Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/1998
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Skip
|
|
Fimmtudaginn 4. febrúar 1999. |
|
Nr. 432/1998. |
Garðar Björgvinsson (sjálfur) gegn Sigfúsi Guðmundssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kaupsamningur. Skip.
G samdi við S um kaup á skipi sem G hafði í smíðum. Greindi G og S á um efni samningsins. Taldi G að skriflegur samningur sinn við S, þar sem kaupverð skipsins var tilgreint, hefði verið málamyndagerningur, enda hefði ekki verið unnt að tilgreina endanlegt verð skipsins á þeim tíma er samningurinn var gerður. Við útgáfu afsals fyrir skipinu krafði G S um 625.000 kr. viðbótargreiðslu á þeirri forsendu að framleiðslukostnaður hefði aukist vegna reglugerðarbreytinga á smíðatíma skipsins. Greiddi S upphæðina með fyrirvara en höfðaði síðar mál til endurgreiðslu hennar, auk þess sem hann krafði G um greiðslu vegna kostnaðar síns við endurbætur sem gerðar voru eftir að skipið var afhent. Talið var að leggja bæri kaupsamning og afsal til grundvallar lögskiptum G og S og var G dæmdur til að greiða S 625.000 kr. Ekki var talið sannað að G hefði tekið á sig að greiða kostnað við endurbæturnar sem fram fóru eftir afhendingu skipsins og var krafa S um endurgreiðslu kostnaðar ekki tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. október 1998 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísun til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að leggja verði kaupsamning málsaðila 20. mars 1995 og afsal 22. mars 1996 fyrir fiskiskipinu Bjarma MB 25 til grundvallar í lögskiptum þeim, sem málið reis af, svo og að áfrýjanda beri að endurgreiða stefnda 625.000 krónur, sem hann greiddi áfrýjanda með fyrirvara, þegar afsalið var gert.
Stefndi krefur áfrýjanda auk þess um greiðslu á 176.373 krónum, sem hann segir vera kostnað sinn við endurbætur, er gerðar hafi verið eftir að skipið var afhent sumarið 1995 í því skyni að bæta stöðugleika þess. Reikningar, sem stefndi lagði fram fyrir kostnaði þessum, bera með sér, að efni til verks þessa hafi verið keypt í október 1995 og verkið unnið í sama mánuði.
Í afsalinu 22. mars 1996 er svofellt ákvæði: „Báturinn hefur þegar verið afhentur kaupanda og hann sætt sig að öllu leyti við ástand bátsins og fylgifé. Báturinn var afhentur með nýju kvaðalausu heilsárs haffærnisskírteini, skuld- og veðbandalaus og með uppgerðar sjó- og lögveðskröfur. Kaupandi uppfyllti skilyrði frá Siglingamála-stofnun ríkisins varðandi stöðugleika bátsins.“ Stefndi ritaði fyrirvaralaust undir afsalið með þessu ákvæði. Hann hefur ekki leitt í ljós, að áfrýjandi hafi tekið á sig að greiða kostnað við ráðstafanir í því skyni að fullnægja nefndum skilyrðum um stöðugleika. Verður því krafa stefnda um greiðslu á 176.373 krónum ekki tekin til greina.
Samkvæmt framangreindu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 625.000 krónur með dráttarvöxtum frá 29. júní 1996, en þá var liðinn mánuður frá því að stefndi krafði áfrýjanda um greiðslu.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Garðar Björgvinsson, greiði stefnda, Sigfúsi Guðmundssyni, 625.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1996 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 23. október 1997.
Ár 1997, fimmtudaginn 23. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands kveðinn upp dómur í málinu E-49/1997: Sigfús Guðmundsson gegn Garðari Björgvinssyni.
Mál þetta, sem var höfðað var með stefnu, útgefinni 5. febrúar 1997 en birtri 7. sama mánaðar. Málið var þingfest 26. febrúar en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 26. september sl.
Mál þetta hefur stefnandi, Sigfús Guðmundsson, kt. 050158-3069, Kjartansgötu 11, Borgarnesi, höfðað á hendur stefnda, Garðari Björgvinssyni, kt. 040534-4079, Heiðmörk 11, Hveragerði „til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 1.472.163,- með dráttarvöxtum skv. 10. gr. laga nr. 25/1987 frá 29. maí 1996 til greiðsludags. Þá er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 29. maí 1997”. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II.
Á árinu 1994, sennilega um mánaðamótin október/nóvember, hóf stefndi, sem er bátasmiður, smíði plastbáts svokallaðs „Viking 700 (nýsmíði 112)”. Síðla árs 1994 gerði stefndi samning við Viðar Valdimarsson og Gunnar Þórarinsson um að selja þeim bátinn að lokinni smíði hans þó með þeim fyrirvara að þeim tækist að fjármagna kaupin. Þá um áramótin var ljóst að ekki yrði af samningum. Í framhaldi af auglýsingu stefnda í Dagblaðinu Vísi tókst samningur milli stefnanda og stefnda um að stefnandi keypti bátinn af stefnda. Aðila greinir á um hvert efni samningsins hafi verið auk þess sem þeir saka hvorn annan um vanefndir á samningnum.
Stefnandi kveðst hafa keypt bátinn af stefnda, með kaupsamningi dagsettum 20. mars 1995. Hafi átt að afhenda bátinn við verksmiðjudyr stefnda þann 19. maí 1995. Umsamið kaupverð hafi verið 6.830.000 og hafi stefnandi greitt kaupverðið með svofelldum hætti:
|
Ávísun pr. 21. mars 1995 |
kr. 1.800.000,- |
|
Greiðsla 22. júní 1995 |
kr. 3.000.000,- |
|
Greitt af Glitni hf. skv. samningi stefnanda og Glitnis |
kr. 1.821.716,- |
|
Lokagreiðsla 5. júlí 1995 |
kr. 208.284,- |
Stefnandi heldur fram að fullnaðarfrágangur vegna smíðinnar hafi dregist en báturinn hafi verið afhentur um miðjan júlí 1995 og hafi afsal ekki verið gefið út fyrr en þann 22. mars 1996. Við afsalsgerðina hafi stefndi krafið stefnanda um kr. 625.000,- til viðbótar við samningsverðið á þeirri forsendu að reglugerðir hafi breyst á smíðatíma bátsins og því hafi kostnaður við smíði hans aukist. Stefnandi kveðst hafa mótmælt þessari kröfu stefnda með þeim rökum sem stefndi hafi byggt innheimtu hennar á, enda hafi ekkert legið fyrir um að nýjar reglugerðir hefðu verið settar eftir kaupsamningsgerð sem hleypa ættu kostnaði upp með þessum hætti. Á þessum tíma hafi stefnandi hins vegar fundið kaupanda að bátnum og hafi það verið honum mikið hagsmunamál að fá gefið út afsal til sín. Því hafi hann greitt stefnda umrædda viðbótarfjárhæð með fyrirvara bókuðum í afsalið um lögmæti þeirrar greiðslu.
Þá kveður stefnandi að auk framangreindrar greiðslu hafi hann sjálfur orðið að bera kr. 176.373,- sem komið hafi til vegna vanefnda stefnda við að ganga frá bátnum í því horfi sem samið hefði verið um. Fjárhæð þessa sundurliðar stefnandi þannig:
|
Reikningur frá Sindra - Stál hf. |
kr. 47.323,- |
|
Hífing á bátnum |
kr. 12.450,- |
|
Vélsmiðja Árna Jóns |
kr. 33.110,- |
|
Verkfræðistofan Fengur |
kr. 83.110,- |
Með bréfi dagsettu 29. maí 1996, krafðist stefnandi endurgreiðslu á ofangreindum fjárhæðum, samtals sagðar kr. 801.373,- og var sú krafa ítrekuð með bréfi til stefnda dagsettu 21. júní 1996.
Þá kveður stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna afhendingardráttar á bátnum, frá 19. maí 1995 til 15. júlí 1995, samtals að fjárhæð kr. 670.790. Stefnandi kveður þá fjárhæð styðjast við viðmiðun á afla sambærilegra báta er gert hafi út á sömu fiskimið og stefnandi hefði gert út á hefði afhendingardráttur ekki orðið.
Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglum samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Þá kveðst stefnandi einnig byggja á meginreglum kröfuréttar. Vegna kröfu um bætur vegna afhendingardráttar vísar stefnandi sérstaklega til 23. gr. laga nr. 39/1922. Um vexti vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 25/1987, en kröfu sína um málskostnað reisir hann á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi kveður að það skipti máli að líta til fyrri samskipta stefnda við Viðar Valdimarsson og Gunnar Þórarinsson vegna þess báts sem um ræðir. Samkvæmt samningi þeirra gerðum síðla árs 1994 hafi kaupverð bátsins verið 7,5 til 8 milljónir króna án spils og rúllna og krókaleyfis sem gert hafi verið ráð fyrir að kosta myndi eina milljón króna. Hafi sá átt að útvega krókaleyfi fyrir bátinn sem fyrstur ætti þess kost. Kaupendur hafi átt að gera kaupverð endanlega upp er þeir tækju við bátnum við verksmiðjudyr og sjá sjálfir um skráningu og stöðugleikagögn. Samningur þessi hafi verið með þeim fyrirvara að Viðar og Gunnar gætu útvegað nægilegt fjármagn til kaupanna. Um áramótin 1994/1995 hafi verið ljóst að það myndi þeim ekki takast og því hafi stefndi auglýst bátinn aftur til sölu. Margir hafi sýnt kaupum áhuga en í janúar 1995 hafi tekist munnlegt samkomulag milli stefnanda og stefnda, sambærilegt þeim samningi sem stefndi hefði áður gert við Viðar og Gunnar, en stefnandi hefði lagt áherslu á að stefndi útvegaði krókaleyfi. Erfiðlega hafi gengið að útvega krókaleyfi en það hafi stefnda þó tekist og greitt fyrir kr. 960.000. Stefndi kveður hinn munnlega samning hafa verið á þann veg að stefndi hafi átt að greiða kaupverðið með eftirfarandi hætti:
Fyrir janúarlok 1995 kr. 1.800.000.
Fyrir miðjan febrúar það ár kr. 1.100.000, en aðilar hefðu áætlað að vél bátsins kæmi til landsins um það leyti.
Um miðjan mars 1995 kr. 700.000 þó með tilliti til þeirra tækja sem í bátinn yrðu sett.
Í lok apríl 1995, kr. 1.000.000.
Fyrir 17. júní 1995 hafi stefnandi átt að greiða fyrir krókaleyfi og afganginn af kaupverðinu, en báturinn hafi þá átt að komast á flot.
Stefndi kveður það hins vegar hafa farið svo að ekkert hafi staðist sem stefnandi hafi lofað um fjármögnun til smíði bátsins. Stefndi hafi því vegna fjárskorts verið langtímum saman í miklum vandræðum með aðföng til smíðinnar og hafi undirverktakar stefnda einnig lent í vandræðum þess vegna. Meðal annars hafi orðið bið á því að vinna gæti hafist við raflögn í bátinn því stefndi hafi ekki þorað vegna greiðsludráttar stefnanda að taka á sig ábyrgð á greiðslum til undirverktaka. Stefndi kveðst þó hafa tilkynnt stefnanda ónefndan dag í lok marsmánaðar 1995 að ef stefndi legði ekki fram umsamdar 1.800.000 krónur þann sama dag yrði samningi þeirra rift og báturinn auglýstur aftur til sölu. Stefndi kveður stefnanda þá hafa sagt að bankastjóri sinn vildi fá skriflegan samning um kaupin. Ef unnt væri að útbúa slíkt skjal skyldi hann færa stefnda ávísun upp á þá fjárhæð sem innleysa mætti tveimur dögum eftir að samningurinn hefði verið lagður fyrir bankastjórann. Stefndi kveðst þá hafa sagt stefnanda að á þessu stigi væri ekki unnt að gera samning með endanlega tilgreindu verði, því það væri ekki ljóst og eftir væri að gera samninga við verktaka er einnig kæmu að smíði bátsins fyrir stefnda. Stefndi kveður stefnanda hafa svarað því til að í samningnum mætti hvort eð er ekki tilgreina endanlegt verð, því að þá fengi hann ekki lán. Hafi stefnandi raunar beðið stefnda um að tilgreina sem allra lægst verð í samningnum, er bæri með sér að um kostakaup væri að ræða svo stefnandi fengi lán til kaupanna frá banka sínum og ljóst væri að hægt væri að selja bátinn á hærra verði en hinu tilgreinda ef ekki yrði staðið í skilum. Stefnandi hafi einnig beðið sérstaklega um að allt yrði sem veglegast talið upp sem í bátnum yrði og krókaleyfið tilgreint sem innifalið í verðinu. Smíðinni myndi síðan haldið áfram og stefnandi greiða stefnda eftir reikningi en auk þess greiða stefnda fyrir krókaleyfið. Hins vegar hefði hinn skriflegi samningur ekkert gildi þeirra í milli.
Stefndi kveðst á þessum tíma hafa haft þrjá möguleika, að leita nýs kaupanda, að hætta við smíðina og sjá sér farborða með öðrum störfum, eða láta undan óskum stefnanda. Stefnandi kveðst hafa valið versta kostinn, þ.e. að skrifa undir málamyndasamning. Þó hafi vottar ekki skrifað undir samninginn og kveðst stefndi ekki kannast við þau nöfn sem ritað hafa undir framlagðan kaupsamning sem vottar.
Þá kveður stefndi að hinn 10. apríl 1995 hafi birst í Stjórnartíðindum reglugerð nr. 210/1995. Sú reglugerð hafi breytt eldri reglugerð nr. 592/1994 um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum. Við birtingu reglugerðarinnar hafi hins vegar verið búið að vinna talsvert við raflagnir í bátinn, og hafi orðið að rífa burt eitthvað af þeim og endurskipuleggja þá vinnu alla. Hafi af þessu leitt talsverðan aukakostnað sem ekki hafi verið fyrirsjáanlegur.
Þá kveður stefndi að tafir á afhendingu bátsins hafi, auk framanritaðs, einnig orðið vegna þess að innflytjandi vélarinnar í bátinn, Vélorka hf. Grandagarði 3 Reykjavík, hafi afhent vélina síðar en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi er stefndi samdi við áðurnefnda Viðar Valdimarsson og Gunnar Þórarinsson um smíði bátsins. Reyndar mætti rekja þá töf einnig til stefnanda sem nýs kaupsamningshafa og greiðsludráttar af hans hálfu. Þá kveður stefndi að það hafi einnig valdið honum tjóni að stefnandi hafi á bak við sig gert samning við fjármögnunarleigufyrirtæki um kaup á bátsvélinni, en stefndi hafi þess vegna orðið af afslætti og viðskiptahagræði sem hann hefði unnið sér rétt til hjá innflytjanda hennar. Stefndi kveðst hins vegar, þrátt fyrir vanefndir stefnanda, hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að afhenda bátinn stefnanda eins fljótt og hægt var. Í því skyni hafi stefndi meðal annars keypt frá öðrum vinnu við þá verkþætti sem hann sjálfur hafi ætlað að vinna. Hafi honum ekki einn einasta dag fallið vinna úr hendi þrátt fyrir að hann hefði lent í vinnuslysi meðan á verkinu stóð. Stefndi kveður stefnanda hafa nauðað mjög í sér um að halda kaupverði sem lægstu og sagt að hann þyrfti að fá bátinn sem fyrst svo hann gæti nýtt hann. Stefndi kveðst því hafa verið afar þreyttur á stefnanda og er nær dró afhendingu bátsins, fallist á að láta bátinn af hendi gegn greiðslu 750.000 króna til viðbótar þeim 6.830.000 krónum sem nefndar voru í framangreindum „kaupsamningi”. Þó kveðst stefndi líta svo á að stefnandi hafi enn ekki greitt sér fyrir krókaleyfið, en þá þrætu ætli stefndi sér að taka upp síðar eða á öðrum vettvangi.
Þá kveður stefndi að seint í júní 1995 hafi báturinn nánast verið tilbúinn og hafi hann verið sjósettur í Hafnarfirði, þar sem stefnandi hafi viljað sjá hvernig báturinn flyti. Við það tækifæri hafi stefndi sagt stefnanda að komið væri að greiðslu á umræddum 750.000 krónum. Stefndi kveður stefnanda hafa tilkynnt sér að hann þyrfti nokkra daga til að útvega þessa peninga, en báturinn yrði hvort eð er í vörslu stefnda í Hafnarfirði þar til uppgjör færi fram. Hins vegar hefði stefndi frétt snemma í júlí 1995 að stefndandi hefði tekið bátinn í heimildarleysi og siglt honum til Ólafsfjarðar. Í framhaldi af þessu hafi stefndi haft samband við stefnanda sem hafi lofað að gera upp við hann, en í september 1995 hafi verið fyrirséð að stefnandi gæti ekki efnt samninginn. Hafi stefndi því útvegað stefnanda nýjan kaupanda að bátnum. Sú sala hefði átt sér stað í mars 1996, en þá hafi orðið nokkur verðlækkun á bátum af þessu tagi.
Stefndi kveður bátinn hafa verið smíðaðan eftir teikningum samþykktum af Siglingastofnun Íslands og hafi margar úttektir átt sér stað meðan á smíði bátsins stóð, meðal annars í tengslum við rafkerfi bátsins. Við prófun á vegum stofnunarinnar, er báturinn var sjósettur, hafi verið talið að eitthvað skorti á ítrustu kröfur um stöðugleika hans. Þó hafi verið heimiluð notkun bátsins til ágústs 1995 en gerð krafa um að þá þyrfti að breyta lítillega kili bátsins. Hafi aðilar ákveðið að stefnandi sigldi bátnum til Hafnarfjarðar í „ágúststoppinu” og þá yrðu lagfæringarnar gerðar. Hins vegar hafi stefnandi ekki staðið við þetta, en þó hefði stefnandi er hér var komið sögu fengið stefnda til að lækka áðurnefnda 750.000 króna lokagreiðslu sem næmi kostnaði við þá breytingu sem stefndi hafi átt að annast.
Stefndi nefnir einnig að hann hafi ekki notið lögmannsaðstoðar í viðskiptum sínum við stefnanda og hafi hann undirritað kaupsamning til málamynda og síðar kvaðalaust afsal án þess að taka fram í afsalinu að enn hefði stefnandi ekki greitt fyrir krókaleyfi bátsins, en það hafi stefndi gert á þeirri forsendu að þar með væri viðskiptum aðilanna lokið.
Stefndi nefnir í lokin að engin afhendingardráttur hafi orðið sem hann beri ábyrgð á. Jafnvel þótt dómurinn kunni að líta svo á, þá sé útreikningur stefnanda um aflatjón byggður á spámennsku þar sem ekki sé tekið tillit til fjöldamargra kostnaðarliða, auk þess sem ætla megi að stefnandi hefði eða hafi getað sinnt öðrum verkum eða störfum meðan á hinum meinta drætti stóð, en hann hefði hvort eð er ekki fiskað þótt hann hefði sótt sjó.
Auk aðila málsins gáfu skýrslur við meðferð málsins fyrir dómi, Páll Sigurðsson skipasali, Ragnar Geir Brynjólfsson tölvunarfræðingur og kennari, Pétur Sævarsson sölumaður hjá Vélorku hf., Gísli Þór Ragnarsson rafvirki, Þórður Þorsteinsson rafvirki og áðurnefndur Viðar Valdemarsson matreiðslumaður.
III. Niðurstöður
Í skjali því um er deilt í málinu segir m.a: „Við undirritaðir Garðar Björgvinsson kt. 040534-4079, Lyngheiði 13, 810 Hveragerði, í samningi þessum nefndur seljandi og Sigfús Guðmundsson Kjartansgötu 11, 310 Borgarnesi, í samningi þessum nefndur kaupandi, gerum með okkur svofelldan:
KAUPSAMNNING
Seljandi lofar að selja og kaupandi að kaupa Nýsmíði nr. 112 sem er Viking 700.
Ákvæði kaupsamnings þessa eru nánar tiltekið svohljóðandi:
1. grein.
1. Bátur á 1. stigi, 1.100.000, þ.e. skrokkur með styrkingum, lunningu, hvalbak, stýrishúsi, bryggjulista.
2. Bátur með framantöldu auk þess skilrúm, dekk, vélarundirstaða, bak í stýrishús, hurð, lúgukarmur með tessum og loki, mótorhúslúga með tessum og loki, skriðbretti, síðubörð, kjölskúffa sem er 200 kg. kr. 1.800.000,-
3. Bátur með framantöldu auk þess glerjaður, 7 gluggar einnig 2 á stýrishúsbaki sem eru opnanlegir, alls samtals 9 gluggar. Olíutankar, stýri, innréttingar í stýrishúsi og klósettklefa, innréttingar í lúkar, vaskar, kabyssa með öllu, rafkerfi, stýrisbúnaður tengdur, rekkverk, mastur með öllum ljósum, lensikerfi. 2.930.000,-
4. Bátur með framantöldu auk þess vél, tæki, björgunarbátur, lögboðinn búnaður, goggbretti, undirstaða fyrir spil, stjórntæki tengd á dekk, rafgeymar, kerfi allt tengt ásamt tækjum, báturinn tilbúinn til skoðunar alls 5.870.000,-
5. Krókaleyfi 19,2 rúmmetrar 960.000,-
Framantalið alls 6.830.000,-
===========
...
2. grein.
Hið selda afhendist við verksmiðjudyr, 19. maí 1995. Seljandi sér um að ekkert vanti upp á skoðun. Seljandi verður með í prufukeyrslu og sér um að allt virki rétt.
3. grein.
Kaupandi greiðir seljanda kaupverðið að fullu við endanlega afhendingu, við undirskrift samnings þessa afhendir kaupandi seljanda ávísun að upphæð kr. 1.800.000,-
...”.
Þann 20. mars 1995, rituðu bæði stefnandi og stefndi undir skjal þetta.
Stefnandi hefur viljað byggja rétt sinn á framangreindu skjali og framlögðu afsali frá 22. mars 1996 þar sem vísað er í skjalið og sagt að kaupverð sé 6.830.000 krónur, en fyrirvari gerður um greiðslu stefnanda á 625.000 krónum til viðbótar, eins og áður hefur verið rakið. Stefndi heldur því hins vegar fram að um málamyndakaupsamning hafi verið að ræða og kaupverð tilgreint svo lágt sem mögulegt var til að stefnandi fengi frekar lán í banka vegna hagstæðra kaupa, en hann síðar fallist á að gefa út afsal gegn greiðslu 625.000 króna til viðbótar því verði sem tilgreint hafi verið í málamyndagerningnum. Hefur stefndi nefnt fjögur atriði í því sambandi: Í fyrsta lagi að stefnandi hafi átt að greiða sérstaklega fyrir krókaleyfi á bátinn, í öðru lagi vegna greiðsludráttar af hálfu stefnanda, í þriðja lagi að komið hafi til reglugerðarbreytingar á smíðatíma bátsins sem leitt hafi til ófyrirséðra útgjalda fyrir stefnda og í fjórða lagi hafi stefnandi ætlað að greiða allt að 8.500.000 krónur fyrir bátinn, allt eftir því hver kostnaðurinn yrði vegna smíði bátsins.
Stefndi hefur freistað þess með vitnaleiðslum að sanna fullyrðingar sínar.
Eina vitnið sem eitthvað kom að gerð skjalsins frá 20. mars 1995 er áðurnefndur Ragnar Páll Brynjólfsson tölvufræðingur. Kvað hann hafa að ósk stefnda vélritað upp skjal það sem um ræðir með hliðsjón af gamalli formálabók sem hann átti og samkvæmt upplýsingum frá stefnda um innhald skjalsins að öðru leyti. Er þessi framburður raunar í samræmi við framburð stefnanda og stefnda sjálfs. Vitnið kvað stefnda hafa við það tækifæri sagt sér að til þess að stefnandi gæti fengið lán til kaupa á bátnum þyrfti skriflegan samning, en stefndi liti svo á að „það væri nánast formsatriði af sinni hálfu að búa til þennan samning”, eins og vitnið komst að orði. Vitnið Gísli Þór Ragnarsson, er vann við raflagnir í bátinn fyrir stefnda, kvað stefnanda hafa um sumarið 1995 sagt sér að hann ætti enn eftir að greiða stefnda kr. 600.000 vegna bátsins en ekkert geta sagt til um hvers vegna sú greiðsla ætti að eiga sér stað.
Eins og áður hefur komið fram, stóð upphaflega til að stefndi smíðaði bát þann sem um ræðir fyrir aðra aðila en stefnanda, en mál þróuðust þannig að ekki varð úr þeim viðskiptum. Því setti stefndi svofellda auglýsingu í Dagblaðið Vísir er birtist 21. janúar 1995: „Nýsmíði. Ódýr og fallegur, léttur í rekstri. 1. stig 1.100 þús. 2. 1.800 þús. 3. 2 m.og 930 þús, 4. fullbúinn m/leyfi 6 m.og 830 þús.” Þá liggur frammi í gögnum málsins handskrifað blað frá stefnda sjálfum þar sem bátnum og kostnaði við smíði hans er lýst á sama hátt og í auglýsingunni og í framangreindum kaupsamningi. Upplýst er að stefndi sendi stefnanda hinar handrituðu upplýsingar skömmu eftir birtingu auglýsingarinnar í Dagblaðinu Vísi.
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið benda gögn málsins ekki til annars en að hinn 20. mars 1995 hafi verið gerður gildur skriflegur samningur um smíði nefnds báts milli stefnanda og stefnda, sem stundað hafði viðskipti sem þessi í nokkur ár. Hefur stefnda, hvorki með framlagningu gagna né skýrslum vitna fyrir dómi, tekist að sanna fullyrðingar sínar í aðra veru. Þá verður með engu móti fallist á það með stefnda að það breyti einhverju í þessu sambandi þótt kaupsamningurinn hafi verið vottaður síðar af eiginkonu stefnanda og mágkonu, skömmu áður en honum var þinglýst, enda er óumdeilt að stefnandi og stefndi skrifuðu báðir undir samninginn. Verður því umræddur kaupsamningur lagður til grundvallar lögskiptum aðila.
Samkvæmt samningnum var greiðsla fyrir krókaleyfi innifalin í kaupverði bátsins eins og það er tilgreint í samningnum, enda samræmist það einnig framburði vitnisins Páls Sigurðssonar bátasala, er útbjó afsalið fyrir bátnum, um að þegar seldur sé sjóklár bátur til fiskveiða þá fylgi honum krókaleyfi, eins og reyndar einnig er tekið fram í afsali fyrir bátnum.
Í þinghaldi hinn 3. júní sl., var bókað eftir lögmanni stefnda, að samkvæmt kaupsamningnum hafi átt að vera gömul vél í bátnum. Þeirri málsástæðu var þegar í því þinghaldi mótmælt af hálfu stefnda sem of seint fram kominni. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur hún ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Þá verður ekki séð að háttsemi stefnanda hafi á einhvern hátt leitt til kostnaðarauka eða tafa fyrir stefnda við að fá vélina í bátinn, eins og stefndi heldur fram í greinargerð.
Fram hefur komið í málinu, bæði hjá stefnanda, stefnda og Páli Sigurðssyni bátasala, að sú viðbótargreiðsla sem um ræðir var skilyrði þess að stefnandi fengi afsal fyrir bátnum, en á þeim tíma hafði stefnandi fengið tilboð í bátinn frá þriðja aðila sem hann varð að svara sem fyrst.
Í afsalinu segir að um sé að ræða viðbótarkostnað vegna breytinga á reglugerð á smíðatíma bátsins. Sú reglugerð sem skírskotað er til í afsali er nr. 210/1995, um breytingu á reglum um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum nr. 592/1994. Reglugerðin var undirrituð 6. mars 1995, en birtist í B deild Stjórnartíðinda 10. apríl 1995 og varðar rafbúnað báta. Stefndi hefur haldið því fram að stefnandi hafi ætlað og átt að bera kostnað sem orðið hafi vegna breytinga þessara á reglum um smíði bátsins.
Áðurnefndur Gísli Þór Ragnarsson kvað verkið hafa tafist vegna hinna breyttu reglna, en þó ekki meira en um tvo til fjóra daga. Þá kom fram hjá Þórði Þorsteinssyni rafvirkja sem hafði yfirumsjón með raflögnum í bátinn, að verktöf vegna þessa hafi verið „hátt í tvo daga” og hafi sennilega kostað u.þ.b. 35.000 krónur vegna vinnu auk smávægilegrar fjárhæðar vegna efniskostnaðar. Kvaðst vitnið geta fullyrt að vinna við raflagnir í bátinn hafi ekki byrjað fyrr en eftir 10. apríl 1995, og líklega að mestu átt sér stað í maí 1995, þ.e. eftir að reglugerðin birtist í Stjórnartíðindum. Einnig kom fram hjá stefnda fyrir dómi að hin umdeilda viðbótarfjárhæð sem greidd var við afsal hafi einungis að hluta verið vegna aukins kostnaðar vegna breytinga á reglugerðinni. Kvaðst stefndi álíta að viðbótarkostnaður vegna breytinga á reglugerð hafi numið u.þ.b. 120.000 krónum. Hann hafi hins vegar talið stefnanda hafa átt að greiða meira en í kaupsamningi segir af ástæðum sem áður eru nefndar, en reglugerðarbreytingin hafi verið sú ástæða sem hann hafi getað „hengt sinn hatt á lagalega”, eins og hann komst að orði. Þá nefndi stefndi að ekki hafi verið byrjað á að leggja rafkerfið í bátinn fyrr en eftir miðjan maí 1995.
Krafa stefnda um lækkun á stefnukröfum vegna breytinga á reglugerð á smíðatíma bátsins er eins og að framan greinir óákveðin og ekki studd gögnum og hefur stefndi ekki bætt þar úr þrátt fyrir áskoranir af hálfu stefnanda þar um í þinghaldi þann 3. júní 1997, en upplýst er í málinu að stefnda var í lófa lagið að leggja fram reikninga frá rafvirkjum þeim sem unnu að raflögnum í bátinn. Verður því ekki samþykkt krafa stefnda um lækkun á stefnukröfum að þessu leyti.
Fyrirvari stefnanda í afsali telst hafa verið nægilega skýr og samkvæmt framansögðu er fallist á að stefnda beri að endurgreiða stefnanda hina umþrættu fjárhæð sem stefnandi greiddi við afsalsgerð, kr. 625.000.
Kemur næst til skoðunar krafa stefnanda um endurgreiðslu þess kostnaðar sem hann lagði í vegna stöðugleika bátsins.
Í afsalinu frá 22. mars 1996 segir m.a: „Báturinn hefur þegar verið afhentur kaupanda og hann sætt sig að öllu leyti við ástand bátsins og fylgifjár. Báturinn var afhentur með nýju* kvaðalausu heilsárs haffærnisskírteini...
*Kaupandi uppfyllti skilyrði frá Siglingamálastofnun ríkisins varðandi stöðugleika bátsins...”. Hins vegar segir í kaupsamningi að bátinn skuli afhenda tilbúinn til skoðunar og er vísað í afsali til kaupsamningsins um ástand bátsins. Þá kom fram hjá stefnda fyrir dómi að um nýja hönnun á bát hafi verið að ræða og að venjan væri sú að hann hefði við smíði báta gert lagfæringar í samræmi við athugasemdir Siglingastofnunar á sinn kostnað. Kvað stefndi svo einnig hafa verið í þessu tilviki, en þá hafi hann reiknað með því að stefnandi myndi greiða 750.000 krónur í stað 625.000 króna til viðbótar efni kaupsamningsins. Kvaðst stefndi hafa lækkað kröfu um viðbótargreiðslu við afsalsgerð vegna þess að hann hafi vitað að það ætti að vera á hans kostnað. Kemur reyndar fram í greinargerð stefnda að hann byggir varnir gegn þessum hluta krafna stefnanda á því að kaupsamningur sá sem um ræðir hafi verið til málamynda. Þá kom fram við meðferð málsins hjá lögmanni stefnda að ekki væri vefengdir framlagðir reikningar um kostnað stefnanda við að gera bátinn sjókláran.
Eins og að framan greinir um atvik málsins er fallist á það með stefnanda að stefnda hafi borið að greiða þann kostnað sem hér um ræðir. Samlagning stefnanda á reikningunum í stefnu er hins vegar röng, auk þess sem fjárhæð eins reikningsins er tilgreind þar lægri en reikningurinn ber með sér. Þeir útreikningar eru þó stefnanda sjálfum í óhag og verður því við þá miðað, þannig að fallist er á þennan kröfulið stefnanda eins og hann er fram settur í stefnu.
Þá kemur til úrlausnar hvort stefnanda beri bætur vegna afhendingardráttar af hálfu stefnda.
Í kaupsamningnum er einungis kveðið á um upphafsgreiðslu kaupverðs en afgangur kaupverðs skyldi greiðast við afhendingu bátsins, hinn 19. maí 1995. Upplýst er í málinu að stefndi afhenti stefnanda bátinn ekki fyrr en síðar en þar var ráð fyrir gert. Samkvæmt því sem rakið hefur verið um lögskipti aðila verður talið að sá dráttur hafi verið á ábyrgð stefnda. Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir aflatjóni við það að fá bátinn ekki afhentan á umsömdum tíma. Hafa ber í huga að ekki er með öllu ljóst hvenær sumars 1995 stefnandi fékk bátinn afhentan, þ.e. hvort það var í lok júní, þann 20-22., eða einhvern tímann um miðjan júlí. Stefnandi virðist ekki geta fullyrt hvaða dag afhending átti sér stað. Virðist hann þó vilja miða við hið síðastnefnda tímamark, en stefndi við hið fyrra, samkvæmt skýrslu hans fyrir dómi. Hefur sú fullyrðing stefnda stoð í því að hinn 22. júní 1995 innti stefndi af hendi greiðslu kr. 3.000.000 til stefnda.
Einnig ber að líta til í þessu sambandi að stærstur hluti greiðslna stefnanda var ekki inntur af hendi fyrr en eftir 21. júní 1995 og átti lokagreiðsla sér ekki stað fyrr en hinn 5. júlí 1995, eða nokkru eftir að um var samið samkvæmt kaupsamningi. Virðist því sem stefnandi hafi gripið til þess úrræðis að halda eftir eigin greiðslu vegna afhendingardráttar stefnda.
Tjón sitt vill stefnandi miða við gögn frá Fiskmarkaði Breiðafjarðar um aflaverðmæti þriggja sambærilegra báta og þess sem hér um ræðir, tímabilið frá 1. júní til 14 júlí 1995:
|
Aflaverðmæti Linna SH 303 |
kr. 1.319.854,- |
|
Aflaverðmæti Ármanns SH 323 |
kr. 543.271,- |
|
Aflaverðmæti Dritvíkur RE 8 |
kr. 541.862,- |
|
Meðaltalsaflaverðmæti |
kr. 801.662,- |
Frá meðaltalsaflaverðmæti vill stefnandi draga ýmsan kostnað sem hann kveður að greiða þurfi vegna veiða sem þessara, þannig að eftir standi samtals kr. 670.790. Fullyrðingar stefnanda um kostnað við veiðarnar eru hins vegar ekki studdar gögnum.
Gegn mótmælum stefnda, verður samkvæmt framansögðu ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna nægilega fram á tjón sitt þannig að dómur verði á það lagður. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um bætur vegna aflatjóns.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda kr. 801.373 (eða kr. 625.000 + kr. 176.373), ásamt dráttarvöxtum, eins og krafist er, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 29. maí 1996 til greiðsludags, en ekki er í málinu sérstakur ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta. Samkvæmt 12. gr. sömu laga skulu áfallnir dráttarvextir leggjast við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 29. maí 1997.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber stefnda að greiða stefnanda 220.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málskostnaði.
Ólafur Börkur Þorvaldsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
Dómsorð:
Stefndi, Garðar Björgvinsson, kt. 040534-4079, greiði stefnanda, Sigfúsi Guðmundssyni, kt. 050158-3069, kr. 801.373 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. maí 1996 til greiðsludags. Dráttarvextir skulu leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 29. maí 1997.
Stefndi greiði stefnanda kr. 220.000 í málskostnað.