Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-27

Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson (Sigurður Jónsson lögmaður), dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Karl Lárus Hjaltested , Sigurður Kristján Hjaltested (Sigmundur Hannesson lögmaður), Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
Kópavogsbæ (Guðjón Ármannsson lögmaður) og til vara dánarbúi Þorsteins Hjaltested (Gísli Guðni Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Eignarnám
  • Eignarnámsbætur
  • Óbeinn eignarréttur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 18. janúar 2021 leita Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Karl Lárus Hjaltested, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja beint til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 í máli nr. E-1362/2014, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kópavogsbær leggst gegn beiðninni en dánarbú Þorsteins Hjaltested leggur það í mat Hæstaréttar hvort skilyrði séu til að verða við henni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda, sem eru lögerfingjar í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, um bætur úr hendi gagnaðila Kópavogsbæjar til fyrrnefnds dánarbús vegna fjögurra tilgreindra skipta sem gagnaðilinn Kópavogsbær tók hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda eignarnámi. Í áðurnefndum dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að kröfur leyfisbeiðenda um eignarnámsbætur væru fyrndar í þremur tilvika. Leyfisbeiðendur fengu aftur á móti dæmdar bætur vegna fjórða tilviksins.

 Leyfisbeiðendur byggja á því að skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms í málinu til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Leyfisbeiðendur telja brýnt að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu enda sé dómsniðurstaða í því mikilvægur liður í opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem hafi staðið yfir í tæplega 54 ár. Þá telja leyfisbeiðendur að sakarefni málsins sé fordæmisgefandi um réttarsamband handhafa beins og óbeins eignarréttar og muni hafa almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna á sviði eignaréttar og kröfuréttar. Auk þess leiði af þeim fjárhæðum og öðrum hagsmunum sem undir séu í málinu að dómur í því komi til með að hafa gríðarlega samfélagslega þýðingu. Að sama skapi séu persónulegir hagsmunir leyfisbeiðenda stórfelldir. Loks benda leyfisbeiðendur á að engin þörf sé á vitnaleiðslum í málinu á áfrýjunarstigi og að enginn ágreiningur sé um sönnunargildi framburðar sem gefinn hafi verið fyrir héraðsdómi.

Að virtum gögnum málsins er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni um leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu til Hæstaréttar hafnað.