Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðila og fjárhæð hennar ákveðin 1.500.000 krónur, auk þess sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði lækkuð og málskostnaður í héraði felldur niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var mál sóknaraðila á hendur varnaraðila þingfest fyrir héraðsdómi 9. febrúar 2017. Varnaraðili sótti þá þing og lagði fram skriflega kröfu um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Sóknaraðili andmælti ekki þeirri kröfu, en á hinn bóginn var við málflutning um hana 16. mars 2017 deilt um fjárhæð tryggingarinnar. Þarf því ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt til að verða við kröfunni.
Að virtu sakarefninu í málinu og umfangi þess er hæfilegt að fjárhæð tryggingar sóknaraðila fyrir greiðslu málskostnaðar nemi 750.000 krónum. Skal hún sett á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.
Í fyrrnefndri kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, sem hann lagði fram á dómþingi 9. febrúar 2017, var ekki krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna meðferðar þeirrar kröfu. Í endurriti úr þingbók vegna þinghaldsins 16. mars sama ár er þess ekki getið að varnaraðili hafi þá krafist málskostnaðar. Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður því fellt niður.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Sigurði Frans Þráinssyni, er gert að setja innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu í formi peningagreiðslu, bankareiknings eða bankaábyrgðar að fjárhæð 750.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu gegn varnaraðila, Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. mars 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. mars 2017 um kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, er höfðað af Sigurði Frans Þráinssyni, kt. [...], Skógarási 9, Reykjavík á hendur Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf., kt. [...], Illugagötu 36, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur aðallega til að greiða stefnanda kr. 2.885.383, en til vara kr. 1.076.830, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af dæmdri fjárhæð frá 15. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krefst stefnandi viðurkenningar á sjóðveðrétti í Glófaxa VE-300, skipaskrárnúmer 968, til tryggingar öllum dæmdum kröfum.
Við þingfestingu málsins 9. febrúar 2017 lagði stefndi fram kröfu um að stefnanda yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði og byggir á því að tryggingin þurfi að vera lágmark að fjárhæð kr. 3.500.000. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Stefnandi fellst á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu, en krefst þess að henni verði mörkuð lægri fjárhæð.
Munnlegur málflutningur um framangreinda kröfu stefnda fór fram 16 mars 2017 og var hún tekin til úrskurðar að honum loknum.
Í kröfu stefnda er gerð grein fyrir aðdraganda málsins og fyrri málaferlum milli aðila, sem stefndi kveður raunar hafa snúist um sama sakarefni. Kemur fram að í Hæstarétti hafi gengið dómur milli aðila 15. september 2016 í máli réttarins nr. 744/2015. Í málinu hafi stefnda verið dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en ekkert hafi gengið að innheimta hann. Kveður stefndi sterkar líkur fyrir því að stefnandi sé bæði ófær og ófús til greiðslu málskostnaðar. Þá kemur fram í framlagðri útprentun frá Creditinfo að stefnandi er hvorki skráður fyrir fasteign, ökutæki, vinnuvél né eign í félagi. Jafnframt kemur fram í framlagðri Vog vanskilaskrá Creditinfo að 6. október 2016 var gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda, 8. ágúst 2016 greiðsluáskorun ásamt birtingarvottorði, 29. mars 2016 framhaldsuppboð og 24. febrúar 2016 byrjun uppboðs, auk fyrirtöku nauðungarsölubeiðni 4. janúar 2016, auk fjögurra greiðsluáskorana á árinu 2015. Stefndi vísar til b liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefnandi mótmælir þeirri fjárhæð sem stefndi kveður vera hæfilega og byggir á því að hún sé úr hófi fram. Ekki sé heimilt að líta til fyrri málaferla og annarrar forsögu málsins, en einungis verði við ákvörðun fjárhæðarinnar litið til þess hver geti orðið eða sé líklegur málskostnaður sem stefnanda yrði gert að greiða vegna þessa máls, ef honum yrði gert að greiða stefnda málskostnað í því.
Forsendur og niðurstaða
Í þessum þætti málsins gerir stefndi kröfu um að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar og byggir á því að bæði sé stefnandi ófús til greiðslu málskostnaðar sem og að líkur séu leiddar að því að hann sé ófær um greiðslu hans. Stefnandi fellst á kröfuna en mótmælir sem of hárri þeirri fjárhæð sem stefndi kveður vera hæfilega.
Í b lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 segir að stefndi geti krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Ekki er deilt í málinu um að þessi skilyrði séu uppfyllt og er fallist á það af hálfu dómsins, að virtu því sem að framan greinir.
Að mati dómsins verður við ákvörðun fjárhæðar málskostnaðartryggingar aðeins haft til hliðsjónar að tryggingin nái til þess málskostnaðar sem stefnanda yrði gert að greiða stefnda vegna þessa máls, ef málsúrslit yrðu þau að stefnanda yrði gert að greiða stefnda málskostnað. Við ákvörðun þess málskostnaðar væri ekki unnt að líta til fyrri málaferla aðila eða forsögunnar að öðru leyti, heldur aðeins til þess hver væri málskostnaður vegna þessa dómsmáls, sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Þykir nægilegt að þessu virtu að fjárhæð málskostnaðartryggingarinnar sé kr. 1.500.000.
Þá er rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað vegna þessa þáttar málsins og er hann ákveðinn kr. 200.000.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefnandi, Sigurður Frans Þráinsson, skal setja setja tryggingu í formi peninga eða bankaábyrgðar að fjárhæð kr. 1.500.000 til stefnda, Glófaxa ehf., fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þessu, í síðasta lagi fyrir kl. 16:00 mánudaginn 3. apríl 2017.
Stefnandi greiði stefnda kr. 200.000 í málskostnað.