Hæstiréttur íslands

Mál nr. 451/2015

A (Oddgeir Einarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.)

Lykilorð

  • Handtaka
  • Leit
  • Miskabætur

Reifun

V krafði Í um miskabætur vegna handtöku og líkamsleitar sem hann sætti í tengslum við rannsókn lögreglu á ætluðu fíkniefnalagabroti hans. Var V sviptur frelsi í rúmar 40 mínútur þegar hann var handtekinn en í málinu deildu aðilar um hvort líkamsleitin hefði farið fram að fengnu samþykki hans. Máli V lauk án þess að ákæra væri gefin út og var það því fellt niður í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Talið var að þó svo að V hefði samþykkt leitina girti það ekki fyrir rétt hans til bóta samkvæmt 2. mgr. 228. laganna, enda hefði hann ella mátt búast við að lögregla færi fram á dómsúrskurð til leitar. Ætti hann rétt á miskabótum vegna líkamsleitarinnar og handtökunnar á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Var Í því gert að greiða V 150.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júlí 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. maí 2014 til 23. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, eigi rétt til bóta eftir 2. mgr. sömu lagagreinar, meðal annars ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. greinarinnar má dæma bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málslið málsgreinarinnar má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ekki eru sett frekari skilyrði fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008. Skiptir þá ekki máli hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða sem haft hafa í för með sér tjón eða ekki hefur verið nægilegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Áfrýjandi var handtekinn klukkan 1.44 hinn 19. maí 2014 og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Í aðdraganda handtökunnar sætti hann líkamsleit en deilt er um það hvort að hún fór fram að fengnu samþykki hans. Hafði áfrýjandi því réttarstöðu sakbornings, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008. Hann var látinn laus klukkan 2.25 sömu nótt og því sviptur frelsi í rúmar 40 mínútur. Ekki var tekin skýrsla af áfrýjanda vegna málsins og rannsókn á hendur honum síðar hætt þar sem ekki þótti grundvöllur til að halda henni áfram. Máli áfrýjanda lauk því án þess að ákæra væri gefin út og var það því fellt niður í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Með líkamsleitinni var brotið gegn friðhelgi áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þó svo að áfrýjandi hefði samþykkt leitina girðir það ekki fyrir rétt hans til bóta samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði, enda hefði hann ella mátt búast við að lögregla færi fram á dómsúrskurð til leitar, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framangreindu á áfrýjandi því rétt á miskabótum vegna líkamsleitarinnar og handtökunnar á grundvelli fyrri málsliðar 2. mgr. 228. gr. laganna. Engin rök standa til þess að lækka bætur til áfrýjanda á þeim grundvelli að hann hafi stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á, sbr. síðari málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu verða miskabætur til handa áfrýjanda ákveðnar 150.000 krónur, sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Eftir úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, A, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2014 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015.

                Mál þetta höfðaði A, [...], [...], með stefnu birtri 16. september 2014 á hendur fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 4. maí sl. 

                Stefnandi krefst greiðslu bóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. maí 2014 til 23. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknar­mál. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður falli niður. 

                Stefnandi krefst í máli þessu bóta samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála, vegna ólögmætra þvingunaraðgerða sem hann segir að lögregla hafi beitt hann. 

                Aðfararnótt mánudagsins 19. maí 2014 stöðvaði lögregla bifreið á Breiðholts­braut í Reykjavík, nálægt gatnamótum við Jafnasel.  Stefnandi var farþegi í bifreiðinni.  Var í byrjun sagt að um væri að ræða hefðbundið umferðareftirlit, en fram kom einnig að bifreiðinni hefði verið ekið gegn rauðu ljósi.  Ökumaður var færður yfir í lögreglubifreið og handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og vímu­efna.  Í stefnu segir að lögreglumennirnir hafi síðan farið niðrandi orðum um stefnanda, kallað hann „alræmdan kókhaus“.  Hafi verið leitað á honum þar á vett­vangi og hann m.a. látinn fara úr buxunum.  Ekkert hafi fundist við leitina. 

                Frumskýrsla lögreglu var skrifuð 2. júní.  Í dagbók lögreglu kemur fram að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið handtekinn kl. 01.27 og þá hafi verið framkvæmd öryggisleit á öllum sem voru í bifreiðinni.  Einn farþeganna, stúlka, hljóp á brott og skipti lögregla sér ekki meira af henni.  Síðan segir að hvít kúla, hvítt efni, hafi fundist í skottinu á bifreiðinni, en allir hafi neitað að eiga þetta efni.  Voru stefnandi og hinn farþeginn sem enn var á vettvangi handteknir kl.01.44 og fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu.  Er bókað að þeim hafi verið sleppt kl. 02.25. 

                Í áðurnefndri skýrslu segir að stefnanda hafi verið tilkynnt að hann væri hand­tekinn vegna gruns um vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna.  Þá hafi honum verið kynnt réttarstaða sín, en að hann óskaði ekki aðstoðar lögmanns að svo stöddu.  Í stefnu segir að vísu að stefnandi hafi óskað eftir því að honum yrði tilnefndur verjandi, en að ekki hafi verið orðið við því.  Fleiri atriði eru ekki skráð sem skipta máli varðandi þessa handtöku stefnanda. 

                Frekari gögn um afdrif máls þessa hjá lögreglu hafa ekki verið lögð fram.  Þó lagði stefnandi fram afrit tölvupósts frá aðalvarðstjóra, þar sem segir að stefnandi hefði ekki verið kærður í málinu og því hafi ekki verið neitt mál til að fella niður. 

                Við aðalmeðferð máls þessa gaf stefnandi ekki aðilaskýrslu og enginn þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðunum kom fyrir dóm.  Skýrslu gaf hins vegar sem vitni B, sem var ökumaður bifreiðarinnar.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvort leitað var á stefnanda á vettvangi.  Inni í lögreglubifreiðinni hafi einn lögreglumaður sagt að þetta væri A, hann væri þekktur kókhaus.  Eftir það hafi öll athygli þeirra beinst að stefnanda og fleiri lögreglubílar verið kallaðir til. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að líkamsleit lögreglu á honum og handtaka hans hafi verið ólögmætar aðgerðir. 

                Stefnandi byggir bótakröfu sína á 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.  Bóta­reglan sé hlutlæg.  Hann hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, en málið hafi verið fellt niður.  Það nægi til að bóta verði krafist.  Þá hafi hann ekki stuðlað sjálfur að þessum aðgerðum lögreglunnar. 

                Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg, byggir stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð vegna sakar starfsmanna hans.  Hér er einnig byggt á 228. gr. laga nr. 88/2008 og einnig vísað til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. 

                Stefnandi bendir á að hann hafi ekki haft réttarstöðu sakbornings þegar leitað hafi verið á honum.  Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið þrjú skil­yrði til líkamsleitar.  Telur stefnandi að ekkert þeirra hafi verið uppfyllt.  Enginn rök­studdur grunur hafi verið um brot eða að hann hefði á sér einhverja muni sem honum væri óheimilt að hafa.  Hann bendir á að hið svokallað hvíta efni hafi ekki fundist fyrr en 18 mínútum eftir að leitað var á honum.  Engin brýn hætta hafi verið á sakar­spjöllum og stefnandi kveðst ekki hafa samþykkt leitina.  Þá hafi hún ekki verið heimiluð með dómsúrskurði.  Skilyrðum laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 71. gr. stjórnar­skrárinnar hafi ekki verið fullnægt.  Enn fremur byggir stefnandi á því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 14. gr. laga nr. 90/1996 og óskráðri meðalhófsreglu á þessu sviði. 

                Stefnandi telur að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 til handtöku hafi ekki verið uppfyllt.  Ekki hafi annað legið fyrir en óskýrgreint hvítt efni í skotti bifreiðar, sem stefnandi hafi verið farþegi í.  Ekki sé upplýst hvaða efni þetta hafi verið eða hversu mikið hafi verið af því.  Hann hafi ekki átt bifreiðina.  Hann hafi fyrir tilviljun þegið far með ökumanni.  Því hafi ekki beinst rökstuddur grunur að honum.  Þá hafi handtakan ekki verið nauðsynleg vegna þeirra atvika sem talin séu í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008.  Ekkert hafi bent til þess að hann hygðist fremja brot eða fara í felur.  Þá sé óljóst hvaða sönnunargögnum hann hefði getað spillt. 

                Stefnandi bendir á að ekki hafi verið útskýrt af hverju aðrir farþegar í bifreiðinni hafi ekki verið handteknir eins og hann.  Þá hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt var og því brotið gegn meðalhófsreglum þeim sem nefndar voru hér að framan. 

                Stefnandi byggir á því að hinar ólögmætu þvingunarráðstafanir hafi verið lögreglumönnunum saknæmar og því sé skilyrðum almennu skaðabótareglunnar full­nægt.  Aðgerðirnar hafi haft alvarleg og meiðandi áhrif á stefnanda.  Þá sé miski sennileg afleiðing af hinni ólögmætu háttsemi. 

                Stefnandi kveðst einnig byggja bótakröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Hér vísar hann til þess sem áður er getið um óþarfar og ólögmætar þvingunaraðgerðir.  Þá vísar hann til þess að hann hafi haft stöðu grunaðs manns mánuðum saman.  Hann hefði komist hjá þeim óþægindum og vanlíðan ef lögregla hefði sinnt þeirri skyldu sinni að tilkynna honum að hann hefði ekki þessa stöðu lengur.  Með drætti á rannsókn telur stefnandi að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. 

                Stefnandi telur að það hafi einkum verið hin ólögmæta frelsisskerðing sem olli honum miska.  Hún hafi staðið í a.m.k. 40 mínútur, en í raun hafi hann ekki verið frjáls í þær 2-3 klukkustundir sem aðgerðir lögreglu stóðu yfir.  Þá hafi lögreglumenn talað illa um hann svo að allir sem voru nálægt heyrðu.  Þá hafi verið leitað á honum utan dyra við fjölfarna götu og hann verið látinn fletta sig klæðum. Hann hafi ekki fengið að hafa samband við fjölskyldu sína og honum hafi verið neitað um aðstoð verjanda.  Þá hafi ekki verið tekin af honum skýrsla.  Allt feli þetta í sér meingerð gegn persónu hans og frelsi og hafi valdið honum miska.  Loks vísar stefnandi til þess að hann hafi engar upplýsingar fengið um að rannsókn á hendur honum hafi verð hætt. 

                Stefnandi segir fjárhæð kröfu sinnar vera hóflega og sanngjarna.  Við mat á fjárhæð hennar verði að líta til þess að gengið hafi verið á grundvallarréttindi hans sem bundin séu í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.  Meðal annars hafi verið brotið gegn rétti hans til að vera ekki sviptur frelsi, sbr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmálans, rétti hans til að fá verjanda og rétt til friðhelgi einka­lífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmálans. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi mótmælir því að lögregla hafi farið niðrandi orðum um stefnanda.  Þá hafi verið staðið eðlilega að leit á honum.  Gætt hafi verið meðalhófs.  Ósannað sé að hann hafi verið látinn fara úr buxum, en hafi það verið gert er byggt á því að það hafi verið lögleg og eðlileg aðgerð og gætt hafi verið meðalhófs.  Sama eigi við um far­síma stefnanda hafi hann verið tekinn af honum. 

                Stefndi segir að stefnandi hafi verið sakaður um fíkniefnalagabrot.  Leitað hafi verið á honum á vettvangi samkvæmt heimild 76. gr. laga nr. 88/2008.  Þá hafi hann verið handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar málsins í 41 mínútu.  Mótmælir stefndi því að aðgerðir lögreglu hafi staðið í 2-3 klukkustundir. 

                Stefndi mótmælir því að stefnanda hafi verið neitað um verjanda.  Fram komi í skýrslu lögreglu að hann hafi ekki óskað eftir verjanda. 

                Stefndi byggir á því að bæði líkamsleitin og handtakan hafi verið lögmætar.  Þá sé 228. gr. laga nr. 88/2008 ekki hlutlæg bótaregla.  Tjón stefnanda sé ósannað.  Þá hafi stefnandi heimilað leit og geti því ekki krafist bóta. 

                Stefndi byggir á því að leit lögreglu að fíkniefnum í bifreiðinni hafi skilað árangri.  Því hafi þurft að rannsaka málið.  Ekki hafi verið nóg að taka skýrslu á vett­vangi eða kalla stefnanda til skýrslugjafar síðar. 

                Stefndi mótmælir því að 26. gr. skaðabótalaga eigi við.  Aðgerðir lögreglu hafi hvorki verið óþarfar né ólögmætar. 

                Stefndi mótmælir því að brotið hafi verið gegn málshraðareglu laga nr. 88/2008.  Fyrir liggi tölvupóstur til lögmanns stefnanda sem dagsettur sé rúmum mánuði eftir atvik málsins.  Þá hafi stefnandi vitað að málinu væri lokið.  Þetta sé ekki óhæfilegur dráttur á máli og brjóti ekki gegn rétti hans til friðhelgi einkalífs. 

                Komi til greina að dæma stefnanda bætur byggir stefndi á því að stefnandi hafi sjálfur valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu með því að fara í ökuferð með öku­manni sem var áberandi ölvaður og undir áhrifum fíkniefna, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. 

                Varakrafa stefnda byggir á sömu málsástæðum til lækkunar bótakröfu stefnanda. 

                Niðurstaða

                Eins og atvikum þessa máls var háttað telur dómurinn að stefnandi hafi ekki verið borinn sökum í sakamáli í skilningi 228. gr. laga nr. 88/2008.  Hann getur hins vegar krafist bóta samkvæmt 3. mgr. 228. gr., vegna þeirra þvingunaraðgerða sem hann mátti þola. 

                Samkvæmt gögnum málsins hóf lögregla afskipti umrætt sinn vegna þess að bifreiðinni hafði verið ekið yfir gatnamót á móti rauðu ljósi.  Beindist athygli lögreglu fyrst og fremst að ökumanni, en stefnandi hafði ekki ekið bifreiðinni.  Svo virðist sem einhverjir lögreglumenn hafi þekkt til stefnanda, en ekki er upplýst hvers vegna þeir veittu honum sérstaka athygli.  Við leit í bifreiðinni fannst hvít kúla, sem ekki er lýst nánar.  Samkvæmt bókun í dagbók lögreglu var stefnandi kallaður aukaaðili máls, en að vinnslu þess á vettvangi komu samtals níu lögreglumenn.  Óbeint verður ráðið af gögnum að lögreglu hafi dottið í hug að hvíta kúlan væri gerð úr fíkniefnum, en frekari gögn um rannsókn á henni hafa ekki verið lögð fram.  Stefnandi byggir ekki á því að þetta efni hafi ekki gefið tilefni til athugunar.  Verður því að miða við að lög­reglu hafi verið rétt og skylt að framkvæma frumrannsókn af þessu tilefni.

                Í skýrslu lögreglu kemur fram að leitað hafi verið á stefnanda og að hann hafi heimilað þessa leit.  Í stefnu er sagt að hann hafi ekki samþykkt leitina.  Stefnandi kom ekki fyrir dóm og verður því að meta ósannaða þá fullyrðingu að leitað hafi verið á honum án heimildar. 

                Stefnandi var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu.  Þessi aðgerð var lögreglu heimil samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, en eins og á stóð voru allir sem voru í bifreiðinni undir rökstuddum grun.  Skiptir engu í þessu sambandi þótt lögreglan hafi látið það óátalið að einn farþeganna flýði af vettvangi. 

                Samkvæmt lögregluskýrslu var stefnanda gerð grein fyrir því er hann var handtekinn að hann ætti rétt á aðstoð lögmanns, en að hann afþakkaði hana að svo stöddu.  Fullyrðing í stefnu um annað dugar ekki til að hnekkja þessari bókun.  Þá er ósannað að honum hafi verið neitað um að láta einhvern vita af sér. 

                Stefnanda var sleppt úr haldi lögreglu rúmlega 40 mínútum eftir að hann var handtekinn.  Var þá liðin um klukkustund frá því að akstur bifreiðarinnar var stöðvaður.  Hefur hér verið gætt meðalhófs um viðbrögð og getur stefnandi ekki krafist bóta samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, vegna þessara aðgerða lögreglu, sem voru lögmætar og ekki framkvæmdar að tilefnislausu. 

                Sannað er með fullyrðingu í stefnu, sem stefndi hefur ekki reynt að hnekkja, og framburði B fyrir dómi, að í samtölum lögreglumanna á vettvangi var stefnandi sagður vera „þekktur kókhaus“.  Þótt ekki sé réttmætt að lögreglumenn temji sér að ræða með þessum hætti um aðila sem þeir hafa afskipti af í starfi, er ekki alveg næg ástæða til að dæma stefnanda bætur vegna þessa.  Stefnandi segir að farsími sinn hafi verið tekinn, en hann gerir ekki kröfur vegna hans. 

                Þegar dæmdar eru bætur samkvæmt 228. gr. skal samkvæmt 5. mgr. bæta fjár­tjón og miska.  Stefnandi byggir auk þess sérstaklega á 26. gr. skaðabótalaga.  Að­gerðir lögreglu voru hins vegar lögmætar umrætt sinn og ekki dróst of lengi að til­kynna að stefnandi væri ekki lengur grunaður.  Var ekki unnin ólögmæt meingerð gegn frelsi eða friði stefnanda Er skilyrðum 26. gr. ekki fullnægt. 

                Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.  Rétt er að málskostnaður falli niður.  Stefnandi hefur gjafsókn og ákveðst þóknun lögmanns hans 500.000 krónur, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

                Málskostnaður fellur niður. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.