Hæstiréttur íslands

Mál nr. 412/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 29

 

Miðvikudaginn 29. október 2003.

Nr. 412/2003.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Hallvarður Einvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að máli ákæruvaldsins á hendur honum yrði vísað frá dómi. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að máli ákæruvaldsins á hendur honum yrði vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi og sér dæmdur málskostnaður.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt i. lið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 sætir úrskurður héraðsdómara, þar sem synjað er um frávísun opinbers máls, ekki kæru til Hæstaréttar. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2003.

                Málið höfðaði lögreglustjórinn í Kópavogi með ákæru útgefinni 12. júní 2003 á hendur ákærða X , til refsingar fyrir ætlað brot á 1. mgr. 4. gr. 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 57/1997 og 82/1998, „með því að hafa aðfararnótt (sic) fimmtudagsins [...], ekið bifreiðinni A, undir áhrifum áfengis, um Q, uns bifreið hans hafnaði á bifreiðinni B við hús nr. [...], og síðar á bifreiðinni C við hús nr. [...], og að hafa þegar horfið af vettvangi umferðaróhappsins. “

[...]

II.

Ákærði reisir frávísunarkröfu á 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem heimili að bera megi undir dómara ágreining um lögmæti rann­sóknarathafna lögreglu eða ákæranda svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir.

                [...]

IV.

Í 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir að bera megi undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir.

Á það verður fallist með ákæranda að spurning um lögmæti tiltekinna aðgerða rannsóknarlögreglu eða ákæranda verður ekki með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991 borin undir dómara eftir að rannsókn málsins er lokið og eftir þingfestingu ákæru.

                Þegar af þeirri ástæðu er frávísunarkröfu ákærða hafnað og koma því ekki til frekari skoðunar hér málsástæður ákærða er lúta að annmörkum á rannsókn málsins hjá lögreglu sem styðja eiga frávísun málsins.

                Ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíður þar til endanlega verður leyst úr málinu.

                Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Krafa ákærða X um frávísun málsins [...] er hafnað.

                Krafa um málskostnað bíður endanlegs dóms.