Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 12. maí 2011. |
|
Nr. 230/2011. |
M (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) gegn K (Kristján B. Thorlacius hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K um að M yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli vegna ágreinings um fjárslit milli þeirra. Taldi K að málssókn M væri tilefnislaus og M væri ófær um að greiða málskostnað. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekki hefðu verið lögð fram gögn í málinu sem talin yrðu leiða að því nægar líkur að M væri ófær um greiðslu málskostnaðar þannig að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var kröfu K því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. apríl 2011, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Malsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Ekki hafa verið lögð fram í málinu gögn sem talin verða leiða að því nægar líkur að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar þannig að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Verður kröfu varnaraðila því hafnað.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, K, um að sóknaraðila, M, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á hendur varnaraðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. apríl 2011.
Í málinu er af hálfu varnaraðila, K, gerð sú krafa að sóknaraðili, M, setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Sóknaraðili krefst þess að þessari kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.
I.
Með bréfi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 12. ágúst 2010, fór sóknaraðili fram á opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og krafðist þess að sóknaraðili legði fram skiptatryggingu með vísan til 101. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Með úrskurði dómsins 29. október 2010, í máli nr. D-27/2010, var sóknaraðila gert að leggja fram skiptatryggingu að fjárhæð 250.000 krónur innan sólarhrings. Við uppkvaðningu úrskurðarins upplýsti lögmaður sóknaraðila að hann myndi þegar í stað reiða af hendi skiptatrygginguna og í framhaldi þess var úrskurðað að opinber skipti til fjárslita skyldu fara fram milli málsaðila. Stefán Bj. Gunnlaugsson hrl. var skipaður skiptastjóri búsins.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins, dags. 9. febrúar 2011, kemur fram að þrír formlegir fundir hafi verið haldnir í búinu, auk nokkurra óformlegra funda. Aðilar hafi sjálfir aflað gagna að mestu en með aðilum hafi verið ágreiningur, einkum hvað varðar eignamyndun í fasteigninni að [...] í [...] og aðra eignamyndun á sambúðartímanum. Skiptastjóri hafi reynt að leita sátta en án árangurs. Með vísan til 112. gr., sbr. 122. gr., laga nr. 20/1991 var þess krafist að dómurinn tæki til meðferðar og skæri úr ágreiningi málsaðila um fjárslit milli þeirra.
Við þingfestingu málsins um ágreining aðila, hinn 28. febrúar 2011, var bókað eftir lögmanni varnaraðila að gerð væri krafa þess efnis að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Af hálfu sóknaraðila var kröfunni mótmælt. Var málið tekið til úrskurðar um þennan ágreining aðila 15. mars 2011, en áður reifuðu lögmenn sjónarmið þeirra um hann.
II.
Til stuðnings framangreindri kröfu sinni vísar varnaraðili einkum til þess að málssókn sóknaraðila sé tilefnislaus og hann sé ófær um að greiða málskostnað, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili sé eignalaus og bendir á að honum hafi verið gert að leggja fram skiptatryggingu. Þá kveður varnaraðili að ekki liggi fyrir upplýsingar um það hvort sóknaraðili hafi tekjur.
III.
Sóknaraðili mótmælir því að honum verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu enda hafi hann lagt fram skiptatryggingu og eigi hún að duga til þess að greiða málskostnað vegna ágreinings aðila sem vísað hefur verið til dómsins. Þá eigi sameiginlegt bú aðila að standa undir málskostnaði. Telur sóknaraðili það óverjandi að hann geti ekki fengið leyst úr máli sínu fyrir dómi.
Jafnframt byggir sóknaraðili á því að ekki sé unnt að fallast á kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu þar sem varnaraðili hafi ekki tilgreint fjárhæð kröfunnar við þingfestingu málsins og dómari geti ekki metið hana. Enn fremur bendir sóknaraðili á að ekki liggi fyrir árangurslaust fjárnám hjá honum eða óreiða í fjármálum. Sóknaraðili hafi tekjur og sé skuldlaus. Telur sóknaraðili skilyrði b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 því ekki uppfyllt.
IV.
Samkvæmt 2. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ákveður dómari hvort sóknaraðila verður gert að setja málskostnaðartryggingu og þá hverrar fjárhæðar. Verður því að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki sé unnt að fallast á kröfu varnaraðila vegna þess að ekki sé gerð krafa um tryggingu að tiltekinni fjárhæð.
Eins og rakið hefur verið var sóknaraðili úrskurðaður til að greiða 250.000 krónur í skiptatryggingu samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili undi úrskurðinum og lagði fram trygginguna. Af þessu verður að ekki annað ályktað en að sóknaraðili hafi ekki getað borið ábyrgð á skiptakostnaði nema með því að leggja fram sérstaka tryggingu. Verður því að telja að líkur hafi verið leiddar að því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu, en trygging sú sem sóknaraðili lagði fram fyrir skiptakostnaði í máli nr. D-27/2010 getur ekki náð til málskostnaðar hér. Með þessu er fullnægt lagaskilyrðum samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 og er fallist á kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur. Ber sóknaraðila að setja hana á þann hátt og innan þess frests, sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Sóknaraðila, M, er skylt innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að setja tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 300.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila, K.