Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2017
Lykilorð
- Ríkisstarfsmenn
- Niðurlagning stöðu
- Biðlaun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2017. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 1.573.596 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.695 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, af 777.390 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2016, af 1.175.493 krónum frá þeim degi til 1. mars 2016 og af 1.573.596 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
I
Áfrýjandi sem er sérfræðingur í heimilislækningum starfaði sem yfirlæknir hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í Grafarvogi frá árinu 2012 og þar áður sem heilsugæslulæknir í Reykjavík í 21 ár. Með bréfi 25. september 2015 var áfrýjanda tilkynnt að vegna skipulagsbreytinga væri starf hans sem yfirlæknir lagt niður frá og með 1. október 2015. Jafnframt sagði að um rétt áfrýjanda til greiðslna vegna niðurlagningarinnar færi eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við þau lög. Var í bréfinu tekið fram að áfrýjandi ætti rétt til bóta sem næmi föstum mánaðarlaunum í tólf mánuði frá 1. október 2015 að telja. Síðar tókst samkomulag um að greiðslur biðlauna til handa áfrýjanda skyldu hefjast 1. nóvember 2015.
Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 kemur fram að sé starf sem fellur undir ákvæði laganna lagt niður eigi starfsmaður rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr. laganna en samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar skal starfsmaður, þegar starf er lagt niður, halda óbreyttum launakjörum á biðlaunatímanum. Ágreiningslaust er að áfrýjandi eigi rétt til biðlauna í tólf mánuði samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 og að þau eigi samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laganna að samsvara óbreyttum launakjörum á meðan hann starfaði sem yfirlæknir. Á hinn bóginn er ágreiningur um hvaða launaliðir falli undir óbreytt launakjör í skilningi ákvæðisins. Meðan áfrýjandi starfaði sem yfirlæknir fékk hann greidd mánaðarlaun fyrir 100% starf hjá heilsugæslunni og 15% álag á þau. Telur stefndi að réttur áfrýjanda til biðlauna takmarkist við þessa tvo launaliði og hefur greitt honum biðlaun samkvæmt því. Á starfstíma sínum sem yfirlæknir fékk áfrýjandi auk mánaðarlauna og álags greitt sérstaklega fyrir útgáfu læknisvottorða, fyrir vaktir milli klukkan 16:00 og 18:00 á daginn og fyrir læknisverk unnin á þeim vöktum samkvæmt gjaldskrá. Er málsókn áfrýjanda á því reist að greiðslur vegna þessara launaliða falli undir föst laun hans og þar með óbreytt launakjör og því nái réttur hans til biðlauna einnig til þeirra.
II
Áfrýjandi er sem fyrr segir sérfræðingur í heimilislækningum og var yfirlæknir á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi þegar starf hans var lagt niður frá og með 1. október 2015. Á starfstöð áfrýjanda var þjónustu við sjúklinga þannig hagað að á dagvinnutíma milli klukkan 08:00 og 16:00 voru tímar bókaðir fyrirfram og fékk sjúklingur þá að jafnaði viðtal hjá sínum heilsugæslulækni. Heilsugæslan var einnig opin eftir dagvinnutíma frá klukkan 16:00 til 18:00 fyrir sjúklinga sem gátu mætt og beðið eftir tíma og stóðu læknar heilsugæslustöðvarinnar þær vaktir til skiptis. Mun þetta fyrirkomulag í Grafarvogi hafa verið í samræmi við þá þjónustu sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veitti almennt sjúklingum á starfsvæði sínu.
Laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna voru fram til ársins 2006 ákveðin af kjaranefnd, sbr. lög nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, en hafa frá árinu 2006 verið ákveðin með kjarasamningi milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar. Um gæsluvaktir lækna með sérfræðileyfi á sjúkrahúsum og heilsugæslu utan dagvinnu giltu á þeim tíma sem hér skiptir máli ákvæði í kafla 4.4 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar frá 7. janúar 2015. Gildistími samningsins var frá 1. júní 2014 til 30. apríl 2017 og í grein 4.4.3 voru ákvæði um tvenns konar gæsluvaktir, gæsluvakt 1 og gæsluvakt 2. Um þær báðar gilti að lækni með sérfræðileyfi sem stóð vaktirnar var ekki skylt að dveljast á þeirri stofnun sem hann stóð vaktina fyrir. Í fyrra tilvikinu bar honum að koma á vettvang án tafar í útkalli en í hinu síðara mátti hann vera allt að tvær klukkustundir að komast á vettvang. Í grein 4.4.4 sagði: „Greitt skal fyrir gæsluvaktir samkvæmt fyrirfram metnu vinnuálagi og því er ekki greitt sérstaklega fyrir mælt vinnuframlag á hverri vakt fyrir sig.“ Í kjarasamningnum voru einnig ákvæði um hvernig meta skyldi vinnuálag á gæsluvakt og flokka þær til samræmis við slíkt mat, svo og hvenær vinnuveitandi gæti endurmetið „hlutfall gæsluvaktarálags“. Samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins gat læknir með sérfræðileyfi því sinnt skyldu sinni til að standa gæsluvakt með því að dvelja utan stofnunar en sinna útköllum og fékk hann greiðslu fyrir þessar vaktir óháð því hvort um útköll var að ræða eða ekki.
Í grein 4.1.3 í kjarasamningnum frá 7. janúar 2015 var mælt fyrir um yfirvinnu- og vaktaskyldu þar sem þess var talin þörf. Þar sagði að læknir væri „undanþeginn skyldu til að sinna vöktum frá 55 ára aldri.“ Áfrýjandi náði þeim aldri í desember 2007 en ágreiningslaust er að hann stóð gæsluvaktir til jafns við aðra einnig eftir það tímamark og þar til starf hans var lagt niður. Krafa áfrýjanda um greiðslur vegna gæsluvakta er miðuð við meðaltal þeirra greiðslna sem hann fékk fyrir vaktirnar á tímabilinu frá janúar til ágúst 2015. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 650/2016 verður lagt til grundvallar að stefndi hafi ekki fært að því haldbær rök, að skipan gæsluvakta áfrýjanda frá nóvember 2015 til febrúar 2016 hefði verið hagað á annan veg en gert var frá janúar til ágúst 2015, ef starf hans hefði ekki verið lagt niður. Greiðslur vegna gæsluvakta voru á þeim tíma sem hér skiptir máli ekki háðar vinnuframlagi áfrýjanda og verða því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa slíkar greiðslur verið taldar falla undir biðlaun, sbr. til dæmis dóma réttarins 29. mars 1990 í máli nr. 283/1988 og áðurgreindan dóm í máli nr. 650/2016. Útreikningi áfrýjanda á þessum kröfulið hefur ekki verið mótmælt og verður hann því tekinn til greina.
III
Í annan stað er um það deilt hvort til biðlauna áfrýjanda eigi að telja greiðslur fyrir unnin verk á gæsluvöktum en greitt var fyrir þau samkvæmt gjaldskrá. Krafa áfrýjanda samkvæmt þessum lið styðst við þau rök að til þess að halda óbreyttum launakjörum á biðlaunatímanum eigi hann rétt til þessara greiðslna eins og annarra þátta heildarlaunagreiðslna. Frá janúar til ágúst 2015 hafi hann fengið greiddar samtals 2.055.014 krónur vegna gjaldskrár eða 256.876 krónur á mánuði að meðaltali. Sýknukrafa stefnda er reist á því að á gæsluvöktum njóti læknir greiðslu fyrir gjaldskrárverk að því marki sem hann inni þau af hendi. Gjaldskrá beri með sér að greiðslur fari eftir vinnuframlagi læknis og ráðist þær samkvæmt því af fjölda sjúklinga og læknisverka hverju sinni. Þar sem greiðslurnar séu breytilegar eigi ekki að inna þær af hendi á biðlaunatíma.
Um greiðslur fyrir gjaldskrárverk var fjallað í bókun 5 með kjarasamningnum frá 7. janúar 2015 sem gilti eins og áður segir frá 1. júní 2014 til 30. apríl 2017. Í bókuninni var þess fyrst getið að aðilar hafi orðið sammála um endurskoðun á fyrirkomulagi á greiðslum samkvæmt gjaldskrá og um skipun nefndar í því skyni sem skila skyldi tillögum eigi síðar en 15. október 2015. Næðist ekki samkomulag um nýtt fyrirkomulag héldi núverandi fyrirkomulag gildi en viðbótarfjármagn skyldi nýtt til hækkunar á launatöflu. Þá sagði að þágildandi „fyrirkomulag á greiðslum fyrir gjaldskrárverk skv. A, B og C-lið fylgiskjals með úrskurði kjaranefndar dags. 15. október 2002, og samkomulagi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Læknafélags Íslands ... dags. 17. desember 2003 ... heldur gildi sínu þar til aðilar verða sammála um nýtt fyrirkomulag ... Gjaldskrárgreiðslur taka á samningstímanum sambærilegum hækkunum og launatafla.“ Samkvæmt gögnum málsins hefur ekki náðst samkomulag um nýtt fyrirkomulag gjaldskrárverka og var eldra fyrirkomulag því í gildi þegar starf áfrýjanda var lagt niður. Í úrskurði Kjaranefndar 15. október 2002 sagði meðal annars: „Heilsugæslulæknir gegnir vöktum utan dagvinnutíma samkvæmt ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að höfðu samráði við stjórn heilsugæslu ... Auk tímakaups á gæsluvakt er greitt sérstaklega fyrir viðtöl/vitjanir og önnur læknisverk samkvæmt gjaldskrá.“
Áður var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi ætti á biðlaunatímanum rétt til greiðslna fyrir gæsluvaktir og voru þær greiðslur ekki háðar vinnuframlagi af hans hálfu. Þótt fjárhæð greiðslna fyrir læknisverk unnin á gæsluvakt hafi hverju sinni ráðist af fjölda sjúklinga og fjölda læknisverka verður á grundvelli þess fyrirkomulags sem gilti samkvæmt framansögðu um greiðslur fyrir verkin að leggja það að jöfnu við samning um fastar yfirvinnugreiðslur sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa verið taldar falla undir biðlaun. Áfrýjandi miðar kröfu sína samkvæmt þessum lið eins og fyrr segir við meðaltal þeirra launa sem hann fékk fyrir gjaldskrárverk frá janúar til ágúst 2015. Hefur stefndi ekki fært að því haldbær rök að áfrýjandi hefði ekki notið þeirra greiðslna á tímabilinu frá nóvember 2015 til febrúar 2016 ef hann hefði staðið gæsluvaktir. Að þessu gættu og þar sem útreikningi áfrýjanda á kröfuliðnum hefur ekki verið mótmælt verður hann tekinn til greina.
IV
Í þriðja lagi deila aðilar um hvort launaliðurinn „vottorðagreiðslur“ á launaseðlum áfrýjanda eigi að teljast til biðlauna. Krafa áfrýjanda samkvæmt þessum lið er reist á því að meðal skyldna heilsugæslulækna sé útgáfa ýmissa vottorða. Þegar heilsugæslulæknir gefi út slík vottorð innheimti hann ekki gjald fyrir þau hjá sjúklingi heldur greiði heilsugæslan fyrir þau með ákveðnum hætti enda sé hér um að ræða vinnu sem sé hluti af föstu starfi hvers heilsugæslulæknis. Á meðan áfrýjandi hafi verið í starfi sem yfirlæknir hafi hann fengið þennan launalið greiddan en á hinn bóginn ekki sem hluta af biðlaunum. Til þess að áfrýjandi haldi óbreyttum launakjörum á biðlaunatímanum í skilningi 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 beri stefnda að greiða honum þennan launalið. Á tímabilinu frá janúar til ágúst 2015 hafi áfrýjandi fengið greiddar 955.568 krónur fyrir vottorð eða 119.446 krónur að meðaltali á mánuði og sé krafa hans samkvæmt þessum lið við það miðuð auk hækkana sem kveðið sé á um í kjarasamningi. Sýknukrafa stefnda er á því reist að gjaldskrá vegna greiðslna til lækna fyrir læknisvottorð beri með sér að slíkar greiðslur séu háðar tilfallandi vinnuframlagi læknis á hverjum tíma og ráðist samkvæmt því af fjölda læknisvottorða, umfangi þeirra og eðli. Þar sem greiðslurnar séu breytilegar eftir vinnuframlagi eigi ekki að inna þær af hendi á biðlaunatíma.
Í bókun 5 með kjarasamningnum 7. janúar 2015 var jöfnum höndum fjallað um fyrirkomulag á greiðslum samkvæmt gjaldskrá og fyrir vottorð. Eins og áður greinir sagði í bókuninni að næðist ekki samkomulag um nýtt fyrirkomulag byggt á tillögum nefndar þeirrar sem skipuð var skyldi þágildandi fyrirkomulag halda gildi sínu. Fyrir liggur eins og áður er fram komið að samkomulag um nýtt greiðslufyrirkomulag hefur ekki náðst. Í úrskurði kjaranefndar 29. apríl 2002 var kveðið á um greiðslur til heilsugæslulækna fyrir útgáfu læknisvottorða. Í upphafi úrskurðarins sagði að kjaranefnd hefði í úrskurði 13. mars 2002 mælt svo fyrir að öll vinna heilsugæslulækna við útgáfu læknisvottorða teldist hluti af aðalstarfi þeirra og væri þeim því ekki heimilt að taka sérstaka þóknun fyrir útgáfu þeirra umfram það sem kjaranefnd úrskurðaði. Þá sagði í úrskurðinum 29. apríl 2002 að kjaranefnd hefði ekki áður úrskurðað að greiða skyldi sérstaklega fyrir læknisvottorð en það væri mat nefndarinnar að greiða skyldi heilsugæslulæknum sérstaklega fyrir læknisvottorð og þá með þeim hætti sem nánar greindi í IV kafla úrskurðarins. Með þessu teldi kjaranefnd að tekjur heilsugæslulækna af vottorðaskrifum yrðu í samræmi við fjölda vottorða og þá vinnu sem þeir inntu af hendi við skrif þeirra. Þá sagði að við „ákvörðun á greiðslum fyrir einstök læknisvottorð hefur verið litið til umfangs þeirra og þeirrar vinnu sem fólgin er í gerð þeirra. Vakin er athygli á að greiðslur til lækna fyrir vottorð eru launagreiðslur og bera læknar hvorki kostnað af framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð né öðrum launatengdum gjöldum, né heldur greiða þeir fyrir annan rekstrarkostnað.“ Loks sagði að væru „vottorð mjög viðamikil eða sé um meiri háttar læknisfræðilegar greinargerðir að ræða er heilsugæslustöð/heilbrigðisstofnun heimilt að greiða læknum tímakaup fyrir vottorðin“.
Í úrskurði kjaranefndar 15. október 2002 um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna sagði að samkvæmt „11. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd og lögskýringargögnum með lögunum ber kjaranefnd að ákveða heildarlaun og starfskjör þeirra sem undir kjaranefnd heyra. Hún skal jafnframt úrskurða hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega.“ Þá sagði að það væri mat nefndarinnar að öll læknisverk sem unnin væru á heilsugæslustöð tilheyrðu aðalstarfi heilsugæslulækna. Af því leiddi að kjaranefnd bæri að úrskurða hvernig greitt skyldi fyrir þau störf og hefði nefndin ákveðið að fara þá leið sem síðar yrði lýst. Þá sagði: „Heilsugæslulæknar eru launþegar hjá heilsugæslustöðvum/heilbrigðisstofnunum og þiggja fyrir vinnu sína þar föst mánaðarlaun, laun fyrir vaktir og eftir atvikum laun fyrir sérstök læknisverk og viðtöl/vitjanir samkvæmt gjaldskrá.“ Með úrskurðinum var fylgiskjal sem hafði að geyma gjaldskrá heilsugæslulækna og var hún þrískipt. Í kafla A var mælt fyrir um einingarfjölda fyrir viðtöl og vitjanir, í kafla B um einingar fyrir aðgerðir og rannsóknir og í kafla C um gjald í krónum talið fyrir vottorð. Var þar greint á milli annars vegar vottorða á eyðublöðum Tryggingarstofnunar ríkisins vegna almannatrygginga eða bóta félagslegrar aðstoðar og hins vegar fyrir útgáfu annarra læknisvottorða. Tekið var fram að „önnur vottorð ótalin greiðist eins og sambærileg vottorð. Séu vottorð mjög viðamikil eða sé um meiri háttar læknisfræðilegar greinargerðir að ræða er heilsugæslustöð/heilbrigðisstofnun heimilt að greiða læknum yfirvinnutímakaup fyrir þann tíma sem unnið er við gerð þeirra.“
Fjárhæð greiðslna til heilsugæslulækna fyrir ritun læknisvottorða ræðst að sönnu af fjölda vottorða og umfangi þeirra hverju sinni og getur fjárhæðin þannig verið mismunandi frá einum tíma til annars eins og stefndi hefur bent á. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að ritun læknisvottorða er samkvæmt því sem áður er fram komið hluti af aðalstarfi heilsugæslulækna og þannig órjúfanlegur þáttur starfsskyldna þeirra sem greitt er sérstaklega fyrir samkvæmt því fyrirkomulagi um tilhögun greiðslna sem áður er lýst. Það fyrirkomulag verður að leggja að jöfnu við samning um föst viðbótarlaun sem hafa í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið talin falla undir biðlaun. Áfrýjandi miðar kröfugerð sína samkvæmt þessum lið við meðaltal þeirra greiðslna sem hann fékk fyrir ritun læknisvottorða frá janúar til ágúst 2015. Stefndi hefur ekki fært fyrir því haldbær rök að áfrýjandi hefði ekki notið þeirra greiðslna á tímabilinu frá nóvember 2015 til febrúar 2016 ef starf hans hefði ekki verið lagt niður. Útreikningi áfrýjanda samkvæmt þessum lið hefur ekki verið andmælt og verður hann því tekinn til greina.
Niðurstaða málsins í heild er því sú að kröfur áfrýjanda um greiðslur fyrir gæsluvaktir, gjaldskrárverk á gæsluvöktum og útgáfu læknisvottorða eru teknar til greina að fullu ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er. Eftir þeim úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Guðbrandi E. Þorkelssyni, 1.573.596 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 388.695 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, af 777.390 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2016, af 1.175.493 krónum frá þeim degi til 1. mars 2016 og af 1.573.596 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2017
I
Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar 2017, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 2. mars 2016. Stefnandi er Guðbrandur E. Þorkelsson, Stararima 37, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið vegna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Álfabakka 16, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 1.573.596 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 388.695 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, af 777.390 krónum frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016, af 1.175.493 krónum frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016 og af 1.573.596 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Stefndi krefst þess til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn falla niður.
II
Stefnandi starfaði frá árinu 2012 sem yfirlæknir hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í Grafarvogi í Reykjavík. Þar áður hafði stefnandi starfað sem heilsugæslulæknir í 21 ár í Reykjavík. Með bréfi, dags. 25. september 2015, var stefnanda tilkynnt að vegna skipulagsbreytinga á starfsemi stofnunarinnar væri starf yfirlæknis á Heilsugæslustöðinni í Grafarvorgi lagt niður og miðaðist niðurlagning starfs við 30. september 2015. Tekið var fram í bréfinu að um rétt stefnanda til greiðslan í tengslum við niðurlagningu starfs færi eftir ákærðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ætti stefnandi rétt til bóta sem næmu föstum mánaðarlaunum í 12 mánuði frá 1. október 2015 að telja.
Hinn 28. sama mánaðar gerðu stefnandi og Heilsugæsla höfuðborgarvæðisins með sér samkomulag. Samkvæmt samkomulaginu myndi stefnandi hefja töku áunnins óúttekins orlofs á tímabilinu 1. október til 31. október 2015. Upphafstími greiðslu biðlauna myndi færast til 1. nóvember sama ár og yrðu biðlaun greidd í 12 mánuði, eða til 31. október 2016. Stefnandi hætti störfum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hóf töku biðlauna 1. nóvember 2015.
Ekki er ágreiningur um að stefnandi á rétt til biðlauna í 12 mánuði á grundvelli 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996, sbr. 1. mgr. 34. gr. sömu laga, og að biðlaunin eigi að samsvara óbreyttum launakjörum stefnanda á meðan hann vann hjá heilsugæslunni. Ágreiningur málsaðila snýst um það hvaða launaliðir falli undir óbreytt launakjör stefnanda.
Meðan stefnandi vann sem yfirlæknir hjá heilsugæslunni fékk hann mánaðarlaun fyrir 100% starf hjá stofnuninni auk 15% álags ofan á mánaðarlaunin. Stefndi telur að réttur stefnanda til biðlauna takmarkist við þessa liði og hefur greitt honum biðlaun samkvæmt því. Á meðan stefnandi vann sem yfirlæknir hjá heilsugæslunni fékk hann að auki greitt fyrir útgáfu læknisvottorða, vaktir milli kl. 16-18 á daginn og læknisverk unnin á þeim vöktum samkvæmt gjaldskrá. Telur stefndi að greiðslur vegna þessara liða falli undir föst laun stefnanda og því nái réttur hans til biðlauna einnig til þessara liða.
III
Stefnandi, sem hefur fengið greidd biðlaun frá 1. nóvember 2015, telur að verulega vanti á að honum hafi verið greidd þau laun á biðlaunatímabili sem hann eigi rétt á. Krafa stefnanda um greiðslu vangreiddra launa byggir á ákvæði til bráðabirgða í XII. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 34. gr. sömu laga. Þar komi fram að sé staða lögð niður skuli starfsmaður, sem ráðinn hafi verið til starfa í tíð laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eiga rétt til greiðslu óbreyttra launakjara í sex eða 12 mánuði og fari lengd tímabilsins eftir starfsaldri.
Stefnandi bendir á að hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda í tíð eldri laga nr. 38/1954 og honum beri því „óbreytt launakjör“ samkvæmt framangreindu bráðabirgðaákvæði laga nr. 70/1996. Stefnandi telur að þau laun, sem hann hafi fengið greidd, tryggi honum ekki óbreytt launakjör og því skorti á að launagreiðslur til hans hafi verið fyllilega efndar af hálfu stefnda.
Stefnandi vísar til þess að viðurkennt sé að laun heilsugæslulækna séu sett saman af ýmsum þáttum. Samkvæmt úrskurði kjaranefndar hinn 15. október 2002 fái heilsugæslulæknir í fullu starfi annað hvort föst laun eða samsett laun. Nánar sé mælt fyrir um slík laun í úrskurði kjaranefndar en þar segi:
1) „Föst mánaðarlaun: Heilsugæslulækni verði greidd föst mánaðarlaun fyrir 100% starf og verði heilsugæslustöð/heilbrigðisstofnun þá heimilt að greiða honum allt að 15% álag ofan á mánaðarlaunin, enda sinni hann ekki öðrum launuðum störfum utan heilsugæslunnar eða heilbrigðisstofnunarinnar
eða
2) Samsett laun: Heilsugæslulækni verði að hluta greidd föst mánaðarlaun og að hluta afkastatengd laun samkvæmt gjaldskrá. Læknir geti þannig innt af hendi allt að 20% af vinnuskyldu sinni á afkastatengdum launum gegn samsvarandi lækkun fastra mánaðarlauna.“
Stefnandi kveðst hafa fengið föst mánaðarlaun fyrir 100% starf, auk 15% álags ofan á laun. Í framangreindum úrskurði kjaranefndar segi að samkvæmt 11. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd og lögskýringargögnum með lögunum beri kjaranefnd að ákveða heildarlaun og starfskjör þeirra sem undir kjaranefnd heyri. Þá skuli kjaranefnd jafnframt úrskurða hvaða aukastörf tilheyri aðalstarfi og hver þeirra beri að launa sérstaklega. Þar komi jafnframt fram það mat kjaranefndar að öll læknisverk, sem unnin séu á heilsugæslustöð, tilheyri aðalstarfi heilsugæslulækna. Um vaktir segi í úrskurðinum að heilsugæslulæknir gegni vöktum utan dagvinnutíma samkvæmt ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að höfðu samráði við stjórn heilsugæslu.
Í áðurnefndum úrskurði kjaranefndar komi fram að vinnuskylda læknis í fullu starfi sé 40 klukkustundir á viku en að læknum sé skylt að taka vaktir þegar þess sé þörf. Á heilsugæslustöðinni í Grafarvogi hafi þjónusta við sjúklinga verið með þeim hætti að heilsugæslan sé opin á hverjum degi frá kl. 16-18 fyrir sjúklinga sem geti mætt og beðið eftir tíma hjá lækni. Aðrir tímar sjúklinga milli kl. 8-16 hafi verið bókaðir fyrirfram. Vaktirnar milli kl. 16-18 hafi hins vegar verið unnar af læknum heilsugæslustöðvarinnar til skiptis en fyrirkomulagið sé í samræmi við þá þjónustu sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi ákveðið að veita skuli sjúklingum.
Í úrskurði kjaranefndar sé tekið fram að heilsugæslulæknum sé skylt að taka vaktir þegar þess sé þörf. Vaktirnar kl. 16-18 hafi óhjákvæmilega verið hluti af föstu starfi stefnanda eins og hjá öðrum heilsugæslulæknum og hafi hann ekki átt neitt val um það. Laun fyrir þessar vaktir hafi verið í formi greiðslu fyrir gæsluvaktir annars vegar og hins vegar sem hlutfall af gjaldskrá þannig að hver heilsugæslulæknir hafi fengið greitt fyrir vinnu á vöktum samkvæmt gjaldskrá. Slíkt fyrirkomulag sé í samræmi við ofangreindan úrskurð kjaranefndar.
Stefnandi krefst þess að honum verði greidd laun á biðlaunatímabili vegna gæsluvakta og einnig samkvæmt gjaldskrá. Stefnandi vísar til þess að í framangreindum úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002 segi um vaktir: „Heilsugæslulæknir gegnir vöktum utan dagvinnutíma samkvæmt ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að höfðu samráði við stjórn heilsugæslu.“..„Auk tímakaups á gæsluvakt er greitt sérstaklega fyrir viðtöl/vitjanir og önnur læknisverk samkvæmt gjaldskrá.“ Þá byggi launaliðurinn „gæsluvakt 1“ einnig á ákvæði 3.6 í kjarasamningi. Samkvæmt ákvæðinu fái læknar með sérfræðileyfi á sjúkrahúsum og heilsugæslu greitt fyrir gæsluvaktir en samkvæmt kafla 4.4 í kjarasamningi sé greitt fyrir gæsluvakt þar sem viðkomandi lækni sé skylt að standa vaktina og koma á vettvang án tafar ef þörf sé á.
Stefnandi byggir á því að hefði hann verið í starfi sínu sem yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar, hefði honum borið að sinna gæsluvöktum og að slíkar greiðslur hefðu verið hluti launa hans eins og áður. Til þess að stefndi uppfylli skyldu sína um að greiða stefnanda „óbreytt launakjör“ á biðlaunatíma, beri honum því að greiða stefnanda þá launaliði sem nefndir séu „gjaldskrá“ og „gæsluvakt“ á launaseðli. Stefnandi bendir á að á tímabilinu frá janúar til ágúst 2015 hafi hann fengið greiddar 98.984 krónur vegna gæsluvakta eða að meðaltali 12.373 krónur á mánuði.
Stefnandi vísar til þess að í framangreindum úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002 sé tekið fram að með úrskurðinum sé leitast við að tryggja heilsugæslulæknum kjör sem séu sambærileg við kjör sérfræðinga á sjúkrahúsum. Um gjaldskrá segi í úrskurðinum: „Heilsugæslulækni, sem innir af hendi allt að 20% af dagvinnuskyldu sinni á sérstakri móttöku á afkastatengdum launum, sbr. kafla IX. 1.B og 4, skal greiða laun fyrir þann hluta starfsins samkvæmt gjaldskrá. Hið sama gildir um laun fyrir læknisverk og vitnanir/viðtöl á vöktum.“ Þá sé í úrskurðinum sundurliðað hvernig laun samkvæmt þessum lið skyldu reiknuð út. Gefin hafi verið eining fyrir hvert læknisverk sem síðan sé margfölduð með krónum.
Stefnandi vísar til þess, að á tímabilinu frá janúar til ágúst 2015 hafi stefnandi fengið greiddar 2.055.014 krónur vegna gjaldskrár eða að meðaltali 256.876 krónur á mánuði. Hinn 1. janúar 2016 hafi öll laun lækna hækkað og þar með greiðslur sem nefndar séu „gjaldskrá“ á launaseðlum, eins og önnur laun, eða um 2,5%.
Stefnandi telur að til þess að hann haldi „óbreyttum launakjörum“ á biðlaunatíma, eigi hann rétt til launagreiðslna samkvæmt launaliðum, sem nefndir séu „gæsluvakt“ og „gjaldskrá“, eins og annarra þátta heildarlaunagreiðslna hans með vísan til ofangreindra raka vegna kjarasamnings, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992, um kjaradóm og kjaranefnd, sbr. einnig ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 47/2006, um kjararáð.
Stefnandi byggir á því að ógreidd laun hans vegna gæsluvakta og gjaldskrár á tímabilinu nóvember 2015-janúar 2016 séu eftirfarandi:
1) Vegna nóvember 2015:
- gæsluvakt kr. 12.373,-
- gjaldskrá kr. 256.876,-
2) Vegna desember 2015:
- gæsluvakt kr. 12.373,-
- gjaldskrá kr. 256.876,-
3) Vegna janúar 2016:
- gæsluvakt kr. 12.373,-
- gjaldskrá kr. 263.298,-
4) Vegna febrúar 2016:
- gæsluvakt kr. 12.373,-
- gjaldskrá kr. 263.298,-
Að því er varðar greiðslur fyrir útgáfu vottorða, bendir stefnandi á að starf heilsugæslulækna feli jafnframt í sér skyldu til að gefa út ýmis konar vottorð. Þá innheimti heilsugæslulæknir ekki gjald fyrir vottorðið hjá sjúklingi, heldur sé viðurkennt að þeir fái greitt fyrir þessi verk sín með tilteknum hætti og að þessi vinna sé hluti af föstu starfi hvers heilsugæslulæknis. Læknirinn geri vottorðin í vinnutíma sínum eftir því sem þörf sé á fyrir sjúklinga heilsugæslunnar.
Stefnandi vísar til þess að í úrskurði kjaranefndar 29. apríl 2002 hafi verið úrskurðað um greiðslur til heilsugæslulækna fyrir útgáfu læknisvottorða. Þar segi komi fram að kjaranefnd hafi áður úrskurðað á þann veg, að útgáfa læknisvottorða tilheyri aðalstarfi heilsugæslulækna. Þá segi í úrskurðinum: „Við ákvörðun á greiðslum fyrir einstök læknisvottorð hefur verið litið til umfangs þeirra og þeirrar vinnu sem fólgin er í gerð þeirra. Vakin er athygli á því að greiðslur til lækna fyrir vottorð eru launagreiðslur og bera læknar hvorki kostnað af framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð né öðrum launatengdum gjöldum, né heldur greiða þeir fyrir annan rekstrarkostnað.“
Stefnandi hafi fengið þessa launaliði greidda þegar hann var í starfi sínu sem yfirlæknir en hann hafi hins vegar ekki fengið þá greidda sem hluta af biðlaunum sínum. Til að stefnandi haldi óbreyttum launakjörum á biðlaunatímabili samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996 þurfi stefndi að greiða honum þessa launaliði, enda beri að greiða honum sambærileg laun og hann hefði haft ef hann hefði verið í vinnu á tímabilinu. Ef hann hefði verið við vinnu í stað þess að vera á biðlaunum, hefði hann sinnt vöktum eins og hann hefði gert öll þau ár sem hann var í starfi og hann hefði skrifað öll nauðsynleg vottorð fyrir sjúklinga eins og hann hefði alltaf gert í samræmi við skyldur sínar.
Á tímabilinu frá janúar til ágúst 2015 hafi stefnandi fengið greiddar 955.568 krónur fyrir vottorð eða að meðaltali 119.446 krónur á mánuði. Stefnandi miðar við meðaltal þessara mánaða í kröfugerð sinni og telur ógreidd laun sín að þessu leyti sundurliðast þannig:
1) Vegna nóvember 2015:
- Vottorð kr. 119.446,-
2) Vegna desember 2015:
- Vottorð kr. 119.446,-
3) Vegna janúar 2016:
- Vottorð kr. 122.432,-
4) Vegna febrúar 2016:
- Vottorð kr. 122.432,-
Stefnandi gerir kröfu um hækkun vegna allra launa sinna í janúarmánuði 2016, eins og kveðið sé á um í kjarasamningi eða 2,5% hækkun, sbr. ákvæði í grein 3.1.3 í kjarasamningi.
Stefnandi byggir kröfur sínar fyrst og fremst á kjarasamningi Læknafélags Íslands frá 7. janúar 2015 með gildistíma til 30. apríl 2017. Auk þess er byggt á úrskurðum kjaranefndar frá 29. apríl 2002 og 15. október 2002, lögum nr. 70/1996, lögum nr. 120/1992, um kjaradóm og kjaranefnd, sbr. ákvæði laga nr. 47/2006, um kjararáð. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi rekur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, og er óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar.
IV
Stefndi bendir á að í stefnu sé í nokkrum tilvikum vísað til úrlausna kjaranefndar, annars vegar frá 29. apríl 2002 og hins vegar frá 15. október 2002, án þess að gerð sé grein fyrir því, á hvern hátt þær úrlausnir varði biðlaunarétt stefnanda. Stefndi áréttar í því sambandi að kjarasamningur fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands gildi um laun og önnur starfskjör stefnanda og hafi því að meginstefnu til leyst af hólmi umræddar úrlausnir kjaranefndar. Úrlausnir kjaranefndar geti því einungis átt við um viðfangsefnið að því marki sem mælt sé fyrir um gildi þeirra í kjarasamningi og vísar að því leyti einkum til bókunar 5.
Stefndi bendir á að orðalagið „óbreytt launakjör“ í merkingu 34. gr. laga nr. 70/1996 hafi verið skýrt með hliðsjón af ákvæði 14. gr. eldri starfsmannalaga, þ.e. laga nr. 38/1954, en þar hafi komið fram að við niðurlagningu stöðu, skyldi starfsmaður jafnan fá „föst laun“ sem starfanum fylgdu, greidd í sex eða 12 mánuði eftir því hvort viðkomandi hefði verið skemur eða lengur en 15 ár samtals í þjónustu ríkisins. Við alla framkvæmd og túlkun á rétti starfsmanna til óbreyttra launakjara á biðlaunatíma hafi verið byggt á því, að hlutaðeigandi njóti fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu og fastrar ómældrar yfirvinnu, sbr. Hæstaréttardóm 29. mars 1990 í máli réttarins nr. 283/1988, sem og orlofsuppbótar og persónuuppbótar, sbr. Hæstaréttardóm frá 19. október 1995 í máli réttarins nr. 93/1994. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 283/1988 hafi enn fremur verið staðfestur sá skilningur að orlofsfé reiknist ekki ofan á eða til viðbótar við biðlaunagreiðslur. Vísanir stefnanda til þeirra úrlausna kjaranefndar fái að mati stefnda engu breytt um þann skilning sem liggi til grundvallar orðalaginu „óbreytt launakjör“, þ.e. að með orðalaginu sé fyrst og fremst átt við fastar og reglubundnar greiðslur sem ekki taki breytingum frá einum mánuði til annars.
Stefndi telur að málatilbúnaður stefnanda fari gegn framkvæmd laga nr. 70/1996 um greiðslur á biðlaunatíma og dómafordæmum þar að lútandi. Stefnandi virðist byggja á því að hann eigi lögvarða kröfu til að njóta sömu launa og hann ella hefði haft, hefði hann verið áfram við störf eða svokallaðra staðgengilslauna eða meðaltalslauna. Í því felist að til viðbótar við föst mánaðarlaun (taxtalaun), „sérstakt 15% álag“ og „sérstakt álag 55 ára gengur vaktir“ telji stefnandi sig eiga að njóta breytilegra greiðslna vegna tilfallandi starfa og verkefna, eins og vegna gæsluvakta sem og annarra greiðslna, raunar afkastatengdra, vegna gjaldskrárverka og útgáfu læknisvottorða.
Breytilegar greiðslur vegna tilfallandi starfa og verkefna séu að jafnaði háðar aðstæðum og ákvörðunum eða vali starfsmanns á hverjum tíma, t.d. hvort hann kjósi að ganga gæsluvaktir eða vera undanþeginn slíkum vöktum. Þá séu greiðslur fyrir gæsluvaktir og gjaldskrárverk háðar því að stefnandi hafi raunverulega gengið gæsluvaktir og innt af hendi þau verkefni sem til gjaldskrárverkefna teljast. Greiðslur fyrir gjaldskrárverk séu bundnar við það að starfsmaður inni slík verk af hendi og séu síðan mældar í samræmi við afköst á hverjum tíma. Á sama hátt séu greiðslur fyrir vottorð breytilegar og bundnar við það að starfsmaður sinni slíkri útgáfu og greiðist í samræmi við fjölda, eðli og stærð slíkra læknisvottorða á hverjum tíma.
Stefndi fái ekki ráðið hvernig þær úrlausnir kjaranefndar sem vísað sé til í stefnu snerti ágreining málsaðila. Samkvæmt IX. kafla úrskurðar nefndarinnar frá 15. október 2002 sé með „föstum mánaðarlaunum“ átt við öll laun fyrir viðtöl og önnur læknisverk á dagvinnutíma. Sinni læknir ekki öðrum launuðum störfum utan heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar reiknist 15% álag ofan á þau laun. Stefndi bendir á að enda þótt vísað sé til þess í úrskurðinum að öll læknisverk sem unnin séu á heilsugæslustöð tilheyri aðalstarfi hafi þar verið litið svo á að laun fyrir læknisverk og vitjanir/viðtöl á vöktum skyldu greidd samkvæmt gjaldskrá.
Stefndi vekur einnig athygli á því að nefnd sem skipuð var á grundvelli bókunar 5 með kjarasamningi hafi verið ætlað að endurskoða fyrirkomulag á greiðslum samkvæmt gjaldskrá og fyrir vottorð. Í bókuninni komi fram að til að fjármagna hið nýja fyrirkomulag yrði varið þeirri fjárhæð sem nú væri greidd vegna gjaldskrárverkefna og vottorða auk 200 milljóna króna viðbótarframlags til að stuðla að frekari nýbreytni í vinnutilhögun heilsugæslulækna. Skilabréf nefndarinnar beri hins vegar með sér að viðbótarframlaginu hafi verið varið til þess að standa undir umræddri tveggja launaflokka hækkun án þess að gjaldskrá heimilislækna vegna læknisverka og vottorða væri afnumin. Biðlaun stefnanda hafi verið hækkuð til samræmis við umrædda launaflokkahækkun sem hafi tekið gildi frá og með 1. janúar 2016.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnanda hafi verið greiddar þær greiðslur sem honum beri á biðlaunatíma og hann eigi ekki rétt til annarra eða frekari greiðslna.
Hvað varðar mánaðarlaun (taxtalaun) sé ekki um það deilt að mánaðarlaun samkvæmt grein 3.1.1 í kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands frá 7. janúar 2015 teljist til „óbreyttra launakjara“ í merkingu laga nr. 70/1996, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og tilvísun þess ákvæðis til 34. gr. laganna. Vegna vinnu stefnanda í nóvember og desember 2015 hafi stefnandi verið í launaflokki/þrepi 402-6 en frá 1. janúar 2016 hafi sérfræðingar í heimilislækningum verið hækkaðir um tvo launaflokka, þ.e. yfirlæknar í launaflokk 404. Stefnandi hafi þá farið í launaflokk/þrep 404-6, í samræmi við tillögur nefndar sem skipuð var á grundvelli bókunar 5 með kjarasamningnum. Launaseðlar stefnanda beri með sér að hann hafi fengið umræddan launalið greiddan á biðlaunatímabilinu.
Varðandi sérstakt 15% álag bendir stefndi á að samkvæmt ákvæði 3.2.4 í kjarasamningi greiðist 15% álag til sérfræðilækna og yfirlækna sem sinni verkefnum sem krefjist þess að þeir vinni eingöngu á viðkomandi stofnun. Álag þetta reiknist af launaflokki og þrepi viðkomandi. Greiðsla samkvæmt þessum launalið hafi verið innt af hendi á biðlaunatíma, þ.m.t. leiðréttingar vegna launabreytinga samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, en fyrir liggi að stefnandi hafi fengið þessa greiðslu alla 12 mánuði ársins áður en til niðurlagningar á starfi hans kom. Greiðsla þessi hafi ekki breyst frá einum mánuði til annars að öðru leyti en því sem leiddi af almennum breytingum á launatöflu og breytingum á röðun í launaflokka, 402-6 vegna nóvember og desember 2015 en 404-6 frá 1. janúar 2016.
Stefndi rekur að stefnandi hafi aldurs síns vegna átt val um hvort hann kysi að taka gæsluvaktir, sbr. grein 4.1.3 í kjarasamningi, og hefði hann því notið launagreiðslna einungis í þeim tilvikum sem vöktum væri sinnt. Vaktirnar séu breytilegar, háðar beinu vinnuframlagi starfsmanna utan dagvinnutíma og taki greiðslur mið af tíðni og fjölda vakta sem þeir gangi. Þar sem greiðslur fyrir gæsluvaktir séu breytilegar eftir vinnuframlagi á hverjum tíma telur stefndi að slíkar greiðslur eigi ekki að inna af hendi á biðlaunatíma og að líta beri á þær á sama hátt og annað tilfallandi vinnuframlag. Krafa stefnanda um greiðslu gæsluvakta á biðlaunatíma byggi á sjónarmiðum um staðgengislaun eða meðaltalslaun en ekki greiðslu fastra og reglubundinna mánaðarlauna. Engin lagastoð sé fyrir því að ákvarða stefnanda biðlaun á þeim grunni og beri því að hafna kröfunni. Fullyrðingar í stefnu um að stefnanda hafi verið skylt að taka vaktir eigi ekki við rök að styðjast. Hið rétta sé að stefnandi hafi kosið að bjóða sig fram til gæsluvakta og hafi notið sérstaks álags vegna þess, sbr. grein 3.3.5 í kjarasamningi.
Stefndi áréttar að gjaldskrárverk séu verkþættir sem læknir sinnir á vakt. Á umræddum gæsluvöktum njóti læknir greiðslu álags fyrir gæsluvaktir og gjaldskrárverk, að því marki sem hann inni slík verkefni af hendi á hverjum tíma. Gjaldskrá vegna gjaldskrárverka beri með sér að greiðslur séu háðar tilfallandi vinnuframlagi læknis hverju sinni, þ.e. greiðslur ráðast af fjölda sjúklinga og fjölda læknisverka sem hann inni af hendi. Í tilviki stefnanda og þeirra sem séu í 100% starfshlutfalli með 15% sérstakt álag séu gjaldskrárverk unnin á vöktum utan dagvinnu. Þar sem greiðslur fyrir gjaldskrárverk séu breytilegar eftir vinnuframlagi á hverjum tíma eigi slíkar greiðslur ekki að inna af hendi á biðlaunatíma og líta beri á þær á sama hátt og annað tilfallandi vinnuframlag. Krafa stefnanda um greiðslu fyrir gjaldskrárverk á biðlaunatíma byggi á sjónarmiðum um staðgengislaun eða meðaltalslaun en ekki greiðslu fastra og reglubundinna mánaðarlauna. Engin lagastoð sé fyrir því að ákvarða stefnanda biðlaun á þeim grunni og beri því að hafna kröfunni.
Gjaldskrá vegna greiðslna til lækna fyrir gerð læknisvottorða beri með sér að slíkar greiðslur séu háðar tilfallandi vinnuframlagi læknis á hverjum tíma, þ.e. greiðslur ráðast af fjölda læknisvottorða og umfangi, eðli og stærð þeirra. Þar sem greiðslur fyrir gerð læknisvottorða séu breytilegar eftir vinnuframlagi á hverjum tíma telur stefndi að slíkar greiðslur eigi ekki að inna af hendi á biðlaunatíma og að líta beri á slíkar greiðslur á sama hátt og annað tilfallandi vinnuframlag. Krafa stefnanda um greiðslu fyrir gerð læknisvottorða á biðlaunatíma byggi á sjónarmiðum um staðgengislaun eða meðaltalslaun en ekki greiðslu fastra og reglubundinna mánaðarlauna. Engin lagastoð sé fyrir því að ákvarða stefnanda biðlaun á þeim grunni og beri því að hafna kröfunni.
Til stuðnings kröfu stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 á starfsmaður, ef starf hans hefur verið lagt niður og hann hefur verið skipaður eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og fallið hefur undir eldri lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, rétt til bóta er nemi launum í tólf mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins í 15 ár eða lengur. Tekið er fram að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr. laganna. Í 1. mgr. 34. gr. kemur fram að sé embætti lagt niður skuli embættismaður jafnan halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í sex eða 12 mánuði frá því hann lét af starfi, eftir því sem þar nánar greinir.
Í 1. mgr. 34. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 70/1996 var tekið fram að við niðurlagningu embættis skyldi embættismaður jafnan fá ,,föst laun, er embættinu fylgdu“. Í skýringum við þá grein frumvarpsins var tekið fram að ákvæðið svaraði til 14. gr. laga nr. 38/1954. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu var sömuleiðis mælt fyrir um rétt starfsmanns, ef starf hans hefur verið lagt niður, til bóta sem næmu ,,föstum launum“. Í breytingatillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar var meðal annars lögð til sú breyting á 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins að í stað orðanna „fá föst laun, er embættinu fylgdu, greidd“ kæmi „halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu“. Í framhaldsnefndaráliti meirihluta nefndarinnar var tekið fram að með breytingunni héldi embættismaður ekki aðeins föstum launum fyrir dagvinnu á biðlaunatímanum, heldur einnig öðrum launakjörum er embættinu hafi fylgt og væri það í samræmi við skýringu á 14. gr. laga nr. 38/1954. Í breytingatillögunni var einnig lagt til að orðið ,,föstum“ félli niður úr 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Í framhaldsnefndarálitinu var tekið fram að breytingin væri gerð til þess að að þeir núverandi ríkisstarfsmenn, sem rétt ættu á biðlaunum, fengju bætur í samræmi við þá skýringu á 14. gr. laga nr. 38/1954 að starfsmenn héldu ekki aðeins föstum launum fyrir dagvinnu á biðlaunatímanum heldur einnig öðrum föstum launum er starfinu hefðu fylgt. Breytingatillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar var samþykkt og var frumvarpið svo breytt samþykkt sem lög nr. 70/1996.
Í samræmi við framangreint leggur dómurinn til grundvallar við skýringu á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 að réttur starfsmanns til biðlauna taki aðeins til fastra launa en ekki til greiðslna sem inntar eru af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Verður þá fjallað um einstaka liði kröfu stefnanda.
Krafa stefnanda um gæsluvaktir og verk samkvæmt gjaldskrá er byggð á úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002. Á þeim tíma þegar umræddur úrskurður var kveðinn upp voru í gildi lög nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 8. gr. laganna, eins og ákvæðinu hafði verið breytt með 6. gr. laga nr. 150/1996, skyldi kjaranefnd ákveða laun og starfskjör heilsugæslulækna og prófessora, enda yrði talið að þeir gegndu þeim störfum að aðalstarfi. Með 1. gr. laga nr. 71/2003 var 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 breytt þannig að tilvísun til heilsugæslulækna var felld út úr greininni. Í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 71/2003 var kveðið á um að fyrrgreindur úrskurður kjaranefndar skyldi gilda þar til þágildandi kjarasamningur milli stefnda og Læknafélags Íslands frá 2. maí 2002 félli úr gildi. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvenær sá kjarasamningur féll úr gildi en meðal gagna málsins er kjarasamningur milli stefnda og Læknafélags Íslands frá 7. janúar 2015. Sá kjarasamningur gildir frá 1. júní 2014 til 30. apríl 2017. Er því ljóst að umræddur kjarasamningur frá 2. maí 2002 er fallinn úr gildi og þar með einnig fyrrgreindur úrskurður kjaranefndar frá 15. október 2002. Verður krafa stefnanda um gæsluvaktir og verk samkvæmt gjaldskrá ekki byggð á umræddum úrskurði.
Í lið 4.1.3 kjarasamningsins frá 7. janúar 2015 kemur fram að læknum sé skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess sé þörf en læknir sé þó undanþeginn skyldu til að sinna vöktum frá 55 ára aldri. Í lið 4.1.4 er tekið fram að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en greini í kafla 4 með skriflegu samkomulagi lækna og forráðamanna stofnunar. Fyrir liggur að stefnandi er fæddur árið 1952 og náði því 55 ára aldri árið 2007. Ekkert liggur fyrir um að skriflegt samkomulag hafi verið gert við stefnanda um annað fyrirkomulag vinnu en það sem kemur fram í fyrrnefndum lið 4.1.3. Er því ósannað gegn andmælum stefnda að stefnanda hafi verið skylt að vinna gæsluvaktir. Verður því að líta svo á að greiðsla fyrir gæsluvaktir og verk unnin á vöktum samkvæmt gjaldskrá teljist ekki til fastra launa stefnanda heldur teljist vera greiðslur sem séu inntar af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Verður stefndi því sýknaður af þessum liðum í kröfu stefnanda.
Gjaldskrá fyrir læknisvottorð byggir á c-lið gjaldskrár sem var fylgiskjal með úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002. Í bókun 5 við fyrrnefndan kjarasamning frá 7. janúar 2015 kemur fram að núverandi fyrirkomulag á greiðslum fyrir gjaldskrárverk samkvæmt a-, b- og c-liðum umrædds úrskurðar haldi gildi sínu þar til aðilar verði sammála um nýtt fyrirkomulag en í bókuninni kemur fram að aðilar kjarasamningsins séu sammála um endurskoðun á fyrirkomulagi á greiðslum samkvæmt gjaldskrá. Umrædd gjaldskrá er enn í gildi og samkvæmt henni er ljóst að greiðslur til lækna fyrir vottorð eru ekki föst greiðsla heldur breytileg, þannig að læknir fær greidda mismunandi fjárhæð fyrir hvert og eitt vottorð eftir efni þess. Verður því að líta svo á að greiðsla fyrir læknisvottorð teljist ekki til fastra launa stefnanda heldur teljist vera greiðslur sem séu inntar af hendi í samræmi við vinnuframlag hverju sinni. Verður stefndi því sýknaður af þessum lið í kröfu stefnanda.
Samkvæmt þessu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Eiríkur Áki Eggertsson hdl.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Guðbrands E. Þorkelssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.