Hæstiréttur íslands
Mál nr. 88/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Mánudaginn 14. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 88/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Páll Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. febrúar 2011, klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að hann sæti ekki einangrun. Þá krefst hann „kærumálskostnaðar, að mati dóms, fyrir meðferð máls fyrir héraðsdómi og fyrir Hæstarétti Íslands.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Skilja verður kröfu varnaraðila svo, sbr. og dóm Hæstaréttar 20. janúar 2011 í máli nr. 48/2011, að hann krefjist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Samkvæmt 38. gr. og 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki skilyrði til að fallast á slíka kröfu.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 16. febrúar 2011 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að frá því 30. september 2010 hafi verið þó nokkuð um innbrot í veitingastaði og verslanir í miðborg Reykjavíkur og telji þau nú á sjöunda tug. Aðferðin hafi oft verið sú sama, þ.e. brotin hafi verið rúða, farið inn og stoppað í stuttan tíma, stolið áfengi og peningum úr sjóðsvél og farið út aftur. Breyti þar engu um hvort öryggiskerfi sé á staðnum. Lögreglu hafi í nokkurn tíma grunað kærða um að eiga aðild að mörgum þessara innbrota. Hafi því verið ákveðið að skyggja ferðir hans og nú í nótt hafi hann verið handtekinn en hann hafi í tvígang sést á ferð við [...] við [...][...], Reykjavík en þar hafi verið brotist inn í nótt og stolið humri og áfengi. Þýfið hafi fundist í bifreiðinni sem kærði var í ásamt öðrum aðila sem hafi leitt til handtöku kærða.
Lögregla hafi til rannsóknar framangreint innbrot í [...] sem og önnur innbrot en verknaðaraðferðin hafi sem fyrr segir mjög oft verið sú sama. Lögregla hafi borið kennsl á kærða á myndbandi þar sem hann sjáist ásamt öðrum óþekktum aðila fara inn í [...] og [...] við [...] en þaðan hafi verið stolið peningum og áfengi, þann 5. febrúar sl. Þá hafi blóð fundist á a.m.k. tveimur öðrum innbrotsstöðum en eftir sé að rannsaka hvort það tilheyri kærða. Þá megi einnig nefna innbrot í [...] frá 5. desember sl. en kærði hafi neitað sök þar en fingrafar hans hafi fundist á vettvangi og þá séu einnig myndskeið í málinu en kærði neiti að vera sá sem myndirnar sýna. Í því innbrot hafi gluggi verið spenntur upp og peningar teknir úr sjóðsvél. Þá hafi stundum sést til kærða við innbrotsstaði og megi þar nefna mál sem varði innbrot í [...] frá 23. desember sl. en þar hafi verið brotin rúða í hurð og hurðin opnuð innanfrá í gegnum gatið. Þaðan hafi verið stolið áfengi og reiðufé úr sjóðsvél. Lögreglumaður hafi séð til kærða á hlaupum nærri vettvangi.
Kærði hafi ítrekað komið við sögu lögreglu vegna fjölda brota og eigi að baki langan sakaferil en hann hafi á ferli sínum verið dæmdur í samtals um 15 ár í fangelsi.
Verið sé að rannsaka fjöldamörg innbrot í veitingastaði og verslanir í miðborg Reykjavíkur á undaförnum mánuðum, sem kærði kunni að eiga aðild að. Það sé því mat lögreglu að brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin vera á að hann kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, svo sem með því að tala við mögulega samverkamenn sína og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð og koma undan þýfi. Einnig sé dvalarstaður kærða óþekktur. Þá þurfi lögregla ráðrúm til að ná utan um alla anga þessara mála.
Lagarök:
Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Eins og að framan er rakið vinnur lögregla að rannsókn fjölmargra innbrota sem kærði er grunaður um að eiga aðild að. Rannsókn þessi er á frumstigi en með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem getur varðað hann fangelsisrefsingu.
Er því fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé uppfyllt hér. Er krafa um gæsluvarðhald tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b. liður 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 16. febrúar 2011 kl., 16:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.