Hæstiréttur íslands

Mál nr. 131/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


Fimmtudaginn 19. febrúar 2015.

Nr. 131/2015.

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri)

gegn

X

(Eldjárn Árnason hdl.)

Kærumál. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu X um að nánar tilgreindu vitni yrði gert skylt að upplýsa um nafn þess sem tilkynnti að hann ætti von á fíkniefnasendingu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að nánar tilgreindu vitni í máli sóknaraðila á hendur honum yrði gert skylt að „upplýsa dóminn“ um nafn þess sem tilkynnti að varnaraðili ætti von á fíkniefnasendingu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. febrúar 2015.

Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í [...], þann 10. október 2013, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...].

„fyrir eftirfarandi brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni

I

með því að hafa skömmu fyrir miðnætti sunnudaginn 21. júlí 2013 ekið bifreiðinni [...] um götur [...], óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa kannabis (tetrahýdrókannabínól i blóði 8,8 ng/ml), uns lögregla stöðvaði för hans á [...] til móts við hús nr. [...] og með því að hafa í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 101,27 grömm af maríhúana sem hann afhenti lögreglu er akstur hans var stöðvaður á [...], og jafnframt haft í vörslum sínum 1,28 grömm af maríhúana og 0,53 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni sem fundust á heimili hans við [...], í framhaldinu. [...]

II

með því að hafa skömmu fyrir hádegi föstudaginn 2. ágúst 2013 ekið bifreiðinni [...] frá [...] upp á [...] og niður á [...], óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa kannabis (tetrahýdrókannabínól í blóði 0,9 ng/ml), uns lögregla stöðvaði akstur hans á [...] við hús nr. [...].

Teljast brot samkvæmt ákærulið I varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987 og 2. gr. sbr. 4. gr. a, 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65 frá 1974 sbr., lög nr. 60 frá 1980, lög nr. 75 frá 1982, lög nr. 13 frá 1985 og lög nr. 68 frá 2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233 frá 2001.  Brot samkvæmt ákærulið II varðar við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar,  til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987.  Jafnframt er þess krafist að hann að [sic] sæti upptöku á samtals 102,55 grömmum af maríhúana og 0.53 grömmum af tóbaksblönduðu kannabis sem hald var lagt á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65 frá 1974.“

Ákærði mætti fyrir dóm þann 28. nóvember 2013 og viðurkenndi þá að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og haft fíkniefni vörslum sínum eins og greinir í ákærulið I en hann neitaði því að 101,27 grömm af marihúana hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Þá játaði ákærði sök samkvæmt ákærulið II.

Samkvæmt lögregluskýrslu sem rituð er þann 22. júlí 2013 fékk lögreglan [...] upplýsingar frá aðila sem ekki vildi láta nafns síns getið um að ákærði væri að fá send fíkniefni með [...], en ekki hafi legið upplýsingar fyrir um hver væri að koma með efnin til [...]. Lögreglan stöðvaði akstur ákærða á [...] skömmu fyrir miðnætti sunnudaginn 21. júlí sama ár og í fórum hans fundust 101,27 grömm af marihúana. Við yfirheyrslu  hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann hefði greitt 200.000 krónur fyrir efnið en hann vildi ekki upplýsa hver hefði afhent honum það. Aðspurður á hvað hann hafi ætlað að selja grammið í [...] kvaðst ákærði ekki vita það og þá sagðist hann aldrei hafa stundað sölu eða dreifingu fíkniefna í [...]. Þá kvaðst ákærði ekki vera í daglegri neyslu, hann fengi sér annað slagið.

 Aðalmeðferð málsins hófst fyrir dómi í dag og voru þá teknar skýrslur af A, lögregluvarðstjóra, B lögreglumanni og C, lögreglufulltrúa. Aðspurður af verjanda ákærða hver hefði veitt lögreglu upplýsingar um að ákærði væri að fá send fíkniefni með [...], neitaði vitnið C að svara því og kvaðst hafa heitið umræddum aðila nafnleynd. Verjandi ákærða óskaði því eftir því að úrskurður gengi um skyldu vitnisins til að upplýsa dóminn um nafn þessa aðila en því var mótmælt af hálfu sækjanda. Fór því fram munnlegur málflutningur um þetta ágreiningsatriði og var það tekið til úrskurðar.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er vitni óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt. Vitnið C er lögreglufulltrúi í [...] og fékk upplýsingar frá aðila sem ekki vildi láta nafns síns getið um að ákærði ætti von á fíkniefnasendingu. Fíkniefni fundust í fórum ákærða og er honum m.a. gefið að sök að hafa ætlað þau til sölu og dreifingar. Það er ákæruvaldsins að sanna að svo hafi verið og koma þá til skoðunar atriði eins og magn efnanna og neysluvenjur ákærða. Ekki verður talið að framburður umrædds aðila skipti sköpum í því sambandi, enda ekki byggt á honum af hálfu ákæruvalds. Það er mikilvægur þáttur í störfum lögreglu að upplýsa um sölu og dreifingu fíkniefna og varðar hann mikilvæga almannahagsmuni. Það myndi því torvelda mjög störf lögreglu ef slíkt trúnaðarsamband yrði rofið og jafnframt væri það til þess fallið að setja uppljóstrara í hættu. Verður því ekki fallist á að vitninu C sé skylt að upplýsa um nafn þess aðila sem lét framangreindar upplýsingar í té.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Vitninu C lögreglufulltrúa er óskylt að upplýsa dóminn um nafn þess sem upplýsti að ákærði ætti von á fíkniefnasendingu.