Hæstiréttur íslands
Mál nr. 197/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 21. maí 2004. |
|
Nr. 197/2004. |
X(Eva B. Helgadóttir hdl.) gegn Félagsþjónustunni í Reykjavík (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Hæstiréttur staðfesti ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að X skyldi vistuð nauðug á sjúkrahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2004, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 5. sama mánaðar um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi frá þeim degi í 21. dag. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 60.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2004.
Með beiðni dagsettri 5. maí sl. hefur X farið fram á að felld verði úr gildi ákvörðun Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 5. maí sl. um það að hún skuli vistast nauðug á sjúkrahúsi.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðila skipaður talsmaður skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Krafðist talsmaðurinn þóknunar skv. 17. gr. sömu laga. Sóknaraðild málsins byggir á ákvæðum 20. gr. lögræðislaga.
Af hálfu varnaraðila var kröfu sóknaraðila mótmælt og þess krafist að kröfu hennar yrði hafnað.
Sóknaraðili kveður sjúkdómsgreiningu sína aldrei hafa verið skilgreinda með afgerandi hætti. Hún kvaðst því ekki telja sig eiga við geðsjúkdóm að stríða heldur hefði hún oft átt mjög erfitt og því leitað sér huggunar og stuðnings hjá geðdeildum. Hún kvaðst allt að einu hafa tekið geðlyf og tekið þau bæði fyrir innlögn og í innlögninni. Sóknaraðili kvaðst vera ósátt við húsnæðismál sín og afskipti lögreglu af henni.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Bjarna Össurarsonar Rafnar læknis dags. 4. maí sl. Þar kemur fram að sóknaraðili sé greind með paranoid schizophrenia (geðklofasjúkdóm) og hafi þess vegna oft legið á geðdeild. Sjúkdómseinkenni séu helst ranghugmyndir, ofskynjanir og lítið sjúkdómsinnsæi. Þá hafi meðferðarheldni sóknaraðila verið lítil. Hún hefði nýlega legið á deild 32A en farið þaðan í trássi við lækna og hjúkrunarfólk og þá hafi hún ekki tekið lyf. Lögregla hefði síðan fært sóknaraðila á geðdeild eftir að hún hefði m.a. haft í hótunum við nágranna sína. Við skoðun hafi komið fram að sóknaraðili hafi ekki verið með hugsanatruflanir en virst vera með ranghugmyndir af ófsóknartoga jafnframt því sem hún segðist heyra raddir. Hún hafi ekki talið sig eiga við geðsjúkdóm að stríða og vilji ekki vera sjálfviljug á geðdeildinni. Í niðurstöðukafla vottorðsins kemur fram það mat læknisins að sjúkdómur sóknaraðila hafi versnað, innsæi hennar sé skert og hún neiti meðferð. Engar líkur séu að því að hægt sé að ná tökum á sjúkdómi hennar nema hún vistist á geðdeild og fái þar sérhæfða læknismeðferð og hjúkrun. Kjartan Jónas Kjartansson, geðlæknir á deild 32A, kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa haft sóknaraðila til læknismeðferðar eftir nauðungarvistun hennar. Vitnið kvað sóknaraðila hafa verið í geðrofsástandi við innlögn 3. maí sl. Hún hefði þó yfirleitt verið til samvinnu en öðru hverju verið mjög æst og hótað mönnum. Vitnið kvað sjúkdómsgreiningu sóknaraðila, paranoid schizophrenia, hafa legið fyrir í mörg ár. Hún hefði verið lögð sjálfviljug inn á geðdeild 9. apríl sl. en verið fljót að ná sér og því verið sett á svonefndan „dagstatus”. Hún hefði hins vegar hætt að mæta á deildina fljótlega eftir það. Reynslan væri sú að sóknaraðili hefði yfirleitt útskrifað sig sjálf úr læknismeðferð án samráðs við starfsfólk sjúkrahússins. Aðspurður taldi vitnið að það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef nauðungarvistun sóknaraðila yrði nú felld úr gildi. Ástand sóknaraðila hefði verið óstöðugt síðustu daga og meðferðarheldni hennar óviss undanfarna mánuði. Nauðsynlegt væri að ástand sóknaraðila yrði stöðugra áður en til útskriftar kæmi.
Niðurstaða.
Með framangreindu læknisvottorði og framburði Kjartans Jónasar Kjartanssonar, geðlæknis, hér fyrir dóminum þykir í ljós leitt að varnaraðili er haldin geðsjúkdómnum paranoid schizophrenia. Varnaraðili hefur lýst því yfir fyrir dóminum að engin sjúkdómsgreining liggi fyrir en sagði að sér hafi oft liðið mjög illa. Þykir ljóst að varnaraðili hafi ekki sjúkdómsinnsæi.
Dómarinn telur einsýnt af því sem fram er komið í málinu að brýn þörf sé á því að vista sóknaraðila á sjúkrahúsi. Ber því að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanns sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur, 45.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.
Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Staðfest er ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, 5. maí 2004, um að X skuli vistast á sjúkrahúsi.
Málskostnaður, þar með talin þóknun til talsmanns sóknaraðila, Evu B. Helgadóttur hdl., 45.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.