Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2003. |
|
Nr. 200/2003. |
Ágústína Andrésdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Antoni Má Ólafssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.
AÓ varð fyrir slysi 14. júlí 1996 sem farþegi í bifreið ÁA. Bifreiðin var tryggð hjá V hf. Ekki var ágreiningur um bótaskyldu en deilt um bótafjárhæðir. Aðilar öfluðu sameiginlega álits tveggja lækna á afleiðingum slyssins en AÓ sætti sig ekki við niðurstöðu þeirra og fékk dómkvadda tvo matsmenn. Að fenginni niðurstöðu matsmanna óskuðu ÁA og V hf. eftir áliti örorkunefndar. AÓ neitaði að mæta til skoðunar hjá nefndinni og tók nefndin því ekki afstöðu í málinu. ÁA og V hf. töldu að síðastnefnd háttsemi AÓ leiddi til þess að málið væri vanreifað af hans hálfu. Ekki var fallist á frávísunarkröfu ÁA og V hf. vegna þessa, þar sem hvorki 10. gr skaðabótalaga nr. 50/1993, né önnur ákvæði þeirra laga, legðu skyldu á tjónþola til að gangast undir rannsókn örorkunefndar. Slík skylda yrði ekki heldur leidd af lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og yrði ákvæði 3. mgr. 62. gr. þeirra laga ekki beitt um örorkunefnd. Staðfestar voru forsendur héraðsdóms um ákvörðun bótafjárhæðar í málinu sem byggðar voru á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar 26. maí 2003. Þeir krefjast þess aðallega, að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að þeir verði sýknaðir af kröfu stefnda og til þrautavara að dæmdar bætur í héraði verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í héraðsdómi gerðu áfrýjendur kröfu um frávísun málsins. Kom þessi krafa fyrst fram við aðalmeðferð þess 24. febrúar 2003 og var studd þeim rökum, að málið væri vanreifað, þar sem stefndi hefði komið í veg fyrir það að örorkunefnd gæfi álit í málinu, eins og áfrýjendur höfðu óskað eftir, með því að neita að gangast undir læknisrannsókn hjá nefndinni. Krafan var reist á ástæðum, sem leiða myndu til frávísunar án kröfu ef réttar væru. Þótt krafan hafi af þessum sökum ekki verið of seint fram komin í héraði eru engin efni til að verða við henni.
Ákvæði 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og það var þegar slysið varð, sem hér er um fjallað, lagði enga skyldu á tjónþola til að gangast undir rannsókn örorkunefndar, og eru engin fyrirmæli annars staðar í þeim lögum um slíka skyldu. Sú skylda verður heldur ekki leidd af lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og verður ákvæði 3. mgr. 62. gr. þeirra laga ekki beitt um örorkunefnd. Verður því ekki fallist á með áfrýjendum að afstaða stefnda í þessu efni geti horft honum til réttarspjalla.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Ágústína Andrésdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt stefnda, Antoni Má Ólafssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2003.
Málið var höfðað 30. júlí 2002, þingfest 12. september 2002 og dómtekið 10. apríl 2003.
Stefnandi er Anton Már Ólafsson, [kt], Blikabraut 15, Reykjanesbæ.
Stefndu eru Ágústína Andrésdóttir, [kt.], Merkjateigi 2, Mosfellsbæ og Vátryggingafélag Íslands hf., [kt], Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndu verði gert að greiða honum 6.673.425 krónur, með 2% ársvöxtum frá 14. júlí 1996 til 14. apríl 2002, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndu verði gert að greiða stefnanda 6.345.879 krónur með 2% ársvöxtum frá 14. júlí 1996 til 14. apríl 2002, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, til vara að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi en til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað.
Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni
Málsatvik eru í stórum dráttum þau að 14. júlí 1996 var stefnandi farþegi í framsæti bifreiðar stefndu Ágústínu, DZ-305, sem ekið var eftir Hvítársíðuvegi í Borgarfirði. Skammt vestan við bæinn Síðumúla missti ökumaðurinn bifreiðina út í lausamöl og út af veginum, þar sem hún valt nokkrar veltur. Við það pressaðist þak bifreiðarinnar niður. Stefnandi, sem var í bílbelti, hlaut höfuðhögg. Lögregla og sjúkralið var kvatt á staðinn og stefnandi fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi. Þar var tekin röntgenmynd af hálsliðum stefnanda og sýndi hún að ekki var um brot að ræða. Fékk stefnandi hálskraga og bólgueyðandi lyf. Faðir hans sótti hann síðan til Akraness og ók honum heim til Sandgerðis. Kastaði stefnandi nokkrum sinnum upp á leiðinni. Var hann heima næstu daga með höfuðverk. Bifreið stefnda Ágústínu var skylduvátryggð hjá meðstefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.(VÍS).
Stefnandi var 19 ára að aldri á slyssdegi og vann á þeim tíma verkamannastörf hjá Sandgerðisbæ. Hann hafði áður lokið grunnskóla og byrjað nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hætt þar eftir tvær annir og farið út á vinnumarkaðinn. Eftir slysið ákvað hann að hefja aftur nám í fjölbrautarskóla en gafst fljótlega upp. Fór hann að vinna við flökun hjá fyrirtækinu Tros hf. um áramótin 1996/1997.
Stefnandi hafði iðkað knattspyrnu frá unga aldri. Fór hann eftir slysið að æfa knattspyrnu á ný og taka þátt í keppnum. Í apríl 1998 tók hann þátt í knattspyrnukappleik og fékk þá slynk á hálsinn er hann skallaði knöttinn. Stífnaði hann í hálsi og fékk verki í axlir og stöðugan höfuðverk. Fór hann í kjölfarið í hálsmeðferð á St. Francskusspítalanum í Stykkishólmi. Útskrifaðist hann frá spítalanum eftir tvær vikur. Hann hóf störf að nýju sumarið 1998. Þá hóf hann að leika knattspyrnu en varð fyrir því óhappi 29. júlí 1998 að ökklabrotna í leik. Gekkst hann undir aðgerð á ökklanum og var settur í gifs. Ökklinn greri eðlilega en stefnandi þurfti að vera á hækjum í sex vikur. Versnaði honum þá aftur í hálsinum og fór á St. Francskusspítalann á ný í tíu daga hálsmeðferð en sú meðferð skilaði takmörkuðum árangri. Stefnandi hætti í flökunarvinnunni hjá Trosi í júlí 1998 en hóf störf sem baðvörður í Íþróttamiðstöðinni í Sandgerði og vann þar fram í október 1999. Eftir það vann hann sem lagermaður og lyftarastjóri hjá Húsasmiðjunni hf. í Keflavík en hætti á árinu 2000 þar sem hann þoldi illa kuldann á lagernum. Hóf hann síðan að reka pizzustað í Sandgerði og gerir enn.
Málsaðilar óskuðu sameiginlega eftir því 22. október 1999 að læknarnir Sigurjón Sigurðsson og Ragnar Jónsson legðu mat á heilsufarslegar afleiðingar bílslyssins fyrir stefnanda. Í matsgerð, dagsettri 22. júní 2000, töldu þeir varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins 10%, varanlega örorku 15%, tímabundið atvinnutjón 6 vikur og þjáningatíma 6 mánuði. Segir í matsgerðinni að við umferðarslysið 14. júlí 1996 hafi stefnandi hlotið höfuðáverka með tognun á hálsi og þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi hann enn töluverð einkenni sem komi fram í höfuðverkjum og jafnvel slæmum höfuðverkjaköstum, sem geri honum erfitt með vinnu, þegar hann er sem verstur í höfðinu. Þá er haft eftir stefnanda að í raun hafi enginn bati eða breyting orðið á líðan hans frá því um hálfu ári eftir slysið, þegar frá er tekin versnun í kjölfar skallabolta og ökklabrots í fótbolta sumarið 1998. Segir í matsgerðinni að við mat á varanlegri örorku sé miðað við að stefnandi hafi orðið að hverfa að verr launuðum störfum en hann hafi haft fyrir slysið og þar sem hann sé ekki með neina framhaldsmenntun bíði hans ekki annað en erfiðisvinna nema hann breyti til og fari í nám. Þá segir í matsgerðinni að legurnar tvær á St. Franciskusspítala, vegna áverka í knattspyrnuleikjum, fyrst á hálsi og síðan á ökkla, sé ekki hægt að telja til komnar vegna bílslyssins.
Stefnandi vildi ekki að ganga til bótauppgjörs á grundvelli matsgerðarinnar. Gekkst hann undir taugasálfræðilegt mat hjá dr. Þuríði J. Jónsdóttur klínískum taugasálfræðingi.Hún komist að þeirri niðurstöðu 5. desember 2000 að stefnandi hefði hlotið vægan framheilaskaða í bílslysinu. Af hálfu stefnanda var í kjölfarið óskað eftir dómkvaðningu matsmanna.
Stefndu ákváðu hins vegar að bæta stefnanda tjón af völdum bílslyssins á grundvelli mats fyrrgreindra lækna frá 22. júní 2000. Bótauppgjör fór fram 21. janúar 2002 og tók stefnandi við bótunum með fyrirvara. Sundurliðaðist skaðabótagreiðslan þannig:
l. Þjáningarbætur kr. 165.600
2. Varanlegur miski kr. 528.200
3. Varanleg örorka kr. 2.400.000
4. Innborgun VÍS kr. 200.000
5. Vextir skv. ákv. skaðabótal. kr. 335.456
Samtals: kr. 3.229.256
Þeir Magnús Thoroddsen hrl. og Torfi Magnússon, taugasérfræðingur, voru dómkvaddir 1. febrúar 2002 til að meta afleiðingar bílslyssins. Í matsgerð þeirra frá 11. mars 2002 segir að í slysinu 14. júlí 1996 hafi stefnandi hlotið höfuðhögg og áverka á hálsi. Ekki hafi verið um hefðbundinn hálshnykksáverka að ræða, heldur líklegra að um áverka á hálshrygg hafi verið að ræða vegna höggs sem komið hafi á höfuðið. Ekki sé hægt að ráða með vissu af fyrirliggjandi gögnum hvort stefnandi hafi misst meðvitund, en hann eigi erfitt með að greina frá slysinu sjálfu og atburðum í kringum það og virðist ekki muna slysið. Í kjölfar slyssins hafi hann fengið mikla ógleði og kastað upp en þau einkenni bendi til þess að stefnandi hafi fengið heilahristing. Síðar hafi bæst við verkir í hálsi og höfði.
Síðan segir í matsgerðinni að einkenni stefnanda hafi farið versnandi eftir slysið og hafi hann leitað til Arnbjörns Arnbjörnssonar, bæklunarlæknis 25. júlí 1996. Í áverkavottorði hans, dagsettu 26. maí 1998, segi meðal annars að við skoðun 5. júlí 1996 hafi stefnandi haft veruleg óþægindi, stirðnað í hnakka og haft verki þar og niður í axlir og stundum út í vinstri handlegg. Hafi stefnandi verið sendur í sjúkraþjálfun og til kírópraktors en árangurinn verið lítill sem enginn. Stefnandi hafi tvívegis verið lagður inn til meðferðar á St. Franciskuspítalann í Stykkishólmi vegna afleiðinga slyssins. Í byrjun apríl 1998 hafi hann farið í tveggja vikna meðferð á bak- og hálsendurhæfingadeild St. Franciskuspítalans. Í vottorði Jóseps Ó. Blöndal, sjúkrahúslæknis frá 29. júlí 1999 segi að umfram allt hafi hér verið um að ræða afleiðingar hálshnykksáverka, sem versnað höfðu tímabundið þegar Anton fékk slynk á hálsinn í fótboltaleik. Í júlí 1998 hafi stefnandi ökklabrotnað í knattspyrnu og þurft af þeim sökum að vera á hækjum í sex vikur. Við það hafi öll einkennin tekið sig upp aftur og hafi hann því aftur verið aftur tekinn inn á St. Franciskuspítalann 15. febrúar 1999. Í niðurstöðu vottorðs Jóseps Ó. Blöndal segi að ljóst sé að stefnandi hafi fengið allalvarlegan áverka við bílveltuna og veruleg óþægindi. Meðhöndlun hafi borið mjög góðan árangur í fyrra skiptið en óvíst hver árangur verði af hinni síðari. Rannsóknir sýni að afleiðingar af hálshnykksáverka sem ekki hafi gefið sig innan tveggja ára frá slysi verði iðulega þrálátar. Því megi gera ráð fyrir að verkirnir haldi áfram að angra hann að minnsta kosti af og til.
Árangurinn af síðari meðferðinni hafi verið lítill og vegna þrálátra verkja hafi stefnandi leitað til Bjarna Valtýssonar, svæfinga- og gjörgæslulæknis. Í vottorði Bjarna frá 9. maí 2000 segi meðal annars að stefnandi hafi hlotið hlotið alvarlegt verkjavandamál í kjölfar áðurnefnds bílslyss. Mögulegt sé að halda verkjum hans í nokkrum skefjum með deyfingum og fleiru, þannig að honum líði þolanlega og geti stundað vinnu. Endanleg lækning sé ekki fyrir hendi.
Matsmenn kváðu stefnanda hafa gengist undir sprautumeðferð hjá Bjarna og hún leitt til minnkandi verkja tímabundið. Í vottorði Bjarna frá 20. mars 2001 segi meðal annars að þar sem ekki sé um eiginlega lækningu að ræða, og deyfingarnar ekki endanlegar, séu yfirgnæfandi líkur á að einkennin komi aftur til baka. Þá sé hægt að endurtaka þær eftir þörfum.
Dómkvaddir matsmenn skiluðu matsgerð 11. mars 2002 og komust að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón stefnanda samkvæmt 2. gr. skaðabótalaganna væri sex vikur, að viðbættum tveimur vikum og 10 dögum vegna meðferða stefnanda á St. Franciskusspítalanum. Þeir töldu stefnanda hafa verið veikan í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 6 mánuði án þess að vera rúmliggjandi, að viðbættum 2 vikum og 10 dögum vegna aðgerðanna á St. Franciskusspítalanum. Matsmenn töldu varanlegan miska stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga vera 25%, og varanlega örorku hans samkvæmt 5. gr. laganna 30%.
Stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. var krafið um greiðslu skaðabóta með bréfi dagsettu 14. mars sl. en ekki var fallist á greiðslu bóta.
Stefndu óskuðu 20. mars 2002 eftir áliti örorkunefndar á afleiðingum slyssins. Af hálfu stefnanda var þeim tjáð að álitsgerð örorkunefndar gæti ekki hnekkt matsgerð dómkvaddra matsmanna og að stefnandi myndi ekki taka þátt í meðferð máls hjá örorkunefnd.
Með bréfi örorkunefndar til lögmanns stefndu, dagsettu 13. janúar 2003, kemur fram að nefndin hafi talið að hún yrði að fullnægja rannsóknarskyldu sinni í hverju máli með því meðal annars að framkvæma læknisskoðun á tjónþolum og afla viðhlítandi upplýsinga frá þeim til að byggja rökstutt mat á. Nefndin teldi sér ekki fært að leggja mat á afleiðingar þess slyss sem stefnandi hafi orðið fyrir 14. júlí 1996 án þess að hann kæmi til viðtals og skoðunar við meðferð málsins.
Aðalkrafa stefnanda í málinu er þannig sundurliðuð:
l. Þjáningabætur kr. 22.320
2. Tímabundið atvinnutjón kr. 489.600
3. Varanlegur miski 25% kr. 800.925
4. Varanleg örorka 30% kr. 5.360.580
Samtals: kr. 6.673.425
Varakrafa stefnanda í málinu er þannig sundurliðuð:
l. Þjáningabætur kr. 22.320
2. Tímabundið atvinnutjón kr. 260.031
3. Varanlegur miski 25% kr. 800.925
4. Varanleg örorka 30% kr. 5.262.603
Samtals: kr. 6.345.879
Málsástæður og lagarök málsaðila
Af hálfu stefnanda er frávísunarkröfu stefndu mótmælt sem of seint fram kominni. Slíka kröfu verði að hafa uppi svo fljótt sem tilefni er til, sbr. 5. tl. 101. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ekkert nýtt tilefni sé til að hafa uppi slíka kröfu og sé hún of seint fram komin við aðalmeðferð málsins. Af hálfu stefnenda er heldur ekki talið að þeir annmarkar séu á málatilbúnaði hans að vísa beri málinu frá dómi.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að um bótagrundvöllinn sé enginn ágreiningur en hann styðjist við 88. gr., sbr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Skráður eigandi bifreiðarinnar DZ-305 hafi verið stefnda Ágústína Andrésdóttir. Ábyrgðartrygging og slysatrygging ökumanns og farþega vegna umræddrar bifreiðar, sem stefnandi var farþegi í, hafi verið tekin hjá stefnda VÍS.
Því er haldið fram að í raun hafi enginn bati eða breyting orðið á líðan stefnanda frá því u.þ.b. hálfu ári eftir slysið, að því undanskildu að honum hafi versnað í kjölfar tveggja áðurgreindra atvika á knattspyrnuvellinum. Því er haldið fram að frumorsök óvinnufærni og spítalavistar eftir greind knattspyrnumeiðsli sé umferðarslysið 14. júlí 1996. Stefnandi hafi verið heilsuhraustur fyrir umferðarslysið og vel á sig kominn andlega og líkamlega. Eftir það hafi hann aldrei verið verkjalaus í hálsi. Hann finni mest fyrir verkjum aftan í ofanverðum hálsi en stundum geisli verkurinn upp í höfuð og út í herðasvæði. Verkirnir séu verri í kulda. Eftir tvær deyfingameðferðir, sem nefndar séu radiofreqeney ablasion (RF), hafi dregið úr höfuðverk tímabundið en stefnandi fái þó höfuðverk daglega og þau köst geti orðið allt að því jafnslæm og fyrir meðferð. Verstu verkjaköstunum fylgi ógleði og uppköst, og u.þ.b. tvisvar sinnum í mánuði verði höfuðverkurinn það slæmur að stefnandi þurfi að fara heim úr vinnu.
Þá sé svefn stefnanda verulega truflaður. Stundum geti hann ekki sofið vegna kvala og vakni flestar nætur. Hafi stefnandi af þessum sökum neyðst til að sofa sitjandi og taka sterk verkjastillandi lyf. Á morgnana sé hann stífur í hálsi en skáni eftir því sem líði á daginn. Að kvöldlagi fari verkirnir að aukast og sé stefnandi þá einnig þreyttur og uppgefinn.
Af framangreindum orsökum geti stefnandi ekki unnið störf er krefjist líkamlegrar áreynslu, ekki málað, bónað bílinn sinn, haldið á þungum hlutum eða ekið í mikilli umferð. Stefnandi hafi þjáðst af einbeitingarskorti, talerfiðleikum og minnistruflunum í kjölfar slyssins og verði meðal annars að halda dagbók til að gleyma ekki því sem hann þurfi að gera á daginn. Framangreind einkenni hafi haft veruleg áhrif á námsgetu og tekjuöflunarhæfi stefnanda.
Stefnandi hafi hafið nám í Fjölbrautarskóla Suðurnesja að nýju stuttu eftir slysið en fljótlega gefist upp þar sem hann hafi ekki ráðið við námið vegna höfuðverkjar, minnistaps og einbeitingarörðugleika. Stefnandi hafi fengið mjög vel launaða vinnu sem flakari hjá Trosi ehf. í Sandgerði en ekki ráðið við það starf og orðið að fá sér aðra og tekjulægri vinnu sem húsvörður. Stefnandi reki nú skyndibitastað.
Af hálfu stefnda er bent á að afar ósennilegt sé að vel þjálfaður 21 árs gamall íþróttamaður hnigi niður eftir að skalla fótbolta eða fái stirðleika og verki í háls af því að ganga um á hækjum, nema hann sé veill fyrir.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda að umrætt bílslys hafi haft veruleg áhrif á daglegt líf og tómstundir hans. Hann hafi fyrir slysið þótt mjög frambærilegur knattspyrnumaður og stundað veiðar frá unga aldri en orðið að hætta knattspyrnuiðkun vegna slyssins og draga úr stangveiði. Þá hafi hann fundið fyrir depurðareinkennum.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann hafi leitað til margra sérfræðinga vegna meina sinna en ekki hlotið varanlega bót. Vísað er til vottorðs Jóseps Ó. Blöndal, sjúkrahúslæknis á St. Franciskuspítalanum Stykkishólmi, frá 29. júlí 1999 og vottorða Bjarna Valtýssonar, sérfræðings í svæfinga- og gjörgæslulækningum, frá 9. maí 2000 og 20. mars 2001. Frá efni þeirra er greint í málsatvikalýsingu en stefnandi telur vottorðin staðfesta að verkjavandamál hans af völdum umferðarslyssins sé varanlegt og endanleg lækning ekki fyrir hendi. Einungis sé hægt að halda verkjunum í skefjum þannig að honum líði þolanleg og geti stundað vinnu sína.
Þá er vísað til niðurstöðu taugasálfræðilegs mats dr. Þuríðar J. Jónsdóttur taugasálfræðings frá 5. desember 2000 en í því segi að niðurbrot í stjórnunarstarfi framheilans og skortur á hugrænum sveigjanleika, ásamt brengluðu raðminni, séu ótvíræð sértæk merki um framheilaskaða. Ekki sé hægt að útiloka að depurð stefnanda og vonleysi séu ekki aðeins fylgieinkenni verkja og líkamsástands hans heldur eigi sér líffræðilegar orsakir. Gögn málsins bendi til þess að framangreint megi rekja til umrædds slyss. Horfur á taugasálfræðilegum bata séu hverfandi og afleiðingar hálshnykksáverka sem ekki hafa gefið sig innan tveggja ára frá slysi verði iðulega þrálátar. Þá telur Þuríður að þróun höfuðverkja stefnanda muni hafa afgerandi áhrif á framtíð hans.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að læknarnir Ragnar Jónsson og Sigurjón Sigurðsson hafi, í mati sínu frá 22. júní 2000, gert of mikið úr því að meðferð Bjarna Valtýssonar læknis hafi minnkað höfuðverkjaköst stefnanda varanlega. Fyrir liggi að svo hafi ekki verið og hafi stefnandi ítrekað eftir það verið algerlega óvinnufær vegna höfuðverkja. Hann hafi þurft að gangast undir fleiri verkjameðferðir hjá sama lækni.
Stefnandi kveður útreikninga á skaðabótakröfu hans á hendur stefndu grundvallast á matsgerð dómkvaddra matsmanna og skaðabótalögum nr. 50/1987. Í þeirri matsgerð hafi mál stefnanda loks fengið vandaða skoðun og umfjöllun og því sé hún lögð til grundvallar bótaútreikningi. Þessari matsgerð hafi ekki verið hnekkt.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að sannað sé með matsgerð Magnúsar Thoroddsen og Torfa Magnússonar hversu mikinn miska og varanlega örorku stefnandi hafi hlotið í umræddu umferðarslysi. Matsgerð dómkvaddra matsmanna beri að leggja til grundvallar í dómsmáli ef ekki reynist á henni gallar. Stefnandi byggir á því að prófanir dómkvaddra matsmanna hafi verið mun ítarlegri og nákvæmari en fyrri matsmanna. Þá sé matsgerð dómkvaddra matsmanna greinargóð og vandlega unnin. Hún hafi leitt í ljós að ekki hafi verið um venjulegan hálshnykk að ræða heldur höfuðhögg með skerðingu á andlegri getu og höfuðverkjum og heilkennum eftir höfuðáverka en auk þess hálsáverka með viðvarandi verkjum í hálsi og höfði ásamt verkjageislun út í herðar.
Matsgerðar þeirra Sigurjóns Sigurðssonar og Ragnars Jónssonar hafi verið aflað utan réttar og hafi hún ekki sama sönnunargildi. Auk þess hafi heilsutjón stefnanda komið betur í ljós á þeim tíma sem liðið hafi frá því að sú matsgerð var unnin og þar til matsgerð dómkvaddra matsmanna var unnin og hann hafi þurft að gangast undir endurteknar verkjameðferðir án þess að ná þó varanlegum bata. Nýrra læknisfræðilegra gagna hafi einnig verið aflað á þeim tíma.
Af hálfu stefnanda er vísað til framburðar matsmannsins Sigurjóns Sigurðssonar fyrir dómi en í framburði hans hafi komið fram að hann væri sammála dómkvöddum matsmönnum um að stefnandi gæti hafa fengið heilaskaða í umræddu slysi. Því er haldið fram að munurinn á matsgerðunum felist í því að aflað hafi verið taugasálfræðilegs mats sem dómkvaddir matsmenn hafi tekið tillit til og sé því fram komin eðlileg skýring á mismunandi niðurstöðum matsgerða.
Á því er byggt að stefndu hafi átt þess kost að skjóta málinu til örorkunefndar í upphafi en kosið að gera það ekki. Þá hafi stefndu átt þess kost að bera málið undir örorkunefnd eftir að aflað hafði verið matsgerðar utan réttar. Stefnandi hafi verið orðinn þreyttur á læknisskoðunum og þurfi ekki að sæta því að gangast undir rannsókn og mat örorkunefndar eftir að niðurstaða dómkvaddra matsmanna liggi fyrir.
Því er haldið fram að hugsunin með því að setja á stofn örorkunefnd samkvæmt skaðabótalögum hafi verið sú að álits nefndarinnar væri aflað við upphaf ágreinings um örorkustig. Stefndu vilji hins vegar fara afturábak og óska eftir slíku mati eftir að það tímamark hafi verið liðið sem skaðabótalög geri ráð fyrir að mál fari fyrir nefndina.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi verið notuð til að hnekkja mati örorkunefndar en ekki öfugt. Stefndu hafi frá upphafi verið gert ljóst að stefnandi myndi ekki taka þátt í málsmeðferð fyrir örorkunefnd. Stefndu hafi átt þann kost að freista þess að hnekkja niðurstöðu matsgerðarinnar með yfirmati en það hafi ekki verið gert. Stefndu hafi haft til þess nægan tíma og fjárskortur hafi ekki átt að hamla því að yfirmats væri aflað.
Aðalkrafa stefnanda sé samhljóða þeirri kröfu sem sett hafi verið fram með kröfubréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 14. mars 2002 með þeirri leiðréttingu sem gerð hafi verið á 4. tl. í kröfubréfi dagsettu 4. maí 2002. Þar hafi verið tekið tillit til greiðslu stefndu sem móttekin hafi verið með fyrirvara um frekari kröfur, sem gerðar séu í máli þessu. Stefnandi kveður stefnda VÍS hafa greitt bætur 21. janúar 2002 algerlega á eigin forsendum og hafi verið gerður fyrirvari við það uppgjör. Ekki sé því hægt að líta svo á að með því hafi verið gerð upp bótakrafa stefnanda á grundvelli fyrra örorkumats þannig að stefnandi eigi aðeins rétt á bótum sem nemi hækkun örorku samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Á því er byggt að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 6 mánuði, að viðbættum 2 vikum og 10 dögum vegna vistarinnar á St. Franciskusspítala í Stykkishólmi í maí 1998 og febrúar 1999, án þess að vera rúmliggjandi. Stefnandi telur augljóst að sjúkrahúsvist í umrædd skipti hafi orsakast af bílslysinu enda sé útilokað að knattspyrnumaður í góðri þjálfun hnigi niður eftir að hafa skallað fótbolta. Þá hafi stefnandi verið lagður inn í síðara skiptið vegna verkja í hálsi og höfði en ekki vegna ökklabrotsins sjálfs. Samkvæmt ákvæðum 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr., hafi þjáningabætur vegna hvers dags sem stefnandi hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi numið 930 krónum. Samkvæmt tjónskvittun frá 21. janúar 2002 hafi VÍS greitt 165.600 krónur í þjáningabætur til stefnanda. Krafan vegna þjáningabóta stefnanda byggir á viðbótardögum samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna og er samtals 24 dagar x 930 krónur = 22.320 krónur.
Stefnandi hefur ítrekað verið frá vinnu vegna afleiðinga slyssins. Miðað sé við að stefnandi hafi verið frá vinnu í 68 daga og taki fjárhæðin mið af launum stefnanda og annarra sambærilegra starfsmanna hjá fiskvinnslufyrirtækinu Trosi ehf. í Sandgerði. Tímabundið atvinnutjón stefnanda nemi því samtals 68 dögum x 7200 krónum á dag = 489.600 krónum.
Stefnandi byggir á þeirri niðurstöðu dómkvaddra matsmanna að varanlegur miski hans sé 25%. Fjárhæðin sé reiknuð samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. skaðabótalaga, þ.e. 25% x 5.316.500 krónur = 1.329.125 krónur. Samkvæmt tjónskvittun frá 21. janúar 2002 hafi stefndi greitt 528.200 krónur í bætur til stefnanda vegna varanlegs miska. Samtals nemi því krafa stefnanda vegna varanlegs miska 1.329.125 - 528.200 = 800.925 krónum.
Stefnandi byggir á þeirri niðurstöðu dómkvaddra matsmanna að varanleg örorka hans sé 30%. Lagt er til grundvallar að árslaun hans nemi 2.440.434 krónum + 6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, samanber yfirlýsingu dagsetta 13. ágúst 1999 um laun fiskvinnslufólks hjá Trosi ehf. Samkvæmt tjónskvittun frá 21. janúar 2002 hafi VÍS greitt 2.400.000 krónur í bætur fyrir varanlega örorku til stefnanda. Samtals nemi því krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku (30 % x 2.586.860 krónur x 10) - 2.400.000 krónur = 5.360.580 krónum.
Í varakröfu stefnanda er krafa um tímabundið atvinnutjón byggð á launum hans hjá Sandgerðisbæ fyrir slysið. Laun hans í 6 vikur fyrir slysið, eða frá 2. júní - 14. júlí 1996 hafi numið 165.474 krónum. Tímabundið tekjutap stefnanda í 66 daga hafi samkvæmt því verið 66/42 af þeirri fjárhæð eða 260.031 króna.
Þá er krafa um bætur fyrir varanlegan miska í varakröfu byggð á upplýsingum kjararannsóknarnefndar um meðallaun verkakarla utan höfuðborgarsvæðisins á 4. ársfjórðungi 1996 og upplýsingum um þróun launavísitölu frá 1988-2002. Samkvæmt þessum upplýsingum hafi viðmiðunarlaun verið 136.700 krónur á mánuði. Sé þessi launafjárhæð uppfærð miðað við breytingar á vísitölu frá því í desember 1996, 147,8 stig, fram í desember 2001, eða 217 stig, nemi mánaðarlaunin 200.802 krónum og árslaunin 2.409.624 krónum. Sé bætt við þessa launafjárhæð 6% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sé útkoman 2.554.201 króna. Þar sem laun stefnanda fyrir slysið endurspegli engan veginn þau laun sem búast hafi mátt við að hann hefði í framtíðinni sé rétt, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að styðjast við umrædd meðallaun verkamanna sem viðmiðunarlaun.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Stefnandi kveðst krefjast vaxta frá slysdegi en dráttarvaxta frá 14. apríl 2002, þegar mánuður hafi verið liðinn frá því stefndi VÍS hafi verið krafinn bréflega um greiðslu skaðabóta, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn sem stefndu var þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi með eða án kröfu. Frávísunarkröfu sína styðja stefndu þeim rökum að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda. Þá telja stefndu að með því að neita að koma fyrir örorkunefnd hafi stefnandi komið í veg fyrir að aflað væri sönnunargagna um umfang tjónsins. Afleiðingin hafi orðið sú að gagnaöflun verði takmörkuð. Um skyldu stefnanda til að veita atbeina sinn að mati örorkunefndar vísa stefndu til 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Með ákvæðinu sé verið að tryggja að sönnunargagns verði aflað. Stefndu telja að ef tjónþoli komist upp með að mæta ekki fyrir örorkunefnd skerðist möguleikar bótagreiðenda á að afla sönnunargagna í bótamálum. Með vísan til framangreinds beri að vísa málinu frá dómi að kröfu stefndu eða ex officio.
Sýknukrafa stefndu er á því byggð, að með bótauppgjöri Vátryggingafélags Íslands hf., dagsettu 21. janúar 2002, hafi stefnandi fengið tjón sitt vegna bílslyssins 14. júlí 1996 að fullu bætt og eigi hann ekki rétt til frekari bóta úr þeirra hendi. Stefndu telja ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir meira tjóni en þá hafi verið bætt en sönnunarskylda um umfang tjónsins hvíli að öllu leyti á stefnanda.
Af hálfu stefndu er því sérstaklega mótmælt að matsgerð þeirra Magnúsar Thoroddsen og Torfa Magnússonar sanni meira tjón en þegar hafi verið bætt, en hún hnekki ekki matsgerð þeirra Sigurjóns Sigurðssonar og Ragnars Jónssonar um afleiðingar bílslyss stefnanda. Verði ekki séð af matsgerð þeirra Magnúsar og Torfa sjálfri, eða af öðrum málsgögnum, að sú matsgerð sé réttari eða hafi meira sönnunargildi en matsgerð þeirra Sigurjóns og Ragnars. Ekki séu fram komnar sönnur fyrir því að heilsufarslegar afleiðingar bílslyssins séu aðrar og meiri en Sigurjón og Ragnar mátu. Í báðum mötunum hafi verið metnar læknisfræðilegar afleiðingar af háls- og höfuðáverka og hafi matsmenn því lagt mat á sömu atriði. Um sé að ræða huglægt mat og mismunur á niðurstöðum liggi í huglægum atriðum.
Stefndu telja að mati tveggja lækna verði ekki hnekkt með mati dómkvaddra matsmanna þar sem aðeins annar sé læknir. Stefndu telja að mat dómkvaddra matsmanna byggi á mjög veikum grunni þar sem matsmenn hafi að miklu leyti byggt á taugasálfræðilegu mati. Í slíku mati séu skoðaðir grundvallarþættir í heilastarfsemi og niðurstöður bornar saman við hóp heilbrigðra samkynja jafnaldra. Veikleiki slíkra mata sé að samanburð skorti á viðkomandi einstaklingi fyrir og eftir slys. Gera þurfi ítarlegar úttektir með samtölum við fólk sem þekkti til viðkomandi fyrir slys. Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki og sé taugasálfræðilegt mat dr. Þuríðar því ómarktækt. Stefndu telja að hækkun á miska og örorku hafi byggst á þessum veika grunni og veiki það niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Stefndu hafi óskað eftir áliti örorkunefndar á örorku og miskastigi stefnanda af völdum bílslyssins til að renna styrkari stoðum undir rétt mat á afleiðingum þess. Hafi álitsgerð örorkunefndar ekki minna sönnunargildi en matsgerð dómkvaddra matsmanna, sbr. H1999:1666, og stefndu eigi lögvarinn rétt til að afla slíks álits. Stefnandi hafi hins vegar neitað að gangast undir skoðun hjá örorkunefnd. Örorkunefnd hafi ekki talið sér fært að leggja mat á afleiðingar slyssins án þess að tjónþoli kæmi til viðtals og skoðunar við meðferð málsins. Því sé rétt að beita 2. mgr. 50. gr. einkamála með lögjöfnun þannig, að það skuli virt stefnanda í óhag að hann hafi hindrað örorkunefnd í að gefa álit. Því verði að leggja til grundvallar það sönnunargagn sem stefndu sem hagfelldast en það sé matsgerð Sigurjóns og Ragnars.
Verði hins vegar talið sannað, að heilsufarslegar afleiðingar bílslyss stefnanda séu meiri en metið hafi verið í matsgerð læknanna Sigurjóns og Ragnars er varakrafa stefndu byggð á því að mat Magnúsar og Torfa sé í öllu falli of hátt og að jafnframt beri að lækka stefnukröfur stórlega sökum þess að aðrar útreikningsforsendur þeirra séu ekki réttar. Eru í því sambandi gerðar eftirfarandi athugasemdir við einstaka kröfuliði í stefnu.
Stefndu gera þær athugasemdir við útreikninga á þjáningabótum vegna slyssins að samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga greiðast slíkar bætur ekki lengur en frá slysdegi til þess tíma þegar ekki sé að vænta frekari bata. Jafnframt sé skilyrði að tjónþoli sé veikur innan tímabilsins af völdum slyssins. Stefnandi krefjist bóta undir þessum lið fyrir þjáningar í 24 daga á árinu 1998. Þá hafi heilsufarslegt ástand hans eftir umstefnt bílslys 14. júlí 1996 fyrir löngu verið orðið stöðugt. Þjáningar stefnanda á þessu tímabili séu afleiðingar meiðsla í knattspyrnuleikjum sumarið 1998 en ekki í bílslysinu. Beri því alfarið að hafna kröfum stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.
Stefndu telja að aðeins beri að bæta sannað tímabundið atvinnutjón slasaða sjálfs. Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga skuli aðeins greiða slíkar bætur frá því að tjón verði og þar til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju, eða þar til ekki sé að vænta frekari bata, hvort sem fyrr verði. Krafa stefnanda samkvæmt þessum lið sé ekki miðuð við laun stefnanda sjálfs á árinu 1996 heldur heildarárslaun tiltekins starfsmanns hjá Tros hf. á árinu 1998. Þá reikni stefnandi sér atvinnutjón í 68 daga en þar af séu 24-25 dagar á árinu 1998, sem sé löngu eftir að heilsufarslegt ástand stefnanda eftir bílslysið 14. júlí 1996 hafi verið orðið stöðugt. Umrætt atvinnutjón hafi stafað af meiðslum stefnanda í knattspyrnukappleikjum 1998 og sé því bílslysinu óviðkomandi. Stefndu hafi greitt stefnanda 22.772 krónur vegna tímabundins vinnutekjutaps áður en bótauppgjörið 21. janúar 2002 hafi farið fram og stefndu telja auk þess að hann hafi átt að hafa fengið eitthvað frá Tryggingastofnun ríkisins. Sé frekara tímabundið atvinnutjón því ósannað og beri að hafna þessum kröfulið eða a.m.k. lækka hann stórlega.
Stefndu kveðast þegar hafa fullbætt stefnanda sem svari til 10% miska. Sé ósannað að varanlegur miski af völdum bílslyssins sé meiri. Þá ætti krafa stefnanda samkvæmt þessum lið að réttu lagi að reiknast miðað við meintan óbættan 15% viðbótarmiska en ekki 25% heildarmiska eins og stefnandi geri. Ber því í öllu falli að lækka þennan lið sem því nemi.
Stefndu telja sig þegar hafa fullbætt stefnanda sem svarar tjóni hans vegna 15% varanlegrar örorku miðað við 1.600.000 króna árslaunatekjur. Ósannað sé að varanleg örorka stefnanda af völdum bílslyssins sé meiri eða að hærri árslaunaviðmiðun en 1.600.000 krónur sé réttlætanleg. Stefnandi miði útreikning örorkutjóns við laun tiltekins manns hjá Trosi hf. á árinu 1998 í stað árslauna hans sjálfs það ár eða fyrir slysið. Samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga beri við ákvörðun árslauna að miða við árslaun fyrir slys en ekki eftir það. Stefnandi hafi verið ófaglærður og ekki verði séð af tekjusögu hans eða öðrum gögnum að hann hefði aflað árslauna umfram 1.600.000 krónur ef slysið hefði ekki orðið. Teljist árslaunaviðmiðun að fjárhæð 1.600.000 krónur ekki eiga við telja stefndu réttast að nota meðaltekjur ófaglærðra verkamanna sem viðmiðunartekjur. Stefndu telja að miða beri við verkakarla á höfuðborgarsvæðinu en ekki utan þess. Í öllu falli beri því að lækka þennan kröfulið stórlega.
Loks er vaxtakröfum sérstaklega mótmælt og telja stefndu eldri vextir en fjögurra ára, frá birtingu stefnu að telja, fyrnda. Þá beri ekki að reikna dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi mánuði eftir að endanlegt mat á afleiðingum slyssins hafi legið fyrir.
Niðurstaða
Af hálfu stefndu var fyrst höfð uppi krafa um frávísun málsins við upphaf aðalmeðferðar 24. febrúar sl. Ekki var því ástæða til að taka þá kröfu sérstaklega til meðferðar, enda segir einungis í 2. mgr. 100. gr. einkamálalaga að þegar stefndi krefjist frávísunar máls í greinargerð skuli málið flutt munnlega um frávísunarkröfu áður en fjallað verður frekar um efni þess og leyst úr kröfunni í úrskurði. Væri það til þess fallið að draga mál á langinn ef taka þyrfti með þeim hætti á frávísunarkröfu sem fram kemur við aðalmeðferð. Var málið því flutt samhliða um frávísunarkröfu og efnishlið og málið tekið til úrskurðar eða dóms.
Bréf örorkunefndar til lögmanns stefnanda þar sem skýrt var frá því að nefndin teldi sér ekki fært að leggja mat á afleiðingar þess slyss sem stefnandi varð fyrir 14. júlí 1996, án þess að tjónþoli kæmi til viðtals og skoðunar, er dagsett 13. janúar 2003. Bréfið var lagt fram í þinghaldi 23. janúar 2003. Í því þinghaldi var í síðasta lagi tilefni til að hafa uppi kröfu af hálfu stefndu um frávísun málsins á grundvelli þeirra sjónarmiða sem tilgreind eru fyrir frávísunarkröfunni. Með hliðsjón af því telst frávísunarkrafa stefnanda of seint fram komin.
Ágreiningur málsaðila um öflun mats örorkunefndar snýst um aðferðir við öflun sönnunargagna vegna líkamstjóns stefnanda. Önnur sönnunargögn hafa verið færð fram í málinu um þau atriði sem stefndu hugðust afla frekari sönnunargagna um hjá örorkunefnd. Getur framangreind höfnun stefnanda á að fara í viðtal og skoðun hjá örorkunefnd ekki leitt til frávísunar málsins.
Ekki verður fallist á það með stefndu að mál þetta sé vanreifað, enda málatilbúnaður stefnanda þannig úr garði gerður að samhengi málsatvika, annarra málsástæðna og kröfugerðar er ljóst og fullkomlega ljóst hvert sakarefnið er. Málinu verður því ekki vísað frá dómi án kröfu.
Ekki er ágreiningur með aðilum um bótagrundvöllinn en stefndu bera ábyrgð á sannanlegu tjóni stefnanda á grundvelli 88. gr., sbr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og fer um greiðsluskyldu stefnda Vátryggingarfélags Íslands hf. eftir 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. sömu laga.
Fyrir liggur að málsaðilar stóðu saman að öflun matsgerðar læknanna Sigurjóns Sigurðssonar og Ragnars Jónssonar en sú matsgerð er dagsett 22. júní 2000. Sem fyrr segir sætti stefnandi sig ekki við niðurstöðu hennar og lét, 1. febrúar 2002, dómkveðja matsmennina Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmann og Torfa Magnússon taugasérfræðing til að meta miska og örorku. Dómkvaddir matsmenn skiluðu matsgerð 11. mars 2002. Þegar niðurstaða dómkvaddra matsmanna lá fyrir óskaði stefnda VÍS eftir áliti örorkunefndar á varanlegri örorku og miskastigi stefnanda, með bréfi dagsettu 20. mars 2002.
Í 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að tjónþoli eða sá sem ábyrgð ber á tjóni geti hvor um sig óskað álits um ákvörðun miskastigs og örorkustigs hjá örorkunefnd. Samkvæmt því er ekki skylt að leita álits örorkunefndar og öflun álits hjá nefndinni er því aðeins einn af þeim kostum sem standa til boða við öflun sönnunargagna um miskastig og örorkustig tjónþola. Enda þótt ekki liggi fyrir skýr lagafyrirmæli um hvernig standa skuli að öflun sönnunargagna um líkamstjón þykir ljóst að nefndinni hafi verið ætlað það hlutverk að veita álit um örorkustig og miskastig á fyrstu stigum slíks ágreinings. Ekki verður ráðið af skaðabótalögum eða lögskýringargögnum að örorkunefnd hafi verið ætlað að koma í stað dómkvaddra matsmanna eða yfirmatsmanna eða vera endanlegur álitsgjafi eftir að slíkra sönnunarganga hefði verið aflað.
Þegar í ljós var komið að stefnandi undi ekki niðurstöðu matsgerðar læknanna Sigurgeirs og Ragnars áttu stefndu þess kost að leita álits örorkunefndar. Það gerðu þeir ekki. Þessa áttu þeir áfram kost eftir dómkvaðningu matsmanna en kusu að bíða niðurstöðu þeirra. Í stað þess að hnekkja niðurstöðu matsmanna með yfirmati kusu þeir nú að óska álits örorkunefndar.
Þótt aðilum dómsmáls sé að jafnaði í sjálfsvald sett hvaða sönnunargagna þeir afla og lög heimili öflun álits örorkunefndar á öllum stigum máls verður ekki talið að tjónþola, sem aflað hefur matsgerðar til sönnunar á tjóni sínu, sé skylt að leggja atbeina sinn að áliti örorkunefndar á þessu stigi málsins með því að gangast undir læknisrannsókn. Er ekki rétt að synjun hans á því valdi honum réttarspjöllum þótt hún leiði til þess að slíks sönnunargagns verði ekki aflað. Eins og fram kemur í bréfi lögmanns stefndu til örorkunefndar frá 22. nóvember 2002 lá afstaða stefnanda til öflunar álits örorkunefndar þá fyrir. Þykir framangreind niðurstaða ekki varhugaverð í ljósi þess að stefndu áttu þess kost að afla yfirmats til að hnekkja matsgerðinni.
Með dómkvaðningu matsmanna er sönnunarfærsla lögð í ákveðinn formbundinn farveg samkvæmt ákvæðum einkamálalaga. Er þar gert ráð fyrir því að matsgerð verði hnekkt með yfirmatsgerð. Affarasælast er nokkur festa komist á öflun sönnunargagna um afleiðingar líkamstjóns og að það verði ekki tilviljunum undirorpið í hvaða röð slíkra sönnunargagna er aflað. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja óheppilegt að álits örorkunefndar sé aflað í því skyni að hnekkja niðurstöðu dómkvaddra matsmanna í stað þess að fylgja ákvæðum einkamálalaga og afla yfirmats.
Matsgerðir dómkvaddra matsmanna verða lagðar til grundvallar sem mikilvæg sönnunargögn í dómsmálum nema á þeim séu gallar sem rýri sönnunargildi þeirra. Þar sem sönnunarmat dómara er frjálst, samkvæmt 1. mgr. 44. gr. einkamálalaga, geta þó jafn góð eða betri sönnunargögn, sem aflað hefur verið með öðrum hætti, verið metin til jafns við matsgerðir dómkvaddra matsmanna eða verið tekin fram fyrir þær við sönnunarmat.
Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir sem læknar hafa staðið að og ber mikið í milli í niðurstöðum þeirra um örorkustig og miskastig stefnanda. Fyrri matsgerðin er unnin af tveimur læknum en sú síðari af lækni og lögmanni. Þetta eitt gerir það ekki að verkum að sönnunargildi fyrri matsgerðarinnar sé meira enda þótt mat á varanlegum miska sé alfarið læknisfræðilegt og mat á varanlegri örorku að hluta til.
Frá því að fyrri matsgerðin lá fyrir í júní 2000 og þar til matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir í febrúar 2002 var aflað fleiri gagna um heilsufar stefnanda, þar á meðal taugasálfræðilegs mats Dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings. Þá gekkst stefnandi undir áframhaldandi verkjameðferð hjá Bjarna Valtýssyni lækni.
Þegar efni umræddra tveggja matsgerða er borið saman kemur í ljós að matsgerð dómkvaddra matsmanna er mun nákvæmari hvað varðar sjúkrasögu stefnanda og upplýsingar um líðan hans. Dómkvaddir matsmenn hafa augljóslega varið lengri tíma en fyrri matsmenn í viðtöl við stefnanda, skoðun og prófanir.
Í báðum matsgerðunum er byggt á því að stefnandi hafi orðið fyrir höfuðáverka og tognun á hálsi. Í matsgerð þeirra Sigurjóns og Ragnars segir að við mat á miska sé stuðst við höfuðhögg og tognun í hálsi með leiðniverk. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna segir meðal annars, að við mat á varanlegum miska sé lagt til grundvallar höfuðhögg með skerðingu á andlegri getu og höfuðverkjum og heilkenni eftir höfuðáverka. Einnig hálsáverkur með viðvarandi verkjum í hálsi og höfði ásamt verkjageislun út í herðar. Við matið sé litið til þess að meðferð hafi skilað tímabundnum árangri en fyrirsjáanlegt að stefnandi muni þurfa að fara endurtekið í sértæka deyfingarmeðferð til að halda núverandi getu og líðan.
Í skýrslu Sigurjóns Sigurðssonar matsmanns fyrir dómi kom fram að við fyrra matið hafi frekar verið litið til afleiðinga en orsaka. Engar staðfestingar hafi fengist um heilaskaða en stefnandi hafi þjáðst af höfuðverkjum sem hafi getað bent til þess. Hann kvað deilur vera uppi um gildi taugasálfræðilegra prófa en kvað þær geta gefið vísbendingar um heilaskaða. Hann taldi verki einnig geta haft áhrif á heilastarfsemi og leitt til kvíða, einbeitingarskorts og minnisleysis.
Það sem einkum ber á milli í umræddum tveimur matsgerðum er, að í síðari matsgerðinni er fjallað um andleg vankvæði stefnanda, svo sem minnisvandkvæði og einbeitingaörðugleika, ásamt talerfiðleikum. Fjallað er um þá niðurstöðu Dr. Þuríðar J. Jónsdóttur klínísks taugasálfræðings, að stefnandi hefði hlotið truflun á starfi vinstra ennisblaðs og einnig gæti einhver skemmd hafa orðið í sjónstöðvum hvirfilgeira Hafi hún talið niðurstöður taugasálfræðilegs mats renna allsterkum stoðum undir þá ályktun að stefnandi hafi hlotið vægan heilaskaða í slysinu í júlí 1996. Taldi hún að þau vitræni posttraumatisku heilkenni, sem komið hafi fram við matið myndu að öllum líkindum ekki hverfa. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að þessi vandkvæði hefðu verið staðfest í taugasálfræðilegu mati og töldu að um væri að ræða einkenni sem rekja mætti til höfuðhöggs er stefnandi hafi hlotið í bílsslysinu.
Rétt þykir að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar um þau einkenni sem að framan er lýst en líta verður svo á að þeir hafi að þessu leyti lagt mat á víðtækari afleiðingar af umræddu slysi en fyrri matsmenn.
Sá munur er einnig á þeim forsendum sem matsmenn í fyrra og síðara matinu byggja á að þegar fyrra matið var framkvæmt hafði stefnandi nýlega gengist undir verkjameðferð hjá Bjarna Valtýssyni lækni og borið sig vel við skoðun hjá matsmönnum. Samkvæmt framansögðu er ljóst að matsmenn bundu miklar vonir við góðan árangur af þeirri meðferð. Við gerð síðari matsgerðarinnar lá fyrir að verkir stefnanda höfðu aðeins lagast tímabundið við framangreinda verkjameðferð og að hann hafði eftir það þrívegis gengist undir deyfingu með notkun riðstraums á útvarpsbylgjutíðnisviði til að ná lengri verkjastillingu. Slík meðferð hafi verið gerð vinstra megin á hálsi 19. september 2000 og hægra megin 16. nóvember sama ár. Þessi meðferð hafi minnkað höfuðverkjaköst stefnanda tímabundið en sömu einkenni hafi komið á ný eins og vænta hafi mátt og meðferðin verið endurtekin haustið 2001. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að meðferðir þessar hafi haft tímabundin jákvæð áhrif á höfuðverkinn.
Af áframhaldandi verkjameðferð og nýjum aðferðum við hana er ljóst að þessar meðferðir hafa aðeins haft tímabundin áhrif. Virðist því sem matsmennirnir Sigurður og Ragnar hafi ofmetið áhrif fyrstu meðferðar Bjarna Valtýssonar sem leitt hafi til þess að þeir hafi metið bæði varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda minni en efni stóðu til.
Samkvæmt framangreindu þykir matsgerð dómkvaddra matsmanna vera vel og nákvæmlega unnin. Engin læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram í málinu sem hnekkt geta niðurstöðum hennar. Stefndu áttu þess sem fyrr segir kost að afla yfirmats en létu það hjá líða. Þykir sönnunargildi matsgerðar dómkvaddra matsmanna vera meira um afleiðingar af líkamstjóni stefnanda en fyrri matsgerðarinnar og verður hún alfarið lögð til grundvallar í málinu.
Um fjárhæð skaðabóta
Skaðabótalög nr. 50/1993 tóku gildi 1. júlí 1993. Margföldunarstuðli 1. mgr. 6. gr. laganna var breytt úr 7,5 í 10 með 1. gr. laga nr. 42/1996 sem tóku gildi 1. júlí 1996. Lögunum hefur veri breytt síðan með lögum nr. 37/1999 og lögum nr. 111/2000, sem taka gildi 1. janúar 2001. Um útreiknings skaðabóta í máli þessu fer því eftir ákvæðum skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi 14. júlí 1996.
Um þjáningabætur.
Óumdeilt er að stefnandi var veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í 6 mánuði eftir slysið 14. júlí 1996. Þjáningabætur vegna þessa tímabils voru gerðar upp af hálfu stefnda VÍS með 165.600 krónum 21. janúar 2002. Því til viðbótar krefst stefnandi þess að honum verði greiddar þjáningabætur vegna tveggja vikna dvalar á St. Franciskusspítala í Stykkishólmi á árinu 1998 vegna verkja í kjölfar þess að honum versnaði eftir að hafa skallað knött og vegna 10 daga dvalar á sama sjúkrahúsi eftir að honum hafði versnað af verkjum í kjölfar ökklabrots.
Fyrir liggur að stefnandi dvaldi í umrædd sinn á sjúkrahúsi vegna verkjameðferðar. Með hliðsjón af matsgerð dómkvaddra matsmanna og öðru því sem fram er komið í málinu þykir ljóst að bílslysið 14. júlí 1996 hafi verið frumorsök umrædda sjúkrahúsvista, enda hefðu umrædd atvik í knattspyrnu ekki ein og sér getað leitt til þess að stefnandi þyrfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna verkja.
Þykir því rétt að taka til greina viðbótarkröfu stefnanda vegna þjáningarbóta að fjárhæð 22.320 krónur, sem hefur ekki verið mótmælt tölulega.
Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns
Af hálfu stefnanda er byggt á því í aðalkröfu að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni í 68 daga. Í varakröfu er hins vegar miðað við 66 daga. Þetta tímabil er þannig sundurliðað að stefnandi hafi verið algerlega óvinnufær í 6 vikur, eða 42 daga, strax eftir slysið, í 14 daga á árinu 1998 þegar hann var á sjúkrahúsi í Stykkishólmi og í 10 daga á árinu 1999 þegar hann var á sama sjúkrahúsi. Er varakrafan í samræmi við niðurstöður dómkvaddra matsmanna.
Með vísan til niðurstöðu hér að framan um þjáningabætur er fallist á með stefnanda að sjúkrahúsdvöl í umrædd tvö skipti megi rekja til bílslyssins 14. júlí 1996. Hins vegar verður að telja samspil bótagreiðslna fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlegrar örorku þannig að bætur fyrir varanlega örorku taki við þegar tímabil tímabundins atvinnutjóns er að baki. Varanleg örorka skal taka mið af ætluðu atvinnutjóni til framtíðar. Dómkvaddir matsmenn mátu varanlega örorku stefnanda 30%. Upphafstími varanlegrar örorku er miðaður við það tímamark þegar tímabundnu atvinnutjóni líkur. Þegar um svo háa örorku er að ræða verður að gera ráð fyrir að tekjur tjónþola skerðist með ýmsum hætti í framtíðinni, meðal annars vegna þess að tjónþoli verði frá vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna örorku sinnar. Með því að dæma stefnanda bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á tímabili meira en tveimur árum eftir slysið væri þannig verið að tvíbæta honum sama tjón. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið.
Um varanlegan miska
Stefnandi gerir kröfu um bætur fyrir 25% varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á grundvelli niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Með vísan til framangreindra raka um sönnunargildi matsgerðar dómkvaddra matsmanna er fallist á að miskastig miðist við niðurstöðu þeirra. Með vísan til þess að stefndi VÍS greiddi stefnanda bætur 21. janúar 2002 á eigin forsendum en ekki á grundvelli kröfugerðar stefnanda og að stefnandi tók við þeirri greiðslu með fyrirvara verður ekki fallist á með stefndu að krafa stefnanda samkvæmt þessum lið eigi að miðast við 15% óbættan viðbótarmiska. Ber því að fallast á kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið sem byggir á 25% varanlegum miska að frádregnum þeim bótum vegna miska sem stefndi VÍS greiddi 21. janúar 2002.
Krafan tekur mið af 3. gr. skaðabótalaga og verðtryggingarákvæði 15. gr. laganna og reiknast sem 25% af 5.316.500 krónum eða 1.329.125 krónur að frádregnum 528.200 krónum sem stefndi VÍS hefur þegar greitt. Útreikningar stefnanda á kröfunni hafa ekki sætt andmælum og verður stefndu því dæmdir til að greiða stefnanda 800.925 krónur vegna varanlegs miska.
Um bætur vegna varanlegs örorkutjóns
Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um sönnunargildi þeirra matsgerða sem liggja frammi í málinu er fallist á kröfu stefnanda um að bætur vegna varanlegrar örorku miðist við 30%, í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Stefnandi miðar aðalkröfu sína við árslaun fiskvinnslufólks hjá Trosi ehf., þar sem hann vann á tímabili eftir slysið. Í 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga segir að þegar tjón vegna örorku sé metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli eigi til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfaði við. Í 7. gr. var á umræddum tíma kveðið á um að árslaun teldust vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag sem tjón varð. Árslaun skyldu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður væru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum.
Stefnandi var 19 ára þegar hann varð fyrir slysinu og hafði þá unnið verkamannastörf um skamman tíma hjá Sandgerðisbæ. Árslaun hans voru 614.612 krónur á árinu 1995 og 486.737 krónur á árinu 1996. Stefnandi hafði ekki lagt grunn að neinni fagmenntun þegar hann varð fyrir slysinu og hefur ekki lokið slíku námi síðan.
Ekki þykir rétt í máli þessu að miða árslaun stefnanda við árslaun annars starfsmanns hjá Trosi ehf. á árinu 1998. Stefnandi vann aðeins um skamman tíma hjá því fyrirtæki og ekki verður talið að laun hjá starfsmönnum þess fyrirtækis endurspegli þau laun sem gera má ráð fyrir að stefnandi hafi á starfsæfinni.
Með hliðsjón af aldri stefnanda, verkamannastörfum hans árið fyrir umrætt slys svo og því að hann hafði ekki lagt grunn að fagmenntun þykir rétt að miða bætur fyrir varanlega örorku við meðallaun verkamanna. Stefnandi ólst upp í Sandgerði og var þar við störf þegar hann slasaðist. Hann býr nú í Reykjanesbæ. Með hliðsjón af því þykir rétt að fallast á varakröfu stefnanda um að bætur fyrir varanlega örorku taki mið af launum verkakarla utan höfuðborgarsvæðisins á 4. ársfjórðungi ársins 1996 en þau voru 136.700 krónur á mánuði. Í samræmi við kröfugerð stefnanda er rétt að uppfæra þá fjárhæð miðað við hækkun launavísitölu frá desember 1996 (147,8 stig) til desember 2001 (217 stig). Nema þessi mánaðarlaun samkvæmt því 200.702 krónum og árslaun 2.408.424 krónum. Við þá fjárhæð þykir rétt að bæta 6% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð eða 144.505 krónum. Viðmiðunarárslaun stefnanda samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verða samkvæmt því 2.552.929 krónur en ekki 2.554.201 krónur eins og ranglega hefur verið miðað við í kröfugerð stefnanda.
Samkvæmt því ber stefndu að greiða stefnanda skaðabætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 7.658.787 krónur (2.552.929 krónur x 10 x 30%) að frádreginni greiðslu frá stefnda VÍS 21. janúar 2002 að fjárhæð 2.400.000 krónur eða 5.258.787 krónur.
Samantekt
Samkvæmt framansögðu ber stefndu að bæta stefnanda þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku vegna slyssins með samtals 6.082.032 krónum (22.320 800.925+5.258.787).
Fallast ber á sjónarmið stefnanda um að vextir eldri en 4 ára hafi verið fyrndir þegar mál þetta var höfðað 30. júlí 2002 enda verður ekki talið að bótauppgjör stefnda Vátryggingarfélags Íslands hf., 21. janúar 2002 feli í sér viðurkenningu á þeim kröfum sem haldið er upp í þessu máli. Ber stefndu samkvæmt því að greiða stefnanda 2% ársvexti af dæmdum kröfum frá 30. júlí 1998.
Stefnda, Vátryggingarfélagi Íslands hf., var fyrst send krafa um greiðslu 14. mars 2002 og þykir því rétt að stefndu greiði dráttarvexti af kröfunni frá 14. apríl 2002 í samræmi við kröfugerð stefnanda.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað og er þá tekið tillit til útlagðs kostnaðar stefnanda, að fjárhæð 389.100 krónur, við að staðreyna kröfu sína og þess að stefnandi stundar ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. en af hálfu stefndu Hákon Árnason hrl.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Frávísunarkröfu stefndu, Ágústínu Andrésdóttur og Vátryggingafélags Íslands hf. er hafnað.
Stefndu greiði stefnanda, Antoni Má Ólafssyni, 6.082.032 krónur, auk 2% ársvaxta frá 30. júlí 1998 til 14. apríl 2002, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til 1. júlí 2001, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.