga við. Verður stefnandi því sýknaður af sjöundu kröfu stefnanda.

Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 142.161.645 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. janúar 2012 til greiðsludags. Að öðru leyti verður stefndi hins vegar sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Aðalsteinn Jónasson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Haf Funding 2008-1 Limited, greiði stefnanda, Þorbirni hf., 142.161.645 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. janúar 2012 til greiðsludags.

Að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.