Hæstiréttur íslands
Mál nr. 832/2016
Lykilorð
- Uppsögn
- Ráðningarsamningur
- Laun
- Orlof
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2016. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.036.764 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. nóvember 2014 til 1. júní 2015, en af 7.036.764 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur aðila um hvort áfrýjandi eigi rétt til launa í uppsagnarfresti en hann lét fyrirvaralaust af störfum hjá stefnda 3. október 2014. Þá deila aðilar jafnframt um hvort áfrýjandi eigi óháð tilkalli til launa í uppsagnarfresti rétt til greiðslu áunnins orlofs auk desemberuppbótar miðað við framangreind starfslok.
Fallist er á það sem lagt er til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði 3. málsgreinar 9. liðar ráðningarsamnings síns við stefnda, sem dagsettur er 11. desember 2013, til að honum hafi verið unnt að láta fyrirvaralaust af störfum en halda jafnframt launum í uppsagnarfresti. Verður því hafnað kröfu áfrýjanda um laun í uppsagnarfresti ásamt orlofsfé af þeim launum og orlofs- og desemberuppbótum sem taki mið af þeim. Á hinn bóginn hefur stefndi engin haldbær rök fært fyrir því að honum beri ekki að greiða áfrýjanda orlof, sem hann hafði unnið til fyrir starfslok sín, auk desemberuppbótar. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að ekki sé ágreiningur með aðilum að fjárhæð þessara liða í kröfu áfrýjanda nemi með réttu samtals 995.891 krónu. Verður stefndi því dæmdur til þess að greiða honum þá fjárhæð með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði en þeir verða látnir falla til frá þeim degi þegar mánuður var liðinn frá því að áfrýjandi gerði fyrst kröfu um greiðslu þessara fjárhæða.
Rétt er að málskostnaður falli niður í héraði en stefnda verði gert að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Sindraportið hf., greiði áfrýjanda, Þorsteini A. Péturssyni, 995.891 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2015 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Stefndi greiði áfrýjanda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2016.
Mál þetta sem höfðað var 16. október 2015 af Þorsteini A. Péturssyni, Brúnási 3, 210 Garðabæ, á hendur Sindraportinu hf., Klettagörðum, 104 Reykjavík, var dómtekið 8. september 2016 að lokinni aðalmeðferð.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði
dæmdur til að greiða honum 7.036.764 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, af 771.000 krónum frá 1. nóvember 2014, til
1. desember 2014, frá þeim degi af 1.542.000 krónum til 1. janúar 2015, frá
þeim degi af 2.313.000 krónum til 1. febrúar 2015, frá þeim degi af 3.084.000
krónum til 1.mars 2015, frá þeim degi af 3.855.000 krónum til 1. apríl 2015,
frá þeim degi af 4.626.000 krónum til 1. maí 2015, frá þeim degi af 5.397.000
krónum til 1. júní 2015 og frá þeim degi af 7.036.764 krónum til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess að, dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við
höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. nóvember 2015, en síðan
árlega þann dag.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk vaxta á málskostnað frá
15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.
I.
Starfsemi stefnda á þeim tíma er atvik gerðust fólu í sér söfnun og úrvinnslu á úrgangi, brotajárni, auk annars. Stefndi hét á þeim tíma Hringrás, en var nafnbreytt við sölu á öllum rekstri félagsins árið 2015. Stefndi er í dag eignarhaldsfélag.
Stefnandi hóf störf hjá stefnda þann 11. desember 2013 sem fjármálastjóri og voru umsamin laun 771.000 krónur á mánuði. Gerður var ráðningarsamningur þar sem fram kemur verksvið og ábyrgð stefnanda en stefnandi skyldi heyra beint undir framkvæmdastjóra og stjórnarformann. Aðila greinir á um hvort samningur hafi verið gerður strax eða eftir á eins og stefndi heldur fram, en stefndi telur samninginn hafa verið gerðan 17. september 2014. Fyrir hönd stefnda ritar stjórnarformaður undir samninginn.
Mánaðamótin ágúst/september 2014 réð framkvæmdastjóri félagsins ráðgjafa að félaginu, sem settist í stjórn stefnda. Fór hann í samstarfi við framkvæmdastjóra stefnda að skoða rekstur félagsins ofan í kjölinn og varð niðurstaðan sú að margt mætti betur fara, einkum varðandi stýringu á fjármunum félagsins.
Þann 3. október 2014 er stefnandi kom úr fríi höfðu verið gerðar breytingar á skipuriti og heyrði hann ekki lengur beint undir framkvæmdastjóra, jafnframt því að starfssviði stefnanda var breytt. Aðgangi hans að reikningum félagsins hafði verið lokað og stefnandi kveðst ekki lengur hafa getað sinnt daglegum störfum sínum, m.a. að greiða reikninga. Stefnandi ritaði bréf til félagsins þann sama dag og lýsti því svo að þessar breytingar fælu í sér fyrirvaralausa uppsögn. Bréfið var móttekið af þáverandi stjórnarformanni félagsins og voru ekki gerðar athugasemdir við efni þess. Sama dag eyddi stefnandi umtalsverðu magni af gögnum úr tölvu félagsins, tölvupóstum og öðru. Hann kannaðist við fyrir dómi að hugsanlega hefðu slæðst með önnur skjöl en þau sem voru persónuleg.
Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningi var uppsagnarfrestur stefnanda 6 mánuðir.
Stefndi telur að stefnandi ásamt þáverandi stjórnarformanni þess, og fyrrverandi framkvæmdastjóra systurfélags stefnda, hafi sammælst um að reyna að komast yfir rekstur stefnda, í heild eða að hluta, án þess að eiga um það nokkurt samráð við framkvæmdastjóra stefnda og stærsta hluthafa hans.
Þáverandi stjórnarformaður félagsins sagði sig úr stjórn félagsins hinn 6. október 2014, þ.e. í kjölfar uppsagnar stefnanda.
II.
Stefnandi kveðst vísa til ráðningarsamnings við stefnda, en samkvæmt honum hafi uppsagnarfrestur verið sex mánuðir. Uppsögn skyldi miðuð við mánaðamót og teljist uppsagnarfrestur frá mánaðamótunum október/nóvember 2014. Krafa stefnanda byggi á því að með breytingu á skipuriti og einhliða breytingu á starfssviði stefnanda hafi verið kominn upp ágreiningur milli aðila. Staða stefnanda hafi verið verulega breytt frá ráðningarsamningi og í því hafi falist einhliða riftun á ráðningarsamningi. Stefndi hafi og í engu mótmælt afstöðu stefnda.
Stefnandi kveðst einnig vísa til greinar 9 í ráðningarsamningi en þar segi: „Ef fjármálastjóri telur sig ekki geta unnið uppsagnarfrestinn vegna ágreinings, breytinga á starfsskyldum, vanefnda af hálfu vinnuveitanda eða vegna samstarfsörðugleika skal það engu breyta um rétt hans til launa í uppsagnarfresti.“ Réttur stefnanda til launa í uppsagnarfresti sé því ótvíræður.
Stefnandi gerir kröfu um vangoldin laun frá október 2014 til og apríl 2015 auk orlofs. Orlofskrafan miðast annars vegar við áunnið orlof frá upphafi starfs til 30. apríl 2014 og síðan frá 1 maí 2014 til 30. apríl 2015. Þá er gerð krafa um orlofs- og desemberuppbætur í samræmi við kjarasamning VR og SA. Desemberuppbót vegna 2015 er reiknuð í hlutfalli við starfstíma. Í stefnu er krafan sundurliðuð samkvæmt þessu.
Kröfur sínar kveðst stefnandi styðja við lög nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups, lög 55/1980, um lágmarkskjör o.fl., lög nr. 30/1987, um orlof, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji hann við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði.
III.
Stefndi kveðst byggja á því að af uppsagnarbréfi stefnanda frá 3. október 2014, verði ráðið að stefndi hafi mátt með réttu líta svo á að stefnandi hafi sagt upp starfi sínu fyrirvarlaust. Eftir þetta hafi stefnandi aldrei mætt til vinnu eða boðið fram vinnuframlag sitt. Því hafi skylda stefnda til greiðslu launa fallið niður þann dag. Ákvæði 3. mgr. 9. gr. starfssamningsins, sem veiti stefnanda einhvers konar sjálfdæmi um það hvenær hann geti labbað úr vinnu, sé að engu hafandi.
Stefnandi telji gögn málsins sýna að stefnandi hafi unnið á bak við framkvæmdastjóra stefnda, að stofnun samkeppnisaðila eða því að komast yfir rekstur stefnda og lýst því yfir að hann myndi ekki inna starfsskyldur sínar af hendi. Að mati stefnda sé augljóst að slíkur starfsmaður eigi ekki rétt á launum á uppsagnarfresti.
Stefndi byggir á því að engar breytingar hafi verið gerðar á störfum stefnanda, sem hafi heimilað honum að ganga fyrirvaralaust úr starfi. Ekkert ákvæði í starfssamningi aðila hafi gert það að verkum að ekki væri hægt að breyta skipuriti stefnda, en tillagan hafi falið það eitt í sér að ráðinn yrði rekstrarstjóri að stefnda. Stefnandi hefði eftir sem áður átt að gegna starfi fjármálastjóra stefnda og því engin skilyrði til þess að hann gæti gengið út.
Þá byggi stefndi á því að stefnandi hafi brotið með alvarlegum hætti gegn starfsskyldum sínum og trúnaði við stefnda, með því að reyna að koma því svo fyrir að annar aðili kæmi inn sem fjárfestir í rekstur stefnda eða hann væri sameinaður öðrum aðila og það án alls samráðs við framkvæmdastjóra stefnda. Í því hafi falist alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stefnda, sbr. m.a. 3. gr. framlagðs ráðningarsamnings og almennar reglur vinnumarkaðsréttar, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 57/2005. Því hafi sú staða verið komin upp að stefndi hefði getað rift ráðningarsamningnum við stefnanda, án greiðslu í uppsagnarfresti.
Jafnframt kveður stefndi að stefnandi hafi eytt út gögnum úr tölvukerfi stefnda, sem varðaði rekstur hans, og með því valdið honum umtalsverðu tjóni og hafi ekki staðið við skyldur skv. framlögðum ráðningarsamningi um skil gagna. Að mati stefnda eigi hann skaðabótakröfu á hendur stefnanda, sem að lágmarki sé jafn há og stefnufjárhæð, og gerir hann kröfu um að þeirri kröfu verði skuldajafnað við kröfu stefnanda, ef fallist yrði á annað borð á kröfur stefnanda.
Stefndi byggir á því að virða beri framlagðan starfssamning að vettugi, þar sem gögn sýni að hann hafi verið gerður í september 2014, en ekki þann dag sem hann beri með sér að hafa verið undirritaður. Samningurinn hafi verið sérsniðinn í þeim tilgangi að stefnandi gæti labbað út, eftir að honum fór að vera ljóst að farið var að þrengja að sér. Til marks um þetta vísar stefndi til 9. gr. ráðningarsamningsins, sem feli í sér dæmalaust ákvæði, sem skýrist af því einu, að mati stefnda, að samningurinn var ekki gerður fyrr en 17. september 2014, eða nokkrum dögum áður en stefnandi sendi uppsagnarbréf sitt. Ákvæðið sé augljóslega sniðið að þeim atvikum sem þá voru komin upp, en enginn hafi leitt hugann að 11. desember 2013. Stefndi kveðst vísa til 33. gr. laga nr. 7/1936. Það sé augljóslega óheiðarlegt að bera fyrir sig samning sem sé dagsettur aftur á bak í tíma og sérsniðinn af atvikum sem síðar komu upp.
Þá byggi stefnandi á því að ákvæðið sé ekki bindandi fyrir stefnda, þar sem samningurinn hafi verið undirritaður af þáverandi stjórnarformanni stefnda, sem hafi ekki haft umboð til að gera samninginn og skuldbinda félagið, en meirihluta stjórnar hafi þurft til þess. Þá telur stefndi ákvæði um að fjármálastjóri heyri undir stjórnarformann, ásamt framkvæmdastjóra, sérstakt og í andstöðu við 70. gr. laga nr. 2/1995, um að stjórnarformaður hlutafélags skuli ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns.
Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi nokkru sinni haft heimild til aðgangs að bankareikningum stefnda og greiðslu reikninga. Slíkt verklag færi að auki alfarið gegn viðurkenndum viðmiðunum í rekstri fyrirtækja, að sami aðili hafi ekki aðgang að bankareikningum og bókhaldi fyrirtækja.
Að lokum kveðst stefndi byggja á 36. gr. laga nr. 7/1936, en ákvæði 3. mgr. 9. gr. sé svo fráleitt að lagaskilyrði séu til að víkja samningnum til hliðar í heild eða að hluta, þar sem samningurinn sé augljóslega andstæður góðri viðskiptavenju, enda útilokað að starfsmanni sé falið, að því er virðist, sjálfdæmi um það hvort hann geti labbað úr ráðningarsambandi og átt rétt á launum á uppsagnarfresti ef ágreiningur er til staðar eða breytingar hafa orðið á starfsskyldum hans.
Kröfu um lækkun dómkrafna byggir stefnandi á því að hátterni stefnanda hafi verið með þeim hætti að verði talið að hann hafi átt rétt á launum á uppsagnarfresti, beri að lækka kröfuna að álitum vegna hátternis stefnanda sjálfs og kringumstæðna við starfslok hans, eins og rakið er hér fyrr.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu og byggir á því að verði stefnanda dæmd fjárhæð, hvort sem er í heild eða að hluta miðað við dómkröfu, verði upphaf vaxta miðað við síðara tímamark.
Um frekari lagarök sé vísað almennt til reglna vinnumarkaðsréttar, einkum varðandi trúnaðarskyldur, og til grunnreglna um skuldbindingargildi samninga.
Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Deilt er um hvort sá samningur sem stefnandi byggir kröfur sínar einkum á hafi verið gerður í desember 2013 þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda, en hann hafði áður verið verktaki frá janúar það ár, eða hvort samningurinn hafi verið gerður 17. september 2014, þ.e. skömmu áður en stefnandi gekk út úr fyrirtækinu. Stefndi telur allt benda til þess að hann hafi verið gerður í september 2014, a.m.k. hafi hinu umdeilda ákvæði í 3. mgr. 9. gr., sem helst er byggt á, verið þá bætt inn í samninginn. Ákvæðið er svohljóðandi: „Verði aðilar ásáttir um að endurnýja ekki ráðningarsamninginn eða vilji annar hvor aðila segja samningnum upp skal þá taka gildi gagnkvæmur skriflegur uppsagnarfrestur sem er 6 mánuðir. Ef fjármálastjóri telur sig ekki geta unnið uppsagnarfrestinn vegna ágreinings, breytinga á starfsskyldum, vanefnda af hálfu vinnuveitanda eða vegna samstarfsörðugleika skal það engu breyta um rétt hans til launa í uppsagnarfresti.“
Lagt verður til grundvallar miðað við framlögð gögn og framburði, einkum vitnisins Erlings Freys Guðmundssonar ráðgjafa, að átt hafi verið við þetta skjal 17. september 2014. Þannig var skjalið augljóslega opnað þennan dag og gerðar einhverjar tilfæringar og það svo vistað. Vitnið Erlingur greindi frá því að hann hafi átt fund með þáverandi framkvæmdastjóra Vöku, félags í eigu þeirra sömu og eiga stefnda, sem var í miklum samskiptum við stefnanda og stjórnarformann stefnanda eins og síðar verður rakið, en í ljós hafi komið að sama dag var átt við ráðningarsamning hans þar sem sams konar ákvæði væri að finna. Það skjal hafi svo verið framsent til stefnanda. Vitnið taldi fullvíst að stefnandi hafi tekið við skjalinu og breytt því. Það sem hefði hins vegar misfarist í meðförum stefnanda væri að í samningnum hafi gleymst að breyta á einum stað framkvæmdastjóra í fjármálastjóra. Þá kvaðst vitnið hafa skynjað það þegar gengið var að framkvæmdastjóra Vöku að hann vissi upp á sig sökina, og þess vegna hafi sá ekki farið fram með sömu kröfur og stefnandi í máli þessu. Vitnið kvaðst þess fullviss að samningarnir hefðu verið falsaðir. Þrátt fyrir þetta verður ekki séð af gögnum málsins með óyggjandi hætti hvaða breytingar hafi þá verið gerðar á skjalinu.
Stefndi telur að ofangreint ákvæði sé með miklum ólíkindum og líkast til einsdæmi á íslenskum vinnumarkaði. Hann telur stefnanda hafa átt við skjalið og bætt a.m.k. umræddu ákvæði við og dagsett skjalið aftur í tímann. Ákvæðið sé klæðskerasaumað fyrir þær aðstæður sem stefnandi síðan lýsi í málinu, að hefðu verið komnar upp á vinnustaðnum þegar hann ákvað að ganga út.
Þáverandi stjórnarformaður stefnda, sem ritar einn undir samninginn fyrir hans hönd, kveðst líkast til hafa eitthvað komið að gerð skjalsins, og hann og stefnandi hafi skipst á að senda samningsdrög og athugasemdir á milli sín. Taldi hann og að samningurinn hefði líkast til verið gerður í desember 2013. Hið umdeilda ákvæði hafi verið sett inn sem nokkurs konar sárabót vegna þess að stefnanda hafi verið boðin laun sem voru langt undir markaðslaunum. Þessi röksemd getur þó tæplega átt við fyrrgreindan framkvæmdastjóra dótturfélagsins, og ekki er fram komið að stjórnarformaðurinn hafi gert ráðningarsamning við þann aðila, enda það væntanlega utan hans starfssviðs, en samt kom fram að þar væri að finna alveg eins ákvæði og í samningi stefnanda.
Ekkert bendir til þess að framkvæmdastjóri stefnda, og meirihlutaeigandi, hafi séð umræddan samning og hann virðist ekki hafa verið vistaður á skrifstofu stefnda, án þess að það verði þó fullyrt.
Þrátt fyrir allt framangreint telur dómurinn óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að samningurinn hafi verið gerður við eða í kringum ráðningu stefnanda sem launþega. Ber skjalið það enda með sér þrátt fyrir framangreind atvik og fyrrum stjórnarformaður félagsins hefur staðfest að þessi hafi verið raunin. Þrátt fyrir að engin skylda hafi hvílt á forsvarsmönnum stefnda í þá veru, verður og horft til þess að ekki var brugðist við af hálfu stefnda þegar hið umdeilda ákvæði var tekið upp í bréf frá kjarasviði Verslunarmannafélags Reykjavíkur frá 17. desember 2014 þegar krafist var gjaldfallinna launa í uppsagnarfresti.
-------
Stefndi byggir á því að þáverandi stjórnarformaður félagsins hafi ekki getað gert ráðningarsamninga við einstaka starfsmenn. Til þess hafi hann hvorki haft stöðuumboð né sérstakt umboð frá stjórn.
Ef sú væri raunin, er þeim fullyrðingum stjórnarformannsins fyrir dómi ómótmælt, að hann hafi verið fenginn til þess að taka í gegn ráðningarsamninga í fyrirtækinu, og hafi gert nokkra aðra samninga, þ.m.t. við forvera stefnanda.
Þar sem slíkt virðist hafa verið látið átölulaust og jafnvel óskað sérstaklega eftir þessu framlagi stjórnarformannsins, og viðkomandi launþegi gerði sjálfur ekki athugasemdir við tilhögun mála verður lagt til grundvallar að hann hafi mátt ganga út frá því að stjórnarformaður félagsins hefði haft umboð til að ganga frá slíkum samningi, enda verður ekki séð að athugsemdir hafi verið gerðar í samningssambandinu eða misbrestur orðið á efndum umsaminna kjara meðan á ráðningu stóð.
-------
Verður þá litið til þess hvort ákvæðið hafi orðið virkt þegar stefnandi tók ákvörðun um að yfirgefa fyrirtækið fyrirvaralaust og án nokkurs samráðs við framkvæmdastjóra og eigendur.
Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi borið fram einhverjar kvartanir eða borið sig illa yfir andrúmsloftinu á vinnustaðnum áður en hann tók ákvörðun sína og var þetta reyndar staðfest af honum fyrir dómi. Ekkert fyrir utan framburð stefnanda sjálfs gefur til kynna að ágreiningur hafi verið uppi innan fyrirtækisins sem gaf honum tilefni til að beita ákvæðinu, eða að samstarfsörðugleikar hafi verið við stjórn eða eigendur félagsins.
Varðandi breytingu á starfsskyldum verður litið til þess að samkvæmt ráði endurskoðanda félagsins var það talið óheppilegt, og á skjön við tíðkanlegt skipulag í fyrirtækjarekstri, að sá aðili sem hefði yfirumsjón með bókhaldi hefði einnig heimild til að millifæra af bankareikningum til greiðslu reikninga. Getur þetta tæplega talist til slíkrar breytingar að hafi heimilað stefnanda að ganga fyrirvaralaust út, enda ráðstöfunin skiljanleg, og ætti ekki að vera mjög framandi fyrir stefnanda, miðað við menntun hans.
Tillaga að nýju skipuriti, sem send var stefnanda 16. september 2016, var einungis tillaga. Það getur vart talist skipta grundvallarmáli hvort gert yrði ráð fyrir því að framangreindur ráðgjafi yrði settur á skipuriti yfir stefnanda. Er þá einnig litið til þess að sá fullyrðir að það hafi verið á allra vitorði í fyrirtækinu að hann kæmi ekki inn í fyrirtækið til að taka þar við starfi heldur einvörðungu til að veita tímabundna ráðgjöf. Varð sú enda raunin, þar sem viðkomandi var horfinn af vettvangi eftir um fjögurra mánaða ráðgjöf. Ekkert hefur komið fram um að óánægja hafi verið með störf stefnanda enda áfram gert ráð fyrir honum á nýrri tillögu að skipuriti sem fjármálastjóra fyrirtækisins.
Þá verður jafnframt horft til þess að stjórnarformaður félagsins hafnaði því að með þessu ákvæði hafi stefnanda verið falið sjálfdæmi um það hvort aðstæður væru með þeim hætti að virkjuðu umrætt ákvæði. Í þeim framburði hlýtur að felast að eitthvað samtal hefði þurft að fara fram um það atriði, enda verður að telja aðra niðurstöðu mjög óeðlilega, m.a. með hliðsjón af tillitsskyldu samningaréttar, sem fæli í sér að þetta væri í raun geðþóttaákvörðun starfsmannsins. Ef sú hefði átt að vera raunin hefði enda legið mun nær að kveða einfaldlega skýrt á um með það að stefnandi ætti rétt til sex mánaða greiðslu launa við starfslok án vinnuskyldu. Ekki verður annað ráðið af framburði stjórnarformannsins en að talsvert mikið þyrfti að koma til m.a. orðaði hann það svo að þetta gæti stefnandi gert ef aðstæður yrðu óbærilegar. Ekkert bendir hins vegar til þess að stjórnarformaðurinn hafi átt umræður við stefnanda eftir að hann móttók uppsagnarbréfið, eða gefið um atvikið skýrslu, enda hætti hann sjálfur störfum degi eftir að stefnandi ákvað að yfirgefa fyrirtækið.
Dómurinn telur því ósannað að þær aðstæður hafi skapast sem veittu stefnanda heimild til að yfirgefa fyrirtækið án fyrirvara, og halda samt rétti til launa í uppsagnarfresti.
Þegar af þeirri ástæðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, enda óumdeilt að stefnandi gekk fyrirvaralaust á braut og sinnti engri vinnu eftir það í þágu stefnda. Í því ljósi er ekki þörf á að fjalla um þá málsástæðu stefnda að hegðun stefnanda í fyrirtækinu mánuðina fyrir uppsögn hans hafi verið með þeim hætti að leitt hefði til réttindamissis ef réttur í ofangreinda átt var á annað borð fyrir hendi. Dómurinn telur reyndar margt benda til þess að sú gæti verið raunin. Ekkert í framlögðum gögnum og framburðum fyrir dómi um þessar fyrirætlanir, gerir það þannig trúverðugt að þær áætlanir sem stefnandi vann greinilega að, ásamt stjórnarformanni stefnda og framkvæmdastjóra dótturfélags stefnda, hafi ráðgert aðkomu eigenda félagsins. Framburður vitnisins Erlings, sem dómurinn metur trúverðugan, og skrifleg gögn, bentu hins vegar eindregið til hins gagnstæða. Einnig bendir það til náins samstarfs á milli stefnanda og stjórnarformannsins að stefnandi skuli hafa tæmt eina reikninginn sem hann hafði enn prókúru að, að kveldi sama dags og hann ákvað að yfirgefa fyrirtækið og millifært á stjórnarformanninn. Jafnframt hafi hann óskað eftir því við annan starfsmann að greiða til viðbótar umtalsverðar fjárhæðir til sama, en þessu var ekki mótmælt undir rekstri málsins. Þá vekur óneitanlega athygli að stjórnarformaðurinn skuli sjálfur hafa ákveðið að hætta störfum daginn eftir að stefnandi hætti. Framangreint er tiltekið þar sem dómurinn telur þetta styrkja niðurstöðu málsins og varpa nokkru ljósi á fyrirvaralaust brotthvarf stjórnarformanns og stefnanda frá stefnda.
-------
Með vísan til framangreinds verður því hið stefnda félag sýknað af kröfum stefnanda.
Samkvæmt þessum úrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir, að hafðri hliðsjón af umfangi málsins og málsatvikum, hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur B. Ólafsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sindraportið hf., er sýknað af kröfum stefnanda, Þorsteins A. Péturssonar.
Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.