Hæstiréttur íslands
Mál nr. 619/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 619/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari) gegn Eugenio Daudo Silva Chipa(Sveinn Andri Sveinsson hrl. Ástríður Gísladóttir hdl.) (Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Nauðgun. Miskabætur.
E var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa veist að A í húsasundi í iðnaðarhverfi og haft samræði við hana með því að beita hana ofbeldi og sumpart notfært sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar. Við atlöguna hlaut A fjölmarga áverka á líkama og höfði. Framburður E var að mati dómsins ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins, en framburður A þótti hins vegar hafa verið trúverðugur, að því leyti sem hún mundi atvik. Rannsókn á áfengismagni í blóði hennar sýndi að hún hefði verið undir miklum áhrifum áfengis um morguninn. Loks gáfu framburðir vitna, sem afskipti höfðu af henni um morguninn og framburður sálfræðings til kynna að eitthvað mjög alvarlegt hefði komið fyrir A þennan morgun. Var talið sannað að E hefði veist að A í húsasundinu í tilgreint sinn. Ennfremur var lagt til grundvallar að E hefði, gegn vilja A, haft samræði við hana. Sæðisblettir á fatnaði hennar, sem og á skóm E, þóttu styðja þá niðurstöðu. Þá var talið að hinir miklu líkamlegu áverkar sem A bar eftir atburðinn slægju því föstu að E hefði þurft að yfirvinna líkamlega mótspyrnu til að hafa samræði við hana. Með hliðsjón af þessu var E sakfelldur samkvæmt ákæru og var háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing E ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 1.800.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Hann krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og að refsing hans verði þyngd.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, en frá refsingu ákærða skal draga gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður, en frá refsingu ákærða, Eugenio Daudo Silva Chipa, skal draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 23. maí 2009 til 4. nóvember sama ár.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 639.601 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Steinunnar Guðbjartsdóttur og Þórdísar Bjarnadóttur, 62.250 krónur til hvorrar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 19. júní 2009 á hendur Eugenio Daudo Silva Chipa, kennitala 290479-2589, Fífuseli 14, Reykjavík, fyrir nauðgun með því að hafa að morgni fimmtudagsins 21. maí 2009, í húsasundi við Trönuhraun 6 í Hafnarfirði, veist að A og haft samræði við hana með því að beita hana ofbeldi og sumpart notfært sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar. Við atlöguna hlaut A fjölmarga áverka á líkama og höfði, meðal annars punktblæðingu í hársverði, glóðarauga á vinstra auga, mar og bólgu á vinstri kinn og vanga, mar og rispur við munnvik og hægra megin í andliti, hrufl, roða og mar á herðum, spjaldhrygg og rasskinn, fleiður og mar á fótleggjum, hnjám og utanvert á vinstra læri, roða og eymsli á ytri kynfærum og eymsli í leggöngum.
Er háttsemi ákærða talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. maí 2009 til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk kostnaðar vegna þóknunar við réttargæslu.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt fimmtudagsins 21. maí 2009 kl. 07.16, fékk lögregla á þeim tíma, tilkynningu um að kona væri stödd að Trönuhrauni 6 í Hafnarfirði, sem orðið hafi fyrir líkamsárás. Tilkynnandi er skráður C. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var á vettvangi rætt við C. Kemur fram að C hafi greint frá því að hann hafi verið á leið á júdóæfingu í Trönuhrauni 6. Hafi hann séð A koma gangandi yfir bifreiðastæði á bak við hús nr. 6. Hafi A sagt honum að hún hafi orðið fyrir líkamsárás og að hún væri búin að óska eftir aðstoð lögreglu. Hafi C greint frá því að hann hafi einnig hringt eftir aðstoð lögreglu til að ítreka það að A þyrfti aðstoð. C hafi greint frá því að hann hafi rétt A peysu sína yfir grindverk sem hafi verið á milli þeirra, en A hafi aðeins verið klædd í ermalausan kjól. Er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi A setið á hækjum sér innan við grindverk sem hafi verið á milli húsa nr. 6 og 4 við Trönuhraunið. Hafi hún verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hún hafi verið klædd í hnésíðan ermalausan kjól og verið með peysu yfir öxlum. Þá hafi hún verið bæði berfætt og skólaus. Hún hafi haldið á steini í vinstri hendi. Í fyrstu hafi A ekki getað greint frá því sem komið hafi fyrir, en síðan lyft kjólnum og sagt ,,sjáðu hvað hann gerði“ og bent á sár á báðum hnjám og framan á báðum sköflungum. Hafi lögreglumaður veitt því athygli að hún hafi ekki verið í nærbuxum. A hafi verið með glóðarauga á vinstra auga og marin og bólgin á vinstra kinnbeini. Við bæði munnvik hafi verið roði. Hár hennar hafi allt verið í flóka og hún með rusl í hárinu. Þá hafi hún verið illa áttuð og ekki vitað hvar hún var.
Í frumskýrslu kemur fram, að A hafi smátt og smátt farið að segja hvað fyrir hana hafi komið. Hafi hún greint frá því að hún hafi verið að skemmta sér með vinnufélögum sínum. Um miðnættið hafi hópurinn tvístrast og farið niður í bæ. Hafi A, ásamt vinkonu sinni B og eiginmanni B, farið á skemmtistaðinn Dubliners. Inni á Dubliners hafi hún hitt mann sem hafi verið dökkur á hörund og klæddur í Adidas íþróttagalla. Hafi maðurinn boðið henni í glas sem hún hafi pantað á barnum. Hafi maðurinn reynt við hana inni á staðnum en hún ekki haft áhuga. Hafi A hætt að tala við hann en rekist á hann öðru hverju á meðan hún hafi verið inni á staðnum. A hafi farið út af Dubliners um kl. 04.00 um nóttina og ætlað heim. Um leið hafi hún reynt að hringja í dóttur sína og eiginmann. Þegar hún hafi komið út hafi hún hitt manninn aftur og hann boðið henni far. Fram að þessu hafi maðurinn verið mjög almennilegur og hún því þegið farið. Myndi hún lítið eftir bílferðinni en henni hafi fundist eins og þau ækju Sæbrautina því maðurinn hafi rætt um að hann ætti bát í heimalandi sínu. Myndi hún eftir því þegar þau hafi verið að fara út úr bifreiðinni, en þá hafi maðurinn reynt að kyssa hana. Hafi hún ýtt honum burt og sagt við hann að hún væri gift. Maðurinn hafi þá snarbreyst, orðið reiður, rifið í hár hennar og lamið höfði hennar upp við húsvegg. Síðan hafi hún sagt ,,hann fór upp á mig en hann fékk ekki sáðlát, hann tók mig líka aftan frá og fróaði sér yfir mig“. Hafi hún sagt að maðurinn hafi ýtt henni upp að húsvegg. Hafi hann ,,alltaf ýtt henni upp“ og haldið í hárið. Á einhverjum tímapunkti hafi hann haldið í hár hennar og dregið hana eftir jörðinni. Þá hafi hún sagt ,,hann losaði úr bibbanum yfir mig alla“, en síðan hafi hann hlaupið í burtu. Hafi A greint frá því að maðurinn hafi í tvígang tekið sér pásu en þá gengið fram og til baka. Hafi hún þá reynt að ,,sleikja hann upp“ til að halda honum góðum. Hafi hún sagt við hann ,,eigum við ekki bara að vera vinir“, en þá hafi hann reiðst og ráðist aftur á hana. Hafi A sagt frá því að hún hafi tekið upp stein og ætlað að berja manninn en ekki þorað það. Ekki hafi A getað lýst bifreið þeirri er hún og maðurinn hafi verið í. Verið gæti að einhver annar hafi verið með þeim í bifreiðinni.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram, að hið ætlaða brot hafi átt sér stað milli húsa við norður hlið húss nr. 6 við Trönuhraun. Þar hafi verið peysa af A og ofan á henni ljós hár. Um tvo metra frá peysunni hafi verið svartar sokkabuxur og nærbuxur. Ofan á kassa með brotajárni hafi verið háhælaðir skór. Óskað hafi verið eftir lögreglumönnum frá rannsóknar- og tæknideild lögreglu. A hafi verið ekið á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss til aðhlynningar.
Einar Guðberg Jónsson rannsóknarlögreglumaður hefur ritað lögregluskýrslu eftir viðtal við A á slysadeild. Kemur fram að viðtalið hafi átt sér stað kl. 11.09. Hafi A þá verið undir miklum áhrifum áfengis og í miklu uppnámi. Hafi hún lýst því að hún myndi ekki mikið eftir atburðum næturinnar. Hún hafi þó getað lýst því að hún hafi verið að skemmta sér með vinnufélögum kvöldið á undan. Hafi hún byrjað að drekka áfengi um kl. 17.00 um daginn og drukkið bjór. Hafi hún verið ,,blindfull“ en þó áttuð. Hafi hún farið á skemmtistaðinn Dubliners. Þar hafi hún hitt mann, dökkan á hörund, íklæddan peysu merktri vörumerkinu Adidas. Ekki kvaðst A geta lýst útliti mannsins frekar. Ekki gæti hún lýst atvikum inni á Dubliners. Hún hafi síðan hitt manninn fyrir utan staðinn. Hafi hann boðið henni að koma með í bifreið. Hafi henni fundist hún geta treyst manninum og því þegið farið. Hafi þau sennilega farið í leigubifreið og setið bæði í aftursæti bifreiðarinnar. Hafi maðurinn eitthvað verið að reyna við hana en hún sagt honum að hún væri gift. Ekki myndi hún vel eftir bílferðinni en talið þau vera komin í Dugguvog í Reykjavík. Það hafi síðan reynst vera iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Það næsta er hún myndi hafi verið að hún hafi verið að slást við manninn og að reyna að verjast honum. Hafi hún verið mjög hrædd. Ekki hafi hún viljað lýsa fyrir lögreglumanninum hvað maðurinn hafi gert við hana. Hún hafi tekið upp grjót og ætlað að reyna að verja sig með því, en ekki þorað að nota það. Þegar maðurinn hafi verið búinn að klára hafi hann farið. Ekki hafi A útskýrt hvað fælist í því að klára. Í skýrslu rannsóknarlögreglumannsins kemur fram að annar rannsóknarlögreglumaður hafi rætt við tvö vitni. F hafi tjáð lögreglumanni að hann hafi verið á leið til vinnu kl. 06.00 um morguninn og er hann hafi komið í Trönuhraunið hafi hann séð til karlmanns, dökkan á hörund, halda á konu, hvítri á hörund, á hestbaki. Hafi konan slegið í rass karlmannsins. Hafi konan verið berfætt og F því ekki fundist óeðlilegt að maðurinn héldi á henni. Konan hafi virst með fullri meðvitund.
Í skýrslu rannsóknarlögreglumannsins kemur fram, að kl. 13.30 á fimmtudeginum hafi Einar Guðberg farið að skemmtistaðnum Dubliners í Hafnarstræti. Hafi hann fengið aðgang að eftirlitsmyndavélakerfi staðarins og skoðað upptökur úr öllum vélum. Hafi hann fundið A í fylgd manns sem hafi verið dökkur á hörund. Hafi sá verið íklæddur dökkum leðurjakka og í dökkri hettupeysu innanundir jakkanum. Hafi hann verið með dökka húfu á höfði. Vél nr. 3 taki myndir frá bar skemmtistaðarins á neðri hæð. Á stuttu myndskeiði kl. 04.53 sjáist maðurinn kaupa drykk á barnum. Á myndskeiðinu frá kl. 04.49 til 04.58 sjáist maðurinn og A dansa, faðmast og kyssast. Þá deili þau bjór sem maðurinn hafi keypt. Vél nr. 11 taki myndir í anddyri staðarins. Kl. 05.37 sjáist maðurinn við útgang staðarins en skömmu síðar komi dyravörður með A og vísi henni út. Maðurinn hafi um leið farið út af staðnum. Vél nr. 9 taki myndir fyrir utan skemmtistaðinn. Kl. 05.38 til 05.39 sjáist A og maðurinn yfirgefa staðinn. Samkvæmt myndskeiði hafi A virst eiga mjög erfitt með gang væntanlega sökum ölvunar. Hafi hún og maðurinn gengið austur Hafnarstræti í átt að Pósthússtræti og horfið sjónum í grennd við Landsbankann í Austurstræti.
Skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A liggur fyrir í rannsóknargögnum málsins. Fram kemur að A hafi komið í skoðun kl. 08.50 fimmtudaginn 21. maí 2009. Í skýrslunni kemur fram lýsing A á atvikinu. Í lýsingu hennar kemur m.a. fram, að árásarmaðurinn hafi skyndilega umbreyst og reiðst og farið að rífa í hár hennar. Hafi henni fundist hann ætla að rífa af sér hárið og allt skinnið. Hafi hann hent höfði hennar í vegg og kýlt hana og reynt að komast upp á hana. Hafi A tekist að hindra það í fyrstu. Hafi hún tekið vel á móti og reynt að sleikja manninn upp með því að segjast vera vinur hans. Myndi hún að maðurinn ,,tróð limnum upp í hana og jagaðist og þetta var ógeðslega sárt“ Hafi hann farið aftan að henni og ,,í leggöng með liminn og jagaðist og jagaðist og þetta var ógeðslega sárt“. Hafi hún talið manninn fá það í leggöng og utan á rasskinnar hennar. Myndi hún að hún hafi þá verið liggjandi. Í frásögn sjúklings í skýrslunni er merkt við kynmök í leggöng, getnaðarlim settan í munn, sáðlát að því er haldi. Ekki sé vitað hvort kynfæri hafi verið sett í munn eða hvort smokkur hafi verið notaður. Um ástand við skoðun er skráð að A hafi verið í losti, hún hafi búið við óraunveruleikakennd, framsetning verið samhengislaus, hún verið eirðarlaus, fengið grátköst og verið óttaslegin. Hún hafi verið í hnipri, með skjálfta, hroll og vöðvaspennu. Hún hafi haft tíð þvaglát. Hún hafi verið með fjölmarga áverka í andliti. Hún hafi verið með mar á vinstri kinn og vanga og með glóðarauga. Hún hafi verið mjög bólgin. Hún hafi verið með rauðar rákir við munnvik, rispur á hægri kinn og utanvert við hægri augabrún þar sem sjá hafi mátt sár. Hár hafi allt verið í miklum flóka, aðallega vinstra megin og hafi þar húðblæðingar verið að sjá í hársverði, eymsli og lausar hárflyksur. Áverkar á höfði séu eftir þung högg eða mikinn þrýsting af hörðu undirlagi. A hafi verið með hrufl, roða, mar og eymsli yfir spjaldhrygg. Djúpt þríhyrningslaga mar, eymsli og veikur blámi sé yfir miðri rasskinn. Roði og rispur hér og hvar sé dreift yfir herðasvæði. Ástæða áverka á baki, rassi og herðum geti t.d. verið eftir núning eða hart undirlag. A sé með stórt djúpt mar utanvert á vinstra læri 13 x 5 cm og sé þar nær jafn löng rauð rispa í miðið. Hún sé með hrufl og fleiður á hnjám, rispur, mar á leggjum og fleiður við vinstri ökkla utanvert. Áverkar geti verið eftir högg og eða þrýsting af hörðu undirlagi og rispur eftir eitthvað hrjúft. A sé aum í leggangaopi og sé roði rétt neðan við þvagrásarop. Þá sé hún hvellaum efst í leggöngum. Í niðurstöðu læknis kemur m.a. fram að skoðun staðfesti fjöláverka sem geti vel komið heim og saman við frásögn. Blóð hafi verið tekið til alkóhólrannsóknar merkt 1731.
Í niðurstöðu matsgerðar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 9. júní 2009 kemur fram að í blóðsýni sem tekið hafi verið og sé merkt NM-1731 hafi mælst 2.20 af alkóhóli í blóði og yfir 3 í þvagi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýni að hlutaðeigandi hafi verið undir miklum áhrifum áfengis þegar blóðsýnið hafi verið tekið.
Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu vegna vattvangsrannsóknar við Trönuhraun 6 í Hafnarfirði og er skýrslan merkt V-12-1 í rannsóknargögnum málsins. Fram kemur að vettvangur hafi verið ljósmyndaður og leitað lífsýna. Í skýrslunni eru uppdrættir af vettvangi sem og ljósmyndir. Fatnaður hafi fundist í húsasundinu og hann haldlagður. Í skýrslu Tæknideildar merkt V-13-1 kemur fram um prófun á fatnaði. Niðurstaða rannsóknarinnar er að í kjól hafi fundist blettir sem gefið hafi jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem sæði. Smásjársýni hafi einnig getið til kynna að í blettunum væri að finna sáðfrumur. Séu því til staðar lífsýni sem nothæf séu til DNA kennslagreiningar. Í framangreindri skýrslu Tæknideildar er að finna ljósmyndir sem teknar voru af A á Neyðarmóttöku 21. maí 2009, en fram kemur að myndirnar hafi verið teknar af starfsmanni Neyðarmóttökunnar. Loks hefur Tæknideild ritað skýrslu vegna rannsóknar á fatnaði og réttarlæknisgögnum ákærða. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að á skóm ákærða hafi fundist tveir blettir sem gefið hafi jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem sæði. Jafnframt hafi fundist sáðfrumur í smásjársýni sem útbúið hafi verið úr öðrum blettanna. Séu því til staðar gögn sem nothæf séu til DNA kennslagreiningar.
Lögreglumaðurinn Jóhann Björn Skúlason hefur ritað lögregluskýrslu laugardaginn 23. maí 2009 kl. 5.19 vegna málsins. Fram kemur að skýrslan sé rituð vegna upplýsinga um ætlaðan geranda í málinu en við aðalmeðferð málsins kom fram að innan lögreglunnar hafi verið dreift upplýsingum um mann dökkan á hörund og konu sem hafi verið henni samferða í Hafnarstræti að morgni fimmtudagsins 21. maí, en lögregla hafi viljað hafa uppi á manninum. Samkvæmt skýrslunni hafi lögreglumenn verið að aka Hafnarstræti í almennu eftirliti. Kl. 05.39 hafi lögreglumenn veitt athygli manni og konu við Hafnarstræti 8. Hafi maðurinn komið að lögreglubifreiðinni og viljað ræða við lögreglu. Konan hafi setið á tröppu húsnæðis Landsbankans og virst talsvert ölvuð. Maðurinn hafi hins vegar ekki virst ölvaður. Hafi hann greint lögreglu frá því að bifreið hans hafi verið stolið skömmu áður. Hafi lögreglumenn tekið niður upplýsingar um manninn, Eugenio Daudo Silva Chipa, ákærða í máli þessu. Manninum hafi verið lýst sem þeldökkum, klæddur íþróttafatnaði og með derhúfu. Konan hafi verið klædd í síðan kjól. Hún hafi síðan staðið á fætur og gengið í burtu en ekki virst vilja ræða við lögreglu. Maðurinn hafi farið á eftir. Einhver samskipti hafi verið á milli þeirra. Hafi lögreglubifreiðinni verið ekið inn á Lækjargötu og lögreglumenn séð manninn og konuna fara inn í leigubifreið við gatnamót Austurstrætis. Hafi Jóhann Björn þekkt A sem konuna með ákærða við athugun á mynd í ökuskírteinaskrá lögreglu.
Föstudaginn 22. maí 2009 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna nauðgunar. Er tekið fram að árásarmaðurinn hafi þá verið ókunnur. Við skýrslutöku hjá lögreglu þennan dag lýsti hún atvikum málsins.
Ákærði var handtekinn af lögreglu föstudaginn 22. maí 2009 kl. 18.41. Gaf hann skýrslu hjá lögreglu vegna málsins næsta dag. Var hann aftur yfirheyrður af lögreglu 28. maí 2009 og 11. júní 2009. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins. Ákærði hefur greint þannig frá atvikum málsins að hann hafi verið að skemmta sér á skemmtistaðnum Dubliners í Reykjavík aðfaranótt fimmtudagsins 21. maí 2009. Hafi hann verið á staðnum á milli kl. 03.00 og 03.30 um nóttina. Á staðnum hafi hann hitt A. Þau hafi spjallað saman og dansað. Hafi þau rætt það inni að verða samferða út af staðnum. A hafi farið út af staðnum og ákærði tveimur til fimm mínútum síðar. Ekki hafi þau rætt sérstaklega hvað þau ætluðu að gera í framhaldinu en legið hafi í loftinu að þau myndu eiga góða stund saman. Hafi þau bæði vitað hvað myndi gerast í framhaldinu og að það hafi verið að hafa samfarir saman. Ákærði hafi lagt bifreið sinni í Hafnarstræti rétt hjá Dubliners. Þegar ákærði hafi séð að bifreið hans var horfin hafi hann rætt við lögreglumenn í lögreglubifreið á ferð þar rétt hjá. Ákærði og A hafi tekið leigubifreið saman. Hafi A sest í framsætið en ákærði aftursæti bifreiðarinnar. A hafi síðan klifrað yfir í aftursætið til ákærða. Í lögregluyfirheyrslu 23. maí 2009 bar ákærði að þau hafi rætt um að hafa samfarir og konan sagst búa í Hafnarfirði. Hafi þau því beðið bifreiðastjórann um að aka til Hafnarfjarðar. Þau hafi farið út úr bifreiðinni rétt hjá veitingastaðnum American Style í Hafnarfirði. Við skýrslutöku hjá lögreglu 28. maí 2009 bar ákærði á sama veg og að A hafi gefið fyrirmæli um að aka til Hafnarfjarðar þar sem hún ætti heima þar. Er ákærða var bent á að lögreglu væri kunnugt um að ákærði væri með dvalarstað að Dalshrauni 13 í Hafnarfirði breytti ákærði framburði sínum og bar að líklegt væri að þau hafi ætlað heim til ákærða að Dalshrauni 13 þar sem ákærði hafi verið með dvalarstað. Var framburður ákærða fyrir dómi á sama veg og kvaðst hann hafa gefið leigubifreiðastjóranum fyrirmæli um að aka til Hafnarfjarðar. A hafi kvartað undan því að hún finndi til í fótunum. Af þeim ástæðum hafi ákærði borið hana á bakinu. Við einhverjar tröppur hafi ákærði hrasað og þau bæði dottið í jörðina. Þau hafi fundið húsasund og byrjað að kyssast. Eitt hafi leitt af öðru. Við lögregluyfirheyrslu bar ákærði að A hafi farið úr nærbuxum og sokkabuxum, en ákærði dregið gallabuxur sínar niður að ökkla. Fyrir dómi bar ákærði hins vegar að A hafi tekið sokkabuxur og nærbuxur að ökkla en ekki farið alveg úr þeim. A hafi haft við hann munnmök. Í framhaldi hafi hún lagt peysu sína á jörðina og lagst á bakið. Ákærði hafi lagst ofan á hana og þau haft samfarir. A hafi kvartað undan því að steinn væri að stingast í bakið á henni og þau því breytt um stellingu. Þá hafi hún beygt sig fram og ákærði verið fyrir aftan hana og aftanfrá haft við hana samfarir í leggöng. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að honum hafi orðið sáðlát. Þau hafi hætt. Ákærði hafi hysjað upp um sig buxurnar, tekið upp síma sinn og farið að athuga með hringingar í hann. Hafi hann kvatt A, sem þá hafi verið að pissa og með buxurnar á hælum. Hafi hann í framhaldinu farið. Hafi hann hringt í barnsmóður sína og fengið leyfi hennar til að koma til hennar. Ekki kvaðst ákærði viss um hvað klukkan hafi verið er hann hafi hringt í barnsmóður sína. Ákærði hafi náð í leigubifreið í nágrenninu og farið að Fífuseli 14 í Reykjavík. Ákærði kvaðst sennilega hafa drukkið fjóra bjóra um nóttina. A hafi ekki verið ofurölvi en nokkuð drukkin. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt A neina áverka þessa nótt og ekki hafa séð neina áverka á henni er hann hafi yfirgefið hana.
A kvaðst hafa verið að skemmta sér með vinnufélögum sínum umrædda nótt. Hafi hún farið með þeim í miðbæ Reykjavíkur en þau síðan orðið viðskila. Hafi hún verið orðin ein á ferð og farið á skemmtistaðinn Dubliners. Hafi hún verið búin að drekka þó nokkurt magn af bjór frá því kl. 18 til 19 um daginn. Hún hafi ekki þurft að drekka mikið af áfengi til að verða ölvuð. Myndi hún eftir að hafa fengið sér bjór á Dubliners. Maður, svartur á hörund, hafi gefið sig fram við hana á staðnum og boðið henni bjór að drekka. Myndi hún lítið eftir samskiptum við manninn sökum ölvunarástands síns. Þá myndi hún ekki eftir að hafa dansað við manninn. Hafi hún sennilega verið inni á staðnum í um tvo klukkutíma. Myndi hún ekki eftir að hafa yfirgefið staðinn, en myndi eftir því að hafa verið stödd í Hafnarstræti. Kvaðst hún staðfesta, að myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi skemmtistaðarins Dubliners, sem henni hafi verið sýndar undir rannsókn málsins, væru af henni. Finnist henni eins og maðurinn hafi sagt að hann væri með bifreið og gæti skutlað henni. Myndi hún ekki eftir sér aftur, fyrr en hún hafi verið í átökum við manninn. Hafi hún sennilega verið í einhverju porti, berfætt, búið að klæða hana úr leggings buxum og nærbuxum. Vissi hún ekki hvernig það hafi atvikast að hún hafi farið úr þessum flíkum. Maðurinn hafi ráðist á hana og verið mjög heiftúðugur. Hafi hann verið brjálaður í framan. Myndi hún eftir því að maðurinn hafi haldið um getnaðarlim sinn og verið að ota honum að andliti hennar. Hafi maðurinn verið að reyna að eiga við hana samfarir, en að því er hún héldi, ekki tekist. Gæti hún þó ekki sagt til um hvort honum hafi tekist að koma getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Myndi hún síðan eftir að vera komin með stein í hendi. Hafi maðurinn alltaf verið að rífa í hárið á henni og draga hana um. Hafi hún reynt að vingast við manninn til að ofbeldinu myndi ljúka. Þá myndi hún eftir að hafa legið á fjórum fótum og maðurinn verið fyrir aftan hana. Í lögregluyfirheyrslu greindi hún frá því að maðurinn hafi sennilega fengið sáðlát yfir rassinn á henni en þó væri hún ekki viss um það atriði. Hafi hann verið flóttalegur og í framhaldinu komið sér á brott. Stuttu síðar hafi hún orðið vör við tvo pilta á bak við járngrindverk. Myndi hún eftir að hafa kallað til þeirra og beðið þá um að hringja í lögreglu. Myndi hún eftir því að hafa hringt sjálf í lögreglu um líkt leyti og maðurinn hafi farið frá henni. Myndi hún ekki eftir því er lögregla hafi komið á vettvang eða þegar hún hafi verið flutt á slysadeild. Þó myndi hún eftir læknisskoðun sem hún hafi farið í. Kvaðst A hafa talið sig í lífshættu þegar árásarmaðurinn hafi ráðist á hana. Hafi hún verið mjög hrædd og óttaslegin. A kvað atburðinn hafa haft mikil áhrif á sig. Væri mikil skömm tengd honum og sjálfsásökun. Hafi hún reynt að halda atburðinum leyndum fyrir sínum nánustu. Líðan hennar væri hræðileg.
C kvaðst hafa beðið í Trönuhrauni 6 að morgni fimmtudagsins 21. maí 2009, ásamt D, en þeir hafi verið að fara á júdóæfingu. Hafi þeir verið að bíða eftir þjálfara sínum og því vitað hvað tímanum hafi liðið. Hafi C verið mættur á staðinn kl. 06.48 en kl. 07.13 hafi C og D orðið varir við konu koma á milli húsa. Hafi konan byrjað að hrópa á hjálp og gengið að rimlahliði er hafi verið á milli þeirra. Hafi C séð að konan var lemstruð og fötin rifin á hnjám. Þá hafi hún ekki verið í neinum skóm. Hafi hún sagt eitthvað eins og ,,hann lamdi mig“. Hafi C farið úr jakka sem hann hafi verið í og rétt konunni í gegnum rimlahliðið. Konan hafi verið með stein í hendi. Hafi hún sagt að hún hafi hringt á lögreglu. Hafi C engu að síður hringt á lögreglu til að árétta útkallið. Stuttu síðar hafi lögregla komið á vettvang. Hafi konan ekki lýst árásarmanninum að öðru leyti en að hann hafi verið dökkur á hörund. Hafi hún sagt að hún hafi fengið far með honum. Konan hafi greinilega verið ölvuð og sjokkeruð. Ekki hafi C orðið var við nein hróp eða köll á meðan hann hafi beðið eftir þjálfara sínum.
D skýrði frá atvikum með sambærilegum hætti og C. Hafi hann ásamt C beðið við Trönuhraunið eftir þjálfara þeirra en á staðinn hafi D komið kl. 06.50. Hlið sem hafi verið inn í port hafi verið lokað en þjálfarinn verið með lykil að portinu. Hafi D og C séð konuna koma að hliðinu hinum megin frá, en þá hafi klukkan verið 07.13. Konan hafi greinilega verið í sjokki og beðið um hjálp. Hafi hún talað um að maður hafi ráðist á hana. Þeir hafi reynt að róa konuna niður á meðan beðið hafi verið eftir lögreglu. Hafi þeir beðið í um 15 mínútur þar til lögregla kom. Hafi það ekki verið fyrr en lögregla kom að grindverkið hafi verið opnað og konan komið í gegnum hliðið. Hafi það verið læst og þjálfari þeirra með lykil að hliðinu. Hafi D tekið eftir því að kjóll konunnar hafi verið rifinn og hún haldið á steini í hendi. Hafi konan talað um dökkan mann sem ráðist hafi á sig. Ekki hafi D orðið var við nein köll á meðan hann hafi beðið eftir þjálfara sínum.
E kvað ákærða vera barnsföður sinn. Hafi ákærði komið til B að kvöldi miðvikudagsins 20. maí. Hafi hann farið í bæinn um kl. 01.00 eftir miðnættið, en þar hafi hann ætlað að hitta bróður sinn. Ákærði hafi hringt í E á milli kl. 05.45 og 05.47 um nóttina og látið E vita að bifreið hans hafi verið stolið. Ákærði hafi hringt aftur kl. 07.20 um morguninn og spurt hvort hann mætti koma heim til hennar. Hafi hann sagt að hann hafi týnt lyklum sínum. Heim til hennar hafi ákærði komið kl. 07.45. Er þangað kom hafi þau rætt saman og ákærði m.a. vilja að hringt yrði í lögreglu vegna stuldar á bifreiðinni. Ákærði hafi á þessum tíma verið drukkinn. Ekki hafi hún séð þess merki að ákærði hafi lent í átökum um nóttina.
Fyrir dóminn komu lögreglumennirnir Ágústa Ringsted, Einar Guðberg Jónsson og Jóhann Björn Skúlason. Gerðu lögreglumennirnir grein fyrir sínum þætti í rannsókn málsins. Ágústa kvaðst hafa komið á vettvang í Trönuhrauni 6. Er Ágústa hafi komið á vettvang hafi A setið á hækjum sér og verið með stein í hendi. Hafi hún grátið og verið í uppnámi. Hafi hún lyft kjól sínum og sagt ,,sjáðu hvað hann gerði“. Hafi Ágústa tekið eftir því að konan var ekki í nærbuxum. Hafi hún bent á stað þar sem sokkabuxur, nærbuxur og skór hennar hafi verið. Hafi hún tjáð Ágústu að hún hafi hitt mann á skemmtistaðnum Dubliners um nóttina og hafi maðurinn verið dökkur á hörund. Maðurinn hafi reynt við A og m.a. boðið henni í glas. Hún hafi síðan hitt manninn aftur fyrir utan staðinn og hann boðið henni far. Bifreiðinni hafi verið ekið til Hafnarfjarðar. Er þangað kom hafi maðurinn ætlað að kyssa hana en hún ýtt honum frá sér. Hafi maðurinn orðið reiður og rifið í hár hennar. Hafi A sagt að maðurinn hafi farið upp á sig og dregið hana um á hárinu. Hafi hann fróað sér yfir hana en því hafi hún lýst á þann hátt að hann hafi ,,losað úr bibbanum yfir hana“. Að því loknu hafi hann hætt og hlaupið á brott. Ágústa kvað konuna greinilega hafa verið ölvaða. Áfengislykt hafi verið af henni, auk þess sem hún hafi verði þvoglumælt. Farið hafi verið með konuna á Neyðarmóttöku. Ágústa hafi tekið niður frásögn konunnar á vettvangi sem og í lögreglubifreiðinni á leið á Neyðarmóttökuna. Frásögnin hafi verið punktuð niður og síðan skráð í lögregluskýrslu eftir að á lögreglustöð var komið.
Einar Guðberg kvaðst hafa stjórnað rannsókn málsins. Eftir að A hafi greint frá því að þeldökkur maður sem hún hafi hitt á Dubliners þessa nótt hafi veist að henni, hafi nærmynd af manninum úr eftirlitsmyndavélakerfinu á Dubliners verið dreift innan lögreglukerfisins. Á föstudeginum hafi lögreglumaður sett sig í samband við Einar og greint frá því að dökkur maður og kona hafi komið að lögreglubifreið í Austurstræti umrædda nótt vegna stolinnar bifreiðar. Viðkomandi lögreglumaður hafi skoðað mynd í ökuskírteinaskrá af brotaþola í kynferðisbrotamálinu og staðfest að um sama einstakling væri að ræða. Teknar hafi verið niður upplýsingar um þann sem komið hafi að lögreglubifreiðinni um nóttina vegna þjófnaðarins. Ákærði hafi verið boðaður á lögreglustöð og Einar borið þar kennsl á hann sem manninn á mynd úr eftirlitsmyndavélakerfinu á Dubliners en m.a. hafi maðurinn enn verið í sömu fötunum. Hafi ákærði verið handtekinn í framhaldi af því. Einar kvaðst hafa rætt stuttlega við A á Neyðarmóttöku. A hafi greinilega verið mjög sjokkeruð og lítið getað sagt. Hafi hún einungis sagt að maður hafi lamið hana og nauðgað henni. Einar kvaðst hafa farið á skemmtistaðinn Dubliners í framhaldi af þessu og skoðað þar myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi staðarins. Hafi hann gert grein fyrir þeirri skoðun sinni í lögregluskýrslu á meðal rannsóknargagna málsins. Ákærði hafi verið settur í réttarlæknisfræðilega skoðun. Við þá skoðun hafi ekki komið í ljós neinir áverkar á ákærða.
Jóhann Björn Skúlason kvaðst hafa verið á ferð í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt fimmtudagsins 21. maí 2009. Um morguninn hafi komið að lögreglubifreiðinni maður, dökkur á hörund, og tilkynnt um þjófnað á bifreið. Hafi kona verið með manninum. Manninum hafi verið bent á að fara á lögreglustöð en engu að síður upplýsingar verið teknar niður um hann og bifreiðina. Konan í fylgd mannsins hafi virst mjög ölvuð. Hafi hún hallað sér upp að vegg húsnæðis Landsbankans í Austurstræti. Maðurinn hafi hins vegar ekki verið eins ölvaður og hafi það komið Jóhanni sérkennilega fyrir sjónir. Næsta dag hafi Jóhann séð mál í lögreglukerfinu þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um mann sem hafi svipað til þess manns sem komið hafi að lögreglubifreiðinni um nóttina. Þá hafi nafn brotaþola verið komið fram. Hafi Jóhann skoðað mynd af brotaþolanum í ökuskírteinaskrá og þar borið kennsl á konuna og manninn frá því aðfaranótt fimmtudagsins 21. maí. Hafi Jóhann ritað lögregluskýrslu um málið í kjölfarið.
Ósk Ingvadóttir læknir staðfesti skýrslu sína um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Konan hafi verið illa leikin og með mikið af áverkum á skrokki. Hún hafi verið í slæmu andlega ástandi. Komið hafi í ljós að konan hafi verið hárreitt en punktablæðing hafi verið í hársverði. Í hári hennar hafi fundist hárvöndull sem geti hafa verið hár úr árásarmanninum. Ekki væri útilokað að A hafi fengið einhverja áverka við það að liggja á hnjám á ójöfnu undirlagi en aðrir áverkar hafi verið það djúpir að þeir hafi komið af einhverju þungu. Ósennilegt verði að telja að konan hafi fengið þá áverka sem hún hafi greinst með í samförum sem farið hafi fram með vilja hennar en áverkarnir hafi verið það víða um líkamann. Hún hafi greinst hvellaum efst í leggöngum. Sú greining útiloki ekki neitt og segi ekki til um hvort viðkomandi hafi haft samfarir eða ekki.
Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur staðfesti sálfræðivottorð sitt vegna A. A hafi komið fjórum sinnum til Rögnu, síðast daginn fyrir aðalmeðferð málsins. A hafi verið greind þannig að hún hafi orðið fyrir áfalli og kynferðislegu ofbeldi. Hafi henni liðið mjög illa og verið mjög hrædd. Væri hún enn í miklu áfalli og sýndi mjög alvarleg streitueinkenni. Væri enda stutt síðan atburðurinn hafi átt sér stað. Væri það þekkt í tilvikum sem þessum að þolendur kynferðisofbeldis færu að kenna sér um verknaðinn. Væri skömmin vegna verknaðarins erfið að lifa með. Þá yki minnisleysi tengdu atburðinum á hinar andlegu afleiðingar. Þyrfti viðkomandi þolandi að ná samhengi í hlutina til að koma atvikinu aftur fyrir sig til að geta horft fram á veginn. Hafi A reynt að mæta þeim ótta sem hún byggi við. Hafi hún t.a.m. í því skyni með eiginmanni sínum farið aftur á brotavettvang. Erfitt væri að segja til um batahorfur en A yrði áfram í tímum hjá Rögnu.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök nauðgun með því að hafa að morgni fimmtudagsins 21. maí 2009, í húsasundi við Trönuhraun 6 í Hafnarfirði, veist að A og haft samræði við hana með því að beita hana ofbeldi og sumpart að hafa notfært sér það að A hafi ekki getað spornað við samræðinu sökum ölvunar. Við atlöguna á A að hafa hlotið fjölmarga áverka sem nánar er lýst í ákæru. Eru brot ákærða talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Kveðst hann hafa verið A samferða frá Hafnarfirði undir morgun og þau haft samfarir í húsasundi við Trönuhraun 6. Hafi samfarirnar verið með fullum vilja A. Er ákærði hafi yfirgefið hana um morguninn hafi A enga sjáanlega áverka verið með.
Í málinu liggur fyrir að tveir menn á leið á júdóæfingu urðu A varir í næsta nágrenni við húsasund það sem ákærði og A voru í þennan morgun. Ber þeim saman um að kl. 07.13 hafi A komið til þeirra og þá verið með sjáanlega áverka og í miklu uppnámi. Klukkan 07.16 fékk lögregla tilkynningu um atburðinn en fyrir liggur lýsing lögreglumanna sem komu á vettvang á ástandi A. Einnig liggur fyrir að ákærði hringdi í barnsmóður sína kl. 07.20 þennan morgun og fór í beinu framhaldi af því heim til hennar að Fífuseli 14 í Reykjavík.
Framburður ákærða er að mati dómsins ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins. Ákærði hefur lýst því að hann og A hafi þennan morgun haft samræði í húsasundinu við Trönuhraunið og hafi það verið með vilja beggja aðila. A hafi veitt honum munnmök auk þess sem þau hafi haft samræði í leggöng og A legið á bakinu við þær aðstæður. Myndir í rannsóknargögnum málsins sýna þetta húsasund. Verður að telja einkar ósennilegt að ákærði og A hafi valið sér þennan stað til að hafa samræði þegar litið er til aðstæðna á vettvangi, en þær eru einkar óaðlaðandi til slíkra athafna. Þá er framburður ákærða ekki trúverðugur um hvernig samskiptum hans og A lauk þennan morgun. Fær ekki staðist að samskiptum þeirra hafi lokið jafn skyndilega og ákærði lýsir eftir jafn náin kynni og ákærði hefur borið um. Þá er loks til þess að líta að ákærði hefur undir meðförum málsins orðið missaga um förina til Hafnarfjarðar. Í fyrstu lögregluyfirheyrslu staðhæfði hann að A hafi tjáð leigubifreiðastjóranum að aka skyldi til Hafnarfjarðar en þar hafi hún átt heima. Við síðari yfirheyrslu, eftir að ákærða hafði verið bent á að hann hafi á þessum tíma verið með dvalarstað í Hafnarfirði, breytti ákærði framburði sínum að þessu leyti og kvaðst þá sjálfur hafa gefið leigubifreiðastjóranum fyrirmæli um að aka til Hafnarfjarðar, en hann hafi ætlað að dvalarstað sínum.
Framburður A hefur á móti verið trúverðugur, að því leyti sem hún man atvik. Rannsókn á áfengisinnihaldi í blóði hennar sýnir að hún hefur verið undir miklum áhrifum áfengis um morguninn. Þá sést af myndskeiði úr myndavélum nr. 9 og 11 úr eftirlitsmyndavélakerfi skemmtistaðarins Dubliners í Hafnarstræti í Reykjavík, að A hefur verið mjög ölvuð er hún yfirgaf staðinn og hefur dyravörður þurft að halda henni uppi til að koma henni út af staðnum. Loks gefa framburðir vitna, sem afskipti höfðu af henni um morguninn, og framburður sálfræðings til kynna að eitthvað mjög alvarlegt kom fyrir A þennan morgun.
Þegar litið er til þess klukkan hvað ákærði og A yfirgáfu Dubliners þessa nótt, klukkan hvað ákærði hringdi til barnsmóður sinnar þennan morgun, klukkan hvað A gaf sig fram við vitni í næsta nágrenni vettvangsins er að mati dómsins útilokað að A hafi orðið fyrir barðinu á öðrum en ákærða þennan morgun. Við læknisskoðun greindist A með mikla líkamlega áverka sem styðja þá lýsingu er A gaf á atvikinu í viðræðum við lögreglumann á vettvangi. Þá lýsingu endurtók hún við lækni skömmu síðar. Líkindi eru fyrir því að áfall það sem A varð fyrir þennan morgun hafi lokað fyrir minningu um atburðinum þegar frá leið. Sé það ástæða þess að hana brestur minni til einstakra þátta í atburðarásinni við síðari skýrslugjöf hjá lögreglu sem og við skýrslugjöf við aðalmeðferð málsins.
Þegar til ofangreindra atriða málsins er litið og hliðsjón höfð af ótrúverðugum framburði ákærða, er að mati dómsins sannað að ákærði hafi veist að A í húsasundinu þennan morgun. A hefur við skýrslugjöf fyrir dómi ekki getað fullyrt hvort ákærði hafi haft við hana samræði um morguninn. Því lýsti hún hins vegar við lögreglumann í beinu framhaldi af atburðinum sem og hjá lækni. Þegar til þess er litið telur dómurinn óhætt að leggja til grundvallar að ákærði hafi, gegn vilja hennar, haft samræði við A. Sæðisblettir á fatnaði A, sem og á skóm ákærða, styðja þá niðurstöðu. Hinir miklu líkamlegu áverkar sem A bar eftir atburðinn slá föstu að ákærði hefur þurft að yfirvinna líkamlega mótspyrnu til að hafa samræði við hana. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur í apríl 1979. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem máli skiptir um ákvörðun refsingar í málinu. Ákærði hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir nauðgun sem fram fór í afskekktu húsasundi í iðnaðarhverfi. Lék hann konuna illa og olli henni miklum líkamlegum áverkum. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 2., 7. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 23. maí 2009.
Réttargæslumaður hefur fh. A krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist bóta að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að um sé að ræða gróft ofbeldi og kynferðisbrot gagnvart ókunnugri konu. Hafi ákærði misnotað sér ástand brotaþola og beitt hana hrottalegu ofbeldi. Sé krafan studd þeim rökum að brotið hafi valdið brotaþola umtalsverðum miska. Sé verknaðurinn til þess fallinn að skaða sjálfsmynd brotaþola til frambúðar og valda henni ótta og óöryggi. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið, vottorða og vættis Rögnu Ragnarsdóttur sálfræðings sem og þess sem fram kom við meðferð málsins, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miklum miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins, og þá sér í lagi þeirra miklu líkamlegu áverka er hún hlaut, eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.800.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Eugenio Daudo Silva Chipa, sæti fangelsi í 4 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 23. maí 2009.
Ákærði greiði A, 1.800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2009 til 11. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 569.888 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 278.880 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur héraðsdómslögmanns, 167.328 krónur.