Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-329
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sveitarfélög
- Gjaldtaka
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 18. desember 2021 leitar Sérverk ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. nóvember sama ár í máli nr. 468/2020: Sérverk ehf. gegn Reykjavíkurborg á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili gerir tilteknar athugasemdir við beiðni leyfisbeiðanda en telur þó að þeir hagsmunir, sem málið lýtur að, kunni að vera þess efnis að rétt sé að Hæstiréttur fjalli um þá.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til samnings gagnaðila og þáverandi lóðarhafa á tilgreindu svæði í Reykjavík. Í samningnum gengust lóðarhafar undir þá skyldu að greiða gagnaðila svokallað innviðagjald sem ætlað var að standa straum af uppbyggingu svæðisins til íbúðabyggðar. Leyfisbeiðandi keypti nánar tilgreinda lóð á svæðinu af lóðarhafa og greiddi gagnaðila framangreint innviðagjald. Í kjölfarið höfðaði hann mál gegn gagnaðila þar sem krafist var endurgreiðslu á gjaldinu þar sem gjaldtakan væri ólögmæt.
4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2020 var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að telja yrði að í framangreindu samkomulagi gagnaðila og þáverandi lóðarhafa hefði falist ráðstöfun einkaréttarlegra hagsmuna. Innviðagjaldinu yrði hvorki jafnað til skatta né þeirra þjónustugjalda sem ekki yrðu á lögð nema samkvæmt skýrri lagaheimild. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að heimta gjaldsins yrði því hvorki talin fara í bága við lögmætisregluna né ákvæði 40., 77. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var ekki talið að gagnaðili hefði brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um jafnræði, málefnaleg sjónarmið og meðalhóf við gerð samkomulagsins og innheimtu gjaldsins. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila var því staðfest.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því efni vísar hann meðal annars til þess að í málinu reyni á gjaldtökuheimildir sveitarfélaga án lagaheimildar. Meginreglan sé sú að ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga sé í höndum löggjafans og tekjuöflun þeirra skuli byggð á lögum hvort sem um er að ræða skatta eða þjónustugjöld. Leyfisbeiðandi telur því mikilvægt að fá skýrt fordæmi Hæstaréttar um heimild sveitarfélaga til tekjuöflunar á einkaréttarlegum grundvelli, þar með talið hvort og þá hvaða skorður séu reistar við tekjuöflun af þessu tagi. Þá sé þýðingarmikið að fá skýrar leiðbeiningar um að hvaða leyti sveitarfélög eru bundin af reglum stjórnsýsluréttar við gjaldtöku af þessum toga. Í málinu reynir samkvæmt framangreindu á grundvallarreglur eigna- og stjórnsýsluréttar auk ákvæða í stjórnarskrá um tekjustofna sveitarfélaga og skattlagningarvald þeirra. Úrslit málsins hafi jafnframt verulegt almennt gildi í ljósi þess að gagnaðili og fleiri sveitarfélög hafi í auknum mæli á síðustu misserum aflað sér tekna með einkaréttarlegum gerningum. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.