Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Þriðjudaginn 10. febrúar 2009. |
|
Nr. 60/2009. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn X (Sigurður S. Júlíusson hdl.) |
Kærumál. Haldlagning. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem R var heimilað að leggja hald á nánar tilgreind gögn. Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi þar sem krafa R í héraði uppfyllti ekki formkröfur 1. mgr. 103. gr. lagar nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja hald á nánar tilgreinda kaupsamninga, fylgigögn og yfirlit um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með bréfi 2. febrúar 2009 krafðist sóknaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um heimild til að leggja hald á þrjá kaupsamninga og fylgigögn, sem nánar eru greind í hinum kærða úrskurði. Í beiðninni var einungis vísað til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 henni til stuðnings. Má af því ráða að krafan hafi byggst á heimild 68. gr. laganna.
Um kröfu sóknaraðila gilda málsmeðferðarreglur XV. kafla laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 102. gr. Í 1. mgr. 103. gr. er kveðið á um að leggja skuli skriflega og rökstudda kröfu um aðgerð fyrir héraðsdóm. Sérstaklega er tekið fram að þess skuli getið hvort sá sem kröfu gerir krefjist þess að hún sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. Það lagaákvæði hefur að geyma reglur um meðferð síðastnefndrar kröfu fyrir dómi. Í 3. mgr. 104. gr. er kveðið svo á að fella skuli mál niður ef sá sem kröfu gerir mætir ekki til dómþings.
Í skriflegri kröfu sóknaraðila til héraðsdóms var ekki farið fram á að hún sætti meðferð án þess að varnaraðili yrði kvaddur á dómþing. Héraðsdómur tók kröfuna til meðferðar allt að einu á dómþingi og féllst á hana með hinum kærða úrskurði. Þegar af þeirri ástæðu að krafa sóknaraðila í héraði uppfyllti ekki formkröfu 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 verður málinu vísað frá héraðsdómi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Kröfu sóknaraðila, Ríkislögreglustjóra, í erindi til Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009, um hald á kaupsamningum, fylgigögnum og yfirliti um ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum varnaraðila, X, er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2009.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísun til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að heimilt sé að leggja hald á eftirtalda kaupsamninga, fylgigögn og yfirliti yfir ráðstöfun greiðslna sem eru í vörslum X:
- Kaupsamningur varðandi vélina V, seljandi A en kaupandi B.
- Kaupsamningur varðandi vélina Y, seljandi C en kaupandi B.
- Kaupsamningur varðandi vélarnar Z og Q, seljandi er D en kaupandi B.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sé til rannsóknar mál er lúti að Eignarhaldsfélaginu E og kæru á hendur ofangreindum Ó, fyrrum stjórnarmanni félagsins, R fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og Á fyrrum starfandi stjórnarformanni félagsins. Eignarhalds-félagið E hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Málið varði meint fjársvik og fjárdrátt í sambandi við sölu og kaup flugvélarinnar F og ólöglega meðferð fjármuna félagsins.
Málið lúti að rannsókn á sölu Eignarhaldsfélagsins E á flugvél til C á Bresku Jómfrúreyjum. Einnig að sölu fjögurra sambærilegra flugvéla sem virðist hafa verið seldar saman til B og ofangreindir kaupsamningar fjalli um. Tvær af flugvélunum hafi verið eigu Eignarhaldsfélagsins E, sú þriðja í eigu C og hafi hún áður verið keypt af eignarhaldsfélaginu. Fjórða flugvéin hafi verið í eigu C, sem sé félag í eigu eins af stjórnarmönnum eignarhaldsfélagsins og fjölskyldu hans.
Grunur leiki á að við sölu flugvélanna til ofangreinds aðila hafi söluverð flugvélanna tveggja í eigu eignarhaldsfélagsins verið óeðlilega lágt miðað við verðmæti og verð hinna tveggja flugvélanna. Þannig hafi verðgildi flugvélanna í eigu Eignarhaldsfélagsins E verið rýrt við söluna til verðaukningar á flugvélunum í eigu hinna tveggja aðilanna til tjóns fyrir eignarhaldsfélagið og síðar þrotabú þess.
Lögmaðurinn sem hafi haft umsjón með sölunni á ofangreindum flugvélum hjá X hafi neitað að afhenda efnahagsbrotadeild ofangreinda kaupsamninga.
Í ljósi ofangreinds og fyrir framgang rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að fara fram á haldlagningu nefndra kaupsamninga og framangreindra fylgigagna.
Með vísun til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi rannsóknargagna, verður að telja að fyrir hendi séu lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ríkislögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Krafan verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ríkislögreglustjóra er heimil haldlagning eftirtalinna kaupsamninga, fylgigagna og yfirliti yfir ráðstafanir greiðslna sem eru í vörslum X:
Kaupsamningur varðandi vélina V, seljandi A en kaupandi B.
Kaupsamningur varðandi vélina Y, seljandi C en kaupandi C.
Kaupsamningur varðandi vélarnar Z og Q, seljandi er D en kaupandi B.