Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Vextir
  • Fjármagnstekjuskattur


Miðvikudaginn 4. febrúar 2015

Nr. 77/2015.

A

(Elva Ósk S. Wiium hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Vextir. Fjármagnstekjuskattur.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 6/2012 var Í gert að greiða A skaðabætur er námu tiltekinni fjárhæð. Við greiðslu bótanna greindi aðilana á um við hvaða hlutfall fjármagnstekjuskatts ætti að miða við greiðslu vaxta af bótunum. A bar því við að Í hefði átt að miða við það skatthlutfall sem hefði verið í gildi á því tímarki er vextir féllu á kröfuna, en Í taldi að miða ætti við skatthlutfall á því tímamarki er vaxtakrafan var greidd eða varð greiðsluhæf. A taldi sig hafa fengið greidda lægri fjárhæð en honum hefði borið og krafðist þess að fjárnám yrði gert hjá Í til tryggingar skuld er nam mismuninum. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að þær vaxtatekjur sem um ræddi hefðu verið óvissar tekjur í merkingu 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 og ekki orðið greiðslukræfar, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 8. gr. sömu laga, fyrr en með dómi Hæstaréttar 25. október 2012 í fyrrgreindu skaðabótamáli. Var kröfu A um fjárnám hjá Í því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fjárnám yrði gert hjá varnaraðila til tryggingar nánar tilgreindum skuldum. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að tekin verði til greina krafa sín um að fjárnám verði gert hjá varnaraðila til tryggingar skuld, aðallega að fjárhæð 1.817.412 krónur, til vara 1.678.556 krónur, en að því frágengnu 295.660 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði sem og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem sótt hafi verið um.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Með því að gjafsókn sóknaraðila samkvæmt gjafsóknarleyfi 1. október 2014 var takmörkuð við rekstur málsins í héraði og hann hefur ekki lagt fyrir Hæstarétt gögn um að sér hafi verið veitt gjafsókn hér fyrir dómi verður gjafsóknarkostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2015.

Með aðfararbeiðni sem barst dóminum 4. apríl sl. hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], krafist þess að fjárnám verði gert hjá varnaraðila, íslenska ríkinu vegna velferðarráðuneytisins, kt. [...], Tryggvagötu, Hafnarhúsi, Reykjavík, til tryggingar skuld aðallega að fjárhæð 1.817.412 krónur sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Höfuðstóll

1.536.574 krónur

Dráttarvextir til 28. mars 2014

267.472 krónur

Aðfararbeiðni

10.000 krónur

Kostnaður við aðför

650 krónur

Virðisaukaskattur

2.716 krónur

Samtals

1.817.412 krónur

auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til þeirra kemur.

Til vara er þess krafist að gert verði fjárnám hjá varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 1.678.556 krónur sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Höfuðstóll

1.418.305 krónur

Dráttarvextir til 28. mars 2014

246.885 krónur

Aðfararbeiðni

10.000 krónur

Kostnaður við aðför

650 krónur

Virðisaukaskattur

2.716 krónur

Samtals

1.678.556 krónur

auk áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar eins og í aðalkröfu greinir.

Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að gert verði fjárnám hjá varnaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 295.660 krónur sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Höfuðstóll

240.441 krónur

Dráttarvextir til 28. mars 2014

41.853 krónur

Aðfararbeiðni

10.000 krónur

Kostnaður við aðför

650 krónur

Virðisaukaskattur

2.716 krónur

Samtals

295.660 krónur

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknaramál.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila um fjárnám verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Verði fallist á kröfu sóknaraðila krefst varnaraðili þess til vara að málskot til æðra dóms fresti aðför.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 9. desember sl.

I

Málavextir

Með dómi Hæstaréttar frá 25. október 2012 í máli nr. 6/2012 voru sóknaraðila dæmdar bætur úr hendi varnaraðila fyrir varanlega örorku, bætur fyrir varanlegan miska auk 50% álags, sbr. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þjáningabætur, auk miskabóta samkvæmt 26. gr. laganna samtals að fjárhæð 30.994.618 krónur vegna tjóns af völdum verulegs heilaskaða í kjölfar öndunar- og hjartastopps sem hann varð fyrir við dvöl á sjúkrahúsi í kjölfar tveggja skurðaðgerða sem hann gekkst undir í tilefni alvarlegra veikinda.

Þann 10. desember 2012 greiddi varnaraðili sóknaraðila 49.686.131 krónu sem uppgjör á tildæmdum bótum samkvæmt áðurnefndum dómi. Við útgreiðslu bótanna reiknaði varnaraðili 20% fjármagnstekjuskatt á allar vaxtargreiðslur óháð því á hvaða ári þær mynduðust og hélt því eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 6.535.808 krónur. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa dregið 1.536.574 krónum meira frá en honum hafi borið. Greiðsla til handa sóknaraðila hafi átt að nema 56.221.939 krónum þar sem reikna hafi átt fjármagnstekjuskatt á þeim tíma þegar hann myndaðist á reiknaða vexti.

Sóknaraðili mótmælti uppgjöri varnaraðila hvað afdrátt fjármagnstekjuskatts varðar og óskaði eftir afstöðu ríkisskattstjóra til álitaefnisins með bréfi 5. júlí 2013. Komu þar m.a. fram áðurnefnd sjónarmið sóknaraðila og að af hans hálfu væri ekki litið svo á að hann hefði ofgreitt fjármagnstekjuskatt til íslenska ríkisins, heldur að íslenska ríkið hefði ekki að fullu greitt kröfu hans. Bréfi sóknaraðila var svarað af hálfu ríkisskattstjóra 6. ágúst 2013. Í bréfi hans eru rakin ákvæði laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og ákvæði laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatta. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að í tilviki sóknaraðila væri um að ræða fjármagnstekjur sem greiddar voru eða voru greiðslukræfar á árinu 2012 og bæru þær því 20% tekjuskatt.

Beiðni sóknaraðila var móttekin í héraðsdómi 4. apríl 2014.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst styðja heimild sína til að krefjast aðfarar hjá varnaraðila við dóm Hæstaréttar frá 25. október 2012 í málinu nr. 6/2012: A gegn íslenska ríkinu, sbr. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Með vísan til 3. mgr. 11. gr. laganna sé aðfararbeiðni þessari beint til héraðsdóms. Ljóst sé að ágreiningur er uppi um hvort dómskuldin sé að fullu greidd eður ei. Sá ágreiningur muni á endanum rata til héraðsdóms og séu lögmenn aðila sammála um að hafa þennan háttinn á við úrlausn ágreinings þeirra á milli.

Fram kemur í beiðni sóknaraðila að í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar hafi varnaraðili greitt sóknaraðila 49.686.131 krónu sem uppgjör á tildæmdum bótum. Sóknaraðili kveður greiðsluna hafa átt að nema 56.221.939 krónum. Varnaraðili hafi ekki beitt réttu skatthlutfalli við afdrátt fjármagnstekjuskatts. Varnaraðili hafi því ekki greitt honum þá fjárhæð sem hann var dæmdur til að greiða honum með dómi Hæstaréttar. Sóknaraðili kveðst viðurkenna slíkan frádrátt að því gefnu að ekki sé tekin hærri fjárhæð en efni standi til.

Þannig hátti til í málinu að við útgreiðslu bótanna hafi varnaraðili reiknað 20% fjármagnstekjuskatt á allar vaxtagreiðslur óháð því á hvaða tímabili þær mynduðust. Varnaraðili hafi miðað við gildandi skatthlutfall fjármagnstekjuskatts á vexti þegar þeir voru greiddir út. Sóknaraðili byggir á því að miða eigi við það skatthlutfall sem var í gildi eftir tímabilum þegar vextir féllu til á kröfuna. Annað fari í bága við lög nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lög um tekjuskatt nr. 90/2003. Varnaraðili hafi með þessu haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 6.535.808 krónur sem sé 1.536.574 krónum meira en honum hafi verið heimilt en það sé höfuðstóll aðalkröfu sóknaraðila. Vísar sóknaraðili til meðfylgjandi töflu kröfugerð sinni til skýringar.

Staða

Áfallnir vextir

Áfallið á tímabili

Fjármagnstekjuskattur skatthlutfall

Fjármagnstekjuskattur

01.07.2009

12.655.581

12.655.581

10%

1.265.558

31.12.2009

15.792.413

3.136.832

15%

470.525

31.12.2010

21.705.896

5.913.483

18%

1.064.427

10.12.2012

32.699.516

10.993.620

20%

2.198.724

Fjármagnstekjuskattur samtals                                                                                           4.999.234

Afdreginn fjármagnstekjuskattur                                                                                      -6.535.808

Mismunur                                                                                                                              -1.536.574

Sóknaraðili kveður að með lögum nr. 70/2009 hafi skatthlutfall fjármagnstekjuskatts farið úr 10% í 15%, sbr. bráðabirgðaákvæði frá 1. júlí 2009 og ákvæði til bráðabirgða nr. III við lög nr. 94/1996. Í bráðabirgðaákvæðinu hafi sérstaklega verið kveðið á um lagaskilin á þann hátt að allar fjármagnstekjur, þ.m.t. vextir sem féllu til fyrir 1. júlí 2009 bæru 10% fjármagnstekjuskatt. Sams konar lagaskilaregla gilti við upptöku laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. 14. gr. laga nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981. Fjármagnstekjuskattur hafi síðan verið hækkaður úr 15% í 18% frá og með 1. janúar 2010 með b-lið 13. gr. laga nr. 128/2009 um tekjuöflun ríkisins. Hann hafi svo verið hækkaður í 20% frá og með 1. janúar 2011 með lögum nr. 164/2010. Ekki hafi verið sérstök lagaskilaregla í þeim lögum.

Sóknaraðili byggir á því að við afdrátt fjármagnstekjuskatts hafi varnaraðili ekki beitt viðteknum sjónarmiðum við lagaskil eða viðurkenndum lögskýringarreglum. Tímamark skattskyldu og beiting skatthlutfalls sé ekki rétt. Framkvæmd varnaraðila hafi í för með sér afturvirkni skattalaga sem sé óheimil samkvæmt 2 mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Vísar sóknaraðili þar um til dóma Hæstaréttar í málum nr. 499/2002 og 465/2004.

Sóknaraðili kveður skýrt samkvæmt 3. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga, að vextir teljist til tekna þegar þeir séu greiddir eða greiðslukræfir og þá beri að telja þá fram á skattframtali, sbr. 90. gr. tekjuskattslaga. Tímamarkið þegar vextir falli til, þ.e. hvenær þeir eru áunnir og hvenær þeir eru framtalsskyldir og skattskyldir fari ekki alltaf saman. Vextir geti fallið til, orðið greiðslukræfir þótt þeir komi ekki til greiðslu strax. Tekin skuli staðgreiðsla af vöxtum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, þegar vextir séu greiddir eða færðir eiganda til eignar á reikningi. Ákvæðin um staðgreiðslu af vöxtum skýri þannig ekki hvenær vextir séu greiðslukræfir eða falli til og staðgreiðslan þurfi ekki að fara saman við hvenær vextir falli til á kröfu. Sóknaraðili telur að það að staðgreiðsla fari fram seinna, við útgreiðslu vaxta en ekki þegar þeir falli til, breyti því ekki að nota eigi það skatthlutfall sem var í gildi þegar vextir féllu til en ekki það skatthlutfall sem var í gildi við útgreiðslu þeirra. Þetta sjónarmið byggi á því viðtekna lögskýringarviðhorfi í íslenskum rétti að lögum verði ekki beitt með íþyngjandi afturvirkum hætti nema þau mæli skýrlega fyrir um það sjálf, sbr. og áðurnefndar lagaskilareglur. Þannig hátti ekki til í þessu máli. Sóknaraðili telur því að aðeins skuli beita 20% skatthlutfalli á fjármagnstekjur og þ. á m. vexti sem falla til eftir 1. janúar 2011.

Þá hafnar sóknaraðili því að um óvissar tekjur sé að ræða. Í dómi sínum frá 25. október 2012 í máli nr. 6/2012 hafi Hæstiréttur reiknað dráttarvexti á kröfuna frá 16. febrúar 2008 og talið hana gjaldfallna. Í því felist að Hæstiréttur hafi talið fram komnar nægar upplýsingar um kröfuna, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 og að nægar upplýsingar væru fyrir hendi þannig að varnaraðili gæti greitt. Það að varnaraðili dragi kröfuna í efa og neiti að greiða hafi ekki þau áhrif að vextir á kröfuna teljist þannig óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga. Sóknaraðili telur því 59. gr. laganna ekki eiga við í málinu.

Þá hafnar sóknaraðili því að dómur Hæstaréttar frá 16. október 2014 í máli nr. 115/2014 hafi fordæmisgildi í máli þessu eins og varnaraðili haldi fram. Í því máli hafi verið tölulegur ágreiningur um kröfuna. Það eigi ekki við um mál aðila sem Hæstiréttur dæmdi 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Í dómi Hæstaréttar sé sérstaklega vísað til þess að ekki sé tölulegur ágreiningur um kröfuna.

Verði ekki fallist á að um sé að ræða brot á gildandi rétti kveður sóknaraðili það sjálfstæða málsástæðu í máli þessu að framkvæmd ofangreindra laga, þ.e. önnur skattlagningarmeðferð en að beita því skatthlutfalli sem í gildi var á ofangreindum tímabilum við afdrátt fjármagnstekjuskatts, sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Hærri afdráttur en sóknaraðili samþykki sé því ekki heimill. Annað feli í sér skerðingu á eignarrétti hans.

Sóknaraðili kveður fjármagnstekjuskatt hafa verið tekinn upp með lögum nr. 97/1996 um breytingu á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 14. gr. laganna, bráðabirgðaákvæði I. Ákvæðið fjalli sérstaklega um lagaskilin. Með lögum nr. 70/2009, í bráðabirgðaákvæði III, þegar fjármagnstekjuskatturinn var hækkaður úr 10% í 15% hafi verið sambærileg lagaskilaregla. Í frumvarpi með þeim lögum hafi sérstaklega verið vísað til fyrri lagaskilareglu. Þar hafi sérstaklega verið vísað til þess að ekki skyldi innheimta 15% tekjuskatt af vaxtatekjum, sem féllu til fyrir 1. júlí 2009 þótt greiddar væru eða væru gjaldkræfar eftir þann tíma. Þannig hafi fyrri lagaskilaframkvæmd verið staðfest.

Sóknaraðili kveður á hinn bóginn enga lagaskilareglu vera í lögum nr. 128/2009 og 164/2010 þegar skatthlutfall hafi verið hækkað annars vegar úr 15% í 18% og hins vegar úr 18% í 20%. Í lögskýringargögnum með þeim segi heldur ekkert um hvernig haga beri skattlagningu áfallinna vaxta af kröfum, sem stofnast hafi fyrir gildistöku þessara laga og þau segja ekkert um að víkja eigi frá fyrri skattframkvæmd við lagaskil eins og þegar fjármagnstekjuskattur hafi verið lagður á og síðan hækkaður. Það sé viðtekið lögskýringarviðhorf í íslenskum rétti að lögum verði ekki beitt með íþyngjandi afturvirkum hætti nema þau mæli skýrlega fyrir um það sjálf. Lagskil við þessar hækkanir verði því að fara eftir óskráðum lagaskilareglum dregnum af meginreglum um bann við afturvirkni skattalaga. Þannig fari það í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar að skýra og beita lögum nr. 128/2009 og 164/2010 þannig að þau taki til áfallinna vaxta af kröfum sem stofnast hafa fyrir gildistöku laga þessara nema að því leyti sem vextirnir falli til eftir gildistöku laganna. Það að beita skatthlutfallinu 20% sem gildi hafi tekið með lögum 164/2010 á skattlagningu vaxta sem falli til fyrir gildistöku laganna sé þannig brot á áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. Allt leiði þetta til þess að sóknaraðili hafi greitt hærri fjármagnstekjuskatt en honum hafi borið að greiða.

Þá kveður sóknaraðili að með þessari skattframkvæmd sé verið að brjóta gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Bótakröfur sem stofnist á sama tíma og beri vexti fái ójafna álagningarmeðferð hjá skattyfirvöldum eftir því hvenær þær séu greiddar með vöxtum. Það að gagnaðili geri ágreining um kröfuna þannig að aðili verði að sækja rétt sinn fyrir dómstólum valdi því að vextir sem falli til á fyrri vaxtatímabilum beri 20% fjármagnstekjuskatt í stað lægri skatts, eins og aðrar skaðabótakröfur sem greiðist við fyrra tímamark. Ef varnaraðili hefði greitt kröfuna fyrir 1. júlí 2009, en krafan var viss 16. febrúar 2008, hefði skatthlutfall vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og álagningar verið 10% en ekki 20%. Þannig ráði tilviljanakennd atvik um afstöðu gagnaðila til greiðslu kröfunnar því skatthlutfalli sem beitt sé við útgreiðslu vaxtakröfunnar og það sé ekki réttlætanlegt. Af þessu leiði að ekki megi krefja sóknaraðila um hærri fjármagnstekjuskatt en gert sé hjá samanburðarhópnum. Einsýnt sé að af þessu leiði að jafnframt sé um að ræða brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar um að engan skatt megi leggja á né breyta né taka af nema með lögum.

Sóknaraðili telur að þegar horft sé á öll framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar verki ákvæðið hvert á annað þannig að við heildrænt mat á afdrætti fjármagnstekjuskatts sé hægt að líta svo á að um sé að ræða brot á stjórnarskránni.

Sóknaraðili kveður varakröfu sína um að gert verði fjárnám hjá varnaraðila fyrir skuld að fjárhæð 1.418.305 krónur ásamt dráttarvöxtum og kostnaði byggjast á því að sérstaklega sé kveðið á um lagaskilin í lögum nr. 70/2009 þegar fjármagnstekjuskattur hafi verið hækkaður úr 10% í 15% frá og með 1. júlí 2009 og sérstaklega hafi verið tekið fram að vextir sem hefðu áunnist fyrir þann tíma bæru 10% fjármagnstekjuskatt en ekki 15%. Þannig hafi varnaraðila borið að horfa til þess hvenær vextir féllu til við framkvæmd útreiknings og afdráttar fjármagnstekjuskatts við útgreiðslu bóta og vaxta.

Hvað varðar þrautavarakröfu sína kveður sóknaraðili að innborgun frá sjúklingatryggingum að fjárhæð 7.451.720 krónur þann 29. ágúst 2007 hafi fyrst farið inn á vexti að fjárhæð 2.404.407 krónur og greitt þá upp og síðan inn á höfuðstól kröfunnar. Á þeim greiðsludegi hafi fjármagnstekjuskattur verið 10% og óumdeilt sé að á þessa fjárhæð reiknaði varnaraðili 20% fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 480.881 króna og hélt eftir, í stað 240.441 krónu eins og réttast hefði verið.

Verði fallist á ofangreind sjónarmið sóknaraðila og afdrætti fjármagnstekjuskatts hagað í samræmi við þau þá kveðst sóknaraðili viðurkenna að krafan sé að fullu greidd.

Um lagarök vísar sóknaraðili til ákvæða tekjuskattslaga nr. 90/2003, einkum 2. mgr. 59. gr., 7. gr., 7. gr. C, 2. töluliðar 2. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 66. gr., bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 97/1996, um breytingu á lögum um tekju- og eignaskatt, bráðabirgðaákvæðis III í lögum nr. 70/2009 um ráðstafanir í ríkisfjármálum, laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996, III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, stjórnarskrárinnar nr. 33/1994, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, einkum 40., 65., 72. og 77. gr. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför en sóknaraðili hafi gjafsókn í máli þessu.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að fjármagnstekjuskattur hafi verið réttilega dreginn af dómkröfu við uppgjör á dómi Hæstaréttar í máli nr. 6/2012. Í kjölfar dómsins hafi hann verið gerður upp og hafi varnaraðili haldið eftir 20% fjármagnstekjuskatti af dæmdum og reiknuðum vöxtum og greitt alls 49.686.131 krónu sem uppgjör á dæmdum bótum. Varnaraðili kveður ekki verða ráðið af aðfararbeiðni að deilt sé um fjárhæðir í þessu sambandi, heldur lúti ágreiningurinn að því hvort vextirnir skyldu bera 20% fjármagnstekjuskatt eða hvort annað álagningarhlutfall hafi átt að gilda.

Varnaraðili kveður að samkvæmt 3. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, teljist vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður til skattskyldra tekna. Nánar sé skilgreint í 8. gr. laganna hvað teljist til vaxta, affalla og gengishagnaðar, en í 2. mgr. komi fram að til vaxta af kröfum eða inneignum, sem ekki séu tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist vextir sem greiddir séu eða séu greiðslukræfir. Meginreglan um tímamark skattskyldu vaxtatekna hjá einstaklingum utan atvinnurekstrar sé að vextir hafi verið greiddir eða verið greiðslukræfir á tekjuárinu, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 8. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 59. gr. tekjuskattslaga skuli að jafnaði telja fram tekjur á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar þær myndast, nema um sé að ræða óvissar tekjur. Varnaraðili byggir á því að vaxtatekjur sóknaraðila vegna kröfu hans á hendur ríkinu hafi verið óvissar tekjur og að um skattlagningu þeirra hafi borið að fara eftir nefndum ákvæðum skattalaga.

Varnaraðili kveður meginregluna um skattlagningu fjármagnstekna vera þá að þær skattleggist með því álagningarhlutfalli (skattprósentu) sem í gildi sé þegar fjármagnstekjurnar, í þessu tilviki vextirnir, séu greiddar eða greiðsluhæfar. Áfallnir vextir séu á sama hátt ekki skattskyldir samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna fyrr en við greiðslu eða þegar þeir verði greiðsluhæfir og þá innheimtist fjármagnstekjuskattur af þeim.

Þá komi fram í lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur að innheimta skuli í staðgreiðslu tekjuskatt af vöxtum og arði, sbr. 1. gr. laganna. Staðgreiðsluhlutfall komi fram í 1. gr. laganna og nemi 20% á tekjuárinu 2011 og síðar, sbr. 7. gr. laga nr. 164/2010. Staðgreiðsla sé bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts sem komi til frádráttar álögðum tekjuskatti. Í 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga komi fram hvert tekjuskattshlutfallið sé, en það sé 20% miðað við árið 2012. Samkvæmt því beri fjármagnstekjur sem greiddar séu eða hafi verið greiðsluhæfar á árinu 2012 20% skatt. Styðjist það við úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, svo sem fylgi bréfi ríkisskattstjóra 6. ágúst 2013, að þegar ágreiningur hafi verið um greiðsluskyldu hafi vextir ekki talist áfallnir eða áunnir fyrr en krafan sjálf hafi verið viðurkennd með dómi, hvað sem liði vaxtatímabilinu. Vísar varnaraðili hér til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 448/2014 og dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. nóvember 2013 í málinu nr. E-663/2013 sem Hæstiréttur hafi nú staðfest með dómi sínum frá 16. október 2014 í máli nr. 115/2014.

Í ljósi alls þessa bendir varnaraðili á að bótaskylda í máli Hæstaréttar nr. 6/2012 hafi verið umdeild og sýknu verið krafist á báðum dómstigum. Einnig hafi verið ágreiningur um fjárhæðir bóta ef á bótaskyldu yrði fallist. Ekki hafi verið ljóst hvort bótakrafa hvíldi á varnaraðila, hver fjárhæð hennar yrði og þá hvort eða hve háa vexti skyldi greiða, fyrr en við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu.

Þar sem varnaraðili telur að miða hafi átt við 20% skatthlutfall ársins 2012 telur hann málsástæður um fyrri lagaskil ekki hafa þýðingu, en óumdeilt sé að miðað við lagaskilning varnaraðila hafi dómurinn verið réttilega gerður upp í krónum talið. Með sömu rökum sé varakröfu sóknaraðila mótmælt. Þá sé þrautavarakröfu sérstaklega mótmælt. Frádráttarliður vegna greiðslu úr sjúklingatryggingu hafi verið krafa sem ekki var innt af hendi af hálfu ríkissjóðs, sbr. lög nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ekki hafi verið ágreiningur um hvaða vexti skyldi greiða við uppgjör dóms Hæstaréttar og ekki hafi verið gerður fyrirvari við greiðsluna í samræmi við rök þau sem færð séu fram til stuðnings þrautavarakröfu. Greiðsla bóta úr sjúklingatryggingu hafi verið hluti af höfuðstólskröfu í reynd enda um að ræða hámarksbætur samkvæmt greindum lögum. Sú greiðsla hafi áreiðanlega verið sundurliðuð nákvæmlega eftir tegundum bóta og vöxtum af þeim auk þess sem greiða bar fjármagnstekjuskatta af þeim vöxtum sem Sjúkratryggingar Íslands greiddu. Þá var aðeins unnt að krefja varnaraðila um það sem umfram hafi verið, sbr. 7. gr. laga nr. 111/2000, svo sem dómurinn beri með sér. Allt að einu beri að sama brunni hér og hvað snertir tímamark vaxtagreiðslu að greiða átti 20% af dæmdum vöxtum, sem réttilega voru reiknaðir í samræmi við dómsorð Hæstaréttar, en ekki 10% staðgreiðsluhlutfall. Að mati varnaraðila er engin stoð fyrir þrautavarakröfu sóknaraðila.

Varnaraðili mótmælir því að um afturvirka skattheimtu sé að ræða þannig að brjóti í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar. Telur varnaraðili lögin skýr um tímamark skattskyldu í ljósi ofangreinds og að ekki geti verið um afturvirkni að ræða. Þá sé því einnig mótmælt að skattheimtan sé andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins. Þá mótmælir varnaraðili því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár, enda um mismunandi atvik og tímamark vaxtatekna og uppgjörs að ræða sem ráði skattskyldu í hverju tilviki, sbr. þau ákvæði tekjuskattslaga sem reifuð séu að framan.

Með vísan til alls ofangreinds krefst varnaraðili þess að hafnað verði beiðni um fjárnám, hvort heldur samkvæmt aðal-, vara-, eða þrautavarakröfu. Þá telur varnaraðili að horfa verði til þess við ákvörðun um málskostnað að grunninum hafi verið kippt undan málatilbúnaði sóknaraðila þegar skýrt fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 115/2014 hafi legið fyrir og málsókn hans sé því þarflaus.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til tekjuskattslaga nr. 90/2003 og laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar varnaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Varakröfu sína styður varnaraðili við 3. mgr. þeirrar lagagreinar.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að fjárnám verði gert hjá varnaraðila til tryggingar skuld sem nemur tiltekinni fjárhæð eins og nánar greinir og sundurliðuð er í aðal-, vara- og þrautavarakröfu hans. Krafa sóknaraðila er tilkomin vegna uppgjörs bóta í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli aðila frá 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Eru aðilar sammála um að leggja málið fyrir dóminn með þeim hætti að krafist sé fjárnáms hjá varnaraðila vegna kröfunnar. Byggir það á því að sú leið sé fljótlegri fyrir sóknaraðila og að óumdeilt sé að varnaraðili geti greitt kröfu sóknaraðila, verði á hana fallist. Telja verður að heimilt sé að leita úrskurðar dómsins um ágreiningsefnið með þeim hætti sem sóknaraðili gerir, sbr. 3. mgr. 11. gr., 2. mgr. 14. gr. og 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 10. september 1993 í máli nr. 278/1993. Er þá til úrlausnar hvort lagaskilyrði séu til að fallast á kröfu sóknaraðila svo að gert verði fjárnám hjá varnaraðila fyrir kröfunni eins og hún hefur verið sett fram af hálfu sóknaraðila. Liggur þá fyrir dóminum að taka afstöðu til þess megin-ágreinings aðila við hvaða staðgreiðsluhlutfall vaxtatekna skuli miða samkvæmt lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur sem sóknaraðili fékk greiddar frá varnaraðila þann 10. desember 2012 í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar og hvort líta beri svo á að um óvissar tekjur sé að ræða í skilningi 59. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Dómurinn lítur því svo á að ekki sé ágreiningur um að fjármagnstekjuskatt hafi átt að draga frá tildæmdum bótum en að ágreiningur aðila snúist um við hvaða álagningarhlutfall hafi átt að miða og hvort vaxtatekjur teljist óvissar tekjur.

Krafa sóknaraðila byggir á því að við uppgjör á tildæmdum bótum til handa sóknaraðila samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 25. október 2012 í máli nr. 6/2012 hafi varnaraðili ranglega miðað frádrátt við 20% fjármagnstekjuskatt á allar vaxtagreiðslur óháð því á hvaða tímabili þær mynduðust. Varnaraðili hafi með þessum hætti haldið eftir of hárri fjárhæð þar sem ekki hafi verið miðað við rétt álagningarhlutfall við frádráttinn. Þetta hafi leitt til þess að sóknaraðili fékk í sinn hlut lægri fjárhæð en honum bar. Sóknaraðili hafi fengið greiddar 49.686.131 krónu úr hendi varnaraðila en greiðslan hafi átt að vera 56.221.939 krónur. Varnaraðili hafi haldið eftir 6.535.808 krónum sem sé 1.536.574 krónum meira en honum hafi borið. Miðast höfuðstóll aðalkröfu hans við að fjárnám verði gert hjá varnaraðila fyrir þeirri fjárhæð sem hann hafi ranglega haldið eftir af bótum sóknaraðila. Það sama á við um varakröfu hans. Nánar tiltekið verður kröfugerð sóknaraðila skilin svo að hann miði við í aðalkröfu sinni að skattleggja beri umræddar vaxtatekjur í samræmi við þau skatthlutföll sem í gildi voru á viðkomandi tímabilum, þ.e. með 10% skatthlutfalli vegna tímabilsins fyrir 1. júlí 2009, 15% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1. júlí til 31. desember 2009, 18% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1 janúar til 31. desember 2010 og með 20% skatthlutfalli vegna tímabilsins frá 1. janúar 2011 til greiðsludags. Varakrafa sóknaraðila miðast við að skatthlutfallið sé eins og að ofan greinir í aðalkröfu hans nema að á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2010 skuli miða við 20% skatthlutfall. Í þrautavarakröfu sinni gerir sóknaraðili ráð fyrir því að innborgun frá sjúklingatryggingu, að fjárhæð 7.451.720, frá 29. ágúst 2007 hafi fyrst farið inn á vexti og greitt þá upp og síðan inn á höfuðstól kröfunnar. Á þeim degi hafi fjármagnstekjuskattur verið 10% en varnaraðili hafi aftur á móti miðað við 20% fjármagnstekjuskatt. Hann hafi því haldið eftir 480.881 krónu í stað 240.441 krónu og miðast þrautavarakrafa sóknaraðila við það.

Sóknaraðili hefur í málinu teflt fram fjölmörgum málsástæðum fyrir kröfugerð sinni. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ranglega miðað við 20% fjármagnstekjuskatt við uppgjörið sem hafi verið það hlutfall sem í gildi var lögum samkvæmt er bæturnar voru greiddar út. Byggir sóknaraðili á því að til skattlagningar vaxtatekna hafi stofnast á mismunandi tímabilum og skuli því við frádráttinn miða við það skatthlutfall fjármagnstekjuskatts sem í gildi var á hverjum tíma en fyrir liggur að ákvæði laga um hlutfall fjármagnstekjuskatts hefur tekið nokkrum breytingum á þeim tímabilum er sóknaraðili miðar við og hafa þær lagabreytingar og ákvæði um lagaskil verið ítarlega rakin. Hefur sóknaraðili byggt á því að varnaraðili hafi við framkvæmd sína ekki beitt viðteknum sjónarmiðum um lagaskil eða viðurkenndum lögskýringarreglum. Þessu hefur varnaraðili hafnað og telur ljóst að miða skuli við það hlutfall fjármagnstekjuskatts sem gilti frá og með 1. janúar 2011 en uppgjör bótanna fór fram 10. desember 2012 enda hafi vextirnir þá fyrst verið greiðslukræfir sbr. 2. tölulið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Réttilega hafi því verið staðið að uppgjöri gagnvart sóknaraðila.

Þá hefur sóknaraðili byggt á því að framkvæmd varnaraðila feli í sér brot á 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni skattalaga, 72. gr. um vernd eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Enn fremur telur sóknaraðili að í þessu felist brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar. Að lokum telur sóknaraðili að við heildrænt mat á því hvort framkvæmd varnaraðila feli í sér brot á stjórnarskránni beri að horfa til þess að áðurnefnd ákvæði stjórnarskrárinnar verki hvert á annað og því beri að líta svo á að um brot á stjórnarskránni sé að ræða.

Eins og fram kemur í 3. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljast vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 8. gr. til skattskyldra tekna. Í 2. mgr. síðarnefndu greinarinnar segir að til tekna sem vextir, sbr. 1. mgr. sömu greinar, af kröfum og inneignum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, teljist vextir, sem greiddir eru eða eru greiðslukræfir, og greiddar verðbætur á afborganir og vexti. Um ákvörðun tekna í einstökum tilvikum er nánar fjallað í sjö töluliðum 2. mgr. áðurnefndrar 8. gr. Fram kemur í 2. tölulið málsgreinarinnar að vextir af kröfu skuli teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða eru greiðslukræfir.

Í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, þar sem mælt er fyrir um tekjutímabil, segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær falla til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Ekki er ágreiningur með aðilum um að vextir eru tekjur og teljast til skattskyldra tekna sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Þá er ekki ágreiningur um að vextir eru staðgreiðsluskyldir á sama tíma við útgreiðslu sbr. 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996. Á hinn bóginn er ágreiningur um hvað miða skuli við þegar breyting verður á skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts, þ.e. hvort miða eigi við það hlutfall sem í gildi var þegar vextir féllu til eða það hlutfall sem í gildi var þegar vextir voru greiddir út.

Sóknaraðili hafnar því að dómur Hæstaréttar frá 16. október 2014 í máli nr. 115/2014 hafi fordæmisgildi í málinu. Þar hafi Hæstiréttur staðfest skilning yfirskattanefndar um óvissar tekjur og dæmt eignarnámsbætur sem óvissar tekjur þar sem um hafi verið að ræða tölulegan ágreining. Sóknaraðili ítrekar að í því máli hafi verið ágreiningur um fjárhæð vaxta enda vísi Hæstiréttur sérstaklega til þess ákvæðis í samningi aðila. Í máli aðila sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar nr. 6/2012 hafi ekki verið deilt um fjárhæðir og enginn tölulegur ágreiningur verið fyrir hendi enda vísi Hæstiréttur sérstaklega til þess í niðurstöðu sinni. Það að varnaraðili hafi gert ágreining um bótaskyldu þrátt fyrir að öll skilyrði hennar hafi legið fyrir geri ekki kröfu óvissa nema tölulegur ágreiningur sé fyrir hendi. Þá hafi Hæstiréttur dæmt dráttarvexti á kröfuna frá 16. febrúar 2008 en í því felist að þá hafi nægar upplýsingar verið fram komnar um kröfuna, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Varnaraðili vísar til þess að umræddur dómur Hæstaréttar í máli nr. 115/2014 hafi ótvírætt fordæmisgildi varðandi ágreining aðila. Með þessum dómi hafi grunninum verið kippt undan málatilbúnaði sóknaraðila. Þar hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að vextir af bótum væru óvissar tekjur líkt og reyni á í þessu máli. Þá fjalli dómurinn efnislega um allar helstu málsástæður sem sóknaraðili haldi hér fram og á þær hafi ekki verið fallist. Í málinu hafi tölulegur ágreiningur í sjálfu sér ekki skipt máli heldur hafi aðalatriðið verið að bótaskylda hafi verið umdeild. Í máli aðila sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar nr. 6/2012 hafi bótaskylda verið umdeild og ríkið krafist sýknu á báðum dómstigum. Í dóminum segi að ekki sé tölulegur ágreiningur um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku og varanlegan miska en síðan voru teknir til umfjöllunar stórir liðir sem voru umdeildir í málinu. Vissulega hafi því verið tölulegur ágreiningur í málinu en í raun skipti mestu máli að krafan var umdeild og það sé það sem horfa verði til.

Dómurinn telur framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 115/2014 vera skýrt fordæmi í máli þessu sem líta verði til við úrlausn þess. Verður að hafna þeim sjónarmiðum sóknaraðila að dómurinn hafi ekki fordæmisgildi þar sem ekki hafi verið uppi tölulegur ágreiningur í máli aðila í dómi Hæstaréttar nr. 6/2012 hvað varðar fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku og varanlegan miska. Ljóst verður að telja að ágreiningur var með aðilum um bótaskyldu varnaraðila og hann krafðist sýknu á báðum dómstigum, enda kemur fram í bréfi lögmanns sóknaraðila til ríkisskattstjóra, 5. júlí 2013, í tilefni af ágreiningi um afdrátt fjármagnstekjuskatts við uppgjör bótanna, og lagt var fram af hálfu sóknaraðila, að vissulega hafi vextirnir verið umþrættir þar sem krafan hafi verið umþrætt. Þá er ljóst af dómi Hæstaréttar nr. 6/2012 að ágreiningur var um ýmsa bótaliði sem dómurinn tók efnislega afstöðu til í niðurstöðu sinni.

Í Hæstaréttarmálinu nr. 115/2014 var haldið fram sömu málsástæðum og sóknaraðili gerir í máli þessu. Tók héraðsdómur þær allar til efnislegar umfjöllunar og og staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans. Í forsendum héraðsdóms kemur fram að regla 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 um framtal tekna þegar um óvissar tekjur sé að ræða, teljist sérregla skattaréttar, þar sem tekjufærsla miðist við það hvenær úr óvissu sé leyst, en ekki hvenær til kröfuréttinda stofnaðist samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og reyndi á hvort vaxtatekjur af bótum féllu undir umrædda reglu. Var það niðurstaða héraðsdóms að svo væri og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu að hinar umdeildu vaxtatekjur af bótum hafi verið óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 og ekki orðið greiðslukræfar, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 8. gr. laganna, fyrr en með dómi héraðsdóms sem gekk í því máli 25. janúar 2011. Verður að telja að þetta tímamark miðist við sérstök atvik í því máli. Í máli því sem hér er til umfjöllunar telur dómurinn að miða beri við það tímamark er dómur féll í Hæstarétti 25. október 2012 í máli nr. 6/2012 og líta svo á að þá hafi óvissu verið eytt og hinar umdeildu vaxtatekjur orðið greiðslukræfar. Sóknaraðili hefur haldið því fram að það að staðgreiðsla fari fram við síðara tímamark, þ.e. við útgreiðslu vaxta en ekki þegar þeir falla til, breyti því ekki að nota eigi það skatthlutfall sem var í gildi þegar vextir féllu til en ekki það skatthlutfall sem var í gildi við útgreiðslu þeirra. Engan veginn er unnt, með hliðsjón af framansögðu, að fallast á þetta sjónarmið sóknaraðila.

Sóknaraðili hefur byggt á því sem sjálfstæðri málsástæðu, fallist dómurinn ekki á að framkvæmd varnaraðila feli í sér brot á gildandi rétti, að framkvæmd varnaraðila feli í sér skerðingu á eignarrétti sóknaraðila sem feli í sér brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar. Fallast verður á það með varnaraðila að málsástæða þessi sé nokkuð óljós af hálfu sóknaraðila. Verður málatilbúnaður hans helst skilinn svo að eingöngu sé heimilt að miða við þann frádrátt sem sóknaraðili sjálfur fellst á og heimilar. Verður ekki séð að nokkur ástæða sé til að fallast á þetta sjónarmið varnaraðila. Þá verður heldur ekki séð að sú framkvæmd að miða við 20% fjármagnstekjuskatt á vaxtatekjur feli í sér brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar en það að miða við önnur og lægri hlutföll sé það ekki. Er þessum sjónamiðum sóknaraðila hafnað.

Sóknaraðili hefur í málinu haldið því fram að framkvæmd varnaraðila við afdrátt fjármagnstekjuskatts feli í sér brot á 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni skattalaga, á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem fram komi í 65. gr. hennar og 40. gr. stjórnarskrárinnar um að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Dómurinn getur ekki fallist á málsástæður sóknaraðila hvað varðar brot á tilgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar, sbr. til hliðsjónar forsendur héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti í dómi sínum í máli nr. 115/2014. Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að hinar umdeildu vaxtatekjur hafi verið óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 sem ekki urðu gjaldkræfar fyrr en óvissu var eytt um hið bótaskylda atvik með dómi Hæstaréttar 25. október 2012 sem þannig ræður því að skattskylda var þá til orðin. Framkvæmd varnaraðila gat því ekki falið í sér afturvirka skattlagningu. Sjónarmið þar að lútandi eiga því ekki við í máli þessu og er þeim hafnað. Þá eru að mati dómsins ekki efni til að fallast á sjónarmið sóknaraðila um brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar og er þeim hafnað enda er ljóst að um umræddan fjármagnstekjuskatt er mælt fyrir í lögum, þ. á m. skattskyldu, skattstofn, skatthlutfall o.fl. Þá hefur sóknaraðili ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að framkvæmd varnaraðila varðandi skattlagningu vaxtatekna sé eða hafi verið önnur og óhagstæðari en í sambærilegum tilvikum og í máli sóknaraðila þannig að fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá eru engin efni til að fallast á þau sjónarmið sóknaraðila að þegar litið sé heildstætt á framkvæmd varnaraðila feli hún í sér brot á stjórnarskránni þar sem ákvæði hennar verki hvert á annað og er þessari málsástæðu hafnað.

Með vísan til alls framangreinds er það því niðurstaða dómsins að vextir af bótum þeim er sóknaraðila voru dæmdar í máli nr. 6/2012 hafi verið óvissar tekjur í skilningi skattaréttar, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, sem ekki hafi orðið greiðslukræfar, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 8. gr. laganna, fyrr en með dómi Hæstaréttar 25. október 2012 í máli nr. 6/2012 er óvissunni var aflétt og bótaábyrgð felld á varnaraðila vegna tjóns sóknaraðila. Er öndverð niðurstaða í ósamræmi við skýrt fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 115/2014.

Að fenginni þessari niðurstöðu er varakröfu sóknaraðila sem byggir á sömu málsástæðum og aðalkrafa hans eins og áður er rakið, hafnað. Sóknaraðili hefur miðað þrautavarakröfu sína við að innborgun úr sjúklingatryggingu hafi fyrst farið inn á vexti og greitt þá upp og svo inn á höfuðstól kröfunnar. Dómurinn telur engin efni vera til þess að fallast á þrautavarakröfu sóknaraðila. Ljóst er að varnaraðila verður ekki gert að greiða sóknaraðila annan höfuðstól en þann sem hann var dæmdur til með dómi Hæstaréttar 25. október 2012 og vexti af honum.

Rétt þykir, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að málskostnaður milli aðila falli niður, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðila var veitt gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytisins 1. október sl. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Elvu Óskar S. Wiium hdl., sem telst hæfilega ákveðin með hliðsjón af málatilbúnaði sóknaraðila 1.247.156 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 3. nóvember sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Aðal-, vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila, A, um að fjárnám verði gert hjá varnaraðila, íslenska ríkinu, til tryggingar nánar tilteknum skuldum, er hafnað.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Elvu Óskar S. Wiium hdl., 1.247.156 krónur.